miðvikudagur, 29. júní 2011

Gjaldeyrisvildarkjör

Þá er lokið seinni hluta gjaldeyrisútboðs Seðlabankans.

Keyptar voru rúmlega 61,7 milljón evrur á "special deal just for you my friend" genginu 210 krónur hver evra. Við dauðlegir fáum í kringum 166 krónur fyrir okkar evrur, sem við verðum að selja, annars getum við átt von á sektum, eða jafnvel fangelsi.

Fyrir u.þ.b. þremur vikum síðan seldi Seðlabankinn að því er mér reiknast til rétt rúmlega 61 milljón evra þ.a. nettó er bankinn með tæpar 700 þúsund evrur í plús, auk þess að "græða" á gengismuninum.

Athyglisvert er að bera saman framboð og eftirspurn í þessum tveimur uppboðum. Í fyrra uppboðinu, þegar evrur voru boðnar fyrir krónur (og verulega takmarkaðar krónur þar sem tilboðsgjafar urðu að geta fært sönnur á samfellda eign á þeim krónum frá því fyrir hrun), var umframeftirspurnin rúmlega 450%.

Umframeftirspurnin þegar krónur voru boðnar fyrir evrur var 11%.

Bendir þetta því miður til lítils annars en gífurlegs flóttaþrýstings úr krónum í evrur.

Fréttatilkynning Seðlabankans frá í gær segir síðan ekkert um það hverjir voru að kaupa þessar krónur á þessum vildarkjörum. Voru það lífeyrissjóðir að láta undan þrýstingi og losa erlendar eignir fyrir íslensk krónubréf? Eða voru það aðrir aðilar á innlendum markaði sem njóta þegar sérkjara undir núverandi gjaldeyrishöftum en gátu núna fengið ennþá betri díl. Voru það mögulega erlendir fjárfestar?

Tæplega voru það Tortólapeningar...

Það er vonandi að fjölmiðlar og greinendur á markaði leiti frekari upplýsinga.

mánudagur, 20. júní 2011

Pólitískar hreinsanir boðaðar

Óþól sumra andstæðinga aðildarviðræðna við ESB tekur á sig nýjar og enn ósmekklegri myndir.

Persónugering þessa óþols tekur á sig nýja og áður óþekkta mynd á opinberu bloggi Heimssýnar í dag.

Þar er upplýst um óánægju Heimssýnar með aðalsamningamann Íslands í aðildarferlinu, sem þarf nú svo sem ekki að koma á óvart. Niðurlag pistilsins er hins vegar einkar athyglisverður:

"Þegar Össur tekur upp tjaldhælana sína í ráðuneytinu verður fararsnið á fleiri en honum einum."

Það var og...!

Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að þegar og ef fulltrúar Heimssýnar komast til valda í stjórnarráðinu, og þá sérstaklega utanríkisráðuneytinu, munu s.s. fara fram pólitískar hreinsanir og væntanlega allir reknir sem unnið hafa að aðildarferlinu.

Huggulegt, ekki satt?

Er byrjað að skrifa niður nöfnin?

Þarf eitthvað að rifja upp í hverslags þjóðfélögum slíkt hefur tíðkast?

þriðjudagur, 14. júní 2011

Velgengni jaðarríkja ESB

Grikkland er í rusli. Aumingja Grikkland. Vandi landsins er allur heimagerður, en aðild landsins að ESB og evru hefur gert það að verkum að það kom að skuldadögum og loks sást að keisarinn var berrassaður. Það var ekki fögur sjón.


Einhverjir vilja læra þá lexíu af gríska vandanum að ESB sé afleitt fyrir jaðar- og smáríki innan sambandsins. En er það svo? Árangur ríkja innan ESB, sem samstarf sjálfstæðra ríkja, virðist fyrst og fremst byggja á getu og atorku ríkjanna sjálfra til að standa sig. Aðildin að ESB þjónar hins vegar eins og smurning og viðbótaraflgjafi fyrir þau ríki.Í þessu má t.d. horfa til vina okkar í Eystrasaltsríkjunum. Þau ríki hafa vissulega gengið í gegnum ákveðna eldskírn á undanförnum árum, m.a. í tenglsum við efnhagshrunið 2008. En hvernig vegnar þeim í dag?Eistland tók upp evruna um síðustu áramót og var hagvöxtur þar á fyrsta ársfjórðungi sá mesti í Evrópu, 8,5%.Hagvöxtur í Lettlandi á sama tíma var 3,4% og gáfu þeir út skuldabréf í síðustu viku, rétt eins og Ísland. Kjörin voru töluvert betri, tæpir 240 punktar (bréf Íslands var með 320 punkta álagi), og tímalengdin helmingi lengri, eða tíu ár.Hagvöxtur í Litháen var 6.9% á sama tíma.Öll ríkin búa s.s. við góðan hagvöxt eftir krísuna og hafa náð viðsnúningi í sínum efnahagsmálum. Sérstaklega Eistland og Lettland hafa haldið sig við fastgengisstefnu í gegnum krísuna til þess að stefna ekki aðild að evrunni í hættu. Eistland tók, eins og áður sagði, evruna upp um síðustu áramót, og Lettland er áfram á góðri leið að sínu takmarki.Erlent fjárfesting hefur verið stöðug eða vaxandi í ríkjunum.Svo má að auki velta fyrir sér efnahagsstöðu annarra "jaðarríkja" ESB eins og Póllands, Tékklands og fleiri og bera saman við okkar eigin.Velgengni þjóða veltur fyrst og fremst á þeim sjálfum. Aðild að fjölþjóðasamstarfi eins og ESB getur hins vegar verulega styrkt þá velgengni eins og dæmin sanna. Ekki virðist t.d. nokkur vafi á því, sérstaklega ekki í hugum borgara þessara ríkja, að aðild þeirra að ESB hefur reynst þeim heilladrjúg.Þau hafa nýtt sér vel kostina - en það byggði aftur á atorku og dugnaði þeirra sjálfra.

föstudagur, 10. júní 2011

Dollaramilljarður, Icesave og þess háttar...

Það voru jákvæð tíðindi að takast skyldi að ganga frá milljarðsdollara láni í gær fyrir ríkissjóð. Hér eiga fjármálaráðherra, efnahags- og viðskiptaráðherra, starfslið ráðuneytanna og Seðlabankans hrós skilið.

Vel gert.

En...

...við þurfum engu að síður að anda með nefinu í fagnaðarlátunum. Þessi tíðindi eru vissulega jákvæð, en í þeim felast ákveðin hættumerki. Ein eru þau að 320 punktar ERU engu að síður hátt álag á ríkisskuldabréf, þó að kjörin séu vel ásættanleg m.v. ástand á markaði. Önnur eru þau að þó fagna megi því að ríkið geti gefið út skuldabréf á alþjóðamarkaði, þá er það hins vegar í augnablikinu EINI al-íslenski aðilinn sem það getur. Landsvirkjun, OR, sveitarfélögin, o.s.frv. eru allir "utan þjónustusvæðis". Einu aðilarnir sem eiga þess kost að sækja fé á alþjóðamarkaði eru þau fyrirtæki sem eru með umtalsverða starfsemi erlendis OG umtalsvert erlent eignarhald.

Svo má spyrja frekar, þar sem að þessi næstum því 5% lánakjör eru einungis til skamms tíma, 5 ára, hvað þau þýða fyrir hinn almenna markað EF hann skyldi opnast? Þetta er s.s. gólfið þ.a. betri kjör bjóðast ekki. Hvert verður álagið fyrir t.d. virkjunarframkvæmdum, sérstaklega til lengri tíma? Eitthvað sem slík framkvæmd gæti borið?

Og svona rétt til að klára gleðispillinn þá erum við ekki sloppin undan ICESAVE. Málaferlin eru öll eftir og þar getur brugðið til beggja vona. Eins sérkennilegt og það hljómar, þá gæti áhætta þjóðarinnar af ICESAVE líkast til verið meiri nú vegna höfnunar samningsins í þjóðaratkvæðagreiðslu en ef hann hefði verið samþykktur. Nú t.d. taka allir andstæðingar samningsins undir það að það þurfi ekki að hafa áhyggjur af ICESAVE af því að þrotabúið muni borga, en töldu það fráleita áhættu í aðdraganda kosninga.

Áhættan sem við stöndum ennþá frammi fyrir er hins vegar á því að ekki þurfi einungis að greiða 20 þús evrur, heldur hugsanlega 100 þús evrur, og kannski allt í botn, ef jafnræðisregla telst hafa verið brotin. Að sama skapa er ólíklegt að vaxtakjörin verði sambærileg og í samningnum, ef málið tapast. Eins og þegar hefur komið fram í fréttum hefur ESA gefið 3 mánaða frest til að greiða ICESAVE, og þar er miðað við lágmarkstryggingu. Ef Bretland og Holland gerast aðilar að málarekstri ESA, sem er því miður líklegra en ekki, verður þar að öllum líkindum a.m.k. farið af stað með fullar kröfur.

En málið gæti hugsanlega unnist og þá þarf ekki að hafa neinar áhyggjur, nema jú það að óleyst ICESAVE mun þvælast fyrir okkur þar til endanleg niðurstaða er fengin.

Með þessum ábendingum er ég vissulega að vera nokkur gleðispillir. Auðvitað vonar maður hið besta, en það er rétt samhliða því að vera viðbúin verri tíðindum.

Hafið einnig í huga, að sama hvað manni má finnast um stjórnvöld, hafa sem betur fer allir lagst á eitt við það að fara í meiriháttar "damage control" í kjölfar atkvæðagreiðslunnar um ICESAVE. Enginn lagðist í kör eða fór í fýlu, heldur lögðu allir dag við nótt við að lágmarka skaðann. Ekkert af því jákvæða sem þó er að gerast kemur til af sjálfu sér. Hingað til hefur það gengið þokkalega, og mun betur en þeir svartsýnustu hefðu þorað að vona, ég sjálfur þar með talinn.

Enn og aftur, um að gera að fagna þessum áfanga, þ.m.t. jákvæðri umfjöllun bæði í Financial Times og Wall Street Journal. Það er líka vonandi að þetta auðveldi framhaldið, hvort heldur sem er varðandi gjaldeyrishöft og aðra erlenda fjármögnun. En þetta er ekki búið og mun kalla á áframhaldandi mikla vinnu og árverkni - stjórnvalda sem annarra.

miðvikudagur, 8. júní 2011

Markaðurinn velur misgengi

Þá liggja fyrir niðurstöður úr fyrsta gjaldeyrisuppboði Seðlabankans, og eins og við er að búast vill bankinn setja þær niðurstöður í sem jákvæðast ljós. Vel heppnað útboð, ágæt eftirspurn, og verðið sem fengið var undir aflandsgengi.

Gott og vel. Ég sé hins vegar niðurstöðuna í aðeins öðru ljósi.

Útboð Seðlabankans endurspeglar gríðarlegan undirliggjandi þrýsting á útstreymi gjaldmiðils.

Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að útboð þetta var bundið verulegum takmörkunum. T.d. máttu einungis þeir taka þátt sem gátu sýnt fram á að krónueign þeirra væri „varanleg“ frá a.m.k. október 2008.

Í öðru lagi flaggaði Seðlabankinn því að hér væri um mjög takmarkað útboð að ræða, einungis 15 milljarðar, og gaf ekkert upp um sínar væntingar, þ.m.t. um hugsanlegt gengi.

Hvoru tveggja var til þess að takmarka hugsanlegt tilboðaflóð.

Þrátt fyrir þessar takmarkanir bárust engu að síður tilboð fyrir rúmlega fjórfalda þá upphæð sem var í boði.

Einnig kemur í ljós að fyrst og fremst var hér um jafngildi reiðufjár, þ.e. peninga á innlánsreikningum að ræða, því skv. Morgunkorni Íslandsbanka „...voru nær allar þær krónur sem Seðlabankinn keypti í útboðinu geymdar á innlánsreikningum.“

Meðalgengið, reynist tæpar 219 krónur fyrir hverja evru, eða rúmlega 30% hærra gengi evru en skráð gengi Seðlabankans. Í kjölfar útboðsins kemur hins vegar í ljós að Seðlabankinn hafði sett sér tilboðsgólf upp á 215 krónur fyrir hverja evru.

Næsta skref seðlabankans verður svo að koma þessum krónum aftur í umferð, með því að bjóða þær til sölu innlendum aðilum, og þá væntanlega fyrst og fremst lífeyrissjóðunum, í skiptum fyrir gjaldeyri.

Nettóáhrif þessarar aðferðarfræði Seðlabankans verður því ekki til að draga úr krónumagni í umferð. Það verða nákvæmlega jafnmargar krónur innan hagkerfisins, en nettó erlendar eignir þjóðarbúsins munu lækka. Hvernig þá? Jú, gjaldeyririnn sem seldur var í gær er farinn, og líkast til kemur ekki aftur. Til þess var jú leikurinn gerður. Bólukrónurnar lifa áfram, og verðbólguþrýstingur vegna þeirra verður áfram til staðar.

Ef Seðlabankanum er alvara með því halda fram árangri þessarar aðferðarfræði, verður þess væntanlega skammt að bíða að næsta uppboð fari fram. Væntanlegt dollaraskuldabréfaútboð ríkisins þarf líklega að fara fram fyrst svo að tryggt sé að nægur gjaldeyrir sé til bæði fyrir uppboð og afborganir lána. Ekki er að sjá að nýtt skuldabréfaútboð ríkisins verði, nema hugsanlega að litlum hluta, til að fjármagna ný verkefni, s.s. vegaframkvæmdir.

Athyglisverðustu skilaboðin sem felast í þessu uppboði eru hins vegar þau að markaðurinn sættir sig við og beinlínis velur misgengisleið út úr krónuvandanum. Í þessari fyrstu umferð, sem var mjög takmörkuð eins og áður segir, var markaðurinn tilbúin til að losa sig við krónur með u.þ.b. fjórðungs afslætti. Hvaða tilboð hefði bankinn fengið ef það hefði verið opið og hver sem er, með hvaða krónueignir sem er, hefði fengið að gera tilboð? Að öllum líkindum mun meiri afslátt, eða fleiri krónur per evru, en varð.

Engu að síður eru skilaboð markaðarins til íslenskra krónueigenda skýr. Krónan er á bilinu fjórðungi til helmingi minna virði en opinbert skráningargengi að mati markaðarins, eftir því hvort horft er til uppboðsgengis eða aflandsgengis. Það er mikilvægt að hafa í huga þegar framtíðarkostir Íslands í gjaldmiðilsmálum eru ræddir.

fimmtudagur, 2. júní 2011

Ísland úr NATO?

Ögmundur Jónasson á skilið sérstakt hrós. Sér þvert um geð ber hann að hluta ábyrgð á varnarsamstarfi Íslands innan NATO og þ.m.t. á varnaræfingunni Norður Víkingur, sem er nýhafin.

Í dag er það svo að Ísland er aðili að þessu bandalagi, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Að sama skapi er ljóst að sterkur þingmeirihluti er fyrir áframhaldandi veru landsins í bandalaginu. Ögmundi er því nauðugur sá kostur að fylgja meirihlutavilja þingsins í sínu starfi sem ráðherra, hvað svo sem hans innri sannfæring býður honum. Í slíkt þarf sterk bein.

Einnig er það svo að Ögmundur og flokkur hans, Vinstri-Græn (VG), eiga aðild að ríkisstjórn sem styður hernaðaraðgerðir sama bandalags í Líbýu, í umboði og samkvæmt ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Þær aðgerðir eru einnig Ögmundi og VG þvert um geð, en þinglegur meirihluti virðist hins vegar að baki málinu. Ákall til þess að VG segi sig úr ríkisstjórn vegna þessa af prinsipástæðum eru hjóm eitt. Eins og Ögmundur bendir réttilega á í grein í Morgunblaðinu í morgun (skv. eyjan.is) myndu stjórnarslit vegna þessa máls engu breyta: „Ekkert myndi breytast hvað NATÓ áhrærir við brotthvarf VG úr stjórninni að því undanskildu að stuðningurinn við hernaðarbandalagið yrði eindregnari í Stjórnarráðinu.“

Það er því ekkert nema heiðarlegt við það að VG leggi nú loks fram þingsályktunartillögu um úrsögn Íslands úr NATO. VG er á móti þessu bandalagi og aðild Íslands að því. Þingsályktunartillaga af þessu tagi er því fullkomlega eðlileg, sama hvort VG á aðild að ríkisstjórn eða ekki.

Hverfandi líkur eru hins vegar á því að þingsályktunartillaga þessi verði samþykkt, hvað þá að hún fái einhverja raunverulega umræðu sem væri hreint ágætt.

Eflaust hefði verið mun nær að tefla fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að bandalaginu. Þá þjóðaratkvæðagreiðslu mætti tvinna saman við væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild Íslands að ESB – sem VG er reyndar líka mótfallið. Myndi atkvæðagreiðsla um aðild að þessum meginstofnunum samstarfs Evrópuþjóða falla vel saman þar sem rökin fyrir aðild að hvorri stofnun um sig eru um margt samhljóða á breiðum grunni. Snúa þau m.a. að mikilvægi þátttöku þjóða í fjölhliða samstarfi með líkum þjóðum, sambærilega þenkjandi og með sambærilega og samþætta hagsmuni, hvort heldur sem er á sviði stjórn-, efnahags-, öryggis- eða varnarmála.

Slík samtvinnuð þjóðaratkvæðagreiðsla yrði þannig auðveld fyrir bæði þá sem hugnast aðild landsins að báðum stofnunum eða eru á móti. Eitthvað yrði hún erfiðari fyrir þá sem væru til í aðra en ekki hina, en það yrði væntanlega yfirstíganlegur vandi, ef sannfæring manna er í þokkalegu lagi.

Eftir slíka þjóðaratkvæðagreiðslu myndi fækka um tvö stórmálin sem ekki þyrfti að rífast um, að því gefnu að menn virði niðurstöðuna möglunarlaust. Fram að henni eiga og verða ráðherrar hins vegar að fylgja vilja meirihluta þingsins – í báðum málum. Að því leiti mætti Jón Bjarnason taka flokksbróður sinn Ögmund sér til fyrirmyndar.

miðvikudagur, 1. júní 2011

Gjaldmiðill án framtíðar

Íslenska krónan var eitt af fórnarlömbum íslenskra viðskiptahátta í aðdraganda bankahrunsins. Markaðsmisnotkun banka og lykilaðila íslensks viðskiptalífs á bæði hlutabréfa- og skuldabréfamarkaði, með dyggri aðstoð peningaprentunaráhrifa almennrar verðtryggingar og peningastefnu Seðlabankans, margfaldaði peningamagn í umferð á árunum 2001 til 2008.

Þessi aukning var án innistæðu. Má jafnvel halda því fram að með háttsemi sinni hafi þessir aðilar stundað peningafölsun og komist upp með það. Verðlausum pappírum var gefið verðgildi með markaðsmisnotkun á skulda- og hlutabréfamarkaði m.a. í svokölluðum „endurhverfum viðskiptum“ bankanna við Seðlabankann. Þannig gátu bankarnir og velvildarmenn þeirra, sem voru fyrst og fremst í eigendahópnum, í reynd skipt út platkrónum fyrir alvöru krónur.

Í dag sitja þessar „alvöru“ krónur á bókum Seðlabankans og fjármagnseigenda í formi aflandskróna og skuldabréfa.

Þessar krónur eru ein aðalorsök gjaldeyrishaftanna. Í áætlun Seðlabankans um losun gjaldeyrishafta er helsta hindrunin á þeirri vegferð hið mikla magn króna í umferð sem gert er ráð fyrir að eigendur vilji skipta yfir í gjaldeyri. Semsagt, að mati bankans bíða fjármagnseigendur í röðum og vilja taka næsta skref og skipta þessum krónum yfir í gjaldeyri.

Í áætlunum bankans eru kynntar tvær hugsanlegar leiðir til þess að losa um þá spennu sem hið mikla krónumagn veldur. Báðar byggja á því að beitt verði mismunandi gengi fyrir krónueignir fjármagnseigenda sem vilja losna úr helsi íslensku krónunnar. Annars vegar að gjaldeyrir verði seldur á uppboði og hins vegar að gjaldeyrisútflæði verði skattlagt þannig að raungengi liggi í reynd við aflandsgengi en ekki álandsgengi (opinbert skráningargengi Seðlabankans). Einungis uppboðsleiðin er komin til framkvæmda með því tilraunauppboði sem Seðlabankinn hefur þegar tilkynnt.

Ljóst er að leiðir Seðlabankans munu taka langan tíma, enda er nú gert ráð fyrir að gjaldeyrishöft verði viðvarandi a.m.k. til 2015.

Einn stór galli við aðferðarfræði Seðlabankans er að samkvæmt henni verður ekki dregið úr heildar peningamagni. Of margar krónur þýða að varanlega hefur dregið úr verðgildi gjaldmiðilsins og hætta er á annarri aðför að högum heimilanna vegna þess undirliggjandi verðbólguþrýstings sem myndast þegar þessar krónur án undirliggjandi verðmætasköpunar komast í umferð eins og áætlun Seðlabankans gerir ráð fyrir.

Seðlabankinn gerir s.s. ráð fyrir að allar þær krónur sem hann kaupir á uppboði verði endurunnar inn í hagkerfið á ný. Virðist bankinn þannig ekki sjá krónumagnið sem slíkt sem sérstakt vandamál, heldur eigendur krónanna. Það er mikill misskilningur, því ætla má að margur íslendingurinn vilji gjarnan skipta út krónunum sínum fyrir erlendan gjaldmiðil, líka þessar endurunnu þegar þær verða komnar í almenna umferð.

Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að lífeyrissjóðir landsmanna verði helstu kaupendur á þessum krónum. Tæpast getur það talið heillandi fyrir núverandi og verðandi lífeyrisþega þessa lands að enn frekar eigi að binda trú og traust lífeyriskerfisins á íslensku krónuna.

Með þessari aðferðarfræði er hætta á að gengi krónunnar nái sér ekki á strik á ný, og haldi áfram að vera undir neikvæðum þrýstingi. Þessi aðferðarfræði gæti þannig hugsanlega haft takmörkuð áhrif á afnám hafta, þvert á það sem ætlað er.

Í rauninni eru einungis tvær skilvirkar aðferðir til þess að draga raunverulega úr heildar peningamagni á Íslandi, m.v. núverandi stöðu. Annars vegar með hreinum afskriftum lána og skulda og hins vegar með því að skipta um gjaldmiðil með mismunandi skiptigengi. Hvor um sig er aðferð sem mun hjálpa til við að ýta íslenska hagkerfinu í gang á ný.

Ekki virðist pólitískur vilji til gjaldmiðilsskipta, en ljóst er að verið er að afskrifa skuldir töluvert. Gagnsæi skuldaafskrifta, hverjir njóta þeirra helst og hvernig þær dreifast er hins vegar það sem endalaust er og verður deilt um. Sértækar aðgerðir eru þar helst tortryggðar, ásamt því að vera seinvirkar, og ber því að fagna fjölgun almennra úrræða á breiðum grunni, svo sem þeirra sem Landsbankinn hefur kynnt.

Framtíðarsýnin hlýtur hins vegar að vera að landið hafi skilvirkan gjaldmiðil og losni úr viðjum hagfræðilegra “barbabrellna” eins og gjaldeyrishöftum og verðtryggingu. Ekki verður séð að núverandi gjaldmiðill geti verið trúverðugur hluti af þeirri framtíðarsýn.