miðvikudagur, 28. október 2009

Viljalaus verkfæri og vænissýki

Fyrst var það Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og nú er það nafni minn Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Samkvæmt AMX, virðast þessir menn ekkert annað en viljalaus verkfæri í höndum ríkisstjórnar Íslands, eða það má a.m.k. lesa úr fuglahvísli gærkvöldisins þar sem bísnast er yfir því að nafna hafi látið sér fátt um finnast að formaður systurflokks hans á Íslandi hafi skammast vegna stuðningsleysis út af Icesave.

"Sænski forsætisráðherrann gefur svo snautlegt svar, af því að hann á orðastað við stjórnarandstöðuþingmann á Íslandi, ríkisstjórn Íslands hafi sömu afstöðu og ríkisstjórnir annars staðar á Norðurlöndunum, þegar grannt sé skoðað."

Í pistlinum er svo tækifærið að sjálfsögðu nýtt til að gera nafna upp annarlegar hvatir hvað varðar stuðning hans við ESB-aðildarumsókn Íslands.

Á vænissýkin sér engin takmörk?

föstudagur, 23. október 2009

ICESAVE mannasiðir

Ekki hefur borið á öðru en að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi telji að semja verði um ICESAVE.

Þó því hafi verið fleygt fram í orðræðu að íslenska ríkið eigi ekki að gangast í ábyrgð fyrir skuld vegna háttalags einkaaðila, hafa gjörðir og tillögur þeirra þó aldrei borið annað með sér en að þeir telji að semja verði um málið.

Liður 2 í "Plan B" Framsóknarflokksins leggur beinlínis til að 1 til 2 mánuðir til viðbótar verði nýttir til að semja um ICESAVE.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lagt til annað en að semja verði um ICESAVE.

Þ.a. það sem er að núverandi samningi, samkvæmt stjórnarandstöðunni, er að hann er ekki nógu góður.

Vextirnir of háir. Greiðsluskilmálar ekki nógu sanngjarnir. Dregin er í efa lagaleg ábyrgð, þó hún hafi engu að síður verið staðfest aftur og aftur af íslenskum ráðamönnum, með beinum og óbeinum hætti.

Samninganefndin var víst líka vitlaust skipuð.

Um þetta má allt deila, vissulega. Í stóru máli sem þessu hefði verið æskilegra að upphaflega samninganefndin hefði haft breiðara pólitískt bakland og umboð og það hefði verið endurspeglað í samsetningu hennar.

Það má líka velta fyrir sér hvort ekki hefði verið hreinlegra af Alþingi að fella upphaflegu samningsdrögin, í stað þess að fara út í þær æfingar að semja við sjálft sig.

Niðurstaðan varð jú sú að í reynd fóru fram nýjar samningaviðræður og niðurstaðan eru endurbættir ICESAVE-samningar.

Hefði verið hægt að ná lengra? Um það má líka deila, en ekki er það endilega líklegt, og þá viðbótar árangur varla lítið annað en eilítill stigsmunur, en ekki eðlis, á árangri - kannski.

Af orðbragði sumra sem mæla gegn nýjum samningum má hins vegar velta fyrir sér hversu miklum árangri þeir myndu ná í samningaviðræðum við breta og hollendinga.

"Þið fjárkúgarar, misbeitingarmenn og nýlenduherrar – gefið okkur betri díl!"

Ég sé fyrir mér hvernig samninganefndir þeirra lyppast niður á fyrsta fundi!

Er ekki kominn tími til að slaka aðeins á fúkyrðaflaumnum?

Og reyndar ekki bara hvað varðar ICESAVE...

miðvikudagur, 7. október 2009

Pappírstjónið

Haft var eftir viðskiptaráðherra á Alþingi í gær að hrunið "væri í eðli sínu tjón á pappír og raunveruleg verðmæti landsins hefðu lítið breyst." Þetta er laukrétt hjá ráðherranum.

Vandinn er hins vegar sá að ríkisstjórnin sem hann situr í, og Seðlabankinn sem hann er núna yfir, meðhöndla þetta pappírstjón eins og það sé raunverulegt.

Við hrunið var gripið til misheppnaðra björgunaraðgerða þar sem peningar voru prentaðir og dælt út til að reyna að bjarga hinu brennandi bankakerfi. Seðlabankinn gáði þar ekki að sér og tók ekki almennileg veð fyrir því fé sem hann veitti til björgunarstarfsins. Ríkisstjórnin að sama skapi studdi og hvatti til vafasamra gerninga þar sem peningar voru prentaðir til að bæta fólki tjón vegna misferlis í umsýslu á peningamarkaðssjóðum bankanna.

En allt kom fyrir ekki.

Í bókhaldi ríkisins og bókhaldi Seðlabankans lifa hins vegar áfram vegsummerkin eftir misheppnaðar björgunaraðgerðir hrunsins – pappírspeningarnir sem prentaðir voru til að bæta fyrir pappírstjónið lifa nú sem annað og meira en pappírsskuld.

Stór hluti u.þ.b. hundrað milljarða vaxtakostnaðar ríkisins á næsta ári, sá hinn sami og veldur fjárlagahalla og gerir nauðsynlegan óheilbrigðan niðurskurð t.d. í heilbrigðiskerfi landsins, er þannig til kominn vegna þessa pappírstjóns – og ríkir refsar þar sjálfu sér fullkomlega að óþörfu.

Pappírstjónið lifir nefnilega – á pappírnum!

Hinn knái, og ekki svo smái viðskiptaráðherra, er hins vegar "on to something".

Nú þegar ár er liðið frá hruni er nefnilega komið að því að tekið verði á pappírstjóninu og það hreinsað úr kerfinu. Það er einfaldlega gert þannig að efnahagsreikningar ríkisins og Seðlabankans eru gerðir upp á nýtt og pappírsskuldir ríkisins við Seðlabankann þurrkaðar út. Þar fer fremst í flokki skuldin vegna 300 milljarðanna frægu þar sem enginn er kröfuhafinn.

Með sama hætti má einnig þurrka út aðrar pappírsskuldir vegna hrunsins og skipta út ríkisskuldabréfum, sem bera bæði vexti og halda fé frá raunverulegri atvinnuuppbyggingu, fyrir skuldabréf sem í daglegu tali við köllum "peninga" sem ekki bera vexti og verða án ríkisbréfa líkast til helst notaðir til fjárfestinga í íslensku efnahagslífi.

Stóru mistökin í því pappírstjóni sem við erum að eiga við afleiðingarnar af nú um stundir, eru einmitt þau að Seðlabankinn, sá sem viðskiptaráðherrann er nú yfir, heldur uppi vaxtastigi sem er úr öllu korti við stöðu efnahagsmála – og framlengir þannig enn frekar pappírstjónið. Einnig eru það mikil mistök að halda að vextir Seðlabankans séu aðalatriðið í því að verja gengi gjaldmiðilsins, þegar gengið endurspeglar fyrst og fremst trú á virði þess hagkerfis sem gjaldmiðillinn vinnur fyrir.

Gengi gjaldmiðilsins verður þannig mun frekar styrkt með því að efla íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þannig skapast raunveruleg arðsemi, en ekki pappírsarður án innistæðu eins og gerist í núverandi vaxtastefnu Seðlabankans.

Það þarf að koma fjármagni á hreyfingu þ.a. það sé fyrst og fremst að vinna fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf, en liggi ekki dautt og ónotað á bankareikningum. Sú aðferðafræði veldur því að Seðlabankinn í reynd er ekki að gera annað enn að prenta peninga til að greiða okurvexti fyrir fé sem leggur ekki til neinnar verðmætasköpunar.

Hér þarf sem sagt peningalega endurstillingu og það án tafar.

Fyrsta skrefið í því verður væntanlega að vera forræðissvipting viðskiptaráðherra á peningastjórn Seðlabankans.

Svo ekki verði meira "pappírstjón".

Sem meiðir ekki bara á pappírnum!

mánudagur, 5. október 2009

Enn af ICESAVE

Haft var eftir Clemenceau að stríð væri of alvarlegt til þess að vera eftirlátið herjum ("La guerre! C’est une chose trop grave pour la confier à des militaires.")

Að sama skapi er lögfræði of mikilvæg til þess að vera eftirlátin lögfræðingum og hagfræði of mikilvæg til þess að vera eftirlátin hagfræðingum.

Lögfræðingum er stundum legið á hálsi að túlka ákvæði laga í samræmi við hagsmuni þess sem borgar þeim reikninginn. Lögfræði býr líka við þá ímynd að þar fari oft meira fyrir þrætum og umbúðum en raunverulegri fræðimennsku. Lögfræði er hins vegar marglaga og flókin, og ljóslega eru þar, þrátt fyrir oft góðan vilja, línur ekki jafn hreinar og beinar og menn vildu.

Lögfræði er líka afsprengi stjórnmála, jaðarvísindi pólitískra málamiðlanna strangt tiltekið.

Þetta er rétt að hafa í huga þegar hlustað er á söngin "við borgum ekki, við borgum ekki" af þeim sem fullyrða blákalt að Ísland og íslendingar geti með einum eða öðrum hætti komið sér undan ábyrgð og greiðslum hvað varðar ICESAVE.

Horfum til þess að ekki einungis hafði Ísland gengist undir sameiginlegar reglur um tryggingainnistæður, heldur og ákveðið strax við hrun að tryggja allar innistæður á íslenskum kennitölum til fulls - án þess að fyrir því væri nokkur lagaheimild.

Einnig að stunda vafasamar æfingar til þess að tryggja bróðurpart innistæðna í peningamarkaðssjóðum.

Reyna átti hins vegar að útiloka frá þessum æfingum að tryggja innistæður á íslenskri ábyrgð þar sem engin var íslensk kennitalan.

Og jafnvel reynt að fullyrða að í þessu fælist engin mismunun eftir þjóðerni þar sem það væru jú til einhverjir útlendingar sem hefðu íslenska kennitölu og ætti innistæðu á íslenskum banka og hefðu þ.a.l. sína innistæðu trygga.

Þetta plott gekk ekki upp. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem hér sat fyrir ári síðan gekkst við ábyrgð og staðfesti þann vilja. Alþingi sem þá sat staðfesti slíkt hið sama.

Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna sem tók við sl. vetur í reynd staðfesti slíkt hið sama, og höfum í huga að Framsóknarflokkurinn gerði viðsnúning í ICESAVE ekki að skilyrði fyrir stuðningi sínum við þá stjórn.

Núverandi ríkisstjórn hefur svo staðfest samning, sem að sjálfsögðu má deila um hvort hafi verið nógu góður, og núverandi Alþingi hefur staðfest þann samning, með fyrirvörum.

Þ.a. þrjár ríkisstjórnir og tvö þing, með fulltingi fjögurra stærstu flokka hafa í reynd viðurkennt íslenska ábyrgð á ICESAVE með aðgerða eða aðgerðaleysi sínu.

Hvernig komast ætti framhjá þeirri staðreynd ef einhver findist rétturinn til að fjalla um hvort Ísland eigi að bera þá ábyrgð yrði a.m.k. athyglisvert að fylgjast með.

fimmtudagur, 1. október 2009

Verst rekni banki landsins

Það er vert að hafa í huga í ljósi síðustu gerninga og tilkynninga hagfræðisértrúarsafnaðarins í Seðlabanka Íslands að Seðlabankinn er og hefur verið m.v. skoðun ársreikninga síðustu ára einn verst rekni banki landsins. Fimm af síðustu sex árum voru rekin með tapi - og á því síðasta varð bankinn í reynd gjaldþrota. Þetta þrátt fyrir hæstu þjónustugjöld á byggðu bóli í formi okurvaxta.

Áfram er svo þessi bankinn rekinn á sömu fílósófíu.

Nú er rifist um ICESAVE enn eina ferðina. Blekkingarleikur um hvort og hvernig megi flýja hið óumflýanlega. Samt er hugsanlegur skaði af ICESAVE einungis brot af þeim skaða sem við vinnum okkur sjálf þökk sé viðvarandi efnahagslegri villutrú Seðlabankans.

Eftir efnahagslegt hrun verður að grípa til róttækra aðgerða.

Tryggja þarf peningamagn í umferð, þ.a.l. á ekki að gefa út ný ríkisskuldabréf.

Innlánsvextir a.m.k. verða lækka niður í nánast núll, jafnvel þó útlánsvöxtum verði haldið hærri eitthvað áfram.

Í núverandi ástandi þarf að koma fjármagni á hreyfingu. Á meðan að bjóðast tryggir innlánsvextir í boði Seðlabankans upp á næstum 10% er enginn hvati til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.

Peningaprentun er ekki öll slæm, en peningaprentun sem byggir á engu öðru en prentun til að greiða fyrir innlánsvexti án nokkurrar verðmætasköpunar er í núverandi umhverfi eingöngu til ills.

Það verður að koma böndum yfir bankann. Hann er rekstrarlega, hugmyndafræðilega og hagfræðilega gjaldþrota.

Skilanefnd?