fimmtudagur, 31. desember 2009

Gleðilegt ár

Síðastliðna 6 mánuði hef ég dvalið við störf í Afganistan. Eftir frí hér heima yfir jól og áramót mun ég halda þangað aftur nú í byrjun nýs árs og að óbreyttu dvelja þar fram á næsta sumar.

Heima er þó best.

Þakka ég öllum þeim sem hafa gefið sér tíma til að lesa það sem hér hefur verið ritað.

Þessi færsla er númer 100 á árinu 2009 og jafnframt sú síðasta.

Næsta blogg verður á nýju ári.

Ég óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.

þriðjudagur, 29. desember 2009

Kostur krónunnar og gjaldþrot Seðlabankans

Haft var eftir fjármálaráðherra að hann væri sannfærður um kosti krónunnar og þess að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

Það er ágæt afstaða, en þá er rökrétt að nýta þá kosti í kjölfar efnahagshruns til hins ítrasta. Í dag er það ekki gert og fer fjarri.

Til lengri tíma litið er ég hins vegar ósammála því að kostir sjálfstæðs gjaldmiðils vegi þyngra en gallarnir. Sérstaklega ef framkvæmd uppihalds hins sjálfstæða gjaldmiðils á að halda áfram með þeim hætti sem verið hefur hér á landi undanfarin 30 ár.

Því setning svonefndra Ólafslaga 1979 og almenn upptaka verðtryggingar fól í sér viðurkenningu á því að gjaldmiðillinn var ónýtur og ekki einu sinni nýtanlegur til heimabrúks nema með sérstökum æfingum.

Saga íslensku krónunnar er samfelld harmsaga.

Almenn upptaka verðtryggingar gerði það hins vegar að verkum að hægt var að stunda hér mjög arðbærar lánveitingar – eflaust þær arðbærustu í heimi.

Verðtryggingin fól í sér a.m.k. þrefalda tryggingu fyrir lánveitendur. Í fyrsta lagi þá augljósu staðreynd að upphæð og eftirstöðvar lána uxu í samræmi við þróun verðlags. Í öðru lagi að verðtryggingin fól í sér í reynd dulda gengistryggingu þar sem bein og óbein áhrif gengis krónunar á almennt verðlag eru gífurleg, eins og við höfum fengið svo kyrfilega að finna fyrir á síðustu tveimur árum. Í þriðja lagi eru það svo uppsöfnunaráhrif verðtryggingarinnar eins og hún er framkvæmd hér sem tryggir lánveitendum "vexti, og vaxtavexti, og vexti líka af þeim!"

Ekki furða að erlendir fjárfestar, loksins þegar þeir uppgötvuðu þessa tæru snilld, og þá fyrst og fremst í boði Kaupþings hér í upphafi áratugarins, hafi í fyrstu ekki trúað eigin augum, en síðan keypt upp ríkistryggð verðtryggð skuldabréf í gríð og erg. Þar voru fremst í flokki skuldabréf íbúðalánasjóðs. (Svona til hliðar má nefna þá athyglisverðu staðreynd að ekki kemur fram í lögum um íbúðalánasjóð að á útlánum hans hvíli ríkisábyrgð, hins vegar skýrast góð kjör sem hann nýtur meðal annars af því að þar sem sjóðurinn er í ríkiseigu er gengið út frá ríkisábyrgð. Vegna íhaldssamrar lánastefnu sjóðsins, þ.m.t. fyrsta veðréttar, lægri lánshlutfalla og lægri lána almennt hefur lánasafn hans verið talið nokkuð tryggt. Það er hins vegar allsendis óvíst hvort það eigi við í dag og t.d. ólíklegt að sjóðurinn myndi ráða við almenna niðurfærslu, eða leiðréttingu, lána til samræmis við það sem bankarnir eru að gera. Hvað þetta varðar er það ókostur að hér sé ríkisrekinn íbúðalánasjóður.)

Gjaldmiðill gegnir hefðum samkvæmt ákveðnum hlutverkum. Í fyrsta lagi er hann milliliður viðskipta og í öðru lagi virðisgeymsla. Virði gjaldmiðils ætti síðan öllu jöfnu að endurspegla undirliggjandi virði hagkerfisins sem hann vinnur fyrir og að sama skapi að enduspegla þá trú sem er á því hagkerfi. Sérstaklega á þetta við um gjaldmiðil sem hvílir ekki á gullfæti eða er t.d. gengistryggður og þá varinn af samsvarandi gildum gjaldeyrisvarasjóð.

Hafa ber einnig í huga að gjaldmiðlar, seðlar og mynt, eru í eðli sínu ríkisskuldabréf – óbundin og vaxtalaus.

Virði gjaldmiðils byggir þannig bæði á efnislegum og óefnislegum forsendum. Stærstu áhrifavaldar virðisins eru virkni hins undirliggjandi hagkerfis, hversu vel gjaldmiðilinn þjónar hlutverki sínu sem milliliður viðskipta og virðisgeymsla, og saman hafa þessir þættir áhrif á trúna á gjaldmiðilinn. Trúin á gjaldmiðilinn verður auk þess fyrir öðrum áhrifum, þ.m.t. hversu trúverðugur seðlabanki sá sem ber ábyrgð á gjaldmiðlinum er í sínu starfi og hver er efnahagsstefna stjórnvalda viðkomandi ríkis sem notar gjaldmiðilinn. Og já, hversu auðvelt er að skipta gjalmiðlinum í önnur verðmæti t.d. annan gjaldmiðil eða önnur verðmæti.

Það er nokkuð ljóst að lítið af ofantöldu hér á Íslandi er þess eðlis að það ýti undir styrk og trú á krónuna sem framtíðar gjaldmiðil.

En þar sem íslenska krónan er íslenskur tilbúningur undir íslenskri stjórn og á að endurspegla íslenskan veruleika er eðlilegt að krónan sem slík og þær skuldbindingar sem í henni felast séu gerðar upp í kjölfar efnahagshruns af því tagi sem landið gekk í gegnum fyrir rúmu ári síðan.

Í hruninu var gripið til ýmissa aðgerða til að reyna að bjarga því sem bjargað varð. En allt kom fyrir ekki.

Kaup Seðlabankans á svokölluðum ástarbréfum bankanna var ein slík aðgerð. Réttilega hefur verið gagnrýnt að þar fór Seðlabankinn illa að ráði sínu þar sem hann tók ekki raunveruleg veð fyrir þeim viðskiptum.

Hins vegar er það jafn vitlaus, ef ekki vitlausari, aðgerð að yfirfæra þá skuld til ríkisins eins og gert var fyrir síðustu áramót. Ástarbréfakaupin voru á sínum tíma fjármögnuð með hreinni peningaprentun. Seðlabankinn fór ekki á markað og sótti þennan pening. Skuldin var hvergi til nema sem bókhaldsleg færsla í efnahagsreikningi Seðlabankans. Eins og ég hef reyndar margoft bent á þá var og er enginn kröfuhafi á hvorki seðlabankann né ríkið vegna þessarar skuldar. Hún er í reynd ekkert nema froða. Það er þess vegna engin ástæða fyrir því að "gjaldþrot Seðlabankans vegi þungt".

Rétt eins og nú er þó byrjað gagnvart bæði fyrirtækjum og heimilum landsins, hvað varðar afskriftir skulda, tiltekt í bókhaldi, uppgjör fyrirtækja og þess háttar, þarf slíkt hið sama að eiga sér stað hvað varðar efnhagsreikninga ríkisins og Seðlabankans. Þar sem skuldagrunnurinn er íslenska krónan er það hreint innanlands og innanríkismál að t.d. að lágmarki þurrka "gjaldþrotaskuld" Seðlabankans út af bókum bankans og ríkisins. Minna má það ekki vera.

Efnahagsreikningur beggja stæði sterkari á eftir og þetta er einn af fáum kostum við það að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil. Hann ber að nýta.