mánudagur, 29. september 2008

Glitnir: Nokkrar spurningar

Spurningar til að velta fyrir sér:

Markaðsvirðis Glitnis í síðustu viðskiptum m.v. verð hlutar á 14.40 var u.þ.b. 215 milljarðar - raunvirði bankans m.v. kaup ríkisins á 75% hlut með nýju hlutafé var einungis 28 milljarðar (75% keypt á 84 millj. Heildarvirði þ.a.l. 112 millj. Þ.a.l. 25% hluturinn (sem áður var 100%) ekki nema 28 milljarða virði skv. mati stjórnenda Glitnis. Hvernig skýra menn þetta?

Af hverju frekar yfirtaka með nýju hlutafé frekar en lánveiting til þrautavara? Treystu menn ekki endurgreiðslugetu bankans?

Hverjar eru skuldbindingar ríkisins vegna Glitnis umfram nýtt hlutafé? Hefur myndast bein/óbein ríkisábyrgð á rekstri bankans?

Hver eru áhrif yfirtökunnar á samkeppnisstöðu hinna bankanna? Stenst yfirtakan innlendar reglur/EES-reglur um samkeppnismál, markaðsaðstoð, ríkisábyrgð o.s.frv.?

Hver er staða núverandi yfirstjórnar bankans? Er ekki eðlilegt að henni verði allri skipt út?

Er það rétt/eðlileg ákvörðun að Lárus Welding haldi áfram sem bankastjóri?

Áhrif þessa á stöðu Stoða, stærsta einstaka hluthafa Glitnis? U.þ.b. 70 milljarða eignahlutur þeirra í Glitni skv. markaðsvirði sl föstudag er orðinn að 9 milljörðum? Eru ekki Stoðir þar með orðið tæknilega gjaldþrota fyrirtæki? Skv. fréttum hefur fyrirtækið þegar óskað eftir greiðlsustöðvun.

Ef það er rétt eins og fram kemur í fréttatilkynningu Glitnis að undirliggjandi rekstur sé traustur og eignasafnið gott, hvernig er hægt að skýra tæplega 90% eiginlegt verðfall á bankanum frá því fyrir helgi?

Ef ljóst var að í þetta stefndi strax um miðja síðustu viku, af hverju voru viðskipti ekki stöðvuð fyrr, eða Glitnir a.m.k. settur á athugunarlista? Hvað með þá sem keyptu hlutabréf í Glitni í góðri trú síðustu daga síðustu viku?

Hvað gerist með Save&Save reikninga Glitnis erlendis? Verður áhlaup?

Hvaðan koma peningarnir? 84 milljarðar eru ekki vasapeningar, a.m.k. ekki lengur. Símasalan gaf af sér 60 milljarða. Kannski er eitthvað notað af þeim peningum.

Hver verða áhrif þessa gjörnings á lánshæfismat ríkissjóðs?

Undirliggjandi vandi lausafjárþurrðar og gjaldeyrissþurrðar hefur í engu verið leystur með þessum aðgerðum. Hefur þessi aðgerð jafnvel frekar neikvæð áhrif í þá veru, eða hvað?

Eru þessir viðburðir nægjanlegir til þess að hægt sé að viðurkenna að hér sé krísa? Kreppa?

Sannarlega vona ég hins vegar að þessi aðgerð gangi upp hjá seðlabankanum og ríkisstjórninni.

miðvikudagur, 24. september 2008

Jólagjöfin í ár

Haustið 2006 áttu Jón og Gunna 4 milljónir í peningum. Ábyrg sem þau voru höfðu þau lagt hart að sér að safna sér fyrir útborgun í sinni fyrstu íbúð. Þeim stóð stuggur af 100% lánum og öðrum slíkum gylliboðum og ákváðu frekar að ástunda íhaldssama afstöðu til sparnaðar og íbúðakaupa.

Þannig fannst þeim rétt að eiga fyrir 20% af útborgun í íbúðinni eins og þeim hafði löngum lærst að væri skynsamast og heilladrýgst.

Með 4 milljónir í vasanum drifu þau sig í því að fjárfesta loks í íbúð, samtals fyrir krónur 20 milljónir. 16 milljónir voru teknar að láni. Að flytja saman inn í nýja íbúð var jólagjöfin þeirra það árið.

Þetta voru góð kaup. Hér var fjárfest til framtíðar með skynsamlegt eiginfjárhlutfall í eigninni sem fyrirsjáanlegt var að gæti vaxið eftir því sem borgað væri af láninu.

Núna um jólin, rétt rúmum tveimur árum síðar, munu Jón og Gunna halda upp á það að eiginfjárhlutfall þeirra í íbúðinni verður brunnið upp í verðbólgunni. Íbúðin verður ennþá (eða réttara sagt aftur) metin á kringum 20 milljónir (ef hún getur selst), en milljónirnar fjórar verða horfnar og heildarskuldin orðin svipuð og markaðsvirði íbúðarinnar, ef ekki hærri.

Spurningin sem mun brenna á vörum þeirra þessi jólin verður: “Hvaða jólasveinn kom með þessa gjöf?”

föstudagur, 19. september 2008

Framsókn og ESB: Að hrökkva eða stökkva...

Mig minnir að það hafi verið haustið 1994 sem ég var beðin að halda fyrirlestur á SUF-málþingi um Evrópusambandið og álit mitt á því hvaða stefnu Ísland ætti að hafa. Mér var það bæði ljúft og skilt, en ekki verður sagt að ég hafi fundið á því þingi marga skoðanabræður - ég hvatti til aðildar Íslands!

Vorið 1995 tók ég síðan þátt í því, ásamt fleirum, og undir forystu Ólafs Stephensen, núverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að stofna Evrópusamtökin. Þetta var mánuði fyrir kosningar og hafa ýmsir haldið því fram að þessi opinbera trúvilla mín í Evrópumálum hafi verið helsta ástæða þess að Halldór Ásgrímsson hætti við að bjóða mér starf aðstoðarmanns utanríkisráðherra í kjölfar kosninganna.

Halldór staðfesti reyndar við mig að ýmsir hefðu ámálgað það við hann að það myndi leiða til ófriðar í flokknum ef "þessi Evrópuvillingur" yrði gerður að pólitískum aðstoðarmanni - en það hefði ekki haft áhrif á hans ákvarðanatöku. Hann vissi sem var að hugur minn þá hneigðist meira í átt til embættismennsku og starfa á erlendum vettvangi.

Það er síðan athyglisvert að bæði Halldór og Jón Sigurðsson, sem tók við formennskunni af Halldóri, eru nú opinberir stuðningsmenn aðildar Íslands að Evrópusambandinu þó aldrei hafi þeir viljað segja það opinberlega á meðan að þeir gegndu formennsku. Jón skrifar nú orðið reglulega greinar þar sem hann færir sterk rök fyrir því af hverju Ísland eigi að sækja um aðild.

Framsóknarflokkurinn hefur í sögulegu samhengi verið tortryggin á aukið alþjóðasamstarf og aukna opnun á íslenskum markaði. Þar hefur flokkurinn jafnan viljað fara að öllu með gát, en þó á endanum látið til leiðast. Þessi varfærni, og jú á köflum afturhald, hefur hins vegar ekki, a.m.k. í seinni tíð, staðið í vegi fyrir því að flokkurinn taki þátt í að opna frekar aðgengi að mörkuðum, innlendum og erlendum. Undirbúningur að EES-samningnum hófst þannig í ríkisstjórnartíð Steingríms Hermannssonar.

Flokkurinn hefur enn fremur í seinni tíð orðið mun frjálslyndari. Hann styður samkvæmt stefnuskrá sinni aukið viðskiptafrelsi á vegum alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, og vann ötullega að því í ríkisstjórnartíð sinni með Sjálfstæðisflokknum að opna íslenskan markað með útvíkkun EES-samstarfsins og fjölgun fríverslunarsamninga.

Það hefur því verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með hvernig Evrópuumræðan hefur verið að þróast innan flokksins á allra síðustu árum. Langt er enn í land að sammæli verði innan flokksins um aðild að Evrópusambandinu, hvað þá að aðild verði opinber stefna flokksins, en hins vegar hefur flokkurinn færst til þess að sjálfsagt sé að láta á málið reyna, ef þjóðin þess óskar.

Sú aðferð sem formaður flokksins mælti fyrir og var í reynd samþykkt á síðasta miðstjórnarfundi, að beita tvöfaldri atkvæðagreiðslu um aðild að ESB, fyrst um hvort sækja eigi um og síðan - ef þjóðin vill aðildarumsókn - um niðurstöðu aðildarviðræðna, er þannig lýðræðislegt viðbragð við pólitísku þrátefli. Það er athyglisvert og jákvætt í sjálfu sér.

Samningsmarkmiðaskýrsla flokksins frá 2007 og gjaldmiðilsskýrslan sem kynnt var í þessari viku eru, eins og Þorsteinn Pálsson ristjóri Fréttablaðsins benti á, "...mikilvægt og þakkarvert pólitískt framlag til þeirrar umræðu sem nú fer fram um þetta stærsta álitaefni í íslenskum stjórnmálum."

Það sem kemur fram í grein Birkis Jóns Jónssonar, Páls Magnússonar og Sæunnar Stefánsdóttur í Fréttablaðinu í gær er þannig rökrétt framhald á þeirri vinnu sem farið hefur fram innan flokksins og þróunar umræðu innan hans. Þó Birkir Jón sé sá eini þeirra sem nú situr á þingi er hann þess fullmegnugur að fylgja grein þeirra eftir þegar þing kemur saman að nýju 1. október og leggja fram þingsályktunartillögu um málið. Ef hann vill væri sjálfsagt að nota drög mín að slíkri þingsályktunartillögu úr færslu minni frá því fyrr í mánuðinum - það þarf væntanlega ekki að breyta miklu.

Enn athyglisverðara verður síðan að fylgjast með afdrifum slíkrar tillögu í þinginu.

miðvikudagur, 17. september 2008

Tilhugalíf?

Það er hressandi að lesa saman pistla Valgerðar Sverrisdóttur og Össurar Skarphéðinssonar. Þó þau skjóti fast á hvort á annað er yfir því stríðnisbragur, sem minnir mest á kraumandi unglingaást sem enn hefur ekki verið fullnustuð í fyrstu bíóferðinni, fyrsta hönd í handar göngutúrnum, eða fyrsta kossinum.

Hver veit nema líkurnar á því hafi aukist í ljósi þróunar Evru- og Evrópumála innan Framsóknarflokksins.

Þrátt fyrir að skiptar skoðanir séu innan Framsóknarflokksins um afstöðu til aðildar Íslands að ESB liggur fyrir að hvorum megin þeirrar víglínu sem menn standa er enginn ótti við það að leyfa lýðræðinu að taka völdin, þ.e. setja málið í dóm kjósenda.

Það skýrir m.a. áhuga flokksins á tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu, annars vegar um aðildarumsókn, og, ef hún samþykkir, að leggja níðurstöðu viðræðna undir dóm kjósenda sömuleiðis.

Vissulega væri það pólitíkinni til meiri sóma ef hægt væri að ná niðurstöðu um aðildarumsókn á þeim vettvangi. Því miður virðist það ekki hægt. Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er þannig leið til að ná Evrópumálum upp úr hjólförum undanfarinna ára og koma þeim at stað í áttina til niðurstöðu.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvort miðjan og vinstrið í íslenskum stjórnmálum gætu sameinast um þessa leið. Opinber stefna Vinstri Grænna er enn sú að vera á móti Evrópusambandsaðild, en skoðanakannanir gefa sterklega til kynna að um málið séu jafn skiptar skoðanir þar innan dyra sem annarsstaðar. Vg eru hins vegar tæplega á móti því að setja þjóðina sjálfa í ökumannssætið í þessu máli.

Kannski Össur og Valgerður ættu að bjóða Katrínu Jakobsdóttur eða Svandísi Svavarsdóttur með í bíó?

þriðjudagur, 16. september 2008

Evru-frumkvæði Framsóknar

Í dag var kynnt á Sólon ný skýrsla gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins þar sem farið er yfir valkosti í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Í skýrslunni er farið yfir þá helstu kosti sem hafa verið í umræðunni og er niðurstaða skýrslunnar nokkuð afgerandi.

Nefndin hafnar upptöku annarrar myntar en evrunnar sem valkosti, ef skipta á út krónu. S.s. niðurstaða nefndarinnar er sú að Svissneski frankinn, norska krónan eða bandaríkjadalur séu ekki raunhæfir valkostir.

Nefndin hafnar einnig óbreyttu ástandi í gjaldeyrismálum þjóðarinnar sem valkosti. Núverandi peningamálastefna og stjórn efnahagsmála gangi ekki upp.

Ef krónan á að vera gjaldmiðill okkar til framtíðar (nota bene, það er engin annar valkostur til skemmri tíma) þá verður að renna styrkari stoðum undir bæði stjórn efnahags- og peningamála, þ.m.t. með stórefldum gjaldeyrisvarasjóði upp á a.m.k. 1300 milljarða með öllum þeim kostnaði sem því fylgir.

Upptaka evru er hinn valkosturinn og er það afdráttarlaus niðurstaða nefndarinnar að sá valkostur eigi að vera án afsláttar, þ.e. með fullri aðild að myntbandalaginu og Seðlabanka Evrópu þar sem hann þjónar sem lánveitandi til þrautavara. Einhliða upptöku evru er s.s. hafnað sem valkosti með rökum.

Nefndin telur að sú leið feli að óbreyttu í sér aðild að Evrópusambandinu, en segir sjálfsagt að kanna kost þess að ganga í myntbandalagið án aðildar að Evrópusambandinu. Sjálfum finnst mér liggja á milli línanna í skýrslunni að nefndarmenn gefi ósköp lítið fyrir þann valkost. Spurningarinnar eigi helst að spyrja til þess að fá hana út af borðinu.

Til skemmri tíma er ljóst að við sitjum uppi með krónuna, hvort sem okkur líkar betur eða ver. Skýrsla gjaldmiðilsnefndarinnar er hins vegar mikilvægt innlegg í framtíðarstefnumótun Framsóknarflokksins í Evrópumálum. Stefnan til langframa verður að öllum líkindum rædd í þaula á næsta flokksþingi, í febrúar eða mars á næsta ári, og þar verður ákvörðun líklega tekin um framtíðarstefnu Framsóknarflokksins – enda flokksþing æðsta ákvörðunarvald um stefnu flokksins.

Þetta er önnur skýrsla flokksins um Evrópumál. Sú fyrri kom út í aðdraganda síðustu kosninga og voru þar reifuð megin áherslu atriði Íslands ef til kæmi aðildarviðræðna. Framsóknarflokkurinn er þannig eini stjórnmálaflokkur á Íslandi sem hefur með kerfisbundnum hætti skoðað Evrópumálin að einhverju marki. Í þeim efnum er vinna flokksins til fyrirmyndar og ætti að verða öðrum flokkum til eftirbreytni. Þangað til geta þeir, og stuðningsmenn þeirra, heimsótt heimasíðu Framsóknarflokksins, sótt sér eintak og án efa orðið margs vísari.

föstudagur, 12. september 2008

Víxlhækkun vaxta og verðlags

Nú dynur yfir almenna launamenn sá söngur að varast beri víxlhækkun launa og verðlags. Leiðin til að halda aftur að verðbólgunni sé að launakröfum sé stillt í hóf af fulltrúum verkalýðsfélaga. Í stefnuyfirlýsingu hins sjálfhverfa Seðlabanka frá því í gær er þetta sjónarmið ítrekað, en þar segir m.a.:

"Víxláhrif launa, verðlags og gengis eru þekktur drifkraftur verðbólgu hér á landi."

Ýmsir þættir geta haft áhrif til hækkunar verðbólgu. Á undanförnum árum hafa helstu drifkraftar verðbólgunnar á Íslandi verið annars vegar fyrst verðbóla á fasteignamarkaði og hins vegar síðar verulegt gengisfall krónunnar. Stór gerandi í báðum þessum þáttum er vaxtastefna Seðlabankans sem bæði virkaði sem segull á erlent spáfé í leit að skjótfengnum gróða á vaxtamunarviðskiptum og jafnframt þrýsti upp gengi krónunnar langt umfram það sem eðlilegt gat talist.

Það er athyglisvert að skoða annars vegar vaxtaþróunina undanfarin ár og bera hana saman við þróun verðbólgunnar. Þegar það er gert kemur í ljós að í kjölfar hverrar vaxtahækkunar hefur verðbólgan aukist. Skýr merki eru þannig um að hér á landi sé stór sökudólgur í þróun verðbólgunnar víxlhækkun vaxta og verðlags. Þar situr Seðlabanki Íslands í ökumannssætinu.

Er ekki komin tími til að svipta bankann ökuleyfi?

fimmtudagur, 11. september 2008

30,5% samdráttur hagkerfisins!

Hagstofa Íslands kynnti í dag nýja þjóðhagsreikninga og tölur um landsframleiðslu. Við fyrstu sýn virðist hér um fínar fréttir að ræða og ennþá bullandi hagvöxtur á Íslandi. Er það í hrópandi andstöðu við allt krepputal.

Skv. Hagstofu Íslands var landsframleiðslan fyrstu sex mánuði þessa árs hvorki meira né minna en 466 milljarðar króna, samanborið við 448 milljarða á síðasta ári m.v. fast verðlag ársins 2000. Hagstofan telur þ.a.l. hagvöxtinn fyrstu 6 mánuði ársins vera hvorki meira né minna en 4,1%.

Þetta hljóta að vera nokkuð merkilegar tölur og ættu að koma vel út í alþjóðlegum samanburði.

Eða hvað?

Ef þessar landsframleiðslutölur eru umreiknaðar yfir í erlendan gjaldmiðil, t.d. evru, og miðað við skráð gengi 1. júlí annars vegar 2007 (við lok fyrsta árshelmings þess árs) og hins vegar 2008 verður niðurstaðan allt önnur. Í stað 4,1% hagvaxtar er rúmlega 30% samdráttur.

Gengi evrunnar þann 1. júlí 2007 var 84,02 krónur, en þann 1. júlí 2008 125,66 krónur. Landframleiðslan fyrstu sex mánuði ársins 2007 var því 5,3 milljarðar evra, en landsframleiðslan fyrstu sex mánuði þessa árs ekki nema 3,7 milljarðar evra.

Sem sagt samdráttur upp á rúm 30%, ekk hagvöxtur upp á 4,1%.

Já, eins og ég hef áður bent á getur tölfræðin sagt ýmsar mismunandi sögur eftir því hvaða aðferðir eru notaðar!

PS: Uppfærsla kl. 21:54. Útreikningarnir hér að ofan eru pínulítið ábyrgðarlausir þar sem ég tek verðleiðréttu upphæðir Hagstofunnar hráar og umreikna þær yfir í evrur m.v. gengið í fyrra og svo í ár. Samvisku minnar vegna fór ég því aftur á vef Hagstofunnar og gróf upp rauntölur landsframleiðslunnar á fyrstu tveimur ársfjórðungum þessa og síðasta árs og umreiknaði það yfir í evrur á gengi við lok hvers ársfjórðungs og lagði saman. Síðan reiknaði ég hlutfall hagvaxtar/samdráttar milli ára og niðurstaðan varð ögn hagfelldari: samdrátturinn er þá ekki nema 23%! Og í þessum útreikningum er þá engin leiðrétting vegna verðbólgu.

Meginpunkturinn er hins vegar óbreyttur - tölfræðinni er ekki treystandi.

miðvikudagur, 10. september 2008

Dauði gjaldmiðils

Það fjarar hratt undan þjóðagjaldmiðlinum þessa dagana. Frá því að forsætisráðherra flutti efnahagsræðu sína fyrir rúmri viku síðan hefur verðgildi krónunnar fallið um rúm 5% til viðbótar við það 40% plús fall sem þegar hefur orðið á þessu ári.

Í ræðu sinni fór forsætisráðherra yfir þær aðgerðir sem hið opinbera hefur þegar gripið til, og eru í kortunum í náinni framtíð, til þess að renna styrkari stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Vandamálin við þær aðgerðir eru hins vegar í hnotskurn þau að þar hefur verið boðið upp á brauðmola þegar þörf var á góðri steik!

Ef rétt er að hluti 12 punkta áætlunar Samtaka atvinnulífsins að nýrri þjóðarsátt feli í sér að krónan verði yfirgefin eru það stórtíðindi. Hins vegar hefur það blasað við lengi að íslenskt atvinnulíf hefur fengið sig fullsatt af hverfugleika krónunnar.

Í Silfri Egils sl. sunnudag má segja að Jónas Haralz hafi sett gjaldmiðilsmálin í nýtt sjónarhorn þegar hann sýndi fram á með rökum að frjáls og óháð króna væri undantekning í efnahagssögu Íslands sl. hundrað ár og að reynsla landsins af þátttöku í alþjóðlegu myntsamtarfi væri undantekningarlaust jákvæð.

Undiralda gjaldmiðilsumræðunnar þyngist þannig stöðugt og við því að búast að hún þyngist enn meir á næstu vikum. Þar munu nokkrir þættir vega þungt.

Í fyrsta lagi vaxtaákvörðun Seðlabankans í fyrramálið, en áframhaldandi hávaxtastefna bankans hefur fyrst og fremst þau áhrif að gera aðila vinnumarkaðarins fráhverfari sjálfstæðum gjaldmiðli. Engin gerir ráð fyrir að vaxtalækkunarferli hefjist á morgun, en óbreytt vaxtastig, hvað þá ef vextir verða hækkaðir, verður enn einn naglinn í líkkistu krónunnar.

Í öðru lagi má gera ráð fyrir að styttist í skýrslur þær sem viðskiptaráðherra pantaði sl. janúar sem áttu að fela í sér “Rannsóknir á áhrifum tengingar við evru á viðskipti, fjármálastöðugleika, samfélag og lagalegt umhverfi”. Í fréttatilkynningunni frá því í janúar sl. er sagt að fyrirhugað sé “...að niðurstöður liggi fyrir í ágúst 2008 í formi skýrslna og/eða rannsóknaritgerða og verði kynntar opinberlega í kjölfarið.” Nú er komin september þ.a. það hlýtur að styttast í skýrslurnar.

Í þriðja lagi styttist væntanlega í að skýrsla gjaldmiðilsnefndar Framsóknarflokksins sem unnið hefur verið að í tæpt ár sjái dagsins ljós. Hver sem niðurstaða þeirrar skýrslu verður þá má gera ráð fyrir að hún muni hafa a.m.k. nokkur áhrif á hina pólitísku umræðu um gjaldmiðilsmálin.

Í fjórða lagi virðist þolinmæði íslensku bankanna gagnvart krónunni og Seðlabankanum á þrotum. Þó að bankastjórarnir flestir séu sparir á gagnrýni á Seðlabankann virðist greiningardeildum þeirra vera gefin æ lausari taumur í gagnrýni á Seðlabankann og starfsaðferðir hans. Enda vita bankarnir fyrir víst að vaxtahagnaður þeirra vegna verðtryggingarinnar er skammgóður vermir ef greiðendurnir kikna undan greiðslubyrðinni.

Lífslíkur krónunnar virðast þannig minnka stöðugt.

38,25% aukning atvinnuleysis!

Þegar tölur Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi og þróun þess það sem af er ári eru skoðaðar kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Þar má t.d. sjá að þrátt fyrir að munur á skráðu atvinnuleysi í janúar og ágúst á þessu ári sé einungis 0,2% (sem hægt væri að kalla 20% aukningu atvinnuleysis) er aukning á fjölda atvinnulausra 38,25% ef miðað er við meðalfjölda einstaklinga.

Í upplýsingagögnum Vinnumálastofnunar segir: “Skráð atvinnuleysi er mælt á þann veg að fjöldi atvinnuleysisdaga er umreiknaður í meðalfjölda einstaklinga, þar sem allir dagar í hverjum mánuði eru taldir nema laugardagar og sunnudagar og útkomunni deilt í áætlaðan mannafla á vinnumarkaði í hverjum mánuði sem út er gefin í upphafi hvers árs af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og endurskoðaður eftir atvikum.”

Þessi meðalfjöldi atvinnulausra einstaklinga var í janúar 2008 1.545 en í ágúst 2.136. Raunaukning 38,25%.

Í ljósi þeirra uppsagna sem tilkynntar hafa verið nú yfir sumarið og ekki eru allar komnar til framkvæmda má gera ráð fyrir að nú þegar líður á haustið muni atvinnuleysistölur fara ört hækkandi. Þó atvinnuleysi teljist enn hverfandi hér á landi, er sú hætta fyrir hendi að það taki snöggan kipp upp á við samfara þeirri snöggkólnun hagkerfisins sem nú stendur yfir.

5% atvinnuleysi myndi t.d. þýða að yfir 10.000 manns væru hér án atvinnu. Verður það staðan um næstu áramót?

Formannaskipti framundan?

Þessi littla frétt á visir.is um áskorun á hendur Sigurjóni Þórðarsyni um að bjóða sig fram til formanns Frjálslyndaflokksins er athyglisverð. Hún ber það með sér að núverandi formanni er vart hugað pólitískt líf lengur en núverandi kjörtímabil og má telja víst að margur þar innan flokks mun telja sig sjálfan hinn augljósa valkost í formannsstólinn.

Guðjón Arnar er fæddur 1944 og varð 64 ára nú í sumar. Hann verður því við það að verða 67 ára við lok þessa kjörtímabils og alls ekki fráleitt að ætla að hann muni stíga til hliðar. Auk Sigurjóns má gera ráð fyrir að Magnús Þór Hafsteinsson, núverandi varaformaður, muni gera tilkall til formannsstólsins, og ekki skal útiloka Kristinn H. Gunnarsson í þessum vangaveltum. Ekki kæmi á óvart ef til tíðinda drægi í þessum efnum hjá Frjálslyndum - jafnvel nú í vetur.

Þetta leiðir hugann óneitanlega að stöðu annarra formanna þeirra flokka sem nú sitja í stjórnarandstöðu. Þeir virðast einnig í vandasamri stöðu.

Formaður Vinstri-Grænna, Steingrímur J. Sigfússon, virðist orðinn þreyttur og leiður á þingi. Skapvonskan er hætt að vera fyndin og mælska hans farin að bera þess merki að hann er búin að vera á þingi í 25 ár. Deja-vu, einhver? Aldarfjórðungs þingseta er meira en nóg fyrir hvern sem er, sérstaklega þegar menn virðast dæmdir til eilífðar stjórnarandstöðu. Þess ber þó að geta að Steingrímur var ráðherra landbúnaðar- og samgöngumála í þrjú ár (1988 – 1991) og hann á sér a.m.k. einn betrung í aldursforsetanum, en það er Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, sem hefur setið á þingi í 30 ár.

Steingrímur er hins vegar ekki það gamall, rétt rúmlega fimmtugur, þ.a. það skapar ákveðin vanda fyrir vænleg formannsefni eins og Svandísi Svavarsdóttir. Steingrímur gæti hæglega setið í formannsstólnum í tíu ár í viðbót, en það væri tæpast gott fyrir hvorki Steingrím né flokkinn. Þetta vandamál mætti hæglega leysa með t.d. skipan Steingríms í embætti sendiherra, en í því hluverki myndi hann án efa taka sig vel út. Sjálfur lýsti hann yfir í þingræðu undir lok síðasta kjörtímabils að hann væri meira en til í að verða sendiherra í frjálsum Færeyjum!

Vg hefur til þessa ekki komist í þá stöðu að komast í ríkisstjórn. Að auki hefur flokknum ekki tekist að ná í kosningum því fylgi sem hann virðist reglulega ná í skoðanakönnunum. Það er vandamál sem núverandi formaður og forysta flokksins ætti að taka til sín og því sjá hag flokksins betur borgið með því að hleypa öðrum að.

Formaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, tók við flokknum á erfiðum tíma, í kjölfar mesta kosningaósigurs flokksins. Á því rúma ári sem liðið er frá því að Guðni tók við hefur honum hins vegar ekki tekist að snúa þeirri þróun við, nema síður sé. Fylgi flokksins í skoðanakönnunum hefur farið neðst í tæpan helming af síðasta kjörfylgi og mest í u.þ.b. þrjá-fjórðu hluta þess.

Fyrir Framsóknarflokkinn er það óásættanlegt að ekki skuli skapast betri sóknarfæri fyrir flokkinn í þeim efnahagsörðugleikum sem nú ganga yfir. Með réttu ætti frjálslyndur umbótaflokkur eins og Framsóknarflokkurinn, með skýra atvinnustefnu, að raka til sín 20 – 25% fylgi í skoðanakönnunum. Í staðinn hangir flokkurinn mest í tæpum tíu prósentustigum og virðist fyrirmunað að ná hærra.

Þessi staða Framsóknarflokksins á sér ýmsar skýringar. Hart hefur verið sótt að flokknum á undanförnum árum – bæði innan og utan frá. Hlutverk núverandi forystu – með formann í broddi fylkingar – er hins vegar að sameina flokkinn að baki sér og blása til nýrrar sóknar. Eftir undangengin hjaðningavíg virðist þokkalegur friður í flokknum. Af skoðanakönnunum að dæma er flokkurinn hins vegar ekki að uppskera eins og til er ætlast og því hlýtur sú spurning að vakna hvort flokknum sé það ekki lífsnauðsyn að skipta alveg út forystunni í góðum tíma fyrir næstu kosningar.

Það hlýtur a.m.k. að vera fleiri framsóknarmönnum en mér umhugsunarefni. Sérstaklega ef ekki verða nein merki þess á þeim fimm til sex mánuðum sem eru fram að næsta flokksþingi að fylgið sé að rétta verulega úr kútnum.

Ég efast heldur ekki um að núverandi formaður flokksins mun, ef til þess kemur, taka hagsmuni flokksins fram yfir sína eigin.

Framsóknarflokkurinn á hins vegar við þann vanda að stríða eftir hjaðningavígin undanfarin ár, að þar blasir ekki við hinn augljósi valkostur í formannsstöðuna. Núverandi formaður verður sextugur næsta vor og 62 þegar kemur að næstu kosningum. Ef hann verður ennþá formaður, blasir við að hann væri þá að byrja sitt síðasta kjörtímabil. Guðni hefur þegar setið á þingi í 21 ár þ.a. í því ljósi er engin skömm af því, nema síður sé, ef hann ákveður að láta þetta kjörtímabil verða sitt síðasta.

Núverandi varaformaður, Valgerður Sverrisdóttir, er búin að sitja jafnlengi og Guðni á þingi og er ekki nema árinu yngri. Þó frú Valgerður sé án efa allra beittasti þingmaður núverandi stjórnarandstöðu, er tæpast hægt að gera ráð fyrir því örlögin ætli henni formannsembætti flokksins.

Af núverandi þingmönnum væri þá næst í röð hugsanlegra formannsefna Siv Friðleifsdóttir. Siv er rétt rúmlega 46 ára, með þrettán ára þingsetu að baki, þar af rúm 6 ár sem ráðherra. Hún myndi þannig óneitanlega sem formaður koma inn sem fulltrúi nýrrar kynslóðar í forystusveit flokksins, auk þess að hafa mikla reynslu í farteskinu. Vandi Sivjar er hins vegar sá að hún hefur verið umdeild innan flokksins og hluti af þeim átakalínum sem hafa legið um hann þveran og endilangan (að mér skilst).

Þ.a. hjá Framsóknarflokknum er engin augljós valkostur í formanninn, a.m.k. ekki enn sem komið er. Það kann þó að breytast hratt, sérstaklega ef núverandi formaður ákveður í aðdraganda næsta flokksþings að stíga til hliðar

Það gæti því farið svo að allir flokkarnir sem nú sitja í stjórnarandstöðu mæti til næstu kosninga með nýja menn og konur í brúnni. Fyrir alla áhugaaðila um íslensk stjórnmál er það óneitanlega spennandi tilhugsun.

þriðjudagur, 9. september 2008

Velkomin heim

Í nótt komu hingað á Akranes 29 palestínskir flóttamenn frá Írak. Hópurinn samanstendur af 8 einstæðum mæðrum og 21 barni þeirra. Sagt er frá heimkomu þeirra m.a. hér og hér.

Velflestir skagamenn, bæði innfæddir og aðfluttir, bjóða þessa nýjustu íbúa bæjarins velkomna heim.

sunnudagur, 7. september 2008

Hið vandmeðfarna vald tölfræðinnar

Frétt sem þessi vekur mann, einu sinni sem oftar, til umhugsunar um hið gífurlega vald sem falið er í hendur tölfræðispekúlöntum tveggja opinberra stofnanna. Og það án nokkurs sýnilegs aðhalds eða eftirlits.

Hagstofa Íslands annars vegar og Seðlabanki Íslands hins vegar eru sitt hvor hlið sama peningsins í orðsins fyllstu merkingu þegar kemur að virði gjaldmiðilsins og kostnaði vegna hans. Árum saman hefur t.d. verið gagnrýnt með rökum með hvaða hætti Hagstofa Íslands mælir verðbólgu, t.d. þá staðreynd að í þeirri mælingu sé blandað saman neyslu- og eignaverðbólgumælingu með aðferð sem HVERGI er beitt annarsstaðar.

Vaxtaákvarðanir Seðlabankans byggja svo aftur á þessari sömu verðbólgumælingu – og stendur þannig á sama grunni.

Seðlabankinn hefur sjálfur sýnt fram á, eða a.m.k. hagfræðingar bankans í riti bankans, en birt án ábyrgðar bankans, að á sömu tölur er hægt að beita mismunandi reikniaðferðum og fá þannig út mismunandi niðurstöður, mishagfelldar fyrir þjóðarbúið!

Tölur og niðurstöður eru svo birtar í mismunandi formi að því er virðist án tillits til þess hvort og hvaða afleiðingar þær geta haft.

Það á að vera grundvallarmarkmið að hin opinbera tölfræði hagkerfisins sé hafin yfir vafa að eins miklu marki og hægt er. Í því samhengi ætti það a.m.k. að vera umhugsunarefni, sérstaklega á viðsjárverðum tímum í ástandi efnahagsmála eins og nú, að birta tölur með jafn gífurlega stórum óvissuþætti og í birtingu Seðlabankans á tölum um viðskiptajöfnuð nú fyrir helgi. Vörn Seðlabankans um að í þessum efnum séu þeir að lúta boðvaldi Alþjóða gjaldeyrisjóðsins er hjóm eitt. Innan þess samstarfs sem Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn byggir á er án efa gert ráð fyrir því að frestun geti orðið á birtingu ákveðinna hagtalna, sérstaklega ef færa má fyrir því rök að birting þeirra geti beinlínis verið skaðleg í ljósi stærðar skekkju eða óvissuþáttar innan þeirra.

Það er hins vegar tæplega hægt að búast við því að frumkvæði um leiðréttingar eða endurskoðun á þeim aðferðum sem Hagstofan og Seðlabankinn beita muni koma innan frá stofnununum sjálfum. Enda má færa fyrir því rök að stofnanirnar séu til þess vanhæfar. Þær eiga innbyggða hagsmuni af því að viðhalda og réttlæta núverandi kerfi. Því verði breytingar að koma utan frá, ef þeirra er þörf.

Ofantengd frétt um viðskiptajöfnuðartölfræði Seðlabankans ætti að verða mönnum hvatning til þess að fara í allsherjar yfirferð og hugsanlega endurskoðun á fyrirkomulagi þessara mála og þeirri aðferðarfræði sem er beitt. Það væri t.d. ekki vitlaust verkefni fyrir hinn nýja efnahagsráðgjafa forsætisráðherra að taka að sér að leiða slíka vinnu með aðstoð nokkurra vel valinna sérfræðinga.

Betri tölfræði gæti þannig orðið grunnur að betri stefnumótun og markvissari ákvarðanatöku. Í slíkri vinnu mætti jafnvel velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að sérgreina vísitölumælingar með víðtækari hætti en nú er gert, t.d. með því að reikna út gengisleiðrétta vísitölu neysluverðs þ.a. sjá megi raunverulegan kostnaðarþrýstings vegna innlendra þátta, sem aftur þjónaði sem rökstuðningur til efnahagsákvarðanna í samræmi við raunverulega stöðu innlendra efnahagsmála. Hver er t.d. gengisleiðrétt verðbólga á Íslandi í dag? Er hún jafnvel neikvæð? Hvaða áhrif hefðu slíkar upplýsingar á stefnumótun og aðgerðir á sviði efnahagsmála?

Er ekki full ástæða til að kanna málið?

miðvikudagur, 3. september 2008

Ef ég væri á þingi...

...þá myndi ég setja fram eftirfarandi þingsályktunartillögu:

Tillaga til þingsályktunar

um þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

Flm.: Friðrik Jónsson
.....
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Þjóðaratkvæðagreiðsla þessi fari fram við fyrsta hentugleika og eigi síðar en fyrsta desember 2008.

Greinargerð.
Í núverandi umhverfi íslenskra og alþjóðlegra efnahagsmála er býnt að fá úr því skorið hvert stefnir til framtíðar varðandi frekari samþættingu íslensks efnahagslífs við næsta umhverfi. Annars vegar varðar það almennt viðskiptaumhverfi, s.s. fríverslunartengsl, tollamál o.þ.h. og hins vegar fyrirkomulag gjaldmiðilsmála.

Valið stendur á milli tveggja meginkosta: annars vegar að Ísland taki enn frekari þátt í efnahagssamvinnu Evrópuþjóða og sæki um aðild að Evrópusambandinu, og hins vegar að halda áfram á núverandi braut. Hvor kosturinn sem valinn er felur í sér að vinna þarf að aðlögun viðskiptaumhverfis og gjaldmiðilsumhverfis með það að markmiði að ná auknum stöðugleika og tryggja samkeppnishæfni þjóðarinnar í bráð og lengd. Ljóst er að hins vegar að vegvísar í átt að þeim markmiðum eru misjafnir eftir hvort valið er að standa utan ESB eða sækja þar um aðild.

Afstaða íslendinga til aðildar að Evrópusambandinu er óháð flokkspólitískum tengslum. Þrátt fyrir að kveðið sé á um í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að umsókn um aðild að ESB sé ekki á dagskrá, er verulegur ágreiningsmunur á milli stjórnarflokkanna um málið. Það ásamt þrýstingi frá ýmsum ráðandi öflum innan atvinnlífs og launþegahreyfinga gerir það brýnna en ella að fá úr því skorið sem fyrst hvort meirihluti er fyrir því meðal þjóðarinnar að sótt sé um aðild. Ef sá meirihluti er ekki fyrir hendi, er þar með leyst úr því pólitíska álitaefni hvort lengra skuli haldið.

Ef meirihluti reynist um það meðal þjóðarinnar að sækja um aðild að Evrópusambandinu er eðlilegt að ríkisstjórninni verði falið það verkefni strax í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Áskilið er að niðurstaða slíkra viðræðna yrðu einnig bornar undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef umsókn um aðild að Evrópusambandinu er felld í þjóðaratkvæðagreiðslu mun liggja fyrir að Evrópusambandsaðild verður ekki valkostur fyrir Ísland um fyrirsjáanlega framtíð.

Mælt er með, ef tillaga þessi verður samþykkt, að veitt verði sérstöku fjármagni til meginsamtaka Evrópumálanna, Evrópusamtakanna og Heimssýnar, til þess að kosta umfjöllun og rökræður um kosti og galla slíkrar aðildarumsóknar í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
-----------------------
En ég er ekki á þingi, þ.a. ætli hún muni ekki þurfa að bíða eitthvað. Nema einhver vilji taka hana upp á sína arma?