fimmtudagur, 30. desember 2010

Plásturinn af...

Það streyma fram tíðindin í efnahags- og peningamálum nú í lok ársins. Seðlabankinn birti skýrslu um peningastefnu eftir höft skömmu fyrir jól og strax eftir jól birti efnahags- og viðskiptaráðherra grein með vangaveltum um framtíðarfyrirkomulag peningamála.

Helgarblaðið Fréttatíminn birtir svo í dag ágæta umfjöllun um fyrrnefnda skýrslu, grein ráðherrans og stutt viðtöl við pólitíska fulltrúa annarra stjórnmálaflokka.

Eins og við er að búast greinir menn á um leiðir, en í grein efnahags- og viðskiptaráðherra er kallað eftir víðtæku samráði um framtíðar peningastefnu. Seðlabankinn virðist helst mæla með að stefnt verði að upptöku evru með aðild að ESB, en hugsanlegur næst-skársti kostur sé einhverskonar fastgengisstefna gagnvart evrunni.

En allt er þetta víst erfitt, flókið og ekki til neinar patentlausnir.

Sem er er ekki alls kostar rétt.

Málið er að þetta þarf ekki að vera sérstaklega flókið og víst eru til patentlausnir. Vandinn er kannski einna helst sá að menn neita annars vegar að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir og hins vegar að líta til þeirra fordæma sem finna má í ekki allt of fjarlægri fortíð m.a. frá einhverju best heppnaða hagkerfi veraldar.

Má ég reyndar til með að skjóta hér að gagnrýni á hagfræðikennslu hér á landi sem virðist einblína á töflureiknishagfræði, en kennir ekki hagsögu að neinu marki, nema að því er virðist lítin kúrs um sögu hagkenninga.

Flestir virðast sammála um það að okkar núverandi gjaldmiðill, íslenska krónan, sé meira og minna ónýt. Samt er hummað og ha-að yfir því að gera það sem nauðsynlegt er, og veita henni náðarhöggið. Í skjóli gjaldeyrishafta og verðtryggingar er lífi haldið í gjaldmiðlinum í þeirri veiku von, sem er vissulega mjög íslensk, að "þetta reddist".

Peningamagn úr böndunum

Mikið hefur gert úr því að eitt af því sem veldur erfiðleikum varðandi hugsanlegt afnám gjaldeyrishafta er hvernig erlendir eigendur íslenskra peningabréfa bregðist við. Munu þeir allir ryðjast á brott og skipta sínum íslensku peningaeignum í erlendan gjaldeyri eins fljótt og auðið er? Svarið við þeirri spurningu er einfalt já, og þar sem talið er að þær eignir hlaupi á hundruðum milljarða (líklega kringum 400 rekur mig minni til) er nokkuð ljóst að gengið getur ekki annað en hrunið þar sem m.v. núverandi gengi myndi gjaldeyrisforðinn nokkurn veginn klárast að óbreyttu eingöngu við að hleypa útlendingunum á brott.

Stærra mál sem menn hafa algerlega leitt hjá sér er krónueign innlendra aðila. Af hverju ætti nokkur íslendingur að vilja halda í peningabréfaeign í íslenskum krónum við afnám hafta? Þrýstingurinn við afnám gjaldeyrishafta verður þ.a.l. engir 400 milljarðar, heldur eflaust nær 1000 ef ekki meira.

Í þessu samhengi er gott að líta til þess hverjar krónuskuldbindingarnar í íslenska hagkerfinu eru og hvernig þær hafa vaxið. Peningamagn í umferð hefur margfaldast á undanförnum áratug, og það sem athyglisverðast er, er að það hefur áfram aukist eftir hrun.

Í lok árs 2001 var M3 peningamagn (samtala M2 (peningamagn og almenns sparifjár) og bundinna innlána) tæpir 343 milljarðar króna. M4 peningamagn (peningamagn og sparifé (M3) að viðbættri innlendri verðbréfaútgáfu) 392,6 milljarðar. Í lok árs 2007 voru gildin fyrir sömu mælingar peningamagns orðnar 1.230 milljarðar fyrir M3 og tæpir 1.637 milljarðar fyrir M4. Eftir hrun, í lok árs 2009 var staðan þannig að M3 stóð í 1.606 milljörðum. M4 var í lok árs 2008 komið í um 1.943 milljarða, en mér sýnist að sú tala hafi lækkað í um 1.626 milljarða undir lok árs 2009 sem endurspeglar væntanlega afskrift innlendrar verðbréfaeignar í kjölfar hrunsins.

Heildar innlendar skuldir íslensks banka- og peningakerfis hafa vaxið úr tæpum 500 milljörðum 2001 í næstum 3.500 milljarða undir lok nóvembers síðastliðinn. Heildar erlendar skuldir í íslenskum krónum talið hafa aukist úr 417,5 milljörðum 2001 í tæpa 433 milljarða í lok nóvember sl. eftir að hafa risið hæst skv. tölum Seðlabankans í rúma 10 þúsund milljarða 2008.

(Þeir sem vilja skoða gögn seðlabankans geta gert það hér í Ársskýrslu 2008, bls. 62, Árskýrsla 2009, bls. 84, og nýjustu upplýsingar um stöðu bankakerfisins í bankatöflum Seðlabankans.)

En í stuttu máli er staðan orðin þannig varðandi okkar ágæta gjaldmiðil að skuldbindingar honum tengdar eru komnar langt út fyrir öll velsæmismörk og það sem getur talið sjálfbært í okkar hagkerfi, sérstaklega í kjölfar hrunsins. Það er ekki hægt að skattleggja þjóðina út úr þessum vanda, það verður að gengisfella hana út úr þessum vanda.

Það gengisfall getur hins vegar ekki orðið með hefðbundnum hætti þar sem það myndi einfaldlega þýða hrun þjóðfélagsins, auk þess sem hið eilífa fjármálaheróinfix íslenska fjármálakerfisins, verðtryggingin, kemur í veg fyrir að slík leiðrétting gangi alla leið.

Þýska leiðin

Sú staða sem Ísland er í, er í sjálfu sér ekki einstök og hægt er að ná þjóðinni úr þessu öngstræti, en með mjög róttækum aðgerðum. Fyrsta skrefið á þeirri leið er að aflétta þeim hugsunarhætti að peningaleg eign njóti sérstakrar ofurverndar umfram aðrar eignir. Það verður að slíta þann streng. Vissulega gæti staðan verið ennþá verri, hefðu stjörnvöld haustið 2008 reynt að ábyrgjast erlendar skuldbindingar bankakerfisins, en sem betur fer var það ekki hægt. Vandinn er hins vegar sá að meira og minna var gengist í ríkisábyrgð fyrir öllum innlendum skuldbindingum banka- og peningakerfisins, langt umfram efnilegar innistæður. Það er sá vandi sem hangir yfir okkur í dag og reynt er að ýta á undan okkur með gjaldeyrishöftunum fyrst og fremst.

Þýskaland hefur í þrígang á síðustu öld staðið frammi fyrir þeim vanda að vera með ónýtan gjaldmiðil. Í öll þrjú skiptin var gripið til óvenjulegra og mjög róttækra aðgerða sem allar gengu upp efnahagslega. Fyrst gerðist það 1923-24 þegar Þýskaland náði sé út úr vítahring óðaverðbólgu með upptöku rentenmark og síðar reichsmark. Í annað sinn gerðist það 1948 með upptöku Deutsche Mark í stað Reichsmark, og í þriðja sinn gerðist það 1990 við sameiningu Þýskalands og útskiptinu austur-þýska marksins fyrir það vestur-þýska.

Gjaldmiðilsbreytingin 1923-24 var gert í reynd auðveldar fyrir þar sem allar peningalegar eignir í þáverandi þýskum gjaldmiðli höfðu þá þegar brunnið upp á verðbólgubálinu mikla.

Gjaldmiðilsbreytingin 1948 hins vegar varð hins vegar þess valdandi að auðlegð sem eingöngu byggðist á peningalegum eignum þurrkaðist nánast upp. Það hins vegar var það verð sem greiða þurfti fyrir efnahagslega endurreisn Þýsklands.

Kjarninn í gjaldmiðilsbreytingunni 1948 var hins vegar sú að í fyrsta lagi var ákveðið að taka upp nýja mynt, Deutsche Mark í stað Reichsmark. Í öðru lagi, og öllu mikilvægara, var sú ákvörðum að mismunandi gengi yrði á yfirfærslum fjárskuldbindinga úr gamla gjaldmiðlinum yfir í þann nýja. Laun t.d. fóru á genginu einn á móti einum, smærri peningaeignir á genginu tíu á móti einum, en stærstu fjárskuldbingar á genginu tíu á móti 0,65 (0,65 Deutsche Mark fengust s.s. fyrir hver 10 Reichsmark).

Samhliða þessari breytingu var jafnframt aflétt flestum viðskiptahindrunum, gjaldeyrishöftum og vöruskömmtunum. Og já, einnig voru skattar lækkaðir og skattkerfið einfaldað.

Afleiðingin var sú að þýskt efnahagskerfi hrökk í gang og framhaldið var líkast kraftaverki, enda æ síðar kallað wirschaftswunder, eða efnahagsundur. (Lesa má eilítið um þetta hér og hér.)

Sama grundvallarregla var síðan höfð til viðmiðunar við sameiningu Þýskalands, laun fóru á einu gengi, innistæður á öðru og stærri fjárskuldbindingar á því þriðja.

Lærdómur fyrir Ísland?

Af efnahagssögu Þýskalands á síðustu öld má því draga ýmsa lærdóma fyrir Ísland í þeirri stöðu sem landið er nú statt í. Fyrst og fremst þá að smáskammtalækningar duga skammt og draga einungis sársaukan á langinn. Núverandi stjórnvöld tóku vissulega við erfiðu búi, en ef ekki verður gripið til róttækra aðgerða má allt eins búast við núverandi stjórnar verði alveg eins minnst sem hrunstjórnar tvö, eða stjórnar hinna glötuðu tækifæra.

Hér mætti t.d. fara út í sambærilegar aðgerðir og í Þýskalandi með upptöku nýs gjaldmiðils og beitingu mismunandi gengis við yfirfærsluna. Laun, lágmarksinnistæður og almennt vöruverð færu á einu gengi, en allar stærri fjárskuldbindingar á öðru og mun lægra gengi. Öll ríkisskuldabréf, húsbréf o.s.frv. yrðu innkölluð og gefin út ný í nýjum gjaldmiðli. Og já, verðtrygging yrði afnumin í einum vettvangi. Í þessu fælist stórtæk niðurfærsla peningalegra eigna og –skulda.

Til þess að auðvelda og flýta þessari aðgerð væri t.d. hægt að taka upp nýjan íslenskan gjaldmiðil sem hefði nákvæmlega sama gengi og Evran og því lýst yfir að til a.m.k. næstu 5 ára yrði fylgt hreinni fastgengisstefnu. Samhliða yrði því lýst yfir að Evra væri gjaldgeng sem lögeyrir á Íslandi og þá mætti í reynd spara sér útgáfu á nýja íslenska gjaldmiðlinum í seðlum og myntum og eingöngu hafa hann sem rafrænan gjaldmiðil. Seðla- og myntþörf yrði einfaldlega mætt með því að nota evrur.

Róttæk aðgerð af þessu tagi yrði sambærileg við það að rífa plástur af sári. Það að viðhalda sáraumbúðum og bómullarinnpökkun krónubréfaeigenda er nokkuð sem við höfum ekki efni á, og langdregið afnám sáraumbúðanna mun einungis valda illbærum sársauka og tjóni.

föstudagur, 17. desember 2010

Friðarflan

Það er jafnan erfitt að eiga í vitrænum umræðum á Íslandi um öryggis- og varnarmál. Tilhneigingin er svo rík hjá mörgum að detta í kúmbæja-ruglið um hina friðelskandi og herlausu þjóð.

Eins og íslendingar séu með eitthvað ríkari friðarþrá en aðrir.

Hins vegar er þetta bábilja sem alið hefur verið á árum og áratugum saman. Ágætis mýta sem á ákveðnar rætur í þeirri niðurlægingu sem landið varð fyrir þegar það var afvopnað af erlendum konungi. Reyndar einkum til að bjarga þjóðinni frá sjálfstortímingu, enda hafði fram að þeirri afvopnun allt logað hér í ættbálkastyrjöldum.

Í kjölfar þeirrar ógnar viðburða sem urðu í fyrri heimstyrjöldinni, samhnýtt við nýfengið fullveldi og hlutleysisyfirlýsingar frændþjóða, að viðbættri þeirri staðreynd að sökum fámennis var vart hægt að stofna á Íslandi mikinn alvöruher, var búin til mýtan um hina herlausu og friðelskandi þjóð. Verður að segjast að það er líklega með betur heppnuðum innri ímyndar "herferðum" á Íslandi, því ótrúlega margir virðast ginnkeyptir fyrir henni.

Mýta þessi hefði náttúrulega átt að líða undir lok strax í maí 1940 þegar landið var hernumið af bretum. Enn frekar ári síðar þegar að herverndarsamningurinn var gerður við Bandaríkin.

En í hana var haldið. Meira að segja vildi hin "friðelskandi" þjóð ekki verða stofnaðili af Sameinuðu þjóðunum þar sem í því hefði falist að bein pólitísk afstaða hefði verið tekin með bandamönnum gegn möndulveldunum.

Ísland gerði s.s. í alþjóðapólitísku samhengi engan greinarmun á nasistum og bandamönnum. Já, það má vera stolltur af slíkri friðarást!

Sem betur fer rann þó af ráðamönnum ruglið og ekki var einungis gengið í Sameinuðu þjóðirnar heldur og gengið í varnarbandalag vestrænna þjóða, NATO, ásamt því að gerður var varnarsamningur við Bandaríkin. Lauk þar með í reynd herleysi Íslands. Her hefur nefnilega verið nokkurn veginn samfellt hér á landi frá 1940 til 2006 með fullri vitund og vilja íslenskra stjórnvalda. Frá 2006 hefur vera herliða í landinu verið stopulli, en hún er þó viðvarandi og í samræmi við alþjóðaskuldbindingar og óskir íslenskra stjórnvalda.

Í þessu samhengi er skemmtilegt að skoða tvær fréttatilkynningar frá því í gær. Önnur er frá borgarráði, samþykkt samhljóða, og er "áskorun á utanríkisráðuneytið og flugmálayfirvöld að beita sér fyrir því að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll verði stöðvuð."

Hin er fréttatilkynning utanríkisráðuneytisins um að lokið sé gerð "alþjóðasamnings um leit of björgun á norðurslóðum."

Hún er ósköp falleg hugsunin á bakvið áskorun borgarráðs, en hún er kjánaleg, og jafnvel beinlínis lífshættuleg.

Fyrir utan það að þó það herflug sem fer um Reykjavíkurflugvöll sé yfirleitt frekar sakleysislegt, þá er sumt af því okkur lífsnauðsynlegt. Borgarráð t.d. virðist ekki gera sér grein fyrir að allt flug þyrla af dönskum varðskipum er herflug. Dönsk varðskip eru nefnilega herskip og tilheyra danska flotanum. Í því hallæri á undanförnum árum sem Landhelgisgæsla Íslands hefur búið við í þyrlumálum eru ófá skiptin sem okkar dönsku vinir hafa hlaupið undir bagga. Það er vísast fyrir bí ef áskorun borgarráðs fær einhvern byr.

Og auðvitað ef borgin ætlar að vera samkvæm sjálfri sér, þá hýtur hún að banna ferðir herskipa um hafnir Reykjavíkur, þ.a. ekki verða þá varðskip okkar næstu granna velkomin meir. Hvað þá flotaheimsóknir NATO eða t.d. þýskra skólaskipa sem tilheyra flotanum þar í landi.

Ekki verður viðeigandi heldur að halda aftur ráðherrafundi NATO í Reykjavík, hvað þá ráðstefnur á þess vegum um Norðurslóðir.

Öryggis- og varnarsamtarf við Norðurlöndin og aðrar nágrannaþjóðir getur heldur ekki abbast upp á fröken Reykjavík.

Hvernig tengist þetta svo alþjóðasamningi um leit og björgun á norðurslóðum? Jú, eins og ætti þegar að vera orðið ljóst að þá verða framkvæmdaraðilar að slíkum samningi í miklum mæli einmitt frá hernaðarbatteríum aðildarríkja samningsins.

En það er kannski allt í lagi. Hin friðelskandi og herlausa þjóð vill væntanlega ekki láta bjarga sér af herjum. Hvorki úr sjávarnauð, frá nasistum, þjóðarmorðingjum eða hryðjuverkamönnum!

miðvikudagur, 15. desember 2010

Síðustu dagarnir í Kabúl

Eftir eins og hálfs árs veru í Kabúl, höfuðborg Afganistan, er nú að koma að leiðarlokum. Fyrsta árið starfaði ég í höfuðstöðvum alþjóðaherliðsins, ISAF, og nú síðustu sex mánuði í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna. Á báðum stöðum snerust verkefnin helst að þróunarmálum og þróunarstarfi í samstarfi alþjóðaherliðs, þróunarstofnanna, bæði tvíhliða og marghliða, og sendiráða. Allt með það að markmiði að reyna að tryggja frið, uppbyggingu og betri framtíð fyrir borgara þessa lands sem hefur þurft að þola miklar hörmungar á undanförnum áratugum.

Þetta hefur sannarlega verið athyglisverður tími og mun ég að sjálfsögðu sakna Kabúl og Afganistan að vissu marki. Veran hér hefur verið ómetanleg lífsreynsla, bæði persónulega og faglega.

Eftir viku mun ég yfirgefa Kabúl og Afganistan í síðasta sinn, í bili að minnsta kosti. Önnur verkefni eru framundan. Kem ég heim til Íslands, Inshallah, seint um kvöld daginn fyrir Þorláksmessu, eða rétt um það leyti þegar friðarhátíðin mikla, jólin, er að ganga í garð.

Í stað yfirþyrmandi mengunar mun ég geta notið fersks fjalla- og sjávarlofts.

Heima á Íslandi mun ég ekki þurfa að líta tvisvar þegar maður á mótorhjóli er á ferð, eða þegar beygluð hvít Toyota Corolla ekur hjá.

Engir brynvarðir bílar, engir vopnaðir öryggisverðir með fingurinn á gikknum, engir skyttuturnar, engir sprengjuveggir eða sandpokar.

Drykkjarhæft vatn úr krananum.

Maturinn...!

Og það mikilvægasta af öllu, fjölskyldan.

Já, þrátt fyrir allt á maður óskaplega gott að vera íslendingur.

Það er gott að hafa í huga nú síðustu dagana fyrir jól.