föstudagur, 19. nóvember 2010

Ferðaþjónustan og LÍÚ

Er það bara ég, eða er ákveðinn samhljómur í röksemdafærslum fulltrúa ferðaþjónustunar gegn gjaldtöku á helstu ferðamannastöðum og útgerðarinnar gegn auðlindagjaldi og endurbótum á kvótakerfinu?

mánudagur, 8. nóvember 2010

Þýzkar naglasúpur

Ég er staddur á alþjóðaflugvellinum í Dúbæ á leið heim frá Kabúl. Sé að pistill minn frá í gær um almennar afskriftir hefur fengið örfá viðbrögð. Einnig hefur Gísli Baldvinsson, Eyjubloggarafélagi minn skrifað um pistilinn lítinn naglasúpupistil þar sem hann hafnar almennum afskriftum.

Þegar ég er kominn heim og búin að sinna öðrum mun mikilvægari forgangsmálum eins og að knúsa konuna, krakkana og afastrákinn, og já fara í a.m.k. nokkra langa göngutúra með voffana mína, mun ég setjast niður og svara krítík og athugasemdum í lengra máli (þó ekki bundnu!).

Almenn afskrift hins vegar getur gerst með ýmsum hætti, með beinum aðgerðum eða óbeinum. Tel ég t.d. nauðsynlegt að samfara slíkri aðgerð verði bæði að afnema verðtryggingu og að taka upp nýja mynt.

Byggi ég það m.a. á reynslu öflugasta hagkerfis í Evrópu, ef ekki í heimi, sem tvisvar gekk í gegnum miklar efnahagshörmungar á síðustu öld þar sem innlendar peningaeignir þurrkuðust nánast út. Í bæði skiptin var farið út í róttækar aðgerðir sem skiluðu mögnuðum árangri. Í síðara skiptið svo mögnuðum að það hefur æ síðan verið kallað wirtschaftswunder.

Þetta er hagkerfi Þýskalands og árin sem um ræðir eru annars vegar 1923 til 1924 og hins vegar 1947 til 1948. En meira um það síðar.

Mikið hlakka ég nú annars til þess að komast heim.

sunnudagur, 7. nóvember 2010

Almenn afskrift – eina vitið

Enn er þráttað um almennar afskriftir lána. Sú sérfræðinganefnd sem nú er að störfum og mun víst kynna niðurstöður sýnar eftir helgi skoðar almenna afskrift sem einn mögulegra valkosta.

Allt frá því að Framsóknarflokkurinn gerði tillögu um almenna afskrift lána að sinni snemma árs 2009, en hún var byggð á ráðleggingum hagfræðinga sem flokkurinn fékk til að vinna með sér að efnahagstillögum, hefur um þetta verið karpað. Sérkennilegast var að þessar tillögur voru úthrópaðar af ýmsum með mikilli fyrirlitningu sem "framsóknartillögur" og þá að sjálfsögðu þýddi það að þær væru um leið stórvarasamar og full ástæða til að tortryggja tillögurnar. Hlaut eiginlega að felast í þeim að afskriftirnar með einum eða öðrum hætti hlytu að renna beint í vasa Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar!

Stóra gagnrýnin var og er spurningin hver á að borga fyrir slíka afskrift.

Þeirri spurningu er í raun og veru auðsvarað.

Allir.

Einfaldasta og skilvirkasta leiðin til almenns skuldauppgjörs af þessu tagi, t.d. með flatri 20% afskrift allra lána er að stofna til sérstaks afskriftarreiknings í Seðlabankanum sem nýttur er til að bæta skuldareigendum skaðan af afskrift. Reikning sem má svo afskrifa. Þetta væri hrein peningaprentun sem hefði þau raunáhrif að draga úr heildarverðgildi gjaldmiðilsins, í sjálfu sér ekkert ólíkt þynningu hlutabréfaeignar með útgáfu viðbótarhlutafjár. Gjaldmiðill okkar, krónan, er jú einskonar hlutabréf í íslenska hagkerfinu.

En rétt eins og þegar hlutabréfaeign er þynnt út með útgáfu aukins hlutafjár, getur peningaprentun kostað núverandi hluthafa ákveðna eignarýrnun. Þynning hlutafjár er hins vegar oftast gerð með langtíma hagsmuni í huga. Sama á við um peningaprentun af þessu tagi.

Höfum einnig í huga að í aðdraganda hrunsins hafði hér verið stunduð mjög öflug peningaprentun á vegum prívatsins, m.a. með mjög vafasömum hætti, og líkast til eitthvað af því beinlínis með glæpsamlegum hætti (understatement) með því að véla með verð hlutabréfa á markaði.

Hins vegar þegar hrunið varð brunnu upp þessi gerviverðmæti. Hrunið var hins vegar það allt um lykjandi að í því brunnu líka upp raunverulegar eignir. Allt verðmat á markaði varð ómarktækt. Búum við í reynd við það ástand enn í dag þar sem gjaldeyrishöft eru viðvarandi og eignir og fyrirtæki ganga ekki að því marki sem þyrfti kaupum og sölu á opnum markaði.

Einhverjir þeirra sem láta almennar afskriftir skulda fara í taugarnar á sér benda á að annars vegar myndi það gagnast einhverjum sem ekki þurfa á því að halda eða ekki eiga það skilið. Það er skrýtin röksemdafærsla. Við bárum öll tjón af þessu hruni. Nema reyndar sérvalinn hópur fjármagnseigenda sem var með megnið af sínu fé á bankareikningum eða fest í verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Sérvalinn er sá hópur þar sem þeim hópi var jú tryggð sín eign langt umfram skyldur og lagaheimildir. Sumir þeirra sem hrópa hæst gegn almennum skuldaafskriftum tilheyra jú einmitt þessum hóp.

Einn stærsti kosturinn við almenna skuldaafskrift er sá að hún hreinsar sviðið og auðveldar eftirleikinn. Auðvitað mun almenn skuldaafskrift ekki duga öllum. En þá liggur jú beinast við að telja að þeim sem það dugar ekki hefðu verið dæmdir til uppgjörs hvort eð er. Almenn skuldaafskrift myndi þannig þjóna vel til þess að greina sauðina frá hrútunum, eða almenna borgara frá þeim sem höfðu farið fram úr sér, eða voru jafnvel hreinir fjárglæframenn. Þannig mætti komast hjá t.d. hallærisuppákomum eins og skjaldborgum um hreina skussa.

Þetta ætti jafnvel við einstaklinga og fyrirtæki. Almenn skuldaniðurfærsla í tilfelli fyrirtækja myndi þannig að sama skapi greina þau skárri frá þeim verri og auðvelda og ýta undir að þau verri fari einfaldlega í gjaldþrotameðferð. Það er hluti af vandanum að ennþá er verið að halda gangandi tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum, sem t.d. bankar hafa yfirtekið og dæla svo í rekstrarfé. Truflar það allt rekstrarumhverfi fyrirtækja innan sama bransa. Að sama skapi er verið að beita skuldaafskriftum sem virðast handahófskenndar og byggðar á hagsmunamati sem hvorki er gegnsætt né endilega sjáanlega skynsamlegt. Það ýtir undir grunsemdir um sérvinavelvild og hyglun sumra á kostnað annarra.

Sem dæmi má taka sjávarútveginn. Það er ekkert að því að láta sjávarútvegsfyrirtæki fara á hausinn. Fiskurinn fer ekkert og höfum í huga að þar sem kvótaeign útlendinga er bönnuð geta erlendir kröfuhafar ekki eignast kvóta ef sjávarútvegsfyrirtæki fer í gjaldþrot. Það verður að selja hann. Hins vegar er það svo að á meðan að fyrirtækjunum er haldið í einhverskonar öndunarvél á vegum bankanna (og kröfuhafa) er kvótaeignin með óbeinum hætti í eigu og undir stjórn hinna erlendu kröfuhafa.

En, í stuttu máli og aftur að upphafspunktinum. Almenn skuldaafskrift er einföld, réttlát og sanngjörn aðferð til þess að rétta af hagkerfi sem orðið hefur fyrir jafn miklum skakkaföllum og það íslenska. Hana má framkvæma þannig að valdi sem minnstum skaða sem dreifist nokkuð jafnt á allt hagkerfið, en að sama skapi myndar grunninn fyrir þá viðspyrnu sem svo sárlega þarf á að halda. Short term pain for long term gain!