laugardagur, 29. maí 2010

Ónýt pólitísk vörumerki?

Maður veltir því fyrir sér hvort "vörumerki" hefðbundnu stjórnmálaflokkana séu ónýt eftir hrunið.

Þegar við bætist að engin flokkanna er sérlega innbyrðis samstilltur um stefnumál er heldur ekki von á góðu.

Allir eru flokkarnir mismikið klofnir eftir fylkingum sem stundum virðast eiga lítt annað sameiginlegt en bókstafinn sem það krossar við.

Og þá má velta fyrir sér hvaða fylkingu er raunverulega verið að kjósa.

En flokkakerfið er lífseigt. Samfylking og Vg eru lítið annað en tilbrigð við stef forvera sinna, Alþýðuflokkinn og Alþýðubandalagið. Mikið vildi ég þó að Samfylkingin væri líkari Alþýðuflokknum gamla, svei mér þá.

Hver er ástæða þessarar þrautsegju? Eflaust eru margar skýringar og m.a. sú að þeir eru jú með uppbyggingu út um allt land. Eru ráðsett fyrirtæki með ferla og fólk til að styðja við ríkjandi kerfi. Flokkarnir eru kók og pepsí pólitíkurinnar. Sól og spur kóla geta verið ágæt í smá tíma, en hafa ekkert í langhlaup móti risunum.

Kjördæmakerfið sem slíkt styður síðan við valdeinokun hefðbundnu flokkanna. Pólitísk endurnýjun væri án efa auðveldari ef landið væri eitt kjördæmi.

miðvikudagur, 26. maí 2010

Meira lýðræði með minna lýðræði

Besti flokkurinn er ólýðræðislegasta framboðið í Reykjavík.

Hjá þeim "flokki" fór ekki fram prófkjör, forval eða fundur til að setja saman lista.

Ekkert "lýðræðislegt" ferli til að setja saman "lýðræðislega" valin lista.

Nei, nokkrir félagar tóku sig saman og ákváðu að fara í framboð.

Bjuggu til lista með bestu vinum sínum og nokkrum viðbótar kunningjum.

Lögðu af stað í leiðangur til að gera grín að öllu ruglinu.

Og bjuggu óvart til alvöru lýðræðislegan valkost fyrir kjósendur sem bersýnilega eru að stórum hluta búnir að fá upp í kok af flokkunum með sína "lýðræðislega" völdu lista.

Með frambjóðendur sem margir hverjir eru orðnir hraðsoðnir í eitthvert pólitískt mót "ídeal-kandídatsins" – svona eftir því hvaða flokki þeir tilheyra.

Umvafðir "faglegum" frösum sem fyrir löngu hafa tapað allri merkingu. "Björgum mannslífum, sköpum atvinnu og verum góð við börnin!"

Þá er hressandi að fá valkost um framboð sem hefur sterkar meiningar, jafnvel þó það meini þær ekki!

laugardagur, 22. maí 2010

Fyrirmynd Gnarrs?

Uppgangur Besta flokksins minnir mig pínulítið á plottið í kvikmyndinni Brewster's millions með Richard Pryor og John Candy frá því 1985.

Brewster þessi varð óvænt einkaerfingi fjarskylds frænda sem var moldríkur. Skilyrði arfsins var hins vegar það að Brewster varð að eyða 30 milljón dollurum á 30 dögum, og ef það tækist, myndi hann erfa 300 milljón dollara.

Eitt af því sem hann gerði til þess að eyða þessum peningum var að fara í framboð gegn ríkjandi öflum undir slagorðinu "None of the above" og sópaði til sín fylgi. Þar sem þetta var nú bara bíómynd þá meinti Brewster víst "None of the above" slagorðið bókstaflega og vildi s.s. að kjósendur höfnuðu öllum frambjóðendum, honum sjálfum þar með. Hélt að mig minnir hjartnæma ræðu á hafnaboltavelli undir lok myndarinnar.

Munurinn á Besta og Brewster er hins vegar að engar 300 dollara millur bíða Besta, og Besti ætlar bersýnilega að klára dæmið.

Og svei mér þá, er þó ekki skárra að borgin og þjóðin upplifi sig sem statista í Richard Pryor mynd, eftir að hafa verið höfð að fífli í íslensku útgáfunni af Wall Street?

Mæli með myndinni, en veit ekki hvort hún finnst á myndbandaleigum bæjarins. Var Laugarásvídeó búið að opna aftur?

föstudagur, 21. maí 2010

Stór-bandalag í Reykjavík?

Rétt rúm vika er til sveitastjórnarkosninga og samkvæmt skoðanakönnunum er núverandi meirihluti Reykjavík fallinn. Ekki virðist hins vegar kostur á vinstri meirihluta í borginni þar sem samkvæmt sömu skoðanakönnunum er uppgangur Besta Flokksins búin að setja hefðbundna valdamunsturskosti (nýyrði?) í algert uppnám.

Nú er að sjálfsögðu ómögulegt að sjá fyrir hver niðurstaðan verður á kjördag, en ef niðurstöður kosninga í Reykjavík verða þannig að hinir hefðbundnu kostir verða ekki til staðar, hvað verður þá til ráða?

Eflaust hugsa margir á vinstri kantinum að Besti flokkurinn sé í reynd eins konar vinstra framboð og því ætti að vera bæði rökrétt og væntanlega auðsótt að mynda nýjan vinstri meirihluta í borgarstjórn.

Pólitískt er hins vegar engin hagur af því fyrir neinn fjórflokkanna að hleypa Besta flokknum að í meirihlutasamstarfi.

Langtíma árangur framboðs eins og Besta flokksins er háð tvennu, annars vegar að ná þokkalegri kosningu og hins vegar að komast í meirihlutasamstarf.

Án þess að komast í meirihlutasamstarf eru líklegust örlög Besta að veslast upp og fjara út.

Framboð Besta flokksins gæti því orðið hvatinn að því að næsti meirihluti í Reykjavík verði samstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.

Það gæti svo aftur orðið undanfari endunýjaðs samstarfs flokkanna á sviði landsmálanna.

Og þar með er kannski komin skýring á því fyrir Staksteina Morgunblaðsins af hverju Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki farið fram á það á þingi að aðildarumsókn að ESB verði dregin til baka. Dyrum endurnýjaðs samstarfs Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins í stjórn landsmála er haldið opnum á meðan.

miðvikudagur, 12. maí 2010

Banka-Detox

Samkvæmt skilanefnd Glitnis "hreinsuðu" aðaleigendur og stjórnendur bankans hann innan frá.

Einskonar banka-detox.

Ekki eru lýsingarnar fallegar.

En er þetta bara byrjunin? Var þetta ekki hið almenna viðskiptamódel á Íslandi?

Hvað með hina bankana?

Hvað með mörg áður stæðileg fyrirtæki íslensk sem nú eru rústir einar, skuldsett upp í rjáfur?

Voru þau ekki líka "hreinsuð" innan frá?

Flugleiðir? Eimskip? Sjóvá? Olíufélögin? Bílaumboðin? Öll fórnarlömb viðskipta-detox?

Ef það sem gerðist hjá Glitni var "kriminelt" hvað þá með allt hitt?

Það má velta því fyrir sér hvort ekki sé ráð í tíma tekið að girða af eitthvað af nýjum og tómum hverfum á höfuðborgarsvæðinu og gera að allsherjar fanganýlendu...!