laugardagur, 28. maí 2011

Hræðileg frétt

Fréttablaðið og visir.is birta okkur þessa frétt í morgunsárið: Ungt fólk vill vinna í Evrópu.

85% íslenskra ungmenna hafa áhuga á að flytja og prófa að vinna í öðru landi, sem er vel. Hið alvarlega í þessu er að tæpur helmingur þeirra (42%) getur hugsað sér að gera það varanlega.

Þetta kemur fram í könun ESB, Flash Barometer on youth, og var reyndar birt fyrir hálfum mánuði.

Ef rýnt er í þessar tölur má s.s. sjá að, fyrir utan Rúmensk ungmenni (41%) eru 50% og upp úr fleiri íslensk ungmenni en önnur sem geta hugsað sér að flytja úr landi til lengri tíma (sem þýðir í reynd nokkurn veginn varanlega).

Stefnir því í að þorri ungs fólks geti hugsað sér að kjósa um framtíðina, þ.m.t. um aðild að ESB, með farseðlum í stað kjörseðla.

miðvikudagur, 25. maí 2011

"Gæsagangur" Styrmis…

Jæja, eina ferðina enn þarf maður að búa við að „málsmetandi“ andstæðingur aðildar að ESB beiti ósmekklegu lýkingamáli. Nú er það Styrmir Gunnarsson í „leiðara“ á vef sínum.

Ég skal alveg taka smá „tangó“ við Styrmi…!

Í þessum „leiðara“ kvartar hann yfir því að stuðningsmenn aðildar að ESB nenni ekki að debatera við andstæðinga aðildar. Á því er ósköp einföld skýring: Ef „heimssýn“ þeirra Nei-félaga væri ekki svona rotin, vænissjúk og vitlaus, þá væri kannski eitthvað að debatera.

Í „leiðaranum“ nefnir Styrmir sem dæmi að stuðningsmenn aðildar vilji ekki ræða stöðu efnahagsmála á Grikklandi og það sem ESB sé að „gera“ landinu. Það er sjálfsagt að debatera það! Vandi grikkja er nefnilega fyrst og fremst sjálfskapaður. Það er rétt að Grikkland neyðist nú til að grípa til sársukafullra aðgerða. Hins vegar er ekki er rétt að kenna kröfum ESB, AGS og annarra lánadrottna Grikkja um því aðgerðirnar eru fyrst og fremst nauðsynlegar vegna þess að Grikkir hafa einir og óstuddir rekið hörmungar efnahagsstefnu í krafti eigin fullveldis þrátt fyrir aðild að ESB. Aðildin að ESB og sameiginlegu myntinni gerði þeim þó að öllum líkindum kleift að ganga lengra og gera sjálfum sér meiri skaða en þeir hefðu hugsanlega getað gert án aðildar.

Í „leiðaranum“ fjallar Styrmir einnig um ímyndaða ásælni ESB í Ísland vegna einhverrar stórveldahugmyndar um landið í Norðurslóðasamhengi. Fyrir utan hvað þessi fullyrðing er galin, í ljósi þess að þrjú alvöru heimskautalönd eru nú þegar í ESB og að „ávinningur“ Íslands af norðurslóðanánd sinni veltur m.a. á góðu aðgengi að Evrópumörkuðum (t.d. verður umskipunarhöfn á Íslandi mun verðmætara fyrirbæri ef hún getur þjónað bæði sem fríhöfn og sem fyrsta tollhöfn innan ESB), þá endurspeglast í „leiðaranum“ einhver furðuleg blanda stórmennskubrjálæðis og minnimáttakenndar. Annars vegar erum við svo littlir og aumir að við munum eiga okkur lítils innan 500 milljóna manna bandalags, en hins vegar erum við rísandi stórveldi á Norðurslóðum og þau tækifæri sem af því skapast eru meginástæðan fyrir áhuga Evrópusambandsins á aðild Íslands. Trúir Styrmir þessari fullyrðingu sjálfur, eða er þetta mesta dýptin sem hann og „foringinn” í Hádegismóum geta náð í dellurökunum?

Þetta er svo sett í samhengi við það að aðildarumsóknin að ESB sé einskonar "orusta um Ísland", sbr. þegar að flugher Hitlers bombarderuðu Bretland, og "skriðdrekar" ESB muni valta yfir land og þjóð í einhverskonar "Blitzkrieg". Vantaði bara að Styrmir uppnefndi viðræðuáætlunina "Schlieffen Plan" sem myndi fela í sér "endlösung" fyrir íslensku þjóðina.

Nei, það er kannski ekki að ástæðulausu að Já-liðar nenna ekki mikið að debatera við nei-liða. Skrif um "skriðdreka", "orustur" og "Blitzkrieg" er ekki það lága plan sem maður fer niður á. Svona gæsalapparugl er hvorki viðeigandi né vitlegt.

Þegar, og ef, nei-liðar koma sér af þessu lága plani verður kannski hægt að eiga við þá alvöru debat!

Fritz Von Blitz

þriðjudagur, 17. maí 2011

Hvað mun gjaldeyrisuppboð segja okkur?

Í áætlun Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta leggur bankinn til tvær hugsanlegar misgengisleiðir til þess að losa landið undan þrýstingi aflandskróna og annarra flóttakróna.

Annars vegar með því að selja gjaldeyri formlega á skráðu gengi, en í reynd skattleggja gjaldeyrisskiptin með þeim hætti að raungengið liggi nær núverandi aflandsgengi krónunnar, og hins vegar með því að halda gjaldeyrisuppboð.

Nú hefur seðlabankastjóri gefið til kynna að hugsanlega verði slíkt uppboð haldið jafnvel fyrir lok vikunnar. Það verði smátt í sniðum og einskonar prufukeyrsla fyrir stærri uppboð.

Ekki er því vitað hvað mikið magn gjaldeyris verður boðið upp, en ljóst er að þessi tilraun verður allrar athygli verð.

Seðlabankanum er nokkur vandi á höndum með framkvæmd þessa útboðs. Við fyrstu sýn væri best að fá sem flestar krónur fyrir sem fæstar evrur, en ef verulegur munur er á skráðu gengi og uppboðsgengi, hvaða skilaboð sendir það, og hver er þýðing þess fyrir framhaldið?

Ef hins vegar uppboðsgengið liggur tiltölulega nærri markaðsgengi, hvaða áhrif hefur það? Vill þá bankinn yfirhöfuð selja?

Í Avens viðskiptunum fyrir árið síðan reiknaðist mönnum til að evrugengið í þeim viðskiptum fyrir lífeyrissjóðina hefði verið um 220 krónur. Eru það kannski efri mörkin fyrir útboðið?

Núverandi aflandsgengi er óvíst, en liggur eflaust á bilinu 280 til 300 krónur evran. Það væru þá líkleg neðri mörk.

Seðlabankinn hefur hins vegar ekki gefið neitt til kynna um hvaða væntingar bankinn hefur til útboðsins. Má líka velta fyrir sér hvort það er gott eða slæmt.

En spennan magnast...!