sunnudagur, 13. september 2009

Munum eftir smáfuglunum!

Nú þegar hausta tekur fara í hönd erfiðir tímar fyrir smáfuglana, sérstaklega þá sem eru illa búnir fyrir blautt haust og kaldan vetur.

Þá er kannski við því að búast að þeir séu eilítið hvumpnir.

Svo virðist eiga við um smáfuglana á AMX, sem virðast í miklu uppnámi yfir ákalli mínu eftir alvöru ESB andstöðu í bloggpistli frá því fyrr í dag.

Í pistlinum “Framsóknarmaður á ESB hraðferð” býsnast smáfuglarnir yfir því að ég leyfi mér að gagnrýna andstæðinga aðildar fyrir málefnaþurð.

Pistillinn reyndar er dæmigerður fyrir nákvæmlega það sem ég var að kvarta yfir í pistlinum frá því í morgun – upphrópanir og útúrsnúningar, stutt staðleysum og jafnvel hreinni dellu.

Smáfuglunum til hugarhægðar telur sá sem þetta ritar það auðvitað vera sjálfsagt markmið að íslenska verði eitt af opinberum tungumálum ESB. Það er jú hluti af samningunum. Enn sem komið er Ísland þó rétt í upphafi aðildarumsóknarferilsins og því alls ekki óeðlilegt að upplýsingaskipti á milli Íslands og ESB fari fram á ensku.

Ísland er ekki orðið aðildarríki ennþá.

Hvort hins vegar íslensk stjórnvöld kjósa sjálf að þýða þennan ágæta spurningalista er hins vegar allt annað mál og kemur í sjálfu sér aðildarumsóknarferlinu lítið við. Það er einfaldlega íslenskt innanríkismál.

Smáfuglunum til frekari upplýsinga að þá vill svo til að í flest öllu okkar alþjóðasamstarfi fara öll vinnusamskipti fram á erlendum tungum og ekki íslensku. Smáfuglarnir gætu t.d. leitað um það upplýsinga hjá Birni Bjarnasyni um það hversu mikið af samskiptum hans fyrrum ráðuneyta við erlenda samstarfsaðila, vegna t.d. Schengen eða menntamála, fóru fram á íslensku.

Ef til aðildarsamnings kemur, þá verður hann og öll hans fylgigögn þýdd á íslensku.

Ef til aðildar að ESB kemur, þá verður íslenska eitt af opinberum tungumálum ESB.

Umræða um aðildarumsókn Íslands, ferli hennar og hugsanlega niðurstöðu á miklu fremur að snúast um inntak og efni. Hingað til ber meira á nöldri um umbúðir.

En það er farið að kólna svo það er kannski skiljanlegt að smáfuglarnir nöldri!

Alvöru ESB andstöðu, takk!

Nú þegar aðildarumsókn Íslands er farin af stað í hið hefðbundna undirbúningsferli er óneitanlega jákvætt að ferlið a.m.k. byrjar þokkalega opið og gegnsætt. Stóri spurningalistinn er birtur í heild sinni og stækkunarstjórinn Olli Rehn kom galvaskur til landsins og ræddi við mann og annan um ferlið.

Hér hefði nú aldeilis verið tilefni til þess að hrista upp alvöru umræðum um umsóknina, hugsanlega ESB-aðild og kosti þeirra og galla. Og hér hefði maður haldið að stóra tækifæri andstæðinga aðildar væri komið til að afhjúpa þetta skelfilega Evrópusamband.

En nei. Kannski eru þeir eftir allt svona kurteisir, eða þá að röksemdabanki andstæðinga aðildar er jafn tómur og innistæðutryggingasjóður!

Því ef að helstu stjörnum andstöðunnar við aðild Íslands að ESB kom ekkert betra í hug en annars vegar að tyggja upp kjánalega þvælu um að Íslands tæki sko alls ekkert upp 2/3 hluta lagasetningar ESB og að það sé alveg hræðilegt að svara þurfi spurningalista ESB á útlensku þá má hamingjan hjálpa okkur.

Hjörtur J. Guðmundsson segir t.d. í pistli sínum á AMX þann 8. september síðastliðinn:
“Heildar lagasetning Evrópusambandsins er talin vera í kringum 30 þúsund gerðir. Heildarfjöldi íslenzkra lagagerða er hins vegar aðeins í kringum 5 þúsund. Þar af eru um eitt þúsund lög en afgangurinn er reglugerðir. Þetta þýðir einfaldlega að jafnvel þó öll íslenzk löggjöf kæmi frá sambandinu væri hún minna en 20% af heildar lagasetningu þess.
Hvernig er þá hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi þegar tekið upp a.m.k. 2/3 hluta lagasetningar Evrópusambandsins?”

Svarið við þessu er einfalt, eins og ég hef reyndar bent á í fyrri pistlum og erindum um ESB:

Staðreyndin er sú að dag er upp undir 100% af regluverki Evrópusambandsins sem varðar innri markaðinn tekið upp í EES, að undanskildu því regluverki sem varðar sameiginlega stefnu ESB í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og tollamálum. Langstærsti hluti "gerða" ESB er vegna þessara þriggja þátta, enda er þar meðal annars um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir tengdum ýmsum smærri afgreiðslum. Dæmi um slíkt gæti verið tímabundin lokun sláturhúss í Danmörku vegna salmonellusýkingar. Tilkynning um slíka lokun, og síðar um enduropnun, fær samt gerðanúmer og telst með í heildartölum um fjölda "gerða", jafnvel þó að viðkomandi "gerðir" hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt sláturhús.
Þetta er skýringin á því af hverju andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta fullyrt að raunverulegar tölur um innleiðingu "gerða" ESB í landslög á Íslandi sé einungis 6,5%. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert ríki ESB leiðir allar "gerðir" í landslög. Á því er ekki þörf. Innleiðing í landslög fer eftir eðli, umfangi og viðfangsefni gerðarinnar.”

Og Björn Bjarnason, á sama miðli, þann tíunda September síðastliðinn tekur upp einhverja sérkennilegustu málsvörn fyrir íslenska tungu sem sést hefur frá fullveldisstofnun:
“Mál íslenska stjórnkerfisins er íslenska og óeðlilegt, að embættismönnum sé gert skylt að vinna málefni, sem snerta þjóðarhag á annarri tungu. Leggja á íslensku til grundvallar í þessum aðildar-samskiptum við ESB, svo að Íslendingar njóti vafa vegna tungumálsins og þeirra tunga ráði. Hafi þessi krafa ekki verið sett fram við ESB, lýsir það aðgæsluleysi.”

Nú er málsvörn um íslenska tungu allra góðra gjalda verð, en hjálpi mér hamingjan. Er Björn Bjarnason að leggja til þá nýlundu að í þessum alþjóðasamningaviðræðum verði allt þýtt, og þá helst að allar viðræður fari fram með túlkum?

“Lighten up, Francis!”

Þetta er hrein nýlunda og aldrei áður hefur þessi komið fram í nokkrum alþjóðasamningum Íslands hingað til. Ekki EES, ekki Schengen, ekki EFTA, ekki fríverslunarsamningum, ekki NATO aðildarsamningnum, ekki varnarsamningnum. Aldrei. Niðurstaðan er vissulega oftast nær þýdd, svo og fylgiskjöl, og jafnvel þess dæmi að samningar tekjist jafngildir á fleiri en einu tungumáli, og þá íslenskan þar með talin. Ekki er annað að sjá að en að þetta þjóðernis- og málverndarátak Björns Bjarnasonar eigi sér neinn annan tilgang en að kitla undir einhverri misskilinni og óþarfri þjóðrembu.

Okkar allra vegna, má ég biðja um alvöru ESB andstöðu sem byggir á málefnalegum rökum en ekki einhverjum bullþörfum, hártogunum, og þvælu um að ESB banni bognar gúrkur og banana!

En kannski endurspegla þessir pistlar einfaldlega málefna- og röksemdafátækt ESB andstöðunnar og því munum við sitja uppi með fjarstæðu- og farsakenndar upphrópanir.

Sem er synd, því það hljóta að vera hagsmunir allra að samningar við ESB verði sem bestir. Það á einnig við um andstæðinga aðildar, ef svo fer að þrátt fyrir andstöðu þeirra samþykki þjóðin aðild.

Íslensku samninganefndinni verður hins vegar lítið hald eða stoð í andstöðuorðagjálfri sem þessu.

fimmtudagur, 3. september 2009

Afkomutenging er engin lausn

Nú eru aftur komnar á flot hugmyndir um afkomutengingu lána til þess að “leysa” greiðsluvanda heimilanna.

Þetta er fix-ídea sem sett hefur verið fram af ýmsu góðu fólki, sem gengur án efa ekkert nema gott eitt til. Nú síðast Þórólfur Matthíasson. Eftir hendingu man ég eftir að Hallur Magnússon vinur minn hafi talað fyrir þessu frá því síðastliðið haust, og síðastliðinn vetur skrifuðu þeir saman grein þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson um Lín-leiðina. Hún gekk út á þetta sama – greiðslugetutengja með einhverjum hætti afborganir fasteignalána.

Á sínum tíma ritaði ég hér lítið andsvar við grein Jóns og Gauta undir yfirskriftinni “Vandaveltuleiðin”.

Allt sem þar er skrifað stendur enn, og gott betur. Aðferðafræði af þessu tagi gerir ekkert annað en að fresta vandanum. Þannig munu lánin halda áfram að hlaða utan á sig, enda bera þau bæði vexti- og verðtryggingu. Þessi lán verða því áfram eitruð lán í bókhaldi bankanna þar sem veðin sem að baki liggja duga ekki fyrir skuldinni. Það sem meira er, jafnvel þó að fasteignamarkaður rétti úr kútnum eru engar líkur á því að það auki hlutfallslegt veðhæfi, enda reiknast hækkun á fasteignaverði beint inn í vísitöluna og hækkar lánin.

Með þessari aðferð verða þannig þorri íslenskra fasteignalána ennþá verri “sub-prime”-lán – sem voru jú steinvalan sem ýtti af stað hruninu. Áfram verður þannig haldið áfram að falsa efnahagsreikninga bankanna með því að halda þar inni lánum á fullu verði sem engin veð eða raunveruleg greiðslugeta hvíla á bak við.

Þessi aðferðarfræði festir einnig fólk í núverandi fasteign um aldur og ævi. Ungt fólk mun aldrei geta stækkað við sig í samræmi við fjölskyldurstærð og eldra fólk ekki minnkað við sig. Sala á fasteignum sem eru í slíkum veðskuldbindingum er óframkvæmanleg, því þá verður með einum eða öðrum hætti að fara fram uppgjör á láninu.

Þar með verður fólk fast í eilífri skuldagildru, þó formlegu gjaldþroti verði frestað fram að andláti.

Lánasjóðurinn er ekki fyrirmynd. Hann er félagslegur sjóður til að tryggja jafnan aðgang til náms, ýta undir framtíðar verðmætasköpun með því að efla menntun og lánin þar eru að jafnaði mun takmarkaðri en nokkurn tíma á við um fasteignalán. Þó hefur orðin ákveðin lánasprengja þar vegna fjölgunar á prívatháskólum og aukinni þátttöku sjóðsins í greiðslu skólagjalda.

Margfeldisáfhrif á lánum LÍN eru einnig minni, þau bera einungis 1% vexti umfram verðtryggingu. Engu að síður hafa þau aukist gífurlega á undanförnum árum vegna verðbólgunnar. Sjálfur er ég stórskuldari hjá LÍN. Á tveimur árum hefur skuld mín við LÍN farið úr tæpum 12,5 milljónum í tæpar 15,8. Það er 3,3 milljóna króna hækkun á 24 mánuðum, eða tæplega 140 þúsund krónur á mánuði...!!!

Svo er þar fyrir utan ekkert framundan hjá flestum lánagreiðendum annað en frekari tekjuskerðing, því laun eru jú að lækka, skattar að hækka, og verðbólgan er áfram í tveggja stafa tölu.

Afkomutenging er engin lausn. Hún er skammgóður vermir, leið til heljar fyrir almenning, bankana og hið opinbera.

En reyndar vörðuð góðum ásetningi!