miðvikudagur, 20. júlí 2011

Húsbankafrumvarp, anno 1987

1987 lögðu þingmenn Borgaraflokksins, þeir Júlíus Sólnes og Guðmundur Ágústsson, fram frumvarp til laga um húsnæðislánastofnanir og húsbanka. Þar sem þeir voru á þeim tíma ekki komnir í ríkisstjórn fékkst þetta ágæta frumvarp að því er virðist enga umræðu á þingi.

Þrátt fyrir að vera næstum aldarfjórðungs gamalt frumvarp virðist það merkilegt nokk standast ágætlega tímans tönn. Í því er gert ráð fyrir að húsbankar fjármagni sig á opnum markaði án ríkisábyrgðar.

Athyglisvert er líka að grípa niður í greinargerð frumvarpsins, en þar segir meðal annars:

Þeir sem nú eru að byggja eða kaupa sér íbúð eiga aðeins kost á lánum með fullri verðtryggingu. Eignarhlutfall þeirra fer ekki hraðvaxandi eins og áður heldur er jafnvel hætta á að það minnki með tímanum. Þegar eru mörg dæmi þess að fólk hefur átt í erfiðleikum með sölu á íbúðum með miklum verðtryggðum lánum…einfaldlega vegna þess að söluverð þeirra heldur ekki í við verðtryggðu lánin. Áhvílandi lán með uppfærðum verðbótum eru orðin mun hærri en markaðsverð íbúðarinnar.

Þessi hætta ágerist eftir því sem lánshlutfall verðtryggðra lána eykst. Það er fyrirsjáanlegt að mikil hætta er á því að allar minni íbúðir, sem verða byggðar og keyptar á næstu árum með fullum húsnæðislánum… muni ekki halda verðgildi sínu í takt við lánskjaravísitölu. Þannig gæti skapast það ástand að stór hluti fólks sitji í íbúðum sem það getur ekki selt vegna þess að skuld við Byggingarsjóð ríkisins er meiri en söluverð íbúðarinnar. Það má því segja að Byggingarsjóður ríkisins eigi allar slíkar íbúðir. Fólkið er í raun orðið að leiguliðum hjá ríkinu. Það á ekkert í íbúðinni þótt hún sé þinglýst á nafn viðkomandi en hefur samning um afnot af henni næstu 40 árin meðan það stendur í skilum. Sjálfseignarstefnan margrómaða er í reynd hrunin.

Síðar segir í sömu greinargerð:

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilraun verði gerð til þess að brjótast út úr myrkviðum lánskjaravísitölunnar. Lánskjaravísitalan hefur haft óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna. Hún hefur komið fjölda manns á vonarvöl og lagt mörg atvinnufyrirtæki í rúst. Misgengishópurinn, sem varð að þola stórhækkun lánskjaravísitölu umfram kaupgjaldsvísitölu á árunum 1983-1984 hefur enn ekki fengið leiðréttingu sinna mála hvað húsnæðislánin áhrærir. Lánskjaravísitalan verkar með þeim hætti að óeðlilegir þættir, svo sem hækkun matvöru, hefur áhrif á hana. Þannig mun 10%-matarskattur ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sama dag og hann er lagður á, hækka skuldir íbúðaeigenda við húsnæðislánakerfið um einn milljarð króna.

Á þeim átta árum sem eru liðin síðan lánskjaravísitalan var tekin í notkun hefur hún rúmlega átjánfaldast. Byggingarvísitalan hefur rúmlega sextánfaldast. Á sama tíma hefur verðgildi bandaríkjadals ellefufaldast og dönsku krónunnar nífaldast. Maður, sem hefði fengið að taka danskt húsnæðislán í júní 1979, skuldaði nú miklu minna en sá sem hefði tekið jafnhátt Íslenskt húsnæðislán með sömu afborgunarskilmálum.

Jamm...

þriðjudagur, 19. júlí 2011

Aflífum Íbúðalánasjóð

Nú eru víst sex vikur til stefnu fyrir íslensk stjórnvöld til þess að breyta starfsemi Íbúðalánasjóðs í samræmi við athugasemdir Eftirlitstofnunar EFTA (ESA).

Hér er tillaga í púkkið sem er eflaust ekki til skoðunar í Velferðarráðuneytinu:

Leggjum niður Íbúðalánasjóð.

Ein af stærri athugasemdum ESA er sú að sjóðurinn njóti ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar. Það er rétt að því marki að þannig hafa stjórnvöld umgengist sjóðinn og leyft sjóðnum að kynna sig á markaði. Grannt skoðað er ekkert um það í lögum um sjóðinn sem segir að hann njóti ríkisábyrgðar. Það er afleidd staða sem kemur til vegna eignarhaldsins.

En þökk sé þessu fyrirbæri Íbúðalánasjóði er s.s. de facto ríkisábyrgð á stórum hluta allra húsnæðisskulda landsmanna. Hleypur þar á hundruðum milljarða, en heildarskuldir sjóðsins í lok síðasta árs voru 826 milljarðar. (Hef nú aðeins þusað um þetta áður.)

Bókfærðar eignir á móti voru 836 milljarðar, þ.a. tæknilega var sjóðurinn í plús, en vitað er að töluvert af meintum eignum eru óseljanlegar fasteignir sem líkast til er færðar of háu verði í bókhald sjóðsins, auk bréfa sem eru komin í vanskil, en vanskil yfir 90 daga voru um síðustu áramót 3,9 milljarðar (sjá hér).

Nær væri að stofnað yrði hlutafélag um þennan rekstur, sem síðar yrði sett á markað, t.d. einskonar húsbanka að danskri fyrirmynd. Bjóða mætti bönkunum þátttöku í þessum húsbanka, t.d. með þeim hætti að þeir leggðu inn a.m.k. hluta sinna húsnæðislána í púkkið í skiptum fyrir hlut í hinum nýja húsbanka.

Reyndar er það eitt af vannýttu tækifærum hrunsins að hafa ekki aflífað Íbúðalánasjóð þá og þegar og farið út í breytingar af þessu tagi. Nýr húsbanki hefði þá getað verið virkur hluti í afskriftum og endurskipulagningu húsnæðislánakerfisins með því t.d. að "kaupa" húsnæðisskuldabréf bankanna á afskriftarverði gegn hlut í húsbankanum. Í framhaldi hefði eflaust mátt vinna með mun auðveldarri og gagnsærri hætti að endurskipulagningu húsnæðisskulda heimilanna.

En það er eftiráspeki, en þarf kannski ekki að vera of seint.

Nú er hins vegar komið að því að bregðast þarf við réttmætri gagnrýni ESA á starfsemi sjóðsins og tilvalið að nýta það tækifæri til róttækra umbóta. Fyrsta skrefið í því yrði að leggja sjóðinn niður í núverandi mynd.

miðvikudagur, 13. júlí 2011

Illa fengið fé...

Ef einhver kæmi til annars og gæfi honum milljón kall í seðlum bara sisona yrði sá hinn sami líklegast assgoti kátur, en kannski líka pínu tortrygginn. Ef löggan kæmi stuttu síðar og spyrði hvort að einhver hefði komið við og gefið milljón kall og útskýrði jafnframt að milljón kallinum hefði verið stolið, og reyndar fullt af milljónköllum, sem þjófurinn hefði síðan gefið slatta hinum og þessum en haldið sjálfur stærstum hluta, hvað myndi þiggjandinn gera?

Ætli milljónkallinum yrði ekki skilað – afhentur laganna vörðum?

Líklega – þó eflaust gæti viðkomandi reynt að halda því fram að við þessu fé hafi verið tekið í góðri trú og því engin ástæða til að afhenda það einhverjum löggum!

Eru eigendur verðtryggðra pappíra ekki í svipuðum sporum og sá sem fékk milljónkallinn?

Ef verðbólguskot undanfarinna ára er af stórum hluta afleiðing markaðsmisnotkunnar nokkurra fjármálastofnanna/eignarhaldsfélaga og eigenda/starfsmanna þeirra sem hafi með bellibrögðum og jafnvel ólöglegu athæfi haft neikvæð áhrif á gengi krónunnar, sem þrýsti upp verðbólgu og þannig jók gengisgróða vegna verðtryggingar peningapappíra, eru þá ekki verðbætur á verðtryggða pappíra þannig tilkomnar í reynd illa fengið fé?

Eru ekki allir verðtryggðir skuldunautar undanfarinna ára fórnarlömb ræningja? Er rétt að þeir greiði þær verðbætur sem urðu til vegna ólögmæts athæfis?

Er ekki ákveðið siðleysi falið í því að vilja halda verðbótum fengnum með þessum hætti?

Á kannski erindi Arnars Jenssonar til stjórnlagaráðs um upptöku ólögmæts ávinnings við í þessu samhengi? Leiðrétting á verðbólgusprungnum lánum sé þannig sambærileg við „...að ná til baka fjármunum og eignum sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti og skila þeim til réttra eigenda.“

Er sjálfsagt að rukka og halda illa fengnu fé, jafnvel þó það sé fengið í góðri trú?