sunnudagur, 30. mars 2008

Að draga lappirnar

Leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í morgun er eilítið sérstakur. Hann er samtímis hvatning til aðgerða í Evrópumálum og vegvísir til tafar málsins.

Leiðarinn leggur út frá grein Ólafar Nordal í Fréttablaðinu frá því í síðustu viku og tekur undir mikilvægi þess að breyta þurfi stjórnarskrá til þess að aðild að ESB geti orðið að veruleika. Það sé hið nauðsynlega fyrsta skref í átt að aðild.

Skv. þessari forskrift á að leggja fram tillögur um stjórnarskrárbreytingar í lok þessa kjörtímabils, kjósa um það samfara næstu alþingiskosningum 2011, og síðan á að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort sækja eigi um aðild strax haustið þar á eftir, eða það er a.m.k. tillaga Þorsteins.

Þetta þýðir að rúm þrjú ár eru í þetta fyrsta skref og a.m.k. þrjú og hálft ár í það að þjóðin fái eitthvað að segja um það hvort hún hafi yfirhöfuð einhvern áhuga á ESB-aðild. Væri ekki nær að byrja á því?

Ef þjóðin hefur engan áhuga á ESB aðild, er þá ekki best að koma því á hreint sem fyrst? Er ekki tillaga t.d ungra framsóknarmanna í þeim efnum allrar athygli verð? Væri það ekki verðugt verkefni Alþingis að taka þá umræðu núna hvort ekki sé rétt að kanna huga þjóðarinnar til aðildarumsóknar sem fyrst?

Ef þjóðin hefur engan áhuga á aðildarumsókn er málið dautt og hægt er að einbeita sér að fullum krafti að öðrum verkefnum. Breyting á stjórnarskrá vegna ESB yrði am.k. tæpast jafn aðkallandi.

Ef hins vegar þjóðin samþykkir aðildarumsókn er ekkert því til fyrirstöðu að vinna samhliða samningaviðræðum að nauðsynlegum úrbótum, þ.m.t. breytingu á stjórnarskrá, í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu um niðurstöðu samningaviðræðnanna. Slíkt væri t.d. hægt að afgreiða samhliða í alþingiskosningunum 2011 ef menn vilja.

Reyndar er Þorsteini Pálssyni í lófa lagið að halda áfram undirbúningi á breytingu stjórnarskrárinnar þegar í stað. Hann er ennþá varaformaður stjórnarskrárnefndar forsætisráðherra og ætti að vera í lófa lagið að hringja í formanninn, Jón Kristjánsson, og óska eftir fundi nefndarinnar um málið.

laugardagur, 29. mars 2008

Vitlaus verðbólgumæling

Þann 5. apríl 2006 birtist eftirfarandi grein eftir mig í Fréttablaðinu. Í henni gagnrýndi ég þá staðreynd að Ísland notaðist við verðbólgumælingu sem ætti sér hvergi hliðstæðu í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Í greininni velti ég upp ýmsum spurningum um mögulega skaðsemi þessarar séríslensku tölfræði. Í ljósi núverandi ástands læt ég hana fylgja hér í heild sinni:

Röng verðbólgumæling á Íslandi?

Ekki veit ég hvaða svari blaðamaður Fréttablaðsins bjóst við af yfirhagfræðingi Seðlabankans við gagnrýni Skagen fondene í Noregi á notkun vísitölu með húsnæði inniföldu við verðbólgumat. A.m.k. hefði það orðið stór frétt ef, öndvert við gefið svar, hann hefði játað á bankann mistök og tekið undir að núverandi verðbólgumæling gæfi ranga mynd af eiginlegri íslenskri verðbólgu. Frétt um þetta mátti lesa í Fréttablaðinu fimmtudaginn 29. mars sl. ("Segir Seðlabankann taka mið af rangri vísitölu", bls. 28).

Verðbólgumælingin sem Seðlabankinn styðst við, er eins og svo margt annað í íslensku efnahagslífi, sér-íslenskt fyrirbrigði. Ekkert annað land mælir verðbólgu á nákvæmlega sama hátt og Ísland, og væntanlega gerir ekkert annað land þróun húsnæðisverðs jafn-hátt undir höfði og íslenska verðbólgumælingin.

Skýtur það ekki skökku við, á þessum tímum alþjóðavæðingar og opins flæðis fjármagns, að Ísland noti annan staðal við verðbólgumælingar en t.d. okkar helstu nágranna- og viðskiptaþjóðir? Í vel flestum löndunum í kringum okkur hefur átt sér stað viðlíka hækkun á verði húsnæðis og hér á Íslandi. Samt sem áður hefur það hvergi komið fram í verðbólgutölum viðkomandi landa á jafn afgerandi hátt og hér heima.

Sem dæmi má nefna að í Danmörku er húsnæði inni í verðbólgumælingu, en þar er aðallega byggt á húsaleiguvísitölu, þ.e.a.s. þróun leiguverðs á markaði, sem er háður ströngum reglum og leyfum hins opinbera varðandi hækkanir.

Enda hlýtur að vera eðlileg spurning hvort ekki sé réttara að húsnæðisvigt í verðbólgu sé metin út frá þróun leiguverðs og t.d. fjármagnskostnaðar við húsnæðiskaup, frekar en þróun eiginlegs húsnæðisverðs. Flest okkar kaupa jú húsnæði kannski tvisvar til þrisvar yfir ævina, á meðan við velflest greiðum húsaleigu eða afborganir einu sinni í mánuði. Er ekki eilítið verið að blanda saman óskyldum hlutum, þegar verðbólgumat er samsett annars vegar úr neysluvísitölu, sem er í eðli sínu eignarýrandi vísitala, og hins vegar húsnæðisvísitölu, sem er í eðli sínu eignamyndandi? Í þessu samhengi má velta fyrir sér hvort þróun á verði hlutabréfa á markaði eigi ekki allt eins heima í verðbólgumælingunni eins og húsnæðisvísitalan.

A.m.k. er það svo að hinn mikli munur á íslensku verðbólgunni annars vegar og samræmdu EES-vísitölunni hins vegar hefur vakið athygli á undanförnum árum. Samkvæmt samræmdu EES- vísitölunni er Ísland, merkilegt nokk, ætíð meðal þeirra þjóða sem hafa lægsta verðbólgu á EES-svæðinu, en samkvæmt sér-íslensku verðbólgumælingunni, er Ísland ætíð meðal þeirra þjóða með hæstu verðbólguna. Samræmda EES-vísitalan sleppir alveg húsnæði.

Gallinn við þessa sér-íslensku verðbólgu er sá að þegar Seðlabankinn einblínir á þróun hennar við ákvörðun á skammtímavöxtum getur ýmislegt farið úrskeiðis. Vaxtamunur við útlönd verður óheyrilegur. Gífurlegt innstreymi erlends fjármagns í formi skuldabréfaútgáfu erlendra aðila í íslenskum krónum – er hún tilkominn vegna Kárahnjúka, eða vegna hávaxtastefnu Seðlabankans? Of hátt gengi íslensku krónunnar síðastliðin ár, er það tilkomið vegna útrásarinnar, eða vegna hávaxtastefnu Seðlabankans? Gífurleg hækkun húsnæðis á Íslandi, er hún eingöngu komin vegna aukins frjálsræðis í lánamálum vegna húsnæðis, eða spilar þar rullu sá gríðarlegi vaxtamunur á milli annars vegar óverðtryggðra skammtímalána og verðtryggðra langtímalána hins vegar? Getur verið að gífurlegur viðskiptahalli undanfarin ár skýrist af hávaxtastefnu Seðlabankans? Að hávaxtastefna Seðlabankans gegn verðbólgu, sem kannski er vitlaust mæld og ofmetin, hafi ýtt undir ójafnvægi annarra þátta efnahagslífsins? Er lækningin verri en sjúkdómurinn?

Getur það verið að hin hefðbundnu tól og tæki Seðlabankans, gömlu formúlurnar og hagfræðitólin, henti ekki lengur nýju íslensku hagkerfi, alþjóðavæddu og opnu? Er tölfræðin farin að verða okkur fjötur um fót? Er komin tími á uppfærslu? Ekki er heldur hægt að horfa framhjá því að skammtímavextir eru stór kostnaðarþáttur í rekstri sérstaklega lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Hár vaxtakostnaður hlýtur því á endanum að velta út í verðlagið. Snýst þar með hávaxtastefna Seðlabankans upp í andhverfu sína og ýtir undir verðbólgu í stað þess að draga úr henni.

fimmtudagur, 27. mars 2008

Til hvers ESB?

Þegar stórt er spurt er oft hægt að finna a.m.k. einhver svör á netinu. Þessi ágæti listi var birtur hjá Independent í Bretlandi fyrir ári síðan. Ýmislegt athyglisvert þarna að finna, t.d. liður 42.

þriðjudagur, 25. mars 2008

Þjóðnýting banka

Í sumum erlendum fjölmiðlum hefur því m.a. verið haldið fram að einhverjir íslensku bankanna kunni að vera á barmi þjóðnýtingar. Ekki virðist nokkur vilja kannast við það hér á landi, hvorki fulltrúar stjórnvalda né bankanna.

Vert er jafnframt að hafa í huga að slíkar aðgerðir þurfa að eiga sér verulegan aðdraganda áður en til þeirra gæti komið.

Slíkar aðgerðir eru verulega skilyrtar skv. EES/ESB rétti sem Ísland er skuldbundið að fylgja, þ.m.t. bæði samkeppnisreglur og reglur um ríkisstuðning. Stuðningur breskra stjórnvalda við Northern Rock bankann sl. haust varð t.d. að fá samþykki framkvæmdastjórnar ESB. Var sú aðstoð skilgreind sem neyðaraðstoð, sem bæði var skilyrt og bundin tímatakmörkun, eða í sex mánuði. Ákvörðun um þjóðnýtingu bankans var tekin rétt áður en sá frestur rann út, en hann hafði m.a. verið nýttur til að finna hugsanlega nýja fjárfesta til að taka yfir rekstur bankans.

Þjóðnýtingin á Northern Rock er í skoðun hjá framkvæmdastjórn ESB og ljóst að verulegar takmarkanir eru þegar settar af ESB á frelsi bankans til athafna sig á markaði við núverandi aðstæður. Framkvæmdastjórn ESB er jafnframt með í athugun fleiri dæmi um ríkisstuðning sem hugsanlega gengur á skjön við lög og reglur um ríkisstuðning og samkeppni, t.d. hvað varðar ríkisstuðning Þýskalands við þýsku bankana IKB og Sachsen LB.

Bein peningainnspýting, án þess að um væri að ræða a.m.k. lán á eðlilegum markaðskjörum, myndi t.a.m. að öllum líkindum teljast brot á reglum um ríkisstuðning. Hugsanlega gæti ríkið veitt bönkunum stuðning ef það væri gert í samhengi við verulegar skipulagsbreytingar, samruna eða þ.h. en þá yrði slíkt að fara fram samkvæmt fyrirfram samþykktri endurskipulagningar- og björgunaráætlun sem ætlað er að ná markmiðum sínum innan eðlilegra tímamarka (sjá ESB Official Journal C 244, 1 október 2004, skv. Europolitics, 19/2/08, bls. 5).

Í þessum efnum, eins og svo mörgum öðrum, erum við þannig bundin þeim leikreglum sem EES/ESB rétturinn setur okkur. Þjóðnýting banka gerist þannig tæplega í skjóli myrkurs á meðan að þjóðin borðar yfir sig af páskaeggjasúkkulaði!

sunnudagur, 23. mars 2008

Rúv um FL-Group

Í kvöldfréttum sjónvarps Rúv var frétt um FL-Group undir yfirskriftinni "Lítið eftir af FL-Group." Fréttin var í nettum "schadenfreude"-stíl og talað um sannkallað stjörnuhrap. Gengið hefði náð hæstu hæðum í fyrra sumar með genginu 36,45 en væri nú komið niður í tæplega 6,5. Markaðsvirði félagsins væri komið niður í um 64 milljarða, sem slagaði hátt upp í boðaða hlutafjáraukningu Baugs og annarra til þess að styrkja stoðir FL-Group.

Niðurlag fréttarinnar fékk mig hins vegar til að hugsa, en þar sagði:

"Markaðsvirði FL Group sé nú í raun komið niður fyrir innra virði félagsins. Yrði það tekið til gjaldþrotaskipta, reyndust eignir þess hugsanlega meira virði en fyrirtækið sjálft er metið á markaði."

Fréttamaður Rúv (Sigríður Hagalín) ber hér fyrir sig heimildarmönnum fréttastofunnar sem er gott og vel. Hins vegar er athyglisvert að setja fréttina í samhengi við hugsanlegt gjaldþrot. Gjaldþrot er mjög fjarlægur kostur fyrir fyrirtæki þar sem eignir eru meiri en skuldir - ef ekki svo að segja útilokaður, a.m.k. í venjulegu árferði. Ekkert kom fram í fréttinni sem benti til að svo væri, heldur þvert á móti.

Með smávægilegri frekari gagnavinnu hefði t.d. mátt benda á að markaðsvirði einungis einnar eignar FL-Group í skráðu félagi á markaði, Glitni Banka, er tæpir 77 milljarðar, eða tæpum 13 milljörðum meira en markaðsvirði FL-Group.

S.s. núverandi verðmat á hlutabréfamarkaði á FL-Group er að segja okkur að 77 milljarða eignahluti FL Group í Glitni og ALLAR AÐRAR EIGNIR (Landic Properties, Refresco, Tryggingamiðstöðin o.s.frv.) séu, í mjög einfölduðu máli, ekki nettó nema 64 milljarða virði!!!

Sama kemur í ljós þegar litið er á Exista. Markaðsvirði er sl. miðvikudag tæpir 114 milljarðar, en einungis eignarhlutinn í Kaupþingi er á markaðsvirði sama dags rúmlega 119 milljarða virði.

Fréttastofa Rúv sjónvarps hefði þarna að mínu mati mátt eyða ögn meiri tíma í vinnslu fréttarinnar og draga fram þessar einföldu staðreyndir. Niðurlag fréttarinnar (og hugsanlega yfirskrift líka) hefði þá hugsanlega orðið allt öðruvísi - t.d. "Verulegt vanmat á FL-Group (og Exista)" eða "Undirmat á hlutabréfamarkaði í dag orðið jafnvel meira en yfirskot sl. sumar!"

Eða hvað?

laugardagur, 22. mars 2008

Hefur einhver spurt Sviss?

Það er athyglisvert að í því tali sem fram hefur farið hér á landi um mögulegan kost á því að taka upp svissneskan franka virðist enginn hafa spurt Sviss. Hefur einhver í blaðheimum haft samband við kollega sína hjá t.d. Neue Zürcher Zeitung, eða einhvern hjá svissneska Seðlabankanum?

Nema kannski einhver hafi hringt og sá eða sú sem svaraði á hinum endanum hafi haldið að um væri að ræða símaat?

fimmtudagur, 20. mars 2008

Valgerður hvessir sig...

Frú Valgerður Sverrisdóttir rifjar upp kosningaslagorð Framsóknarflokksins (og titil á smellnu kosningapopplagi!) í flunkunýjum pistli á heimasíðu sinni. Þar er fast skotið.

Í stuttu máli rifjar hún hvernig aðrir flokkar, og þ.m.t. velflestir kjósendur höfnuðu atvinnustefnu Framsóknarflokksins í síðustu kosningum. Nú væri annað hljóð komið í skrokkinn.

Þessi brýning Valgerðar er þó ekki síst athyglisverð fyrir þær sakir að frá því í síðustu kosningum hafa sumir þingmenn Framsóknarflokksins einnig verið á harðahlaupum frá þessum þætti kosningastefnuskráar flokksins. Það er og verður þannig bitist um meira og fleira en eingöngu afstöðuna til Evrópusambandsins innan Framsóknarflokksins á næstu vikum og mánuðum.

þriðjudagur, 18. mars 2008

Þorsteinn skammar Styrmi

Það eru betri dagar að vakna þegar vinur minn Þorsteinn Pálsson skrifar leiðara í Fréttablaðið. Í dag, undir fyrirsögninni "Hlutverk Íslands" ritar hann um íslensk öryggis og varnarmál almennt, og um friðargæsluna, og þátttöku Íslands í friðargæslu Atlantshafsbandalagsins í Afganistan sérstaklega. Þar segir m.a. (feitletrun er mín):

Allt er breytingum undirorpið. Sá ráðherra í núverandi ríkisstjórn sem ber ábyrgð á varnarsamningnum við Bandaríkin, frumvarpi að fyrstu löggjöf um hernaðarlega starfsemi á vegum íslenskra stjórnvalda og íslenskri friðargæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins er gamall herstöðvaandstæðingur.
Þetta er til marks um ábyrg og ánægjuleg hugmyndafræðileg umskipti. En svo sýnist það líka hafa gerst að sumir þeirra sem áður gengu fremst í baráttu fyrir vörðu landi og aðild að Atlantshafsbandalaginu hafi valið sér nýjan sjónarhól í tilverunni þaðan sem utanríkisráðherrann sést enn eins og í sjónglerjum Þjóðviljans á sinni tíð í hlutverki leikbrúðu Bandaríkjanna.

Umræður um aukna hlutdeild Íslands í friðargæslu í Afganistan og ferð utanríkisráðherra til landsins hafa dregið þessi pólitísku hamskipti fram í dagsljósið.
[...]
Sem aðildarríki að Atlantshafsbandalaginu ber Ísland ábyrgð á ákvörðunum um hlutverk þess í Afganistan í umboði Sameinuðu þjóðanna. Þátttaka í friðargæslu í þessu stríðshrjáða landi er því bæði rétt og eðlileg.
[...]

Þau verkefni sem Ísland hefur tekið að sér í friðargæslu hafa svo sem vænta má fyrst og fremst verið borgaraleg. Engin starfsemi af þessu tagi er á hinn bóginn áhættulaus. Það er staðreynd sem horfast verður í augu við.
Satt best að segja bæri það vott um skinhelgi ef við ætluðum að losa okkur undan ábyrgð á friðargæsluverkefnum með því að láta duga að sinna almennu hjálparstarfi og þróunaraðstoð. Við komumst einfaldlega ekki hjá að gera sitt lítið af hvoru tveggja. Báðum þeim hlutverkum eigum við að sinna með stolti.

Ekki þarf sterk gleraugu til að sjá að ritstóri Fréttablaðsins beinir spjótum sínum að ritstjóra Morgunblaðsins, þá sérstaklega leiðara Morgunblaðsins þann 7. mars sl. og niðurlag leiðara sama blaðs þann 15. mars sl. Hér takast á turnarnir tveir í íslenskri fjölmiðlun og ljóst að þeim greinir á um ýmis grundvallaratriði í stjórnmálaumræðu dagsins.

mánudagur, 17. mars 2008

Bear Stearns

Það er mikil huggun í því að þegar maður er að eiga við fermingar PTSD, þarf smá tíma til að jafna sig og aðallega að vinna sig hratt og örugglega í gegnum innboxið í vinnunni, að eiga góða vini sem geta sagt akkúrat það sem maður var að hugsa, eða ætlaði að hugsa, og koma jafnvel betur að því orði!

Björgunin á Bear Stearns. Vildi ýmislegt um það segja, en sá að Tóti var eiginlega búin að því. Tengi því bara á hann rétt á meðan ég sötra koffeinríkan svaladrykk og held áfram að vinna.

miðvikudagur, 12. mars 2008

Skattpíning barnafólks: Afslátt í stað bóta

Ekki get ég sagt að þau tíðindi komi á óvart, því miður, að skattar sem hlutfall af tekjum hjá barnafólki hafi hækkað hér á landi undanfarin ár. Ennfremur að skattabreytingar hér á landi hafi fyrst og fremst komið hátekjufólki til góða. Hér talar engin Stefán Ólafsson, heldur OECD.

Hér á Íslandi er reynt að koma til móts við barnafólk fyrst og fremst með greiðslu barnabóta, eins konar skattendurgreiðsla, sem kemur ársfjórðungslega og hluti þeirra tekjutengdur. Rausnalegastar eru bæturnar gagnvart tekjulágum einstæðum foreldrum. Einstætt foreldri með 200 þús króna mánaðarlaun og 2 börn, annað yngra en 7 ára, fær 472,617 krónur í barnabætur á ári skv. reiknivél á vef ríkisskattstjóra. Það er um 39 þúsund nettó á mánuði og munar um það óneitanlega.

Skerðingarmörk vegna hærri tekna eru hins vegar fljótar að telja inn, og fyrir hjón eða fólk í sambúð eru barnabæturnar fljótar að gufa upp og verða óverulegar.

Eitt af því sem gerir það erfitt að fá hækkun á barnabótum er sú staðreynd að það þýðir aukin útgjöld ríkissjóðs. (Svo er náttúrlega spurning hvort að það sé ekki stórhættulegt að láta barnafólk hafa hærri ráðstöfunartekjur – það eyðir peningunum eflaust bara í einhvern óþarfa, eykur þenslu og og viðskiptahalla – en það er önnur saga!)

Sjálfur ér ég mikill aðdáandi persónuafsláttarins og tel hann vannýtt tæki í því að ná ákveðnum tekjujöfnunaráhrifum í gegnum skattkerfið. Tek það að vísu fram að ég tel tekjutengdan persónuafslátt ópraktískan, en hins vegar að frekar eigi að nota afslátt í stað bóta í okkar skattkerfi. Sérstaklega þar sem það væri auðvelt, skilvirkt og hefði þann skemmtilega kost að draga úr bæði tekjum og útgjöldum ríkisins á sama tíma.

Reyndar tel ég að hægt væri að fella a.m.k. vaxtabætur, húsaleigubætur og barnabætur inn í persónuafláttarkerfið án mikilla vandkvæða. Hækka persónuafsláttinn almennt á móti niðurfellingu vaxta og húsaleigubóta. Það þurfa allir þak yfir höfuðið (með einum eða öðrum hætti!) og því má taka tillit til þess beint í ákvörðun persónuafsláttarins.

Barnabæturnar eigum við síðan að leggja af, en taka þess í stað upp skattkort fyrir alla, börnin líka, sem eru að fullu millifæranleg til foreldra eða forráðamanna – og það alveg fram til loka stúdentsprófs, eða sambærilegs.

Aðgerð af þessu tagi yrði til þess að draga verulega úr skattpíningu barnafólks.

Og að sjálfsögðu væri með þessu kerfi ekki komið í veg fyrir sérúrræði til handa tekjulágum, einstæðum foreldrum. Það gæti þess vegna haldið áfram tiltölulega óbreytt. Það væri þó orðin undantekningaraðferð í stað meginreglu. Afsláttur í stað bóta yrði hin nýja meginregla.

sunnudagur, 9. mars 2008

ESB: fimm stig sorgar

Eftir umræður undanfarinna daga, og þá sérstaklega Silfur Egils í dag, komu upp í huga mér fimm stig sorgarinnar og hvernig þau gætu átt við hugsanlega aðild Íslands að ESB (eða ekki):

Afneitun: Málið er ekki á dagskrá.
Þunglyndi: Já en..., málið er ekki á dagskrá!
Samningaviðræður: Má bjóða svissneskan franka? Norska krónu?
Reiði: Málið er ekki á dagskrá!!!
Sátt: Í ljósi breyttra hagsmuna, er eðlilegt að sækja um aðild. En við höfum líka alltaf sagt það... þ.e. í ljósi breyttra hagsmuna gætum við hugsanlega, kannski þurft að sækja um aðild – þ.e. mögulega, að teknu tilliti til allra þátta, eftir að allir kostir hafa verið vegnir og metnir, þ.m.t. á vísindalegan hátt!

föstudagur, 7. mars 2008

Vala víkingur og staða Framsóknar

Valgerður Sverrisdóttir flutti ágætt erindi á iðnþingi í gær og má segja að nú sé hún loksins komin endanlega úr Evrópuskápnum. Hún segir í niðurlagi ræðu sinnar:

Við erum Evrópuþjóð og eigum sögulega og menningarlega samleið með Evrópu. Langstærstur hluti viðskipta okkar er við Evrópuþjóðir. Vegna þessara nánu tengsla ákvað Ísland árið 1994, ásamt öðrum EFTA-ríkjum, að gerast þátttakandi í Evrópusamrunanum. Aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu var mjög umdeilt mál á sínum tíma en nú eru í raun allir sammála um að aðild hafi verið rétt ákvörðun.
Mér segir svo hugur að eins muni það verða ef við gerumst aðilar að Evrópusambandinu. Það verður umdeilt í aðdragandanum og að einhverju leyti á meðan á aðildarviðræðum stendur, en ef við næðum samningi sem þjóðin teldi hagstæðan og myndi samþykkja í þjóðaratkvæðagreiðslu, hef ég þá trú að niðurstaðan myndi verða okkur farsæl.
Það sem fyrst og fremst fengist með slíkri aðild er að mínu mati aukinn stöðugleiki og meira öryggi til framtíðar.Í þessari yfirlýsingu felast mikil pólitísk tíðindi. Hér kveður við töluvert annan tón en heyra hefur mátt frá formanni Framsóknarflokksins, Guðna Ágústssyni, og skósveini hans, Bjarna Harðarsyni.

Það er nokkuð ljóst að innan Framsóknarflokksins eru skiptar skoðanir um afstöðuna til ESB. Ef eitthvað má lesa út úr skoðanakönnun Samtaka iðnaðarins um afstöðu landsmanna, þ.m.t. fylgismanna einstakra stjórnmálaflokka, þá er það sú staðreynd að samfara hnignandi fylgi hefur hlutfall ESB-andstæðinga innan flokksins farið vaxandi.

Á mannamáli þýðir þetta að það eru frjálslyndu framsóknarmennirnir, líberlistarnir, sem eru að yfirgefa flokkinn. Það eru grafalvarleg tíðindi að nú 10 mánuðum eftir verstu útkomu Framsóknarflokksins í kosningum hefur staðan ekkert skánað. Ef eitthvað, þá hefur hún versnað.

Það þýðir lítið fyrir núverandi formann, að bæta það böl með því að benda á eitthvað annað. Verði þessi staða viðvarandi í skoðanakönnunum fram á næsta flokksþing, er óumflýjanlegt að þar muni verða veruleg heitt undir hans stóli. Mótframboð er næsta óumflýjanlegt.

Hvað stefnu flokksins í Evrópumálum varðar, er líka nokk óumflýjanlegt að á næsta flokksþingi verði mörkuð framtíðarstefna flokksins. Leiðin hefur í reynd þegar verið vörðuð, en skýrari niðurstaða í þeim efnum mun án efa hafa veruleg áhrif á samsetningu og fylgisaukningarmöguleika flokksins til frambúðar. Kurteisiskomprómí á flokksþingum hingað til, sem einkum hafa verið til að friðþægja mestu afturhaldsöflin í flokknum, hafa lítið hjálpað.

Ef litið er til þingflokks Framsóknarflokksins er líka ljóst að þeir hinir frjálslyndari þar á meðal verða að fara að gera sig meira gildandi. Valgerður, hversu öflug sem hún er, stendur ekki ein á móti afturhaldinu til lengdar. Hún hefur hins vegar með ræðu sinni á iðnþingi í gær markað sér enn skýrari stöðu enn fyrr. Sem varaformaður flokksins hafa þau orð hennar mikla vigt.

þriðjudagur, 4. mars 2008

General dislike of Iceland

Í ágætri grein Financial Times um áhrif alþjóðlegrar lausafjárkrísu á Ísland (og sagt er frá á mbl.is hér) er farið á greinargóðan hátt yfir þann vanda sem við er að etja. Rætt er við forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sem kemur vel út í greininni. Að auki er rætt við nokkra lykilstarfsmenn íslensku bankanna.

Rúsínan er hins vegar í orðsins fyllstu merkingu í pylsuendanum undir lok greinarinnar þegar rætt er við Axel nokkurn Swenden, sem titlaður er “credit strategist” hjá BNP Paribas. Orðrétt er haft eftir Swenden: “There is a general dislike of Iceland; every movement in the market gets magnified when it comes to Iceland.”

Hér er í hnotskurn sá vandi sem Ísland og íslendingar eiga við að eiga í alþjóðlegu fjármálaumhverfi í augnablikinu; almennt er Ísland illa liðið og sveiflur á markaði verða ýktar í íslensku samhengi.

Það var og!

Í framhaldi er haft eftir Swenden að menn efist um að íslenska ríkið geti eða vilji styðja við bakið á bönkunum ef þeir lenda í vandræðum. Ennfremur gefur hann í skyn að það skorti gegnsæi í útlánum þeirra.

Erfitt er að mæta þessum athugasemdum þar sem þær eru að mestu huglægar. Traust á íslenska ríkið sem bakhjarl er ekki hægt að meta, umfram það sem haft er eftir forsætisráðherra í sömu grein, þ.e. Ísland muni og geti brugðist við eins og önnur ríki. Vert er reyndar að hafa í huga að íslenska ríkið er þar líka bundið sömu kvöðum og takmörkunum og önnur aðildarríki EES, þ.e. samevrópskum reglum um fjármálamarkaði, ríkisstyrki og markaðsaðstoð.

Kvörtun um skort á gegnsæi er líka að einhverju leyti erfitt að mæta. Bankarnir skila ársfjórðungsskýrslum og árskýrslum, eru upplýsingaskyldir gagnvart kauphöll og fjármálaeftirliti og gefa almennt mjög greinargóðar upplýsingar. Lærðu þeir einnig allir góða lexíu í míní-krísunni vorið 2006 í þeim efnum.

Upplýsingagjöfinni eru hins vegar óhjákvæmilega einhver takmörk sett. Alltaf getur verið einhver vandi í miðlun þeirra, og svo eru jú fjölmörg dæmi um það að menn heyri bara og sjái það sem þeir vilja heyra og sjá!

Hættan er sú að staðreyndirnar verði aukaatriði ef mönnum er "almennt illa við Ísland".

"General dislike" er þannig hreinn ímyndarvandi.

mánudagur, 3. mars 2008

Eilífðarverðbólga?

Hagstofa Íslands, ein opinberra tölfræðistofnanna innan OECD, mælir verðbólgu þannig að blandað er saman ólíkum stofnþáttum til að mynda vísitölu neysluverðs. Annars vegar er um að ræða hefðbundnar verðmælingar á neysluþáttum, s.s. þróun á verði matvæla, eldsneytis og annarra aðfanga. Þessir þættir eiga það sameiginlegt að vera eignarýrandi þættir, þ.e. hækkun þeirra hefur raunáhrif á ráðstöfunarfé þ.a. minna verður til sparnaðar. Eignir (sparnaður) aukast ekki, rýrna jafnvel að raungildi og í verstu tilfellum verður hrein rýrnun þar sem sparifjáreigendur verða að ganga á sparnaðinn til að mæta kostnaðaraukningu aðfanga.

Hins vegar er um að ræða mælingu á eignamyndandi þætti, þ.e. þróun húsnæðisverðs. Hækkun á húsnæðisverði ætti að öllu jöfnu að teljast jákvæð þar sem hún er eignamyndandi verðbólga. Hún er því algerlega eðlisólík hefðbundinni verðbólgu og er blöndun þeirra hrein hugsanavilla og rökleysa.

Eðlilegt er að reglulegir útgjaldaliðir tengdir húsnæði komi inn í verðbólgumælingu, t.d verðþróun byggingakostnaðar, leiguverð og jafnvel fjármögnunarkostnaður húsnæðis (sem þó væri ákveðin tvítalning þar sem fjármögnunarkostnaður húsnæðis í venjulegu þjóðfélögum endurspeglar verðbólguvæntingar að verulegu leyti).

Verðþróun húsnæðisins sjálfs er, eins og áður sagði, annað mál, enda er það svo að flest okkar kaupa húsnæði eflaust ekki nema tvisvar til þrisvar sinnum um ævina. Við kaupum á hverjum degi eitthvað í matinn.

Reyndar er það oftast þannig í öðrum löndum að við lága verðbólgu hækkar húsnæðisverð, og öfugt. Það á sér þá einföldu meginskýringu að við lága verðbólgu er aðgengi að lánsfjármagni auðveldar og fjármögnun ódýrari. Það ýtir undir eftirspurn eftir fasteignum, sem aftur skapar verðþrýsting.

Aukin verðbólga leiðir af sér hærri fjármögnunarkostnað, sem dregur úr lánaeftirspurn og þ.a.l. dregur úr eftirspurn eftir fasteignum og verð stendur í stað eða jafnvel lækkar. Ekki þarf að horfa lengra en til Bandaríkjanna og Bretlands í dag til að sjá dæmi um þetta.

Í okkar kerfi þar sem haldast í hendur verðtrygging lána og hin séríslenska verðbólgumæling er komið í veg fyrir þessa jafnvægislist eigna og eyðslu. Í okkar kerfi, sérstaklega eftir innkomu bankanna á húsnæðislánamarkaðinn, aukningu lánshlutfalls og hækkun á lánum, þrýstir hvað á annað, og verðbólgan er líklega að verða eilíf nema til komi grunvallarkerfisbreyting.

Verðbólga undanfarinna ára byggðist svo að segja algerlega á sprengingu í húsnæðisverði sem varð vegna innkomu bankanna á þann markað. Að kenna um 90% lánum íbúðalánasjóðs fyrir fyrstu íbúð að hámarki 9 milljónir, sem ekki voru einu sinni komin til framkvæmda þegar að bankarnir komu inn á markaðinn er í besta falli kjánalegt.

Nú þegar fasteignamarkaðurinn hefur hægt verulega á og íbúðaverð virðist vera að ná jafnvægi, er hin hefðbundna verðbólga hins vegar farin í fullan gang. M.a. er það afleiðing gífurlegrar hækkunar á rekstarkostnaði fyrirtækja sem er bein afleiðing hávaxtastefnu Seðlabankans, auk að sjálfsögðu vegna ástands á alþjóðamörkuðum.

Þetta þýðir að hin séríslenska verðbólga heldur áfram að vera há. Hún getur ekki lækkað. Við erum föst í verðbólguvítahring og hún er orðin okkar efnahagslega gereyðingarvopn.

Það mun ekki breytast nema til komi grundvallarkerfisbreyting.