þriðjudagur, 28. apríl 2009

Norræna módelið

Það er rætt um norræna velferðarstjórn.

Klassíska norræna módelið er hins vegar minnihlutastjórn miðjusæknari flokka, studd eða varin vantrausti af jaðarflokki til annað hvort hægri eða vinstri.

Ríkisstjórn Íslands ætti því samkvæmt því að vera samsett af Samfylkingu og Framsóknarflokki, varin falli af annað hvort Sjálfstæðisflokki eða Vinstri grænum.

Sá flokkur sem á mestan hag í því að kjörtímabilið vari full fjögur ár er Vinstri græn. Sá flokkur var að vinna sinn stærsta sigur og má frekar gera ráð fyrir að tapa fylgi í næstu kosningum, sama hvað gerist. Evrópusambandsaðildarumsókn er þannig þvert gegn hagsmunum flokksins.

Sá flokkur sem á mestan hag í því að kjörtímabilið verði sem styst er Sjálfstæðisflokkurinn. Hann var væntanlega að ganga í gegnum sinn stærsta ósigur og mun án efa að einhverju leyti ná vopnum sínum á ný.

Það ætti því að vera Sjálfstæðisflokknum kappsmál að vilja aðildarviðræður við Evrópusambandið sem fyrst. Þannig aukast líkurnar á því að kjörtímabilið vari skemur. Reyndar þyrfti flokkurinn væntanlega líka að verða stuðningsflokkur aðildar þegar að þjóðaratkvæðagreiðslu því stjórnarskrárbreytingar og nýrra kosninga gerist einungis þörf ef aðildarsamningur er samþykktur.

Sjálfstæðisflokknum ætti líka að vera kappsmál, í ljósi stefnumála sinna fyrir kosningarnar að draga úr möguleikum Vinstri grænna á ríkisstjórnarsetu.

Strategískt og taktískt ætti það því að vera Sjálfstæðisflokknum, sem eina jaðarflokknum til hægri eftir brotthvarf Frjálslynda flokksins, kappsmál að bjóða fram þennan valkost.

En tæpast er ástæða til að halda niðri í sér andanum hvað það varðar.

mánudagur, 27. apríl 2009

Elítan

Mummi fór til læknis. Hann var illa haldinn eftir áralangt sukklíferni. Hann var skoðaður af fjölda sérfræðinga, sendur í blóð-, þvag- og önnur próf.

Niðurstaða sérfræðinganna í læknastétt var svo að segja einróma. "Mummi, þú verður að hætta að drekka. Þú verður að hætta að reykja. Þú verður að taka upp hollari lifnaðarhætti, fara í líkamsrækt og borða hollari mat, annars endar þetta illa hjá þér fyrr en síðar."

Þetta var ekki niðurstaðan eða ráðleggingin sem Mummi vildi heyra. "Ég verð bara að segja það ég gagnrýni einhliða, elítukennda umfjöllun ákveðinnar hirðar hér í læknaheiminum í þessu máli" sagði Mummi og strunsaði út.

Reyndar var einn grasalæknir sem hafði aðra skoðun og sagði Mumma að hann gæti nagað ákveðna tegund ýlustráa til að vinna gegn meintum vondum áhrifum meint sukklífernis.

Skömmu síðar mátti sjá legsteinn Mumma í nálægum kirkjugarði með áletruninni "Hér hvílir Mummi, frá okkur tekinn langt fyrir aldur fram. Hann var sjálfstæður og fullvalda allt til enda og lét engan segja sér fyrir verkum. Síst af öllu einhverjar elítur!"

miðvikudagur, 22. apríl 2009

Undirmáls-Ísland

Það er vert að hafa í huga þegar rætt er um stöðu fasteignaveðlána á Íslandi að meginþorri fasteignaveðlána sem veitt hafa verið á undanförnum árum eru að verða , eða eru þegar orðin, undirmálslán.

Í pistli um síðustu helgi benti ég hvernig lán sem fyrir tæpum tveimur árum var 80% af markaðsvirði eignar, væru í reynd búið að kosta húseiganda eina milljón á mánuði. Til að halda áfram með það dæmi er skuldsetning þeirrar eignar í dag, vegna þróunar á fasteignamarkaði og verðbólgu, breytt úr fyrrnefndum 80% af markaðsverði í það að vera 138% af markaðsverði.

Það gerði ráð fyrir að húsið hefði fallið í verði úr 35 milljónum í 25.

Seðlabankinn gerir í dag ráð fyrir að fasteignaverð geti fallið um allt að helming. Í ofangreindu dæmi, mun það þýða að skuldsetning eignarinnar verður farin að nálgast 200%, ef ekki meira, innan skamms tíma.

Gera má ráð fyrir að þetta geti átt við þorra þeirra fasteignaveðlána sem veitt hafa verið á undanförnum 5 árum.

Að ógleymdri stöðu gengistryggðu lánanna.

Ef nýju bönkunum verður ætlað að starfa með undirmálslán af þessari stærðargráðu á sínum efnahagsreikningum má gera ráð fyrir að annað bankahrun sé óumflýjanlegt.

sunnudagur, 19. apríl 2009

Enginn trúverðugleiki

Á blaðsíðu 5 í Morgunblaði dagsins er heilsíðu auglýsing með mynd af formanni Sjálfstæðisflokksins.

Yfirskrift auglýsingarinnar er "Trúverðug leið að upptöku evru."

Í texta er síðan lagt upp með þá hugmynd að hægt sé að taka upp evru í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðin og í "sátt og samvinnu" við ESB.

Á blaðsíðu 35 í sama Morgunblaði er í Reykjavíkurbréfi fjallað um þessa tillögu Sjálfstæðisflokksins. Full ástæða er til að staldra við þá umfjöllun, en þar segir:

Sjálfstæðisflokkurinn kemur hins vegar með nýtt útspil. Hann vill samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um að Ísland fái að taka upp evru. Rökstuðningurinn fyrir því er eftirfarandi: "Helsti kostur þess að taka upp nánara samstarf við Evrópusambandið er að mati flestra sá efnahagslegi stöðugleiki er fælist í að geta tekið upp hinn sameiginlega gjaldmiðil Evrópusambandsins, evruna. Evrópusambandið hefur hins vegar ekki verið til viðræðu til þessa um að önnur ríki taki upp evru án fullrar aðildar að sambandinu. Sú staða virðist hins vegar vera að breytast.

Í nýlegri skýrslu á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er hvatt til að Evrópusambandið slaki verulega á þeim skilyrðum sem sett eru fyrir evruaðild þannig að ríki í Mið- og Austur-Evrópu geti tekið upp evru í stað núverandi gjaldmiðla."

Hvaða heimildir ætli fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Evrópunefndinni hafi fyrir því að afstaða ESB til evruupptöku ríkja utan sambandsins sé að breytast? Hinn 6. apríl birti Financial Times eina frétt um skýrslu IMF (sem talsmenn sjóðsins neita reyndar að tjá sig um). Samkvæmt fréttinni leggur sjóðurinn til að slakað verði á skilyrðum fyrir upptöku evrunnar gagnvart ríkjum, sem þegar eru gengin í Evrópusambandið. Þar kemur ekkert fram um breytta afstöðu ESB gagnvart evruupptöku ríkja utan sambandsins. Og raunar kemur skýrt fram í fréttinni að evruríkin og Seðlabanki Evrópu séu á móti því að slaka þannig á kröfum gagnvart aðildarríkjum ESB í Austur-Evrópu.

Sérálit sjálfstæðismanna virðist því reist á hæpnum forsendum. Það athyglisverðasta við það er að með því viðurkennir Sjálfstæðisflokkurinn að krónan dugi ekki og Ísland þurfi evru. Hvað gerist þá eftir að látið verður á það reyna hvort Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geti hjálpað okkur að fá evruna án þess að ganga í ESB? Ef það gengur ekki, hvaða ályktun ætla sjálfstæðismenn að draga af því? Að krónan verði að duga? Eða að eina leiðin til að fá nothæfan gjaldmiðil sé að ganga í Evrópusambandið? Af hverju geta menn ekki horfzt í augu við staðreyndir í stað þess að reyna að kaupa sér tíma með því að skálda einhvern gerviraunveruleika í utanríkismálum?

Feitletranir eru mínar.

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins veitir þessu útspili Sjálfstæðisflokksins hreint náðarhögg. Hún er afskrifuð sem veruleikafirring – endurpeglar "gerviraunveruleika í utanríkismálum."

Það er kannski huggun harmi gegn að þessi aðferðafræði "samstarfs, sátta og samvinnu" er snöggtum skárri en þjófsleiðin, einhliða upptaka evru, sem hingað til hefur verið mál málanna.

Það er þó gott að menn eru búnir að átta sig á því að það er ekki hægt að stela sér stöðugleika úr vasa annarra.

-------------------

Í þessu samhengi er líka rétt að rifja upp orð Bjarna Benediktssonar í viðtali við Fréttablaðið í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins:

Bjarni er efins um að hægt sé að auka stöðugleika hér á landi með krónunni og ekki verði lengur umflúið að taka afstöðu til ESB aðildar. „Rætt hefur verið um einhliða upptöku annarrar myntar, en ég tel að í gjaldmiðilsmálum sé enginn kostur jafn sterkur og evran með ESB-aðild í stað krónunnar," segir hann.

laugardagur, 18. apríl 2009

Milljón á mánuði

Fyrir 21 mánuði átti ónefnd fjölskylda í ónefndum svefnbæ í grennd við ónefnda höfuðborg ónefnds lands lítið hús.

Það var verðmetið á 35 milljónir og á því hvíldu lán að upphæð samtals 28 milljónir.

Eigið fé hinnar ónefndu fjölskyldu var því 7 milljónir, 20% af markaðsvirði eignarinnar.

Í dag er húsið verðmetið á 25 milljónir.

Lánin, verðtryggð í íslenskum krónum, eru komin í 34,5 milljónir.

Heildarafborganir lánanna þennan 21 mánuð var um 4,5 milljónir.

Eiginfjárrýrnunin á 21 mánuði 16,5 milljónir.

Heildarkostnaður við að búa í húsinu síðastliðin 21 mánuð 21 milljón.

Milljón á mánuði.

Hvað kostaði að búa í þínu?

föstudagur, 17. apríl 2009

Fýlupólitík

Það að ríkisstjórnarflokkarnir og Framsóknarflokkurinn hafi fallið frá öllum breytingum á stjórnarskrá er vægast sagt óheppilegt.

Hefði ekki þó verið skárra að taka málamiðlunartillögu Sjálfstæðisflokksins þannig að hér væri að minnsta kosti valkostur að setja frekari breytingar á stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslur á milli þingkosninga?

Er ekki fyrirsjáanlegt að núverandi ríkisstjórnarflokkar, ásamt Framsóknarflokknum muni hafa yfir að ráða 2/3 hluta þingsæta eftir kosningar?

En nú eru engar breytingar mögulegar fyrr en í næstu þingkosningum. Það er kannski sök sér ef þær verða innan tveggja ára, en samt...

miðvikudagur, 15. apríl 2009

ESB: Er eitthvað að óttast?

Hélt í morgun erindi á morgunverðarfundi Félags íslenskra stórkaupmanna um Evrópumál ásamt Aðalsteini Leifssyni frá Háskólanum í Reykjavík. Erindi mitt bar titilinn "ESB: Er eitthvað að óttast?" og fer hér á eftir:


 

Ágætu fundarmenn,


 

Það er mér sönn ánægja að fá tækifæri til að ræða Ísland og Evrópusambandið hér á þessum morgunverðarfundi Félags íslenskra stórkaupmanna. Það var vel til fundið að halda fundaröð um Evrópumál nú í aðdraganda kosninga, en aðildarumsókn að Evrópusambandinu er í fyrsta sinn í raun og sann á dagskrá í alþingiskosningum hér á landi.

Tveir íslenskra stjórnmálaflokka hafa aðildarumsókn að ESB á stefnuskrá sinni, Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin. Aðrir stjórnmálaflokkar eru á móti með þeim fyrirvara þó að þeir felli sig við einhverskonar lýðræðislega nálgun á viðfangsefninu. Sjálfstæðisflokkurinn leggur það upp þannig að vilja nú halda tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, fyrst um aðildarumsókn og síðan, ef það verður samþykkt, um niðurstöðu þeirra viðræðna. Vinstri grænir hafa ekki útfært hvernig þeirra lýðræðislega nálgun að viðfangsefninu á að vera önnur en sú að niðurstöðu aðildarviðræðna eigi að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Almennt er kvartað yfir því að ekki liggi fyrir nægar upplýsingar þannig að íslendingar geti tekið upplýsta ákvörðun um hvort rétt sé að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Ekkert er eins fjarri lagi, það liggja nægar upplýsingar fyrir. Ótal stúdíur, skýrslur og álit eru til. Það er kannski frekar magnið sem þvælist fyrir.

Einnig er kannski hluti vandans varðandi Evrópuumræðuna hér á landi að ástríða þeirra sem hlynntir eru aðildarumsókn og aðild er yfirleitt lágstemmdari en þeirra sem eru á móti.

Helstu rök þeirra sem hlynntir eru aðild byggja á tiltölulega praktískum grunni. Þau eru lítt spennandi rökfærslur er snúa að tiltölulega þurrum efnahagsmálum eins og markaðsaðgangi fyrir vörur og þjónustu, peninga- og gjaldmiðilsmálum, samþættingu reglugerða og þess háttar.

Rök andstæðinga aðildar snúa hins vegar frekar að tilfinningum og upphrópunum og oft ekki í miklu samræmi við hvorki staðreyndir málsins né þann veruleika sem við blasir. Einblínt er á hugtök eins og fullveldi og út úr því snúið í allar áttir, auk þess sem alið er á ótta við það að Ísland verði áhrifa- og valdalaust fórnarlamb evrópskra stórvelda, rúið auðlindum sínum og lífsviðurværi.

Við skulum hafa það í huga að reynsla Íslands af alþjóðlegu samstarfi hefur verið yfirgnæfandi jákvæð. Enda er það svo að til þessa hafa íslendingar ekki séð nokkra ástæðu til þess að segja úr því alþjóða samstarfi sem stofnað hefur verið til, með einni undantekningu þó.

Sú undantekning var úrsögn okkar úr alþjóða hvalveiðiráðinu á sínum tíma. Svo vitnað sé í þekktan sjónvarpskarakter: "Eigum við að ræða það eitthvað?"

Í rúm fimmtán ár hefur Ísland verið aðili að Evrópska efnahagssvæðinu. Kostir þess samstarfs fyrir Ísland hafa lengst af verið óumdeildir og ætti sú reynsla að vera okkur ákveðið veganesti og vegvísir hvað varðar frekara Evrópusamstarf.

Samt er það ekki svo - og raunar athyglisvert að meðal svarinna andstæðinga ESB-aðildar er hægt að finna marga ötulustu talsmenn EES.

Augljóst dæmi er fyrrverandi dómsmálaráðherra Björn Bjarnason. Hann er hlynntur EES-samstarfinu og mjög ánægður með samstarf Evrópuríkjanna innan Schengen. Aðspurður á fundi í Háskólanum í Reykjavík í síðasta mánuði viðurkenndi hann fúslega að hann hefði haft veruleg áhrif í því samstarfi – að á sjónarmið Íslands hefði verið hlustað og mikið tillit til þeirra tekið alveg óháð þeirri staðreynd að Ísland er lítið land og fámennt, og ekki einu sinni í ESB.

Sami fyrrverandi dómsmálaráðherra vill styrkja stöðu Íslands í Evrópusamstarfi með því að bæta við þriðju stoðinni í það samstarf, myntsamstarfi, þrátt fyrir að fyrir liggi að hvorki Evrópusambandið né aðildarríki þess hafi áhuga á slíkum ráðahag. Hann er hins vegar algerlega andsnúin aðild meðal annars vegna þess að við myndum ekki hafa nein áhrif þar innan dyra!

Andstæðingar aðildar að ESB sem engu að síður eru hlynntir aðild Íslands að EES eru þannig í reynd óneitanlega frekar ósamkvæmir sjálfum sér.

Ekki veit ég hvort margir hér inni sáu á sínum tíma meistaraverk Monty Python, Life of Brian, sem var kaldhæðin gamanmynd sem gerðist á tímum Krists. Brian var jafnaldri Krists og ansi oft mistekinn sem frelsari, en það er aukaatriði í þessu samhengi.

Í myndinni er atriði þar sem frelsisbaráttuhópur gyðinga sem Brian þessi tilheyrir er að skipuleggja rán á konu Pontíusar Pílatusar. Tilgangur þessa mannráns á síðan að vera að knýja á um að rómverjar yfirgefi Palestínu. Full ástæða er til þess, enda hafa rómverjar aldrei gert neitt að gagni sem hersetuveldi.

Leiðtogi hópsins lýsir því hvernig rómarveldi hefur leikið þá grátt og spyr svo út til hópsins "...og hvað hafa þeir svo sem gert fyrir okkur í staðinn?"

Og einn úr hópnum svarar: "sett upp vatnsveitu?"

Og jú, leiðtoginn samsinnir því. Í framhaldinu spinnast svo umræður um allt það sem rómverjarnir hafi þó gert, en auk vatnsveitu hafi þeir sett upp skolpveitu, komið með meðöl og lyf, sett upp skóla, kynnt vín inn í menninguna, tryggt öryggi á götum úti, sett upp vökvunarkerfi fyrir landbúnaðinn, byggt vegi, tryggt ferskt drykkjarvatn, sett upp heilsugæslu og, síðast en ekki síst, tryggt friðinn. Þá er reyndar leiðtoga hópsins nóg boðið og stöðvar frekari umræður.

Og af stað er farið að ræna konu Pontíusar Pílatusar, þó það plan fari reyndar allt í vaskinn.

Þetta minnir eilítið á Evrópuumræðuna hér á landi, því að þrátt fyrir allt jákvæða sem Evrópusamstarf hefur þó fært okkur, að þá er andstaðan engu að síður hatrömm og í reynd órökrétt miðað við þá reynslu sem við þegar búum að.

Augljós munur er svo á Evrópusambandi nútímans og Rómarveldi fortíðarinnar. Evrópusambandið er samband frjálsra og fullvalda ríkja á meðan að Rómarveldi byggðist upp á hernaði Rómverja á hendur ríkjum nær og fjær. Það er reyndar líka einn ljóður á ráði andstæðinga aðildar að þeir sumir hverjir reyna að draga sama sem merki á milli ESB og heimsveldadrauma einræðisherra fortíðarinnar, Hitlers, Napóleóns, og, eins og áður sagði, rómarveldis. Slík röksemdafærsla er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að yfirlýstur tilgangur með stofnun forvera Evrópusambandsins, Kola- og stálbandalaginu, var að koma í veg fyrir stríð.

En er eitthvað að óttast varðandi Evrópusambandið?

Stutta svarið við þeirri spurningu er nei.

Þeir sem andmæla aðild Íslands að ESB eru mjög skapandi í því að búa til alls kyns grýlur og hindranir sem að þeirra mati ættu að standa í vegi fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Sumar þeirra eiga sér einhverja stoð, en falla yfirleitt að betur athuguðu máli.

Flestar hins vegar falla undir það að vera – svo snúið sé út úr gjöfum vitringanna – bull, ergelsi og firra!

Andstaðan við aðild kristallast einkum í eftirfarandi þáttum: fullveldi, regluverki, áhrifum, sjávarútvegi og landbúnaði. Við skulum fara yfir þá alla, lið fyrir lið.

Fullveldi

Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Í fullveldi felst að ríkið hefur sjálfdæmi um vald sitt að því marki sem að þing þess heimilar í krafti löggjafarvalds síns og frekari þrískiptingu ríkivalds að auki milli framkvæmdavalds og dómsvalds.

Í hefðbundinni skilgreiningu fullveldis er gengið út frá því að hið þrískipta ríkisvalds lúti allt innlendri stjórn. Staðreyndin er hins vegar sú að "hreint" fullveldi hefur aldrei verið við lýði hér á landi. ´

Rétt eins og fullveldi og frelsi manns á eyðieyju er merkingarlaust, er fullveldi þjóða merkingarlaust án samhengis við tengsl þeirrar þjóðar við aðrar.

Öll alþjóðleg samskipti, nema hugsanlega árásarstríð, fela í sér skerðingu fullveldis í ljósi hinnar hefðbundnu skilgreiningar. Á móti kemur að það sem fengið er í staðinn er metið hærra en það sem tapast. Fullveldið er þannig, og hefur verið frá því fullveldið var fengið 1. desember 1918, afstætt og undirgefið hagsmunamati hvers tíma.

Almennt sammæli er hins vegar um það að hvað Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands varðar, verður ekki gengið mikið lengra en þegar hefur verið gert án breytinga. Aðild Íslands að ESB kalli þannig á að stjórnarskránni verði breytt þannig að hún endurspegli skýra heimild til ríkisstjórnar og Alþingis að framselja hluta fullveldisins til yfirþjóðlegrar stofnunnar eins og Evrópusambandsins.

Eftir sem áður yrði það þó þannig að Evrópuáhrif á íslenska löggjöf myndu takmarkast við þá þætti sem Alþingi íslendinga hefur samþykkt að Evrópusambandslöggjöf nái til. Felst í því fullveldisframsal? Vissulega, innan þeirra þátta sem Evrópusamstarfið nær til, en á móti kemur að Ísland er þátttakandi og áhrifavaldur í því ferli frá upphafi til enda. ESB aðild hefur þannig frekar áhrif til samþættingar íslensks fullveldis við fullveldi annarra aðildarþjóða, en að um sé að ræða fullveldissviptingu.

Hafa ber í huga í þessu samhengi að íslensk löggjöf er almennt undir miklum erlendum áhrifum. Við lagasetningu er gjarnan horft til annarra landa um framkvæmd viðkomandi málefnis og þykir í raun góð venja. Einnig er, þegar öllu er á botninn hvolft, réttur þjóða til úrsagnar úr hverjum þeim félagsskap sem þær á annað borð skrá sig til, ótvíræður. Þó er reyndar tekin af allur vafi hvað það varðar í Lissabon sáttmála Evrópusambandsins, þannig að ef í aðild að ESB einhverri þjóð verður nóg boðið og hrópar "út vil ek" þá er henni það í sjálfsvald sett, sem er ótvíræð staðfesting á endanlegu fullveldi viðkomandi þjóðar, ef út í það er farið.

Ekki er hægt að láta hjá líða í umfjöllun um fullveldi og ESB að af einhverjum ástæðum virðist það alveg hafa farið framhjá ESB-þjóðum eins og til dæmis Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi, að þær hafi glatað fullveldinu vegna ESB aðildarinnar. Kannski þær hafi ekki fengið tölvupóst frá Bjarna Harðarsyni sem geri þeim grein fyrir þessari mikilvægu staðreynd!

Regluverk

Regluverk Evrópusambandsins er reglulega gagnrýnt. Of mikið, of víðfeðmt, of nákvæmt, of flókið, of uppáþrengjandi, of franskt, of breskt, of þýskt!

Regluverkið er algengasti skotspónn andstæðinga Evrópusambandsaðildar og yfirleitt aldrei nokkur skortur á draugasögum því tengt.

Nýlegt dæmi er frétt á pressan.is nú um síðustu helgi þar sem sagði frá nýrri "...tilskipun frá Evrópusambandinu til aðildarlanda sinna [sem] gerir netþjónustuaðila skylduga til að vista gögn um netnotkun áskrifenda sinna og eru þeir skuldbundnir til að geyma gögnin í að minnsta kosti ár." Samkvæmt fréttinni var tilskipunin umdeild og meðal annars sögð "brjálæðisleg" og mögulega "skaðleg einstaklingsfrelsinu."

Þannig að samkvæmt þessari frétt getur þetta Evrópusamband greinilega verið mjög viðsjárvert!

Það sem ekki kom fram í fréttinni var hins vegar eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er umrædd reglugerð ekki ný. Hún var sett árið 2006 og tók gildi í september 2007.

Í öðru lagi settu margar þjóðir fyrirvara um gildistöku hennar.

Í þriðja lagi var sambærileg heimild sett í íslensk lög með breytingu á fjarskiptalögum árið 2005, ári áður en Evrópureglugerðin var sett.

Dæmi af þessu tagi eru óteljandi.

Það sem gleymist hins vegar að Evrópusambandið er ekki sjálfstæð eining sem kokkar upp regluverk bara af því bara. Regluverk Evrópusambandsins felur í sér töluverða einföldun og sparnað ef betur er að gáð. Eitt regluverk í stað 27 aðgreindra um sambærileg mál. Sameiginlegt regluverk á vegum ESB eykur þannig á gegnsæi og skilvirkni, þvert á það andstæðingar vilja halda fram.

Ekki er svo hægt að láta hjá líða í þessu samhengi að minnast á fullyrðingu ESB-andstæðinga hér á landi að í EES-samningnum felist að á Íslandi sé einungis tekin upp 6,5% af gerðum ESB. Hér er beitt orðhengilshætti til að búa til rakalausa röksemd!

Staðreyndin er sú að dag er upp undir 100% af regluverki Evrópusambandsins sem varðar innri markaðinn tekið upp í EES, að undanskildu því regluverki sem varðar sameiginlega stefnu ESB í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og tollamálum. Langstærsti hluti "gerða" ESB er vegna þessara þriggja þátta, enda er þar meðal annars um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir tengdum ýmsum smærri afgreiðslum. Dæmi um slíkt gæti verið tímabundin lokun sláturhúss í Danmörku vegna salmonellusýkingar. Tilkynning um slíka lokun, og síðar um enduropnun, fær samt gerðanúmer og telst með í heildartölum um fjölda "gerða", jafnvel þó að viðkomandi "gerðir" hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt sláturhús.

Þetta er skýringin á því af hverju andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta fullyrt að raunverulegar tölur um innleiðingu "gerða" ESB í landslög á Íslandi sé einungis 6,5%. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert ríki ESB leiðir allar "gerðir" í landslög. Á því er ekki þörf. Innleiðing í landslög fer eftir eðli, umfangi og viðfangsefni gerðarinnar.

Áhrif

En hvað með áhrif Íslands innan Evrópusambandsins? Á heimasíðu Heimssýnar – hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum segir svo um hugsanleg áhrif Íslands innan ESB:

"Það er skemmst frá því að segja að áhrif Íslands innan Evrópusambandsins, yrði af íslenskri aðild, yrðu svo gott sem engin. Sú meginregla gildir innan sambandsins að vægi einstakra aðildarríkja, og þar með allir möguleikar þeirra til þess að hafa áhrif innan þess, fer fyrst og fremst eftir því hversu fjölmenn þau eru. Ljóst er að þetta fyrirkomulag myndi seint henta hagsmunum Íslendinga enda flest aðildarríki Evrópusambandsins milljónaþjóðir og í sumum tilfellum tugmilljónaþjóðir á sama tíma og Íslendingar eru aðeins rúmlega 300 þúsund."

Þetta er viðhorf sem endurspeglar grundvallarmisskilning á alþjóða samstarfi almennt og Evrópusamstarfi sérstaklega.

Það er einfaldlega þannig að þegar fulltrúar aðildarríkja ESB sitja saman á fundum að þá sitja þar 27 fulltrúar – einn fulltrúi, ein rödd. Geta fulltrúa Íslands til að færa rök fyrir máli sínu er þannig mikilvægara en hve nákvæmlega mörg atkvæði hann vigtar. Það er alltaf meginmarkmið að ná sátt í málum og þau skipti sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram þar sem reynt hefur á atkvæðavægið eru fá. Ef eitthvað, þá hefur hallað á stóru ríkin í þeim efnum.

Áhrif þjóða í ákveðnum málaflokknum fara ennfremur frekar eftir hagsmunum þeirra en mannfjölda. Þannig er augljóst að við aðild yrði Ísland ein af þremur stærstu sjávarútvegsþjóðum Evrópusambandsins. Vigt landsins og áhrif í þeim málaflokki yrði í samræmi við þá staðreynd.

Sjávarútvegur

Aðal mótrök andstæðinga aðildar að Evrópusambandinu snúa hins vegar að sameiginlegu sjávarútvegstefnu bandalagsins. Á Íslandi er engin tilbúin til þess að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistefnuna að óbreyttu. Markmið hennar getur Ísland hins vegar stutt. Ísland einfaldlega býr við þann kost í sjávarútvegsmálum að vera fyrir löngu búin að ná og uppfylla markmiðum stefnunnar um t.d. sjálfbærni og verndun stofna.

Það sem meira er, ESB, þ.e. stjórnmálaleiðtogar helstu aðildarríkja og æðstu embættismenn þekkja og viðurkenna þessa staðreynd. ESB hefur ekki hagsmuni af því að stefna íslenskum sjávarútvegi í tvísýnu eða spila pólitískan leik með eitt af fjöreggjum þjóðarinnar. Engin fordæmi eru fyrir því að sambandið geri slíkt í aðildarviðræðum.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins á því ekki að vera þröskuldur fyrir aðild Íslands.

Á hinn bóginn ber á það að lýta að sameiginleg fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í grundvallaratriðum eins og fiskveiðistefna Íslands hvað varðar sameiginlega fiskistofna.

Það er á þeim grunni sem til hennar er stofnað.

Grundvallaratriðið er þetta: Ef um er að ræða sameiginlega stofna sem margar þjóðir nýta þá á fiskveiðistjórnun þeirra að vera sameiginleg meðal þeirra þjóða.

Þetta er stefna íslenskra stjórnvalda hvað varðar alla þá stofna sem við veiðum úr og eru sameiginlegir með öðrum þjóðum – kolmunna, síld, loðnu og karfa, svo dæmi séu tekin.

Og snýst ekki deila okkar við Norðmenn og Evrópusambandið nákvæmlega um þetta grundvallaratriði? Ísland vill hafa sameiginlega fiskveiðistefnu og –stjórnun á makrílnum, enda um flökkustofn að ræða!

Þessu tengt er kannski rétt að velta upp einu þankastriki. Hver verður staða okkar, í ljósi til dæmis hnattrænnar hlýnunar, þegar og ef hinir meintu staðbundnu stofnar á Íslandsmiðum taka upp á því að fara á flakk? Með það í huga og hagsmuni framtíðarinnar, væri kannski betra að vera hluti af Evrópusambandinu?

Rétt er ennfremur í þessu samhengi að nefna að sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins er í raun undantekning hvað varðar auðlindastjórnun innan þess. Evrópusambandið sem slíkt ræður ekki yfir eða á neinar auðlindir. Og það stendur ekki til. Olíulindir Breta og Dana eru breskar og danskar, punktur.

Landbúnaður

Síðast en ekki síst er rétt að ræða aðeins stöðu íslensks landbúnaðar innan ESB. Að mínu mati yrði landbúnaður ekki sérstakt vandamál í samningaviðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Landbúnaður almennt nýtur sérstakrar viðurkenningar og verndar innan ESB nú þegar, og í aðildarsamningum Svíþjóðar og Finnlands var samið sérstaklega um heimildir til aukins stuðning við landbúnað á erfiðum svæðum. Engin ástæða er til að ætla annað en að Ísland muni ná fram sambærilegum heimildum fyrir íslenskan landbúnað.

Hver sá sem eitthvað hefur keyrt um sveitir Evrópusambandsríkja ætti þar með að hafa séð með eigin augum að Evrópusambandið er ekki óvinur landbúnaðar í sínum aðildarríkjum. Þvert á móti.

Það er hins vegar rétt að hafa í huga að breytingar eru óumflýjanlegar í íslenskum landbúnaði, hvort sem af aðild að ESB verður eða ekki.

Höfum jafnframt í huga að íslenskur landbúnaður mun áfram leika lykilhlutverk á ferskvörumarkaði hér á landi. Samkeppnisstaða landbúnaðarins er að mínu mati vanmetin. Ef íslenskur landbúnaður fær eðlilegra rekstrarumhverfi þá er honum allir vegir færir. Til dæmis tel ég meiri ógn stafa að viðvarandi háum fjármagnskostnaði og skorti á aðgangi að lánsfé fyrir íslenskan landbúnað, en af frjálsari innflutningi á matvöru.

Í dag er það svo að við fáum ferskar kjúklingabringur á 1500 krónur kílóið á tilboðum stórmarkaðanna. Við þetta verð á engin innflutningur eftir að keppa. Tala nú ekki um ef annað rekstrarumhverfi bætist hér, þá gæti þetta verð lækkað ennþá meira.

Höfum enn frekar í huga að ESB ríkið Danmörk, með litlar sem engar auðlindir og skandinavískt skattaumhverfi er stórveldi á alþjóðamörkuðum með unnar landbúnaðarvörur.

Það sem síðan skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild.

Á Íslandi getur ekki orðið um frekari hagræðingu og vöxt í landbúnaði og sjávarútvegi nema með auknu aðgengi á erlenda markaði. Eini erlendi markaðurinn sem máli skiptir opnast við aðild að ESB. Hinn valkosturinn er frekari fækkun starfa í báðum þessum greinum, því hvorug þeirra getur búist við miklum vexti vegna eftirspurnar á innlendum markaði. Frekari hagræðing og framlegð mun þannig fyrst og fremst byggja á fækkun starfa. Það verða engin 20 þúsund ný störf til í landbúnaði og sjávarútvegi að óbreyttu.

Aðrar bábiljur

Höfum svo í huga að andstæðingar ESB aðildar Íslands hafa í gegnum tíðina notað eftirfarandi röksemdir gegn aðild Íslands að ESB og evru sem virka nú hálf hjákátleg í ljósi atburða síðustu mánaða:

"Mikilvægur sveiflujöfnunarsveigjanleiki" - ójá, allt þar til sveifluðumst út um gluggann, misstum takið á pendúlnum og skullum í gólfið.

"Aðild fylgir atvinnuleysi" svo aftur sé vitnað í þekktan sjónvarpskarakter: "Eigum við að ræða það eitthvað?"

"Aðild kostar!" - en aðildarleysi kostar greinilega meira.

"Evran í núverandi ástandi myndi þýða að eina leiðin til að bregðast við væri að lækka laun!" - eins og það sé ekki að gerast?

"Fríverslunarsamningar Íslands við önnur ríki myndu falla niður!" - en í staðinn kæmi aðild að mun víðfeðmara og öflugra fríverslunarneti ESB.

"Ísland myndi lokast innan tollamúra ESB!" - sem eru óvart lægri tolla- og gjaldamúrar en Ísland hefur í dag. ESB er líka aðili að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og "tollamúrar" þess eru takmarkaðir samkvæmt þeim skuldbindum, rétt eins og tollamúrar Íslands. Ísland er þó snöggtum duglegra en ESB að nýta sér allskyns "trix" eins og vörugjöld sem ég efa ekki að félagsmenn í Félagi íslenskra stórkaupmanna vita allt um og þekkja vel á eigin skinni.


 

Ágætu fundarmenn

Yfirskrift þessa erindis var "ESB: Er eitthvað að óttast?"

Ég hef hér stiklað á stóru hvað varðar helstu áhyggjur og mótrök gegn aðild Íslands að ESB. Mín niðurstaða er sú að við höfum ekkert að óttast – tækifærin og kostirnir vega á móti göllunum margfalt. Reyndar tel ég í flestum tilvikum mótrök gegn aðild byggja aðallega á þrennu: fáfræði, misskilningi eða einbeittum brotavilja!

Ekki veit ég hvort einhverjir hér inni lásu myndasögurnar um Ástrík, en þær fjölluðu um íbúa þorps á Bretagne-skaga árið 50 fyrir Krist sem tókst með hjálp Sjóðríks seiðkarls og töfradrykkjar hans sem gaf þorpsbúum mikla krafta, að halda rómverjum frá því að yfirtaka bæinn.

Þorpsbúar þessir, með Ástrík í broddi fylkingar, léku á fulltrúa rómarveldis í hverri bókinni á fætur annarri. Þarna var skemmtilegt dæmi um hvernig fámennið gat átt í fullu tré við stórveldið.

Tvennt óttuðust þó íbúar Gaulverjabæjar, en svo nefndist þorpið í íslenskri þýðingu, það var annars vegar að orkudrykkur Sjóðríks myndi klárast, og hins vegar að himnarnir myndu hrynja ofan á hausinn á þeim.

Á undanförnum árum höfum við íslendingar eilítið verið eins og íbúar Gaulverjabæjar – allra þjóða klárastir og sterkastir.

En nú er orkudrykkurinn búinn og himnarnir hafa hrunið ofan á hausinn á okkur.

Það er spurning hvort ekki sé kominn tími til að semja um aðild að Rómarsáttmála.

mánudagur, 13. apríl 2009

Styrkjastuð

Það er kominn tími til að horfa á björtu hliðarnar á styrkja-"gate" íslenskra stjórnmála.

Í fyrsta lagi hlýtur það að vera fagnaðarefni að ofur-styrkirnir til Sjálfstæðisflokksins frá FL-Group og Landsbanka Íslands voru alger undantekning (og settir í samhengi við geðveikina sem var í gangi hjá þeim fyrirtækjum þá námu styrkirnir hvor um sig ekki nema andvirði tveggja Range Rover Vogue Supercharged sem taldist víst ekki mjög merkilegt á þeim bæjunum!).

Í öðru lagi eru viðbrögð allra flokkanna (jafnvel þó manni finnist á stundum sumir vera meira leiðir yfir því að upp um þá komst en yfir að hafa orðið uppvísir að dómgreindarleysi í styrkþægð) hreint ágæt. Fréttin sem setti allt í gang, um ofurstyrk FL-Group til Sjálfstæðisflokksins, birtist síðastliðið þriðjudagskvöld. Fimm dögum síðar, á páskasunnudag, eru allir flokkarnir búnir að opna bókhald sitt yfir stærstu styrki árið 2006. Ber því ekki að fagna?

Í þriðja lagi hljótum við að fagna, og taka a.m.k. að mestu trúanlega, það sem virðist vera þvottekta hneykslan 99.9% sjálfstæðismanna yfir því að tekið var á móti þessum ofurstyrkjum.

Í fjórða lagi er hreint ágætt að núna vilja allir Lilju kveðið hafa hvað varðar setningu laga um fjármál stjórnmálaflokka undir lok árs 2006. Athyglisvert að miðað við heildarstyrkjatölur áranna á undan, sem þó hafa birst, virðast óvenju háir styrkir, eða ofur styrkir, ekki hafa komið til fyrr en lögleiðing takmarkanna lá í loftinu.

Í fimmta lagi er hverjir styrkja hvað óneitanlega athyglisvert. Þegar hefur verið bent á styrki fyrirtækis tengt nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins til Framsóknarflokksins, en athyglisverðara er jafnvel að hin svokallaða S-hóps viðskiptablokk styrkir Samfylkinguna mest allra flokka árið 2006! Sérstaklega er athyglisvert að hinn meinti framsóknarmaður Ólafur Ólafsson, kenndur við Samskip, og sem ég veit að er ekki skráður félagsmaður í Framsóknarflokknum, skuli styrkja Samfylkinguna um 3 milljónir í gegnum eignarhaldsfélag sitt Ker ehf. Ker styrkir ekki Framsóknarflokkinn þetta ár, en Samskip veita styrk upp á 1,5 milljón. Samtals eru styrkir S-hóps tengdra fyrirtækja til Samfylkingarinnar 12 milljónir á meðan að styrkir S-hóps tengdra fyrirtækja til Framsóknarflokksins 6,5 milljónir. S-hópurinn var þá réttnefni eftir allt saman!

Í sjötta lagi vekur athygli að engin fyrirtæki tengd Finni Ingólfssyni er þarna að finna á styrktarlista Framsóknarflokksins. Hvorki t.d. VÍS eða Frumherji.

Í áttunda lagi er athyglisvert að innan allra flokka virðist vera ágætis aftenging á milli þeirra sem sjá um fjáröflun fyrir flokkana og þeirra sem leiða hið pólitíska starf, a.m.k. almennt - ef frá eru taldir ofur-styrkir.

Í níunda lagi er það von mín og vissa að atburðir síðustu daga hafi verið ágætis "detox" meðferð fyrir alla flokkanna. Þeir eru núna allir búnir að "laxera" þokkalega vel og hafa án efa lært sína lexíu. Og gleymum ekki að lögin um fjármál stjórnmálaflokka eru nú búin að vera í gildi í rúm tvö ár og var greinlega ekki vanþörf á þeim.

Í tíunda lagi vona ég að á þeim 12 dögum sem eru til kosninga geti allir flokkar snúið sér aftur að því að ræða það sem máli skiptir – framtíðina. Hvernig við endurreisum nýtt og betra Ísland. Um það vil ég fyrst og fremst heyra frá flokkunum og fulltrúum þeirra á lokaspretti kosningabaráttunnar.


 


 

þriðjudagur, 7. apríl 2009

Eftirlits ESB

Það er nett ESB-grýlufrétt á pressan.is þar sem segir frá nýrri "...tilskipun frá Evrópusambandinu til aðildarlanda sinna gerir netþjónustuaðila skylduga til að vista gögn um netnotkun áskrifenda sinna og eru þeir skuldbundnir til að geyma gögnin í að minnsta kosti ár." Samkvæmt fréttinni er tilskipunin umdeild og er m.a. vitnað í "...Jim Killock sem er forsvarsmaður samtakanna Open rights group sem beita sér fyrir einstaklingsfrelsi segir tilskipunina vera "brálæðislega" og að hún geti mögulega verið skaðleg einstaklingsfrelsinu."

Það sem veldur þessum titringi er m.a. að í "reglugerðinni felst meðal annars að skrár um hvert fólk sendir tölvupóst og við hverja talað er í netsímtali verða vistaðar. Innihald tölvupóstsins og símtalanna er þó ekki vistað."

Upplýsingar af þessu tagi geta vissulega verið viðkvæmar og við almenningur eigum að sjálfsögðu að vera meðvituð og vakandi yfir eftirlitsheimildum stjórnvalda.

Fréttin á pressan.is hefði hins vegar aukist að gæðum ef eftirfarandi hefði komið fram:

Í fyrsta lagi er umrædd reglugerð ekki ný. Hún var sett árið 2006 og tók gildi í september 2007.

Í öðru lagi settu margar þjóðir fyrirvara um gildistöku hennar, eða ákveðinna þátta hennar eins og þess sem vísað er til í fréttinni, þegar hún var sett. Þá má sjá í lok reglugerðarinnar.

Í þriðja lagi var nákvæmlega samskonar heimild sett í íslensk lög með breytingu á fjarskiptalögum árið 2005, en þar segir í 42.gr. 3.mgr.:

Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. skulu fjarskiptafyrirtæki, í þágu rannsókna sakamála og almannaöryggis, varðveita lágmarksskráningu gagna um fjarskiptaumferð notenda í sex mánuði. Lágmarksskráningin skal tryggja að fjarskiptafyrirtæki geti upplýst hver af viðskiptavinum þess var notandi tiltekins símanúmers, IP-tölu eða notandanafns, jafnframt því að upplýsa um allar tengingar sem notandinn hefur gert, dagsetningar þeirra, hverjum var tengst og magn gagnaflutnings til viðkomandi notanda. Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja vörslu framangreindra gagna og er óheimilt að nota eða afhenda umræddar upplýsingar öðrum en lögreglu eða ákæruvaldi í samræmi við ákvæði 3. mgr. 47. gr. Eyða ber umferðargögnunum að þessum tíma liðnum enda sé ekki þörf fyrir þau á grundvelli 2. mgr.

Evrópureglugerðin setur geymslukröfuna upp í eitt ár sem er að vísu hálfu ári lengri tími en skv. fjarskiptalögum.

Íslensku lögin eru sett ári áður en Evrópureglugerðin var sett og því má segja að ESB hafi með henni verið að fylgja okkar fordæmi í þessum efnum.

mánudagur, 6. apríl 2009

Nagladekk

Fór í morgun og lét taka nagladekkin undan bílnum. Nú er maður kominn á sumardekk og það er óneitanlega allt annað líf. Færri desbel í veghávaða, aksturinn allur mýkri og svo er þetta miklu betra bæði fyrir umhverfið og vegina.

Miðað við veðurspánna framundan er enginn ástæða a.m.k. hér á suðvesturhorninu að draga skiptin þó fresturinn sé formlega til 15. apríl.

Um að gera að koma sér í sumarskapið og drífa í dekkjaskiptum.

sunnudagur, 5. apríl 2009

Val Evrópusinnaðs sjálfstæðisfólks

Það hefur ekki farið dult að það sjálfstæðisfólk sem hlynnt er umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu á erfiða daga. Landsfundurinn um síðustu helgi varð þeim gríðarleg vonbrigði, eins og endurspeglast vel í leiðara ritstjóra Fréttablaðsins, Þorsteins Pálssonar, frá því síðasta þriðjudag, 31. mars.

Í þeim leiðara segir meðal annars um landsfund Sjálfstæðisflokksins:

Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði algjörlega aðild að Evrópusambandinu.

Málamiðlunartillaga fráfarandi formanns var útvötnuð. Fari svo að ríkisstjórn taki málið upp á Alþingi leggur landsfundur Sjálfstæðisflokksins til að farin verði flókin tafaleið með tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum.

Að því leyti sem landsfundur Sjálfstæðisflokksins lokar ekki á aðild er framvinda málsins og frumkvæði lagt í hendur VG. Þannig hafa bæði Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin, með gagnstæðum formerkjum, gert Steingrím Sigfússon að leiðarstjörnu landsins í Evrópumálum og um leið um lausn peningastefnunnar.

Ljóst er af þessum orðum ritstjórans, sem orðinn er einn skeleggasti talsmaður umsóknar Íslands um aðild að ESB, að hann telur stefnu flokks síns í Evrópumálum hreint fíaskó.

Og að framtíð málsins, og þar með þjóðarinnar, sé þannig algerlega í höndum Vinstri-grænna og Steingríms J. Sigfússonar.

Eins merkilegt og það nú er að þá er að finna innan Sjálfstæðisflokksins eldheitustu stuðningsmenn aðildar Íslands að ESB. Þetta ágæta fólk stendur nú frammi fyrir þeim valkosti að taka þjóðarhag fram yfir flokkshagsmuni.

Ef Evrópusinnuðu sjálfstæðisfólki er alvara með þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að sækja um aðild að Evrópusambandinu, á það ágæta fólk að beina atkvæði sínu þessar kosningar til annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins.

Þau eiga tvo skýra valkosti – þá flokka sem hafa aðildarumsókn skýrt og afdráttarlaust á sínum stefnuskrám – Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna.

Útkoma þessara tveggja flokka í kosningunum verður það sem fyrst og fremst ræður því hvort sótt verði um aðild að Evrópusambandinu strax í kjölfar kosninga.

Það liggur þegar fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn er úti í kuldanum að minnsta kosti næsta kjörtímabil. Allir aðrir flokkar hafa lýst því yfir að þeim hugnist ekki stjórnarþátttaka með flokknum – og eins og áður sagði, Evrópustefna flokksins er algert fíaskó.

Atkvæði greitt Sjálfstæðisflokknum verður þannig atkvæði með áhrifaleysi.

Atkvæði greitt Samfylkingunni mun styrkja ESB málstaðinn, en mun ekki draga úr úrslitaáhrifum Vinstri grænna.

Atkvæði greitt Framsóknarflokknum mun hins vegar hvorutveggja styrkja ESB málstaðinn og draga úr líkum á ægivaldi Vinstri grænna í Evrópumálum, og reyndar öðrum þjóðþrifamálum.

Evrópusinnað Sjálfstæðisfólk getur með atkvæði greitt Framsóknarflokknum þannig haft mun meiri áhrif á bæði hvernig ríkisstjórn verður mynduð hér á landi eftir kosningar og aukið verulega líkurnar á því að farið verði í aðildarviðræður við Evrópusambandið strax í kjölfar þeirra.

Skynsamlegast kostur Evrópusinnaðs sjálfstæðisfólks hlýtur því að vera að kjósa Framsóknarflokkinn á kjördag þann 25. Apríl næstkomandi.

X-B fyrir ESB.

laugardagur, 4. apríl 2009

Flottur Fogh

Það er full ástæða til að óska Atlantshafsbandalaginu og aðildarríkjum þess til hamingju með nýja framkvæmdastjórann, hinn geðþekka og eldklára danska forsætisráðherra og framsóknarmann Anders Fogh Rasmussen. Síðastliðin átta ár hefur hann gegnt embætti forsætisráðherra Danmerkur með miklum sóma og er vel að þessu embætti kominn.

Á alþjóðavettvangi má segja að Fogh hafi vakið athygli fyrir tvennt sérstaklega, annars vegar skörulega formennsku í ráðherraráði Evrópusambandsins síðari hluta árs 2002, m.a. að leiða til niðurstöðu stækkun ESB á einu bretti til tíu nýrra aðildarþjóða, og síðan vegna þess hvernig hann bar sig að í þeirri krísu sem varð vegna skopmynda af Múhammeð spámanni sem birtust í Jótlandspóstinum þann 30. September 2005. Í þeirri krísu, en hún verður ekki að raunverulegri krísu fyrr en í byrjun febrúar 2006, sýndi Fogh stefnu- og staðfestu sem reyndar virtist ætla að koma honum í koll á lokametrunum að þeim áfanga að verða framkvæmdastjóri bandalagsins. Í skopmyndakrísunni aftók nefnilega Fogh með öllu að biðjast afsökunar á gerðum annarra eða grípa til aðgerða gegn tjáningarfrelsinu. Vissulega lýsti hann vonbrigðum með myndirnar og sagði að sér þætti það leitt að fylgjendum spámannsins væri misboðið, en ekki lét hann teyma sig lengra en það.

Það hefði skotið verulega skökku við og verið Atlantshafsbandalaginu til hnjóðs hefði Fogh verið hafnað í stól framkvæmdastjóra vegna þess að hann tók afstöðu með tjáningarfrelsinu, einu af grunngildum lýðræðisins, í skopmyndamálinu. Sem betur fer voru allir leiðtogar Atlantshafsbandalagsins sammála um að láta slíkt ekki um sig spyrjast, þar með talið á endanum líka þeir sem veittu viðspyrnu hvað lengst. Seint og um síðir hefur leiðtogum Tyrklands væntanlega orðið það ljóst að forsendur fyrirvara þeirra við Fogh voru ekki forsvaranlegar.

Staðfesta Fogh og ríkisstjórnar hans í þátttöku innan Atlantshafsbandalagsins og í verkefnum þess, þar með talið í Afganistan hefur einnig leikið hér lykilhlutverk. Danir hafa verið með fórnfúsari þjóðum þar, bæði hvað varðar uppbyggingar- og þróunarstarf en einnig hvað varðar þátttöku í krefjandi öryggisaðgerðum. Danmörk er til dæmis ein fárra bandalagsþjóða sem leggur til hermenn í aðgerðir í hinu erfiða Helmand héraði í Suður-Afganistan.

Anders Fogh Rasmussen verður án efa fyrirmyndar framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.