fimmtudagur, 24. mars 2011

Myntbreytingaleið með meiru...

Hélt erindi via skype á fundi Hreyfingarinnar um Efnahagskerfi á tímamótum nú í kvöld, ásamt Lilju Mósesdóttur og Ársæl Valfells. Hér fyrir neðan fer mitt innlegg:

----------------

Ágætu fundarmenn,

Ég vil byrja á að þakka Hreyfingunni, og þá sérstaklega Þórði, fyrir að bjóða mér að taka þátt í þessum fundi og leggja á sig allar þessar tæknibrellur til þess að það geti gengið.

Tilefni þess að mér er boðið að vera hér með innlegg er jú það að síðastliðinn rúm tvö ár hef ég reglulega viðrað róttækar hugmyndir um tiltekt í íslenskum efnahagsmálum sem einblína fyrst og fremst á stöðu gjaldmiðilsins, kosti hans og galla. Þessar hugmyndir hef ég viðrað í myrkum skúmaskotum internetsins, á bloggi mínu á vefmiðlinum eyjan.is.

Í sem allra stystu máli ganga þessar hugmyndir út á að það að til þess að klára efnahagslega viðreisn Íslands eftir hrun verði líka að skipta um gjaldmiðil og því samhliða að taka á of mikilli skuldsetningu sem byggst hefur upp innan okkar myntkerfis.

Þetta verði gert með því til dæmis að beita misjöfnu gengi við yfirfærslu í nýja mynt, eftir því um hvaða fjárskuldbindingar er að ræða.

Þó hugmynd sem þessi hafi við fyrstu sýn á sér ákveðið kverúlanta-yfirbragð, er aðgerð sem þessi ekki óþekkt í hag- og heimsögunni. Þetta er afbrigði stýrðar gengisfellingar og dæmi um þessa aðferðafræði má finna hjá þjóðverjum á síðustu öld. Besta og skýrasta dæmið er upptaka þýska marksins árið 1948, sem fram fór á einum sunnudagseftirmiðdegi. Skiptin fóru þannig fram, í einfaldaðri mynd, að beitt var einu gengi m.a. á laun og húsaleigu, öðru á innstæður og því þriðja á stórar peningaupphæðir og fjárskuldbingar.

Þýskaland þá, öndvert við Ísland í dag, var vitanlega í rúst eftir stríð og stríðsrekstur. Það má segja að landinu hafi verið nauðugur sá eini kostur að grípa til róttækra aðgerða sem þessara. Hins vegar er það svo að þessi aðgerð þjóðverja var langt í frá óumdeild og var algerlega andstæð ríkjandi hugmyndum um hvernig ætti að byggja upp hagkerfi eftir meiriháttar áföll. Hernámsaðilar höfðu jú gripið til slíkra aðgerða strax 1945 og var ekkert annað á dagskrá hjá þeim en að herða enn frekar á þeim aðgerðum.

Hvaða aðgerðir voru það? Jú, höft og skammtanir af öllu tagi. Gjaldeyrishöft, viðskiptahöft, skattlagning og tollar, að ógleymdum hreinum vöruskömmtunum.

Kunnuglegt ekki satt?

Ísland hefur enn ekki gengið jafn langt, en við búum við gjaldeyrishöft, viðskiptahöft, og höfum mætt efnahagsvandanum með auknum sköttum, gjöldum og aukinni skuldsetningu.

Og við erum farin að upplifa eiginlegar vöruskammtanir. Dregið hefur stórlega úr vöruúrvali í verslunum, sumpart vegna beinnar afleiðingar annars rekstrarumhverfis, en einnig vegna skatta- og gjaldastefnu stjórnvalda.

Peningastefnustjórnunarvandi okkar er af sama meiði og þjóðverja eftir stríð - of margar krónur í umferð í formi peninga og annarra fjárskuldbindinga. Vandi þjóðverja var vissulega mun meiri og af hrikalegri ástæðum, en hagfræðilegi vandinn er í eðli sínu sá sami.

En hver er vandinn í raun?

Ef litið er til hagtalna Seðlabankans sést þetta ágætlega. Heildar innlendar skuldbindingar í íslenskum krónum undir lok síðasta árs, eru um 3.400 milljarðar. Það eru um 220% af þjóðarframleiðslu.

Peningamagn í umferð undir lok síðasta árs tæplega 1.450 milljarðar, um 94% af þjóðarframleiðslu.

Sambærilegar tölur fyrir tíu árum síðan, árið 2001, rúm 64% heildar innlend skuldbinding í krónum, og tæp 45% peningamagn í umferð, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu.

Það er í raun athyglisvert að skoða sérstaklega peningamagnið á síðustu mánuðum fyrir hrun.

Í júlí 2007 er peningamagn í umferð orðið rétt rúmlega þúsund milljarðar.

Í september 2008 – 14 mánuðum síðar – er það orðið rúmlega 1.420 milljarðar.

Eftir hrun heldur það áfram að aukast. Í nóvember er það orðið u.þ.b. 1.650 milljarðar.

Það hefur lækkað síðan, og er, eins og áður sagði, um 1.450 milljarðar í dag.

Hvað skýrir þessa verulegu aukningu?

Auðvitað kemur þar ýmislegt til, sem við hinir dauðlegu og ekki með hagfræðipróf frá Harvard getum ekki alveg skilið eða náð utan um, en ein af skýringunum er sjálfvirkni íslenska skuldabréfamarkaðarins í gegnum annars vegar verðtryggingu og hins vegar gengistryggingu.
Önnur skýring er þennslan á húsnæðimarkaði eftir innkomu bankana á húsnæðislánamarkað, sem hafði þau áhrif að húsnæðisverð og skuldsetning húsnæðis rauk upp.

Þriðja skýringin tengist svo að mínu viti meintum fölsunum á gengi hlutabréfa á íslenska hlutabréfamarkaðnum, þar sem menn með krosskaupum, eignarhaldsfélagaflækjum og lánum til hlutabréfakaupa til þess að keyra upp hlutabréfaverð, tókst í skjóli hins frjálsa markaðar og slaks eftirlits að í reynd prenta sér peninga.

Enn það er önnur saga.

Staðan er s.s. sú að mínu mati að skuldsetning íslensk efnahagslífs og peningamagn í umferð sé það hátt miðað við þjóðarframleiðslu að það sé ekki sjálfbært og eitthvað verði undan að láta.
Að við núverandi aðstæður sé fyrirsjáanlegt annað hrun gjaldmiðilsins við afnám gjaldeyrishafta.

Um þetta eru menn augljóslega ekki sammála. Bent hefur verið á að frá hruni höfum við búið við nettó gjaldeyrisinnstreymi og verulega breytta og jákvæðari stöðu viðskipta við útlönd. Einnig að erlendir eigendur krónubréfa hafi ekki fullnýtt heimildir sínar til þess að skipta vaxtagreiðslum í erlenda mynt og flytja úr landi, eins og þeim er þó heimilt.

Það er allt gott og blessað, og vissulega jákvætt. En á móti má velta því fyrir sér hvort þetta ástand sé sjálfbært til lengdar, í ljósi þess að lítið er um innflutning, hvort heldur sem er á fjárfestingavörum til atvinnuuppbyggingar og framleiðslu, og stórir innflutningsinnkaupaliðir almennings hafa hrunið, en líklega einungis tímabundið, svo sem hvað varðar bifreiðakaup. Einnig eru fyrirsjáanlegar miklar afborganir erlendra lána ríkisins á næstu árum.

Efnahagsleg tiltekt með upptöku annarrar myntar getur farið fram með ýmsum hætti. Það er hægt að fara hina hreinu þýsku leið og skipta um gjaldmiðil strax, eða á tiltölulega skömmum tíma, með mismunandi gengi.

Það má líka fara þessa leið í skrefum, eða eins konar markaðsleið, þ.e. byrja á því að færa einungis launagreiðslur yfir í hina nýju mynt, hafa hana án hafta, en halda þeirri gömlu áfram innan hafta.

Með þessum hætti væri komið upp fjölmyntakerfi í reynd. Höftin yrðu svo afnumin eitt af öðru í áföngum og markaðurinn réði skiptigenginu.

Þessi aðferð er í sjálfu sér í engu öðruvísi en líkleg leið seðlabankans til afnáms haftanna, nema hvað hér yrði launþegar í fyrsta sæti varðandi afnám, skuldabréfaeigendur kæmu síðar. Ef fara á leið þar sem velja þarf sigurvegara, er þá ekki alveg eins gott að velja vel?

Beiting mismunandi gengis er nefnilega ekki svo fjarri nútíma efnahagsstjórn. Seðlabankinn beitti afbrigði af þessari aðferð á síðasta ári þegar keypt voru skuldabréf í íslenskum krónum af seðlabankanum í Lúxemborg á allt öðru og mun lægra gengi en opinbert skráningargengi.

Framsóknarflokkurinn lagði til vorið 2009 að beitt yrði uppboðsleið, þ.e. að eigendum skuldabréfa yrði leyft að bjóða í gjaldeyri til að losa eignir héðan. Þar hefði s.s. orðið annað gengi en opinbert skráningargengi.

Og sú leið sem líklegast er að verði farin, afnám hafta í áföngum, verður sömuleiðis í reynd ekkert annað en misgengisleið, þar sem þeir sem fara fyrstir munu að öllum líkindum fara á skársta genginu, nema til komi aðrar ráðstafanir, eins og t.d. sérstök skattlagning á gjaldeyrisútflæði.

---

Það er rétt að taka það skýrt fram að efnahagsleg tiltekt af þessu tagi hefur takmarkað að segja ein og sér. Fleira verður að koma til.

Í fyrsta lagi verður að afnema hér verðtryggingu. Það að stórum hluta hagkerfisins sé alltaf hlíft, sama hvað á gengur, gerir það m.a. að verkum að aðlögun hagkerfisins eftir hrun gengur jafn hægt og raun ber vitni. Verðtrygging er fjármálaútgáfan af heróíni og við erum öll fíklar. Verðtryggingin er hegðunarvandamál sem ýtir undir aukna áhættu, sérstaklega einhliða áhættu skuldara, og aukna skuldsetningu umfram efni.

Í öðru lagi verður að taka hér til í skatta og gjaldakerfi. Eftir breytingar síðustu tveggja ára, með það skiljanlega markmið að auka tekjur ríkissjóðs, er kerfið orðið mun flóknara, ógagnsærra og erfiðara í rekstri en áður. Skatteftirlit, leyfi ég mér að fullyrða, er orðið mun erfiðara í framkvæmd en var fyrir hrun. Það verður að einfalda kerfið aftur og gera það skilvirkara.

Í þriðja lagi verða breytingar sem þessar að vera í samhengi við einhverja framtíðaráætlun um það hvert við stefnum. Ísland verður að fara að fá einhverja kjölfestu í lífsins alþjóðlega ólgusjó.

Við erum land sem treystir algerlega á viðskipti og samskipti við umheiminn. Það umhverfi verður að vera í lagi. Því tel ég að hvort heldur sem myntbreytingar leið verði farin, eða einhver önnur hefðbundnari, þá sé okkur það fyrir allra bestu að ljúka ICESAVE með samningum, segja já 9 apríl, halda áfram að stefna að aðild að Evrópusambandinu og, að samningum loknum, séu þeir ásættanlegir, ganga í ESB með þeim kostum og göllum sem því fylgir.

Ég reyndar hef nefnt þann valkost að með myntbreytingarleið nú gætum við tekið upp nýjan gjaldmiðil sem væri með sama gengi og evran. Jafnframt gætum við lýst yfir fastgengisstefnu til a.m.k. næstu 3 til fimm ára og sleppt því að gefa út okkar eigin mynt. Nýr gjaldmiðill væri eingöngu til rafrænn þar til að niðurstaða liggur fyrir um aðild Íslands að ESB. Evrur og sent yrðu samþykkt sem gildur lögeyrir og væri nýtt í stað eigin gjaldmiðils í daglegum viðskiptum. Verði aðild samþykkt, þá þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir. Verði aðild felld, þá verði hafin prentun og útgáfa eigin myntar með formlegum hætti á ný.

Enn þá gæti byrjað aftur hringrásin sem við þekkjum svo vel, gengissig og fellingar, verðtryggingin kæmi aftur og svo framvegis og svo framvegis.

miðvikudagur, 16. mars 2011

Krónur og leiðindi (tölfræði)

Miðdepill umræðu undanfarna daga, frá því að Lilja Mósesdóttir varpaði fram gjaldmiðilsnafnbreytingartillögu (flott orð!) sinni í Silfri Egils sl. sunnudag, ætti að vera hvort að núverandi gengi krónunnar sé að einhverju leyti sjálfbært til lengri tíma. Þ.e. getum við búist við því að geta undið ofan af gjaldeyrishöftunum án þess að núverandi gjaldmiðill hrynji frekar en það sem orðið er.

En, því miður, hefur umræðan að vanda meira snúist um hvað menn héldu að væri sagt og héldu að væri meint, en ekki hvað raunverulega var sagt og meint. Á því hafa þó verið undantekningar, sbr. fésbókarspjall okkar Gylfa Magnússonar sem ég birti í bloggpistli sl. mánudag.

Ég hef áhyggjur af því að m.v. núverandi stöðu gjaldmiðilsins og heildar stöðu skuldbindinga í íslenskum krónum sé núverandi gengi ekki sjálfbært og að við afnám hafta verði gengisfall óumflýjanlegt. Afnám þeirra í skrefum með hefðbundnum hætti muni fela í sér að þeir sem fái að fara fyrst muni geta gert það á hagstæðasta genginu. Almenningur mun síðan sitja eftir með ónýtan gjaldmiðil, verðtryggðar skuldir í hæstu hæðum og ríkistryggðar erlendar skuldir Seðlabanka sem stofnað var til í þeirri veiku von að gjaldmiðlinum væri við bjargandi.

Aðrir telja þetta ekki vandamál.

Til einföldunar birti ég eftirfarandi mynd:



Þessi mynd sýnir annars vegar heildar innlendar skuldir og hins vegar peningamagn í umferð (M3) sem hlutfall af vergri landsframleiðslu annars vegar 2001 og hins vegar 2010 (Byggt á gögnum frá Seðlabanka Íslands og Hagstofu).

Árið 2001 voru heildar innlendar skuldir rúm 64% af vergri þjóðarframleiðslu - 2010 eru þær orðnar tæp 220%.

Árið 2001 var heildar peningamagn í umferð (M3) tæp 45% af vergri þjóðarframleiðslu - 2010 er það tæp 94%.

Verg þjóðarframleiðsla hefur u.þ.b. tvöfaldast á þessum tíma (199,44%).

Heildar innlendar skuldir hafa tæplega sjöfaldast (680%).

Peningamagn hefur rúmlega fjórfaldast (420%).

Gengi evru hefur hækkað u.þ.b. 76%.

Er ótti minn um frekara fall gjaldmiðilsins ástæðulaus? Verður ekki eitthvað undan að láta?

mánudagur, 14. mars 2011

Krónur og Norður-Kórea

Minn ágæti skólabróðir úr Hagaskóla og MR, Gylfi Magnússon, linkaði "af engu sérstöku tilefni" þessa frétt inn á Facebook hjá sér í gær. Segir hún af aftöku yfirmanns fjármála Norður-Kóreu, en það var refsingin sem hann hlaut fyrir að hafa klúðrað upptöku nýs gjaldmiðils í landinu.

Ég gat ekki stillt mig um að skjóta á Gylfa að öðruvísi hefði farið fyrir þjóðverjum og setti í athugasemd tengil á grein um þýska efnahagsundrið og gjaldmiðilsskiptin 1948.

Í kjölfarið á því hófust orðaskipti okkar Gylfa um þýsku leiðina og hvort hún gæti átt við hér, kosti hennar og galla. Með góðfúslegu leyfi Gylfa birti ég megnið hér fyrir neðan, en ég vara við því að þetta er langt, en að mörgu leyti ágætt debat. Kannski eru þarna fróðleiksmolar sem aðrir geta haft gagn og gaman af:

(Hef reynt að leiðrétta sem flestar innsláttarvillur og fjarlægt kumpánleg ávörp okkar Gylfa á hvorn annan.)

Gylfi: "Bráðavandi krónunnar (fyrir utan allan króníska vandann) er að útlendingar eiga of margar krónur sem þeir vilja losna við. Þú leggur í grundvallaratriðum til að þær verði bara gerðar upptækar. Ég er til í að skoða það ef við töpum ...einhvern tíma heimsstyrjöld, stór hluti þjóðarinnar deyr eða örkumlast, minni hlutahópar eru sviptir eigum sínum og síðan sendir í útrýmingarbúðir, framleiðslutæki og innviðir eru meira eða minna sprengd í loft upp og stór hluti íbúðarhúsnæðis sömuleiðis, hungursneyð vofir yfir, landið hertekið, smækkað og því skipt í tvennt."

Friðrik: "Þjóðverjar gerðu þetta líka 1990 þegar þeir tóku yfir Ostmark. 4000 Ostemark fóru á genginu 1:1, en restin á 1:2. Þetta felur ekki í sér endilega upptöku, heldur frekar að færa krónueigur ALLRA nær raunvirði. Eða telur þú að núverandi gengi sé raunhæft án hafta? Tæpast, því þá þyrfti ekki höftin.

Það sem ég "legg til", eða réttara hreyfi við til umræðu, er að hægt er að fara í þetta með öðrum hætti með upptöku nýrrar myntar. Það má fara þýskuleiðina með fyrirfram ákveðnum mis-gengjum, eða það má fara þá leið að taka upp jafnhliða gjaldmiðil, samhliða núverandi og færa raunhagkerfið yfir í hann, þ.e. laun, ný lán, osfrv, en láta verð skuldbindinga ráðast hreinlega af markaði. Það mun þurfa að gera hvort eð er, með einum eða öðrum hætti, þegar að höftin verða afnumin.

Hingað til hef ég ekki heyrt mikið um með hvaða hætti það á að fara fram, öðru vísi en svo að gera það í áföngum, sem þýðir að einhver ætklar að taka að sér að velja sigurvegarana. Þ.e. hverjir fá að fara fyrst úr krónunni, og þá væntanlega á skársta genginu.

Einhvern veginn þurfum við að komast úr þessum vítahring. Þetta er ein leið. Ekki sú eina, en sýndu endilega spilin um hvað þú vildir leggja til. Bottom-line-ið er það að peningarstjórnunarstefnulega eigum við við sama vanda að glíma og þjóðverjar eftir stríð, of margar krónur í umferð í formi peninga og annarra fjárskuldbindinga. Vandi þjóðverja var vissulega mun meiri og af hrikalegri ástæðum, en hagfræðilegi vandinn var í eðli sínu sá sami.

Yfir til þín..."

Gylfi: "Þú misskilur alveg endalok austur-þýska marksins. Það var ekkert gert upptækt eða "fært nær raunvirði". Skiptigengið (sem var ýmist 1:1, 1:2 eða 1:3) var í öllum tilfellum afar hagstætt fyrir þá sem áttu austur-þýsk mörk, raunhæft gengi hefði verið u.þ.b. 1:5. Í þessu fólst því styrkveiting, frá Vestur-Þjóðverjum til Austur-Þjóðverja. Vanhugsað þó því að sá böggull fylgdi skammrifi að laun voru eftir þetta of há austanmegin m.v. framleiðni þar. Íslenska krónan er hins vegar nær örugglega talsvert undir eðlilegu gengi núna sem sést best á því að hagkerfið framleiðir jafnvirði 2-3 milljarða króna af gjaldeyri - nettó - í hverri viku. Það er auðvitað lykilatriði þegar rætt er um afnám haftanna."

Friðrik: "Yfirtaka austur-þýska marksins var vissulega gjafgjörningur Vestur-Þýskalands gagnvart austrinu, en breytir ekki því að beitt var misjöfnu gengi. Austur-þjóðverjum fannst sumum að vísu að sér vegið, en það er önnur saga. Fyrir ónýtan gjaldmiðil er náttúrlega fínt að hafa fengið að skipta á því gengi sem boðið var. Rétt eins og það er óskaplega þægilegt að geta skipt heima á gervigengi Seðlabankans. En eins og við báðir vitum þá er það gengi ekki "sustainable" til lengri tíma. Ef allt væri svona "hönkí-dorí" í gjaldeyrismálum þá þyrfti engin höft. En í stað þess hefur ekkert annað gerst en að höftin er styrkt og efld.

Vissulega er jákvætt að hagkerfið framleiði þetta af gjaldeyri, en það breytir því ekki að skuldbindingar í íslenskum krónum hanga yfir okkur eins og Damóklesarsverð. Heildar innlendar skuldir íslensks banka- og peningakerfis hafa vaxið úr tæpum 500 milljörðum 2001 í næstum 3.500 milljarða undir lok nóvembers síðastliðinn. Í lok árs 2001 var M3 peningamagn (samtala M2 (peningamagn og almenns sparifjár) og bundinna innlána) tæpir 343 milljarðar króna. M4 peningamagn (peningamagn og sparifé (M3) að viðbættri innlendri verðbréfaútgáfu) 392,6 milljarðar. Í lok árs 2007 voru gildin fyrir sömu mælingar peningamagns orðnar 1.230 milljarðar fyrir M3 og tæpir 1.637 milljarðar fyrir M4. Eftir hrun, í lok árs 2009 var staðan þannig að M3 stóð í 1.606 milljörðum. M4 var í lok árs 2008 komið í um 1.943 milljarða, en mér sýnist að sú tala hafi lækkað í um 1.626 milljarða undir lok árs 2009 sem endurspeglar væntanlega afskrift innlendrar verðbréfaeignar í kjölfar hrunsins.

Það eru of miklar skuldbindingar í íslenskum krónum innan okkar peningakerfis, eða það eru a.m.k. mínar áhyggjur. Of miklar til þess að standa undir núverandi gengisskráningu. Aftur, einhvern veginn þurfum við að brjótast út úr þessum vítahring. Hvað leggur þú til minn kæri?"

Gylfi: "Þetta eru háar tölur en minnst af þessu er eitthvað sérstakt vandamál. Það sem flækir afnám haftanna er tvennt, annars vegar krónueignir sem líklegt er að menn (erlendir sem innlendir) vilji skipta í aðra gjaldmiðla þegar höftin eru afnumin og hins vegar krónur sem eru fastar úti og munu streyma heim. Það síðara er raunar mun minna vandamál en hið fyrra. Hið fyrra þarf einfaldlega að leysa með því að afnema höftin í skrefum, hleypa eignum út í skynsamlegri röð og hafa gjaldeyrisforða sem stuðpúða. Það er í grundvallaratriðum ekkert sérstaklega flókið eða óviðráðanlegt. Hve hratt þetta getur gerst fer fyrst og fremst eftir því hve mikið streymi gjaldeyris verður í hina áttina, annars vegar vegna viðskiptajafnaðar og hins vegar vegna fjárfestinga.

Það er allt annað mál að án hafta verður gjaldmiðillinn fyrirsjáanlega hér eftir sem hingað til óstöðugur, bæði gengi og verðlag. Eignaupptaka með nafnbreytingu nú myndi engu breyta um það, a.m.k. ekki til batnaðar."

Friðrik: "Afnám hafta í skrefum er í sjálfu sér ekkert annað en það sem ég er að leggja til, nema með öfugum formerkjum! Þá velur þú einhverja sigurvegara sem fá að fara út á hærra gengi. Þannig mun það ganga koll af kolli, þar til að eftir situr almenningur og fær loks að skipta, en á versta genginu, þar sem ekkert bendir jú til annars en að við afnám hafta muni gengið falla jafnt og þétt. Það er og verður umframeftirspurn eftir gjaldeyri héðan í frá.

Öllu heiðarlegra væri þá að rífa gjaldeyrishaftaplásturinn af og leyfa markaðnum að ráða þessu, en á því er sá galli á gjöf Njarðar að við sitjum jú uppi með verðtryggingu, sem veitir einum hluta hagkerfisins alltaf óeðlilegt skjól. Ef markaðurinn ræður verði gjaldmiðilsins getur enginn kvartað um eignaupptöku. Eignaupptaka er síðan ekki raunveruleg, þar sem hún byggir á því að menn telji núverandi gengi endurspegla raunvirði gjaldmiðilsins. Ef það væri svo þyrfti engin höft. Seðlabankinn viðurkenndi það í reynd með kaupum sínum á krónuskuldbindingunum af Lúx í fyrra á aflandsgengi. Skv. þínum rökum fór þar fram "eignaupptaka"... eða hvað?"

Gylfi: "Gjaldeyrishöft eru í eðli sínu íþyngjandi og að einhverju marki hægt að jafna við eignaupptöku því að krónan er svipt hluta af greiðsluhæfi sínu (þ.e. það er t.d. ekki hægt að nota hana til að kaupa erlend verðbréf). Fyrir almenning á Íslandi er þetta yfirleitt ekki mjög íþyngjandi, það er hægt að nota krónuna óhindrað innanlands og til að kaupa vörur og þjónustu frá útlöndum sem er það sem skiptir íbúa landsins mestu. Fyrir erlenda fjárfesta sem sitja uppi með krónur er þetta mun meira íþyngjandi enda skiptir það greiðsluhæfi sem krónan missir vegna haftanna þá lykilmáli. Þeir sem eiga aflandskrónur eru svo í verstri stöðu því að þær krónur eru til skamms tíma nær algjörlega án greiðsluhæfis - m.a. þess vegna er aflandsgengið mjög lágt og ekki góð vísbending um framtíðargengi krónunnar án hafta.

Á móti kemur síðan að fyrir þá sem eiga krónur, bæði innlenda og erlenda aðila, er akkur í því að það takist að ná stöðugleika á gengið og leysa vandann vegna uppsafnaðra króna sem langar að verða evrur eða dollarar með skipulegum hætti. Það vill enginn þurfa að troðast út um stíflaða neyðarútganga.

Skipulagt afnám haftanna felur í sér að einhverjir fá að fara á undan öðrum en það þarf ekki að vera svo slæmt fyrir þá sem fara síðastir, sérstaklega ekki í ljósi þess að krónan mun nær örugglega styrkjast á næstu árum. Þess vegna m.a. er allt eins víst að sumir þeirra sem fá að fara snemma munu frekar bíða (sem sést nú þegar á því að ekki fer nándar nærri allt það fé úr landi sem má gera það skv. núverandi reglum). Það auðveldar auðvitað afnám haftanna og gerir það allt eins líklegt að hægt sé að afnema þau tiltölulega hratt.

Það er svo allt annað mál að færa má ágæt rök fyrir því að það hefði verið betra að sleppa höftunum alveg, fara í kalda sturtu (ofan á allt annað sem dundi á landanum) haustið 2008. Það hefði verið óþægilegt til skamms tíma en að öllum líkindum gengið tiltölulega hratt yfir. Sú leið var hins vegar ekki farin og úr því sem komið er kemur vart annað til greina en að afnema höftin í nokkrum áföngum."

Friðrik: "Bjartsýni þín er upplífgandi. Vona að þú hafir rétt fyrir þér þar sem ég tel littlar líkur á því að róttækninni verði beitt. Ég því miður er ekki jafn bjartsýnn. Um of finnast mér rökin byggjast á von en vissu - að þetta reddist. En þetta kemur allt í ljós. Vissulega er síðan alltaf auðvelt að vera vitur eftir á. En þakka spjallið. Alltaf gaman að taka þátt í vitrænum umræðum. Svo segja menn að Norður Kórea láti aldrei neitt gott af sér leiða...!"

Svo mörg voru þau orð. Sýnir að meira að segja róttækar hugmyndir er eftir allt saman hægt að ræða á grundvelli staðreynda og án upphrópanna, jafnvel þó menn séu ekki endilega sammála og takist ekki að sannfæra hvorn annan um "hið eina rétta" enda er ekkert svoleiðis til...!

sunnudagur, 13. mars 2011

Krónur og kennitölur...

Það eru að vekja einhverja athygli yfirlýsingar Lilji Mósesdóttur um upptöku nýs gjaldmiðils í Silfri Egils í dag. Þar sem henni gafst ekki tóm til að útskýra með hvaða hætti þetta gæti farið fram, annað en að vísa til reynslu þjóðverja í þessum efnum, leyfi ég mér að benda á t.d. á eftirfarandi pistil minn frá því undir lok síðasta árs - Plásturinn af.

Í stuttu máli gengur þessi aðferð, sem við skulum kalla þýsku leiðina, út á það að skipta út núverandi gjaldmiðli fyrir nýjan Á MISMUNANDI GENGI.

Ekki s.s. eins og gert var á Íslandi 1980 þegar einfaldlega 2 núll voru tekin af.

Ekki eins og í Argentínu með dollaravæðingu, eða í Svartfjallalandi þar sem Evra var tekin upp einhliða.

Nei, þetta er upptaka nýs gjaldmiðils þar sem hin óumflýjanlega og óumdeilda staðreynd að núverandi gjaldmiðill landsins er ónýtur og haldið uppi á platgengi með gjaldeyrishöftum er viðurkennd og afgreidd með róttækum hætti þannig að valdi sem minnstu uppnámi.

Það er hægt að gera það þannig að rífa plásturinn af og láta gengið falla, með tilheyrandi óðaverðbólgu og upplausn. Lokaniðurstaðan yrði á endanum sú að taka yrði upp nýjan gjaldmiðil, t.d. með þeim hætti sem þjóðverjar gerðu á Weimarlýðveldistímanum.

Það er hægt að gera það skref fyrir skref - velja sigurvegarana - þ.e. þá sem fá að fara fyrst á hæsta genginu. Það yrðu fyrst og fremst aflandskrónu- og skuldabréfaeigendur. Almenningur myndi hins vegar sitja uppi með tapið. Og á endanum munum við sitja uppi með ónýtan gjaldmiðil og þurfa að skipta honum út.

Það er líka hægt að krossleggja fingurnar og vona að þetta reddist, t.d. með aðild að ESB og Evru einhverntíma, mögulega, kannski, í langri framtíð. Getum við beðið? Sama hvort við erum með eða á móti aðild að ESB? Ég held ekki. Viljum við þar fyrir utan fara inn í ESB með fjárskuldbindingar ónýts gjaldmiðils á bakinu?

Og síðan er hægt að gera þetta með þýsku aðferðinni, þeirri hinni sömu og beitt var af þjóðverjum eftir lok seinni heimstyrjaldar, þegar þeir skiptu út Reichsmark fyrir Deutsche Mark. Best heppnaða efahagsaðgerð síðustu aldrar og leysti úr læðingi efnahagsundrið fræga.

Fyrir Ísland gæti þetta gerst t.d. svona:

Laun og innistæður að 20 þús evrum (lágmarkstrygging innistæða) er skipt á genginu 1:1.

Öðrum fjárskuldbindingum er skipt t.d. á genginu 1:4 til 10. Einnig má láta markaðinn ráða, eða setja mismunandi gengi eftir eðli fjárskuldbindinganna. T.d aðrar innistæður umfram lágmark, ríkisskuldabréf, hússnæðislán og lífeyrissjóðslán á 1:5, en allar aðrar fjárskuldbindingar á 1:10.

Þetta er allt útfærsluatriði, en meginmálið er þetta: Efnahagsaðgerð af þessu tagi er framkvæmanleg og reynsla þeirra sem hana hafa reynt hefur verið góð.

Já, í henni felst ákveðin eignaupptaka, en það er eignaupptaka á eign sem hefur ekkert raunverulegt virði nema platvirði gjaldeyrishafta.

Ein leið til þess að gera þetta væri að taka upp nýjan gjaldmiðil með sama skráningargengi og Evru. Jafnframt taka upp tímabundna fastgengisstefnu til ákveðins tíma, t.d. 5 ára. Að þeim tíma loknum væri án efa orðið ljóst hvort Ísland yrði aðili að ESB. Ef svo, þá yrðu skiptin yfir Evru án vandkvæða. Ef ekki, þá yrði gjalmiðlinum leyft að fljóta að nýju.

Að mínu mati yrði að fylgja aðgerð af þessu tagi ákveðin tiltekt í efnahagsmálum almennt, s.s. algert afnám verðtryggingar og helst tiltekt og einföldun í skatta- og gjaldaumhverfi landsins.

Er svo galið að fylgja fordæmi þjóðverja í efnahagsmálum og efnahagsaðgerðum?

(PS: Seðlabanki Íslands hefur þegar framfylgt "misgengisstefnu" t.d. þegar að samningurinn var gerður við Seðlabankann í Lúxemborg í fyrra.)

Edge of Sanity

Kominn á jútjúb...