föstudagur, 31. október 2008

Bankaráð vs. Ríkisstjórn

Karpið um frá hverjum frumkvæðið að hækkun stýrivaxta er komið er ekki sérlega hjálplegt. Sérstaklega þar sem gera má ráð fyrir að allir hafi að einhverju marki rétt fyrir sér.

Fyrir liggur að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur nú til umfjöllunar aðstoðarbeiðni Ríkisstjórnar Íslands. Hún er sett fram m.a. með svokölluðu “Letter of intent” sem samkvæmt venju er yfirleitt undirritað af oddvita ríkisstjórnar, í okkar tilviki forsætisráðherra, og seðlabankastjóra seðlabanka viðkomandi ríkis. Í “Letter of intent” felst aðgerðaráætlun stjórnvalda, sem, í ljósi uppljóstrunar Seðlabankans í gær, við vitum nú að er í a.m.k. 19 liðum.

Aðgerðaáætlun eins og sú sem þar er sett fram verður að jafnaði til í samræðum milli fulltrúa stjórnvalda viðkomandi ríkis og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í tilfelli eins og Íslands, þar sem um er að ræða vestrænt lýðræðisríki með opið markaðshagkerfi, og hvers vandræði stafa af markaðshruni, en er ekki bein afleiðing stjórnvaldsástands (ríkisútgjöld og -skuldir úr öllum böndum, stjórnarkreppa o.þ.h.) er ekki um hefðbundnar samningaviðræður að ræða. Þaðan af síður er um það að ræða að sjóðurinn stilli Íslandi upp við vegg og setji úrslitakosti.

Undanfarnar vikur hafa fulltrúar sjóðsins verið hér á landi. Þeir hafa fundað með fulltrúum stjórnvalda og seðlabanka. Á þeim fundum hafa án efa komið fram ráðleggingar um stefnumörkun, m.a. með tilliti til hvað sé líklegast til þess að fá jákvæða afgreiðslu stjórnar sjóðsins. Niðurstaðan er síðan endurspegluð í aðgerðaráætluninni, eða “letter of intent”. Íslensk stjórnvöld ráða þannig sjálf hvað er á endanum í því skjali, en augljóslega mun það endurspegla það sem ráðgjafar sjóðsins hafa gefið til kynna að verði vænlegast til árangurs. Annars vegar í því verkefni sem hér er að vinna við endurreisn hagkerfisins, og hins vegar til að skapa aðgerðaráætluninni þann trúverðugleika til að hljóta náð fyrir augum stjórnar alþjóðagjaldeyrissjóðsins og, þar í framhaldi, í augum þeirra ríkja sem munu koma Íslandi til aðstoðar með frekara fjármagn.

Er ákvörðunin um stýrivaxtahækkun þannig krafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Nei, en samt!

Þörfin á stýrivaxtahækkun og uppstilling hennar sem hluta að aðgerðaráætluninni var líkast til sameiginleg niðurstaða viðræðna fulltrúa ríkisstjórnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans. Hver á endanum var í ökumannssætinu er þannig hálf tilgangslaus þræta.

Ákvörðun Seðlabankans að birta með þeim hætti sem gert var í gær sérstaka yfirlýsingu um þennan þátt aðgerðaráætlunarinnar er hins vegar óneitanlega sérkennileg. Ég efast um að yfirmenn í öðrum ríkisstofnunum myndu komast upp með að koma fram með viðlíka hætti án ákúru, líkast til formlegrar áminningar og jafnvel brottreksturs. Trúnaðarbresturinn milli Ríkistjórnar Íslands og bankaráðs Seðlabankans virðist alger og vandséð annað en að önnur hvor hljóti að víkja.

fimmtudagur, 30. október 2008

Hvað með 1 til 18?

Yfirlýsing Seðlabankans þar sem ljóstrað er upp um efni 19. töluliðar samkomulags Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar er að sjálfsögðu athyglisverð.

Þá aðallega fyrir það að með henni er sagt frá því að aðgerðaáætlunin er a.m.k. í 19 liðum, ef ekki fleiri.

Hvað er í liðum 1 til 18?

Hvað eru margir liðir eftir 19-lið, og hvað er í þeim?

Það fýsir mig að vita.

Karpið um stýrivaxtahækkunina er tiltölulega ómerkilegt. Hún var fyrirséð. Hins vegar má velta fyrir sér hvaða fíflagangur það var að lækka stýrivextina í 12% þegar þá og þegar aðstoð frá IMF var fyrirsjáanleg. Var það partur af einhverri valdabaráttu og togstreitu?

Pólitísk væluskjóða

Óróamaðurinn Bjarni Harðarson, sem fyrir misskilning er þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, vann við upphaf þingsetu sína drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins, eins og mælt er fyrir 47. grein Stjórnarskrárinnar.

Nú veður hann hins vegar uppi í fjölmiðlum og úthrópar Greiningardeild Glitnis fyrir það að birta greiningarálit sem er í andstöðu við sýndarveruleika þingmannsins. Bregst hann þá við á þann hátt að vilja skerða stjórnarskrárvarinn rétt greiningardeildarinnar og starfsmanna hennar til skoðanafrelsis, sjá 73. grein Stjórnarskrárinnar, og starfskröfum þeirra samkvæmt starfslýsingu, sem er að birta greiningar um ástand og horfur í íslenskum efnahagsmálum.

Það er merkilegt hvað jafn skoðanafjölskrúðugum manni og Bjarna Harðarsyni, sem er væntanlega sá þingmaður sem hefur veitt íslensku krónunni hvað flestar rýtingsstungur bæði í bak og kvið, er uppsigað við alla þá sem dirfast að vera á annarri skoðun en hann sjálfur.

Sérstaklega ef viðkomandi er á annarri skoðun en hann um Evrópumál. Dirfist einhver að mæla gegn honum er vælt í vandlætingartón. Þá skulu menn kallaðir undirróðursmenn, lygarar og þaðan af verra. Fjölmiðlar sem dirfast að flytja af því fréttir að til sé fólk sem sé annarrar skoðunnar er þingmaðurinn, dæmir hann ómarktæka. Sérstaklega eru þeir bersyndugir ef þeir dirfast að flytja af því fréttir að það séu mun fleiri innan hans eigin flokks sem eru honum ósammála en sammála.

Greiningardeild Glitnis, jafnvel þó Glitnir sé orðinn ríkisbanki, er í engu skyldug til að sýna Bjarna Harðarsyni og yfirgripsmikilli vanþekkingu hans á Evrópumálum einhverja sérstaka tillitsemi. Henni er fullfrjálst að birta hverja þá greiningu sem henni sýnist innan síns starfsramma. Vangaveltur eins og þær sem greiningardeildin birti í gær um hvort kreppan muni leiða Ísland inn í ESB eru fullkomlega eðlilegar.

Bjarna Harðarsyni væri nær að einbeita sér að því að koma með uppbyggilegar tillögur um hvernig bregðast má við því kreppuástandi sem hér ríkir í stað þess að úthrópa þá sem það þó gera. En það virðist honum vera fyrirmunað. Móðursýkis- og geðvonskulegar áhyggjur af auknum áhuga landsmanna á aðild að Evrópusambandinu virðast valda því.

Manninum sem líkt hefur sambandi mestu lýðræðis- og mannréttindaþjóða veraldar við Sovét Stalíns og Þýskaland Hitlers dettur ekkert annað í hug en að vilja svipta þá sem honum eru ósammála tjáningarfrelsinu. Á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi reyndi hann t.d. að trana fram nýrri útgáfu fyrsta boðorðsins, einskonar “Skoðanir formannsins eru skoðanir flokksins, þú skalt ekki aðrar skoðanir hafa!” Var það að sjálfsögðu fellt. Meira að segja formaðurinn fór hjá sér og baðst undan.

Í fyrri pistli lýkti ég Bjarna Harðarsyni við Kristinn H. Gunnarsson. Það var ósanngjarnt gagnvart Kristni.

Bjarni Harðarson er einstakt fyrirbæri í íslenskum stjórnmálum.

Nú er hann í þokkabót orðinn hornreka í eigin flokki. Búin að lýsa andstöðu við umræður um Evrópumál, vill úrsögn úr EES og úrsögn úr NATO.

Allt er þetta í þverri andstöðu við stefnu Framsóknarflokksins í utanríkismálum.

Er ekki allt þegar þrennt er? Er honum sætt?

Það er ótrúlegt að maður sem að eigin sögn starfaði í aldarfjórðung við blaðamennsku skuli vera jafn uppsigað við tjáningarfrelsið.

mánudagur, 27. október 2008

Guðni á að víkja

Niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var í gær er alvarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Í engu virðist flokknum hafa tekist að finna vopnin sín í þeim áföllum sem dunið hafa yfir þjóðina á undanförnum vikum.

Skoðanakannanir, jafn gallaðar og þær geta verið, gefa mikilvægar vísbendingar um þróun stjórnmálanna sem ekki er hægt að leiða hjá sér.

Skoðanakannanir síðastliðið eitt og hálft ár hafa ekki verið til þess fallnar að gefa von um að núverandi forysta Framsóknarflokksins geti leitt flokkinn úr þeim ógöngum sem hann er í.

Formaður flokksins hefur komið fram með þeim hætti að ljóst er að þar fer ekki maður framtíðarinnar í íslenskum stjórnmálum.

Formaður flokksins hefur jafnframt tapað trúverðugleika sem leiðtogi bæði innan flokks og utan. Þó flestum þykir vænt um Guðna Ágústsson er stutt bilið á milli væntumþykju og vorkunar.

Væntumþykja er auk þess lítt notadrjúgt veganesti fyrir leiðtoga stjórnmálaflokks.

Auk hörmulegra niðurstaðna í skoðanakönnunum er ljóst að formaður Framsóknarflokksins er ekki leiðandi um stefnumótun innan flokksins. Þvert á móti hefur formaðurinn orðið uppvís að því að vinna beinlínis gegn stefnu eigin flokks.

Það er ekki trúverðugt. Formanni án trúverðugleika er ekki sætt.

Guðni Ágústsson á að víkja til hliðar.

Miðstjórn flokksins mun funda þann 15. nóvember næstkomandi. Þar þarf að samþykkja boðun flokksþings eins fljótt og auðið er, helst fyrir jól, þ.a. hægt sé að velja flokknum nýja forystu til framtíðar.

þriðjudagur, 21. október 2008

Seðlabankinn undir skilanefnd?

Í ljósi forsíðufrétta bæði Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag má leiða að því líkur að Seðlabanki Íslands sé að komast í þrot. Þar hafi ráðið ríkjum óreiðumenn í peningamálum.

Það hlýtur því að liggja beinast við að víkja núverandi stjórnendum bankans til hliðar og setja yfir hann skilanefnd.

mánudagur, 20. október 2008

Óróamenn í Framsóknarflokknum

Það er hárrétt sem kemur fram hjá Bjarna Harðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, í Fréttablaðinu í morgun, að á síðustu árum hafa ýmsir óróamenn gengið í flokkinn og unnið honum tjón. Það versta er að sumir þessara manna hafa átt það til að enda inni á þingi fyrir hönd flokksins!

Á síðasta kjörtímabili var Kristinn H. Gunnarsson þessi óróamaður. Allir vita hvernig sú saga endaði. Á þessu kjörtímabili hefur hins vegar téður þingmaður, Bjarni Harðarson, tekið við hlutverki óróamannsins.

Evrópusambandsandstaða Bjarna er vel þekkt, en hefur sífellt meir nálgast móðursýkisstigið eftir því sem umræðan um mögulega aðildarumsókn hefur þyngst í þjóðfélaginu. Hún hefur nú gengið svo langt að þingmaðurinn hótar nú bæði stjórnmálalegri borgarastyrjöld, sbr. þessi bloggfærsla hans hér, og helst úrsögn úr EES-samstarfinu. Í þættinum Í kallfæri með Jóni Kristni Snæhólm á sjónvarpsstöðinni ÍNN í síðustu viku lýsti Bjarni því einmitt yfir að næsta verkefni væri að koma Íslandi úr EES-samningnum.

Það er gott til þess að vita að framsóknarmenn í suðurkjördæmi hafa lært ákveðna lexíu af reynslu framsóknarmanna í norðvesturkjördæmi. Á síðasta kjörtímabili fór nefnilega töluverður tími á kjördæmisþingum í norðvesturkjördæmi í það að "hafa kallinn góðann!"

Framsóknarmenn í suðurkjördæmi virðast hins vegar hafa lítinn áhuga á að dekstra óróamanninn Bjarna Harðarson. Því var tillögum hans til stjórnmálaályktunar kjördæmisþingsins hafnað. Ein endurspeglaði andstöðu hans við EES-samninginn - henni var hafnað. Önnur var gegn matvælareglugerð Evrópusambandsins, en upptaka hennar var undirbúin í landbúnaðarráðherratíð formanns flokksins - henni var hafnað. Og sú þriðja var sú sem vísað er til í frétt Fréttablaðsins "...að kjördæmisþingið tæki undir með orðum formannsins að umræða um Evrópumál væri ekki tímabær" - henni var líka hafnað, að frumkvæði formannsins!

Sú yfirlýsing formannsins féll í grýttan farveg meðal margra flokksmanna, þ.m.t. undirritaðs. Formaðurinn virðist hins vegar að einhverju leyti hafa séð að sér, ef dæma má þessa frétt á visir.is frá því sl. laugardag.

Stórt spurningamerki hlýtur nú að vera við pólitíska framtíð Bjarna Harðarsonar innan Framsóknarflokksins.

föstudagur, 17. október 2008

Egill, utanríkisþjónustan og öryggisráðið

Hinn mæti sjónvarpsmaður Egill Helgason bloggkollegi minn hér á eyjunni er einn fjölmargra sem á þessum síðustu og verstu er uppsigað við framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

Það er skoðun sem á alveg rétt á sér.

Hins vegar rennur manni blóðið til skyldunnar þegar sú andstaða kemur fram í færslum af þessu tagi.

Hér fullyrðir Egill beinlínis að utanríkisþjónustan sé ekki að sinna vinnu sinni við "að laga orðspor Íslendinga í útlöndum" vegna þess að þar séu allir svo uppteknir við framboðið til öryggisráðsins.

Ekkert er eins fjarri sanni.

Utanríkisþjónustan eins og hún leggur sig er undirlögð í þetta verkefni, þar með talið það teymi sem nú er statt í New York að sinna öryggisráðsframboðinu nú á síðustu metrunum.

Starfsfólk utanríkisþjónustunnar erlendis, í öllum okkar sendiráðum, er vakið og sofið að sinna þessu verkefni. Eðli máls samkvæmt mæðir meira á sumum en öðrum og leitar hugurinn sérstaklega til minna samstarfsfélaga í London sem nú sinna störfum sínum undir vopnaðri gæslu - ekki af tilefnislausu.

Í athugasemd við tilvísaða færslu tekur Anna Jóhannsdóttir, formaður starfsmannafélags utanríkisþjónustunnar, upp hanskan fyrir þjónustuna og leyfi ég mér að birta hana hér í heild sinni:

Það er virkilega ódýrt og vanhugsað að slengja fram fullyrðingum af því tagi sem koma fram hjá Agli hér í þessum stutta pistli. Við sem störfum í utanríkisþjónustunni þurfum því miður oft að sitja undir atvinnurógi af þessu tagi - í fyrsta lagi vegna þess að menn reyna á stundum að koma höggi á okkar pólitísku yfirmenn og í öðru lagi vegna þess að sem opinberir starfsmenn erum við almennt bundin þagmælsku og trúnaði um þau verkefni sem við sinnum. Ég get hins vegar fullvissað þig Egill og þá sem hér hafa kastað inn sínum athugasemdum, að við höfum sett allan okkar kraft í að vinna gegn því gjörningaveðri sem nú gengur yfir íslensku þjóðina á alþjóðavettvangi og munum halda því áfram.

Undanfarnar vikur hafa samstarfsmenn mínir víða um heim unnið myrkranna á milli við að koma málstað okkar Íslendinga á framfæri, í alþjóðastofnunum, hjá stjórnvöldum í sínum umdæmislöndum, gagnvart sendiherrum annarra ríkja, erlendum fjölmiðlum og viðskiptalífi. Starfsmenn úr ráðuneytinu hafa verið lánaðir til starfa við fjölmiðlamiðstöð og samskipta við erlenda fjölmiðla, upplýsingamiðstöð stjórnkerfisins er rekin og mönnuð af starfsmönnum okkar og allt okkar fólk hefur lagt nótt við dag og verið kallað til starfa við margskonar verkefni sem kallað hefur verið eftir.

Sem betur fer hefur íslenska þjóðin á að skipa öflugri og sveigjanlegri utanríkisþjónustu sem getur, þó hún sé smá í sniðum, brugðist við, upplýst og aðstoðað. Margir Íslendingar hafa fengið aðstoð, ráðgjöf og fyrirgreiðslu í gegn um íslensku sendiráðin og borgaraþjónusta ráðuneytisins er með vakt allan sólarhringinn.Við höfum öflugt fólk í New York sem er að ljúka ákveðnu verkefni sem Ísland ákvað fyrir löngu að ráðast í. Ég veit að það fámenna teymi mun ljúka því með sóma hvernig sem atkvæðagreiðslan fer. Uppbygging á orðspori, trausti og ímynd Íslands á ný verður eflaust eitt stærsta verkefni okkar næstu árin og þá búum við að reynslu og tengslum sem munu nýtast okkur áfram í því starfi.

Anna Jóhannsdóttir
formaður starfsmannafélags utanríkisráðuneytisins

Egill Helgason svarar þessari athugasemd með þessum hætti:

Útþanin utanríkisþjónustan, sem ætlar að bæta við sig útgjöldum upp á 33 prósent á fjárlögum næsta árs, með gamla pólitíkusa sem sendiherra – alltof mikinn fjölda sendiherra – óþarflega mörg sendiráð – alltaf verið að stofna ný – framboð til Öryggisráðs sem nýtur stuðnings mikils minnihluta þjóðarinnar.
Allt þetta í ríki sem telur 300 þúsund hræður.

Þetta er ekkert sérstaklega til þess fallið að auka virðingu á starfseminni.

Kemur því ekkert við hvort fólkið sem vinnur í ráðuneytinu er gott eða vont.

Og - það sér voða lítil merki þess að kynning á málstað Íslands hafi verið árangursrík og varla er hægt að segja að erlendu fréttamönnunum sem hingað komu hafi mætt eitthvert súper-PR.

Eitt aðalvandamáli með utanríkisþjónustuna er að hún er yfirleitt í höndum formanns næst stærsta flokksins í ríkisstjórn. Hann vill náttúrlega setja sitt mark sem ráðherra og pólitíkus – og af því hlýst endalaus ofvöxtur.

Er ekki hugsanlegt að skera utanríkisþjónustuna niður um ja... einn þriðja? helming? tvo þriðju?

Virkar frekar eins og massívt klúður.

Þessi athugasemd ber ekki vott um mikla greiningu - hún er fullyrðing út í loftið án mikilar fyllingar. Hún er reyndar í anda færslu Egils frá því fyrr í mánuðinum, en við hana gerði ég eftirfarandi athugasemd:

Stærsti hluti kostnaðar vegna veru Íslands í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna er þegar kominn fram, en var vegna framboðsins sjálfs. Stórum hluta kostnaðarins við veruna í sjálfu ráðinu verður mætt með sparnaði annars staðar innan utanríkisþjónustunnar, eða eins og segir á upplýsingasíðu framboðsins:

“Þó að óumflýjanlegt sé að fjölga frekar starfsmönnum í fastanefnd Íslands í New York, verður það gert með tilfærslu starfsmanna úr ráðuneytinu. Litið verður á framboðið sem tímabundið forgangsverkefni utanríkisþjónustunnar, sem önnur verkefni víkja fyrir á meðan á því stendur.”

(Sjá:
http://www.iceland.org/securitycouncil/islenska/frambod-islands/kostnadur/ )

Tugprósenta aukning framlaga til utanríkisráðuneytisins í nýju fjárlögunum, eða um 28% frá fyrra ári (2,5 milljarðar) eiga sér þær skýringar að a.m.k. 3/5 hlutar eru vegna aukinna framlaga til þróunarmála (1,5 milljarðar), en afgangurinn er vegna launabreytinga í kjölfar kjarasamninga og vegna neikvæðrar gengiþróunar sem endurspeglast í hærri kostnaði vegna sendiskrifstofa erlendis.

(Sjá: http://hamar.stjr.is/Fjarlagavefur-Hluti-II/GreinargerdirogRaedur/Fjarlagafrumvarp/2009/Seinni_hluti/Kafli_3-03.htm )

Má ekki frekar búast við að ef Ísland kemst í Öryggisráðið, fyrir utan að eiga þangað fullt erindi, að þá verði það gott fyrir þjóðarskapið?

Utanríkisþjónustan, umfang hennar og kostnaður er alls ekki hafin yfir gagnrýni og umræðu, þvert á móti. Hafa ber jafnframt í huga að verkefni utanríkisþjónustunnar eru ákvörðuð af okkar pólitísku leiðtogum. Tugprósentahækkun framlaga til utanríkisráðuneytisins milli ára skýrist, eins og fram kemur hér að ofan, fyrst og fremst af stórauknu framlagi okkar til þróunarmála. Að baki því hvílir sú pólitíska ákvörðun að Ísland standi sig betur í þeim efnum og færi sig nær hinum Norðurlöndunum hvað það varðar. Þrátt fyrir þessa aukningu, erum við enn miklir eftirbátar þeirra á þessu sviði.

Um þetta verkefni, og önnur, sem utanríkisþjónustan sinnir, stærð hennar, markmið og umfang, er sjálfsagt að ræða. Í slíkum umræðum er þó alltaf betra að halda sig við staðreyndir frekar enn fullyrðingar. Þannig verður umræðan markvissari og getur haft áhrif til betri stefnumörkunnar og ákvarðanatöku.

Ég minni svo á að kosningin í öryggsráðið fer fram nú í dag, og eins og fram kemur í fréttatilkynningu ráðuneytisins frá því í gær verður hægt að fylgjast með beinni útsendingu frá kjörinu á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna (http://un.org/webcast/).

Áfram Ísland!

fimmtudagur, 16. október 2008

Fjarstýrður formaður?

Ræða formanns Framsóknarflokksins í umræðum á Alþingi um munnlega skýrslu forsætisráðherra um stöðu bankakerfisins var, þegar grannt er hlustað og skoðað, stórmerkileg.

Innan Framsóknarflokksins eru, eins og í öðrum flokkum, skiptar skoðanir um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Flokkurinn hefur hins vegar borið gæfu til þess að fjalla um málið af yfirvegun og skynsemi. Upphrópanir hafa verið fáar, ef undan er skilinn bóksölumaður einn sem helst vill banna alla umræðu, að viðurlögðum hótunum um borgarastyrjöld!

Framsóknarflokkurinn skipaði þannig nefnd á síðasta kjörtímabili, sem í sátu fulltrúar beggja sjónarmiða, auk óákveðinna, sem lagði fram skýrslu á síðasta flokksþingi um samningsmarkmið Íslands ef til aðildarviðræðna kæmi.

Framsóknarflokkurinn skipaði aðra nefnd síðastliðinn vetur, sem í sátu fulltrúar helstu eininga flokksins, sem nú í haust lagði fram skýrslu um valkosti Íslands í gjaldeyrismálum.

Í maí samþykkti miðstjórn flokksins að koma ætti umræðu um ESB aðild Íslands upp úr pólitískum hjólförum með þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn, og ef slík umsókn yrði samþykkt, ætti að halda aðra þjóðaratkvæðagreiðslu þegar niðurstöður aðildarumsóknar lægju fyrir. Byggði þessi ályktun á ræðu formannsins sjálfs við opnun miðstjórnarfundarins. Með þessari leið má segja að málinu hafi verið stefnt í góðan sáttafarveg enda stóð formaðurinn sterkari á eftir með heilan og óskiptan flokk að baki sér.

Þingmaður flokksins, Birkir Jón Jónsson, hefur nú lagt fram þingsályktunartillögu þessa efnis.

Aðrir flokksmenn, þ.m.t. undirritaður, vilja jafnvel ganga lengra í ljósi núverandi efnahagsástands og flýta umsóknarferlinu. Helst ætti að sækja um aðild strax, eða a.m.k. flýta þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn eins og frekast er kostur. Nauðsynlegt sé að fá úr því skorið hvert Ísland muni stefna til framtíðar – innan eða utan ESB. Um það eigi þjóðin að hafa síðasta orðið – og það átti að heita óumdeilt.

Í ræðu sinni síðastliðinn miðvikudag kaus formaður Framsóknarflokksins hins vegar að rjúfa þessa sátt, sem náðst hafði innan flokksins, þegar hann sagði “Evran og Evrópusambandið eru ekki verkefni dagsins. Þær umræður voru lýðræðislegar fyrir einum mánuði, nú þjóna þær ekki tilgangi. Við erum stödd í verstu krísu lýðveldistímans. Leiðin að myntsamstarfi Evrópu verður ekki á dagskrá í bráð.”

Er það svo? Og er það formannsins að ákveða það?

Fleira í ræðu formannsins orkaði verulega tvímælis. Einkar sérkennilegt var að í ræðu sinni kallaði hann alla til ábyrgðar, nema þrjá! Ríkisstjórnir Íslands og Bretlands eru skammaðar af Guðna, ásamt sérstaklega forsætisráðherrum beggja ríkja. Landsbankinn er skammaður, bankamenn almennt eru skammaðir og vændir um lögbrot og að stunda eyðingu gagna. Viðskiptaráðherra er skammaður. Þingmenn stjórnarflokkanna eru skammaðir og formaður Samfylkingarinnar sérstaklega fyrir ónærgætni í garð samstarfsflokksins. Sneitt er til flokksfélaga Guðna og annarra sem talað hafa fyrir aðstoð alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

En, þrátt fyrir allar skammirnar kemur þetta: “Að fórna þremur seðlabankastjórum er fánýt umræða.”

Svo?

Þessu til viðbótar brestur flótti í formann Framsóknarflokksins frá því viðskiptafrelsi og uppbyggingu alþjóðaviðskipta sem flokkur hans hefur unnið ötullega að á undanförnum árum og er hans yfirlýsta stefna. “Ég skora á landbúnaðarráðherra að flýta sér ekki að lögfesta matvælalöggjöf Evrópu við þessar aðstæður” segir Guðni Ágústsson, á sama tíma og blasir við okkur öllum mikilvægi greiðra alþjóðlegra viðskipta, sérstaklega þegar kemur að grunnnauðsynjum.

Í ræðu sinni löðrungaði formaðurinn þorra flokksmanna, þorra þingmanna flokksins, miðstjórn flokksins og flokksþing. Jafnvel mætti segja að hann hafi kastað stríðshanskanum. Merkilegt nokk virðist hann líka hafa löðrungað sjálfan sig, en í ræðu sinni um stefnuræðu forsætisráðherra fyrir tveimur vikum síðan sagði hann eftirfarandi: “Ég tel að Maastricht-skilyrðin sem ríki verða að uppfylla til að taka upp evru sé hagsældarleið horft til framtíðar. Við eigum enga aðra leið nú en að verja krónuna. Hins vegar eigum við að vinna í okkar peningamálastefnu eins og við séum á leið inn í myntbandalagið. Öll þau atriði eru grundvöllur batnandi lífskjara.”

Ræða formannsins er til þess fallin að gefa byr undir báða vængi þeirri kenningu að honum sé í raun fjarstýrt af tveimur fyrrum valdamönnum Sjálfstæðisflokksins, þeim sem nú situr á Svörtuloftum og þeim sem áður ríkti á Hádegismóum.

Ræða þessi kristallaði jafnframt þann vanda Framsóknarflokksins, sem er frjálslyndur og umbótasinnaður stjórnmálaflokkur, að núverandi formaður hans virðist hvorugt, hvorki frjálslyndur né umbótasinnaður.

Þegar Framsóknarflokkurinn, sem samkvæmt öllum pólitískum formerkjum síðustu sex mánaða ætti að vera í stórsókn og sópa að sér fylgi í skoðanakönnunum upp á 15, 20, jafnvel 25%, nær sér ekki í tveggja stafa tölu, þá er eitthvað mikið að. Að flokkurinn sé enn 20 til 30 prósentustigum frá kjörfylgi síðustu kosninga – sem var einhver versta útreið sem flokkurinn hefur fengið í yfir 90 ára sögu sinni – hljóta menn að staldra við frammistöðu forystu flokksins, og þá sérstaklega formannsins.

Trúverðuleiki formanns Framsóknarflokksins til að framfylgja stefnu flokksins og leiða hann til öndvegis á ný í íslenskum stjórnmálum hlýtur að koma til mikilla álita, sérstaklega eftir að hann hefur gengið með slíkum hætti gegn stefnu og vilja eigin flokks.

miðvikudagur, 15. október 2008

Leiðin að nýju Íslandi

Eftirfarandi grein skrifuð sameiginlega af undirrituðum, Bryndísi Gunnlaugsdóttur, formanni Sambands ungra framsóknarmanna, og Gesti Guðjónssyni, ofurbloggara og meðlimi í málefnanefnd Framsóknarflokksins, birtist í Fréttablaðinu í dag og einnig á visir.is:

Leiðin að nýju Íslandi

Þungbært áfall síðustu viku hefur gert okkur það ókleift að halda úti sjálfstæðri mynt.

Fyrir hrunið var eðlilegt að skoða og meta alla kosti til hlítar. Gjaldmiðilsskýrsla Framsóknarflokksins sýndi með rökum að kostirnir voru í raun aðeins tveir, en nú blasir aðeins einn kostur við að okkar mati.

Upptaka evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu er eini raunhæfi valkosturinn í núverandi stöðu ef Ísland á áfram að vera hluti af innri markaði Evrópu. Atburðir undanfarinna tveggja vikna, meðal annars árangurslaus málaleitan Seðlabankans hjá Englandsbanka og Evrópska seðlabankanum, sýna svo ekki verður um villst að varnaglar og stoðkerfi EES-samningsins eru ekki fullnægjandi hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga.

Sá kostnaður sem mun falla á ríkissjóð í kjölfar atburða síðustu daga, liggur ekki fyrir, en ekki er óraunhæft að ætla að hann geti numið allt að þúsund milljörðum króna. Heilli billjón.

Það er jafnmikið og talið var að þyrfti að hafa í gjaldeyrisvarasjóði til að styðja við krónuna og íslenskt efnahagslíf fyrir hrun fjármálakerfisins. Eftir hrunið er ljóst að gjaldeyrisvarasjóðurinn þarf að vera enn stærri hlutfallslega. Krónan hefur verið auglýst sem mynt sem ekki er hægt að standa á bak við, sérstaklega í kjölfar misheppnaðrar tilraunar Seðlabankans í síðustu viku til að festa gengi krónunnar. Líklega þarf gjaldeyrisvarasjóðurinn af þessum sökum að vera þreföld þessi upphæð, en sérfræðingar kunna betur að meta það.

Einungis vaxtakostnaðurinn af slíkri upphæð, auk þess taps sem er að falla á okkur núna, yrði að lágmarki 100 milljarðar á ári, eða allt að 10% af landsframleiðslu fyrir hrun. Það er að því gefnu að Ísland fengi yfirhöfuð slíka fjármuni að láni til lengri tíma.Ísland hefur þannig tæplega efni á því til frambúðar að vera með slíka fjármuni liggjandi um leið og greiða þarf niður reikninginn eftir hrunið. Að auki þarf að halda áfram að greiða annan rekstur, s.s. heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið. Óhugsandi er að aðild að ESB verði Íslandi svo kostnaðarsöm.

Því leggjum við til eftirfarandi:

1. Íslendingar taki boði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) um aðstoð. Í þeirri aðstoð felst m.a. að sjóðurinn mun koma í kjölfarið með verulega fjármuni sem munu styrkja gengi krónunnar og færa það til meiri stöðugleika. Rætt hefur verið um að sjóðurinn, ásamt öðrum aðilum, geti komið með allt að 8-9 milljarða evra að láni hingað til lands. Æskilegt væri að samhliða yrði gerður samningur við Evrópska seðlabankann um að hann samþykki að gengi krónunnar yrði tímabundið fest við evru og hann gefi yfirlýsingu um stuðning sinn við það fyrirkomulag.


2. Einn eða fleiri af nýju bönkunum verði seldir erlendum banka.

3. Farið verði í mikla atvinnuuppbyggingu og sköpuð störf fyrir þá sem nú hafa misst vinnuna. Ívilnandi möguleikar gagnvart erlendum fjárfestum verði nýttir til hins ítrasta, en verðmætin í starfsfólkinu og hagsmunir af takmörkun atvinnuleysis eru svo mikil að það er réttlætanlegt.

4. Sótt verði um aðild að ESB hið fyrsta og samningur um aðild lagður í þjóðaratkvæði. Fordæmi benda til þess að við getum haldið fiskimiðunum fyrir okkur, eins og Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefur rakið. Stjórnmálaleiðtogar og æðstu embættismenn sambandsins hafa þegar lýst yfir vilja til samninga um þetta efni.

5. Samtímis verði þjóðaratkvæðagreiðsla um nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá Íslands.

6. Strax í kjölfar aðildar verði Ísland aðili að gengisstöðugleikasamkomulagi ESB (ERM) og bindi þannig varanlega gengi krónunnar við evru innan ákveðinna vikmarka. Þegar skilyrði Maastricht verða uppfyllt, gerist Ísland aðili að Evrópska seðlabankanum, evra verður tekin upp sem lögeyrir á Íslandi og hægt verður að greiða IMF aftur lán sitt - með þökkum.

7. Einn eða fleiri af bönkunum yrðu á ný boðnir þjóðinni í dreifðri sölu.

8. Með þessu verður Íslendingum gert kleift að endurheimta að fullu sitt traust á alþjóðavettvangi, þó það gæti tekið einhver ár.

Að öðrum kosti er líklegt að traust okkar muni seint, ef nokkurn tímann, endurheimtast og við sætum verulegum takmörkunum í alþjóðaumhverfinu. Afleiðingar þessa yrðu þær að lífskjörum hér mun hraka þannig að helst verði hægt að bera þau saman við þróunarlönd. Að auki mun flest okkar besta fólk og bestu fyrirtæki flýja land. Það yrði stærsta tjónið til frambúðar.

Höfundar eru félagar í Framsóknarflokknum.

þriðjudagur, 14. október 2008

Snilldarpistill Valgerðar

Nýjasta bloggfærsla Valgerðar Sverrisdóttur er tær snilld. Þar leggur hún út frá nýrri stöðu í fjármálakerfinu þar sem 2 konur eru nú teknar við völdum í nýju ríkisbönkunum og segir m.a.:

Þetta leiðir óneitanlega hugann að stöðunni í stjórnmálum. Getur verið að þar sé líka þörf fyrir breytingar í þessa átt? Getur verið að það þurfi einnig á þeim vettvangi að gefa konum aukin tækifæri?

Áfram heldur Valgerður og vísar til nýlegra skrifa formanns Samfylkingarinnar, Ingibjargar Sólrúnar, og varaformanns Sjálfstæðisflokksins, Þorgerðar Katrínar, og telur augljóslega báða(r) mæla skynsamlega hvað varðar þau mál sem brýnast á okkur brenna um þessar mundir. Hún endar svo færslu sýna svohljóðandi:

Nú velta ýmsir fyrir sér hvort þær ættu að hafa enn meiri völd og hvort hugsanlegt sé að "þjóðstjórn kvenna" sé framundan.

Þess má geta að varaformenn Vinstri grænna og Framsóknar eru líka konur.

Svo gæti Edda Rós Karlsdóttir orðið seðlabankastjóri.

Ég segi nú bara si svona.

Ég get ekki annað en endurtekið það sem ég hef áður sagt, þetta er tær snilld! Hvar skrifa ég undir stuðnings- og áskorunaryfirlýsingu fyrir þessari hugmynd?

mánudagur, 13. október 2008

Ein ég sit og sauma...

Í þeim miklu efnahagshremmingum sem nú ganga yfir heimsbyggðina hefur dagurinn í dag gefið nokkra von. Evru-ríkin 15 innan ESB hafa stillt saman strengi sína. Ótakmarkaðir gjaldeyrisskiptasamningar hafa verið settir upp milli Evrópska seðlabankans, seðlabanka Englands, seðlabanka Sviss og Seðlabanka Bandaríkjanna. Öllu skal til kostað að bjarga bankakerfum aðildarlandanna.

Önnur ríki innan ESB og EES njóta góðs af - nema Ísland.

Sviss nýtur sérstöðu sinnar sem tryggasta bankaland í heimi. Liechtenstein nýtur þess að vera vera í tolla- og myntbandalagi við þennan stóra granna sinn.

Noregur nýtur stærðarinnar og olíunnar, og þá sérstaklega olíusjóðsins.

Ísland nýtur einskis, nema einverunnar!

Það er kalt í krónulandi.

föstudagur, 10. október 2008

Gjaldeyriseftirlit light!

Seðlabankinn hefur nú sett af stað einskonar megrunarútgáfu af gjaldeyriseftirliti. Fyrir 20 árum vann ég í Seðlabankanum við "the real thing" í þáverandi Gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands með afbragsfólki. Gjaldeyriseftirlitið var síðan lagt af að mig minnir í samhengi við upptöku EES-samningsins.

Það er vonandi að þessar ráðstafanir hafi róandi áhrif á gengið.

Að sjá fyrir...

Það er athyglisvert að lesa blogg Willem Buiter's frá því fyrr í kvöld. Frá því tengir hann í skýrslu sem hann vann með Anne C. Sibert um stöðu og framtíðarhorfur íslensku bankanna. Titill skýrslunnar er "The Icelandic banking crisis and what to do about it: The lender of last resort theory of optimal currency areas".

Skýrsla þessi var unnin að beiðni Landsbankans og upphaflega skilað í lok apríl síðastliðin. Þann 11. júlí var haldin lokuð ráðstefna að sögn Buiter's þar sem boðið var völdum einstaklingum frá bönkunum, úr stjórnsýslunni, frá Seðlabankanum og úr háskólunum.

Niðurstaða skýrslunnar var einföld, í ljósi stærðar bankanna var íslenska krónan ekki nothæfur gjaldmiðill fyrir starfsemi bankanna. Annað tveggja varð að gera: bankarnir að fara úr landi eða að Ísland tæki upp evru með aðild að ESB og EMU.

Þáverandi ástand, eða viðskiptamódel Íslands, stæðist ekki og hætta væri á hruni ef ekkert væri að gert. Eða eins og segir í inngangi skýrslunnar: "With most of the banking system’s assets and liabilities denominated in foreign currency, and with a large amount of short-maturity foreign-currency liabilities, Iceland needs a foreign currency lender of last resort and market maker of last resort to prevent funding illiquidity or market illiquidity from bringing down the banking system."

Svo margt var vitað, við svo mörgu var varað og svo margt lagt til.

Og margt séð fyrir.

En samt...

fimmtudagur, 9. október 2008

Það sem þarf að gera...

Hér er listi yfir sumt af því sem þyrfti að gera nú á næstunni, í engri sérstakri röð:

Lækka vexti um a.m.k. helming, ásamt því að gera lánsfé í íslenskum krónum vel aðgengilegt frá Seðlabanka til viðskiptabanka og sparisjóða. Tryggja þarf lánsfjárstreymi til fyrirtækjanna þ.a. atvinnulíf landsmanna stöðvist ekki. Lausafjárþurrð hefur líka áhrif á fyrirtækin og það vantar krónur í kerfið, rétt eins og gjaldeyri.

Setja tímabundin lög á alla kjarasamninga og frysta þá fram til a.m.k. loka næsta árs eins og þeir standa í dag.

Afnema tímabundið tengingu vísitölu neysluverðs og lána.

Hækka tekjuskatt einstaklinga í 40%. Það er óumflýjanlegt til að mæta auknum útgjöldum ríkissjóðs.

Hækka persónuafslátt því til samræmis þ.a. nettó áhrif verði engin á laun upp á 200 þúsund eða minna.

Afnema öll stimpilgjöld húsnæðislána, þ.a. engin vafi leiki á því að við yfirfærslu þeirra að ekki þurfi að greiða gjöldin. Einnig mun það auðvelda önnur fasteignaviðskipti, þó ekki sé fyrirsjáanlegt að þau verði nokkur að ráði næstu mánuði

Afnema öll vörugjöld, önnur en á áfengi, tóbak og bíla. Þau vörugjöld sem eftir standa verði ekki hækkuð.

Endurvekja gjaldeyriseftirlit Seðlabankans tímabundið.

Skipta um stjórn og bankastjóra Seðlabankans. Alveg óháð sökudólgaleit yrði það mikilvægt skref í að auka trúverðugleika og styrkja stjórnvöld í sessi um það að óumdeilt sé að þau leiði aðgerðir.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn? Er það nokkuð val lengur?

Aðild að ESB? Er það nokkuð val lengur?

Rétt er að þakka fyrir það sem vel er gert. Daglegir blaðamannafundir forsætisráðherra og viðskiptaráðherra eru til fyrirmyndar.

"Loose lips sink ships!"


Nú er ljóst að Kastljósviðtal seðlabankastjóra er líklega dýrasta viðtal sögunnar.

Það sem vekur frekari furðu er af hverju beðið var fram eftir degi, fram yfir lokun markaða í Englandi, að birta yfirlýsingu forsætisráðherra.



Enn merkilegra er að sú yfirlýsing sé jafn loðin og raun ber vitni. Hún hefði átt að segja afdráttarlaust að lágmarksábyrgðir yrðu virtar. Punktur.



(Myndir með þessari færslu fengnar af heimasíðu American Merchant Marine at War)


laugardagur, 4. október 2008

ESB: Framsókn vill aðildarviðræður

Efnahagsástandið hefur haft þau áhrif að Evrópuumræðan hér á landi hefur gerbreytt um takt. Hvergi er það jafn augljóst og í Framsóknarflokknum þar sem nú liggur beinlínis fyrir að meirihluti er að myndast í þingflokknum fyrir því að sótt verði um aðild að ESB.

Magnús Stefánsson gengur nú orðið einna lengst með skrifum sínum um að sótt verði um án tafar. Valgerður Sverrisdóttir og Birkir Jón Jónsson styðja augljóslega að sótt verði um aðild og boðar Birkir þingályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn. Sú þingályktunartillaga verður óþörf ef stjórnvöld ákveða að setja fram aðildarumsókn án tafar.

Ekki er að efa að félagi Valgerðar og Birkis úr Norð-Austur kjördæmi, Höskuldur Þórhallsson, styðji málstaðinn.

Siv Friðleifsdóttir hefur einnig komið fram og stutt leiðina um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu og er ekki hægt að skilja orð hennar hér öðruvísi en að hún vilji sjá hvaða niðurstaða fengist úr aðildarviðræðum.

Afstaða Bjarna Harðarsonar er öllum kunn, en hann er þó yfirlýstur krónuandstæðingur þ.a. þó hann sé á móti aðild geri ég ráð fyrir að hann hafi fullan kjark til þess að láta reyna á aðildarumsókn. Ef niðurstaðan verður að hans mati óásættanleg geri ég ráð fyrir að hann muni vel treysta sér í að berjast gegn samþykkt hennar.

Formaðurinn sjálfur hins vegar hefur opinberað hug sinn. Hann stendur ekki til aðildar, en útilokar ekkert og virðist geta fellt sig við að látið verði reyna á aðildarumsókn, sbr. ræða hans á miðstjórnarfundi nú í vor.

Efnisleg vinna Framsóknarflokksins, bæði innan og utan ríkisstjórnar, í undirbúningi að hugsanlegum aðildarviðræðum hefur einnig verið til fyrirmyndar. Gjaldmiðilsskýrsla flokksins er einungis nýjasta dæmið um það, en á nýopnaðri Evrópugátt Framsóknarflokksins má vel sjá að frumkvæði Framsóknarflokksins á meðan að hann var í ríkisstjórn var umtalsvert, eins og sjá má af þeim skýrslum sem unnar voru á tíma Halldórs Ásgrímssonar sem utanríkisráðherra.

Framsóknarflokkurinn ætti þannig að geta stutt ríkisstjórnina í þeirri vegferð, verði það ein niðurstaða þeirrar vinnu sem fram fer nú um helgina, að sótt verði um aðild að Evrópusambandinu án tafar.

Þessa ræðu vantaði sl. fimmtudagskvöld!

fimmtudagur, 2. október 2008

Þarf að virkja öryggisventla EES?

Ástand á gjaldeyrismörkuðum og hið frjálsa fall krónunnar vekur mann til umhugsunar um hvort ástæða er til að virkja öryggisráðstafanir skv. fjórða kafla EES-samningsins.

Þar segir m.a. í 112. grein:

1. Ef upp eru að koma alvarlegir efnahagslegir, þjóðfélagslegir eða umhverfislegir erfiðleikar í sérstökum atvinnugreinum eða á sérstökum svæðum, sem líklegt er að verði viðvarandi, getur samningsaðili gripið einhliða til viðeigandi ráðstafana með þeim skilyrðum og á þann hátt sem mælt er fyrir um í 113. gr.
2. Slíkar öryggisráðstafanir skulu vera takmarkaðar, að því er varðar umfang og gildistíma, við það sem telst bráðnauðsynlegt til þess að ráða bót á ástandinu. Þær ráðstafanir skulu helst gerðar sem raska minnst framkvæmd samnings þessa.

Í 113. grein segir síðan m.a.:

1. Samningsaðili sem hyggst grípa til öryggisráðstafana í samræmi við 112. gr. skal tilkynna hinum samningsaðilunum það án tafar fyrir milligöngu sameiginlegu EES-nefndarinnar og skal hann veita allar nauðsynlegar upplýsingar.
2. Samningsaðilar skulu tafarlaust bera saman ráð sín í sameiginlegu EES-nefndinni með það fyrir augum að finna viðunandi lausn fyrir alla aðila.
3. Hlutaðeigandi samningsaðili má ekki grípa til öryggisráðstafana fyrr en einum mánuði eftir dagsetningu tilkynningarinnar samkvæmt 1. mgr. nema samráði samkvæmt 2. mgr. hafi verið lokið áður en umræddur frestur var liðinn. Þegar óvenjulegar aðstæður, sem krefjast tafarlausra aðgerða, útiloka könnun fyrirfram getur hlutaðeigandi samningsaðili strax gripið til þeirra verndarráðstafana sem bráðnauðsynlegar teljast til þess að ráða bót á ástandinu.
Framkvæmdastjórn EB skal grípa til öryggisráðstafana fyrir bandalagið.

Hverjar slíkar öryggisráðstafanir gætu verið er hins vegar erfiðara að sjá fyrir. T.d. væri mögulegt að takmarka tímabundið frjálsa fjármagnsflutninga, viðskipti með krónuna og endurvekja gjaldeyriseftirlit Seðlabankans.

Ákvæðin fela hins vegar í sér ákveðna gagnkvæmni í aðgerðum. Geta öryggisráðstafanir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins t.d. falið í sér beina aðstoð þess til Íslands með það að markmiði að takmarka neikvæð áhrif erfiðleikana á viðskipti innan EES-svæðisins? Gæti framkvæmdastjórn ESB t.d. óskað eftir því við Seðlabanka Evrópu, í ljósi hagsmuna innri markaðarins, að styðja við íslensku krónuna?

EES-samningurinn a.m.k. hefur í sér vísi að efnahagslegum varnarsamningi samstarfsríkjanna og spurning er hvort núverandi ástand sé orðið þannig að tilefni sé til þess að virkja þann þátt hans. Sértækar ráðstafanir eins og þær sem tilgreindar eru hér að ofan eru markaðshindrandi þ.a. að það væri beggja hagur (Íslands og ESB) að þær vari stutt. ESB hefði þannig beinan hag af því að leggja Íslandi lið.

Hins vegar má einnig velta fyrir sér hvort að Ísland hefði sterkari stöðu ef ósk um aðstoð væri sett fram jafnhliða aðildarumsókn!