miðvikudagur, 24. mars 2010

Eignaauki Indriða

Á blaðsíðu 14 í Morgunblaðinu í dag er frétt sem er skyldulesning fyrir alla sem láta sig skuldavanda heimilanna einhverju varða.

Þar er haft eftir Indriða H. Þorlákssyni, pólitískum aðstoðarmanni fjármálaráðherra, að fyrirhuguð lagabreyting á skattalegri meðhöndlun afskrifta skulda feli í sér skattalækkun. Að óbreyttum lögum verði allar afskriftir lána skattskyldar að fullu.

Ekki skal sú túlkun dregin í efa. Hins vegar er það rökstuðningur Indriða sem hlýtur að vekja athygli. Hann segir “...að afskrift feli í sér eignaauka, sem sé skattskyldur samkvæmt tekjuskattslögum sem nú eru í gildi.”

Í þessari fullyrðingu felast sérkennileg vísindi. Þess munu verða afar fá dæmi að skuldaafskrift fasteigna- og bílalána feli í sér eignaauka. Í flestum tilvikum mun fólk vonandi skulda minna, en það verður engin samsvarandi eignaaukning. Rök Indriða um að hér verði til skattskyldur eignaauki eiga þannig ekki við.

Staðreyndin er nefnilega sú að í velflestum tilfellum þeirra skuldaafskrifta sem eru, eða munu eiga sér stað hjá fjölskyldum þessa lands í kjölfar efnahagshrunsins, er verið að afskrifa í átt að raunvirði undirliggjandi “eignar”.

Ef 40 milljóna skuld af 30 milljóna fasteign er afskrifuð niður í 33 milljónir hefur ekki orðið “eignaauki.” Viðkomandi fasteignar “eigandi” skuldar bara minna, en á ekkert meira.

Kannski er hægt að segja sem svo ef almenn skuldaafskrift færi fram að við slíka aðgerð gæti átt sér stað “eignaauki”. En í þeim tilfellum væri líkast til lítið annað að gerast en ákveðin leiðrétting á þeirri eignaupptöku sem átt hefur sér stað vegna verð- og gengistrygginga lána.

Það er síðan athyglisvert að hafa í huga, eins og einnig er haft eftir Indriða í sömu frétt, að “...samkvæmt núgildandi lögum eru þær skattskyldar að fullu, nema um sé að ræða gjaldþrot eða einhvers konar nauðasamninga.” Stór hluti íslenskra fjölskyldna er í þeirri stöðu að vera tæknilega gjaldþrota. Þjóðin ætti þannig meira og minna að vera í gjaldþrota- og nauðasamningaferli. Almennar afskriftir og önnur úrræði eru til þess að koma í veg fyrir að þess verði þörf, enda réði þjóðfelagið ekki við slíkt ástand.

En skilaboð Indriða eru í reynd þau að það er til lítils að standa í slíku og best að gefast bara upp og fara í nauðasamningaferli. Að gefa allt til þess að koma í veg fyrir slíkt þýðir bara glaðhlakkalegan bakreikning frá Steingrími J. og Indriða.

Forsætisráðherrar hafa nú af minna tilefni kallað sína ráðherra á teppið og fært þeim þau skilaboð að “Svona gera menn ekki!”

Og hvernig í ósköpunum stendur á því, nú þegar fjármálaráðuneytið hefur sýnt þessi spil, að stjórnarandstaðan hefur ekki sett fram sitt eigið frumvarp um hvernig hátta eigi skattalegri meðhöndlun afskrifta lána?

föstudagur, 19. mars 2010

Afskriftir, jafnræði og réttlæti

Kíkjum í heimsókn til þriggja fjölskyldna:

Um mitt ár 2007 eiga þær sitt íbúðarhúsnæði og skulda í þeim jafnmikið, segjum 30 milljónir.

Hlutfall skuldarinnar er hins vegar misjafnt eftir eignunum.

Fjölskylda A skuldar 30 milljónir (íslenskar krónur og verðtryggt) í húsi sem er metið á 37. 5, þ.a.l. er skuldahlutfallið 80%.

Fjölskylda B skuldar 30 milljónir (gengislán, 50/50 japönsk jen og svissneskir frankar) í húsi sem metið er á 50 milljónir, þ.a.l. skuldahlutfallið er 60%.

Fjölskylda C skuldar 30 milljónir (ísk. verðtryggt) í húsi sem metið er á 60 milljónir, þ.a.l. er skuldahlutfallið 50%.

Um áramótin 2009/10 er staðan hjá þeim eftirfarandi, að teknu tilliti til falls á áætluðu virði fasteigna þeirra og verðbólgu- og gengisþróunar.

A skuldar 40 milljónir, en eignin er nú metin á 30.

B skuldar 70 milljónir, en eignin er metin á 37,5.

C skuldar 40 milljónir, en eignin er metin á 45.

Gerum svo ráð fyrir að þessar fjölskyldur séu að öllu leyti sambærilegar. Sömu fjölskyldutekjur og sama eignastaða á miðju ári 2007. 30 milljóna nettóeignastaða. Eignaskiptingin var hins vegar þannig að A var með 7,5 milljónir bundið í fasteign, en 22,5 milljónir á bankabók. B var með 20 milljónir í fasteign, en 10 milljónir á bók. C var með 30 milljónir í fasteign, en ekkert á bók.

Gerum ráð fyrir að ávöxtunin á peningum á bók á þessu þrjátíu mánaða tímabili hafi verið nettó 20%.

A á núna 27 milljónir á bók, B á 12, en C ekki neitt.

Fyrsta aðferð:

Miðað við núverandi úrræði banka og stjórnvalda fá fjölskyldurnar eftirfarandi afgreiðslu á sínum skuldavanda:

A fær afskrifaðar 7 milljónir og þar sem sú afskrift telst líkast til “hófleg” verður ekki um skattgreiðslu að ræða af þessari afskrift. Skuldar nú 33 milljónir.

B fær afskrifaðar 28,75 milljónir, afgangnum beytt í íslenskt verðtryggt lán, en þar sem afskriftin er “’óhófleg” þarf hún að greiða tekjuskatt af líklega helmingi upphæðarinnar, líklega kringum 6 milljónir. Skuldar nú 41,25 milljón í húsinu og skattinum 6 milljónir, samtals 9,75 milljón umfram verðmat fasteignarinnar.

C fær enga afskrift.

Nettó eignastaða þeirra hefur breyst þannig að A á nettóeign upp á 24 milljónir, B á nettóeign upp á 2,25 milljónir og C á nettóeign upp á 5 milljónir. Nettótap þeirra á hruninu er A 6 milljónir, B 27,75 milljónir og C 25 milljónir.

Önnur aðferð:

Ef hins vegar ríkið hefði ekki ákveðið að tryggja allar innistæður, heldur eingöngu miða við lágmarkstryggingu, og gerum ráð fyrir að fyrir hverja fjölskyldu hefði það orðið samtals 10 milljónir, liti dæmið öðru vísi út.

Bætum í reikningsdæmið almennum skuldaafskiftum og, í ljósi mismunandi stöðu verðtryggðra- og gengislána, gefum okkur 25% afskrift annars vegar og 40% afskrift gengislána (og 10 prósent nettóávöxtun sparifjárs frá bankahruni til ársloka 2009).

A skuldar eftir það 30 milljónir í 30 milljóna húseign og á 11 milljónir á bók. Þ.a.l. nettóeignastaða 11 milljónir og nettótap á hruninu 19 milljónir.

B skuldar eftir það 42 milljónir í 37,5 milljóna húseign og á 11 milljónir á bók. Þ.a.l. nettóeignastaða 6,5 millón og nettótap á hruninu 23,5 milljónir.

C skuldar eftir það 30 milljónir í 45 milljóna húseign, nettótap á hruninu 15 milljónir.

Þriðja aðferð:

Allar innistæður voru hins vegar tryggðar, þ.a. ef við miðum eingöngu við almennar afskriftir en óbreytta niðurstöðu á bankabók eins og í fyrsta dæminu er niðurstaðan eftirfarandi:

A skuldar 30 milljónir í 30 milljóna húseign og á 27 milljónir á bók. Nettóeignastaða er 27 milljónir og nettótap á hruninu 3 milljónir.

B skuldar 42 milljónir í 37,5 milljóna húseign og á 12 milljónir á bók. Nettóeignastaða er 7,5 milljónir, sem getur enn lækkað um einhverjar milljónir vegna “óhóflegra” afskrifta. Nettótap á hruninu er þanni á bilinu 22,5 til 29 milljónir.

C skuldar 30 milljónir í 45 milljón krona húseign. Nettóeignastaða er 15 milljónir og nettótap á hruninu 15 milljónir.

--------------------------

Kíkjum nú í heimsókn til annarra þriggja fjölskyldna. Fjölskylda A er ung, fyrirvinnurnar um 35 ára og þ.a.l. ekki búnar að vinna sér upp neinn sparnað umfram nettóeignina í húsinu. Höfuð fjölskyldu B eru rúmlega fimmtug og ákváðu að leyfa sér stærra hús til að hýsa unglingana og hafa meira pláss. Fjölskylda C eru komin yfir sjötugt, eiga hús á ágætum stað sem skýrir að hluta til hærra verð, voru ekki búin að ná að minnka við sig og bættu í lánum fyrir viðhaldi. Eignamunur á milli þessara fjölskyldna þ.a.l. eðlilegur og beinlínis æskilegur, en hann var allur bundinn í fasteign. Ekki er um að ræða verulegan sparnað á bók, en fasteignirnar eru sambærilegar við fjölskyldur A, B og C hér á undan.

Beitum á þau annars vegar þeim úrræðum sem bankar og stjórnvöld standa fyrir, að metöldum áætluðum skattlagningum á “óhóflegar” skuldaafskriftir.

A skuldar eftir afskrift 33 millur af 30 milljóna eign. Eignastaða farin úr 7,5 milljónum í plús í 3 milljónir í mínus, eiginfjársveifla neikvæð upp á 10,5 milljónir.

B skuldar eftir afskrift 41,25 millur í 37,5 milljóna eign. Eignastaðan farin úr 20 milljónum í plús í 3,75 í mínus, eiginfjársveifla neikvæð upp á 23,75 milljónir, og tæpar þrjátíu milljónir verði afskriftin skattlögð.

C fær enga afskrift og neikvæð eiginfjársveifla er því 25 milljónir.

Með hins vegar jafnri 25 % afskrift verðtryggra skulda og 40% afskrift gengiskulda verður niðurstaðan eftirfarandi:

Nettóskuldastaða A er 0, eiginfjársveifla neikvæð um 10 milljónir.

Nettóskuldastaða B er 4,5 milljónir, eiginfjárssveiflan neikvæð um 24,5 milljónir. Með skattlagningu afskriftar gæti skuldin orðið yfir 10 milljónir og eiginfjársveiflan neikvæð um og yfir 30 milljónir.

Nettóstaða C er 15 milljónir í plús, en eiginfjársveiflan engu að síður neiðkvæð um 15 milljónir.

Hvað segir þetta okkur?

Niðurstöðurnar sem ég dreg af þessu eru aðallega þessar:

  • Almenn hlutfallslega jöfn skuldaniðurfelling tryggir skársta jafnræði og sanngirni.
  • Þau sem tóku gengislán eru í mestri hættu að koma illa út úr hvort heldur sem 110% reglu eða almennri skuldaafskrift þar sem “tölulega” eru mestar líkur á að þeirra afskriftir teljist fram úr “hófi” og sæti þ.a.l. skattlagningu ofan á það tap sem þau þegar hafa orðið fyrir.
  • Engin aðferð tryggir hins vegar fullkomið jafnræði.
  • Almenn afskrift, án skattlagningar, mun hins vegar án efa leysa vanda flestra heimila. Dregur þ.a.l. verulega úr þörf á endalausum sérlausnum og sértækum aðgerðum. Þeirra verður engu að síður án efa þörf fyrir einhverja.
  • Afleiðingar hrunsins fyrir skuldara þessa lands eru svo hörmulegar að sama hvaða aðferð verður beitt við skuldaafskriftir einstaklinga á fasteigna- og bílalánum er hæpið að nokkur “græði” á afskrift. Fyrirætlanir um skattlagningu þeirra afskrifta eru því stórfurðulegar.
  • Trygging á öllum innistæðum í bönkum innanlands án hámarks er og verður aðgerð sem orkar verulega tvímælis, svo ekki sé meira sagt. Í því fólst stórkostleg mismunun á meðhöndlun eigna eignafólks, og allt í boði skattgreiðenda.

sunnudagur, 7. mars 2010

Law of Unintended Consequences

Nú þegar þjóðaratkvæðagreiðslan er um garð gengin er ekki úr vegi að velta fyrir sér öðrum áhrifum hennar en beinlínis þeim að hafna nýjum Icesave lögum staðfestingar – “The Law of Unintended Consequences”.

Forseti lýðveldisins er orðin áhrifamesti stjórnmálamaður landsins. Líkast til getur hann nú óhikað setið eins mörg kjörtímabil og honum sjálfum sýnist, en fyrir rétt rúmum tveimur mánuðum var hann nánast “lame duck” í embætti.

Sami Forseti, og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, urðu í fyrsta sinn í sögunni pólitískir samherjar.

Sjálfstæðisflokkurinn gerðist óvænt helsti talsflokkur beins lýðræðis og kúventi í afstöðu sinni til valds Forseta til þess að hafna lögum staðfestingar.

Formenn Samfylkingar og Vinstri Grænna lýstu beint lýðræði “marklaust”.

Vinstri hreyfingin - Grænt framboð, reyndist ekki vera hreyfing, heldur "pólariseraður" flokkur þar sem fram fer klassísk pólitísk valdabarátta fylkinga innan hans.

Formaður Framsóknarflokksins, stofnaðili InDefense, og harðasti baráttumaður gegn Icesave á þingi, virðist ekki enn njóta þess í persónulegu fylgi, né virðist það efla fylgi flokksins í skoðannakönnunum. Nú þarf að vanda næstu skref, Sigmundur. Er líf eftir Icesave?

Dómsdagsfréttamenn í stjórnmálum reynast líkast til naktir, rétt eins og keisari H. C. Andersen. Í stað alþjóðapólitískrar einangrunnar hefur samúð með með íslenskum málstað erlendis frekar aukist en hitt. Alþjóðlegar áhyggjur af einangrun Íslands hefur breyst í áhyggjur af áhrifum íslenska nei-sins á almenning í öðrum löndum.

InDefense hefur líklegast sýnt og sannað að til þess að “fjöldahreyfing” nái árangri þarf hún að vera skipulögð af miðaldra karlmönnum í jakkafötum, en ekki ungu hugsjónafólki með kassagítar.

Og langt er í að öll kurl komist til grafar í ófyrirséðum afleiðingum þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Sjálfum myndi mér hugnast mest að íslenskir stjórnmálamenn tækju sér orð Torbjörn Egner til fyrirmyndar: “Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir...”