fimmtudagur, 31. júlí 2008

Guðni og Doha

Eftirfarandi er haft er eftir Guðna Ágústssyni, formanni Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í morgun:

„Ég harma hins vegar ekki þessa niðurstöðu [að viðræðurnar runnu út í sandinn],“

Það er kannski ástæða til að minna formanninn á kosningastefnuskrá Framsóknarflokksins frá því fyrir síðustu Alþingiskosningar, en þar segir:

„Að unnið verði að farsælli niðurstöðu Doha-viðskiptalotunnar innan Heimsviðskiptastofnunarinnar.“

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og núverandi framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbanda, Sigurður Eyþórsson, er á öndverðum meiði við Guðna í grein í Fréttablaðinu í morgun, en þar segir m.a.:

„Það er ekkert sérstakt fagnaðarefni fyrir íslenskan landbúnað að ekki hafi tekist samkomulag nú, því óvissa um rekstrarskilyrði er ekki hagstæð fyrir greinina fremur en aðrar atvinnugreinar.“

Guðni formaður er kannski eitthvað óvenju hvumpinn þessa daganna, en það er ekki afsökun fyrir því að tala í mótsögn við stefnu eigin flokks, og að því er virðist við hið klassíska bakland að auki.

Bergsson til bjargar

Ástand mála í borgarstjórn Reykjavíkur er orðin hið vandræðalegasta - ekki aðeins fyrir meirihlutann heldur borgarstjórn í heild sinni. Jafnframt er þetta ástand farið að hafa neikvæð áhrif á nágrannasveitarfélögin.

Bergsson bjargaðu okkur!

Það er ljóst að mjög fáir möguleikar eru í stöðunni til að bjarga því sem eftir lifir af þessu kjörtímabili. Tjarnarkvartetinn á ekki afturkvæmt, enda vandséð hvernig Framsókn, Samfylking og Vinstri-Græn gætu eða vildu eiga samstarf við Ólaf F. eftir að að hafa horft upp á framgöngu hans í samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Pólitískir útreikningar S og VG ganga jafnframt út á það að vandræðagangurinn muni skila þeim góðum meirihluta í næstu kosningum. Tveggja ára öngþveiti til viðbótar við stjórn borgarinnar er þeim flokkum þannig lítt á móti skapi - sama hver fórnarkostnaðurinn verður.

Merkja má jafnframt í þeim áætlunum að ekki er verið að gera ráð fyrir Framsóknarflokknum sem samstarfsaðila eftir næstu kosningar. Sumpart skiljanlega, enda eru skoðanakannanir í augnablikinu ekki að gefa flokknum miklar vonir um að halda sínum fulltrúa.

Hollusta gagnvart þeim ágætu flokkum í stjórnarandstöðu í borginni á því ekki að vera Óskari Bergssyni, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins, sérstakt umhugsunarefni. Hann á að hafa að leiðarljósi einungis tvennt, annars vegar hvað er best fyrir borgina, og hins vegar hvað er best fyrir flokkinn.

Svarið við hvoru tveggja er að ganga til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn.

Málefnasamningurinn liggur fyrir.

Meiri líkur en minni eru á því að a.m.k. einhverjir kjósendur í Reykjavík muni kunna Óskari miklar þakkir í næstu borgarstjórnarkosningum fyrir slíkt framtak.

laugardagur, 19. júlí 2008

Saving Iceland(air)

Jæja, þá eru þeir mættir aftur blessaðir atvinnumótmælendurnir í Saving Iceland. Íslensk náttúra tók víst heldur óblíðlega á móti þeim fyrsta daginn, en þeir virtust ekki skilja þau skilaboð!

Í lýðræðisþjóðfélögum er okkur frjálst að mótmæla - þó ekki vilji ég gúddera skrílslæti og skemmdarverk í nafni mótmæla, enda verður slíkt yfirleitt til að skaða málstaðinn.

Sjálfum þætti mér t.d. full ástæða til að mótmæla ýmsu, t.d. háu vaxtastigi, mikilli verðbólgu og verulegum kjaraskerðingum - það er nokkuð sem snertir a.m.k. sjálfan mig meira en virkjanir og stóriðja (sem ég styð í prinsippinu - innan skynsamlegra marka).

Mótmæli geta líka verið á stundum eilítið sjálfhverf útrás gagnvart því sem er að pirra mann á hverjum tíma. Í gær hefði ég t.d. næstum því alveg verið stemmdur til þess að hlekkja mig við skrifstofur Icelandair í mótmælaskyni við sætaþrengslin í vélinni til New York, og þá sérstaklega að mótmæla gula hrísgrjónavellingnum og brauðrasps-kjúklingabringunni sem virðist orðið það eina sem Icelandair bíður í matinn á sínum flugleiðum. Jukk!!!

En, ætli það sé ekki líklegra að ég reyni bara að muna eftir að taka með mér samloku næst...

Fastgengisstefna gagnvart evrunni

Þann 9. nóvember síðastliðinn birtist eftirfarandi pistill eftir undirritaðan í Fréttablaðinu:

Nýr valkostur hvað varðar gjaldeyris- og gengismál Íslendinga er smátt og smátt að koma í ljós. Undanfarið hefur verið deilt um hvort halda eigi krónunni eða ekki, og þá hvort hægt sé að taka upp evru einhliða eða aðild að Evrópu­sambandinu sé þar frumskilyrði.

Ófrávíkjanleg staðreynd mála er sú að Evrópusambandið er okkar stærsti og mikilvægasti viðskiptaaðili. Við ríki ESB eigum við yfir 70% okkar milliríkjaviðskipta. Þorri Evrópuþjóða tekur þátt í myntsamstarfi þess og gjaldmiðlar þeirra ríkja innan sambandsins sem ekki hafa tekið upp evru njóta gengisstöðugleikaáhrifa aðildar. Sum ríki með beinum samningum, s.s. Danmörk, en danska krónan er múlbundin við evru þ.a. verulegt gengisflökt dönsku krónunnar gagnvart evru er óhugsandi. Danska krónan er þannig í reynd evra í dulargervi.

Einn valkostur Íslands, á meðan áfram er þrefað um aðild eða ekki aðild, evru eða ekki evru, er að taka upp fastgengisstefnu gagnvart evrunni.

Fastgengisstefna verður hins vegar að njóta verulegs trú­verðug­leika ef hún á að ganga upp og viðkomandi gjaldeyrir á ekki að verða endalaust skotmark spákaupmanna. Sá trú­verðug­leiki mun fyrst og fremst byggjast á grundvallarstyrk íslenska efnahagskerfisins til þess að standa undir því gengi sem miðað er við. En því til viðbótar er hægt að styrkja og styðja slíka stefnu með beinum og óbeinum hætti.

Það færi fram með beinum hætti ef hægt væri að ná fram gagnkvæmnissamningi við seðlabanka Evrópu um að styðja við gengi krónunnar. Vissulega væri slíkur samningur óvenjulegur, en þarf ekki að vera óhugsandi. Slíkan samning má m.a. rökstyðja með vísan til aðildar Íslands að innri markaði ESB í gegnum EES-samninginn.

Fastgengisstefna yrði einnig studd óbeinum hætti ef fleiri íslensk fyrirtæki feta í fótspor þeirra fyrirtækja sem þegar hafa skipt úr krónum í evrur hvað varðar uppgjörsmynt og skráningu hlutabréfa. Sú einfalda staðreynd að stærsta fyrirtæki Íslands, Kaupþing, ætlar að taka upp evru sem rekstrar, uppgjörs og hlutabréfaskráningarmynt um næstu áramót, mun ein og sér hafa áhrif til þess að auka trúverðugleika fastgengisstefnu, ef slík stefna yrði tekin upp.

Fastgengisstefna myndi auk þess kalla á ákveðna tiltekt í íslenskri tölfræði, og þá fyrst og fremst hvernig verðbólga er hér mæld, en verðþróun húsnæðis er hvergi í Evrópu tekin inn í verðbólgumælingar með sama hætti og hér.

Auk þess þyrfti að sjálfsögðu að viðhalda hér ráðdeild í ríkissrekstri, vinna áfram að því að draga úr viðskiptahalla og halda viðunandi hagvexti. Í þeim efnum hefur það sýnt sig að tölfræðin og túlkun hennar hefur ekki haldið í við hraða þróun og útrás íslensks efnahagslífs.

Fastgengisstefna myndi leiða af sér lægri vaxtamun við evruríkin, eyða að miklu leyti gengisóvissu, auka stöðugleika og jafna út verðsveiflur vegna gengis­þróunar. Krónan myndi hins vegar lifa áfram, bæði sem reiknieining og sem táknmynd ímyndaðs fullveldis í ólgusjó alþjóðavæðingarinnar.

Fannst alveg viðeigandi að rifja þennan upp og halda til haga hér á blogginu í ljósi umræðunnar undanfarið þó tilvísun í fyrirætlan Kaupþings að taka upp evruna um síðustu áramót sé pínu "dated", en ekkert varð af því þá - hvað sem síðar verður.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

Niðurstaða BHM-samninga

Tölulegar niðurstöður atkvæðagreiðslu félagsmanna félaga innan BHM eru komnar á heimasíðu samtakanna. Það er sannarlega athyglisverð lesning og óhætt að taka undir með formanni BHM, en hún lætur hafa eftir sér að "Atkvæði greitt með samningnum verður þó tæpast túlkað sem yfirlýsingu um sátt við innihald hans."

Í ljósi þess að einungis tók rúmur þriðjungur félagsmanna þátt í kjörinu og þar af var samningurinn studdur af tveimur þriðja þeirra sem tóku þátt eru það orð að sönnu. Það þýðir aftur að einungis fjórðungur félagsmanna BHM sá ástæðu til þess að samþykkja samninginn - aðrir (75%) sögðu nei, skiluðu auðu eða sátu hjá.

Verkefni félaga innan BHM er að hefja nú þegar, og þá helst sameiginlega undir merkjum Bandalagsins, undirbúning að gerð nýs heildarkjarasamnings sem taki gildi þegar þessi framlenging rennur sitt skeið í lok mars á næsta ári. Kjarasamningar opinberra starfsmanna eru orðnir átta ára gamlir og tími til þess að fara yfir allan pakkan, en ekki einungis horfa á launatölur.

Launatölurnar eru hins vegar aðalatriðið, sérstaklega í ljósi þeirrar gríðarlegu kjaraskerðingar sem félagsmenn innan félaga BHM hafa verið að taka á sig á undanförnum árum, að lágmarki um 15% á fjögurra ára samningstíma, frá febrúar 2005 til mars 2009, gangi verðbólguspár Seðlabanka Íslands eftir.

Reynsla samningamanna af nýloknum viðræðum ætti að þjóna sem hvatning til þess að byrja snemma og vinna saman. Það þarf að tryggja að næstu samningaviðræður verði raunverulegar kjaraviðræður, en ekki sýndarviðræður.

Almennir félagsmenn verða jafnframt að vera duglegir að láta í sér heyra og styðja vel við bakið á þeim sem munu leiða þær viðræður fyrir þeirra hönd.

þriðjudagur, 15. júlí 2008

Evra, EES og efldur innri markaður

Í þeim miklu umræðum sem fara fram þessa dagana um möguleikan á upptöku evru sem gjaldmiðil fyrir Ísland hefur þeim rökum verið beitt að upptaka evru eða binding krónunnar við hana sé rökrétt framhald og ákveðin fullnusta á innri markaði EES. Fjórfrelsinu verði þannig veittur betri byr undir báða vængi, sérstaklega hvað varðar frjálst flæði fjármagns, með tengingu við evruna.

Ef skilvirkni innri markaðarins er raunveruleg ástæða þá vantar að ræða skref í þeim efnum sem jafnvel mætti telja nauðsynlega forsendu sem þurfi að uppfylla áður en myntsamstarfsskrefið er stigið.

Aukinni skilvirkni innri markaðarins verður fyrst náð með myndun tollabandalags meðal þátttökuríkjanna.

Munurinn á innri markaði EES annars vegar og ESB hins vegar er s.s. tvíþættur, annars vegar tollabandalagið og hins vegar myntsamstarfið. Tollabandalagið er án undanþága, þ.e. öll aðildarríki ESB eru þátttakendur í því. Það er ein grunnforsenda ESB samstarfsins. Raunverulegur innri markaður næst fyrst með tollabandalagi. Myntsamstarf er ekki nauðsynleg forsenda tollabandalags, en velta má fyrir sér hvort tollabandalag, í samstarfi eins og EES, væri ekki nauðsynleg forsenda myntsamstarfs.

Þess eru dæmi að ESB geri tollbandalagssamninga við þriðju ríki, s.s. Tyrkland.

--------------

Í viðskiptablaðinu þriðjudaginn 15. júli skrifar Andrés Magnússon úr glerhúsinu í pistli sem nefnist "Annað hvort eða". Þar er fjallað um evruumræðuna. Andrés veltir upp eftirfarandi valkosti:

En svo er enn einn kosturinn í þessari stöðu – telji menn að evran feli í sér lausn Íslendinga – sem af einhverri ástæðu hefur ekki verið ræddur. Í stað þess að Ísland gangi í Evrópusambandið, í Myntbandalagið eða taki evruna upp einhliða, væri einfaldlega unnt að samþykkja lög þess efnis að evran sé lögeyrir á Íslandi jafnhliða krónunni. Það hefði í för með sér nánast alla kosti aðildar að Myntbandalaginu, fyrir utan það að Seðlabanki Evrópu er ekki skuldbundinn til þess að vera lánveitandi til þrautavara. Slík aðgerð brýtur ekki gegn stofnsáttmála og reglum Myntbandalagsins og er ekki einhliða evruupptaka.
***
Því skal á engan hátt haldið fram að slík aðgerð væri hin eina rétta. Frekar en aðrar. En það er máske mergurinn málsins, að í þessum efnum sem flestum öðrum er ekki annað hvort eða.


Þetta er fín vangavelta hjá Andrési og hana mætti þess vegna taka skrefinu lengra og heimila notkun fleiri gjaldmiðla sem lögeyris, og þá til viðbótar bæði dollar (fyrir forsætisráðherra) og svissneskan franka (fyrir Björgúlf Thor og Guðna Ágústsson). Þetta mætti gera án mikillar fyrirhafnar og án þess að fá "leyfi" að utan. Jafnhliða á að gefa öllum fyrirtækjum kost á því að gera upp og skrá sitt hlutafé í þeirri mynt sem þeim sýnist, án sérstakra afskipta hins opinbera. Hið opinbera gæti hins vegar stutt slíka fjölmyntavæðingu, m.a. með því að heimila uppgjör skatta og annarra opinberra gjalda í erlendum gjaldmiðli.

Gamla góða samkeppnin myndi þannig á endanum skera úr um hvaða mynt hugnast okkur best - krónan eða eitthvað annað. Fjölmyntavæðingin yrði hins vegar án efa til þess að styrkja bæði krónu og hagkerfi til lengri tíma litið þar sem raunverulegir alþjóðlega viðurkenndir verðmiðar myndu fást á fleiri þætti hins íslenska hagkerfis.

sunnudagur, 13. júlí 2008

Forsætisráðherra ekki málefnalegur?

Það er athyglisvert að lesa grein Þórlindar Kjartanssonar, formanns Sambands ungra sjálfstæðismanna, í Fréttablaðinu í dag. Sérstaklega hnaut ég um þessa setningu undir lokin: "Umræða um að aðild að ESB og upptaka evru á þeim grunni sé eini valkosturinn við núverandi fyrirkomulag er hins vegar ekki málefnaleg. "

Svo?

Eftirfarandi sagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðsflokksins í ræðu sinni á ársfundi viðskiptaráðs þann 13 febrúar sl:

"...hér eru aðeins tveir kostir í boði: Að halda íslensku krónunni eða taka upp evru sem jafnframt þýðir inngöngu í Evrópusambandið. Það er einfaldlega ekki kostur að taka einhliða upp evru. Slíkt er ekki trúverðugt og því fylgir margs konar óhagræði og aukakostnaður."

Það er fjör á þessum bænum, formaður SUS segir formann flokksins ekki málefnalegan, og formaður flokksins hefur fyrirfram lýst formann SUS ótrúverðugan!

laugardagur, 12. júlí 2008

föstudagur, 4. júlí 2008

BHM-samningur: 20% kjaraskerðing

Næstkomandi mánudag hefst rafræn atkvæðagreiðsla okkar félagsmanna BHM um nýgerðan kjarasamning félagsins við ríkið.

Formaður félagsins hefur þegar lýst þennan samning "skásta kostinn" þar sem hann feli í sér kjaraskerðingu, en lítið annað sé hægt í stöðunni.

En hve mikil er kjaraskerðingin?

Nýi samningurinn er framlenging á kjarasamningi sem var undirritaður í febrúar 2005. Með þessari framlengingu verður þetta þannig um fjögurra ára tímabil með heildar launahækkun upp á u.þ.b. 17%. Fyrir framlengingu telst hækkunin u.þ.b. 11%.

Fram til síðasta mánaðar hefur vísitala neysluverðs hækkað á sama tímabili um 28%.

Ef marka má verðbólguspá Seðlabankans mun vísitala neysluverðs líklega standa í u.þ.b. 330 stigum undir lok mars á næsta ári, sem þýðir að heildarhækkun vísitölunnar á sama tímabili og framlengdur samningur nær til verður u.þ.b. 37%.

37 – 17 = 20

Kjaraskerðing samnings BHM er þannig heil 20% yfir fjögurra ára samningstímabil, frá febrúar 2005 til og með mars 2009.

Með samþykkt samningsins munu félagsmenn BHM í reynd samþykkja þá 17% kjaraskerðingu sem þegar er orðin og 3% kjaraskerðingu til viðbótar á næstu 9 mánuðum.

Allir sáttir?

fimmtudagur, 3. júlí 2008

ESB-umræða á villigötum

Reglulega er eins og umræða um aðild Íslands að ESB fari að snúast um prósentur. Stuðningsmenn aðildar vísa til þess að Ísland sé meira og minna orðinn aðili hvort eð er þar sem 80-90 prósent regluvirkis ESB hvað varðar innri markaðinn sé leitt í lög og reglugerðir á Íslandi fyrir tilstilli EES-samningsins. Andstæðingar aðila telja þetta hina mestu fyrru þar sem fram hafi komið í svari utanríkisráðherra 2005 við fyrirspurn þingmannsins Sigurðar Kára Kristjánssonar að einungis 6,5% gerða ESB væru leidd í landslög fyrir tilstilli EES-samningsins.

Þetta er tilgangslaust debatt þar sem í fyrsta lagi báðir hafa rétt fyrir sér og í öðru lagi hefur þetta prósentustagl lítið með kjarna málsins að gera.

Hvernig geta fylgismenn og andstæðingar ESB-aðildar báðir haft rétt fyrir sér? Jú vegna þess að þeir eru ekki að tala um sama hlutinn. Hvað varðar innri markaðinn þá fer langstærstur hluti regluvirkis ESB inn í EES – 80-90%. Innri markaðurinn og EES nær hins vegar ekki til sameiginlegrar stefnu ESB hvað varðar landbúnað, sjávarútveg og tollamál. Eins og kemur fram í svari utanríkisráðherra, er langstærstur hluti “gerða” ESB vegna þessara þriggja þátta, enda um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir sem varðað geta t.d. ýmsar smálegar rútínuafgreiðslur, s.s. varðandi ákveðið kjúklingabú í Normandí, svo dæmi sé tekið. Slík afgreiðsla fær samt gerðanúmer og telur í pakkann, þó sú gerð hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt kjúklingabú!

Fyrirspurn Sigurðar Kára var þannig snilldarherbragð sem færði andstæðingum aðildar gott tölfræðivopn gegn aðildarsinnunum með sín 80-90%!

Þetta prósentustagl hefur hins vegar eins og áður sagði lítið með kjarna málsins að gera. Sá kjarni hlýtur að snúast fyrst og fremst um hver eðlismunur er á EES-aðild annars vegar og ESB-aðild hins vegar. Í hnotskurn felst sá munur helst í aðild að fjórum viðbótarþáttum ESB umfram EES: landbúnaðarstefnunni, sjávarútvegsstefnunni, tollabandalagi sambandsins og mynstsamstarfinu.

Hvern þessara þátta ættum við að geta vegið og metið saman og sitt í hvoru lagi á forsendum grundvallarhagsmuna. Það hugsa ég að verði bæði athyglisverðara og skemmtilegra debatt en prósentustagl.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Rót vandans: fikt í Excel...!

Má til með að benda á bloggfærslu Tóta vinar míns þar sem rót núverandi efnahagsvanda er útskýrð m.a. með því að fjármálamenn hafi gengið of glatt um gleðinnar dyr í Microsoft Excel.