laugardagur, 20. desember 2008

Þrír valkostir

Ok, ok, ok. Það eru þrír megin valkostir í stöðunni í gjaldmiðilsmálum og þar með efnahagslegri og pólitískri stöðu Íslands í alþjóðlegu umhverfi.

Í fyrsta lagi er það að sjálfsögðu valkostur að halda núverandi kerfi. Halda íslenskri krónu, vera áfram í EES-samstarfinu, sem mun aðlagast í framtíðinni, sem hingað til, í samræmi við óskir og vilja ESB-ríkjanna. Ísland og Noregur munu nú sem fyrr geta sótt ákveðin mál – breytingar, aðlögun og/eða viðbætur – en þær fást ekki fyrir ekki neitt. Reyndar gerðu þær það aldrei. Enduruppbygging íslensks þjóðfélags mun taka langan tíma og alls óvíst hvort slíkt takist, a.m.k. að því marki sem við hljótum að sækjast eftir. Gera má hins vegar ráð fyrir að einhverju leyti verði settar takmarkanir til að draga úr áhrifum “eiturkokteilsins” eins og Jónas Haralz nefnir það. Ísland mun þannig verða lengi í efnahagslegri gjörgæslu sem hefur neikvæð áhrif á pólistíska stöðu landsins í alþjóðlegu samhengi.

Í öðru lagi er sá valkostur að sækja um aðild að ESB með upptöku evru sem markmiðs til meðallangs tíma. Með þessum valkosti mun uppbygging taka skemmri tíma en að halda í óbreytt kerfi. Það mun hins vegar ekki leiða til umbreytingar á einni nóttu. Tilkynning um aðildarumsókn mun að öllum líkindum hafa jákvæð áhrif á markaði, en ákveðin óvissa mun hanga yfir – og óvissa hefur jafnan neikvæð áhrif á markaði og efnahagsmál – þar til niðurstaða úr aðildarviðræðum og þjóðaratkvæðagreiðslu liggja fyrir.

Vegvísirinn til ESB-aðildar er að verða til. Hann markast af þeirri gerbreyttu pólísku stöðu sem orðin er í íslenskum stjórnmálum með opnun málsins hjá fyrst og fremst Sjálfstæðisflokknum, en líka Framsóknarflokknum, að skoða hugsanlega aðildarumsókn að ESB. Ef niðurstaða landsfundar Sjálfstæðisflokksins í lok janúar n.k. verður sú að samþykkja – eða í reynd heimila – aðildarumsókn, verður ekki eftir neinu að bíða.

Aðildarumsókn verður ekki lögð fram daginn eftir landsfund. Tvennt þarf að framkvæma í aðdraganda aðildarumsóknar, annars vegar að skilgreina meginsamningsmarkmið og stilla upp samningsteymi Íslands, og hins vegar að undirbúa aðildarríki ESB og framkvæmdastjórn sambandsins undir umsókn Íslands. Það verður gert með heimsóknum og tvíhliða fundum þar sem í stuttu máli Ísland mun upplýsa um væntanlega umsókn og áherslur í viðræðum.

Hvorugt þarf að taka langan tíma og jafnvel má gera ráð fyrir að aðildarumsóknin verði lögð fram formlega svo fljótt sem í marsmánuði á næsta ári. Ekki er ólíklegt að aðildarviðræður taki skamman tíma, eins og Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála sambandsins hefur ítrekað haldið fram. Jafnvel má sjá fyrir sér að skrifað verði undir aðildarsamning í Stokkhólmi að ári, undir lok formennskutímabils Svíþjóðar í sambandinu. Í framhaldi tæki við fullgildingarferli, þ.m.t. þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild.

Aðild Íslands yrði þannig í fyrsta lagi að veruleika, að því gefnu að ásættanlega niðurstaða fáist úr viðræðum og sú niðurstaða verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, um mitt ár 2010. Jafnvel það er þó hæpið þar sem á einhverjum tímapunkti þarf að koma við alþingiskosningum vegna þeirra breytinga á stjórnarskrá sem aðild óneitanlega kallar á.

Efnahagsleg áhrif af aðild að ESB yrðu til meðal langs og lengri tíma jákvæð. Jákvæð áhrif aðildarumsóknar yrðu einhver, en þó væntanlega minni en margir binda vonir við vegna viðvarandi óvissu um endanlega niðurstöðu eins og áður segir. Pólitísk áhrif til skemmri og lengri tíma yrðu hins vegar veruleg og að mati þess sem hér ritar að langmestu leyti jákvæð.

Þriðji valkosturinn er einhliða upptaka annars gjaldmiðils. Sá kostur myndi hafa líkast til hafa hröðust skammtímaáhrif, en pólitískar og efnahagslegar afleiðingar til lengri tíma eru ótryggar. Einhliða upptaka Evru er það sem ýmsir horfa til, en getur vart talist skynsamleg í ljósi þess að Evrópusambandið og helstu aðildarríki þess hafa gefið það skýrt til kynna að slík lausn fyrir Ísland væri illa séð. Slíkur gjörningur í augljósri andstöðu við eigendur þess gjaldmiðils er ósæmandi og mun grafa undan öllu samstarfi til framtíðar, þ.m.t. vegna Icesave skulda og hvað varðar frekari þróun EES-samningsins.

Einhliða upptaka bandaríkjadollars myndi ekki hafa sambærileg neikvæð alþjóðapólitísk áhrif í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og einhliða upptaka Evru. Bandaríkin eru þekkt af því að hafa frekar afslappað viðhorf gagnvart slíku þó ekki séu þau beinlínis að hvetja til slíks né að veita slíkum gjörningum blessun sína. Bandaríkjadollar hefur verið, og er enn, ráðandi varasjóðsgjaldmiðill heimsins, og Bandaríkin sætta sig við það m.a. af því að alþjóðastaða gjaldmiðils þeirra undirstrikar stöðu þeirra sem stórveldis, auk þess sem hún hefur átt þátt í að fjármagna áratuga langan viðskiptahalla.

Einhliða upptaka bandaríkjadollars myndi hins vegar líklega leiða til stefnubreytingar í viðskiptaáherslum og –tengslum Íslands. Með upptöku bandaríkjadollars væri eðlilegt að draga úr áherslu á Evrópu sem megin viðskiptasvæðis Íslands og leggja áherslu á Bandaríkin, Kanada og Mexíkó. Frekari þróun EES-samningsins væri væntanlega ekki lengur viðeigandi, og að öllum líkindum eðlilegra að draga sig úr EES-samstarfinu, en sækjast eftir einfaldari annarrar kynslóðar fríverslunarsamningi í staðinn. Fríverslunarsamningur við Bandaríkin yrði hins vegar meira aðkallandi markmið, en þar væri á brattann að sækja m.a. vegna þeirrar áherslu sem Bandaríkin leggja á fríverslun með landbúnaðarvörur. (Ísland hefur þegar fríverslunarsamninga við Kanada og Mexíkó.)

Langtíma pólitísk- og efnahagsleg áhrif einhliða upptöku bandaríkjadollars yrðu líkast til einnig þau að Ísland myndi fjarlægjast hefðbundnar vina- og bandalagsþjóðir í Evrópu. Fullveldisáhrifin gætu orðið þau að rödd Íslands sem sjálfstæðs ríkis á alþjóðavettvangi yrði ósköp hjáróma. Ísland yrði þannig á endanum orðið í reynd Bandarískt verndarsvæði í bæði efnahagslegu-, stjórnmálalegu og varnarlegu tilliti. Nýtt Puertó Ríkó – þó við hefðum áfram að nafninu til okkar eigin þjóðhöfðingja!

Fullveldisáhrif til lengri tíma af einhliða upptöku Bandaríkjadollars gætu þannig orðið mun víðtækari en aðild Íslands að ESB – sem er óumdeilanlega samband fullvalda og sjálfstæðra þjóðríkja, þó þau hafi ákveðið að samþætta ákveðna þætti hefðbundins fullveldisvalds og framselja framkvæmd þess til sameiginlegra stofnanna.

sunnudagur, 14. desember 2008

Vinur réttarins

Fullyrðing Helga Áss Grétarssonar í Silfri Egils í dag um að íslenska ríkið geti líklega ekki orðið aðili að dómsmáli gegn breskum stjórnvöldum hefur vakið athygli. Hún er engu að síður ekki rétt, eða a.m.k. ekki nákvæm. 

Hugsanlega er flókið fyrir íslenska ríkið að verða beinn aðili að slíkum málaferlum og eðlilegra að málsókn fari fram að kröfu t.d. þrotabús, eða skilanefnd, gamla Kaupþings, fulltrúa fyrri eigenda og/eða stærstu kröfuhafa.

Ríkið getur hins vegar alltaf átt aðkomu að slíku málaferlum, og í ljósi hagsmuna sinni ætti það að stefna að því og hefja þegar undirbúning að slíku hafi það ekki verið gert nú þegar.

Ríkið á þess kost í slíkum málaferlum fyrir dómi að setja fram svokallað Amicus Curiae skjal, eða "vinur réttarins", sem teflir fram lagalegum sjónarmiðum íslenska ríkisins í málinu, bæði, innlendum, evrópuréttarlegum og öðrum þjóðréttarlegum lagatúlkunum sem taldar væru viðeigandi vegna málaferlanna. Beiting "vinar réttarins" í málum af þessu tagi er alþekkt og hefur m.a. verið beitt af íslenska ríkinu fyrir ekki svo löngu síðan í málaferlum íslensks fyrirtækis gagnvart erlendu stjórnvaldi

Að nota Amicus Curiae er jafnframt ekki eins líklegt til að valda sambærilegum erfiðleikum í samskiptum ríkjanna og ef íslenska ríkið væri beinn þátttakandi í málaferlum af þessu tagi.

Ríkisstjórnarráðdeild

Formenn ríkisstjórnarflokkanna hafa báðir nú um helgina gefið því undir fótinn að breytingar séu framundan á samsetningu ríkisstjórnarinnar.

Á dagskrá á gamlársdag er væntanlega hefðbundinn fundur ríkisráðs og þá gæti verið tími til tilkynninga á breytingum.

Í dag sitja í ríkisstjórn alls tólf ráðherrar. Auk þess hefur verið litið á embætti Forseta Alþingis sem jafngildi ráðherraembættis.

Ein leið er sú að skipta út ráðherrum og fá nýja í staðinn, en halda óbreyttum fjölda. Í ljósi krafna um niðurskurð og ráðdeild í ríkissrekstri má hins vegar til sanns vegar færa að aldrei sé meira tilefni en einmitt nú til að fækka ráðherrum.

Þannig er hugsanlegt að á ríkisráðsfundinn á gamlársdag fari inn 12 ráðherrar, en ekki komi nema 8 til 10 út aftur.

Afneitunarstjórnmál

Eftir miklar rannsóknir og talsverða yfirlegu hef ég komist að þeirri niðurstöðu að íslensk stjórnmál eru hvorki athafnastjórnmál né samræðustjórnmál.

Þau eru afneitunarstjórnmál.

laugardagur, 13. desember 2008

Skattahækkanasullumbull...

Í ljósi fjármálakreppunnar og bankahrunsins voru skattahækkanir óumflýjanlegar. Því miður þykir mér útspil stjórnvalda ekki nógu gott.

 Tekjuskattur er einungis hækkaður um 1% og áætlað að það skili ríkissjóði um 7 milljörðum í viðbótartekjur.

 Hækkun annarra gjalda, óbeinna skatta eins og bensíngjalds, áfengisgjalds o.þ.h. mun að því er virðist skv. athugasemdum við frumvörpin að baki þeirra leiða til aukinna tekna fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 3,6 milljarða. Alþýðusamband Íslands telur að verlagshækkunaráhrif þessa verði á bilinu 0,4 – 0,5% sem leiði til hækkunar á verðtryggðum skuldbindingum landsmanna upp á 6,7 milljarða, eða álíka mikið og 1% tekjuskattshækkun.

 Þeir 6,7 milljarðar renna hins vegar ekki í ríkissjóð heldur til banka og lífeyrissjóða til að bæta þeim verðbótaþáttinn. Heimilin finna hins vegar á endanum jafn mikið fyrir þessu og skattahækkun.

 Í árferði sem þessu hefði ríkisstjórnin átt að gera allt annað en að hækka þau gjöld sem fara beint til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Nóg er nú samt.

 Mun hreinlega hefði verið að hækka tekjuskattinn meira, og já, setja sérstakan hátekjuskatt. Kalla hefði mátt þessar tekjuskattshækkanir kreppuskatt og eðlilegt að hafa á þeim sólarlagsákvæði, t.d. að þær giltu til þriggja ára. Endurnýjun, eða framlenging, þessara sérstöku tekjuskattshækkana myndu þannig þurfa ákvörðun Alþingis.

 Tekjuskattshækkun upp á 4 %, kreppuskattur, hefði verið sjálfsagður, og skipta hefði mátt honum til jafns á milli ríkis og sveitarfélaga. Á móti hefði mátt hækka persónuafsláttinn örlítið til að vega á móti áhrifum tekjuskattshækkunarinnar á lægstu launin.

 Viðbótar tímabundinn hátekjuskattur upp á 5% á öll laun hærri en t.d. eina milljón á mánuði, jafnvel þó hún væri meira og minna táknræn, væri vel viðeigandi og myndi t.d. gera sérstök lög um launalækkun æðstu embættismanna óþörf – og Forseti lýðveldisins yrði þátttakandi í að greiða kreppureikninginn til jafns við aðra.

Skattahækkun af þessu tagi hefði verið hreinlegri, einfaldari og gegnsærri en þetta skattahækkanasullumbull sem framkvæmt var með ofurhraða og afbrigðum í “nattens mulm og mörke” undir lok vikunnar. Umræður á þingi í skötulíki og lítið um skapandi hugsun.

laugardagur, 6. desember 2008

Viðbragðsáætlun Seðlabankans

Viðtal Björns Inga Hrafnssonar við viðskiptaráðherra í morgun setur mann hljóðan. Sérstaklega lýsing hans á atburðum helgarinnar þegar ákvörðunin er tekin um þjóðnýtingu Glitnis. 

Í ljósi fullyrðinga formanns bankaráðs Seðlabankans um það að þessi bankakrísa og fall íslensku bankanna hafi meira og minna verið fyrirséð og í júní sl. hafi hann verið á þeirri skoðun að það væru 0% líkur á því að íslensku bankarnir gætu lifað af verður að gera kröfu um að upplýst verði um þau minnisblöð sem gerð voru innan bankans um þessi málefni.

Bankarnir eru fallnir, trúnaðarvernd vegna viðkvæmra upplýsinga sem gætu haft skaðleg áhrif á markaði á því vart lengur við. 

Ef ástandið var svona slæmt hlýtur Seðlabankinn að hafa verið undirlagður í gerð viðbragðsáætlanna, minnisblaða og valkostapappíra. Allt frá í vor hlýtur bankinn og starfsfólk hans að hafa verið vakið og sofið í samningu slíkra pappíra. 

Hvar eru þeir? Getum fengið að sjá þá? Geta fjölmiðlar ekki óskað afrita með vísan til upplýsingalaga?

Helgi Hjörvar, alþingismaður Samfylkingarinnar, í langri gagnrýnisgrein sinni í Fréttablaðinu þann 21. nóvember sl. sagði þar í lið 11. að "Ófaglegt er að engin viðbragðsáætlun hafi verið til í bankanum vegna fjármálakreppu."

Í álíka löngu svari Ingimundar Friðrikssonar, seðlabankastjóra, var svarið við þessum lið eftirfarandi: "Viðbragðsáætlanir höfðu verið gerðar í Seðlabankanum."

Svo?

Sýnið okkur.

föstudagur, 5. desember 2008

Tónlistarviðburður

Í kvöld leggur maður allt krepputal til hliðar og fer á Classic Rock Sportbar í Ármúla 5 og tekur lagið.

Þar verður s.s. haldið í kvöld “The first annual Lame Dudes Jukejoint Festival/Party” en það er viðburður skipulagður af vinum mínum í blússveitinni The Lame Dudes, eða eins og það útleggst á ástkæra og ylhýra, hljómsveitin Slappir Tappar. Húsið opnar klukkan 21:00 og mér skilst að það verði krepputilboð á stórum bjór á meðan að birgðir endast

Viðburðinum er lýst svona á Facebook: “Hljómsveitarpartý að hætti Mississippi blúsara (hvað eru mörg s í því?). Árlegt Jukejoint Partý The Lame Dudes. Jakob Viðar trúbador og hljómsveitin Naboens Rockband taka þátt í skemmtilegheitunum.”

Sjálfur er ég í þeirri hljómsveit sem enn kallar sig Naboens Rockband. Það er hljómsveit sem stofnað var til að mig minnir 1984 eða 5 þegar þrír af okkur voru í MR, en einn var ennþá í Hagaskóla.

Við vorum á þeim tíma band sem æfði mikið, en spilaði svo að segja aldrei. Við vorum með án efa eitthvert besta æfingahúsnæði landsins á þeim tíma – við Kleppsmýrarveg í Reykjavík – og þar fengu hjá okkur skjól ýmsar merkar sveitir s.s. Geiri Sæm og Hunangstunglið, og Nýdönsk.

Reyndar voru okkar fyrstu opinberu tónleikar haldnir vorið 1988 á þáverandi Duus-hús og var það 9 mánuðum eftir að hljómsveitin hafði formlega lagt upp laupana. Við komum svo aftur saman og spiluðum á tónleikum á Hótel Borg á milli jóla og nýárs 1988, þremur dögum áður en ég gekk í heilagt hjónaband, þann 31. desember 1988. (Um áramótin fögnum við hjónin s.s. 20 ára brúðkaupsafmæli. Það er spurning hvort maður þurfi ekki stofna félag lang-giftra af því tilefni!)

Tónleikarnir í kvöld eru þannig fyrstu opinberu tónleikar Naboens Rockband í 20 ár þar sem við frumflytjum eigið efni.

Bandið kom að vísu fram að nýju í fyrsta sinn fyrir 2 árum í fertugsafmæli aðal-gítarleikara hljómsveitarinnar. Sú uppákoma var það vel heppnuð að lögreglan var kvödd á staðinn vegna kvartanna nágranna um hávaða. Það þótti okkur rokkað!

Og í október sl. tróð bandið upp á árshátíð og tók 10 lög, 9 ábreiður og eitt frumsamið. Frá þeim viðburði hefur ein upptaka ratað á YouTube, en þar tökum við félagarnir ábreiðu af lagi Nirvana, Smells Like Teen Spirit:Í kvöld er hins vegar komið af því að prófa nýtt frumsamið efni á opinberum vettvangi í fyrsta sinn í 20 ár eins og áður sagði. Einhverjar ábreiður munu jafnframt fylgja með til uppfyllingar.

Auk undirritaðs skipa bandið Ægir Sævarsson á bassa, sem dagana langa að jafnaði sinnir tekjuöflun fyrir Skýrr, Ingi Ragnar Ingason á trommur, sem starfar sem pródúsent á Stöð 2 og er þar límið í besta fréttaskýringarþætti íslandssögunnar, Kompás, og Arnar Már Ólafsson á gítar og raddbönd, en hann er mikill ferðamálafrömuður og kennir ferðafræði í einhverjum háskólum landsins, auk þess að stunda jeppaakstur með ferðamenn um fjöll og firnindi á 44” breyttum Land Rover Defender.

Á undan okkur í kvöld mun trúbadorinn Jakob Viðar stíga á stokk, en í kjölfar okkar koma svo The Lame Dudes. Bráðskemmtileg blússveit sem spilaði m.a. á síðustu menningarnótt í Clarks skóbúðinni á Laugavegi við mikinn fögnuð. Hér er upptaka af lagi þeirra “Þriðjudagsbíóblús” sem að mínu mati ætti að gefa út hið fyrsta. Instant klassík hér á ferð:Viðburður kvöldsins fer að sjálfsögðu fram í opinni dagskrá og allir velkomnir. Þetta er ópólitískur viðburður þ.a. ekki er gert ráð fyrir að ég tilkynni um framboð til formanns Framsóknarflokksins við þetta tilefni!

sunnudagur, 30. nóvember 2008

Ásetningur og afleiðing gjaldeyrislaganna

Eftirfarandi grein undirritaðs birtist í Fréttablaðinu í morgun og á visir.is:

Nýsamþykkt lög um breytingu laga um gjaldeyrismál vekja spurningar. Sérstaklega heimildarákvæði Seðlabankans um reglusetningu um gjaldeyrisskil, en það hljómar svo: „Seðlabanka Íslands er heimilt, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, að setja reglur um að skylt sé að skila erlendum gjaldeyri sem innlendir aðilar hafa eignast fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt."Eflaust eru lög þessi sett í góðum ásetningi við mjög sérstakar aðstæður.

Mikill þrýstingur hefur byggst upp vegna fjármagns sem beinlínis bíður flóttaleiðar úr landi og vitað er að það mun hafa mjög neikvæð áhrif á gengi krónunnar. Lagasetning þessi ber þess merki að raunverulegar áhyggjur eru hafðar af því að slík lækkun gæti orðið stjórnlaus, að af stað færi vítahringur gengislækkunar sem yrði ekki auðrofinn.

Jafnframt hefur þegar myndast hér á landi svartur markaður með gjaldeyri sem er fyrirbrigði sem vart hefur sést hér síðustu áratugi. Það er vægast sagt óheppilegt og nauðsynlegt að koma þeim markaði fyrir kattarnef sem fyrst.Lagasetningunni er ætlað að stemma stigu við þessum vanda, en, eins og áður segir, kvikna ýmsar spurningar um efni laganna, áhrif þeirra og framkvæmd.

Vantraust á efnahagsáætlun

Í fyrsta lagi má velta fyrir sér hvort túlka megi lögin sem ákveðið vantraust, eða óöryggi, á efnahagsáætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þrátt fyrir hin miklu lán og margliða aðgerðaráætlun er talin þörf á að setja á meiriháttar markaðshindranir. Hér takast á annars vegar því sem haldið hefur verið fram á opinberum vettvangi að við fleytingu krónunnar verði í upphafi snöggt gengisfall með leiðréttingu upp á við fljótlega í kjölfarið, og hins vegar fyrrnefndur ótti við að lækkunin fari úr böndunum og hér verði stjórnlaus gengislækkun með tilheyrandi óðaverðbólgu.

Í öðru lagi kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að það felur í sér veruleg frávik á alþjóðlegum skuldbindingum. Sérstaklega er þar um að ræða EES-samninginn og verður að teljast galli að ekki sé a.m.k. vísað í greinargerð með frumvarpinu um að ef gripið verði til aðgerða verði að fara að ákvæðum 45. greinar EES-samningsins, að ógleymdum ákvæðum 112 og 113 greinar samningsins, en þær lúta m.a. að tilkynningaskyldu íslenskra stjórnvalda til annarra samningsaðila um sértækar aðgerðir af því tagi sem lagasetningin boðar.

Gera má ráð fyrir að við undirbúning lagasetningarinnar hafi það verið gert. Auk þess er ekki ástæða til að ætla annað en að íslensk stjórnvöld vilji vinna aðgerðir sem þessar í sátt við nágrannaþjóðir okkar.

Í þriðja lagi veldur það vissum áhyggjum hvort lögin feli í sér brot á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, m.a. vegna þeirrar heimildar Seðlabanka Íslands að skylda fólk og fyrirtæki til að skila gjaldeyri sem þau eiga. Að sama skapi er spurning hvort hugsanleg viðurlög gangi ekki fulllangt, en í tilfelli brota verður heimilt að beita stjórnvaldsektum og varðhaldi til allt að tveggja ára og þarf þá engu að breyta um hvort ásetningsbrot hafi verið að ræða eða af gáleysi.

Í fjórða lagi er rétt að velta fyrir sér hættunni á að með þeim víðtæku valdheimildum sem Seðlabanka eru veittar, jafnvel þó að þær séu til bráðabirgða, verði brotnar reglur um meðalhóf. Þótt tæpast sé ástæða til að ætla að sérsveit ríkislögreglustjóra verði send til fólks og fyrirtækja til að sækja gjaldeyri sem þau hafa aflað „fyrir seldar vörur og þjónustu eða á annan hátt" virðist skorta ákveðna varnagla í lögin m.a. um framkvæmd valdheimilda. Hvernig verður þetta metið? Tæpast á að „glæpagera" gjaldeyriseign þ.a. Seðlabankinn muni leita til dómstóla og óska húsleitarheimildar vegna gruns um gjaldeyriseign? Að sama skapi er tæpast uppi áætlun um að fulltrúar Seðlabankans bíði við landganga Leifsstöðvar og biðji íslenska ferðamenn að skila afgangsferðagjaldeyri strax við heimkomu.

Trygging jafnræðisreglu

Í fimmta lagi vekja lögin spurningu um það hvort hætta verði á því að jafnræðisregla verði brotin og um mismunun á milli aðila. Það hlýtur að vera erfiðara að beita takmörkunum á sum fyrirtæki en önnur. Tæpast verður stóriðja látin sæta takmörkunum og enginn áhugi er á því að stefna rekstri t.d. CCP, Össurar og Marels í hættu. Ef einhverja starfsemi eða fyrirtæki þarf að taka út fyrir sviga verður það að vera vel rökstutt. Annars er hætta á að ákveðnar atvinnugreinar, t.d. sjávarútvegur, telji sig órétti beittar.

Í sjötta lagi er rétt að hafa í huga hugsanleg neikvæð áhrif laganna á erlenda fjárfestingu hérlendis, að minnsta kosti á meðan ákvæðin gilda, og jafnvel varanlega í ljósi þess hversu greiðlega gekk að afgreiða lagasetningu af þessu tagi á Alþingi.Í sjöunda lagi, með hliðsjón af ofangreindu, er ástæða til að hafa áhyggjur af því hvort þessi lagasetning dragi úr trú á Íslandi sem réttarríki.

Fara sprotafyrirtækin úr landi?

Í áttunda lagi, er einnig rétt að kannað verði hvort lagasetning sem þessi geti orðið þess valdandi að smærri fyrirtæki, t.d. sprotafyrirtæki í hátækniútflutningi, sem hvort eð er eru á mörkum þess að geta haldið áfram starfsemi hérlendis, muni hverfa úr landi.Í níunda lagi er full ástæða til að taka til athugunar athugasemdir framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem segir lögin stórskaða íslenskt viðskiptalíf og neyða fyrirtæki til þess að taka upp starfshætti fortíðarinnar.

Í tíunda lagi, er rétt að velta fyrir sér þeirri aðferðarfræði sem beitt er við setningu laganna og hvort ástæða er til að óttast frekari lagasetningar í framtíðinni og aðrar aðgerðir stjórnvalda. Það getur ekki verið ásættanlegt að reglulega sé verið að keyra lagasetningar með jafn víðtæk áhrif í gegnum Alþingi með afbrigðum og þannig í reynd komið í veg fyrir fullnægjandi lýðræðislega umræðu um áhrif þeirra.

Lagasetning þessi er viðbragð við óvenjulegu ástandi. Hún setur veruleg höft og almennt virðist skorta varnagla beitingu laganna. Eru lögin þannig full opin til túlkunar og því spurning hvort þau dragi frekar úr trausti en að auka það. Braut hafta er að auki í sögulegu samhengi alltaf varhugaverð, því jafnan virðist eitt leiða af öðru í þeim efnum – takmörkuð gjaldeyrishöft dagsins í dag verði orðin víðtækari almenn viðskiptahöft morgundagsins.

Ásetningur laganna er án efa góður, en ástæða er til að hafa í huga að leiðin til bölvunar getur einmitt verið vörðuð góðum ásetningi.

Höfundur er formaður Framsóknarfélagsins á Akranesi.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Nýjustu tölur

Það eru 28 dagar til jóla.

Skráð atvinnuleysi er komið upp í 6.558 manns skv. vef Vinnumálastofnunnar (25. nóv).

Gengi Evrunnar er komið í 180 krónur skv. Seðlabanka Íslands, var 166 krónur fyrir tveimur vikum síðan.

Gengi Evrunnar er komið í 265 krónur skv. Seðlabanka Evrópu, var 200 krónur fyrir tveimur vikum síðan. Athyglisvert er að tilkynning um lánveitingu IMF til Íslands, ásamt lánveitingu frá öðrum þjóðum hefur þannig haft neikvæð áhrif á gengi krónunnar á erlendum mörkuðum.

Fyrsti sunnudagur í aðventu er næstkomandi sunnudag.

Bandaríkjamenn halda þakkargjörðarhátíð núna á fimmtudaginn.

IMF hefur í dag (25 nóv.) birt "letter of intent" íslenskra stjórnvalda.

Það er sem sagt ýmislegt í gangi...

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Kjararáð mun tæpast lækka laun

Forsætisráðherra beindi því til kjararáðs fyrir helgi að kanna möguleikan á því að lækka laun æðstu embættismanna um 5 til 15%.

Kjararáð fundaði um málið í dag en lauk ekki umfjöllun sinni. Ráðgert er að ráðið eigi fund að nýju næstkomandi föstudag, en formaður ráðsins kveðst víst ekki gera ráð fyrir niðurstöðu þá.

Samkvæmt starfsreglum ráðsins "...skal kjararáð gefa talsmönnum þeirra sem undir úrskurðarvald þess falla, fjármálaráðuneyti og öðrum ráðuneytum, vegna starfsmanna sem undir þau heyra, kost á því að leggja greinargerðir fyrir ráðið. Ráðið getur og heimilað málsaðilum að reifa mál sitt munnlega.. Kjararáð skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin."

Í ljósi þessa og þeirrar staðreyndar að launalækkun er vægast sagt óvenjuleg aðgerð má búast við að Kjararáð þurfi töluverðan umþóttunartíma vegna beiðni forsætisráðherra. Gera má ráð fyrir að ráðið þurfi að kalla eftir umsögnum þeirra sem undir ráðið heyra, eða a.m.k. gefa þeim hæfilegt ráðrúm til þess að koma umsögnum og athugasemdum á framfæri.

Benda má á að kjararáð er að jafnaði ekki leiðandi í þróun kjara opinberra starfsmanna, heldur fylgir yfirleitt í kjölfar kjarasamninga aðildarfélaga BSRB og BHM í sínum úrskurðum. Að setja ráðið fyrir vagninn með þessum hætti er þannig einnig nokkuð óvenjulegt.

Kjör opinberra starfsmanna hafa undanfarin ár ekki fylgt eftir almennri launaþróun og ekki haldið í við verðbólgu. Eftir að samningar opinberra starfsmanna voru samþykktir sl. sumar hefur kjararýrnunin farið hraðvaxandi. Í raun er það svo að landsmenn allir, þ.m.t. þeir sem heyra undir Kjararáð, verða fyrir kjaraskerðingu, og þar með beinni launalækkun, nú um hver einustu mánaðarmót vegna þróunar bæði gengis og verðbólgu. Er ekki 5 til 15% launalækkun þar til viðbótar óþarfi? Hún er að eiga sér stað hvort eð er.

Því er líklegast, þegar Kjararáð hefur lokið umfjöllun sinni og gefið þeim er málið varða tækifæri til að senda inn greinargerðir og álit, að engin verði lækkunin.

Forsætisráðherra mun hins vegar geta sagst hafa reynt!

mánudagur, 24. nóvember 2008

Nýjan gjaldmiðil núna?

Við erum komin með nýja banka og erum víst að byggja nýja Ísland.

Við sitjum engu að síður uppi með ýmislegt af því gamla og er það misgott eins og gengur.

Eitt af því gamla sem við sitjum uppi með er krónan. Allir virðast sammála um að það sé afleitt, en engin hefur enn komið fram með lausn á þessu vandamáli sem gagnast gæti strax.

Upptaka annars gjaldmiðils er það sem helst er litið til, en engin þeirra tillagna sem hingað til hafa komið fram eru gallalausar. Sú lausn sem vit- og varanlegust til framtíðar er upptaka Evru með inngöngu í Evrópusambandið. Þar vinnur tíminn gegn okkur og sú einfalda staðreynd að pólitíkin hér innanlands er ekki komin nógu langt til að geta tekið afstöðu til málsins – þó ekki væri nema að taka umsóknarskrefið.

Við erum því hnípin þjóð í vanda.

Það er við kringumstæður sem þessar sem leyfist að tefla fram róttækustu hugmyndunum.

Hér er ein: skiptum um gjaldmiðil – úr okkar eigin krónu yfir í okkar eigin gengistryggða gjaldmiðil, bundin við t.d. Evru eða SDR (sérstök dráttarréttindi Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, sem er ákveðin myntkarfa sem sjóðurinn notar) – en látum þann gamla (krónuna) lifa enn um sinn samhliða þeim nýja.

Myllusteinninn um háls krónunnar eru útistandandi og gjaldfallin krónubréf í erlendri eigu, þ.m.t. erlend eign á ríkisbréfum. Ekki hef ég á reiðum höndum tölu yfir erlenda eign á bréfum í íslenskum krónum, en m.v. að búist er við gjaldeyrisútstreymi upp á allt að einn milljarð Evra í kjölfar væntanlegrar fleytingar krónunnar, má gera ráð fyrir að erlend eign í íslenskum peningabréfum af einhverju tagi sé a.m.k. svo mikil.

Þetta útstreymi fer fram með þeim hætti að erlendir (og einhverjir innlendir) fjárfestar losa sig við krónueign fyrir hvaða verð sem er í erlendum gjaldmiðli og forða sér eins hratt og fætur toga.

Afleiðingin af þessu er jafn fyrirséð og hún er skelfileg. Hrun á gengi krónunnar með tilheyrandi verðbólguskoti og margföldun á aðfangakostnaði að utan. Vörnin gegn þessu er veik – hún felst einkum í því að reyna nokkurs konar viðhorfsstjórnun (perception management), þ.e. að allir haldi fram þeirri framtíðarsýn að jú gengið muni falla eitthvað, jafnvel töluvert, en það verði einungis tímabundið. Krónan muni skríða upp aftur. Með því að halda þessu fram er vonast til að einhverjir peningabréfaeigendur haldi aftur að sér í sölu þeirra og skiptum yfir erlenda gjaldmiðil og þannig verði skaðinn að einhverju leyti takmarkaður – gengisfallið verði þannig ekki eins mikið á eins stuttum tíma.

Fyrir þessum vonum viðhorfsstjórnunarinnar eru þó engin fullvissa. Fleyting krónunnar getur þannig hleypt af stað vítahring sem verður algerlega órjúfanlegur.

Stóri vandinn er s.s. hin risastóra útistandandi erlenda eign á íslenskum krónupappírum. Eign sem hefur verið að tapa verðgildi og á eftir að tapa meira verðgildi ef spár ganga eftir um gjaldeyrisútstreymi. Vandinn fyrir okkur meðaljónana er að við verðum dregnir með í fallinu.

Þess vegna legg ég til að áður en að fleyting núverandi krónu verði sett af stað verði tekinn upp nýr íslenskur gjaldmiðill samhliða núverandi krónu. Nýi gjaldmiðillinn verði gengistryggður í takmarkaðan tíma, segjum til næstu 12 – 24 mánaða, en þeim gamla fleytt og leyft að falla. Nýjar skuldbindingar nýja Íslands verði í hinum nýja gjaldmiðli, gamlar skuldbindingar verði áfram í þeim gamla. Myllusteinninn sekkur með gömlu krónunni, en nýi gjaldmiðillinn er stikkfrí.

Tölfræðin öll fari strax eftir nýja gjaldmiðlinum, þ.m.t. verðbólgu og vísitölumælingar. Reyndar ætti að nota tækifærið og afnema allar vísitölubindingar undir nýja gjaldmiðlinum. Bakhjarl nýja gjaldmiðilsins væri þau lán sem verið er að taka og undirliggjandi styrkur hagkerfisins. Reyndar gæti verið kostur að beita nýja gjaldmiðlinum ákveðnum viðskiptatakmörkunum til að byrja með.

Með þessu móti yrði enginn verðbólgukúfur og ekkert gengishrun sem kæmi niður á almenningi, sem blæðir nú nóg samt. Nýja Ísland gæti farið af stað laust við stóran hluta þess bagga sem gamla Ísland skyldi eftir. Lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nágrannaríkjum okkar þyrftu þ.a.l. jafnvel ekki að nýta til styðja við nýja gjaldmiðilinn nema með óbeinum hætti.

Ein útfærsluleið er að gefa nýja gjaldmiðlinum, köllum hann Spesíu, sama verðgildi og Evru, en miða við gengi Evru t.d. 130 við gömlu krónuna og skipta öllu innlenda hagkerfinu yfir. Sá sem hafði 260.000 í mánaðarlaun í krónum fær þannig eftirleiðis 2.000 íslenskar spesíur í mánaðarlaun. 26 milljóna húsnæðislánið væri hér eftir lán upp á tvær milljónir spesía – og takið eftir, nú hugsanlega án verðtryggingar og með fasta vexti upp á fasta prósentu yfir millibankavöxtum Evrunnar. Trúverðuleiki svona aðgerða væri jafnframt verulega mun meiri ef þeim væri fylgt eftir með aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Þetta er róttæk hugmynd, en tvímynta hagkerfi eru alls ekki óþekkt. Yfirleitt er það svo að þau eru tvímynta með annars vegar eigin mynt og síðan vel treystandi erlendri mynt eins og dollara, eða þá að viðkomandi ríki hefur tvær myntir, annars vegar fyrir sauðsvartan almúgann sem ekki er hægt að skipta í gjaldeyri og hins vegar fyrir elítuna sem er skiptanlegur eins og er t.d. á Kúbu.

Hér yrði þessu öfugt farið. Nýr og betri gjaldmiðill, skiptanlegur og gengistryggður yrði fyrir okkur pöpulinn – sá gamli svo að segja verðlausi verður skilinn eftir fyrir braskarana.

Gæti þetta ekki verið hin fullkomna lausn?

Ég auglýsi hér með eftir athugasemdum, ábendingum og leiðréttingum frá mér fróðari mönnum!

laugardagur, 22. nóvember 2008

''Fjárhagsleg endurskipulagning''

Á bls. 33 í Morgunblaðinu í dag birtist eftirfarandi grein eftir fyrrum skólabróður minn úr Landakotsskóla, Hallbjörn Karlsson. Hún er skyldulesning og er endurbirt hér með góðfúslegu leyfi höfundar:

„Fjárhagsleg endurskipulagning“

Á SÍÐUSTU mánuðum hafa ómæld verðmæti Íslendinga glatast. Ástæðurnar eru margar en grundvallarástæða þess hvernig fór var óskynsamleg skuldsetning. Helstu fyrirtæki landsins voru og eru skuldsett úr hófi fram og hafa komið sér upp vonlausri fjármagnsskipan. Íslenskir bankar lánuðu til fyrirtækja og hluthafa þeirra á óskiljanlegan hátt þar til niðurstaðan gat ekki orðið önnur en sú sem við nú horfum upp á.

Undirritaður hefur rekið fjárfestingarfélag um allnokkurt skeið. Síðustu þrjú árin datt okkar félag hægt og rólega út af íslenskum fjármálamarkaði, nánast gegn eigin vilja. Ástæða þess var að allt sem við buðum í seldist fyrir mun hærra verð en við töldum viðunandi. Steininn tók úr í byrjun árs 2007 þegar fyrirtæki sem við buðum í seldist fyrir sexfalda þá upphæð sem við töldum eðlilega.

Síðustu þrjú árin skipti nefnilega ekki máli hvað fyrirtæki kostuðu; eina sem skipti máli var hvernig hægt væri að fjármagna kaupin. Í þessu umhverfi urðu til orð eins og „fjárfestingargeta“. Þetta er vitaskuld delluhugtak en það mælir hversu djarfir menn eru í því að bæta við lánum ofan á eigið fé sitt, sem vel á minnst var oft einnig tekið að láni, að hluta eða öllu leyti. Þetta orð dúkkar upp í Morgunblaðinu fyrst árið 2003 í umfjöllun um Bakkavör og nú síðast fyrir um ári í sambandi við REI. Fjárfestar sem notuðu mælieiningu eins og „fjárfestingargetu“ hefðu klárlega átt að finna sér annað að sýsla við en að fjárfesta. Og bankar hefðu að sjálfsögðu átt að átta sig á því risastóra rauða flaggi sem orðið „fjárfestingargeta“ stendur fyrir. Það gerðu þeir því miður ekki.

Of seint er að vinda ofan af þessum hugsunarhætti. Afleiðingarnar eru í dag öllum ljósar. Það sem skiptir hins vegar máli núna er að fara vel og rétt með þau verðmæti sem við þó eigum eftir.

Og verðmæti Íslendinga í dag eru bundin í íslenskum fyrirtækjum. Vandi þeirra er hins vegar skuldsetning langt úr hófi fram. Af þessum sökum eru mörg þessara fyrirtækja í raun í eigu skattgreiðenda þar sem þeir eru eigendur nýju viðskiptabankanna þriggja.

Því er nú lag fyrir skattgreiðendur að fá að njóta þess í framtíðinni ef það heppnast að búa til verðmæti úr ofurskuldsettum íslenskum fyrirtækjum. Ástæða þess er að þegar félag kemst í þrot og getur ekki greitt af skuldum sínum á að vera um tvennt að ræða. Fyrsti möguleikinn er að sá að hluthafar félagsins setji meira hlutafé inn í reksturinn, hugsanlega með einhverri hjálp frá kröfuhöfum. Ef hluthafarnir eru hins vegar auralausir eiga bankarnir, nánast án undantekninga, að taka yfir hlutafé og rekstur þessara fyrirtækja, finna nýja fjárfesta og helst breyta hluta af sínum kröfum í hlutafé. Með því móti gætu skattgreiðendur tekið þátt í þeirri verðmætaaukningu sem ætti að geta orðið á næstu árum. Þannig fengju skattgreiðendur til baka eitthvað af því sem af þeim hefur verið tekið.

Að sjálfsögðu vilja núverandi hluthafar „fjárhagslega endurskipulagningu“, orðatiltækið sem hefur tekið við af „fjárfestingargetu“. Það er huggulegra orðalag en „eftirgjöf skulda“. En hverjum væri slík aðgerð í hag? Þegar íslenskt fjárfestingarfélag, sem fyrir nokkrum mánuðum var hvað mest skuldsett allra félaga á Íslandi, og því með glæsilegustu „fjárfestingargetuna“, fer fram á „fjárhagslega endurskipulagningu“ hjá einum viðskiptabankanna okkar, er það í raun að biðja skattgreiðendur um að gefa sér pening. Væri það nú það skynsamlegasta í stöðunni eftir það sem á undan er gengið? Eða væri meira vit í því fyrir skattgreiðendur, í krafti sinna banka, að yfirtaka fjárfestingarfélagið og eignir þess, og reyna að gera sér mat úr þeim eignum sem þó standa eftir? Svarið við þessu á að vera augljóst hverjum Íslendingi.

Hættan er sú að bankarnir og skilanefndir þeirra séu ekki nægjanlega fljót að átta sig á hinu nýja hlutverki sínu, sem er að hámarka hag sinna nýju hluthafa; íslenskra skattgreiðenda. Sala á eignum félaga sem eru í greiðslustöðvun til stórra hluthafa án úboðs á ekki að líðast. „Fjárhagsleg endurskipulagning“ mjög skuldsettra félaga útrásarmanna á ekki að líðast. Sala eigna án þess að tryggt sé að við skattgreiðendur fáum bestu kjörin á ekki að líðast.
Ef það er ekki tryggt að hæstu tilboða sé leitað hverju sinni með opnu og gagnsæu ferli er verið að hlunnfara Íslendinga, enn eina ferðina. Það má ekki gerast.

Höfundur er meðeigandi í fjárfestingarfélaginu Vogabakka ehf.

miðvikudagur, 19. nóvember 2008

Nýja gengisleiðrétta vísitölu neysluverðs

Í fyrradag var samþykkt með hraði frumvarp félagsmálaráðherra um greiðslujöfnun. Í því felst að hluti þeirra vísitöluhækkunar lána sem orðið hefur vegna mikillar verðbólgu er færður aftur fyrir. Þetta er skammgóður vermir - linar greiðslubyrði nú fyrst í stað, en kemur hart niður síðar.

Ekki var hægt að frysta, fresta eða taka úr sambandi vísitölubindinguna, m.a. vegna þess að fjármögnun íbúðalánasjóðs er öll vísitölubundin og þannig hefði eigi fé sjóðsins étist upp á örskömmum tíma ef lántakendum sjóðsins yrðu veitt einhver slík kjör.

Á þessum síðustu og verstu tímum þegar stjórnvöld hafa ekki vílað fyrir sér að setja til hliðar stjórnarskrá og í reynd ástunda gríðarlegar eignaupptökur er merkilegt að tölfræðilegur bastarður eins og vísitala neysluverð skuli njóta sérstakrar verndar og átrúnaðar.

Vísitala neysluverðs er mannsins verk. Samsetning hennar og framsetning er í valdi stjórnvalda.

Vitlaus samsetning vísitölunnar, þar sem húsnæðisliðurinn var tekinn inn að fullu, átti stóran þátt í að ýta undir þá fasteignaverðbólu og þar með verðbólgu sem hér hefur ríkt undanfarin ár.

Að sama skapi mælist verðbólgan hérlendis nú í hæstu hæðum vegna hruns á gengi krónunnar. Hávaxtastefna er keyrð til að vega á móti verðbólgu og þenslu sem í raun er ekki til staðar.

Í ljósi ástandsins, og þess neyðarástands sem hér ríkir, ætti stjórnvöldum að vera í sjálfsvald sett að breyta vísitölu neysluverðs með þeim hætti að hér eftir (og helst eitthvað aftur í tímann) verði hún framvegis birt gengisleiðrétt.

Það væri óvenjuleg aðgerð og án fordæmis, en það er ekkert nýtt á þessu síðustu og verstu tímum. Hugsanlega mætti tímatakmarka þessa ráðstöfun, svona til að koma að einhverju leiti til móts við lánveitendur og fjármögnunaraðila.

Staðreyndin er sú að í vísitölubundnum lánasamningum er jafnan vísað til vísitölu neysluverðs og átt við eins og hún er á hverjum tíma. Þessi breyting myndi þannig ekki leiða til eiginfjárbruna íbúðalánasjóðs. Vísitalan gegnir hlutverki tölfræðilegs vegvísis um verðþróun í þjóðfélaginu og á þannig að þjóna sem grunnur í ákvarðanatöku í efnahags- og sérstaklega peningamálum.

Sem slíkur vegvísir í núverandi gengisástandi er vísitalan ekki að virka. Hún gefur til kynna verðbólgu sem meira og minna er öll innflutt vegna gengisþróunarinnar. Innlend verðbólga er væntanlega hverfandi - og eins og áður sagði er þennslan löngu horfin, hér ríkir samdráttur.

Gengisleiðrétt vísitala neysluverðs væri líkast til aðeins fjórðungur eða fimmtungur af núverandi mældri verðbólgu. Hún gæfi þannig tilefni til lækkunar skammtímavaxta, og áhrifin á vísitölubundnu lánin yrðu veruleg til skamms tíma litið.

Þar sem almennt virðist talið að væntanlegt gengisfall krónunnar við endurfleytingu hennar á næstu dögum eða vikum muni leiða til gríðarlegs falls hennar til að byrja með, en svo muni hún rétta verulega úr kútnum, er ljóst að skaði fjármagnseiganda og lánveitenda í vísitölutryggðum lánum verður skammvinnur. Þjóðhagslegi ávinningurinn fyrir bæði fyrirtækin og heimilin í landinu gæti hins vegar orðið verulegur ef áður hefur verið komið á gengisleiðréttri vísitölu neysluverðs, og þannig komist hjá því að það gengisfall keyri allt í þrot vegna vísitölubindingar lána.

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Brotthvarf Guðna

Það voru vissulega stór-pólitísk tíðindi í gær að Guðni Ágústsson skyldi segja af sér bæði þingmennsku og formennsku í Framsóknarflokknum

Að Guðni skyldi kjósa að hverfa af vettvangi kemur í sjálfu sér ekki á óvart, tímasetning og aðferðarfræðin gerir það hins vegar.

Þann 10. september síðastliðinn velti ég því upp hér á þessum síðum að formannsskipti gætu verið framundan í öllum stjórnarandstöðuflokkunum. Sérstaklega beindi ég sjónum að mínum eigin flokki og taldi þá, í ljósi stöðu Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum, að krafan um forystuskipti myndu fara að vera hærri í aðdraganda flokksþings, ef fylgið færi ekki að rétta úr kútnum.

Morguninn eftir þessa færslu fékk ég símtal frá Guðna þar sem hann óskaði eftir fundi. Sá fundur fór fram á þingskrifstofu hans við Austurstræti. Á fundinum lýsti Guðni megnri óánægju með þessa blogg færslu mína og að ég skyldi þar vega að honum með ómaklegum hætti. Hann hefði marga fjöruna sopið í pólitík og margir reynt að vega að honum en hér væri hann enn. Ég skyldi hafa það í huga. Fundur þessi stóð í u.þ.b. þrjú korter og skiptust þar á skin og skúrir. Ekki sá ég á þessum fundi neina ástæðu til þess að bakka með þá skoðun sem ég hafði útlistað í pistli mínum, enda í sjálfu sér ósköp saklausar vangaveltur um framtíðarforystu Framsóknarflokksins. Ég varð hins vegar óneitanlega mjög hugsi eftir þennan fund.

Þann 16. október síðastliðinn skrifaði ég að nýju um formanninn og dró lítt undan. Tilefnið var ræða hans í þinginu deginum áður í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um stöðu bankakerfisins. Í ræðu sinni taldi ég formanninn hafa vikið með grófum hætti frá stefnu flokksins, gengið á svig við eigin málamiðlun um Evrópumál auk þess að afhjúpa sig sem afsökunarmann fyrir fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi formann bankaráðs Seðlabankans. Í niðurlagi þess pistils segir eftirfarandi: “Trúverðuleiki formanns Framsóknarflokksins til að framfylgja stefnu flokksins og leiða hann til öndvegis á ný í íslenskum stjórnmálum hlýtur að koma til mikilla álita, sérstaklega eftir að hann hefur gengið með slíkum hætti gegn stefnu og vilja eigin flokks.”

Töluverð viðbrögð urðu við þessum pistli mínum og ófá símtöl fylgdu í kjölfarið. Greinilegt var að í þessari gagnrýni minni var ég að snerta á taug meðal margra Framsóknarmanna – segja það sem margir hugsuðu. Svo því sé haldið til haga þá fékk ég líka skammir, en þær voru mun færri.

Tveimur dögum síðar er haldið kjördæmisþing Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi og þar fara mál á þann veg að vænir bitar sem beint var gegn ESB og EES í drögum að ályktun þingsins eru felldir út, en höfundur þeirra var þáverandi þingmaður Bjarni Harðarson. Sú niðurstaða virtist fara mjög í taugarnar á honum og varð honum tilefni til upphrópanna í fjölmiðlum um óróamenn innan Framsóknarflokksins. Augljóst var að upphrópanir þingmannsins fyrrverandi gátu vel átt við undirritaðan. Sá ég því fulla ástæðu til að fjalla eilítið um þessar upphrópanir þingmannsins hér á þessum stað.

Þann 27. október síðastliðinn skrifa ég aftur hér á þessum vettvangi og set þar fram þá skoðun mína, umbúðalaust, að ég telji að Guðni Ágústsson eigi að víkja sem formaður flokksins. Fyrir því séu tvær ástæður, annars vegar hörmuleg útreið flokksins í skoðanakönnunum og hins vegar sú staðreynd að formaðurinn verði reglulega uppvís að því að “vinna beinlínis gegn stefnu eigin flokks.”

Þann 3. nóvember síðastlíðinn er haldin almennur félagsfundur í Framsóknarfélagi Akranes hvar ég gegni formennsku. Þar er samþykkt ályktun þar sem m.a. kemur fram eftirfarandi:

Framsóknarfélag Akranes lýsir sérstökum áhyggjum yfir stöðu Framsóknarflokksins. Endurnýjun flokksforystunnar er óumflýjanleg og hvetur Framsóknarfélag Akranes miðstjórn flokksins til þess að bregðast við með óyggjandi hætti hafi forysta flokksins ekki sjálf frumkvæði að breytingum.

Þann 8. nóvember er haldið kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Þar tekur formaður flokksins í tvígang til máls í löngu máli, annars vegar við upphaf og hins vegar við lok þingsins. Báðar ræðurnar höfðu á sér sérkennilegt yfirbragð. Í þeim eyddi hann miklum tíma í að tala um að hann sætti sig ekki við að vegið væri að heiðarleika hans sem stjórnmálamanns. Nokkuð sem ég held að engin kannist við að hafa gert. Heiðarleiki Guðna hefur verið óumdeildur. Auk þess eyddi hann löngu máli í að tala um aðför gegn sér og þar væri að baki Björn Ingi Hrafnsson, fyrrum borgarfulltrúi og nú ritstjóri Markaðar Fréttablaðsins. Sem dæmi tiltók hann dæmalausa, að hans mati, bloggfærslu Björns Inga í kjölfar þingræðu sinnar í umræðum um skýrslu forsætisráðherra um stöðu bankanna um miðjan október. Af tilvitnuninni að dæma var hann líkast til að eiga við þessa bloggfærslu hér, en í henni er lítið annað en tilvitnun í bloggfærslu undirritaðs.

Það ætti að vera óþarfi að taka fram, en tryggara samt, að undirritaður tilheyrir engum armi innan Framsóknarflokksins. Í gagnrýni minni á nú fyrrverandi formann flokksins, og síðan einnig á fyrrverandi þingmann Bjarna Harðarson, undanfarnar vikur, hef ég verið nokkurs konar eins manns fjöldahreyfing. Vinnubrögð Bjarna Harðarsonar í pólitík voru hins vegar afhjúpuð með eftirminnilegum hætti í síðustu viku og nú nokkuð augljóst að í gaspri sínu um óróamenn og óheiðarleg vinnubrögð í flokknum var þingmaðurinn fyrrverandi undir áhrifum hins fornkveðna að margur heldur mig sig.

Aðallega var Guðni Ágústsson þó fórnarlamb afleitrar tímasetningar í því að taka við formennsku í flokknum eftir langa stjórnarsetu, erfið deilumál og afhroð í kosningum. Jafnframt er ljóst nú eftir á að hann mislas þá ólgu sem orðin var í flokknum vegna annars vegar útkomu flokksins í skoðanakönnunum og hins vegar afstöðu til Evrópusambandsaðildar. Miðstjórnarfundurinn síðastliðinn laugardag var honum, og öðrum í forystu flokksins, mjög erfiður.

Afsögn hans og brotthvarf er þannig skiljanleg, en ekki sérlega þokkafull. Aðferðin er sambærileg við það að rjúka út í fússi og skella á eftir sér hurðum. Nær hefði verið að tilkynna um brotthvarf og sitja fram að flokksþingi. Kemur ekki á óvart að í þessu virðist Guðni Ágústsson enn hafa notið afleitrar ráðgjafar Bjarna Harðarsonar.

Miðstjórnarfundurinn síðastliðinn laugardag var augljóslega mikill vendipunktur. Óvægin gagnrýni fulltrúa ungra framsóknarmanna strax í upphafi umræðna slógu hinn nú fallna formann verulega út af laginu. Hann brást hinn ókvæða við og var það honum lítt til sóma. Guðni gerði sér þó grein fyrir því og eftir því sem leið á fundinn dró hann úr gagnrýni sinni á ungliðana. Enda var það svo að gagnrýni á forystu flokksins var síst einskorðuð við þá, hún átti sér engin aldursmörk og beindist ekki síður að varaformanninum og þingflokksformanninum.

Evrópumálin voru Guðna hins vegar líklega erfiðust á fundinum. Ekki endilega sú niðurstaða sem sæst var á og samþykkt samhljóða, heldur aðdragandi hennar. Um tíma lá við upplausn fundarins og beittu sér óvænt mjög óvægið tveir fyrrum ráðherrar flokksins, þær Siv Friðleifsdóttir og Jónína Bjartmars, og vildu fá samþykkta meiriháttar stefnubreytingu flokksins í Evrópumálum þannig að flokkurinn yrði hreinn aðildarflokkur. Það hugsa ég að hafi komið Guðna mjög í opna skjöldu. Samkvæmt lögum flokksins er miðstjórn án efa ekki heimilt að ganga svo langt í stefnumörkun og fyrirsjáanlegt að andstæðingar aðildar hefðu kært málið til laganefndar flokksins, hefði leið Sivjar og Jónínu verið farin.

Nú þarf engin að velkjast í vafa um mína afstöðu í Evrópumálum, en hér fannst mér, sem og mörgum öðrum fulllangt gengið. Áður hafði ég lýst því í pontu að ég teldi hreinlegra að flýta flokksþingi og beina því til þingsins að taka afstöðu til aðildarumsóknar. Það er nefnilega mikill eðlismunur á því fyrir stjórnmálaflokk að vera á girðingunni, eins og Framsóknarflokkurinn hefur verið hingað til, jafnvel með hvatningu til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu, og því að verða aðildarumsóknarflokkur. Þegar og ef flokkurinn samþykkir þá stefnubreytingu að vilja aðildarumsókn felur það í sér að flokkurinn hefur sameinast um það að aðild er markmiðið.

Því varð ljóst að málamiðlunar var þörf og átti ég þátt í þeirri málamiðlunartillögu sem miðstjórnarfundurinn samþykkti síðan samhljóða – sem betur fer. Með þeirri tillögu tókst að koma í veg fyrir að málið yrði þæft og tafið enn frekar, jafnvel með kæru til laganefndar flokksins.

Í kjölfarið róaðist fundurinn mjög þannig að hægt var að afgreiða stjórnmálaályktun fundarins í góðri sátt. Hins vegar er vart að undra að Guðni Ágústsson hafi upplifað sig mjög einan að afloknum fundi.

Það er rétt að með Guðna Ágústssyni hverfur af vettvangi stjórnmálanna litríkur stjórnmálamaður. Af honum verður mikill sjónarsviptir. En engin er eilífur í pólitík. Undanfarnir tveir mánuðir hafa verið mjög óvenjulegir hjá þjóðinni allri og brokkgengt brotthvarf hans er auðfyrirgefið.

Guðna Ágústssyni og fjölskyldu hans óska ég gæfu og gengis í framtíðinni.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

Hinir fimm fræknu...

Þættinum hefur borist bréf...

Hin fimm fræknu sem rannsaka eiga bankahrunsglæpina

Alþingi hefur nú til afgreiðslu frumvarp til laga um embætti sérstaks saksóknara. Áhugasamir geta nálgast frumvarpið hér: http://www.althingi.is/altext/136/s/0156.html

Frumvarpið geri ráð fyrir því að stofnað verði tímabundið rannsóknarembætti sérstaks saksóknara “til að annast rannsókn á grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við hinar sérstöku og mjög óvenjulegu aðstæður á fjármálamarkaði og eftir atvikum fylgja henni eftir með útgáfu ákæru og saksókn.” Í frumvarpinu segir einnig að markmið þess sé “að vinna að því höfuðmarkmiði neyðarlaganna svonefndu að efla traust almennings á fjármálakerfinu. Við núverandi aðstæður verður það ekki gert nema með óvenjulegum úrræðum.”

Frumvarpið er í samræmi við þá alkunnu og háværu kröfu þjóðarinnar að hinir meintu bankahrunsglæpir verði rannsakaðir. Í ljósi mikilvægis málsins vekur eftirfarandi texti í skýringum við frumvarpið athygli:

Erfitt er að sjá fyrir hversu viðamikil verkefni embættisins verða og er því gert ráð fyrir að starfsmannafjöldi þróist í takt við umfang verkefnanna. Gert er ráð fyrir að fastir starfsmenn verði í upphafi aðeins þrír til fjórir auk héraðssaksóknara, þ.e. tveir lögreglumenn, viðskiptafræðingur með endurskoðunarréttindi og haldgóða reynslu af alþjóðlegri fjármálastarfsemi og eftir atvikum almennur skrifstofumaður. Nauðsynlegt er að starfsmenn hafi góða tungumálakunnáttu og alþjóðlega menntun eða tengsl. Gera má ráð fyrir að á árinu 2009 verði starfsmenn orðnir 10 talsins.”

Þessi texti vekur upp áleitnar spurningar. Liggur virkilega fyrir þarfagreining hjá stjórnvöldum sem segir að fimm til tíu manna teymi nægi? Hjá bönkunum störfuðu (og starfa enn) nokkur þúsund starfsmenn og margir þeirra eru væntanleg vitni sem þarf að yfirheyra að ekki sé talað um þá sakborninga sem þarf að yfirheyra. Meint fórnarlömb bankahrunsglæpa (íslensk og erlend) virðast vera ansi mörg og þeim er öllum frjálst að leggja fram kæru hjá hinum sérstaka saksóknara.

Hin fimm (til tíu) fræknu sem rannsaka eiga sakamálaþátt bankahrunsins munu væntanlega hafa í nógu að snúast næstu áratugina ef ekki kemur til raunhæfari greining á mannafla- og útgjaldaþörf vegna rannsóknarinnar. Hér mætti hugsa sér að lögfest yrði heimild hins sérstaka saksóknara til að fá lánað, tímabundið, til rannsóknarinnar reynt starfsfólk frá efnahagsbrotadeild RLS, embætti ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra, samkeppniseftirlitinu og öðrum eftirlitsstofnunum til að flýta rannsókninni. Lögin myndu þá jafnframt kveða á um rétt þessa starfsfólks til launalauss leyfis úr núverandi starfi.

Heilbrigð skynsemi segir manni að fimm til tíu manna teymi getur ekki rannsakað bankahrunsglæpina með ásættanlegum hraða. Til þess er flækjustig málsins (lesist krosseignatengsl) of mikið. Það er líka alkunna að rannsóknir efnahagsbrota, eins og þau sem hér um ræðir, eru tímafrekar og geta tekið mörg ár sérstaklega ef mannskapurinn er ekki nægur. Nærtækt er hér að benda á Olíusamráðsmálið og Baugsmálið sem tók mörg ár að rannsaka. Hér skipta skilvirkni og trúverðugleiki máli frá fyrsta degi rannsóknar. Mannfæð, fjár- og tímaskortur má ekki verða til þess að slóð hinna seku kólni og afbrot þeirra fyrnist. Fleira þarf til þjóðarsálarinnar vegna sem kallar á uppgjör við hina seku og lokun málsins sem fyrst.

Ekki má hér heldur gleyma mikilvægi réttlátrar málsmeðferðar og því að það telst til mannréttinda sakaðra manna að fá sem fyrst úrlausn sinna mála og þurfa ekki að sitja (jafnvel að ósekju) undir grun, svo árum skiptir, um refsiverða háttsemi með því brennimarki og þeirri vanlíðan sem því fylgir.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða meðhöndlun frumvarpið fær hjá Alþingi sem vel að merkja fer einnig með fjárveitingarvaldið.

Höfundur óskar nafnleyndar

Ekki kosningar... strax

Krafan um kosningar fyrr en síðar verður æ háværari. Það er skiljanlegt. Í ljósi þess að nú blasir við að innan fárra vikna verður tekin ákvörðun um aðildarumsókn að ESB eigum við að halda í okkur með kosningar.

Þær eiga að fara fram strax að loknum aðildarviðræðum.

Nú skulum við gefa okkur það að Sjálfstæðisflokkurinn samþykki aðildarumsókn á landsþinginu í lok janúar á næsta ári. Það mun koma í kjölfar þess að flokksþing Framsóknarflokksins mun nokkru fyrr hafa staðfest vilja miðstjórnar frá því í gær að Ísland eigi að sækja um aðild.

Þá mun liggja fyrir vilji aukins meirihluta flokka þeirra sem sitja á Alþingi um aðildarumsókn, þ.a. vart verður beðið boðanna. Til að allt fari nú vel fram má gera ráð fyrir að mánudaginn 2. febrúar 2009 verði lögð fram þingsályktunartillaga um umboð ríkisstjórnar til aðildarumsóknar að ESB. Sú tillaga mun fá hraðafgreiðslu og fyrir vikulok verði sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu búinn að ganga á fund framkvæmdastjórnarinnar og leggja fram aðildarumsókn Íslands.

Jafnhliða þyrfti að gera eftirfarandi:

1. Endurvekja stjórnarskrárnefnd. Þar yrðu meginverkefnin þríþætt, að ganga frá breytingartillögu til heimildar takmarkaðs framsals valds til yfirþjóðlegra alþjóðastofnanna, að útfæra ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og ganga frá ákvæði um þjóðareign auðlinda.

2. Stofna þverpólitískan og þverfaglegan samráðshóp samninganefndar og stjórnvalda vegna aðildarviðræðnanna. Sá hópur yrði til ráðgjafar í ferlinu og bundinn trúnaði.

Almennt mat er að aðilarviðræður muni ekki taka langan tíma, kannski hálft ár til níu mánuði ef ekki koma upp sérstök ófyrirséð vandamál. Í flestum tilvikum verður um að ræða samninga um tímalengd aðlögunar á þeim þáttum sem ekki eru þegar hluti að EES-samningnum.

Sjávarútvegshlutinn verður augljóslega vandasamasti þátturinn, en það er vitað. Það að hefja aðildarviðræður verður í sjálfu sér yfirlýsing að hálfu beggja um einbeittann vilja til að komast að ásættanlegri niðurstöðu. Nú er lag í ljósi yfirvofandi endurskoðunar sjávarútvegsstefnu sambandsins. Þar getur Ísland lagt mikið til.

Kosningar til Alþingis eiga ekki að fara fram fyrr en við lok þessarar vinnu, samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild. Ef vel gengur gætu þær kosningar farið fram í seinni hluta septembermánaðar 2009. Aðild Íslands að ESB gæti þannig orðið að veruleika frá 1. janúar 2010.

Ísland myndi síðan gegna formennsku í Evrópusambandinu í fyrsta sinn á tímabilinu janúar til og með júlí 2013, hugsanlega samhliða upptöku evrunnar.

Magnaður miðstjórnarfundur

Miðstjórnarfundur Framsóknarflokksins í gær er án efa einhver magnaðasti flokksfundur sem ég hef setið. Þar dró engin neitt undan og engin afsláttur var veittur.

Niðurstaða fundarins er hins vegar krítskýr. Flokkurinn er á hraðferð til Evrópu, stefnan afdráttarlaus í öðrum málum og menn tilbúnir á þessum síðustu og verstu tímum að standa fastir fyrir á sínum prinsippum, m.a. hvað varðar atvinnu- og orkustefnu, fiskveiðistjórnun og aðkomu ríkisins að rekstri fjármálafyrirtækja, þ.e. að bankar eigi ekki að að vera í ríkiseigu.

Augljóst var jafnframt á þessum fundi að ungliðahreyfing Framsóknarflokksins, SUF, undir forystu Bryndísar Gunnlaugsdóttur, er að stimpla sig sterkt inn. Það liggja kynslóðaskipti í loftinu og ekki ólíklegt að þau skipti verði brattari en áður hefur verið fyrir séð.

Sumir hinna áður skilgreindu "augljósu valkosta" til forystu í flokknum eru a.m.k. ekki jafn augljósir og þeir hafa verið.

föstudagur, 14. nóvember 2008

Evrópubærinn Akranes

Söguleg ályktun stjórnar fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins á Akranesi um aðildarviðræður við Evrópusambandið og afsagnir stjórnenda Seðlabanka og Fjármálaeftirlits hefur ágætis samhljóm við ályktun félagsfundar framsóknarfélags Akranes frá því fyrr í mánuðinum.

Engin þarf að velkjast í vafa um afstöðu Samfylkingarinnar á Akranesi, þ.a. ljóslega liggur fyrir stóraukinn pólitískur meirihluti á Akranesi fyrir aðild að ESB.

Það liggur því beinast við að Akranes taki að sér hlutverk tilraunabæjarfélags og gangi hreinlega í ESB til reynslu. Ef það gefst vel má bæta fleiri sveitarfélögum við, t.d. í öfugum klukkugangi hringinn í kringum landið.

Það er spurning hvort ekki sé líka rétt að flagga Evrópufánanum á bæjarstjórnarfundum héðan í frá?

Bræðrabyltur Framsóknar og aðild að ESB

Afsögn þingmanns Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi var fyrir marga hluti söguleg. Á yfirborðinu var þetta afleiðing þess að þingmaðurinn fór offari í persónuárásum á félaga sinn í þingflokknum og varaformann flokksins. Undir yfirborðinu virðist hins vegar krauma að í aðdraganda miðstjórnarfundar flokksins, sem verður nú næstkomandi laugardag á hótel Loftleiðum, og á fundinum sjálfum, ætli Evrópuandstæðingar innan flokksins að láta sverfa til stáls.

Bréfið sem þingmaðurinn vildi leka nafnlaust til fjölmiðla inniber miklar ásakanir á hendur varaformanni flokksins fyrir þau verk sem unnin voru í hennar ráðherratíð. Því miður segir mér svo hugur að það bréf hafi tæpast verið skrifað að undirlagi þeirra sem undir það skrifa – að hér sé á ferðinni annað og meira. Basl Bjarna hafi verið leikur peðs í stærra tafli.

Afstaða Framsóknarflokksins til aðildar að Evrópusambandinu hefur ætíð verið tvíklofin. Evrópusinnar innan flokksins hafa hins vegar ætíð verið tillitsamir gagnvart hinum smáa, en harða, kjarna andstæðinga aðildarumsóknar. Sú tillitsemi hefur komið fram í því að á flokksþingum hefur aldrei verið látið sverfa til stáls í málinu, en menn samþykkt moðsoðnar málamiðlanir sem átt hafa að brúa bil beggja, en ekki tekist.

Kaflaskil urðu á miðstjórnarfundi flokksins sl. vor þegar samþykkt var að leggja til tvöfalda bítið – tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, fyrst um hvort sækja ætti um, og ef það væri samþykkt, seinni þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu samningaviðræðna.

Langt í frá fullkomin lausn, en henni var fyrst og fremst ætlað að koma umræðunni um aðild upp úr þeim hjólförum stjórnmálanna sem hún hafði spólað í meira en áratug. Með einhverjum hætti þyrfti málið að komast á dagskrá – af eða á.

Vandi andstæðinga aðildarumsóknar er hins vegar sá að þeir vilja ekki umræðuna. Ekki er hægt að skilja þá öðruvísi en svo að allar aðgerðir sem hugsanlega gætu leitt til þess að Ísland myndi sækja um aðild að Evrópusambandinu séu stórhættulegar. Þjóðin má ekki fá að komast að hvaða aðildarkosti ESB mun bjóða því henni gæti vel líkað og samþykkt aðild!

Heiftin í andstæðingum aðildarumsóknar hefur verið vel endurspegluð af skrifum fyrrum þingmanns Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, nægir þar að lesa hinar mýmörgu bloggfærslur hans þar um og ófáar blaðagreinar. Það virðist jafnframt vera mörgum Evrópuandstæðingnum um megn að færa rök fyrir máli sínu án brigsla um landráð og undirlægjuhátt gagnvart skriffinnum í Brussel.

Í Framsóknarflokknum er greinilega vaxandi stemning fyrir því að gera út um málið á einn eða annan hátt. Á kjördæmisþingum flokksins undanfarið hefur það verið vel-merkjanlegt að fylgjendum aðildarumsóknar hefur fjölgað til muna. Ennfremur er þeim orðið það ljóst að ekki verður dregið lengur að Framsóknarflokkurinn taki efnislega afstöðu til málsins.

Það er í þessu ljósi sem hugsanlega þarf að skoða tilraun þingmannsins fyrrverandi til að vega að varaformanni flokksins úr launsátri. Eins og áður segir læðist því miður að sá grunur að hér sé á ferðinni annað og meira en persónuværingar og framundan sé mikill átakafundur í miðstjórn þar sem hvergi verði undan dregið í því að vega mann og annan. Vonandi ber mönnum hins vegar gæfa, í líklegu uppgjöri um framtíðarstefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum, til að halda umræðunni á efnislegum nótum.

þriðjudagur, 11. nóvember 2008

Þriðja leiðin

Ef lánið frá IMF er ekki að gera sig...

...og aðild að ESB er ekki í spilunum...

...þá er möguleg þriðja leið!

Bjarni maður að meiri

Bjarni Harðarson hefur sagt af sér þingmennsku í kjölfar tölvupóstsendingar sinnar í gærkvöldi.

Fyrir það er hann maður að meiri og á fullt hrós skilið fyrir að axla ábyrgð.

Mættu margir að þessu leyti taka Bjarna Harðarson sér til fyrirmyndar.

Af klaufum og óróamönnum

Hann [Bjarni Harðarson]segir marga slíka óróamenn hafa komið inn í flokkinn á allra síðustu árum. „Stundum læt ég mér detta í hug hvort þeir séu að gera þetta vísvitandi til að gera flokknum tjón og ef það er svo þá tel ég að þeim hafi orðið alveg ótrúlega ágengt."

Af heilagri vandlætingu hefur maðurinn, sem fyrir misskilning er þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, dæmt mann og annan í Framsóknarflokknum fyrir ýmsar sakir. Hann hefur brigslað mönnum um að vinna flokknum tjón og stunda undirróðursstarfsemi. Kemur nú á daginn, sem flesta hefur löngum grunað og margir verið nokkuð vissir um, að þar fer hann sjálfur fremstur í flokki óróa- og undirróðursmanna. Og hann er klaufi!

Illt umtal Bjarna í heyranda og hálfu hljóði hefur borist víða. Hann hefur ekkert dregið undan í opinberri umræðu og sýnt þannig oflátungshátt, opinberað vænissýki og hótað borgarastyrjöldum. Við sem dirfst höfum að hafa aðrar skoðanir innan Framsóknarflokksins höfum fengið yfir okkur ásakanir og upphrópanir. Mann rennir nú jafnframt í grun að ófáar nafnlausar athugasemdir á bloggfærslum hafi runnið undan ræpu þingmannsins.

Tölvupóstplott Bjarna Harðarsonar frá því í gærkvöldi hefur opinberað að hér fer annað hvort fláráður og falskur farísei í Framsóknarflokknum, eða klaufi.

Hvort heldur sem er, þá er honum er ekki sætt. Undir hans eigin mælistiku er honum nauðugur sá einn kostur að biðja afsökunar og draga sig í hlé. Kappið er svo miklu meira en forsjáin og heiftin hefur fyrir löngu borið skynsemina ofurliði.

Honum er tryggari staðurinn bakvið búðarborðið en ræðupúlt Alþingis.

Að eigin sögn er Bjarni Harðarson framsóknarmaður af gamla skólanum. Þá vitum við hvaða skóli það er – og af þeim skóla hafa allir fengið nóg.

Það er jafnframt umhugsunarefni þegar vinnubrögð sem þessi eru afhjúpuð hvort ekki skýrist margt sem aflaga hefur farið í starfi Framsóknarflokksins á undanförnum árum.

Bjarni er ekki eyland!

Nú er nóg komið og uppgjörs þörf. Miðstjórnarfundur hefst klukkan 10 á laugardagsmorguninn 15. nóvember næstkomandi.

föstudagur, 7. nóvember 2008

Hvað er í gangi með IMF-lánið?

Á bls. 15 í Morgunblaðinu í dag, neðst í vinstra horni, er eftirfarandi frétt undir yfirskriftinni "Ísland fái lánið":

BRETAR styðja að Ísland fái lán
frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum,
samkvæmt heimildum úr breska
fjármálaráðuneytinu. Fullyrðir
heimildamaður að Bretar hafi
ekki reynt að koma í veg fyrir að
Ísland fái lánið, né aðrar þjóðir.
Bretar styðji lánveitinguna, enda
sé þess ekki að vænta að úr neinum
málum leysist, fáist lánið ekki.


Það var og!

Gærdagurinn hófst á martraðar þjóðhagsspá Seðlabankans, en skömmu síðar var allt orðið logandi út af þeirri ósvinnu að hugsanlega gæti ICESAVE-deila haft áhrif á niðurstöðu IMF.

Samskipti við IMF voru komin í hnút!

"Við látum ekki kúga okkur" var haft eftir forsætisráðherranum, og sagðist hann frekar hætta við lánið hjá IMF en að láta það gerast.

Eitthvað hékk greinilega á spýtunni, því á hádegi var tilkynnt að afgreiðslu lánsins hjá IMF væri frestað fram yfir helgi. Sannarlega dramatískt, enda um líf og dauða íslensks efnahagslífs að tefla.

Nema svo kom þessi frétt um að það væri bið eftir viðbótarfjármögnun sem tefði afgreiðsluna hjá IMF. Ekki s.s. krafa breta og hollendinga um að lánið hjá IMF væri skilyrt.

Síðan kom þessi frétt, eða viðtal við Ólaf Ísleifsson, um að óliklegt væri bretar og hollendingar gætu stöðvað lánið innan IMF jafnvel þó þeir vildu.

Skv. forsíðu Fréttablaðsins í morgun er hins vegar komin upp pattstaða í málinu. Sú pattstaða er ekki vegna breta og hollendinga, heldur vegna þess að annað hvort er IMF að bíða eftir viðbótalánum, eða viðbótarlánveitendur eru að bíða eftir IMF!

Væri einhver til í að útskýra hvað er í gangi? Þessa atburðarrás er auðveldlega hægt að útskýra sem einhvers af eftirfarandi: smjörklípu, klúðurs eða móðursýki! Vonandi er raunveruleikinn annar.

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Óreiðumenn ekki mitt vandamál!

Ég er að huxa um að draga línu kringum húsið mitt. Eins konar landamæri. Í framhaldinu mun ég hætta að greiða nokkurn skapaðan hlut tengdan mínum lánum og sköttum sem rekja má til umsýslu óreiðumanna.

Þannig mun ég hér eftir neita að greiða vísitöluhækkun á verðtryggðum lánum og ég mun heldur ekki greiða gengistryggðu lánin á annarri vísitölu og öðru gengi en var í september 2003, löngu áður en óreiðumenn hleyptu öllu hér í bál og brand og keyrðu upp bæði gengi og verðbólgu í hæstu hæðir, án þess að innistæða væri fyrir hendi.

Ég á fulla von á að stjórnvöld sýni þessari ákvörðun minni fullan stuðning og skilning, enda í fullu samræmi við yfirlýsingu formanns bankaráðs Seðlabankans í frægu Kastljósviðtali hér á dögunum.

Að sjálfsögðu ætlast ég hins vegar til að öll þjónusta sem ég hef hingað til notið af hálfu bæði ríkis og sveitarfélaga standi mér til boða með óbreyttum hætti og á sambærilegum kjörum og hingað til.

Menn verða einfaldlega að fella sig við þá staðreynd að ég láti mig og mína ganga fyrir og ákveði þetta allt einhliða og án samráðs! Hvað ég kann að hafa skrifað undir og samþykkt hér fyrr á árum á ekki lengur við.

Ég mun ekki láta kúga mig!

mánudagur, 3. nóvember 2008

Ályktun Framsóknarfélags Akranes

Eftirfarandi ályktun var samþykkt samhljóða á almennum félagsfundi Framsóknarfélags Akranes í kvöld:

Framsóknarfélag Akranes ályktar:

Framsóknarfélag Akranes lýsir miklum áhyggjum að stórauknu atvinnuleysi, aukinni verðbólgu, falli krónunnar og hruni fjármálakerfisins. Framsóknarfélag Akranes leggur áherslu á mikilvægi öflugs atvinnulífs, nýsköpunar og þróunar. Framsóknarfélag Akranes hvetur stjórnvöld til þess að beita öllum tiltækum úrræðum til að koma í veg fyrir yfirvofandi gjaldþrot heimila og fyrirtækja.

Bregðast þarf við hækkunum vísitölu- og gengistryggðra lána með frystingum, lánalengingum og hlutaafskriftum. Forsendubrestur hefur í reynd orðið hjá velflestum landsmönnum í tengslum við þær fjárskuldbindingar sem gerðar hafa verið á undanförnum mánuðum og árum. Marka verður meginlínur þ.a. jafnræðisregla verði virt gagnvart öllum skuldugum einstaklingum. Það getur ekki verið þjóðhagslega hagkvæmt að neyða þorra landsmanna í þrot, heldur þvert á móti.

Búast má við að hækka þurfi skatta á einstaklinga og fyrirtæki vegna efnahagsástandsins. Framsóknarfélag Akranes hvetur stjórnvöld til að hækka samhliða persónuafslátt þ.a. sú aðgerð verði að mestu án áhrifa á þá sem þiggja lægstu launin.

Samhliða verði stimpilgjald afnumið af öllum lánum til að auðvelda skuldbreytingar og almenna greiðsluaðlögun fyrirtækja og einstaklinga.

Framsóknarfélag Akranes telur nauðsynlegt í ljósi atburða undangengis mánaðar að boðað verði til kosninga svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en í mars 2009.

Framsóknarfélag Akranes hvetur Alþingi til þess að afgreiða fyrir kosningar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins með þeim hætti að annars vegar verði þar skilgreind sameign þjóðarinnar á auðlindum sjávar og hins vegar heimildir til takmarkaðs framsals ríkisvalds til alþjóðastofnanna að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Framsóknarfélag Akranes hvetur jafnframt til þess að samhliða kosningum verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu, ef þá þegar hefur ekki verið sótt um aðild .

Framsóknarfélag Akranes telur óumflýjanlegt að helstu leiðtogar stjórnmálanna sem og megin ríkisstofnanna efnahagsmálanna axli ábyrgð og segi af sér. Þ.á m. forsætis-, fjármála- og viðskiptaráðherra, bankastjórar Seðlabankans og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Framsóknarfélag Akranes lýsir sérstökum áhyggjum yfir stöðu Framsóknarflokksins. Endurnýjun flokksforystunnar er óumflýjanleg og hvetur Framsóknarfélag Akranes miðstjórn flokksins til þess að bregðast við með óyggjandi hætti hafi forysta flokksins ekki sjálf frumkvæði að breytingum.

Framsóknarfélag Akranes
3. nóvember 2008

sunnudagur, 2. nóvember 2008

ESB-aðild: Um hvað þarf að semja?

Í ljósi þeirrar stigmögnunar Evrópuumræðunnar sem orðin er á Íslandi er ekki úr vegi að kynna sér hvað aðildarviðræður fælu í sér. Þ.e. um hvað væri verið að semja.

Í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis frá því í janúar sl. um Ísland á innri markaði Evrópu er í viðauka I. yfirlit yfir þá þætti sem stækkunarviðræður ESB við umsóknarríki taka til. Ennfremur er í viðaukanum tekið saman hvað af þessum þáttum EES-samningurinn og Schengen samstarfið ná til nú þegar, sjá hér fyrir neðan:

1. Free movement of goods - Frjálst vöruflæði - EES-samningurinn
2. Freedom of movement of workers - Frjáls för vinnuafls - EES-samningurinn
3. Right of establishment and freedom to provide services - Staðfesturéttur og þjónustufrelsi - EES-samningurinn
4. Free movement of capital - Frjáls för fjármagns - EES-samningurinn
5. Public procurement - Opinber útboð - EES-samningurinn
6. Company law - Félagaréttur - EES-samningurinn
7. Intellectual property law - Hugverkaréttur - EES-samningurinn
8. Competition policy - Samkeppnismál - EES-samningurinn
9. Financial services - Fjármálaþjónusta - EES-samningurinn
10. Information society and media - Upplýsingatækni og fjölmiðlun - EES-samningurinn
11. Agriculture and rural development - Landbúnaðar- og byggðastefna
12. Food safety, veterinary and phytosanitary policy - Matvæla- og hreinlætismál - EES-samningurinn
13. Fisheries - Fiskveiðar
14. Transport policy - Samgöngur -EES-samningurinn
15. Energy - Orka - EES-samningurinn
16. Taxation - Skattamál
17. Economic and monetary policy - Gjaldmiðilssamstarf
18. Statistics - Hagtölur - EES-samningurinn
19. Social policy and employment (incl. anti-discrimination and equal opportunities for women and men) - Félagsmála- og atvinnustefna - EES-samningurinn
20. Enterprise and industrial policy - Iðnstefna - EES-samningurinn
21. Trans-European networks - Evrópskt samgöngunet - EES-samningurinn
22. Regional policy and co- ordination of structural instruments - Uppbyggingarstyrkir - Afmörkuð framlög í gegnum Þróunarsjóð EFTA
23. Judiciary and fundamental rights - Réttarvarsla og grundvallarréttindi
24. Justice, freedom and security - Dóms- og innanríkismál - Schengen-samningurinn
25. Science and research - Vísindi og rannsóknir - EES-samningurinn
26. Education and culture - Menntun og menning - EES-samningurinn
27. Environment - Umhverfismál - EES-samningurinn
28. Consumer and health protection - Neytenda- og heilsuvernd - EES-samningurinn
29. Customs union - Tollabandalag
30. External relations - Utanríkistengsl
31. Foreign, security and defence policy - Utanríkis-, öryggis- og varnarmál - Tvíhliða samstarf
32. Financial control - Fjárhagslegt eftirlit
33. Financial and budgetary provisions - Framlagsmál - Takmörkuð framlög eru á grunni EES- og Schengen- samninga
34. Institutions - Stofnanir
35. Other issues - Annað - Þessi kafli fjallar ekki um eiginlegt regluverk ESB heldur sérstöðu nýrra ríkja sem ekki tengjast aðild að ESB beinlínis en hún getur þó haft áhrif á. Dæmi eru málefni Álandseyja, norrænt samstarf og opin stjórnsýsla í tilviki Finnlands.

Af 35 liðum eru 22 liðir hluti af EES-samningnum eða Schengen samstarfinu. Fjórir liðir til viðbótar eru síðan að einhverju leyti, mismikið þó, tengdir EES-samningnum, en það eru liður 22, uppbyggingarstyrkirnir, þar sem Ísland leggur til; liður 31, Samstarf á sviði utanríkis-, öryggis- og varnarmála og Ísland tengist með ýmsum hætti; liður 33, framlagsmál, en Ísland hefur takmarkaða framlagsskyldu til ESB vegna bæði EES og Schengen samstarfsins.

Út af stendur eftirfarandi:

11. Landbúnaðar- og byggðastefna,
13. Fiskveiðar,
16. Skattamál,
17. Efnahags- og myntsamstarf,
23. Réttarvarsla og grundvallarréttindi,
29. Tollabandalag,
30. Utanríkistengsl, þ.m.t. samningar við þriðjuríki,
32. Fjárhagslegt eftirlit,
34. Stofnanir, og
35. Önnur mál, sem eru sértæk mál hvers umsóknarríkis.

Undir einhverjum af þessum liðum eru hins vegar bæði ESB og Ísland þegar undir áhrifum af alþjóðlegu samstarfi á öðrum vettvangi, t.d á vettvangi OECD, Evrópuráðsins, Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, Atlantshafsbandalagsins og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þannig blasir við að í ljósi samningasögu nýrra aðildarríkja er í engum af þessum viðbótarliðum umfram EES-samninginn atriði sem gera má ráð fyrir að erfitt verði að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir Ísland í aðildarviðræðum. Hin augljósa undantekning er liðurinn um fiskveiðar, sem fæli í sér aðkomu Íslands að sameiginlegri fiskveiðistefnu sambandsins.

Það er hin þekkta stærð. Á Íslandi er engin tilbúin til þess að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistefnuna að óbreyttu. Markmið hennar getur Ísland hins vegar stutt. Ísland einfaldlega býr við þann kost í sjávarútvegsmálum að vera fyrir löngu búin að ná og uppfylla markmiðum stefnunnar um t.d. sjálfbærni og verndun stofna. Það sem meira er, ESB, þ.e. stjórnmálaleiðtogar helstu aðildarríkja og æðstu embættismenn þekkja og viðurkenna þessa staðreynd. ESB hefur ekki hagsmuni af því að stefna íslenskum sjávarútvegi í tvísýnu eða spila pólitískan leik með eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Engin fordæmi eru fyrir því að sambandið geri slíkt í aðildarviðræðum.
Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins ætti því ekki að vera þröskuldur fyrir aðild Íslands. Um það þarf þó að semja og framtíðar samningamenn og –konur Íslands í væntanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið munu að sjálfsögðu hafa hagsmuni Íslands í þessum efnum að leiðarljósi.

laugardagur, 1. nóvember 2008

Öngstræti ESB-andstæðinga

Hjörleifur Guttormsson fer mikinn í Fréttablaðinu í morgun. Hann, eins og aðrir ESB-andstæðingar, verður æ örvæntingarfyllri nú þegar þjóðin færist nær því að vilja aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Það ber vitni um slakan málstað og lítil rök að ESB-andstæðingar þurfa ætíð að grípa til gífuryrða í sínum málflutningi. Strax í fyrirsögn markar Hjörleifur umræðuna með titlinum “Evróputrúboðið”. Sem sagt sú skoðun að telja að það sé sjálfsagt að sækja um aðild að ESB er þannig ekki lögmæt skoðun, heldur “trú” – og þá að sjálfsögðu villutrú.

Bábilja, fáránleiki, brjálæði og ósiðlegt. Svona eru nú rökin hjá Hjörleifi. Og svo auðvitað hið klassíska “Heilvita menn ættu að sjá að við núverandi aðstæður og dýpkandi alþjóðlega kreppu framundan væri hreint glapræði að fara að bindast Evrópusambandinu í meira mæli en orðið er.” Ergo, þið sem eruð á annarri skoðun eruð augljóslega hálfvitar!

Þetta fínn grunnur til að byggja rökræður eða hvað?

Hjörleifur tiltekur í greininni þrjú atriði sem mæla gegn ESB aðild. Hann segir þau vera fleiri, en fyrst hann nefnir þessi sérstaklega þá hljóta þau að vera efst á áhyggjulistanum. Þau eru eftirfarandi: “fullveldi, forræði yfir náttúruauðlindum og stöðu Íslands meðal þjóða”

Tökum þau fyrir eitt af öðru. Fyrst fullveldið. Lágmarkskrafa til manna eins og Hjörleifs ætti að vera að þeir skilgreini hvað þeir eiga eiginlega við með fullveldi. Vissulega felst í ESB aðild ákveðið framsal á fullveldi, en önnur áhrif koma í staðin og hið yfirþjóðlega vald er temprað. Nauðsynlegt er líka að gera sér grein fyrir að hið klassíska fullveldi er þegar orðið takmarkað hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Hún er líka jákvæð þar sem hún er jafngild á milli aðila. Enda er það svo að færa má rök fyrir því að þvert á röksemdir ESB-andstæðinga muni fullveldi Íslands frekar aukast við aðild m.v. núverandi aðstæður.

Forræði yfir náttúruauðlindum er, merkilegt nokk, málið sem ESB-sinnar og ESB andstæðingar eru sammála um. Það er engin sem mælir því bót að afhenda fullt forræði yfir fiskimiðunum til ESB. Athyglisvert er líka að ESB, þ.e.a.s. pólitískir leiðtogar aðildarríkjanna og æðstu embættismenn, þekkir, skilur og samsinnir þessari afstöðu. ESB hefði enga ástæðu til að lýsa yfir vilja til samninga við Ísland um aðild ef það lægi ekki fyrir vilji til að finna lausn á auðlindaforræðinu þannig að Ísland og íslendingar gætu verið sáttir.

Þriðja og síðasta hjá Hjörleifi var svo staða Íslands meðal þjóða. Ætli hún verði ekki bara betri? Ísland standi eftir þá aðild sem alvöru meðleikandi í liði þeirra ríkja sem fremst standa á sviði mannréttinda, lýðræðis, umhverfisverndar, félagslegs réttlætis, réttarbóta, efnahagslegra framfara og svo mætti lengi telja.

Hjörleifur bætir því svo við að það væri þar fyrir utan hreint glapræði að binda trúss sitt við ESB á þessum krepputímum þar sem að nú reyni á og þetta sé allt að fara í uppnám. Við skulum nú vona ekki, og hingað til virðist samstaðan innan ESB, þó að sjálfsögðu reyni oft á, frekar virðast vera skila mönnum heilli heim. A.m.k. hefur ekkert ESB-ríki enn þurft að deila örlögum Íslands í þessari fjármálakreppu.

Það verður því að segjast að þessi rök Hjörleifs halda litlu vatni. Mér dettur hins vegar ekki í hug að kalla rök hans fáránlegar, brjálaðar og ósiðlegar bábiljur!

Af hverju fóru þeir ekki?

Það voru mistök að fara ekki með bankann úr landi er haft eftir Kaupþingsmönnum í Morgunblaðinu í dag. Það hafði legið í loftinu lengi að sá kostur var í stöðunni hjá a.m.k. Kaupþingi og Glitni.

Fram hefur komið margoft á undanförnum árum gagnrýni af hálfu bankamanna, bæði á peninga- og evrópustefnu stjórnvalda. Ennfremur höfðu þeir gagnrýnt þrönga túlkun laga um skráningu og uppgjör í erlendum gjaldmiðlum.

En hvað hélt þá í bankana? Af hverju fóru þeir ekki úr landi?

Var þrátt fyrir allt eitthvað í íslensku umhverfi sem gerði það að verkum að bankarnir reyndu að hanga með móðurfélögin á Íslandi sem lengst?

Gjarnan vill maður trúa því að það hafi verið annars vegar út af tryggð við eldgömlu Ísafold og hins vegar vegna þess að rekstrarumhverfi væri hér hagfellt, t.d. skattalega og vegna mannauðs.

Í ljósi þess sem hefur verið að koma fram um útþennsluaðferðafræði bankanna á síðustu vikum rennir mann hins vegar í grun að stór liður í þeirri ákvörðun að hanga á íslensku horrimini sem lengst hafi verið slakt eftirlitsumhverfi.

Að bankarnir hafi vitað að ef þeir flyttu úr landi yrðu þeir undir mun strangara eftirliti og í þrengra rými til athafna en hér. Að erlendis yrði þeim frekar settur stóllinn fyrir dyrnar en hér heima.

Bankarnir fengu aðvörun vorið 2006. Fulltrúar þeirra segjast hafa brugðist við henni m.a. með því að draga úr krosseignatengslum og auka fjölbreytni í fjármögnun, t.a.m. með auknum innlánum. Þannig urðu til bæði Icesave og Edge.

Það sem breyttist hins vegar ekki, sem hefði eftir á að hyggja verið meiri þörf á, var grundvallar viðskiptamódel þeirra. Áfram var hart keyrt í skuldsettum yfirtökum og agressívrí lánastarfsemi til fyrirtækja þar sem meiri fókus var á ebídtur en eigið fé.

Vissulega er auðvelt að vera vitur eftir á, en það er líka hluti af því að læra af reynslunni. Hefði þannig ekki verið nær eftir viðvörunina 2006 að hægja aðeins á, að einbeita sér að uppbyggingu eiginfjár, bæði bankanna og þeirra helstu íslensku viðskiptavina, draga á meðan úr arðgreiðslum og bónusum og þannig byggja betri grunn til framtíðar.

En, aftur að upphaflegu spurningunni, af hverju fóru þeir ekki? Var það þjóðrækni, eða var það vegna þess að frelsið til athafna var meira en annarsstaðar?

Sem leiðir af sér aðra spurningu, var vandinn ekki afleiðing af fjórfrelsinu og EES, heldur frekar af því að menn nýttu ekki þau tól til eftirlits og afmörkunar sem fylgi með í þeim pakka? Sterkara samkeppniseftirlit, sterkara fjármálaeftirlit, og sterkari Seðlabanki?

Það er ekki nóg að setja reglurnar, það verður líka að fara eftir þeim og gefa þeim sem eiga að sinna því eftirliti þau tól og þau aðföng sem til þarf.

Kannski svör við þessu muni fást í Hvítbókinni.

föstudagur, 31. október 2008

Bankaráð vs. Ríkisstjórn

Karpið um frá hverjum frumkvæðið að hækkun stýrivaxta er komið er ekki sérlega hjálplegt. Sérstaklega þar sem gera má ráð fyrir að allir hafi að einhverju marki rétt fyrir sér.

Fyrir liggur að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur nú til umfjöllunar aðstoðarbeiðni Ríkisstjórnar Íslands. Hún er sett fram m.a. með svokölluðu “Letter of intent” sem samkvæmt venju er yfirleitt undirritað af oddvita ríkisstjórnar, í okkar tilviki forsætisráðherra, og seðlabankastjóra seðlabanka viðkomandi ríkis. Í “Letter of intent” felst aðgerðaráætlun stjórnvalda, sem, í ljósi uppljóstrunar Seðlabankans í gær, við vitum nú að er í a.m.k. 19 liðum.

Aðgerðaáætlun eins og sú sem þar er sett fram verður að jafnaði til í samræðum milli fulltrúa stjórnvalda viðkomandi ríkis og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í tilfelli eins og Íslands, þar sem um er að ræða vestrænt lýðræðisríki með opið markaðshagkerfi, og hvers vandræði stafa af markaðshruni, en er ekki bein afleiðing stjórnvaldsástands (ríkisútgjöld og -skuldir úr öllum böndum, stjórnarkreppa o.þ.h.) er ekki um hefðbundnar samningaviðræður að ræða. Þaðan af síður er um það að ræða að sjóðurinn stilli Íslandi upp við vegg og setji úrslitakosti.

Undanfarnar vikur hafa fulltrúar sjóðsins verið hér á landi. Þeir hafa fundað með fulltrúum stjórnvalda og seðlabanka. Á þeim fundum hafa án efa komið fram ráðleggingar um stefnumörkun, m.a. með tilliti til hvað sé líklegast til þess að fá jákvæða afgreiðslu stjórnar sjóðsins. Niðurstaðan er síðan endurspegluð í aðgerðaráætluninni, eða “letter of intent”. Íslensk stjórnvöld ráða þannig sjálf hvað er á endanum í því skjali, en augljóslega mun það endurspegla það sem ráðgjafar sjóðsins hafa gefið til kynna að verði vænlegast til árangurs. Annars vegar í því verkefni sem hér er að vinna við endurreisn hagkerfisins, og hins vegar til að skapa aðgerðaráætluninni þann trúverðugleika til að hljóta náð fyrir augum stjórnar alþjóðagjaldeyrissjóðsins og, þar í framhaldi, í augum þeirra ríkja sem munu koma Íslandi til aðstoðar með frekara fjármagn.

Er ákvörðunin um stýrivaxtahækkun þannig krafa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Nei, en samt!

Þörfin á stýrivaxtahækkun og uppstilling hennar sem hluta að aðgerðaráætluninni var líkast til sameiginleg niðurstaða viðræðna fulltrúa ríkisstjórnar, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Seðlabankans. Hver á endanum var í ökumannssætinu er þannig hálf tilgangslaus þræta.

Ákvörðun Seðlabankans að birta með þeim hætti sem gert var í gær sérstaka yfirlýsingu um þennan þátt aðgerðaráætlunarinnar er hins vegar óneitanlega sérkennileg. Ég efast um að yfirmenn í öðrum ríkisstofnunum myndu komast upp með að koma fram með viðlíka hætti án ákúru, líkast til formlegrar áminningar og jafnvel brottreksturs. Trúnaðarbresturinn milli Ríkistjórnar Íslands og bankaráðs Seðlabankans virðist alger og vandséð annað en að önnur hvor hljóti að víkja.

fimmtudagur, 30. október 2008

Hvað með 1 til 18?

Yfirlýsing Seðlabankans þar sem ljóstrað er upp um efni 19. töluliðar samkomulags Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar er að sjálfsögðu athyglisverð.

Þá aðallega fyrir það að með henni er sagt frá því að aðgerðaáætlunin er a.m.k. í 19 liðum, ef ekki fleiri.

Hvað er í liðum 1 til 18?

Hvað eru margir liðir eftir 19-lið, og hvað er í þeim?

Það fýsir mig að vita.

Karpið um stýrivaxtahækkunina er tiltölulega ómerkilegt. Hún var fyrirséð. Hins vegar má velta fyrir sér hvaða fíflagangur það var að lækka stýrivextina í 12% þegar þá og þegar aðstoð frá IMF var fyrirsjáanleg. Var það partur af einhverri valdabaráttu og togstreitu?

Pólitísk væluskjóða

Óróamaðurinn Bjarni Harðarson, sem fyrir misskilning er þingmaður Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, vann við upphaf þingsetu sína drengskaparheit að stjórnarskrá lýðveldisins, eins og mælt er fyrir 47. grein Stjórnarskrárinnar.

Nú veður hann hins vegar uppi í fjölmiðlum og úthrópar Greiningardeild Glitnis fyrir það að birta greiningarálit sem er í andstöðu við sýndarveruleika þingmannsins. Bregst hann þá við á þann hátt að vilja skerða stjórnarskrárvarinn rétt greiningardeildarinnar og starfsmanna hennar til skoðanafrelsis, sjá 73. grein Stjórnarskrárinnar, og starfskröfum þeirra samkvæmt starfslýsingu, sem er að birta greiningar um ástand og horfur í íslenskum efnahagsmálum.

Það er merkilegt hvað jafn skoðanafjölskrúðugum manni og Bjarna Harðarsyni, sem er væntanlega sá þingmaður sem hefur veitt íslensku krónunni hvað flestar rýtingsstungur bæði í bak og kvið, er uppsigað við alla þá sem dirfast að vera á annarri skoðun en hann sjálfur.

Sérstaklega ef viðkomandi er á annarri skoðun en hann um Evrópumál. Dirfist einhver að mæla gegn honum er vælt í vandlætingartón. Þá skulu menn kallaðir undirróðursmenn, lygarar og þaðan af verra. Fjölmiðlar sem dirfast að flytja af því fréttir að til sé fólk sem sé annarrar skoðunnar er þingmaðurinn, dæmir hann ómarktæka. Sérstaklega eru þeir bersyndugir ef þeir dirfast að flytja af því fréttir að það séu mun fleiri innan hans eigin flokks sem eru honum ósammála en sammála.

Greiningardeild Glitnis, jafnvel þó Glitnir sé orðinn ríkisbanki, er í engu skyldug til að sýna Bjarna Harðarsyni og yfirgripsmikilli vanþekkingu hans á Evrópumálum einhverja sérstaka tillitsemi. Henni er fullfrjálst að birta hverja þá greiningu sem henni sýnist innan síns starfsramma. Vangaveltur eins og þær sem greiningardeildin birti í gær um hvort kreppan muni leiða Ísland inn í ESB eru fullkomlega eðlilegar.

Bjarna Harðarsyni væri nær að einbeita sér að því að koma með uppbyggilegar tillögur um hvernig bregðast má við því kreppuástandi sem hér ríkir í stað þess að úthrópa þá sem það þó gera. En það virðist honum vera fyrirmunað. Móðursýkis- og geðvonskulegar áhyggjur af auknum áhuga landsmanna á aðild að Evrópusambandinu virðast valda því.

Manninum sem líkt hefur sambandi mestu lýðræðis- og mannréttindaþjóða veraldar við Sovét Stalíns og Þýskaland Hitlers dettur ekkert annað í hug en að vilja svipta þá sem honum eru ósammála tjáningarfrelsinu. Á kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi reyndi hann t.d. að trana fram nýrri útgáfu fyrsta boðorðsins, einskonar “Skoðanir formannsins eru skoðanir flokksins, þú skalt ekki aðrar skoðanir hafa!” Var það að sjálfsögðu fellt. Meira að segja formaðurinn fór hjá sér og baðst undan.

Í fyrri pistli lýkti ég Bjarna Harðarsyni við Kristinn H. Gunnarsson. Það var ósanngjarnt gagnvart Kristni.

Bjarni Harðarson er einstakt fyrirbæri í íslenskum stjórnmálum.

Nú er hann í þokkabót orðinn hornreka í eigin flokki. Búin að lýsa andstöðu við umræður um Evrópumál, vill úrsögn úr EES og úrsögn úr NATO.

Allt er þetta í þverri andstöðu við stefnu Framsóknarflokksins í utanríkismálum.

Er ekki allt þegar þrennt er? Er honum sætt?

Það er ótrúlegt að maður sem að eigin sögn starfaði í aldarfjórðung við blaðamennsku skuli vera jafn uppsigað við tjáningarfrelsið.

mánudagur, 27. október 2008

Guðni á að víkja

Niðurstaða skoðanakönnunar Fréttablaðsins sem birt var í gær er alvarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn. Í engu virðist flokknum hafa tekist að finna vopnin sín í þeim áföllum sem dunið hafa yfir þjóðina á undanförnum vikum.

Skoðanakannanir, jafn gallaðar og þær geta verið, gefa mikilvægar vísbendingar um þróun stjórnmálanna sem ekki er hægt að leiða hjá sér.

Skoðanakannanir síðastliðið eitt og hálft ár hafa ekki verið til þess fallnar að gefa von um að núverandi forysta Framsóknarflokksins geti leitt flokkinn úr þeim ógöngum sem hann er í.

Formaður flokksins hefur komið fram með þeim hætti að ljóst er að þar fer ekki maður framtíðarinnar í íslenskum stjórnmálum.

Formaður flokksins hefur jafnframt tapað trúverðugleika sem leiðtogi bæði innan flokks og utan. Þó flestum þykir vænt um Guðna Ágústsson er stutt bilið á milli væntumþykju og vorkunar.

Væntumþykja er auk þess lítt notadrjúgt veganesti fyrir leiðtoga stjórnmálaflokks.

Auk hörmulegra niðurstaðna í skoðanakönnunum er ljóst að formaður Framsóknarflokksins er ekki leiðandi um stefnumótun innan flokksins. Þvert á móti hefur formaðurinn orðið uppvís að því að vinna beinlínis gegn stefnu eigin flokks.

Það er ekki trúverðugt. Formanni án trúverðugleika er ekki sætt.

Guðni Ágústsson á að víkja til hliðar.

Miðstjórn flokksins mun funda þann 15. nóvember næstkomandi. Þar þarf að samþykkja boðun flokksþings eins fljótt og auðið er, helst fyrir jól, þ.a. hægt sé að velja flokknum nýja forystu til framtíðar.

þriðjudagur, 21. október 2008

Seðlabankinn undir skilanefnd?

Í ljósi forsíðufrétta bæði Morgunblaðsins og Fréttablaðsins í dag má leiða að því líkur að Seðlabanki Íslands sé að komast í þrot. Þar hafi ráðið ríkjum óreiðumenn í peningamálum.

Það hlýtur því að liggja beinast við að víkja núverandi stjórnendum bankans til hliðar og setja yfir hann skilanefnd.

mánudagur, 20. október 2008

Óróamenn í Framsóknarflokknum

Það er hárrétt sem kemur fram hjá Bjarna Harðarsyni, þingmanni Framsóknarflokksins í suðurkjördæmi, í Fréttablaðinu í morgun, að á síðustu árum hafa ýmsir óróamenn gengið í flokkinn og unnið honum tjón. Það versta er að sumir þessara manna hafa átt það til að enda inni á þingi fyrir hönd flokksins!

Á síðasta kjörtímabili var Kristinn H. Gunnarsson þessi óróamaður. Allir vita hvernig sú saga endaði. Á þessu kjörtímabili hefur hins vegar téður þingmaður, Bjarni Harðarson, tekið við hlutverki óróamannsins.

Evrópusambandsandstaða Bjarna er vel þekkt, en hefur sífellt meir nálgast móðursýkisstigið eftir því sem umræðan um mögulega aðildarumsókn hefur þyngst í þjóðfélaginu. Hún hefur nú gengið svo langt að þingmaðurinn hótar nú bæði stjórnmálalegri borgarastyrjöld, sbr. þessi bloggfærsla hans hér, og helst úrsögn úr EES-samstarfinu. Í þættinum Í kallfæri með Jóni Kristni Snæhólm á sjónvarpsstöðinni ÍNN í síðustu viku lýsti Bjarni því einmitt yfir að næsta verkefni væri að koma Íslandi úr EES-samningnum.

Það er gott til þess að vita að framsóknarmenn í suðurkjördæmi hafa lært ákveðna lexíu af reynslu framsóknarmanna í norðvesturkjördæmi. Á síðasta kjörtímabili fór nefnilega töluverður tími á kjördæmisþingum í norðvesturkjördæmi í það að "hafa kallinn góðann!"

Framsóknarmenn í suðurkjördæmi virðast hins vegar hafa lítinn áhuga á að dekstra óróamanninn Bjarna Harðarson. Því var tillögum hans til stjórnmálaályktunar kjördæmisþingsins hafnað. Ein endurspeglaði andstöðu hans við EES-samninginn - henni var hafnað. Önnur var gegn matvælareglugerð Evrópusambandsins, en upptaka hennar var undirbúin í landbúnaðarráðherratíð formanns flokksins - henni var hafnað. Og sú þriðja var sú sem vísað er til í frétt Fréttablaðsins "...að kjördæmisþingið tæki undir með orðum formannsins að umræða um Evrópumál væri ekki tímabær" - henni var líka hafnað, að frumkvæði formannsins!

Sú yfirlýsing formannsins féll í grýttan farveg meðal margra flokksmanna, þ.m.t. undirritaðs. Formaðurinn virðist hins vegar að einhverju leyti hafa séð að sér, ef dæma má þessa frétt á visir.is frá því sl. laugardag.

Stórt spurningamerki hlýtur nú að vera við pólitíska framtíð Bjarna Harðarsonar innan Framsóknarflokksins.