miðvikudagur, 27. febrúar 2008

Bjarni og Illugi: plús í kladdann

Grein Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar í Morgunblaðinu í gær var um margt ágæt. Helst til löng, og var hún að mínu mati í raun tvær greinar skellt saman í eina. Annars vegar um núverandi ástand á fjármálamarkaði og viðbrögð við því og hins vegar um hlutverk og aðferðafræði Seðlabankans.

Hvað fyrri hlutan varðar má segja að hann hafi boðað nokkur tímamót. Í fyrsta lagi lýstu þingmennirnir því yfir að “Umræðan um stöðu Íslands gagnvart ESB, um stöðu gjaldmiðilsins og aðra þætti er snerta íslenskt viðskiptaumhverfi verða ráðandi í stjórnmálaumræðu þjóðarinnar á næstu misserum og árum.” Undir lok greinarinnar ítreka þeir andstöðu Sjálfstæðisflokksins við aðild, en það er gert með hinum hefðbundna fyrirfara að sú andstaða gildi “...eins og sakir standa” og leggja áherslu á að umræðan verði “...að mótast af íslenskum hagsmunum.”

Tillögur þeirra um viðbrögð við núverandi ástandi á markaði eru að því að mér sýnist í sjö liðum:

1 – Lækkun skatta á fyrirtæki í 12%
2 – Efla fjármálaeftirlitið
3 – Setning laga um sérvarin skuldabréf
4 – Umbreyting íbúðalánasjóðs
5 – Framfylgja hugmyndum úr skýrslu Sigurðar Einarssonar et al. um Ísland sem alþjóðlega fjármálamiðstöð
6 – Stofna rannsóknarmiðstöð í efnahags- og fjármálafræðum
7 – Aukin og bætt upplýsingagjöf til erlendra fjölmiðla og greiningaraðila

Allar eru þessar hugmyndir góðra gjalda verðar. Umbreyting íbúðalánasjóðs er hins vegar sú hugmynd sem á eftir að mæta mestri andstöðu. Sú tvískipting opinberrar aðkomu að íbúðalánamarkaði, þ.e. annars vegar markaðsaðkomu og hins vegar félagslegt hlutverk er ekki ný af nálinni. Má til að mynda minna á frumvarp Borgaraflokksins um húsnæðislánastofnanir og húsbanka frá því 1987 og lagt var fram af Júlíusi Sólnes og Guðmundi Ágústssyni.

Frekari lækkun fyrirtækjaskatta umfram það sem ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt mun ennfremur ekki hljóta mikla náð í augum almennings ef ekki kemur til markviss áætlun um minni skattbyrði þess hins sama almennings. Ítrekaðar röksemdafærslur fyrir því að skattalækkanir á fyrirtæki séu af hinu góða á meðan að skattalækkanir sem koma beint við pyngju almennings séu af hinu verra, og þá sérstaklega að slíkar skattalækkanir séu þensluhvetjandi, eru einfaldlega ekki trúverðugar í augum hins sama vaxta- og skuldapínda almennings.

Um seðlabankahluta greinar þeirra mun ég eflaust fjalla síðar.

sunnudagur, 24. febrúar 2008

Hayseed Dixie

Mikið er viðeigandi að ljúka þessari loka-Eurovision-forkeppnishelgi með því að fara með börnunum (þeim sem geta vakað lengur frameftir!) á Hayseed Dixie tónleika á Nasa.

Er búin að vera aðdáandi í nokkur ár og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá þá á sviði í Loppen í Kristaníu í kóngsins Köben fyrir tæpum tveimur árum.

Tær snilld!!!

fimmtudagur, 21. febrúar 2008

Fatapóker

Sjálfseyðingarhvöt félaga minna í Framsóknarflokknum virðast engin takmörk sett. Nær væri að halda að einstakir flokksfélagar væru komnir í samkeppni við borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins í aulahætti.

Varla er flokkurinn búin að jafna sig á hnífasetta- og fatapeningafíflagangi en að hinn annars geðþekki þingmaður flokksins í norð-austur kjördæmi, Birkir Jón Jónsson, ákveður að stofna til einhverskonar borgarlegra mótmæla með því að taka þátt í pókermóti.

Vissulega getur margt verið til í röksemdum Birkis fyrir því að póker sé mismunað m.v. bridge og bann á fjárhættuspilum séu úrelt. En þetta er ekki aðferðafræðin. Skárra hefði þá verið að fá einhverja félaga sína með sér í að skipuleggja pókermót í þágu góðs málefnis, en nei, frekar skal plebbast.

Og átján þúsund kallinn í plús, er hann ekki skattskyldur? Í gvöðanna bænum ekki klikka á því smáatriði til viðbótar.

mánudagur, 18. febrúar 2008

Boutique sjávarútvegur o.fl.

Minn ágæti vinur Þórarinn Stefánsson eðalkrati (með framsóknarhjarta) á það til að blogga. Hann kynnti í dag konseptið Boutique sjávarútvegur sem gæti orðið "the next big thing!"

Athyglisverðar vangaveltur.

sunnudagur, 17. febrúar 2008

Leiðari Fréttablaðsins

Full ástæða er til að vekja athygli á ágætum leiðara Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag. Þorsteinn, sem fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, er án efa sá úr pólitískri elítu Sjálfstæðisflokksins sem lengst hefur gengið í því að lýsa yfir stuðningi við aðild Íslands að ESB.

Í flestu er hægt að taka undir þær athugasemdir sem settar eru fram í leiðaranum. Í honum leynist hins vegar ein hugsanavilla sem vert er að leiðrétta, en í annarri málsgrein segir m.a. að það sé "... ljóst að Ísland uppfyllir ekki aðildarskilyrðin [að ESB] við svo búið."

Þetta er ekki rétt. Ísland uppfyllir nú þegar öll aðildarskilyrði að ESB, eins og sjá má hér.

Líklega hefur ritstjóranum hins vegar orðið eilítill fingraskortur á lyklaborðinu og hann haft í huga upptökuskilyrði evrunnar, en þau má sjá hér.

Athyglisvert er þar að þau fjögur skilyrði sem þar eru upptalinn snúa að verðlagsþróun, ríkisfjármálum, gengisþróun og langtíma vaxtaþróun. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að þegar litið er til verðlagsþróunar er ekki átt við hina sér íslensku verðbólgumælingu, heldur samræmdrar verðbólgumælingar á ESB svæðinu, þ.e. þeirrar mælingar sem kemur fram í samræmdu EES vísitölunni þar sem Ísland hefur verið innan skekkjumarka á undanförnum árum.

Í ljósi þessa þyrfti því ekki að líða langur tími frá því að aðild Íslands að ESB gengi í gildi þar til að hægt væri að taka upp evru.

En fyrst þarf að taka afstöðu til aðildar.

miðvikudagur, 13. febrúar 2008

Beagle er bestur!



Þegar maður hefur verið meira og minna kjaftstopp yfir pólitískum fréttum undanfarinna vikna er það ljúft að fá svona tíðindi til að gleðja sig, en Beagle hundur var í fyrsta sinn valinn bestur hundur sýningarinnar (Best in show) á Westminster hundasýningunni í Bandaríkjunum. Sjálfur á ég tvo Beagle hunda, annan frá Bandaríkjunum og hinn frá Danmörku og hef löngum verið sannfærður um að hér fari bestu voffar í heimi! Á myndinni hér að ofan má sjá Uno, þann sem sigraði. Hér fyrir neðan, ykkur til ánægju og yndisauka má sjá mína tvo, þá Begga og Bróa, í vænni afslöppun á góðum degi.