laugardagur, 20. desember 2008

Þrír valkostir

Ok, ok, ok. Það eru þrír megin valkostir í stöðunni í gjaldmiðilsmálum og þar með efnahagslegri og pólitískri stöðu Íslands í alþjóðlegu umhverfi.

Í fyrsta lagi er það að sjálfsögðu valkostur að halda núverandi kerfi. Halda íslenskri krónu, vera áfram í EES-samstarfinu, sem mun aðlagast í framtíðinni, sem hingað til, í samræmi við óskir og vilja ESB-ríkjanna. Ísland og Noregur munu nú sem fyrr geta sótt ákveðin mál – breytingar, aðlögun og/eða viðbætur – en þær fást ekki fyrir ekki neitt. Reyndar gerðu þær það aldrei. Enduruppbygging íslensks þjóðfélags mun taka langan tíma og alls óvíst hvort slíkt takist, a.m.k. að því marki sem við hljótum að sækjast eftir. Gera má hins vegar ráð fyrir að einhverju leyti verði settar takmarkanir til að draga úr áhrifum “eiturkokteilsins” eins og Jónas Haralz nefnir það. Ísland mun þannig verða lengi í efnahagslegri gjörgæslu sem hefur neikvæð áhrif á pólistíska stöðu landsins í alþjóðlegu samhengi.

Í öðru lagi er sá valkostur að sækja um aðild að ESB með upptöku evru sem markmiðs til meðallangs tíma. Með þessum valkosti mun uppbygging taka skemmri tíma en að halda í óbreytt kerfi. Það mun hins vegar ekki leiða til umbreytingar á einni nóttu. Tilkynning um aðildarumsókn mun að öllum líkindum hafa jákvæð áhrif á markaði, en ákveðin óvissa mun hanga yfir – og óvissa hefur jafnan neikvæð áhrif á markaði og efnahagsmál – þar til niðurstaða úr aðildarviðræðum og þjóðaratkvæðagreiðslu liggja fyrir.

Vegvísirinn til ESB-aðildar er að verða til. Hann markast af þeirri gerbreyttu pólísku stöðu sem orðin er í íslenskum stjórnmálum með opnun málsins hjá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokknum, en líka Framsóknarflokknum, að skoða hugsanlega aðildarumsókn að ESB. Ef niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins í lok janúar n.k. verður sú að samþykkja – eða í reynd heimila – aðildarumsókn, verður ekki eftir neinu að bíða.

Aðildarumsókn verður ekki lögð fram daginn eftir landsfund. Tvennt þarf að framkvæma í aðdraganda aðildarumsóknar, annars vegar að skilgreina meginsamningsmarkmið og stilla upp samningsteymi Íslands, og hins vegar að undirbúa aðildarríki ESB og framkvæmdastjórn sambandsins undir umsókn Íslands. Það verður gert með heimsóknum og tvíhliða fundum þar sem í stuttu máli Ísland mun upplýsa um væntanlega umsókn og áherslur í viðræðum.

Hvorugt þarf að taka langan tíma og jafnvel má gera ráð fyrir að aðildarumsóknin verði lögð fram formlega svo fljótt sem í marsmánuði á næsta ári. Ekki er ólíklegt að aðildarviðræður taki skamman tíma, eins og Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála sambandsins hefur ítrekað haldið fram. Jafnvel má sjá fyrir sér að skrifað verði undir aðildarsamning í Stokkhólmi að ári, undir lok formennskutímabils Svíþjóðar í sambandinu. Í framhaldi tæki við fullgildingarferli, þ.m.t. þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild.

Aðild Íslands yrði þannig í fyrsta lagi að veruleika, að því gefnu að ásættanlega niðurstaða fáist úr viðræðum og sú niðurstaða verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, um mitt ár 2010. Jafnvel það er þó hæpið þar sem á einhverjum tímapunkti þarf að koma við alþingiskosningum vegna þeirra breytinga á stjórnarskrá sem aðild óneitanlega kallar á.

Efnahagsleg áhrif af aðild að ESB yrðu til meðal langs og lengri tíma jákvæð. Jákvæð áhrif aðildarumsóknar yrðu einhver, en þó væntanlega minni en margir binda vonir við vegna viðvarandi óvissu um endanlega niðurstöðu eins og áður segir. Pólitísk áhrif til skemmri og lengri tíma yrðu hins vegar veruleg og að mati þess sem hér ritar að langmestu leyti jákvæð.

Þriðji valkosturinn er einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Sá kostur myndi hafa líkast til hafa hröðust skammtímaáhrif, en pólitískar og efnahagslegar afleiðingar til lengri tíma eru ótryggar. Einhliða upptaka Evru er það sem ýmsir horfa til, en getur vart talist skynsamleg í ljósi þess að Evrópusambandið og helstu aðildarríki þess hafa gefið það skýrt til kynna að slík lausn fyrir Ísland væri illa séð. Slíkur gjörningur í augljósri andstöðu við eigendur þess gjaldmiðils er ósæmandi og mun grafa undan öllu samstarfi til framtíðar, þ.m.t. vegna Icesave skulda og hvað varðar frekari þróun EES-samningsins.

Einhliða upptaka bandaríkjadollars myndi ekki hafa sambærileg neikvæð alþjóðapólitísk áhrif í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og einhliða upptaka Evru. Bandaríkin eru þekkt af því að hafa frekar afslappað viðhorf gagnvart slíku þó ekki séu þau beinlínis að hvetja til slíks né að veita slíkum gjörningum blessun sína. Bandaríkjadollar hefur verið, og er enn, ráðandi varasjóðsgjaldmiðill heimsins, og Bandaríkin sætta sig við það m.a. af því að alþjóðastaða gjaldmiðils þeirra undirstrikar stöðu þeirra sem stórveldis, auk þess sem hún hefur átt þátt í að fjármagna áratuga langan viðskiptahalla.

Einhliða upptaka bandaríkjadollars myndi hins vegar líklega leiða til stefnubreytingar í viðskiptaáherslum og –tengslum Íslands. Með upptöku bandaríkjadollars væri eðlilegt að draga úr áherslu á Evrópu sem megin viðskiptasvæðis Íslands og leggja áherslu á Bandaríkin, Kanada og Mexíkó. Frekari þróun EES-samningsins væri væntanlega ekki lengur viðeigandi, og að öllum líkindum eðlilegra að draga sig úr EES-samstarfinu, en sækjast eftir einfaldari annarrar kynslóðar fríverslunarsamningi í staðinn. Fríverslunarsamningur við Bandaríkin yrði hins vegar meira aðkallandi markmið, en þar væri á brattann að sækja m.a. vegna þeirrar áherslu sem Bandaríkin leggja á fríverslun með landbúnaðarvörur. (Ísland hefur þegar fríverslunarsamninga við Kanada og Mexíkó.)

Langtíma pólitísk- og efnahagsleg áhrif einhliða upptöku bandaríkjadollars yrðu líkast til einnig þau að Ísland myndi fjarlægjast hefðbundnar vina- og bandalagsþjóðir í Evrópu. Fullveldisáhrifin gætu orðið þau að rödd Íslands sem sjálfstæðs ríkis á alþjóðavettvangi yrði ósköp hjáróma. Ísland yrði þannig á endanum orðið í reynd Bandarískt verndarsvæði í bæði efnahagslegu-, stjórnmálalegu og varnarlegu tilliti. Nýtt Puertó Ríkó – þó við hefðum áfram að nafninu til okkar eigin þjóðhöfðingja!

Fullveldisáhrif til lengri tíma af einhliða upptöku Bandaríkjadollars gætu þannig orðið mun víðtækari en aðild Íslands að ESB – sem er óumdeilanlega samband fullvalda og sjálfstæðra þjóðríkja, þó þau hafi ákveðið að samþætta ákveðna þætti hefðbundins fullveldisvalds og framselja framkvæmd þess til sameiginlegra stofnanna.

sunnudagur, 14. desember 2008

Vinur réttarins

Fullyrðing Helga Áss Grétarssonar í Silfri Egils í dag um að íslenska ríkið geti líklega ekki orðið aðili að dómsmáli gegn breskum stjórnvöldum hefur vakið athygli. Hún er engu að síður ekki rétt, eða a.m.k. ekki nákvæm. 

Hugsanlega er flókið fyrir íslenska ríkið að verða beinn aðili að slíkum málaferlum og eðlilegra að málsókn fari fram að kröfu t.d. þrotabús, eða skilanefnd, gamla Kaupþings, fulltrúa fyrri eigenda og/eða stærstu kröfuhafa.

Ríkið getur hins vegar alltaf átt aðkomu að slíku málaferlum, og í ljósi hagsmuna sinni ætti það að stefna að því og hefja þegar undirbúning að slíku hafi það ekki verið gert nú þegar.

Ríkið á þess kost í slíkum málaferlum fyrir dómi að setja fram svokallað Amicus Curiae skjal, eða "vinur réttarins", sem teflir fram lagalegum sjónarmiðum íslenska ríkisins í málinu, bæði, innlendum, evrópuréttarlegum og öðrum þjóðréttarlegum lagatúlkunum sem taldar væru viðeigandi vegna málaferlanna. Beiting "vinar réttarins" í málum af þessu tagi er alþekkt og hefur m.a. verið beitt af íslenska ríkinu fyrir ekki svo löngu síðan í málaferlum íslensks fyrirtækis gagnvart erlendu stjórnvaldi

Að nota Amicus Curiae er jafnframt ekki eins líklegt til að valda sambærilegum erfiðleikum í samskiptum ríkjanna og ef íslenska ríkið væri beinn þátttakandi í málaferlum af þessu tagi.

Ríkisstjórnarráðdeild

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa báðir nú um helgina gefið því undir fótinn að breytingar séu framundan á samsetningu ríkisstjórnarinnar.

Á dagskrá á gamlársdag er væntanlega hefðbundinn fundur ríkisráðs og þá gæti verið tími til tilkynninga á breytingum.

Í dag sitja í ríkisstjórn alls tólf ráðherrar. Auk þess hefur verið litið á embætti Forseta Alþingis sem jafngildi ráðherraembættis.

Ein leið er sú að skipta út ráðherrum og fá nýja í staðinn, en halda óbreyttum fjölda. Í ljósi krafna um niðurskurð og ráðdeild í ríkissrekstri má hins vegar til sanns vegar færa að aldrei sé meira tilefni en einmitt nú til að fækka ráðherrum.

Þannig er hugsanlegt að á ríkisráðsfundinn á gamlársdag fari inn 12 ráðherrar, en ekki komi nema 8 til 10 út aftur.

Afneitunarstjórnmál

Eftir miklar rannsóknir og talsverða yfirlegu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnmál eru hvorki athafnastjórnmál né samræðustjórnmál.

Þau eru afneitunarstjórnmál.

laugardagur, 13. desember 2008

Skattahækkanasullumbull...

Í ljósi fjármálakreppunnar og bankahrunsins voru skattahækkanir óumflýjanlegar. Því miður þykir mér útspil stjórnvalda ekki nógu gott.

 Tekjuskattur er einungis hækkaður um 1% og áætlað að það skili ríkissjóði um 7 milljörðum í viðbótartekjur.

 Hækkun annarra gjalda, óbeinna skatta eins og bensíngjalds, áfengisgjalds o.þ.h. mun að því er virðist skv. athugasemdum við frumvörpin að baki þeirra leiða til aukinna tekna fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 3,6 milljarða. Alþýðusamband Íslands telur að verlagshækkunaráhrif þessa verði á bilinu 0,4 – 0,5% sem leiði til hækkunar á verðtryggðum skuldbindingum landsmanna upp á 6,7 milljarða, eða álíka mikið og 1% tekjuskattshækkun.

 Þeir 6,7 milljarðar renna hins vegar ekki í ríkissjóð heldur til banka og lífeyrissjóða til að bæta þeim verðbótaþáttinn. Heimilin finna hins vegar á endanum jafn mikið fyrir þessu og skattahækkun.

 Í árferði sem þessu hefði ríkisstjórnin átt að gera allt annað en að hækka þau gjöld sem fara beint til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Nóg er nú samt.

 Mun hreinlega hefði verið að hækka tekjuskattinn meira, og já, setja sérstakan hátekjuskatt. Kalla hefði mátt þessar tekjuskattshækkanir kreppuskatt og eðlilegt að hafa á þeim sólarlagsákvæði, t.d. að þær giltu til þriggja ára. Endurnýjun, eða framlenging, þessara sérstöku tekjuskattshækkana myndu þannig þurfa ákvörðun Alþingis.

 Tekjuskattshækkun upp á 4 %, kreppuskattur, hefði verið sjálfsagður, og skipta hefði mátt honum til jafns á milli ríkis og sveitarfélaga. Á móti hefði mátt hækka persónuafsláttinn örlítið til að vega á móti áhrifum tekjuskattshækkunarinnar á lægstu launin.

 Viðbótar tímabundinn hátekjuskattur upp á 5% á öll laun hærri en t.d. eina milljón á mánuði, jafnvel þó hún væri meira og minna táknræn, væri vel viðeigandi og myndi t.d. gera sérstök lög um launalækkun æðstu embættismanna óþörf – og Forseti lýðveldisins yrði þátttakandi í að greiða kreppureikninginn til jafns við aðra.

Skattahækkun af þessu tagi hefði verið hreinlegri, einfaldari og gegnsærri en þetta skattahækkanasullumbull sem framkvæmt var með ofurhraða og afbrigðum í “nattens mulm og mörke” undir lok vikunnar. Umræður á þingi í skötulíki og lítið um skapandi hugsun.

laugardagur, 6. desember 2008

Viðbragðsáætlun Seðlabankans

Viðtal Björns Inga Hrafnssonar við viðskiptaráðherra í morgun setur mann hljóðan. Sérstaklega lýsing hans á atburðum helgarinnar þegar ákvörðunin er tekin um þjóðnýtingu Glitnis. 

Í ljósi fullyrðinga formanns bankaráðs Seðlabankans um það að þessi bankakrísa og fall íslensku bankanna hafi meira og minna verið fyrirséð og í júní sl. hafi hann verið á þeirri skoðun að það væru 0% líkur á því að íslensku bankarnir gætu lifað af verður að gera kröfu um að upplýst verði um þau minnisblöð sem gerð voru innan bankans um þessi málefni.

Bankarnir eru fallnir, trúnaðarvernd vegna viðkvæmra upplýsinga sem gætu haft skaðleg áhrif á markaði á því vart lengur við. 

Ef ástandið var svona slæmt hlýtur Seðlabankinn að hafa verið undirlagður í gerð viðbragðsáætlanna, minnisblaða og valkostapappíra. Allt frá í vor hlýtur bankinn og starfsfólk hans að hafa verið vakið og sofið í samningu slíkra pappíra. 

Hvar eru þeir? Getum fengið að sjá þá? Geta fjölmiðlar ekki óskað afrita með vísan til upplýsingalaga?

Helgi Hjörvar, alþingismaður Samfylkingarinnar, í langri gagnrýnisgrein sinni í Fréttablaðinu þann 21. nóvember sl. sagði þar í lið 11. að "Ófaglegt er að engin viðbragðsáætlun hafi verið til í bankanum vegna fjármálakreppu."

Í álíka löngu svari Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, var svarið við þessum lið eftirfarandi: "Viðbragðsáætlanir höfðu verið gerðar í Seðlabankanum."

Svo?

Sýnið okkur.

föstudagur, 5. desember 2008

Tónlistarviðburður

Í kvöld leggur maður allt krepputal til hliðar og fer á Classic Rock Sportbar í Ármúla 5 og tekur lagið.

Þar verður s.s. haldið í kvöld “The first annual Lame Dudes Jukejoint Festival/Party” en það er viðburður skipulagður af vinum mínum í blússveitinni The Lame Dudes, eða eins og það útleggst á ástkæra og ylhýra, hljómsveitin Slappir Tappar. Húsið opnar klukkan 21:00 og mér skilst að það verði krepputilboð á stórum bjór á meðan að birgðir endast

Viðburðinum er lýst svona á Facebook: “Hljómsveitarpartý að hætti Mississippi blúsara (hvað eru mörg s í því?). Árlegt Jukejoint Partý The Lame Dudes. Jakob Viðar trúbador og hljómsveitin Naboens Rockband taka þátt í skemmtilegheitunum.”

Sjálfur er ég í þeirri hljómsveit sem enn kallar sig Naboens Rockband. Það er hljómsveit sem stofnað var til að mig minnir 1984 eða 5 þegar þrír af okkur voru í MR, en einn var ennþá í Hagaskóla.

Við vorum á þeim tíma band sem æfði mikið, en spilaði svo að segja aldrei. Við vorum með án efa eitthvert besta æfingahúsnæði landsins á þeim tíma – við Kleppsmýrarveg í Reykjavík – og þar fengu hjá okkur skjól ýmsar merkar sveitir s.s. Geiri Sæm og Hunangstunglið, og Nýdönsk.

Reyndar voru okkar fyrstu opinberu tónleikar haldnir vorið 1988 á þáverandi Duus-hús og var það 9 mánuðum eftir að hljómsveitin hafði formlega lagt upp laupana. Við komum svo aftur saman og spiluðum á tónleikum á Hótel Borg á milli jóla og nýárs 1988, þremur dögum áður en ég gekk í heilagt hjónaband, þann 31. desember 1988. (Um áramótin fögnum við hjónin s.s. 20 ára brúðkaupsafmæli. Það er spurning hvort maður þurfi ekki stofna félag lang-giftra af því tilefni!)

Tónleikarnir í kvöld eru þannig fyrstu opinberu tónleikar Naboens Rockband í 20 ár þar sem við frumflytjum eigið efni.

Bandið kom að vísu fram að nýju í fyrsta sinn fyrir 2 árum í fertugsafmæli aðal-gítarleikara hljómsveitarinnar. Sú uppákoma var það vel heppnuð að lögreglan var kvödd á staðinn vegna kvartanna nágranna um hávaða. Það þótti okkur rokkað!

Og í október sl. tróð bandið upp á árshátíð og tók 10 lög, 9 ábreiður og eitt frumsamið. Frá þeim viðburði hefur ein upptaka ratað á YouTube, en þar tökum við félagarnir ábreiðu af lagi Nirvana, Smells Like Teen Spirit:



Í kvöld er hins vegar komið af því að prófa nýtt frumsamið efni á opinberum vettvangi í fyrsta sinn í 20 ár eins og áður sagði. Einhverjar ábreiður munu jafnframt fylgja með til uppfyllingar.

Auk undirritaðs skipa bandið Ægir Sævarsson á bassa, sem dagana langa að jafnaði sinnir tekjuöflun fyrir Skýrr, Ingi Ragnar Ingason á trommur, sem starfar sem pródúsent á Stöð 2 og er þar límið í besta fréttaskýringarþætti íslandssögunnar, Kompás, og Arnar Már Ólafsson á gítar og raddbönd, en hann er mikill ferðamálafrömuður og kennir ferðafræði í einhverjum háskólum landsins, auk þess að stunda jeppaakstur með ferðamenn um fjöll og firnindi á 44” breyttum Land Rover Defender.

Á undan okkur í kvöld mun trúbadorinn Jakob Viðar stíga á stokk, en í kjölfar okkar koma svo The Lame Dudes. Bráðskemmtileg blússveit sem spilaði m.a. á síðustu menningarnótt í Clarks skóbúðinni á Laugavegi við mikinn fögnuð. Hér er upptaka af lagi þeirra “Þriðjudagsbíóblús” sem að mínu mati ætti að gefa út hið fyrsta. Instant klassík hér á ferð:



Viðburður kvöldsins fer að sjálfsögðu fram í opinni dagskrá og allir velkomnir. Þetta er ópólitískur viðburður þ.a. ekki er gert ráð fyrir að ég tilkynni um framboð til formanns Framsóknarflokksins við þetta tilefni!