föstudagur, 25. júní 2010

Verðtryggingarvíman

Ísland er eina vestræna markaðshagkerfið þar sem verðtrygging er yfirgnæfandi í lánasamningum. Útfærsla verðtryggingarinnar er einnig einstök, en verðtryggingaráhrif falla ekki samstundis á afborgun lánanna heldur er stærsta hluta þeirra safnað upp á lánið til að milda vaxtaáhrif verðtryggingarinnar. Þetta gerir það að verkum að lántakandinn finnur ekki fyrir fullum áhrifum verðbótaþáttarins í afborgunum frá mánuði til mánaðar. Sem hluti af almennum aðgerðum ríkisins í kjölfar bankahrunsins er búið að búa til sérstaka greiðslujöfnunarvísitölu til þess að milda þessi áhrif enn frekar.

Þetta er hins vegar fjármálaútgáfan deyfandi lyfja. Þó skammtíma áhrifin verði til þess að milda höggið af áhrifum verðbólgunnar, sérstaklega verðbólguskotum, á lántakendur, eru lengri tíma áhrifin þess eðlis að lántakandinn borgar margfaldan vaxtakostnað af upphaflegu láni. Verðbótaþáttur lánsins sem ekki er greiddur samstundis og safnast upp, ber jú líka áfram fulla vexti og verðbætur eins og upphaflegi höfuðstóllinn. En rétt eins og forfallinn eiturlyfjaneytandi er íslenski lántakandinn orðinn háður þessari aðferðafræði til að fela fyrir honum raunverulegan kostnað verðtryggðar lántöku.

Að sama skapi eru íslenskir lánveitendur háðir þessu lánaformi. Í yfir þrjátíu ár hafa fjármagnseigendur íslenskir alist upp við það að lán sem þeir veita á Íslandi séu ætíð tryggð upp í topp. Vaxtatryggð, verðtryggð og ábyrgðartryggð. Hvergi í heiminum hafa fjármagnseigendur og lánveitendur haft önnur eins belti, axlabönd og brynjur á sínu athæfi og hér.

Upptaka verðtryggingar í lok áttunda áratugarins var eflaust eðlilegt viðbragð við því að ná að stemma stigu við verðbólgu og þeirri stöðu sem þá hafði ríkt að lántakendur "græddu" á lánveitendum þar sem verðbólga át upp lánin. Hafa ber í huga að á þeim tíma var hins vegar íslenskt fjármálakerfi allt bundið í viðjar ríkisafskipta og yfirgnæfandi hluti lánakerfisins á forræði ríkisins með beinum eða óbeinum hætti. Vaxtastefnu var einnig ríkisstýrt.

Ekki dugði verðtryggingarstefnan betur en svo að níundi áratugurinn varð óðaverðbólguáratugur, og endist það ástand fram á þann tíunda.

Við þá frelsun sem átti sér stað á íslenskum fyrirtækja- og fjármálamarkaði á tíunda áratugnum fékk hins vegar verðtryggingin að lifa áfram. Innan fjármálakerfisins ólust menn áfram upp við það að lánveiting á Íslandi væri tiltölulega áhættulaus bransi, sérstaklega gagnvart einstaklingum, fjölskyldum og smærri fyrirtækjum. Vextir, verðtrygging og ábyrgðarmannastefna sáu til þess. Fjármálamarkaðurinn var þannig varinn af eðlilegum þáttum frjáls markaðshagkerfisis eins og því að lánveitngar gætu verið raunverulegur áhættubransi.

Fjármagnseigendur voru því að sama skapi háðir deyfilyfjaáhrifum verðtryggingarinnar.

Við þá markaðsvæðingu sem varð á Íslandi á tíunda áratugnum hefði verið eðlilegt að vinda ofan af þessu kerfi verðtryggingar. Í síðasta lagi hefði aftenging verðtryggingarinnar átt að eiga sér stað 2001 við upptöku nýrra laga um sjálfstæði Seðlabanka Íslands og nýrrar peningastefnu hans. Enda varð reyndin sú að m.a. af stórum hluta vegna verðtryggingarinnar varð vaxtastefna Seðlabankans bitlaus í baráttunni við þennslu hagkerfisins frá árunum 2003 til 2008. Hvergi var grófari misnotkunin á þessu kerfi enn einmitt þegar bankarnir komu inn á húsnæðislánamarkaðinn. Þá voru aldeilis jólin, enda beinlínis partur af planinu að ýta hér af stað massífrí eignabólu þar sem hún skilaði sér beint inn í verðbólguna og varð þannig til varanlegrar hækkunar á höfuðstóli lánanna. Verðtryggingin íslenska var þannig mikilvægur hluti af píramídaplotti fjármálakerfisins íslenska sem hér hrundi haustið 2008.

Afleiðingar þessara deyfilyfja áhrifa á hagkerfið má nú berlega sjá í viðbrögðum sumra fjármálafyrirtækja og einstakra ráðamanna við gengisdómi Hæstaréttar. Þeim er gersamlega fyrirmunað að skilja að gengistryggingar"fixið", sem var jú ein önnur útgáfa verðtryggingar, hafi verið tekið af þeim. Og þá HLÝTUR eitthvað annað fix að eiga að koma í staðinn! Því þannig hefur það ALLTAF verið. Lánveitendur og fjármagnseigendur fá alltaf sitt fix í formi verðbóta, vaxta og vaxtavaxta! Það að þeir hafi tekið einhverja raunverulega áhættu er þeim fyrirmunað að skilja.

Að áhættayfirfærslan frá lántakandanum yfir á lánveitandan hafi gerst vegna þess að lánin voru ólögleg er hins vegar sérkennileg, en verður kannski til þess að kenna ákveðna lexíu.

Verðtrygging á ekki að skipa þann sess í nútímahagkerfi og hún gerir á Íslandi og a.m.k. ekki með þeim deyfilyfjaáhrifum og nú er gert. Óbein afleiðing hennar hefur verið að ýta undir fjármálageira sem kunni ekki, og kann ekki enn, að meta raunverulega áhættu, heldur taldi sig, og telur sig enn vera spes og hann eigi að njóta sérstakrar verndar, ef ekki með verðtryggingu, þá gengistryggingu og ef um allt annað þrýtur, með innspýtingu frá ríkinu með peningum skattborgaranna. Það fannst þeim haustið 2008, og greinilega þykir þeim það mörgum enn.

Það þarf að klára afvötnun íslenska fjármálakerfisins og afnám verðtryggingar er hluti af því.

fimmtudagur, 24. júní 2010

Sparisjóðasprell

Les á RÚV.is að Eftilitsstofnun EFTA (ESA) hafi samþykkt "aðkomu ríkisins að fjárhagslegri endurskipulagningu" sex sparisjóða í vanda. Í frétt á mbl.is frá því 21 mars á síðasta ári er greint frá að samkvæmt tilkynningu fjármálaráðuneytisins eigi þátttaka ríkisins að...

...tryggja sem fjölbreyttasta valkosti neytenda í fjármálaþjónustu

...fjármálaþjónustu í boði um land allt

...hagræðingu í rekstri sparisjóðanna

...og tryggja samfélagslegt hlutverk sparisjóðanna

En af hverju á ríkið að standa í slíku, sérstaklega með beinni íhlutun af þessu tagi? Ágætt er reyndar að lesa fréttaauka Eyjan.is frá því í október á síðasta ári en það breytir ekki því að það þarf að svara þeirri grundvallarspurningu af hverju ríkið á að standa í sérstökum björgunaraðgerðum á sparisjóðum, jafnvel þótt það hafi verið sett inn sem valkostur í neyðarlögin á sínum tíma.

Ég fæ ekki séð að Ísland þurfi sérstaklega á að halda fleiri veikburða fjármálastofnunum.

Eins og segir í yfirlýsingu samtaka heimilanna og fleiri frá í dag á það "...ekki að vera hlutverk lánþega að leggja einkafyrirtækjum til aukið rekstrarfé þegar hæfni stjórnenda þrýtur og rekstur stefnir niður á við. Slíkt er hlutverk fjárfesta." Á ekki sama við um ríkið í þessu tilfelli?

En kannski getur einhver útskýrt þetta fyrir mér.

miðvikudagur, 23. júní 2010

Afsögn McChrystal

Í dag leysti Barack Obama bandaríkjaforseti Stanley McChrystal herhöfðingja í Bandaríkjaher og yfirmann fjölþjóðaliðsins í Afganistan frá störfum í kjölfar blaðagreinar sem mun birtast í tímaritinu Rolling Stone næstkomandi föstudag, en hefur þegar verið birt á netinu á heimasíðu tímaritsins.

Greinin dæmir sig sjálf og endurspeglar, eins og McChrystal sagði sjálfur í afsökunarbeiðni sinni, slæma dómgreind.

Síðastliðið ár starfaði ég í höfuðstöðvum fjölþjóðaliðsins í Afganistan sem aðstoðarsviðstjóri þróunarmála. Strax við komu mína til Kabúl í byrjun júlí á síðasta ári varð ég þátttakandi þeim breytingum sem gerðar voru á skipulagi höfuðstöðva fjölþjóðaliðsins og kom það í minn hlut að endurskipuleggja frá grunni starf höfuðstöðvanna hvað varðaði aðkomu þess að borgarlegri uppbyggingu í Afganistan á sviði þróunarmála. Það fól í sér m.a. þátttöku umræðum um og gerð nýrrar stefnu og aðgerðaáætlunar fyrir framkvæmd aðgerða fjölþjóðaliðsins sem McChrystal hefur leitt æ síðan og varð að samþykktri stefnu fjölþjóðaliðsins.

McChrystal skyldi vel og varðaði þá leið að árangri á sviði öryggismála í Afganistan væri ekki hægt að ná án þess að uppbygging borgaralegrar getu afganskra stjórnvalda færi þar hönd í hönd. Þróun, góð stjórnsýsla, öryggi og hernaðaraðgerðir yrðu að þjóna sem samverkandi þættir til að skila afgönsku þjóðinni betra og öruggara samfélagi að mestu án þeirrar kúgunar og ógna sem talibanar og útsendarar al-queda standa fyrir. Einungis þannig væri hægt að tryggja að Afganistan yrði ekki að nýju og enn frekar griðarstaður öfgaafla sem markvisst stefna að hryðjuverkaárásum um allan heim í nafni afskræmdrar útgáfu trúar sinnar.

Viðfangsefni alþjóðasamfélagsins og afgana sjálfra í Afganistan er umfangsmikið. Landið er enn illa farið í kjölfar 30 ára stríðsreksturs. Þó margt hafi gengið vel frá því að talibönum var komið frá völdum í lok árs 2001 er gríðarlegt verkefni enn óunnið.

Þó gamla orðtakið segi að "vilji sé allt sem þarf" þá dugar það oft ekki til. Uppbygging lýðræðislegs samfélags, góðrar stjórnsýslu og efnislegra innviða 30 milljón manna stríðshrjáðs ríkis, sem bæði er torfarið og margskipt á flókin hátt eftir trúar- og ættarlínum, er torræðara en svo að hægt sé að leysa þau mál á einni nóttu. Jafnvel þúsund og ein nótt dugar ekki til. Það er viðþolslaus barningur sem fyrst og fremst krefst þolinmæði, tíma og mannafla, auk fjármagns.

Að vinna með og fyrir McChrystal var mikil áskorun. Vinnuálagið verulegt og af nógu af taka. Það var einnig mjög gefandi enda óneitanlega hvetjandi að vinna í jafn krefjandi umhverfi og höfuðstöðvar fjölþjóðaliðsins voru og eru. Það verður ekki af McChrystal tekið að þar fer maður einbettur, skarpur og skýr sem gerði miklar kröfur til starfsliðs síns.

Hins vegar fór maður ekki varhluta af því að eftir því sem leið á árið að of miklar væntingar varðandi uppbyggingu borgaralegrar getu afganskra stjórnvalda leiddu til óumflýjanlegra vonbrigða. Fyrir aðgerðadrifin einstakling eins og McChrystal hljómuðu eflaust viðvaranir borgaralegra samstarfsmanna hans um að sumum hlutum yrði einfaldlega ekki hraðað stundum eins og afsökun fyrir aðgerðaleysi.

Einnig hafði verið gert mikið úr því að McChrystal hefði fengið að handvelja til liðs við sig besta fólkið úr bandaríska herkerfinu. Það var rétt að vissu marki, en reyndin var sú að eflaust voru full margir þeirra um of meitlaðir úr sama móti og McChrystal sjálfur. Það leiddi til ákveðinnar hóphugsunar og oft var það ákveðin áskorun að koma á framfæri sjónarmiðum sem ekki féllu að fyrirfram mótaðri heimsmynd þeirra.

Engu að síður var það bæði mikill heiður og mikil reynsla að vinna fyrir McChrystal og innan þessa umhverfis. Það er synd fyrst og fremst fyrir hann persónulega að glæstum ferli hans skyldi ljúka með þessum hætti. Verkefnið heldur áfram með nýjan mann í brúnni og breytir engu um mikilvægi og nauðsyn þess.

þriðjudagur, 22. júní 2010

Vaxtaverkir

Samúðin sem fjármálafyrirtækin eru að fá frá ólíklegustu stöðum er stórmerkileg. Að þeir sem gráta hæst töpuð veðmál fjármálafyrirtækjanna séu framámenn til vinstri í íslenskri pólitík er súrrealískt.

Ég hins vegar velti fyrir mér hvort, í ljósi þess að forsendur samninganna voru dæmdar ólöglegar, hvort það er ekki valkostur við uppgjör þeirra að það sem út af stendur fari á nýjan samning með íslenskum vaxtakjörum.

Það er kannski eina "sanngirnismómentið" fyrir fjármálafyrirtækin. Af hverju ættu þau að vera neydd til að halda til streitu lánasamningi sem dæmdur hefur verið ólögmætur?

Uppgjör núverandi stöðu ætti hins vegar að fara fram í samræmi við dómsniðurstöðuna og ekki á að koma með afturvirkar eftiráreddingar.

mánudagur, 21. júní 2010

Gnarr, bjargaðu TÞM

Ágæti Jón Gnarr,

Nú ertu orðinn borgarstóri. Gott og vel, og gangi þér vel. Ég sé þú ert strax farin að passa ágætlega í rulluna, búin að afhenda viðurkenningar og veiða fyrsta laxinn í Ellliðaánum.

Sem er ágætt.

En þú hefur væntanlega á borðinu hjá þér mál sem er brýnt að leysa. Mál sem þér ætti að renna blóðið til skyldunnar að taka af skarið með og bjarga í snatri.

Það er fjárhags- og húsnæðisvandi Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar.

Leystu málið Herra Borgarstjóri.

Þú hefur níu daga. Það á að bera út og loka sjoppunni núna í júlí ef ekkert verður að gert.

Það má rifja upp í grunninn um hvað málið snýst með því að lesa viðtal við Herra Pollock hér.

Ef ennþá lifir eitthvað af gamla pönkaranum og rokkaranum fyrir innan glansmyndina þá lætur þú það ekki gerast að TÞM verði lokað.

Með kveðju frá Akranesi

Friðrik

Félagi í facebook-hópnum Ekki loka TÞM

fimmtudagur, 17. júní 2010

ESB: Þættinum hefur borist bréf...

Síðustu tvær bloggfærslur mínar, sem báðar hafa snúist um Evrópusambandsaðildarumsókn Íslands, hafa eitthvað vakið athygli. Sú fyrri skammaðist út í moggann fyrir að samlíkja okkur aðildarumsóknarsinnum við fulltrúa og boðbera aðskilnaðarstefnu hvíta minnihlutans í Suður-Afríku á sínum tíma, og sú seinni beindi kaldhæðnu kastljósi að full stóryrtum (svo ekki sé meira sagt) fullyrðingum andstæðinga aðildar og aðildarumsóknar.

Mismikil ánægja er með þessar færslur eins og gengur. Sú seinni, þessi kaldhæðna, vekur að því er virðist eitthvað sterkari viðbrögð, enda kaldhæðni vandmeðfarið tól, sérstaklega í pólitískri umræðu. Og vart getur maður búist við því í þátttöku í opinberri umræðu, sérstaklega um jafn umdeilt mál og hugsanlega aðild Íslands að ESB, að öllum muni vel líka.

Suma gagnrýni les maður og hlustar á með meiri athygli en aðra, eins og gengur, sérstaklega þegar vinir til vamms segja. Ein slík datt inn á athugasemdakerfinu í morgun sem rétt er að vekja á athygli og lemur þar lyklaborðið góður félagi frá Kaupmannahafnarárum mínum, Kristján Sverrisson. Hann segir:

Sæll Friðrik.

Mér þykir heldur leiðinlegt að sjá að þú ert að falla í sömu gryfjuna og flestir í EU umræðu, þ.e. að hæðast að mótrökum og kalla alla fífl og fávita sem ekki eru sannanlega á einu máli við skoðanabræður sína. Þetta er ekki sú umræða sem þarf.
Ég hef engar verulegar áhyggjur af því hvað verður um Ísland ef svo fer að landið gangi í EU. Á hinn bóginn hef ég heldur ekki fengið séð hvað ætti svo sem að batna við inngönguna og enginn hefur getað skýrt fyrir mér hvernig landið mundi geta spjarað sig ef það stendur utan EU.

Mér dettur ekki í hug að íslensk menning tapist á einu augabragði eða allt tapist í hendur glórulausra vitleysinga í Brussel. Ég trúi því ekki heldur að á Íslandi verði allt í kaldakoli og við töpum eitthvað stórkostlega á því að standa utan EU og halda núverandi yfirráðum yfir landi, auðlindum og efnahagslegum stjórntækjum.

Enginn hugsar út fyrir kassann og reynir að skoða hvaða möguleika Ísland á í stöðunni. Það þarf annars vegar skammtíma-lausnir (sem EU aðild hjálpar engan veginn) og hins vegar langtíma stefnumótun fyrir íslenskt þjóðfélag (og þar getur alveg verið að EU aðild spili hlutverk).

Endalaust skítkast andstæðra fylkinga er fullkomlega gagnslaust. Róum liðið niður og reynum að skilgreina kosti og galla og kynna síðan þjóðinni ítarlega og án upphrópana.

Sumir hengja sig í að EU sé alvont vegna þess að við fáum þá ekki að veiða hval. Er það svo? Aðrir telja EU nauðsynlegt vegna þess að þá höfum við svo mikil áhrif á fiskveiðstefnu sambandsins. Er það svo? EU stuðli að öruggari efnahagsstjórn. Er það svo? EU drepi íslenskan landbúnað. Er það svo? Ísland utan EU verði einangrað og áhrifalaust á alþjóðavettvangi og í viðskiptum. Er það virkilega svo?

Spurningamerkin eru mörg en sleggjudómar og fullyrðingar án rökstuðnings eru því miður fleiri. Ég lýsi eftir vandaðri röksemdafærslu og yfirvegaðri umræðu.

Bestu kveðjur.

Kristján

Við þessum athugasemdum var mér að sjálfsögðu ljúft og skylt að bregðast:

Ágæti Kristján,

Gott að heyra frá þér, en leitt þykir mér að þú teljir mig vera fallinn í gryfju skotgrafahernaðar. Ég veit ekki til þess að ég hafi kallað nokkurn mann fífl og fávita, ekki einu sinni þá sem eru á móti aðild að ESB. Þvert á móti hef ég endurtekið kallað eftir því að umræðan fari fram á vitrænni grunni en einhverra sleggjudóma, þjóðernisofstækis eða halelúja trúboðs.

Um þetta finnur þú t.d. fjölmörg dæmi í mínum fyrri bloggskrifum. Ég hins vegar fer ekki ofan af þeirri skoðan minni að því miður eru það mun frekar andstæðingar aðildar sem halda umræðunni í gíslingu klósettmálfars með hræðsluáróðri, ósannindum og dylgjum um föðulandssvik. Ég hef a.m.k. ekki séð þess mörg dæmi að þeir sem eru hlynntir aðildarumræðum tali um andstæðinga aðildar sem föðulandssvikara, Quislinga, andans trúða og, já, fífl og fávita. Gallinn við umræðuna, og minn pistill er dæmi um það, er að mestur tími okkar sem hlynnt erum aðildarviðræðum fer um of í að einblína á fullyrðingar andstæðinga aðildar en að útskýra hvað við teljum áunnið með að fara í þessa vegferð. Það er eitthvað sem þarf að bæta úr, en endurspeglar líka þá staðreynd að í augnablikinu að minnsta kosti eru það frekar andstæðingar aðildar og aðildarviðræðna sem hafa frumkvæðið og leiða umræðuna.

Ég er þar fyrir utan fyrst og fremst hlynntur aðildarumsókn og aðildarviðræðum. Endanleg afstaða mín til aðildar mun fyrst og fremst ráðast af því hver niðurstaða samninga verður.

Í þokkabót tel ég að framtíð Íslands sé ekki að veði eins og hún leggur sig. Ég trúi því að Íslandi muni farnast vel hvort heldur sem er innan eða utan ESB. Aðild hins vegar tel ég hafa í heildina fleiri kosti en galla.

Aðild mun hins vegar ekki breyta því að land vort og þjóð verða fyrst og fremst sinnar eigin gæfu smiðir.

Kannski er mér helst fyrirmunað að skilja af hverju tiltölulega leiðinlegt batterí eins og Evrópusambandið er, vekur svona heitar tilfinningar. Þetta er fyrst og fremst praktískt milliríkjasamstarf sem snýst um að efla verslun og viðskipti og hagnýtt og friðsamlegt samstarf nágrannaþjóða í millum.

Vissulega hafa verið gerðar tilraunir til þess að umpakka Evrópu"samrunanum" í eitthvað annað og meira en hann er, en þær tilraunir hafa nú flestar runnið út í sandinn, enda snúist frekar um umbúðir er innihald. Á endanum hefur Evrópusamstarfið snúist um praktíska hluti, samþættingu þjóðarhagsmuna og þá jafnvægislist sem þarf til að stórar og smáar þjóðir fái þrifist saman án þess að troða hvorum öðrum um of um tær.

Verði aðild Íslands að veruleika mun hún ekki valda þeim straumhvörfum sem æstustu andstæðingar né stuðningsmenn aðildar sjá fyrir, enda er það svo að aðild að ESB snýst fyrst og fremst um lítt spennandi hluti er snúa að tiltölulega þurrum efnahagsmálum eins og markaðsaðgangi fyrir vörur og þjónustu, peninga- og gjaldmiðilsmálum, samþættingu reglugerða og þess háttar.

Kveðja til Köben

Friðrik

Við þetta er því að bæta að þá tel ég kostina fleiri en gallana við aðild að ESB m.v. þær forsendur sem ég hef sem byggja á því að hafa skoðað ESB nokkuð vel frá ýmsum hliðum og á þeirri staðreynd að reynsla Íslands af fjölhliða alþjóða samstarfi innan alþjóðastofnanna hefur undantekningalaust verið þannig að það hefur verið betra fyrir okkar hagsmuni að taka í því fullan þátt en að standa fyrir utan. Lesa má m.a. hér rök mín fyrir aðild og aðildarumsókn.

En ég mun án efa aftur beita fyrir mig kaldhæðni í þessu debatti sem og öðrum, þó ég muni reyna að komast hjá því, nú sem fyrr, að kalla þá sem ekki eru mér sammála "fífl og fávita"!

Gleðilega þjóðhátíð.

miðvikudagur, 16. júní 2010

ESB segi nei

Ég er ekki viss um að þetta lið hjá ESB geri sér grein fyrir hvurslags mistök það er að fara að gera með því að hefja aðildarviðræður við Ísland.

Ég meina nóg er nú á þetta samband lagt nú á meðan átt er við efnahagskrísur og annan óskunda.

Því af tíðindum á Íslandi að dæma eru hörmungarnar bara rétt að byrja, þ.e. ef aðildarviðræður hefjast við Ísland.

Fyrst ber að telja að þau 27 aðildarríki sambandsins sem þar eru fyrir munu umsvifalaust tapa öllum sérkennum sínum og sjálfstæði. Ríki, sem eru í dag jafn fjölbreytt í menningu, stjórnarháttum og lífstíl og Svíþjóð, Austurríki, Portúgal, Bretland, Lúxemborg og Slóvakía, munu á einni nóttu umbreytast í grá og stöðluð leiðindalönd þar sem allir og allt er eins samkvæmt staðli andlitslausra skriffinna í Brussel.

Einnig mun það gerast að hið núverandi Evrópusamband mun á svipstundu breytast í "stórríki" og núverandi aðildarlönd breytast í áhrifalaus fylki, með littla sjálfstjórn og littla von. Á sama tíma mun reyndar þetta stórríki liðast í sundur vegna innri átaka, ósamstæðrar stefnumörkunar, t.a.m. í efnahagsmálum, og evran, hin sameiginlega mynt, hverfa af yfirborði jarðar.

Augljós viðbótarafleiðing af aðild Íslands verður jafnframt aukið áhrifaleysi smærri ríkja innan sambandsins og aukin áhrif þeirra stærri. Aðild Íslands mun auk þess hafa veruleg áhrif á stöðu allra ríkjanna innan Sameinuðu þjóðanna, en þar munu raddir þeirra að mestu þagna. Aðildarríki ESB myndu að auki tapa miklu af því sjálfsforræði sem þau nú hafa yfir eigin auðlindum, allt vegna aðildar Íslands.

Við aðild Íslands mun miðstýring innan ESB einnig stóraukast og fyrirsjáanlegt að fram mun fara "...sívaxandi valdasamþjöppun í miðstýrðum stofnunum ESB sem að litlu leyti lúta eftirlitsvaldi kjósenda...". Fjarlægð embættismannakerfis ESB frá hinum almenna ESB borgara mun einnig stóraukast og skilningsleysi embættismanna ESB að sama skapi á högum og háttum einstakra aðildarríkja sömuleiðis. Hugsanlega mun almennt tillitsleysi stóraukast um alla álfuna. Biðraðamenning mun almennt leggjast af og um alla Evrópu munu Evrópubúar framvegis leggja bílum sínum upp á gangstétt fyrir framan dyr þeirrar verslunar eða stofnunar sem þeir eiga erindi við hverju sinni.

Almennt atvinnuleysi upp á a.m.k. 20 prósent mun einnig hellast yfir alla álfuna. Slíkt atvinnuleysi, sem hingað til ekkert ríki ESB hefur þurft að þola, en Spánn hefur komist næst (18%), verður við aðild Íslands landlægt. Gott ef ekki fyrirskipað af embættismönnum í Brussel. Það verða jú allir að marsera í takt í öllu, alltaf, við aðild Íslands! Slæmar afleiðingar af þessu yrðu svo frekar magnaðar af hinni sameiginlegu mynt sem allt um lykur, þrátt fyrir yfirvofandi upplausn hennar.

Við aðild Íslands aukast einnig verulega líkur á að ESB taki yfir allar auðlindir innan ríkja sambandsins. Núverandi reglur um "hlutfallslegan stöðugleika" og almennt virðing fyrir eignarrétti og þjóðarhagsmunum mun hverfa sem dögg fyrir sólu. Tillitsleysið verður algert.

Einnig munu þjóðirnar allar sem ein tapa yfirráðum yfir lífi og limum borgara sinna og Brusselveldið mun hefja stórkostlega hernaðaruppbyggingu og herkvaðningu saklausra íbúa ESB-ríkjanna. Já, sameiginleg öryggis- og varnarstefna sem þjóðirnar taka nú þátt í eftir efnum, aðstæðum og áhuga verður við aðild Íslands skylduverk án undantekninga.

Auk þess er rétt að halda því til haga að "erlendir aðilar" munu um alla Evrópu eignast allt og allur virðisauki innan sambandsins flytjast eitthvað annað.

Og já, rétt er einnig að hafa í huga að við aðild Íslands mun afstaða ESB til landbúnaðar gerbreytast og verður hann lagður af eins og hann leggur sig. Hin ríka hefð ESB að styðja við og sýna landbúnaði aðildarríkjanna sérstaka tillitssemi verður lögð af við aðild Íslands.

Mikil er ábyrgð þín, Ísland, og ykkar Evrópuríkja ef þið samþykkið að hefja aðildarviðræður.

(PS. Ef þið trúið mér ekki má fræðast betur á vefjum Heimssýnar, sérstaklega hér, og Evrópuvaktarinnar.)

þriðjudagur, 15. júní 2010

ESB og Apartheid

Já, það er óhætt að segja að aðildarumsókn Íslands að ESB sé í mikilli deiglu. Allt stefnir í að leiðtogafundur sambandsins muni samþykkja að hefja aðildarviðræður við Ísland á reglubundnum fundi sínum næstkomandi fimmtudag.

Á sama tíma er borin fram tillaga á Alþingi um að aðildarumsóknin verði dregin til baka og endurspeglar sú tillaga hið mikla önuglyndi þeirra sem leggjast gegn hugsanlegri aðild Íslands hvað sem það kostar. Óttast þeir mest að með tíð og tíma komi til með að liggja fyrir aðildarsamningur sem þjóðin geti rætt og skoðað gleraugnalaust.

Það hefur löngum verið helsta vopn þeirra sem leggjast gegn þessum aðildarviðræðum að ástríða þeirra, hversu vanstillt sem hún er, ber ákveðin sannfæringarmátt. Rétt eins og í sögunum um Ástrík er erfitt að færa rök gegn viðvarandi ótta um að himnarnir séu um það bil að hrynja ofan á hausinn á okkur. Á tímum Ástríks vantaði vísindin og valmöguleikinn að senda t.d. upp loftbelg til þess að safna upplýsingum um himininn þ.a. hægt væri að hrekkja með vísindalegum rökum óttann um himinhrunið, rétt eins og aðildarsamningur myndi veita Evrópuumræðunni raunverulegan grundvöll til að byggja á, í stað hindurvitna eins og andstæðingar aðildar grípa nú til.

En eftir því sem geðvonskan eykst hjá andstæðingum aðildar verða meðölin óvandaðri og ósmekklegri. Aðildar- og umsóknarsinnum er nú grímulaust legið á hálsi að vera óíslenskir, óþjóðlegir, óalandi og óferjandi.

Og nú skal skrefið stigið til fulls í uppnefningunum eins og sjá má í leiðara Morgunblaðsins í morgun undir yfirskriftinni "Vendipunktur" þar sem fagnað er fyrrnefndri framlagðri þingsályktunartillögu um að aðildarumsóknin verði dregin til baka, en þar segir m.a.:

"Samfylkingin er komin með ömurlega stöðu í málinu og gegnir líku hlutverki og hvíti minnihlutinn í Suður-Afríku sinnti í baráttu sinni gegn lýðræðinu á móti miklum meirihluta þjóðar sinnar, þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Nú skulum við horfa fram hjá því að sá sem hér heldur á penna beini orðum sínum að Samfylkingunni. Þetta hlýtur að eiga við alla þá sem hlynntir eru aðildarumsókn Ísland að ESB. Og við erum, að mati ritstjóra Morgunblaðsins, eins og hvíti kúgunarminnihlutinn í Suður Afríku, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Já, við erum svona lið sem hneppir fólk í fangelsi, lokar það í gettóum, handtökum án dóms og laga og virðumst raðhandtaka andstæðinga aðildarumsóknar Íslands að ESB. Á götuhornum gerum við hróp að andstæðingum aðildar og leyfum þeim ekki ekki að fara með okkur hinum í strætó, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Við aðildarsinnar erum sem sagt andlýðræðislegt skítapakk, rétt eins og hvíti minnilhlutinn í Suður Afríku var, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Og þá væntanlega alveg eins og nasistar í Þýskalandi á sínum tíma, eða rauðu khmerarnir, nú eða talibanar í Afganistan, hvað varðar okkar andlýðræðislegu hætti, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

Á hvaða plan er umræðan komin?

Fyrir utan að þessi and-lýðræðislegu rök falla augljóslega um sjálf sig þegar ljóst er að engin verður aðildin að ESB án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Ef út í það er farið þá eru það verstu and-lýðræðissinnarnir þeir sem stöðugt vilja koma í veg fyrir aðildarviðræður og koma þannig í veg fyrir að þjóðin geti tekið afstöðu til aðildar á grunni staðreynda og fyrirliggjandi aðildarsamnings.

Reyndar er kannski ágætt að þessi þingsályktunartillaga um afturköllun aðildarumsóknar sé lögð fram því nú skal manninn reyna. Samkvæmt fréttum morgunsins virðast bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Framsóknarflokksins því hlynntir að tillagan nái fram að ganga og lýðræðisframganga málsins verði stöðvuð. Þar fer annar formaðurinn fram gegn betri vitund og hinn gegn samþykktri stefnu flokks síns.

Er skelfilegt að horfa upp á að leiðtogum tveggja flokka sé fjarstýrt af fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins með jafn grímulausum hætti. Annar hlýðir boðvaldinu beint á meðan hinum er fjarstýrt í gegnum frændgarð í kaupfélagsstjórastarfi. Skiptir þá engu að þar er um að ræða hrunmeistara af verstu sort.

En, það er víst allt leyfilegt þegar stöðva þarf þetta aðskilnaðarstefnupakk sem vill halda til streitu aðildarumsókn Íslands að ESB. Kannski næsta tillaga ritstjóra Morgunblaðsins verði að merkja þetta ESB lið með gulri Evrópustjörnu, svo heiðvirt fólk geti varast að umgangast slíkan skríl. Eða nei, það væri kannski ósmekklegt, svona út af hugsanlega óheppilegum sögulegum tilvísunum, "...þótt að öðru leyti sé ekki saman að jafna."

sunnudagur, 13. júní 2010

Stærsta bankafrétt helgarinnar

Svar efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einar Kr. Guðfinnssonar um stærstu eigendur Íslandsbanka og Arionbanka var lagt fram á þingi í gær og má sjá í heild sinni í þessu skjali.

Ekki er annað að sjá af svari ráðherrans að svo sé sem marga grunaði að það á í reynd engin þessa banka, þrátt fyrir fullyrðingar um annað.

Enda stendur skýrum stöfum í svari ráðherrans að:

"Meðan á slitameðferð stendur eru kröfuhafar ekki eigendur Arion banka frekar en annara eigna Kaupþings. Það hvort kröfuhafar eignist Arion banka á einhverjum tímapunkti veltur á því hvernig lokum slitameðferðar verður háttað. Aðkoma kröfuhafa að Arion banka í dag er því engin."

Hvernig þetta stemmir við fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins frá því fyrsta desember síðastliðinn þar sem segir beinum orðum að "Kröfuhafar Kaupþings eignast 87% í Arion banka" er svo annað mál.

Svar ráðherrans er annars einkar athyglivert aflestrar enda koma þar fram hverjir eru 50 stærstu kröfuhafar í þrotabú beggja banka, með fyrirvörum þó. Það er vonandi að viðskiptagreinendur helstu fréttamiðla muni finna sér tíma frá HM í fótbolta í dag til að greina svar ráðherrans í hörgul.