þriðjudagur, 28. september 2010

Ef Hreiðar segir satt...

Það er athyglisvert að lesa bréf Hreiðars Más til forsætisráðherra, frá því í síðustu viku. Þar fullyrðir hann að niðurstaða rannsóknar breska fjármálaeftirlitsins, FSA, eftir rannsókn á starfsemi Kaupthing Singer and Friedlander hafi ekki leitt neitt saknæmt í ljós, ef frá er talin þriggja daga töf á veitingu upplýsinga um lausafjárvandræði móðurfélagsins. Sátt um þá sök munu fyrrum stjórnendur KSF hins vegar ekki fallast á og krefjast fullrar sýknu.

Hreiðar virðist telja þessa niðurstöðu FSA vera allsherjar syndaaflausn fyrir sig og aðra stjórnendur Kaupþings og notar tækifærið til að gagnrýna sérstaklega Fjármálaeftirlitið (FME) fyrir rannsóknarhætti þess og fyrir að leka trúnaðarupplýsingum bankans til wikileaks. Lekaásökunin er mjög alvarleg, en hana er væntanlega hvorki hægt að sanna né afsanna. Ásökun Hreiðars um það að FME hafi aldrei séð ástæðu til þess að ræða beint við fyrrum stjórnendur Kaupþings um meint brot er hins vegar ekki hafnað af FME. Ef rétt er þá kallar það á skýringar. Það hlýtur að vera eðlilegur hluti rannsóknar FME, áður en mál eru send til saksóknara, að óska skýringa frá meintum brotaaðila, eða hvað? Vart getur verið eðlilegt að fyrstu andsvör fyrrum stjórnenda Kaupthings hafi farið fram við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara.

Á móti kemur að rétt er að hafa í huga að rannsókn FME og sérstaks saksóknara eru ekki sambærilegar við rannsókn FSA. Íslenska rannsóknin snýr m.a. að markaðsmisnotkun og hvort fyrrum stjórnendur Kaupþings hafi með ólögmætum hætti haft áhrif á verð hlutabréfa í bankanum með innri viðskiptum og ótæðilegum lánum til starfsmanna til hlutabréfakaupa í bankanum.

En þetta er ekki það sem er athyglisverðast við bréf Hreiðars. Fullyrðingar hans um annars vegar að rannsókn FSA hafi leitt í ljós að enginn fótur hafi verið fyrir sögusögnum um gífurlegar tilfærslur fjármuna frá KSF til Íslands og hins vegar að um og yfir 90% fáist upp í kröfur á KSF eru tíðindi sem þarfnast nánari skoðunar og umfjöllunar.

Sögusagnirnar um fjármagnsflutninganna voru eflaust megin ástæðan fyrir því að Kaupþing féll. Hvaðan kom sá orðrómur? Hreiðar rekur í bréfi sínu að fyrrverandi forsætisráðherra breta, Gordon Brown, hafi fullyrt þetta við Geir Haarde. Mig rámar í að fyrrum formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands hafi jafnframt haldið þessu fram. Tóku bresk stjórnvöld ákvörðun um aðgerðir gegn KSF á grunni órökstuddra gróusagna?

Lengi vel stóð von til þess að Kaupthing gæti staðið af sér hrunið, en yfirtaka FSA á KSF gerði það að verkum að verkum að móðurfélagið féll. Síðasti stóru bankanna þriggja á Íslandi hrundi með látum, með ómælanlegum skaða fyrir Ísland. Nú þegar þessi niðurstaða liggur fyrir frá FSA, þarf ekki að ræða þetta mál sérstaklega við bresk stjórnvöld? Hvernig verður eigendum og kröfuhöfum Kaupthings bætt tjónið af tilhæfulausri innrás FSA í KSF? Hvernig verður Íslandi bætt það tjón? Er þetta eitthvað til að ræða t.d. í tengslum við ICESAVE?

Að auki, ef rétt er hjá Hreiðari að um og yfir 90% fáist upp í kröfur á KSF er nokkuð ljóst að rekstur bankans, útlán og annað var ekki í neinum molum. Þrotabú með slíkar heimtur, sérstaklega í þessu árferði, var ekki gjaldþrota. KSF hefur þannig ekki verið rændur innanfrá.

Töluverð gagnrýni hefur komið fram á Kaupthing vegna þess hversu mikil áhætta var í lánum til einstakra viðskiptavina. Virðist gleymast í þeirri umfjöllun að það var einmitt hluti af stefnu bankans að vinna með færri en stærri kúnnum og það mjög náið, í lánveitingum og í fjárfestingaverkefnum. Á meðan að allt lék í lindi var það mjög árangursrík og arðbær stefna, en vissulega reyndist bankanum erfið þegar að lausafjárkreppan skall á. Þá var í reynd hver kúnni það mikilvægur að bankinn átti of mikið undir hugsanlegu þroti, eða vandræðum, hvers og eins þeirra. Það hugsanlega skýrir af hverju bankinn reyndi um of að koma þeim kúnnum til bjargar.

Aðalatriðið er þó að þessi niðurstaða FSA og fullyrðingar Hreiðars Más verði teknar til gaumgæfilegrar skoðunar hér heima og áhrif þeirra vegin, metin og skýrð. Ef það hefur verið gert hefur það því miður farið framhjá mér og væru ábendingar vel þegnar.

mánudagur, 20. september 2010

Vanda sig!

Ég er ekki sammála þingmannanefndinni um það að kalla saman Landsdóm. Mitt mat er það að ekki séu forsendur til þess að hvorki að kæra, hvað þá dæma, fyrrum ráðherra fyrir stórkostlega vanrækslu eða ásettningsbrot.

En aðrir eru á öðru máli, og efnislega verður auðvitað ekki hjá því komist að Alþingi fjalli um og taki afstöðu.

En þá er líka grundvallarkrafa að alþingismenn vandi sig.

Þess vegna eru orð þingmannsins Magnsúsar Orra Schram frá því síðstliðinn föstudag áhyggjuefni, en hann varaði við því að þingmenn festu sig "í forminu" í umfjöllun og ákvarðanatöku um Landsdóm.

Því er ég sammála leiðara Morgunblaðsins í dag, en þar segir:

"Var ekki skortur á formfestu meðal athugasemda rannsóknarnefndarinnar? Og vill ekki Magnús Orri ákæra menn fyrir það meðal annars að hafa ekki fylgt forminu?

Kröfur um formfestu eru stundum óraunsæjar og eiga ekki alltaf við. Þegar Alþingi fjallar um ákæru á hendur fv. ráðherrum og getur tekið sér þann tíma sem þarf hlýtur hins vegar að vera sjálfsagt að farið sé að öllum reglum."

Að sama skapi hljóta alþingismenn að taka alvarlega athugasemdir Gísla Tryggvasonar um hugsanlegt vanhæfi einhverra þeirra. Þær setur hann fram í bloggfærslu og segir hann m.a. að "...þeir sem kunna að vera vanhæfir víki sæti við meðferð þessa máls ...annars verður ákvörðun um hugsanlega ákæru fyrir Landsdómi ekki trúverðug."

Ákvörðun um Landsdóm er háalvarleg. Hvort sem hún er rétt eða röng er hreint grundvallaratriði að vandað verði til verka. Hver sem niðurstaðan verður, af eða á, þá má ekki kasta til hennar hendinni.

laugardagur, 18. september 2010

Allsber Umboðsmaður

Enn á ný birtir embætti Umboðsmanns Alþingis álit þar sem skammast er út í stjórnsýslu opinbers aðila og enn og aftur gerist nákvæmlega ekki neitt.

Hæstvirt landbúnaðarráðuneyti er að mati umboðsmanns lögbrjótur. Efni máls eru tvær umsóknir fyrirtækis um leyfi til innflutnings á lambakjöti og segir umboðsmaður um þá fyrri að hún hafi verið "ólögmæt" og um þá seinni að hún hafi "heldur ekki verið í samræmi við lög".

Augljóslega hið alvarlegasta mál, en hverjar er afleiðingar fyrir lögbrjótin?

Engar.

"Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að það tæki mál A ehf. til endurskoðunar, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og leysti þá úr málunum í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá beindi hann þeim almennu tilmælum til ráðuneytisins að það leitaðist við að leysa framvegis úr sambærilegum málum í samræmi við þær forsendur og þau rök sem kæmu fram í álitinu."

Á mannamáli: ef þið í ráðuneytinu ákveðið að taka eitthvað mark á þessu áliti mínu, og þá bara ef sá sem kvartaði nennir að gera eitthvað í því, þá ekki gera þetta aftur svona.

Embætti umboðsmanns var sett á laggirnar 1997. Það hefur í sjálfu sér verið ágætt og bent á ýmislegt sem betur mætti fara. En það er hins vegar sá galli á gjöf Njarðar að embættið er algerlega tannlaust sem þýðir að opinberir aðilar hafa leynt og ljóst getað virt álit umboðsmanns að vettugi, þrátt fyrir fögur fyrirheit um annað.

Eflaust eru skýrustu dæmin í þeim efnum mannaráðningar á vegum hins opinbera, en Umboðsmaður dælt út gagnrýnum álitum sem hafa haft lítil önnur áhrif en þau að gera opinbera aðila betur hæfa til þess að fela glæpinn.

Enda eru úrræði umboðsmanns samkvæmt lögum um embættið algerlega tannlaus:

Hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar er honum heimilt að ljúka því með eftirfarandi hætti:
a.Hann getur látið mál niður falla að fenginni leiðréttingu eða skýringu stjórnvalds.
b.Hann getur látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns getur hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur.
c.Varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.
d.Umboðsmaður getur lagt til við dómsmálaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dómstóla til úrlausnar. 
e.Telji umboðsmaður að um sé að ræða brot í starfi er varði viðurlögum samkvæmt lögum getur hann gert viðeigandi yfirvöldum viðvart.

Á mannamáli: gert ekkert, fussað og sveiað, klagað í mömmu, sagt mömmu sinni að hringja í mömmu þína eða klagað í skólastjórann!

Í þessu máli er eitt stykki ráðuneyti talið vera tvöfaldur lögbrjótur en það hefur nákvamlega engar afleiðingar. Engin áminning á embættismenn, engin Landsdómur á viðkomandi ráðherra, engar sektir, en aðallega, engar bætur til brotaþola.

Umboðsmaður er allsber, rétt eins og keisarinn forðum daga.

Í þeim umbótum sem hér þurfa að eiga sér stað í kjölfar hrunsins væri kannski ráð að versla á þetta embætti einhver klæði og setja upp í það beittari tennur.

(Sá er þetta ritar hefur eytt tíma, fé og fyrirhöfn í kvörtun til embættis Umboðsmanns Alþingis.)

föstudagur, 17. september 2010

Hugrakkir sjálfstæðismenn

Þingflokkur sjálfstæðismanna fær plús í kladdann hjá mér fyrir að neita að taka þátt í landsdómsfjölleikahúsinu.

Því það var auðvelda leiðin að fljóta með straumnum og vilja kæra "til að róa lýðinn!"

Ég t.d. er ekki að kaupa þessa niðurstöðu um Landsdóm.

Að mörgun leyti var þessum ráðherrum frekar vorkunn.

Hvar er t.d. vonda trúin, einbeitti brotaviljinn og glæpsamlega vanrækslan?

Eða svo þetta sé sett í rétta lagamálið, hvar er ásetningurinn og stórkostlega hirðuleysið?

Án efa eru þau öll "sek" um panik og klúður, og já vantrú, samanber "Ég trúi því ekki að þetta sé að gerast og að allt þetta lið sé búið að búlsjitta okkur öll árum saman og stela öllum þessum peningum!"

En það rétttlætir ekki endilega fyrirbæri eins og Landsdóm.

Því ber því að fagna þegar menn segja nei takk við sjónarspilsréttarhöldum og standa á prinsippum sínum eins og þingflokkur Sjálfstæðisflokksins ætlar að gera í þessu máli.

Batnandi mönnum er best að lifa.

Nú er svo bara að vona að Sjálfstæðisflokkurinn finni aftur prinsipin sín í öðrum málum eins og t.d. hvað varðar valdmörk forsetaembættisins og samstarf vestrænna lýðræðisríkja...!