sunnudagur, 25. júlí 2010

Alveg magmað!

Að ríkisstjórn Íslands skjálfi á beinunum og riði jafnvel til falls vegna sölu á hlut Geysis Green í Hitaveitu Suðurnesja til Magma er hreint ótrúlegt. Svei mér þá, get hálfvegis ímyndað mér að þetta sé eins og að vakna á þriðja degi eftir viku fyllerí, ennþá þunnur, og vera brjálaður út í barþjóninn sem seldi manni bjór númer 2.

Þetta er búið og gert. Þeim sem ekki hugnaðist málið eru búnir að hafa nægan tíma til þess að gera eitthvað í því. Það láðist þeim að gera.

Sjálfur hef ég ekkert á móti fjárfestingum erlendra aðila í íslensku atvinnulífi og slétt sama hvort að sú fjárfesting kemur innan eða utan EES. Aðalatriðið er að hér séu skýrar reglur um fjárfestingar almennt.

Hvað varðar fjárfestingu Magma í Hitaveitu Suðurnesja sérstaklega hef ég þrjá fyrirvara:

  1. Kúlulán. Að fréttum að dæma er stór hluti fjárfestingarinnar í formi kúluláns frá seljanda til kaupanda. Þannig lætur kaupandi arð fjárfestingarinnar sjá um að greiða fyrir sig stóran hluta kaupanna án þess að um eiginlegt nýtt fjármagn komi inn í landið eða til seljanda. Kúlulán eru ekki til fyrirmyndar í fjárfestingum og skuldsettum yfirtökum.
  2. Tímalengd aðgangsleigunnar að auðlindum. Samkvæmt fréttum er nýtingarréttur Magma á auðlindum 65 ár með möguleika á framlengingu um önnur 65 ár. Þessi tímalengd þarf ekki að vera verri en hver önnur, en fýsileiki fjárfestingar sem byggir á tryggðum aðgangi að auðlind í hartnær tvo mannsaldra er athyglisverð í sjálfu sér. Hér má hins vegar saka stjórnvöld um ákveðna handvömm að hafa ekki sett skýrar reglur um aðgangsleigu að auðlindum af þessu tagi.
  3. Einkavæðing grunnþjónustu. Þó ég sé markaðs- og einkaframtaksmaður yfirleitt og yfirhöfuð, þá hef ég mínar efasemdir þegar kemur að rekstri ákveðinnar grunnþjónustu, sérstaklega þeirrar sem í eðli sínu verður aldrei annað en einokunarstarfsemi. Grunnveituþjónusta, eins og inntak á heitu og köldu vatni inn í heimahús, verður aldrei annað en einokunarbransi. Þú skiptir ekki svo glatt um veituþjónustuaðila.

Að sama skapi, hins vegar, er ég ekki hrifinn af því að ríkið sé á bólakafi í áhættufjárfestingum í orku og veitubransanum. Það er, mér þykir ekki óeðlilegt að sveitarfélög eigi og reki veitufyrirtæki, til þess að sinna grunnþjónustu fyrir íbúana. Hins vegar þykir mér að sama skapi ekki rétt að sveitarfélög eða ríkið, séu að veita ábyrgðir og taka með beinum hætti þátt í uppsetningu, rekstri og skuldsetningu með opinberri ábyrgð (þ.e. á ábyrgð skattborgarana) á áhættufyrirtækjum. Landsvirkjun, sá hluti Orkuveitu Reykjavíkur sem selur orku til stórfyrirtækja og þess vegna gróðurhúsabænda, á að geta starfað á eðlilegum markaðsforsendum, án ríkisábyrgðar. Slíkar sjoppur eiga að geta borið sig sjálfar.

Þetta er reyndar kosturinn við fjárfestingu Magma, að fráskyldu því sem var að ofan talið. Frekari fjárfestingar Magma í orkuvinnsluuppbyggingu til stórsölu hlýtur þannig að verða á þeirra eigin ábyrgð. En að sama skapi er áhætta í því falin að, ef ekki eru til staðar sérstakar öryggisgirðingar, verði kostnaði vegna misheppnaðra fjárfestinga vegna t.d. orkuöflunnar til stóryðju, velt yfir á heimili á Reykjanesi, sem hafa í engin önnur hús að venda með kaup á heitu vatni.

Þær ambögur sem eru á fjárfestingu Magma hefði eflaust verið hægt að leysa, eða a.m.k. draga úr, sérstaklega hvað varðar kúlúlánið og tímalengd auðlindaleigutímans. Úr þessu er tæpast hægt að gera mikið annað en að læra af þeirri óneitanlega dýru reynslu sem hér hefur fengist. Hana ætti að nýta til að móta skýrari og sterkari almennan ramma um fjárfestingu innan orkugeirans og nýtingu orkuauðlinda, sem gildi þá hvort heldur sem er um innlendar og erlendar fjárfestingar. Þegar það liggur fyrir væri kannski forsenda til að setjast niður og semja við Magma um að sníða verstu agnúana af þeirra fjárfestingu, enda því fyrirtæki í hag að sem mestur friður ríki um starfsemi þeirra.

föstudagur, 16. júlí 2010

Ein þjóð – einn lífeyrissjóð?

Í leiðara Fréttablaðsins í morgun fjallar ritstjórinn, Ólafur Stephensen, um íslensku lífeyrissjóðina undir yfirskriftinni "Völd án aðhalds". Þar segir m.a.:

Lífeyrissjóðirnir eru mikilvægur hluti af velferðarkerfinu. Þessi hluti velferðarkerfisins er rekinn af aðilum vinnumarkaðarins í stað þess að vera rekinn af ríkinu, eins og í mörgum öðrum löndum. Íslenzka lífeyriskerfið er að mörgu leyti einstakt og vegna þess að það byggist á sjóðssöfnun en ekki svokölluðu gegnumstreymi eins og lífeyriskerfi margra annarra ríkja eru Íslendingar betur settir í lífeyrismálum en margur og betur í stakk búnir að mæta t.d. öldrun þjóðarinnar.

Hins vegar skortir þennan mikilvæga hluta velferðarkerfisins það lýðræðislega aðhald, sem hinn opinberi hluti hefur. Telji kjósendur að stjórnmálamenn fari ekki nógu vel með það fé, sem fólk greiðir í skatta til ríkisins, geta þeir losað sig við þá og hafa til þess tækifæri á fjögurra ára fresti. Lýðræðið á vettvangi lífeyrissjóðanna er hins vegar afar takmarkað. Fulltrúar atvinnurekenda og verkalýðsforystu skipta þar völdum á milli sín, án raunverulegrar aðkomu hins almenna sjóðfélaga.

Ólafur líkur leiðara sínum með eftirfarandi orðum:

Erlendis fara lífeyrissjóðir iðulega fyrir þeim hluthöfum, sem setja út á ofurlaun stjórnenda og óhóflega áhættu. Engu slíku var fyrir að fara á Íslandi fyrir hrun, enda litu margir stjórnendur lífeyrissjóðanna fremur á stóla sína sem valdauppsprettu en umboð frá sjóðfélögum til að gæta hagsmuna þeirra.

Við þetta má bæta að ýmsir stjórnendur og starfsmenn lífeyrissjóða voru beinlínis virkir þátttakendur í ruglinu og tæpast virðist aðhald eftirlitsaðila með lífeyrissjóðunum hafa verið mikið betra eða skilvirkara en með öðrum fjármálastofnunum. Stór liður í því var annars vegar vanbúið og fáliðað eftirlit, en hins vegar alveg merkilega margir lífeyrissjóðir fyrir ekki fleira fólk. Þeir hlaupa á tugum, allir sem sínar stjórnir, starfslið, fastakostnað, breytilegan kostnað og svo framvegis. Og því miður eru ekki ófá dæmin um lífeyrissjóði sem beinlínis hafa farið á hausinn og tapað öll fé sinna umbjóðenda.

Væri ekki nær að sameina íslensku lífeyrissjóðina í einn öflugan sjóð? Þar með yrði á svipstundu til einn öflugasti lífeyris- og fjárfestingasjóður í Norður Evrópu. Þar með mætti spara verulega rekstrarkostnað, auðvelda eftirlit og hægt að marka slíkum sjóði skýra, en skilvirka fjárfestingastefnu.

T.d. væri hugsanlega að ákveðnu marki hægt að láta sameinaðan lífeyrissjóð landsmanna byggja á fyrirmynd norska olíusjóðsins.

Stjórn stjóðsins mætti skipa bæði fulltrúum ríkisvalds, verkaðlýðsfélaga og atvinnulífs (því auðvitað ætti lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins að vera hluti af þessu) og hægt væri auk þess að skipa sjóðnum fjölmennt fulltrúaráð, lýðræðislega kjörið.

Við sameiningu sjóðanna væru þeir gerðir upp tryggingafræðilega, og sérstaklega yrði ríkið að láta til sjóðsins falla aukalega fé vegna uppsafnaðaðra skuldbindinga vegna lífeyrisréttinda ríkisstarfsmanna. En samfara þessum breytingum yrðu lífeyrissréttindi allra landsmanna samræmd samkvæmt þeirri reglu að fá greitt úr sjóðnum í hlutfalli við það sem greitt var inn.

Einnig væri hægt að fela þessum sjóði að sinna grunnlífeyrisstryggingu sem nú er sinnt að mig minnir af Tryggingastofnun.

Það mætti jafnvel gerast enn rótttækari og fella undir slíkan sameinaðan sjóð aðra sjóði á vegum ríkisins, t.d. íbúðalánasjóð. Til þess að styrkja slíkan sjóð til langframa væri hugsandi að öll auðlindagjöld verði látin til hans renna.

Hinn ágæti viðbótarlífeyrissparnaður gæti hins vegar haldið áfram með sama hætti, þ.e. greitt inn á sérstakan lífeyrissparnað hjá fjármálafyrirtæki að eigin vali.

fimmtudagur, 15. júlí 2010

Úr helsi hagfræðinnar

Það er óhætt að segja að íslenska hrunið hafi verið allsherjar. Gjaldmiðilshrun, verðbréfamarkaðshrun, bankahrun, verðbólgusprettur, stóraukið atvinnuleysi og fjöldagjaldþrot fyrirtækja og heimila, auk þeirrar hættu sem varð, og er enn, á greiðslufalli ríkisjóðs, sveitarfélaga og fyrirtækja í opinberri eigu.


Fullt hús stiga í falli hagkerfis.


Við slíkar aðstæður ætti að gefa auga leið að uppbygging að nýju kallar á uppgjör, tiltekt, afskriftir og endurmat.

Og í þessu tilfelli á ég eingöngu við hinar hagfræðilegu og hagrænu undirstöður þjóðfélagsins.

Því jafn afgerandi hrun og Ísland gekk í gegnum hefur líka haft þær afleiðingar að allar þær hagtölur sem við byggjum á eru orðnar skakkar og skældar. Það verður að taka til í öllum tölfræðigrunni hagkerfisins og ekki halda áfram á núverandi grunni. Hann er ekki marktækur.


Engin slík tiltekt er hins vegar að fara fram og er að kosta Ísland óþarfa hörmungar og tefur fyrir því að landið nái sér aftur á strik.


Augljóst dæmi, sem ég hef áður tönglast á, var hin afleita ákvörðun Seðlabankans og ríkisstjórnarinnar um áramótin 2008/9 að breyta bókhaldsskuld Seðlabankans við sjálfan sig vegna kaupa á skuldabréfum bankanna í örvæntingarfullum björgunaraðgerðum í aðdraganda hrunsins. Hið fræga “tæknilega” gjaldþrot Seðlabankans. Í fyrsta lagi fór Seðlabankinn aldrei á markað til að fjármagna þessi kaup sín, þetta var hrein peningaprentun. Það var aldrei neinn kröfuhafi á móti þessari bókhaldsskuld.


Í öðru lagi er “tæknilegt” gjaldþrot einmitt það, tæknilegt en ekki raunverulegt. Seðlabankinn hefði þess vegna getað haldið þessu “tæknilega” gjaldþroti á bókunum næstu 100 árin án þess að það hefði í reynd gert meiri skaða en svo að líta illa út. Það var enginn kröfuhafi á móti þessari bókhaldsskuld.


Í þriðja lagi hefði Seðlabankinn getað afskrifað þessa skuld úr bókum bankans. Bankanum var það í lófa lagið að taka efnhagsreikninginn í gegn hjá sér í kjölfar hruns, svona rétt eins og þegar að fyrirtæki fara í gegnum endurskipulagningu, skuldbreytingar og afskriftir. Það var enginn kröfuhafi á móti þessari bókhaldsskuld. Hefðbundinn “peningaprentunarkostnaður” var í sjálfu sér kominn fram í hruninu sjálfu, þ.m.t. í bæði veðrbólguaukningunni sem varð og í hruni gjaldmiðlsins.


En í stað þess var frekar farið í þá ótrúlegu aðgerð að gera skuldina raunverulega og færa hana á ríkissjóð. Á einni nóttu jókst skuldastaða ríkissjóðs um væntanlega rúm 20% af þjóðarframleiðslu. Vegna "tæknilegs" gjaldþrots. Vegna bókhaldsbrellu. Og af þessari bókhaldsbrellu er víst á síðasta eina og hálfa ári búið að borga yfir hundrað milljarða af alvöru peningum, ef marka má fréttir. Hundrað milljarða sem tekið var af okkur í formi skatta og niðurskurðar á þjónustu.


Af hverju? Jú, af því að það er viðvarandi vandi í hagfræðingastétt að þjást af því sem kallast eðlisfræðiöfund. Hagfræðingar upp til hópa virðast telja sig til raunvísindamanna en ekki félagsvísindamanna, og skiptir þá littlu hvaða “skóla” þeir tilheyra.


Í sem einföldustu máli má segja að meginmunurinn á raunvísindum, og þá sérstaklega eðlisfræði, og félagsvísindum, er að í fyrrgreindu fræðunum eru fastar, lögmál og alhæfingar sem eru óhrekjanlegar. Þær eru vísindalegar staðreyndir, mælanlegar, rekjanlegar og óbreytanlegar.


Félagsvísindin búa ekki við þennan lúxus. Það hefur hins vegar ekki stöðvað félagsvísindamenn, og eru hagfræðingar þar fremstir í flokki, í því að nýta sér tæki og tól raunvísindanna, til þess að færa “sönnur” á kenningar sínar. Styðja sinn málstað, útskýra atferli og afleiðingar mannlegs athæfis.


Hefur margt af því verið til mikils ágætis og við eðlilegar kringumstæður mjög gagnlegt, til að mynda við það að leiðbeina við stjórn efnahagsmála. En staðreyndin er sú að allar slíkar sönnur eru í eðli sínu ekki tæmandi. Þær eru ekki alhæfanlega “réttar”. Slíkar sönnur veita hins vegar misgóða innsýn í mannlegt athæfi.


Eðlisfræðiöfund hagfræðinga, og fræðigreinarinnar sem slíkrar, hefur hins vegar gert það að verkum að þeim virðist lífsins ómögulegt annað en að meðhöndla hagkerfi, meira að segja jafn alvarlega laskað og það íslenska, innan rimla raunvísindanna.


Sem er miður, því hagfræði, rétt eins og pólitík, getur vel verið list hins mögulega og vel má brjótast úr helsi hagfræðinnar. Að peningar eru í raun bara plat...


Meira um það síðar.

miðvikudagur, 14. júlí 2010

Engin hætta á þjóðargjaldþroti

Það er kannski fjarlægðin, en þegar maður í eftirmiðdaginn lítur á fréttir á netinu að heiman, finnst manni oft hysteríubragurinn á sumum fréttunum vera full mikill.

Gott dæmi er þessi frétt á visir.is:

Ísland aftur á topp tíu listanum yfir hættu á þjóðargjaldþroti

Því miður er enginn tengill úr frétt visir.is yfir í heimildina sem sögð er vera gagnaveitan CMA. Þó þykist ég vita að hér sé um að ræða lista yfir þjóðir þar sem hætta er á “debt default”. “Debt default” þýðir að hætta sé á greiðslufalli lána, sem er töluvert annað og mildara vandamál en ÞJÓÐARGJALDÞROT!!!

Í þessu samhengi er líka ágætt að benda á frétt pressan.is, sem unnin er upp úr frétt af bloomberg.com.

Gengislánadómar: Ísland andspænis nýju bankahruni - Fjárfestar snúa baki við landinu

Nýtt bankahrun er jú viss áhætta í kjölfar dóms hæstaréttar, en ekki er horft til þess hvaða efnahagslegu áhrif það hefur þegar skuldastaða tugþúsunda fjölskylda breytist til hins betra á einni svipan, og sömuleiðis hugsanlega rekstrarstaða hundruða fyrirtækja. Tilhneigingin til þess að horfa alltaf á hið neikvæða er óheppileg, og verst að sjá hvað stjórnvöld eru öflu í þess konar niðurrifsstarfsemi.

Og hvaða fjárfestar eru að snúa baki við landinu. Það hefur allavega farið framhjá mér að einhverjir hafi verið komnir. Þessi eini, sá kanadíski með Ikea-skúffuna, hann er hér enn. Það eru hins vegar öfl á fullu við að henda honum út, en það hefur lítið með Hæstarétt og gengislán að gera.

Það kemur að auki fram í frétt Bloomberg að hjá Íslandsbanka eru menn bara nokkuð brattir og telja sig hafa borð fyrir báru. Þó mjög sé í tísku að skammast í skilanefndum þá virðist sú sem tók yfir Glitni og Íslandsbanka hafa gengið hvað vasklegast fram í að búa til nýjan alvöru banka.

Arion banki er einhversstaðar milli heims og helju og gæti brugðið til beggja vona.

Hins vegar er Landsbankinn líkast til í verstri stöðu og í raun eftirá að hyggja kannski illskiljanlegt af hverju þeim banka var yfirhöfuð bjargað, eða endurreistur sem afleitur sparisjóður í ríkiseigu á veikum grunni. Bankinn hefur verið milli heims og helju frá hruni.

Reyndar skal ég játa fávisku mína og viðurkenna að ég skil ekki hvers vegna Landbankinn er yfirhöfuð með skilanefnd. Það var strax ljóst að heildareignir bankans dugðu ekki upp í kröfur kröfuhafa númer eitt, Tryggingasjóð innistæðueigena, þ.a. til hvers var sett upp skilanefndarleikrit í kringum þá brunarúst?

Nær hefði verið að gera sjoppuna upp strax, afhenda Tryggingasjóði allar eignir bankans og senda öðrum kröfuhöfum kurteisislegt bréf um að ekkert fengist upp í kröfur þeirra. Sorrý! Tryggingasjóður gæti þá a.m.k. farið að byrja að borga bretum og hollendingum eitthvað upp í ICESAVE.

En ég er farinn að fjasa út og suður.

Megin punkturinn er þessi: Það er enginn hætta á “ÞJÓÐARGJALDÞROTI” sama hvernig fer um gengislánin, og nýtt bankahrun er ekkert nýtt, þar er bara framhald af þessari lönguvitleysu sem hófst 2008. Því fyrr sem hún fær að klárast, því betra.

fimmtudagur, 8. júlí 2010

Merk grein Árna Páls

Ástæða er til að mæla með grein Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, í Fréttablaðinu í morgun. Þar fjallar hann um stöðu mála í kjölfar gengisdóms Hæstaréttar og er ekki annað hægt en að fagna sérstaklega niðurlagi greinar ráðherrans, en þar segir:

Skilaboðin til fjármálafyrirtækjanna eru skýr:

Þau verða að axla byrðarnar af eigin verkum og við munum ekki ríkisvæða það tjón. Þau þurfa að vinna með fólki en ekki í stríði við fólk. Þau þurfa að laga skuldir einstaklinga og fyrirtækja að greiðslugetu. Þau þurfa að snúa baki við starfsháttum fortíðarinnar – lánveitingum með þriðjamannsábyrgðum, gylliboðum og skrumi. Þau þurfa að læra að verðmeta áhættu og að bera hana sjálf, gegn eðlilegu endurgjaldi, en ekki velta henni yfir á þá sem hvorki eru í stakk búnir til að meta hana eða bera hana. Fjármálakerfi er til fyrir fólk – en ekki fólk fyrir fjármálakerfi.

Skýrt og skorinort. Það eru hins vegar fleira sem vekur athygli í grein ráðherrans. Í annarri málsgrein segir t.d. “Ríkisstjórnin segir ekki SÍ eða FME fyrir verkum. Þvert á móti tryggja lög sjálfstæði þessara stofnana. Hrunið kennir okkur að við eigum að virða sjálfstæði þeirra, en líka gera til þeirra ríkar kröfur. Atburðir síðustu daga sýna okkur líka að tilmælin voru misráðin og ótímabær...”

Vart er hægt að túlka orð ráðherrans öðruvísi en svo að í þeim felist áfellisdómur á aðgerðir þessara tveggja stofnanna í kjölfar gengislánadóms Hæstaréttar. “Misráðin og ótímabær” eru þung orð þegar um jafn alvarlega hluti er að ræða. Hafa ber jafnframt í huga að í þessu felst ekki pólitísk gagnrýni af hálfu ráðherrans á hendur stofnananna, heldur fagleg. Enda er það svo að Samtök fjármálafyrirtækja og fjármálastofnanir landsins hafa valið þann kost að virða tilmæli æðstu fjármálastofnanna hins opinbera að vettugi.

Í raun endurpeglar þannig grein ráðherrans og viðbrögð fjármálafyrirtækja vantraust í garð Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Til að bæta þar salti í sárin ákváðu fjármálafyrirtækin heldur að fara að tilmælum, eða leiðbeiningum, eins manns embættis Talsmanns neytenda. Þessar stofnanir njóta því að því er virðist hvorki faglegs né pólitísks trausts í málinu.

Þessu tengt hlýtur þessi staða að setjaspurningu við stöðu hins faglega viðskiptaráðherra, sem studdi aðgerðir SÍ og FME. Viðskiptaráðherra ber enga pólitíska ábyrgð á verkum sínum. Hún er í reynd borin af pólitískum samráðherrum hans og þingmönnum stjórnarflokkanna. Hver er staða slíks ráðherra þegar hann nýtur að því er virðist hvorki pólitísks trausts samráðherra né faglegs traust fjármálafyrirtækja?

Í þriðju málsgrein segir ráðherrann eftirfarandi: “Dómstólar eru líka sjálfstæðir og munu kveða upp úr um niðurstöðu málsins. Við skipum ekki frændur og vini í Hæstarétt og segjum honum ekki heldur fyrir verkum. Ágreining um samninga á að leiða til lykta fyrir dómi og það verður gert í þessu tilviki.” Sneiðin í miðsetningunni fer ekki fram hjá neinum, en athyglisvert er að engu að síður ber ráðherrann augljóslega fullt traust til dómskerfisins sem skipað er “frændum og vinum”. Er jákvætt að skaðinn af skipun “frænda og vina” er þá ekki meiri en svo.

Fjórða málsgrein hefst svo: “Óvissa er vissulega þungbær, en mikilvægt er að farið sé að réttum leikreglum. Ótímabær inngrip ríkisins geta valdið því að við léttum byrðum af fjármálafyrirtækjum og ríkisvæðum tjón þeirra. Það má aldrei verða.”

Þetta er kannski merkilegasta yfirlýsingin í grein ráðherrans. Í Viðskiptablaðinu er því haldið fram að um 100 milljarðar muni falli á ríkið, og þ.a.l. skattborgarana, ef dómur hæstaréttar gangi yfir öll gengislán og samningsvextir látnir gilda. Er það vegna endurfjármögnunarþarfar þeirra fjármálafyrirtækja sem eru að mestu eða öllu leyti í eign ríkisins. Ekki er hægt að skilja orð ráðherrans öðru vísi en svo að sú pólitíska ákvörðun liggi fyrir að það verði ekki gert. Ergo, þeim fjármálafyrirtækjum sem ekki ráða við afleiðingar dóma hæstaréttar verður ekki bjargað.

Yrði það þá væntanlega næsti kafli í grisjun og einföldun íslenska fjármálakerfisins.