fimmtudagur, 30. desember 2010

Plásturinn af...

Það streyma fram tíðindin í efnahags- og peningamálum nú í lok ársins. Seðlabankinn birti skýrslu um peningastefnu eftir höft skömmu fyrir jól og strax eftir jól birti efnahags- og viðskiptaráðherra grein með vangaveltum um framtíðarfyrirkomulag peningamála.

Helgarblaðið Fréttatíminn birtir svo í dag ágæta umfjöllun um fyrrnefnda skýrslu, grein ráðherrans og stutt viðtöl við pólitíska fulltrúa annarra stjórnmálaflokka.

Eins og við er að búast greinir menn á um leiðir, en í grein efnahags- og viðskiptaráðherra er kallað eftir víðtæku samráði um framtíðar peningastefnu. Seðlabankinn virðist helst mæla með að stefnt verði að upptöku evru með aðild að ESB, en hugsanlegur næst-skársti kostur sé einhverskonar fastgengisstefna gagnvart evrunni.

En allt er þetta víst erfitt, flókið og ekki til neinar patentlausnir.

Sem er er ekki alls kostar rétt.

Málið er að þetta þarf ekki að vera sérstaklega flókið og víst eru til patentlausnir. Vandinn er kannski einna helst sá að menn neita annars vegar að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir og hins vegar að líta til þeirra fordæma sem finna má í ekki allt of fjarlægri fortíð m.a. frá einhverju best heppnaða hagkerfi veraldar.

Má ég reyndar til með að skjóta hér að gagnrýni á hagfræðikennslu hér á landi sem virðist einblína á töflureiknishagfræði, en kennir ekki hagsögu að neinu marki, nema að því er virðist lítin kúrs um sögu hagkenninga.

Flestir virðast sammála um það að okkar núverandi gjaldmiðill, íslenska krónan, sé meira og minna ónýt. Samt er hummað og ha-að yfir því að gera það sem nauðsynlegt er, og veita henni náðarhöggið. Í skjóli gjaldeyrishafta og verðtryggingar er lífi haldið í gjaldmiðlinum í þeirri veiku von, sem er vissulega mjög íslensk, að "þetta reddist".

Peningamagn úr böndunum

Mikið hefur gert úr því að eitt af því sem veldur erfiðleikum varðandi hugsanlegt afnám gjaldeyrishafta er hvernig erlendir eigendur íslenskra peningabréfa bregðist við. Munu þeir allir ryðjast á brott og skipta sínum íslensku peningaeignum í erlendan gjaldeyri eins fljótt og auðið er? Svarið við þeirri spurningu er einfalt já, og þar sem talið er að þær eignir hlaupi á hundruðum milljarða (líklega kringum 400 rekur mig minni til) er nokkuð ljóst að gengið getur ekki annað en hrunið þar sem m.v. núverandi gengi myndi gjaldeyrisforðinn nokkurn veginn klárast að óbreyttu eingöngu við að hleypa útlendingunum á brott.

Stærra mál sem menn hafa algerlega leitt hjá sér er krónueign innlendra aðila. Af hverju ætti nokkur íslendingur að vilja halda í peningabréfaeign í íslenskum krónum við afnám hafta? Þrýstingurinn við afnám gjaldeyrishafta verður þ.a.l. engir 400 milljarðar, heldur eflaust nær 1000 ef ekki meira.

Í þessu samhengi er gott að líta til þess hverjar krónuskuldbindingarnar í íslenska hagkerfinu eru og hvernig þær hafa vaxið. Peningamagn í umferð hefur margfaldast á undanförnum áratug, og það sem athyglisverðast er, er að það hefur áfram aukist eftir hrun.

Í lok árs 2001 var M3 peningamagn (samtala M2 (peningamagn og almenns sparifjár) og bundinna innlána) tæpir 343 milljarðar króna. M4 peningamagn (peningamagn og sparifé (M3) að viðbættri innlendri verðbréfaútgáfu) 392,6 milljarðar. Í lok árs 2007 voru gildin fyrir sömu mælingar peningamagns orðnar 1.230 milljarðar fyrir M3 og tæpir 1.637 milljarðar fyrir M4. Eftir hrun, í lok árs 2009 var staðan þannig að M3 stóð í 1.606 milljörðum. M4 var í lok árs 2008 komið í um 1.943 milljarða, en mér sýnist að sú tala hafi lækkað í um 1.626 milljarða undir lok árs 2009 sem endurspeglar væntanlega afskrift innlendrar verðbréfaeignar í kjölfar hrunsins.

Heildar innlendar skuldir íslensks banka- og peningakerfis hafa vaxið úr tæpum 500 milljörðum 2001 í næstum 3.500 milljarða undir lok nóvembers síðastliðinn. Heildar erlendar skuldir í íslenskum krónum talið hafa aukist úr 417,5 milljörðum 2001 í tæpa 433 milljarða í lok nóvember sl. eftir að hafa risið hæst skv. tölum Seðlabankans í rúma 10 þúsund milljarða 2008.

(Þeir sem vilja skoða gögn seðlabankans geta gert það hér í Ársskýrslu 2008, bls. 62, Árskýrsla 2009, bls. 84, og nýjustu upplýsingar um stöðu bankakerfisins í bankatöflum Seðlabankans.)

En í stuttu máli er staðan orðin þannig varðandi okkar ágæta gjaldmiðil að skuldbindingar honum tengdar eru komnar langt út fyrir öll velsæmismörk og það sem getur talið sjálfbært í okkar hagkerfi, sérstaklega í kjölfar hrunsins. Það er ekki hægt að skattleggja þjóðina út úr þessum vanda, það verður að gengisfella hana út úr þessum vanda.

Það gengisfall getur hins vegar ekki orðið með hefðbundnum hætti þar sem það myndi einfaldlega þýða hrun þjóðfélagsins, auk þess sem hið eilífa fjármálaheróinfix íslenska fjármálakerfisins, verðtryggingin, kemur í veg fyrir að slík leiðrétting gangi alla leið.

Þýska leiðin

Sú staða sem Ísland er í, er í sjálfu sér ekki einstök og hægt er að ná þjóðinni úr þessu öngstræti, en með mjög róttækum aðgerðum. Fyrsta skrefið á þeirri leið er að aflétta þeim hugsunarhætti að peningaleg eign njóti sérstakrar ofurverndar umfram aðrar eignir. Það verður að slíta þann streng. Vissulega gæti staðan verið ennþá verri, hefðu stjörnvöld haustið 2008 reynt að ábyrgjast erlendar skuldbindingar bankakerfisins, en sem betur fer var það ekki hægt. Vandinn er hins vegar sá að meira og minna var gengist í ríkisábyrgð fyrir öllum innlendum skuldbindingum banka- og peningakerfisins, langt umfram efnilegar innistæður. Það er sá vandi sem hangir yfir okkur í dag og reynt er að ýta á undan okkur með gjaldeyrishöftunum fyrst og fremst.

Þýskaland hefur í þrígang á síðustu öld staðið frammi fyrir þeim vanda að vera með ónýtan gjaldmiðil. Í öll þrjú skiptin var gripið til óvenjulegra og mjög róttækra aðgerða sem allar gengu upp efnahagslega. Fyrst gerðist það 1923-24 þegar Þýskaland náði sé út úr vítahring óðaverðbólgu með upptöku rentenmark og síðar reichsmark. Í annað sinn gerðist það 1948 með upptöku Deutsche Mark í stað Reichsmark, og í þriðja sinn gerðist það 1990 við sameiningu Þýskalands og útskiptinu austur-þýska marksins fyrir það vestur-þýska.

Gjaldmiðilsbreytingin 1923-24 var gert í reynd auðveldar fyrir þar sem allar peningalegar eignir í þáverandi þýskum gjaldmiðli höfðu þá þegar brunnið upp á verðbólgubálinu mikla.

Gjaldmiðilsbreytingin 1948 hins vegar varð hins vegar þess valdandi að auðlegð sem eingöngu byggðist á peningalegum eignum þurrkaðist nánast upp. Það hins vegar var það verð sem greiða þurfti fyrir efnahagslega endurreisn Þýsklands.

Kjarninn í gjaldmiðilsbreytingunni 1948 var hins vegar sú að í fyrsta lagi var ákveðið að taka upp nýja mynt, Deutsche Mark í stað Reichsmark. Í öðru lagi, og öllu mikilvægara, var sú ákvörðum að mismunandi gengi yrði á yfirfærslum fjárskuldbindinga úr gamla gjaldmiðlinum yfir í þann nýja. Laun t.d. fóru á genginu einn á móti einum, smærri peningaeignir á genginu tíu á móti einum, en stærstu fjárskuldbingar á genginu tíu á móti 0,65 (0,65 Deutsche Mark fengust s.s. fyrir hver 10 Reichsmark).

Samhliða þessari breytingu var jafnframt aflétt flestum viðskiptahindrunum, gjaldeyrishöftum og vöruskömmtunum. Og já, einnig voru skattar lækkaðir og skattkerfið einfaldað.

Afleiðingin var sú að þýskt efnahagskerfi hrökk í gang og framhaldið var líkast kraftaverki, enda æ síðar kallað wirschaftswunder, eða efnahagsundur. (Lesa má eilítið um þetta hér og hér.)

Sama grundvallarregla var síðan höfð til viðmiðunar við sameiningu Þýskalands, laun fóru á einu gengi, innistæður á öðru og stærri fjárskuldbindingar á því þriðja.

Lærdómur fyrir Ísland?

Af efnahagssögu Þýskalands á síðustu öld má því draga ýmsa lærdóma fyrir Ísland í þeirri stöðu sem landið er nú statt í. Fyrst og fremst þá að smáskammtalækningar duga skammt og draga einungis sársaukan á langinn. Núverandi stjórnvöld tóku vissulega við erfiðu búi, en ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða má allt eins búast við núverandi stjórnar verði alveg eins minnst sem hrunstjórnar tvö, eða stjórnar hinna glötuðu tækifæra.

Hér mætti t.d. fara út í sambærilegar aðgerðir og í Þýskalandi með upptöku nýs gjaldmiðils og beitingu mismunandi gengis við yfirfærsluna. Laun, lágmarksinnistæður og almennt vöruverð færu á einu gengi, en allar stærri fjárskuldbindingar á öðru og mun lægra gengi. Öll ríkisskuldabréf, húsbréf o.s.frv. yrðu innkölluð og gefin út ný í nýjum gjaldmiðli. Og já, verðtrygging yrði afnumin í einum vettvangi. Í þessu fælist stórtæk niðurfærsla peningalegra eigna og –skulda.

Til þess að auðvelda og flýta þessari aðgerð væri t.d. hægt að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil sem hefði nákvæmlega sama gengi og Evran og því lýst yfir að til a.m.k. næstu 5 ára yrði fylgt hreinni fastgengisstefnu. Samhliða yrði því lýst yfir að Evra væri gjaldgeng sem lögeyrir á Íslandi og þá mætti í reynd spara sér útgáfu á nýja íslenska gjaldmiðlinum í seðlum og myntum og eingöngu hafa hann sem rafrænan gjaldmiðil. Seðla- og myntþörf yrði einfaldlega mætt með því að nota evrur.

Róttæk aðgerð af þessu tagi yrði sambærileg við það að rífa plástur af sári. Það að viðhalda sáraumbúðum og bómullarinnpökkun krónubréfaeigenda er nokkuð sem við höfum ekki efni á, og langdregið afnám sáraumbúðanna mun einungis valda illbærum sársauka og tjóni.

föstudagur, 17. desember 2010

Friðarflan

Það er jafnan erfitt að eiga í vitrænum umræðum á Íslandi um öryggis- og varnarmál. Tilhneigingin er svo rík hjá mörgum að detta í kúmbæja-ruglið um hina friðelskandi og herlausu þjóð.

Eins og íslendingar séu með eitthvað ríkari friðarþrá en aðrir.

Hins vegar er þetta bábilja sem alið hefur verið á árum og áratugum saman. Ágætis mýta sem á ákveðnar rætur í þeirri niðurlægingu sem landið varð fyrir þegar það var afvopnað af erlendum konungi. Reyndar einkum til að bjarga þjóðinni frá sjálfstortímingu, enda hafði fram að þeirri afvopnun allt logað hér í ættbálkastyrjöldum.

Í kjölfar þeirrar ógnar viðburða sem urðu í fyrri heimstyrjöldinni, samhnýtt við nýfengið fullveldi og hlutleysisyfirlýsingar frændþjóða, að viðbættri þeirri staðreynd að sökum fámennis var vart hægt að stofna á Íslandi mikinn alvöruher, var búin til mýtan um hina herlausu og friðelskandi þjóð. Verður að segjast að það er líklega með betur heppnuðum innri ímyndar "herferðum" á Íslandi, því ótrúlega margir virðast ginnkeyptir fyrir henni.

Mýta þessi hefði náttúrulega átt að líða undir lok strax í maí 1940 þegar landið var hernumið af bretum. Enn frekar ári síðar þegar að herverndarsamningurinn var gerður við Bandaríkin.

En í hana var haldið. Meira að segja vildi hin "friðelskandi" þjóð ekki verða stofnaðili af Sameinuðu þjóðunum þar sem í því hefði falist að bein pólitísk afstaða hefði verið tekin með bandamönnum gegn möndulveldunum.

Ísland gerði s.s. í alþjóðapólitísku samhengi engan greinarmun á nasistum og bandamönnum. Já, það má vera stolltur af slíkri friðarást!

Sem betur fer rann þó af ráðamönnum ruglið og ekki var einungis gengið í Sameinuðu þjóðirnar heldur og gengið í varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO, ásamt því að gerður var varnarsamningur við Bandaríkin. Lauk þar með í reynd herleysi Íslands. Her hefur nefnilega verið nokkurn veginn samfellt hér á landi frá 1940 til 2006 með fullri vitund og vilja íslenskra stjórnvalda. Frá 2006 hefur vera herliða í landinu verið stopulli, en hún er þó viðvarandi og í samræmi við alþjóðaskuldbindingar og óskir íslenskra stjórnvalda.

Í þessu samhengi er skemmtilegt að skoða tvær fréttatilkynningar frá því í gær. Önnur er frá borgarráði, samþykkt samhljóða, og er "áskorun á utanríkisráðuneytið og flugmálayfirvöld að beita sér fyrir því að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll verði stöðvuð."

Hin er fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins um að lokið sé gerð "alþjóðasamnings um leit of björgun á norðurslóðum."

Hún er ósköp falleg hugsunin á bakvið áskorun borgarráðs, en hún er kjánaleg, og jafnvel beinlínis lífshættuleg.

Fyrir utan það að þó það herflug sem fer um Reykjavíkurflugvöll sé yfirleitt frekar sakleysislegt, þá er sumt af því okkur lífsnauðsynlegt. Borgarráð t.d. virðist ekki gera sér grein fyrir að allt flug þyrla af dönskum varðskipum er herflug. Dönsk varðskip eru nefnilega herskip og tilheyra danska flotanum. Í því hallæri á undanförnum árum sem Landhelgisgæsla Íslands hefur búið við í þyrlumálum eru ófá skiptin sem okkar dönsku vinir hafa hlaupið undir bagga. Það er vísast fyrir bí ef áskorun borgarráðs fær einhvern byr.

Og auðvitað ef borgin ætlar að vera samkvæm sjálfri sér, þá hýtur hún að banna ferðir herskipa um hafnir Reykjavíkur, þ.a. ekki verða þá varðskip okkar næstu granna velkomin meir. Hvað þá flotaheimsóknir NATO eða t.d. þýskra skólaskipa sem tilheyra flotanum þar í landi.

Ekki verður viðeigandi heldur að halda aftur ráðherrafundi NATO í Reykjavík, hvað þá ráðstefnur á þess vegum um Norðurslóðir.

Öryggis- og varnarsamtarf við Norðurlöndin og aðrar nágrannaþjóðir getur heldur ekki abbast upp á fröken Reykjavík.

Hvernig tengist þetta svo alþjóðasamningi um leit og björgun á norðurslóðum? Jú, eins og ætti þegar að vera orðið ljóst að þá verða framkvæmdaraðilar að slíkum samningi í miklum mæli einmitt frá hernaðarbatteríum aðildarríkja samningsins.

En það er kannski allt í lagi. Hin friðelskandi og herlausa þjóð vill væntanlega ekki láta bjarga sér af herjum. Hvorki úr sjávarnauð, frá nasistum, þjóðarmorðingjum eða hryðjuverkamönnum!

miðvikudagur, 15. desember 2010

Síðustu dagarnir í Kabúl

Eftir eins og hálfs árs veru í Kabúl, höfuðborg Afganistan, er nú að koma að leiðarlokum. Fyrsta árið starfaði ég í höfuðstöðvum alþjóðaherliðsins, ISAF, og nú síðustu sex mánuði í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Á báðum stöðum snerust verkefnin helst að þróunarmálum og þróunarstarfi í samstarfi alþjóðaherliðs, þróunarstofnanna, bæði tvíhliða og marghliða, og sendiráða. Allt með það að markmiði að reyna að tryggja frið, uppbyggingu og betri framtíð fyrir borgara þessa lands sem hefur þurft að þola miklar hörmungar á undanförnum áratugum.

Þetta hefur sannarlega verið athyglisverður tími og mun ég að sjálfsögðu sakna Kabúl og Afganistan að vissu marki. Veran hér hefur verið ómetanleg lífsreynsla, bæði persónulega og faglega.

Eftir viku mun ég yfirgefa Kabúl og Afganistan í síðasta sinn, í bili að minnsta kosti. Önnur verkefni eru framundan. Kem ég heim til Íslands, Inshallah, seint um kvöld daginn fyrir Þorláksmessu, eða rétt um það leyti þegar friðarhátíðin mikla, jólin, er að ganga í garð.

Í stað yfirþyrmandi mengunar mun ég geta notið fersks fjalla- og sjávarlofts.

Heima á Íslandi mun ég ekki þurfa að líta tvisvar þegar maður á mótorhjóli er á ferð, eða þegar beygluð hvít Toyota Corolla ekur hjá.

Engir brynvarðir bílar, engir vopnaðir öryggisverðir með fingurinn á gikknum, engir skyttuturnar, engir sprengjuveggir eða sandpokar.

Drykkjarhæft vatn úr krananum.

Maturinn...!

Og það mikilvægasta af öllu, fjölskyldan.

Já, þrátt fyrir allt á maður óskaplega gott að vera íslendingur.

Það er gott að hafa í huga nú síðustu dagana fyrir jól.

föstudagur, 19. nóvember 2010

Ferðaþjónustan og LÍÚ

Er það bara ég, eða er ákveðinn samhljómur í röksemdafærslum fulltrúa ferðaþjónustunar gegn gjaldtöku á helstu ferðamannastöðum og útgerðarinnar gegn auðlindagjaldi og endurbótum á kvótakerfinu?

mánudagur, 8. nóvember 2010

Þýzkar naglasúpur

Ég er staddur á alþjóðaflugvellinum í Dúbæ á leið heim frá Kabúl. Sé að pistill minn frá í gær um almennar afskriftir hefur fengið örfá viðbrögð. Einnig hefur Gísli Baldvinsson, Eyjubloggarafélagi minn skrifað um pistilinn lítinn naglasúpupistil þar sem hann hafnar almennum afskriftum.

Þegar ég er kominn heim og búin að sinna öðrum mun mikilvægari forgangsmálum eins og að knúsa konuna, krakkana og afastrákinn, og já fara í a.m.k. nokkra langa göngutúra með voffana mína, mun ég setjast niður og svara krítík og athugasemdum í lengra máli (þó ekki bundnu!).

Almenn afskrift hins vegar getur gerst með ýmsum hætti, með beinum aðgerðum eða óbeinum. Tel ég t.d. nauðsynlegt að samfara slíkri aðgerð verði bæði að afnema verðtryggingu og að taka upp nýja mynt.

Byggi ég það m.a. á reynslu öflugasta hagkerfis í Evrópu, ef ekki í heimi, sem tvisvar gekk í gegnum miklar efnahagshörmungar á síðustu öld þar sem innlendar peningaeignir þurrkuðust nánast út. Í bæði skiptin var farið út í róttækar aðgerðir sem skiluðu mögnuðum árangri. Í síðara skiptið svo mögnuðum að það hefur æ síðan verið kallað wirtschaftswunder.

Þetta er hagkerfi Þýskalands og árin sem um ræðir eru annars vegar 1923 til 1924 og hins vegar 1947 til 1948. En meira um það síðar.

Mikið hlakka ég nú annars til þess að komast heim.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Almenn afskrift – eina vitið

Enn er þráttað um almennar afskriftir lána. Sú sérfræðinganefnd sem nú er að störfum og mun víst kynna niðurstöður sýnar eftir helgi skoðar almenna afskrift sem einn mögulegra valkosta.

Allt frá því að Framsóknarflokkurinn gerði tillögu um almenna afskrift lána að sinni snemma árs 2009, en hún var byggð á ráðleggingum hagfræðinga sem flokkurinn fékk til að vinna með sér að efnahagstillögum, hefur um þetta verið karpað. Sérkennilegast var að þessar tillögur voru úthrópaðar af ýmsum með mikilli fyrirlitningu sem "framsóknartillögur" og þá að sjálfsögðu þýddi það að þær væru um leið stórvarasamar og full ástæða til að tortryggja tillögurnar. Hlaut eiginlega að felast í þeim að afskriftirnar með einum eða öðrum hætti hlytu að renna beint í vasa Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar!

Stóra gagnrýnin var og er spurningin hver á að borga fyrir slíka afskrift.

Þeirri spurningu er í raun og veru auðsvarað.

Allir.

Einfaldasta og skilvirkasta leiðin til almenns skuldauppgjörs af þessu tagi, t.d. með flatri 20% afskrift allra lána er að stofna til sérstaks afskriftarreiknings í Seðlabankanum sem nýttur er til að bæta skuldareigendum skaðan af afskrift. Reikning sem má svo afskrifa. Þetta væri hrein peningaprentun sem hefði þau raunáhrif að draga úr heildarverðgildi gjaldmiðilsins, í sjálfu sér ekkert ólíkt þynningu hlutabréfaeignar með útgáfu viðbótarhlutafjár. Gjaldmiðill okkar, krónan, er jú einskonar hlutabréf í íslenska hagkerfinu.

En rétt eins og þegar hlutabréfaeign er þynnt út með útgáfu aukins hlutafjár, getur peningaprentun kostað núverandi hluthafa ákveðna eignarýrnun. Þynning hlutafjár er hins vegar oftast gerð með langtíma hagsmuni í huga. Sama á við um peningaprentun af þessu tagi.

Höfum einnig í huga að í aðdraganda hrunsins hafði hér verið stunduð mjög öflug peningaprentun á vegum prívatsins, m.a. með mjög vafasömum hætti, og líkast til eitthvað af því beinlínis með glæpsamlegum hætti (understatement) með því að véla með verð hlutabréfa á markaði.

Hins vegar þegar hrunið varð brunnu upp þessi gerviverðmæti. Hrunið var hins vegar það allt um lykjandi að í því brunnu líka upp raunverulegar eignir. Allt verðmat á markaði varð ómarktækt. Búum við í reynd við það ástand enn í dag þar sem gjaldeyrishöft eru viðvarandi og eignir og fyrirtæki ganga ekki að því marki sem þyrfti kaupum og sölu á opnum markaði.

Einhverjir þeirra sem láta almennar afskriftir skulda fara í taugarnar á sér benda á að annars vegar myndi það gagnast einhverjum sem ekki þurfa á því að halda eða ekki eiga það skilið. Það er skrýtin röksemdafærsla. Við bárum öll tjón af þessu hruni. Nema reyndar sérvalinn hópur fjármagnseigenda sem var með megnið af sínu fé á bankareikningum eða fest í verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Sérvalinn er sá hópur þar sem þeim hópi var jú tryggð sín eign langt umfram skyldur og lagaheimildir. Sumir þeirra sem hrópa hæst gegn almennum skuldaafskriftum tilheyra jú einmitt þessum hóp.

Einn stærsti kosturinn við almenna skuldaafskrift er sá að hún hreinsar sviðið og auðveldar eftirleikinn. Auðvitað mun almenn skuldaafskrift ekki duga öllum. En þá liggur jú beinast við að telja að þeim sem það dugar ekki hefðu verið dæmdir til uppgjörs hvort eð er. Almenn skuldaafskrift myndi þannig þjóna vel til þess að greina sauðina frá hrútunum, eða almenna borgara frá þeim sem höfðu farið fram úr sér, eða voru jafnvel hreinir fjárglæframenn. Þannig mætti komast hjá t.d. hallærisuppákomum eins og skjaldborgum um hreina skussa.

Þetta ætti jafnvel við einstaklinga og fyrirtæki. Almenn skuldaniðurfærsla í tilfelli fyrirtækja myndi þannig að sama skapi greina þau skárri frá þeim verri og auðvelda og ýta undir að þau verri fari einfaldlega í gjaldþrotameðferð. Það er hluti af vandanum að ennþá er verið að halda gangandi tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum, sem t.d. bankar hafa yfirtekið og dæla svo í rekstrarfé. Truflar það allt rekstrarumhverfi fyrirtækja innan sama bransa. Að sama skapi er verið að beita skuldaafskriftum sem virðast handahófskenndar og byggðar á hagsmunamati sem hvorki er gegnsætt né endilega sjáanlega skynsamlegt. Það ýtir undir grunsemdir um sérvinavelvild og hyglun sumra á kostnað annarra.

Sem dæmi má taka sjávarútveginn. Það er ekkert að því að láta sjávarútvegsfyrirtæki fara á hausinn. Fiskurinn fer ekkert og höfum í huga að þar sem kvótaeign útlendinga er bönnuð geta erlendir kröfuhafar ekki eignast kvóta ef sjávarútvegsfyrirtæki fer í gjaldþrot. Það verður að selja hann. Hins vegar er það svo að á meðan að fyrirtækjunum er haldið í einhverskonar öndunarvél á vegum bankanna (og kröfuhafa) er kvótaeignin með óbeinum hætti í eigu og undir stjórn hinna erlendu kröfuhafa.

En, í stuttu máli og aftur að upphafspunktinum. Almenn skuldaafskrift er einföld, réttlát og sanngjörn aðferð til þess að rétta af hagkerfi sem orðið hefur fyrir jafn miklum skakkaföllum og það íslenska. Hana má framkvæma þannig að valdi sem minnstum skaða sem dreifist nokkuð jafnt á allt hagkerfið, en að sama skapi myndar grunninn fyrir þá viðspyrnu sem svo sárlega þarf á að halda. Short term pain for long term gain!

föstudagur, 29. október 2010

Allt í plati

Að öllu jöfnu ættu það að vera ánægjuleg tíðindi að verðbólga á Íslandi sé komin niður í 3,3%. Hér er þó líkast til skammgóður vermir sem byggir á falsundirstöðum gjaldeyrishafta og samdráttar.

Seðlabanki Íslands leikur augljóslega stærsta hlutverkið í verðbólgustýringunni með gjaldeyrishöftunum. Ísland er algerlega háð innflutningi með öll aðföng, hvort sem þau eru innlend eða erlend. Hvorki íslenskur landbúnaður né sjávarútvegur komast af á hreinum innlendum aðföngum til sinnar framleiðslu.

Undanfarna mánuði hefur Evran, sem er ríkjandi gjaldmiðill í alþjóðaviðskiptum Íslands, verið þokkalega stöðug og rjátlað í meðalgengi í kringum 155 – 156 krónur. Ekki er annað að sjá á hreyfingu gjaldmiðla að þetta sé viðmiðunarstaðall Seðlabankans fyrir inngripum á gjaldeyrismarkaði. Hafið einnig í huga að markaðsviðskipti með gjaldeyri eru svo reglusett vegna gjaldeyrishaftanna að Seðlabankinn þarf væntanlega ekki mikið að grípa til beinna aðgerða til þess að hafa áhrif á "markaðs"-gengi krónunnar. Aðilar á markaði þurfa nefnilega að hlýta fyrirmælum og leiðbeiningum bankans að öllu leiti, annars er von á sektum og jafnvel tukthúsvist!

Þetta þýðir að núverandi gengi krónunnar er plat. Þetta þýðir líka að núverandi verðbólgutölur eru plat.

Hvað á að plata okkur lengi og hverjar verða langtímaafleiðingarnar?

Allt er þetta hluti af því leikriti að reyna að viðhalda sýndartrúverðugleika gjaldmiðilsins, okkar "ástkæru" krónu.

Hún er fársjúk og er haldið á lífi í öndunarvél gjaldeyrishaftanna. En einhverntíma verður að slökkva á þeirri öndunarvél.

Hvað gerist þá? Eru einhverjar líkur á kraftaverki og sjúklingnum takist að halda lífi einn og óstuddur?

Í miðri umræðunni um stöðu trúarinnar á vettvangi hins opinbera og innan skólastarfs er athyglisvert að framtíðarefnahagsstefna landins, eftir gjaldeyrishöft, virðist einkum byggja á mætti bænarinnar...!

þriðjudagur, 26. október 2010

Róttæk aðgerð til lausnar efnahagsvandans

Hagfræðilega er til mjög einföld lausn á efnahagsvanda þjóðarinnar sem jafnhendis myndi leysa skuldavanda fyrirtækjanna, heimilanna og ríkisins.

Fælist sú aðgerð í því að taka upp nýjan gjaldmiðil samhliða íslensku krónunni.

Best væri að nýi gjaldmiðillinn væri byggður á grunni fastgengis við stærri gjaldmiðil sem er ríkjandi í milliríkjaviðskiptum landsins, t.d. evru eða dollar, og jafnvel mætti lýsa yfir að sá gjaldmiðill gilti einnig sem lögeyrir við hlið þess nýja, og þess gamla.

Laun yrðu frá fyrsta degi færð yfir í nýja gjaldmiðilinn á ákveðnu gengi (t.d. núverandi evrugengi) og hugsanlega innistæður upp að lágmarkstryggingu. Ný ríkisskuldabréf, húsnæðisbréf og lán yrði að sama skapi eingöngu gefin út í nýjum gjaldmiðli (og eingöngu óverðtryggð).

Þeim gamla yrði síðan leyft að falla. Þá yrði áfram opin markaður fyrir bæði gamla gjaldmiðilinn (núverandi krónu) og gömul skuldabréf, en markaðsverð þeirra réði því á hvaða gengi þau fengust keypt upp eða þeim skipt yfir í ný bréf byggð á grunni hins nýja gjaldmiðils.

Ríkið gæti hins vegar sett ákveðið gólf á fall gengis gamla gjaldmiðilsins með því að bjóðast til að að kaupa upp krónur, ríkisskuldabréf og húsnæðisbréf á t.d. genginu einn á móti fimm.

Þessi aðgerð gengi ekki gegn eignarréttinum þar sem viðskipti með gjaldmiðla og skuldabréf eru í eðli sínu áhættufjárfesting.

Tap lífeyrissjóða, sem eru einu lögaðilarnir sem eiga skuldabréf og okkur er kannski ekki fullkomlega sama um, má bæta með sértækum aðgerðum eftir að breytingar þessar eru afstaðnar, en þá í samhengi við sameiningu þeirra og verulega fækkun.

Tap banka er annað mál, en það er hins vegar svo með banka eins og önnur fyrirtæki, að eins dauði er annars brauð. Ef hægt er að græða á bankastarfsemi þá mun einhver verða til þess að stofna nýja(n) skyldu þeir gömlu fara á hausinn.

Raunverulegur gjaldeyrisvaraforði yrði þannig svo til eingöngu nýttur til að styðja við hinn nýja gjaldmiðil.

Lausin gæti þar með falist í líknardauða krónunnar, en höfum líka í huga að hún er, eins og aðrir gjaldmiðlar, bara plat. Bara miklu meira plat.

fimmtudagur, 14. október 2010

Af hverju NATO?

Ísland er eitt af stofnaðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, NATO. Í þeim félagsskap höfum við sem sagt verið í 61 ár. Bandalagið var upphaflega stofnað sem varnarbandalag og gegndi lykilhlutverki í kalda stríðinu. Eftir kalda stríðið hefur bandalagið bæði stækkað með fjölgun aðildarríkja og aukið umsvif sín umfram hefðbundið varnar- og fælingarhlutverk. Bandalagið lék lykilhlutverk í því að binda endi á fjöldamorð serbneskra þjóðernissinna á Balkanskaga seinni hluta tíunda áratugar síðustu aldar og í upphafi þessarar.

Frá 2002 hefur bandalagið auk þess gegnt lykilhlutverki í því að vinna að friði og uppbyggingu í Afganistan.

Fyrir herlaust smáríki eins og Ísland hefur aðildin að NATO verið gríðarlega mikilvæg frá öryggis- og varnarsjónarmiði. Án NATO aðildar hefði, eins undarlegt og það kann að hljóma, herleysi tæpast verið valkostur. Varnir Íslands voru tryggðar með NATO aðildinni annars vegar og varnarsamningnum við Bandaríkin hins vegar.

Íslendingar hafa hins vegar upp til hópa aldrei getað tekið öryggis- og varnarmál alvarlega, enda lifað værukærir „með friðsæl býli, ljós og ljóð svo langt frá heimsins vígaslóð.“

Stríð er eitthvað sem gerist annars staðar og kemur okkur ekki við. Reyndar hefur klysjan um hina herlausu og friðelskandi þjóð á sér ákveðið yfirbragð þjóðernishroka, þar sem íslensk þjóð unir jú „grandvör, farsæl, fróð og frjáls – við ysta haf“ - annað en allar aðrar þjóðir sem, eðli málsins samkvæmt, eru með her og þar af leiðandi tæpast friðelskandi, eða hvað?

Fyrir smáríki eins og Ísland felst í aðild að alþjóðastofnunum mesta viðurkenning og staðfesting á fullveldi landsins. Fullveldi þjóðar er marklaus nema í alþjóðlega samhengi. Viðurkenning annara þjóða á fullveldi Íslands er lykillinn af fullveldi í reynd. (Til samanburðar má til dæmis kynna sér stöðu Taívan.)

Aðildin að NATO felur auk þess í sér staðfestingu á því að Ísland deilir örlögum með þessum nánustu bandalagsþjóðum sínum. Að sameinaðar séu þjóðirnar sterkari en sundraðar. Sérstaklega er þetta mikilvægt þegar kemur að jafn afgerandi og afdrifaríkum málum eins og öryggis- og varnarmálum.

Auðvitað eru ríkjabandalög eins og NATO langt frá því að vera fullkominn. Þar er bæði deilt og drollað. Mestu skiptir þó að þar eiga 28 ríki samleið og vinna sameiginlega að því að tryggja og efla frið í okkar heimshluta, og víðar. Þar hefur árangurinn verið umtalsvert meiri en afglöpin.

Það ber einnig vott um vissan styrk að aðildarþjóðir bandalagsins líta ekki á það sem orðin og gerðan hlut sem ekki megi breyta og þróa í takt við breytta tíma. Um það snýst meðal annars sá ráðherrafundur sem átti sér stað í dag, en þar var fjallað um vinnu við nýja stefnu bandalagsins í öryggis- og varnarmálum til næstu framtíðar.

Aðild Íslands að NATO styður því við og styrkir við fullveldi Íslands enn þann dag í dag. Hins vegar er þeir tímar liðnir að Ísland geti komist upp með að meðhöndla aðild að alþjóðasamtökum eins og NATO sem hluta af einhverju gróðabralli. Hvorki í NATO, né öðru alþjóðlegu samstarfi, getum við fengið „allt fyrir ekki neitt!“

Því er það eðlilegt og sjálfsagt að Ísland leggi til í rekstur bandalagsins, þar með talið endurnýjun höfuðstöðva þess, í hlutfallslegu samræmi við aðrar þjóðir. Það er ennfremur einnig eðlilegt og sjálfsagt að í því varnarstarfi sem Ísland þó sinnir, þrátt fyrir herleysið, sé unnið í samræmi við og með tilliti til bæði okkar eigin þarfa og þarfa okkar bandalagsþjóða.

Frið og öryggi megum við aldrei taka sem gefnum og sjálfsögðum hlut. Einungis með virku samstarfi við aðrar þjóðir á sviði öryggis- og varnarmála tryggjum við drauminn um "Ó Ísland fagra ættarbyggð, um eilífð sé þín gæfa tryggð, öll grimmd frá þinni ströndu styggð og stöðugt allt þitt ráð."

miðvikudagur, 6. október 2010

Eignarréttaröngstrætið

Eignarrétturinn er friðhelgur segir stjórnarskráin. Engan má heldur svipta eign sinni nema að almannahagsmunir séu í húfi og skulu þá koma fullar fébætur fyrir.

Þetta er svo vandlega oftúlkað hér á landi í kjölfar hrunsins að reynt er að bæta fram í rauðan dauðann "eignarrétt" þeirra sem gömbluðu með pappíra sem vitað var að hvenær sem er gátu tapað verðgildi sínu, hvort sem það voru hlutabréf, peningamarkaðsbréf, skuldabréf eða íslenskar krónur.

Aðallega virðist þetta gert með því að ganga á eignarrétt annarra, þ.e. þeirra sem áttu eitthvað handfast, eins og fasteign eða bíl, eða framtíðareignarrétt með því að koma í veg fyrir að núverandi kynslóðir og kynslóðir framtíðarinnar geti nokkurn tíma eignast eitthvað.

Eignarréttur gambleranna er varinn með því að svipta okkur hin, börnum okkar og barnabörnum, eignarréttinum!

þriðjudagur, 28. september 2010

Ef Hreiðar segir satt...

Það er athyglisvert að lesa bréf Hreiðars Más til forsætisráðherra, frá því í síðustu viku. Þar fullyrðir hann að niðurstaða rannsóknar breska fjármálaeftirlitsins, FSA, eftir rannsókn á starfsemi Kaupthing Singer and Friedlander hafi ekki leitt neitt saknæmt í ljós, ef frá er talin þriggja daga töf á veitingu upplýsinga um lausafjárvandræði móðurfélagsins. Sátt um þá sök munu fyrrum stjórnendur KSF hins vegar ekki fallast á og krefjast fullrar sýknu.

Hreiðar virðist telja þessa niðurstöðu FSA vera allsherjar syndaaflausn fyrir sig og aðra stjórnendur Kaupþings og notar tækifærið til að gagnrýna sérstaklega Fjármálaeftirlitið (FME) fyrir rannsóknarhætti þess og fyrir að leka trúnaðarupplýsingum bankans til wikileaks. Lekaásökunin er mjög alvarleg, en hana er væntanlega hvorki hægt að sanna né afsanna. Ásökun Hreiðars um það að FME hafi aldrei séð ástæðu til þess að ræða beint við fyrrum stjórnendur Kaupþings um meint brot er hins vegar ekki hafnað af FME. Ef rétt er þá kallar það á skýringar. Það hlýtur að vera eðlilegur hluti rannsóknar FME, áður en mál eru send til saksóknara, að óska skýringa frá meintum brotaaðila, eða hvað? Vart getur verið eðlilegt að fyrstu andsvör fyrrum stjórnenda Kaupthings hafi farið fram við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara.

Á móti kemur að rétt er að hafa í huga að rannsókn FME og sérstaks saksóknara eru ekki sambærilegar við rannsókn FSA. Íslenska rannsóknin snýr m.a. að markaðsmisnotkun og hvort fyrrum stjórnendur Kaupþings hafi með ólögmætum hætti haft áhrif á verð hlutabréfa í bankanum með innri viðskiptum og ótæðilegum lánum til starfsmanna til hlutabréfakaupa í bankanum.

En þetta er ekki það sem er athyglisverðast við bréf Hreiðars. Fullyrðingar hans um annars vegar að rannsókn FSA hafi leitt í ljós að enginn fótur hafi verið fyrir sögusögnum um gífurlegar tilfærslur fjármuna frá KSF til Íslands og hins vegar að um og yfir 90% fáist upp í kröfur á KSF eru tíðindi sem þarfnast nánari skoðunar og umfjöllunar.

Sögusagnirnar um fjármagnsflutninganna voru eflaust megin ástæðan fyrir því að Kaupþing féll. Hvaðan kom sá orðrómur? Hreiðar rekur í bréfi sínu að fyrrverandi forsætisráðherra breta, Gordon Brown, hafi fullyrt þetta við Geir Haarde. Mig rámar í að fyrrum formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands hafi jafnframt haldið þessu fram. Tóku bresk stjórnvöld ákvörðun um aðgerðir gegn KSF á grunni órökstuddra gróusagna?

Lengi vel stóð von til þess að Kaupthing gæti staðið af sér hrunið, en yfirtaka FSA á KSF gerði það að verkum að verkum að móðurfélagið féll. Síðasti stóru bankanna þriggja á Íslandi hrundi með látum, með ómælanlegum skaða fyrir Ísland. Nú þegar þessi niðurstaða liggur fyrir frá FSA, þarf ekki að ræða þetta mál sérstaklega við bresk stjórnvöld? Hvernig verður eigendum og kröfuhöfum Kaupthings bætt tjónið af tilhæfulausri innrás FSA í KSF? Hvernig verður Íslandi bætt það tjón? Er þetta eitthvað til að ræða t.d. í tengslum við ICESAVE?

Að auki, ef rétt er hjá Hreiðari að um og yfir 90% fáist upp í kröfur á KSF er nokkuð ljóst að rekstur bankans, útlán og annað var ekki í neinum molum. Þrotabú með slíkar heimtur, sérstaklega í þessu árferði, var ekki gjaldþrota. KSF hefur þannig ekki verið rændur innanfrá.

Töluverð gagnrýni hefur komið fram á Kaupthing vegna þess hversu mikil áhætta var í lánum til einstakra viðskiptavina. Virðist gleymast í þeirri umfjöllun að það var einmitt hluti af stefnu bankans að vinna með færri en stærri kúnnum og það mjög náið, í lánveitingum og í fjárfestingaverkefnum. Á meðan að allt lék í lindi var það mjög árangursrík og arðbær stefna, en vissulega reyndist bankanum erfið þegar að lausafjárkreppan skall á. Þá var í reynd hver kúnni það mikilvægur að bankinn átti of mikið undir hugsanlegu þroti, eða vandræðum, hvers og eins þeirra. Það hugsanlega skýrir af hverju bankinn reyndi um of að koma þeim kúnnum til bjargar.

Aðalatriðið er þó að þessi niðurstaða FSA og fullyrðingar Hreiðars Más verði teknar til gaumgæfilegrar skoðunar hér heima og áhrif þeirra vegin, metin og skýrð. Ef það hefur verið gert hefur það því miður farið framhjá mér og væru ábendingar vel þegnar.

mánudagur, 20. september 2010

Vanda sig!

Ég er ekki sammála þingmannanefndinni um það að kalla saman Landsdóm. Mitt mat er það að ekki séu forsendur til þess að hvorki að kæra, hvað þá dæma, fyrrum ráðherra fyrir stórkostlega vanrækslu eða ásettningsbrot.

En aðrir eru á öðru máli, og efnislega verður auðvitað ekki hjá því komist að Alþingi fjalli um og taki afstöðu.

En þá er líka grundvallarkrafa að alþingismenn vandi sig.

Þess vegna eru orð þingmannsins Magnsúsar Orra Schram frá því síðstliðinn föstudag áhyggjuefni, en hann varaði við því að þingmenn festu sig "í forminu" í umfjöllun og ákvarðanatöku um Landsdóm.

Því er ég sammála leiðara Morgunblaðsins í dag, en þar segir:

"Var ekki skortur á formfestu meðal athugasemda rannsóknarnefndarinnar? Og vill ekki Magnús Orri ákæra menn fyrir það meðal annars að hafa ekki fylgt forminu?

Kröfur um formfestu eru stundum óraunsæjar og eiga ekki alltaf við. Þegar Alþingi fjallar um ákæru á hendur fv. ráðherrum og getur tekið sér þann tíma sem þarf hlýtur hins vegar að vera sjálfsagt að farið sé að öllum reglum."

Að sama skapi hljóta alþingismenn að taka alvarlega athugasemdir Gísla Tryggvasonar um hugsanlegt vanhæfi einhverra þeirra. Þær setur hann fram í bloggfærslu og segir hann m.a. að "...þeir sem kunna að vera vanhæfir víki sæti við meðferð þessa máls ...annars verður ákvörðun um hugsanlega ákæru fyrir Landsdómi ekki trúverðug."

Ákvörðun um Landsdóm er háalvarleg. Hvort sem hún er rétt eða röng er hreint grundvallaratriði að vandað verði til verka. Hver sem niðurstaðan verður, af eða á, þá má ekki kasta til hennar hendinni.

laugardagur, 18. september 2010

Allsber Umboðsmaður

Enn á ný birtir embætti Umboðsmanns Alþingis álit þar sem skammast er út í stjórnsýslu opinbers aðila og enn og aftur gerist nákvæmlega ekki neitt.

Hæstvirt landbúnaðarráðuneyti er að mati umboðsmanns lögbrjótur. Efni máls eru tvær umsóknir fyrirtækis um leyfi til innflutnings á lambakjöti og segir umboðsmaður um þá fyrri að hún hafi verið "ólögmæt" og um þá seinni að hún hafi "heldur ekki verið í samræmi við lög".

Augljóslega hið alvarlegasta mál, en hverjar er afleiðingar fyrir lögbrjótin?

Engar.

"Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að það tæki mál A ehf. til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysti þá úr málunum í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá beindi hann þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það leitaðist við að leysa framvegis úr sambærilegum málum í samræmi við þær forsendur og þau rök sem kæmu fram í álitinu."

Á mannamáli: ef þið í ráðuneytinu ákveðið að taka eitthvað mark á þessu áliti mínu, og þá bara ef sá sem kvartaði nennir að gera eitthvað í því, þá ekki gera þetta aftur svona.

Embætti umboðsmanns var sett á laggirnar 1997. Það hefur í sjálfu sér verið ágætt og bent á ýmislegt sem betur mætti fara. En það er hins vegar sá galli á gjöf Njarðar að embættið er algerlega tannlaust sem þýðir að opinberir aðilar hafa leynt og ljóst getað virt álit umboðsmanns að vettugi, þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað.

Eflaust eru skýrustu dæmin í þeim efnum mannaráðningar á vegum hins opinbera, en Umboðsmaður dælt út gagnrýnum álitum sem hafa haft lítil önnur áhrif en þau að gera opinbera aðila betur hæfa til þess að fela glæpinn.

Enda eru úrræði umboðsmanns samkvæmt lögum um embættið algerlega tannlaus:

Hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar er honum heimilt að ljúka því með eftirfarandi hætti:
a.Hann getur látið mál niður falla að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds.
b.Hann getur látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns getur hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur.
c.Varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.
d.Umboðsmaður getur lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar. 
e.Telji umboðsmaður að um sé að ræða brot í starfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum getur hann gert viðeigandi yfirvöldum viðvart.

Á mannamáli: gert ekkert, fussað og sveiað, klagað í mömmu, sagt mömmu sinni að hringja í mömmu þína eða klagað í skólastjórann!

Í þessu máli er eitt stykki ráðuneyti talið vera tvöfaldur lögbrjótur en það hefur nákvamlega engar afleiðingar. Engin áminning á embættismenn, engin Landsdómur á viðkomandi ráðherra, engar sektir, en aðallega, engar bætur til brotaþola.

Umboðsmaður er allsber, rétt eins og keisarinn forðum daga.

Í þeim umbótum sem hér þurfa að eiga sér stað í kjölfar hrunsins væri kannski ráð að versla á þetta embætti einhver klæði og setja upp í það beittari tennur.

(Sá er þetta ritar hefur eytt tíma, fé og fyrirhöfn í kvörtun til embættis Umboðsmanns Alþingis.)

föstudagur, 17. september 2010

Hugrakkir sjálfstæðismenn

Þingflokkur sjálfstæðismanna fær plús í kladdann hjá mér fyrir að neita að taka þátt í landsdómsfjölleikahúsinu.

Því það var auðvelda leiðin að fljóta með straumnum og vilja kæra "til að róa lýðinn!"

Ég t.d. er ekki að kaupa þessa niðurstöðu um Landsdóm.

Að mörgun leyti var þessum ráðherrum frekar vorkunn.

Hvar er t.d. vonda trúin, einbeitti brotaviljinn og glæpsamlega vanrækslan?

Eða svo þetta sé sett í rétta lagamálið, hvar er ásetningurinn og stórkostlega hirðuleysið?

Án efa eru þau öll "sek" um panik og klúður, og já vantrú, samanber "Ég trúi því ekki að þetta sé að gerast og að allt þetta lið sé búið að búlsjitta okkur öll árum saman og stela öllum þessum peningum!"

En það rétttlætir ekki endilega fyrirbæri eins og Landsdóm.

Því ber því að fagna þegar menn segja nei takk við sjónarspilsréttarhöldum og standa á prinsippum sínum eins og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ætlar að gera í þessu máli.

Batnandi mönnum er best að lifa.

Nú er svo bara að vona að Sjálfstæðisflokkurinn finni aftur prinsipin sín í öðrum málum eins og t.d. hvað varðar valdmörk forsetaembættisins og samstarf vestrænna lýðræðisríkja...!

mánudagur, 30. ágúst 2010

ESB umsókn: Afgerandi meirihluti á þingi?

Bægslagangur bóksala, fyrrum samlokusala og annarra andstæðinga lýðræðisins gegn aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er farin að ganga fulllangt. Fullyrt er að fyrir málinu sé engin meirihlutastuðningur, hvorki hjá þjóð né þingi.

Ansi bratt taka menn sér stóryrði í munn í þessum efnum, samhliða því að okkur, sem treystum þjóðinni til að geta sjálf lagt mat á aðildarsamning, er brigslað um landráð og ódrengskap.

Fyrir skoðunum þjóðarinnar um mótstöðu við aðildarumsókn hafa menn lítið fyrir sér annað en skoðanakannanir, sem sýnt hafa á síðustu tólf mánuðum að skoðun þjóðarinnar sveiflast sitt á hvað eftir dagsumræðunni. Sama virðist hins vegar jafnan upp teningnum, ef spurt er, að þjóin telur sig ekki vita nóg um ESB til að geta tekið afstöðu. Aðildarumsóknarferlið og umræður um kosti og galla aðildarsamnings munu bæta úr því. Þá munu eflaust einhverjir frelsast í báðar áttir, með eða á móti.

Á þingi virðist hins vegar meirihluti fyrir áframhaldandi aðildarviðræðum nokkuð traustur. Sjálfur lék ég mér við að skella núverandi þingmönnum í littla excel-töflu og miðað við þekkta afstöðu þeirra geta í eyðurnar um hvar viðkomandi þingmaður stendur varðandi það hvort halda eigi aðildarviðræðum áfram. Þetta varð mín niðurstaða:

Á að halda áfram aðildarviðræðum við ESB?

Nei

Situr hjá

Anna Margrét Guðjónsdóttir (AMG)

1. þm.

Suðurk.

Samf.

1

Atli Gíslason (AtlG)

4. þm.

Suðurk.

Vinstri-gr.

1

Álfheiður Ingadóttir (ÁI)

10. þm.

Reykv. n.

Vinstri-gr.

1

Árni Páll Árnason (ÁPÁ)

1. þm.

Suðvest.

Samf.

1

Árni Johnsen (ÁJ)

9. þm.

Suðurk.

Sjálfstfl.

1

Árni Þór Sigurðsson (ÁÞS)

5. þm.

Reykv. n.

Vinstri-gr.

1

Ásbjörn Óttarsson (ÁsbÓ)

1. þm.

Norðvest.

Sjálfstfl.

1

Ásmundur Einar Daðason (ÁsmD)

9. þm.

Norðvest.

Vinstri-gr.

1

Ásta R. Jóhannesdóttir (ÁRJ)

10. þm.

Reykv. s.

Samf.

1

Birgir Ármannsson (BÁ)

11. þm.

Reykv. s.

Sjálfstfl.

1

Birgitta Jónsdóttir (BirgJ)

9. þm.

Reykv. s.

Hreyf.

1

Birkir Jón Jónsson (BJJ)

2. þm.

Norðaust.

Framsfl.

1

Bjarni Benediktsson (BjarnB)

2. þm.

Suðvest.

Sjálfstfl.

1

Björn Valur Gíslason (BVG)

8. þm.

Norðaust.

Vinstri-gr.

1

Einar K. Guðfinnsson (EKG)

5. þm.

Norðvest.

Sjálfstfl.

1

Eygló Harðardóttir (EyH)

7. þm.

Suðurk.

Framsfl.

1

Guðbjartur Hannesson (GuðbH)

3. þm.

Norðvest.

Samf.

1

Guðlaugur Þór Þórðarson (GÞÞ)

5. þm.

Reykv. s.

Sjálfstfl.

1

Guðmundur Steingrímsson (GStein)

8. þm.

Norðvest.

Framsfl.

1

Gunnar Bragi Sveinsson (GBS)

4. þm.

Norðvest.

Framsfl.

1

Helgi Hjörvar (HHj)

4. þm.

Reykv. n.

Samf.

1

Höskuldur Þórhallsson (HöskÞ)

6. þm.

Norðaust.

Framsfl.

1

Jóhanna Sigurðardóttir (JóhS)

1. þm.

Reykv. n.

Samf.

1

Jón Bjarnason (JBjarn)

2. þm.

Norðvest.

Vinstri-gr.

1

Jón Gunnarsson (JónG)

12. þm.

Suðvest.

Sjálfstfl.

1

Jónína Rós Guðmundsdóttir (JRG)

10. þm.

Norðaust.

Samf.

1

Katrín Jakobsdóttir (KJak)

2. þm.

Reykv. n.

Vinstri-gr.

1

Katrín Júlíusdóttir (KaJúl)

4. þm.

Suðvest.

Samf.

1

Kristján Þór Júlíusson (KÞJ)

4. þm.

Norðaust.

Sjálfstfl.

1

Kristján L. Möller (KLM)

3. þm.

Norðaust.

Samf.

1

Lilja Rafney Magnúsdóttir (LRM)

6. þm.

Norðvest.

Vinstri-gr.

1

Lilja Mósesdóttir (LMós)

6. þm.

Reykv. s.

Vinstri-gr.

1

Magnús Orri Schram (MSch)

11. þm.

Suðvest.

Samf.

1

Margrét Tryggvadóttir (MT)

10. þm.

Suðurk.

Hreyf.

1

Mörður Árnason (MÁ)

11. þm.

Reykv. n.

Samf.

1

Oddný G. Harðardóttir (OH)

5. þm.

Suðurk.

Samf.

1

Ólafur Þór Gunnarsson (ÓGunn)

3. þm.

Suðvest.

Vinstri-gr.

1

Óli Björn Kárason (ÓBK)

5. þm.

Suðvest.

Sjálfstfl.

1

Ólína Þorvarðardóttir (ÓÞ)

7. þm.

Norðvest.

Samf.

1

Ólöf Nordal (ÓN)

2. þm.

Reykv. s.

Sjálfstfl.

1

Pétur H. Blöndal (PHB)

7. þm.

Reykv. n.

Sjálfstfl.

1

Ragnheiður E. Árnadóttir (REÁ)

2. þm.

Suðurk.

Sjálfstfl.

1

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (RR)

8. þm.

Suðvest.

Sjálfstfl.

1

Róbert Marshall (RM)

8. þm.

Suðurk.

Samf.

1

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (SDG)

8. þm.

Reykv. n.

Framsfl.

1

Sigmundur Ernir Rúnarsson (SER)

7. þm.

Norðaust.

Samf.

1

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (SII)

4. þm.

Reykv. s.

Samf.

1

Sigurður Ingi Jóhannsson (SIJ)

3. þm.

Suðurk.

Framsfl.

1

Sigurður Kári Kristjánsson (SKK)

3. þm.

Reykv. n.

Sjálfstfl.

1

Siv Friðleifsdóttir (SF)

6. þm.

Suðvest.

Framsfl.

1

Skúli Helgason (SkH)

7. þm.

Reykv. s.

Samf.

1

Steingrímur J. Sigfússon (SJS)

1. þm.

Norðaust.

Vinstri-gr.

1

Svandís Svavarsdóttir (SSv)

3. þm.

Reykv. s.

Vinstri-gr.

1

Tryggvi Þór Herbertsson (TÞH)

9. þm.

Norðaust.

Sjálfstfl.

1

Unnur Brá Konráðsdóttir (UBK)

6. þm.

Suðurk.

Sjálfstfl.

1

Valgerður Bjarnadóttir (VBj)

6. þm.

Reykv. n.

Samf.

1

Vigdís Hauksdóttir (VigH)

8. þm.

Reykv. s.

Framsfl.

1

Þór Saari (ÞSa)

9. þm.

Suðvest.

Hreyf.

1

Þórunn Sveinbjarnardóttir (ÞSveinb)

7. þm.

Suðvest.

Samf.

1

Þráinn Bertelsson (ÞrB)

9. þm.

Reykv. n.

Utan þfl.

1

Þuríður Backman (ÞBack)

5. þm.

Norðaust.

Vinstri-gr.

1

Ögmundur Jónasson (ÖJ)

10. þm.

Suðvest.

Vinstri-gr.

1

Össur Skarphéðinsson (ÖS)

1. þm.

Reykv. s.

Samf.

1

Samtals:

34

26

3


34 með, 26 á móti og 3 muni sitja hjá. Aðrir gætu komist að annarri niðurstöðu, en þessa töflu má hins vegar hugsanlega nota í samkvæmisleiki fram að því að þing kemur saman að nýju. En kannski væri einmitt best að þingið tæki málið til umfjöllunar að nýju og ef niðurstaðan verður í samræmi við ofangreint að halda þá ótrauð áfram. Lýðræðisfjendurnir gætu þá kannski slakað aðeins á fúkyrðaflaumnum og einbeitt sér að einhverju uppbyggilegu.

Nú, ef að málið félli á þingi, þá liggur náttúrulega beinast við að það verði kosningar.