föstudagur, 26. febrúar 2010

ICESAVE og sjálfsmorðssprengjuárás dagsins

Hér í Kabúl eru föstudagar hinir eiginlegu sunnudagar. Eini dagur vikunnar sem maður leyfir sér að kúra aðeins lengur – kannski alveg til níu – áður en að farið er á kontórinn.

Í morgun fór það nú hins vegar þannig að klukkan 06:40 að staðartíma sprengdi fyrsti sjálfsmorðssprengjuárásarmaður dagsins sig í loft upp og var sprengingin nógu öflug til að skekja gámablokkina þar sem ég gisti sæmilega hraustlega. Eins og vænn Suðurlandsskjálfti. Í kjölfarið heyrðist skothríð, bæði úr vélbyssum og skammbyssum, og stuttu síðar minni sprengingar.

Þar með var ljóst að ekki yrði kúrt mikið meira í dag.

Klæddur og kominn á ról, með skothelda vestið og hjálminn í seilingarfjarlægð, var lítið annað að gera en að kíkja á netfréttir dagsins. Enn og aftur er aðalfréttin á Íslandi tengd sögunni endalausu um ICESAVE. Ekki tókst samninganefndum Íslands, Bretlands og Hollands að ná nýrri lendingu, þrátt fyrir sýnilegan vilja allra aðila til að nálgast hverjir aðra í kaupum og kjörum.

Það sem er athyglisvert er að það ágæta skilyrði breta og hollendinga fyrir frekari viðræðum að stjórn og stjórnarandstaða kæmu sér saman um markmið og leiðir og kæmu sameinuð til viðræðna hefur í reynd gert það að verkum að styrkja samningsstöðu Íslands á sama tíma og bresk og hollensk stjórnvöld hafa tapað trausti, trúverðugleika og lögmæti hvað varðar þeirra samningsstöðu. Hollenska stjórnin er fallin, sú breska á barmi taugaáfalls og kosningar í báðum löndunum innan næstu fimm mánaða.

“Delegitimised” er enska orðið yfir gagnaðila Íslands í samningaviðræðum um ICESAVE.

Hvað er þá hægt í stöðunni? Ekkert virðist ætla að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirliggjandi ICESAVE-samninga þann 6. mars næstkomandi þar sem niðurstaðan liggur nokkuð ljóslega fyrir.

Vandinn er hins vegar sá að í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði gegn Íslandi spunninn sá lygavefur að ekki standi til að bæta bretum og hollendingum tapið – að við verðum útmáluð sem þjófar og svindlarar sem neiti að gangast við skuldbindingum sínum. Sumum kann að þykja það í lagi, en ef hægt er að koma í veg fyrir slíkt er það þess virði að reyna.

Leyfi ég mér því að gera það að tillögu minni að það samningstilboð sem íslenska sendinefndin lagði fyrir okkar ágætu gagnaðila verði tilkynnt þeirra stjórnvöldum einhliða sem uppgjörsleið vegna skulda Innistæðustryggingasjóðs gagnvart bresku og hollensku systurstofnunum sínum vegna ICESAVE.

Hluti af þeirri leið geri ég ráð fyrir að verði að fela í sér tafalausa yfirtöku Innistæðutryggingasjóðs á þrotabúi Landsbankans (jafnvel með sérstakri lagasetningu) enda liggur fyrir að ekki mun nást upp í aðrar kröfur en þær forgangskröfur sem tengjast innistæðutryggingum. Þeim 200 milljörðum sem þegar liggja inni á bók í breska seðlabankanum og tilheyra formlega þrotabúi Landsbankans verði einnig þegar í stað ráðstafað til bresku og hollensku innistæðutryggingasjóðanna.

Ef aðrir kröfuhafar vilja fara í mál, þá verður það svo að vera.

Einhliða lausn gæti haft þann kost í fyrsta lagi að sýna fram á að ekki standi annað til en að Bretland og Holland fái sitt tjón bætt. Einnig mun að það þýða að frumkvæðið að lausn málsins hefur verið tekið frá þeim – það verður þeirra að sýna fram á að það sem Ísland hafi boðið sé ósanngjarnt og óeðlilegt.

Mælist ég til að þetta verði gert með einhliða yfirlýsingu strax að lokinni talningu atkvæða í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu og niðurstaða er ljós – annars vegar með fréttatilkynningu til allra helstu fjölmiðla erlendis, sérstaklega í Bretlandi og Hollandi, og hins vegar með diplómatískri nótu til núverandi stjórnvalda beggja landanna, með afriti til allra annarra landa og alþjóðastofnanna er málið varðar.

Til að flýta fyrir eru hér fyrir neðan drög að nótunni:

The Government of the Republic of Iceland presents its compliments to the Government of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland and the Government of the Kingdom of the Netherlands and has the honour to inform of the Government of the Republic of Iceland intent to ensure repayment by the Deposit Guarantee Fund of Iceland to its British and Dutch counterpart per the following, pending other arrangements mutually agreed by all parties:

[Hér fylli samninganefndin í eyðurnar í samræmið við það tilboð sem lagt var fram á fundunum.]

The Government of the Republic of Iceland avails itself of this opportunity to renew to the Government of the United Kingdom of Great Britain and Northern Ireland and the Government of the Kingdom of the Netherlands the assurances of its highest consideration.

Klassísk diplómasía í fyllstu kurteisi nýtt til að kynna einhliða niðurstöðu þar til önnur niðurstaða er fengin í samningum aðila. Boltinn yrði hjá viðsemjendum okkar um framhaldið, en við stæðum þó að minnsta kosti frammi fyrir umheiminum ekki sem vanskilaskríll, heldur þvert á móti, þjóð sem vill standa við sínar skuldbindingar innan eðlilegra marka – hvorki meira, né minna.

Eða hefði ég kannski bara átt að reyna að kúra aðeins lengur, þrátt fyrir allt?

föstudagur, 19. febrúar 2010

ESB og umpólun Gunnars Braga

Á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins, fyrir rétt rúmu ári síðan, var Gunnar Bragi Sveinsson, nú þingmaður flokksins fyrir Norðvesturkjördæmi, lykilmaður í því að þar var samþykkt ályktun um umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Á framboðsfundum flokksins í aðdraganda póstkosningar talaði Gunnar Bragi um nauðsyn aðildarumsóknar því íslendingar þyrftu að sjá hvað fælist í aðild og hvernig hugsanlegur aðildar samningur myndi líta út. "Ég vil sjá hvað er í pakkanum" var inntak þess sem Gunnar Bragi sagði á þeim tíma.

Að vísu kom alltaf fram hjá þingmanninum að sjálfur væri hann ekki hrifinn af þeim félagskap, en að hann myndi kveða upp sinn lokadóm varðandi afstöðu til aðildar þegar niðurstaða samningaviðræðna lægju fyrir.

Í þessu samhengi er einnig rétt að geta þess að í ályktun Framsóknarflokksins voru sett fram skilyrði til viðmiðunar um endanlega afstöðu til aðildar. Skilyrði sem endurspegluð voru að fullu í afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðildarumsókn.

Gunnar Bragi studdi þó ekki þá tillögu. Gaf hann sínar skýringar á því á þingi hví hann gekk með þeim hætti fram gegn ályktun eigin flokksþings og nokku ljóst að umpólun þingmannsins í þessu stóra máli var hafin.

Í dag gengur Gunnar Bragi þó skrefinu lengra í grein í Morgunblaðinu sem vísast er ætlað að ýfa fjaðrir Vinstri Grænna vegna aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Nefnir hann stuðning Vinstri Grænna við aðildarumsókn að ESB sem dæmi um umpólun þeirra í flestum málum.

Lokamálsgrein Gunnars Braga hefst hins vegar á þessum orðum: "Framundan eru mikilvægir tímar þar sem stöðva verður aðildarumsóknina [að ESB]..."

Frá því að styðja aðildarumsókn og vilja sjá hvað er í pakkanum, til þess að greiða atkæði gegn aðildarumsókn vegna þess að ekki var allt tengt þingsályktunni þingmanninum að skapi, yfir í það að vilja hreinlega stöðva ferli sem þegar er hafið og samþykkt af meirihluta þingsins er athyglisverð þróun.

Hvar er nú virðingin fyrir þingræðinu? Hún virðist hafa týnst í umpólun þingmannsins, a.m.k. í þessu máli.

En aðallega leikur mér hugur að vita, í ljósi þess að hér skrifar þingflokksformaður Framsóknarflokksins, hvort þetta sjónarmið endurspegli nýja stefnu þingflokksins varðandi aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins.

fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Hvítþvottur einkavæðingar bankanna

Man einhver eftir þessari skýrslu?

Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998 – 2003

Ekki sá Ríkisendurskoðun ástæðu til að taka þar sterkar til orða en að "Sú söluaðferð að auglýsa ráðandi hlut í bæði Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hf. í einu verður að teljast óheppileg."

Já var það?

Að öðru leyti sá Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að fjargviðrast yfir einkavæðingaferlinu frekar.

Miðað við þokkalega ríkar heimildir Ríkisendurskoðunar til að fara yfir gögn máls má velta fyrir sér t.d. af hverju í þessari úttekt kom ekki fram hvernig fjármögnun einkavæðingar bankanna var raunverulega háttað.

Að mínu mati er tvíeðli Ríkisendurskoðunar ákveðið vandamál.

Á heimasíðu stofnunarinnar stendur eftirfarandi:

Sjálfstæð eftirlitsstofnun Alþingis

Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Meginhlutverk hennar er að endurskoða ríkisreikning og reikninga ríkisaðila, hafa eftirlit með og stuðla að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár. Megingildi hennar eru óhæði, hlutlægni, hæfni og trúverðugleiki.

Annars vegar er Ríkisendurskoðun endurskoðunarþjónusta, en hins vegar eftirlitsstofnun. Með hverjum er hún að hafa eftirlit? Þeim hinum sömu ríkisaðilum sem hún sinnir endurskoðunarþjónustu fyrir. Ríkisendurskoðun er s.s. hvað eftir annað að framkvæma stjórnsýsluúttektir og eftirlit með ríkisaðilum sem hún hefur sjálf farið yfir bókhaldið hjá og samþykkt reikninga!

Er ekki þannig Ríkisendurskoðun hvað þetta varðar sett í það undarlega hlutverk að hafa eftirlit með sjálfri sér?