föstudagur, 24. júlí 2009

Peningaleg endurstilling

Egill Helgason rifjar upp þrjú vond mistök í kjölfar bankahrunsins: björgun Seðlabankans frá gjaldþroti með kaupum ríkissins á verðlausum skuldabréfum sem Seðlabankinn hafði tekið sem veð í endurhverfum viðskiptum (270 milljaðar plús vextir), hlutabjörgun peningamarkaðssjóðanna (200 milljarðar plús), og síðan sá reikningur sem mun falla á Ísland vegna ICESAVE-sukks forráðamanna Landsbankans.

Af þessum þremur er í reynd einungis ICESAVE-reikningurinn sem skiptir okkur raunverulegu máli þar sem hann er skuldbinding í erlendri mynt.

Hin almenna regla hagfræðinnar segir að prentun peninga til að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs sé ekki góð efnahagspólitík. Að öllu jöfnu er það rétt. Viðvarandi peningaprentun án raunverulegrar verðmætasköpunar rýrir verðgildi gjaldmiðilsins og ýtir undir verðbólgu.

Hins vegar ættu málin að horfa öðruvísi við í kjölfar algers hruns hagkerfisins.

Fyrst lítið þankastrik. Hin almenna regla hagfræðinnar hnussar s.s. yfir peningaprentun á vegum ríkisins. Hins vegar fellir hún sig við peningaprentun á vegum prívatsins, enda að öllu jöfnu ætti hún að vera afleiðing athafna sem leiða til raunverulegrar verðmætasköpunnar.

Hér á Íslandi á undangengnum átta árum hefur hins vegar verið stunduð peningaprentun að hálfu prívatsins, og þá með dyggri aðstoð bankakerfisins, sem var sambærileg við verstu tegund peningaprentunar á vegum ríkisins. Fölsuð verðmætasköpun gegn hverri peningar voru prentaðir í reynd. Þannig má með rökum halda því fram að ofan á allt annað svindl, fúsk, sukk og svínarí sem að stór hluti íslensks viðskiptalífs hefur ástundað á undanförnum árum, megi bæta við peningafölsun. Er það ekki annar örugglega glæpur hér á landi sem kallar nokkurn veginn á sjálfvirka tukthúsvist?

Nánari skýring: Venjulegur peningafalsari setur fimmþúsund kall í ljósritunarvél. Íslenskir viðskiptaaðilar, sem sátu beggja vegna borðsins í annars vegar fyrirtækjum sínum og hins vegar í bönkunum, settu af stað fyrirtæki, með krosseignatengslum og píramídastrúktur eignarhaldsfélaga (fyrir utan að manipulera með hlutabréfaverð þeirra í Kauphöllinni) og tóku lán á lán ofan. Bankarnir þeirra sóttu síðan pening í Seðlabankann, sem prentaði peninga í samræmi við eftirspurn gegn því sem hann taldi trygg veð og raunveruleg verðmæti. Nú eða menn plötuðu peninga út úr erlendum lánveitendum byggt á sama trixi. Raunveruleg verðmæti á móti þessari peningaprentun var afskaplega lítil eins og komið hefur í ljós. Auðmenn Íslands lifðu hins vegar hátt, allt þar til kom í ljós í haust að eina sem þeir höfðu verið að gera var að ljósrita fimmþúsundkalla!

Hrunið í haust leiddi þannig ekki einungis af sér hrun bankakerfisins, heldur peningakerfisins í heild sinni. Við höfum hins vegar ekki ennþá horfst í augu við þá staðreynd. Krónan er í augnablikinu hrein gerviverðeining, haldið uppi með gjaldeyrishöftum og hreinni óskhyggju.

Skuld ríkisins við Seðlabankann vegna endurhverfu viðskiptanna er ekki raunveruleg. Hún er bara tölur á blaði og ríkið skuldar þar sjálfu sér. Eða hver skyldi eiga Seðlabankann? Ég hef reyndar fjallað um þetta áður í pistlum, sjá hér og hér, og m.a. bent á þá staðreynd að í þessum endurhverfu viðskiptum vantaði kröfuhafan. Seðlabankinn prentaði þarna peninga til að reyna að bjarga bankakerfinu. Það mistókst. Þessir peningar fóru aldrei raunverulega í umferð, nema rétt í gagnagrunnum Reiknistofu bankanna. Þessi peningaprentun jafgilti því að Seðlabankinn hefði óvart kveikt í nýprentuðu bretti af seðlum. Þá er ekkert annað að gera en að afskrifa það og prenta nýtt.

Sama gildir í reynd með innspýtinguna í peningamarkaðssjóðina og jafnvel núna með þeirri peningaprentun sem mun eiga sér stað með meintri innspýtingu fjármagns upp á hundruðir milljarða inn í nýju bankanna.

Við skulum hafa í huga að í augnablikinu vitum við ekkert um það hvaða penignamagn er í umferð hér á landi, enda hefur Seðlabankinn ekki birt upplýsingar um "M3 peningmagn í umferð" síðan í september á síðasta ári. Hann getur það ekki. Hann veit það ekki.

Það sem hér þarf að gera er að hætta að horfa á vandann í gegnum hin hefðbundnu gleraugu hagfræðinnar. Það verður að fara fram peningaleg endurstilling (Monetary reset) með tilheyrandi afskriftum skulda, sérstaklegra mikils hluta opinberra skulda í innlendri mynt, tímabundnum peningaprentunum og síðan umbreytingu peningaumhverfisins frá rústum þess núverandi yfir í nýtt. Það þýðir m.a. að við hendum núverandi krónu fyrir róða og tökum upp nýjan gjaldmiðil (okkar eigin), t.d. gengistryggðum innan fastra vikmarka.

Höfum í huga að gjaldmiðill gegnir nokkrum hlutverkum, þeirra mikilvægast að vera milliliður í viðskiptum og geymslumiðill verðmæta. Hvorugt þessara hlutverka gegnir krónan með góðu móti í dag, og er þá vægt til orða tekið. Einnig endurspeglar gjaldmiðill undirliggjandi trú á verðmæti þess sem að baki liggur, í okkar tilviki íslenska hagkerfisins. Krónan getur heldur ekki sinnt því hlutverki lengur.

Peningaleg endurstilling verður því að fara fram. Að öðrum kosti framlengjum við að óþörfu stóran hluta af þeim þjáningum sem þjóðin nú þarf að þola.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um Þýskaland og ástandið þar í kjölfar Versalasamninganna. Sú umræða endurspeglar oft á tíðum sérvalda sagnfræðiþekkingu, en verðbólgu- og skuldavandi Þýskalands átti sér mun lengri sögu en frá Versalasamningunum. Glórulaus skuldasöfnun Þýskalands átti sér rætur a.m.k. til 1911 þegar farið var m.a. í mikla uppbyggingu hersins og svo jú, fóru þjóðverjar í glórulausa útrás til annarra landa með miklum tilkostnaði, en á endanum lítilli verðmætasköpun!

Lexíuna sem læra má af þjóðverjum er hins vegar frekar að horfa til þegar á endanum þeir tóku sig til og umbyltu peningakerfi sínu á innan við ári um miðjan þriðja áratuginn, fyrst með upptöku rentenmark og síðan reichsmark. Mjög athyglisverð aðgerð sem gekk upp allt þar til að heimskreppan skall á með látum 1929.

fimmtudagur, 23. júlí 2009

ICESAVE: 3 valkostir?

Það þarf ekki að koma á óvart að Hollendingar fari aðeins úr jafnvægi ef þeir telja að Alþingi ætli að fella ICESAVE og niðurstaðan verði sú að Ísland greiði ekki neitt. Það er hins vegar ekki það sem er að fara að gerast, og þarf að koma þeim skilaboðum rækilega á framfæri við bæði hollensk og bresk stjórnvöld, svo og hollenska og breska fjölmiðla.

Ekki er annað að sjá og heyra að nú orðið viðurkenni velflestir íslenska ábyrgð í málinu og nauðsyn þess að semja um niðurstöðu þess. Vandinn er hins vegar sá að ekki ríkir mikið traust á þeirri niðurstöðu sem Alþingi fjallar um þessa dagana.

Hvers vegna er henni ekki treyst? Í fyrsta lagi voru það mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa einhliða samninganefnd án aðkomu fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Það hefði orðið til að tryggja breiðari pólitíska sátt og efla traust á niðurstöðunni. Í öðru lagi fór öll kynning á samningunum einkar óhöndulega fram, sérstaklega í upphafi. Í þriðja lagi verður ekki framhjá því horft að ýmislegt í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á niðurstöðuna á fyllilega rétt á sér. Sérstaklega á það við um endurskoðunarákvæði samningsins.

Ríkisstjórnin er þess vegna í vanda stödd og hefur í reynd þrjá kosti í stöðunni:

1. Þvinga samþykkt á núverandi samningum og ríkisábyrgð þeim tengdum í gegnum þingið. Í því felst væntanlega mesta pólitíska áhættan þar sem málið mun án efa hvíla eins og mara yfir ríkisstjórninni til frambúðar þar sem vafa og tortryggni vegna samningannahefur ekki verið eytt. Hins vegar, ef í kjölfarið vextir lækka og ef heimtur á verðmætum úr þrotabúi Landsbankans verða með ágætum gæti þessi aðferð borgað sig pólitískt (og efnahagslega) til lengri tíma litið. Það bæri þá í sjálfu sér vott um gríðarlegt traust núverandi stjórnarflokka á óskeikuleika samninganefndarinnar og allra útreikninga sem kynntir hafa verið af hálfu stjórnvalda.

2. Fresta afgreiðslunni fram á haustið og nota tímann sem þannig gefst til þess að annars vegar svara þeirri gagnrýni sem á rétt á sér með málefnalegum hætti, og hins vegar upplýsa Breta og Hollendinga um ástand mála. Kostur gagnvart þeim væri að gera þeim grein fyrir að núverandi samningar fáist ekki samþykktir og það verði að endursemja um þau atriði sem mestur styrr stendur um. Ef þeir fallast á að semja á ný um þau atriði ætti ný samninganefnd, með fulltrúum allra flokka, að taka þátt í þeim endursamningum.

3. Láta ICESAVE falla á þingi og strax óska eftir nýjum samningum, nú með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB og EES sem beina eða óbeina aðila samningunum og að sjálfsögðu með nýrri samninganefnd með fulltrúum allra flokka. Hún þyrfti helst að vera á allra hæsta stigi, þ.e. með beinni þátttöku ráðherra. Skilaboðin væru áfram þau að við viljum standa við skuldbindingar okkar, en með þeim hætti að við ráðum örugglega við þær. Endurskoðunarákvæði verði að vera virk í ljósi óvissrar stöðu okkar efnahagslega.

mánudagur, 13. júlí 2009

Evrópusamruninn endar hér!

Má til með að benda á einkar athyglisverða grein Wolfgang Münchau á vef Financial Times í gær.

Í henni fjallar hann um áhrif nýlegrar niðurstöðu stjórnarskrárréttar Þýskalands um Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins. Niðurstaða hans er sú að í ljósi mjög afgerandi niðurstöðu réttarins að sáttmálinn standist þýsku stjórnarskrána, séu þær athugasemdir sem þar koma fram varðandi frekari samruna svo afgerandi að ljóst megi vera að Lissabon-sáttmálinn verði sá síðasti hjá ESB um langa framtíð.

Þrennt telur hann til sérstaklega úr úrskurði réttarins: í fyrsta lagi að fullveldi ríkja verði ekki framselt - "Power may be shared, but sovereignty may not".

Í öðru lagi að Evrópuþingið sé ekki raunverulegt löggjafarþing heldur fulltrúaþing þjóðríkja - "the court does not recognise the European parliament as a genuine legislature, representing the will of a single European people, but as a representative body of member states".

Og í þriðja lagi að frekari Evrópusamruni sé óhugsandi, ákveðnir meginþættir fullveldisvalds ríkja verði einfaldlega ekki framseldir, eða skv. grein Münchau "The court said member states must have sovereignty in the following areas: criminal law, police, military operations, fiscal policy, social policy, education, culture, media, and relations with religious groups. In other words, European integration ends with the Lisbon treaty. It is difficult to conceive of another European treaty in the future that could be both material and in line with this ruling."

Greinina "Berlin has dealt a blow to European unity" er vel þess virði að lesa í heild sinni, sérstaklega í ljósi umræðna á Alþingi og yfirvofandi atkvæðagreiðslu um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.