fimmtudagur, 31. desember 2009

Gleðilegt ár

Síðastliðna 6 mánuði hef ég dvalið við störf í Afganistan. Eftir frí hér heima yfir jól og áramót mun ég halda þangað aftur nú í byrjun nýs árs og að óbreyttu dvelja þar fram á næsta sumar.

Heima er þó best.

Þakka ég öllum þeim sem hafa gefið sér tíma til að lesa það sem hér hefur verið ritað.

Þessi færsla er númer 100 á árinu 2009 og jafnframt sú síðasta.

Næsta blogg verður á nýju ári.

Ég óska lesendum og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.

þriðjudagur, 29. desember 2009

Kostur krónunnar og gjaldþrot Seðlabankans

Haft var eftir fjármálaráðherra að hann væri sannfærður um kosti krónunnar og þess að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

Það er ágæt afstaða, en þá er rökrétt að nýta þá kosti í kjölfar efnahagshruns til hins ítrasta. Í dag er það ekki gert og fer fjarri.

Til lengri tíma litið er ég hins vegar ósammála því að kostir sjálfstæðs gjaldmiðils vegi þyngra en gallarnir. Sérstaklega ef framkvæmd uppihalds hins sjálfstæða gjaldmiðils á að halda áfram með þeim hætti sem verið hefur hér á landi undanfarin 30 ár.

Því setning svonefndra Ólafslaga 1979 og almenn upptaka verðtryggingar fól í sér viðurkenningu á því að gjaldmiðillinn var ónýtur og ekki einu sinni nýtanlegur til heimabrúks nema með sérstökum æfingum.

Saga íslensku krónunnar er samfelld harmsaga.

Almenn upptaka verðtryggingar gerði það hins vegar að verkum að hægt var að stunda hér mjög arðbærar lánveitingar – eflaust þær arðbærustu í heimi.

Verðtryggingin fól í sér a.m.k. þrefalda tryggingu fyrir lánveitendur. Í fyrsta lagi þá augljósu staðreynd að upphæð og eftirstöðvar lána uxu í samræmi við þróun verðlags. Í öðru lagi að verðtryggingin fól í sér í reynd dulda gengistryggingu þar sem bein og óbein áhrif gengis krónunar á almennt verðlag eru gífurleg, eins og við höfum fengið svo kyrfilega að finna fyrir á síðustu tveimur árum. Í þriðja lagi eru það svo uppsöfnunaráhrif verðtryggingarinnar eins og hún er framkvæmd hér sem tryggir lánveitendum "vexti, og vaxtavexti, og vexti líka af þeim!"

Ekki furða að erlendir fjárfestar, loksins þegar þeir uppgötvuðu þessa tæru snilld, og þá fyrst og fremst í boði Kaupþings hér í upphafi áratugarins, hafi í fyrstu ekki trúað eigin augum, en síðan keypt upp ríkistryggð verðtryggð skuldabréf í gríð og erg. Þar voru fremst í flokki skuldabréf íbúðalánasjóðs. (Svona til hliðar má nefna þá athyglisverðu staðreynd að ekki kemur fram í lögum um íbúðalánasjóð að á útlánum hans hvíli ríkisábyrgð, hins vegar skýrast góð kjör sem hann nýtur meðal annars af því að þar sem sjóðurinn er í ríkiseigu er gengið út frá ríkisábyrgð. Vegna íhaldssamrar lánastefnu sjóðsins, þ.m.t. fyrsta veðréttar, lægri lánshlutfalla og lægri lána almennt hefur lánasafn hans verið talið nokkuð tryggt. Það er hins vegar allsendis óvíst hvort það eigi við í dag og t.d. ólíklegt að sjóðurinn myndi ráða við almenna niðurfærslu, eða leiðréttingu, lána til samræmis við það sem bankarnir eru að gera. Hvað þetta varðar er það ókostur að hér sé ríkisrekinn íbúðalánasjóður.)

Gjaldmiðill gegnir hefðum samkvæmt ákveðnum hlutverkum. Í fyrsta lagi er hann milliliður viðskipta og í öðru lagi virðisgeymsla. Virði gjaldmiðils ætti síðan öllu jöfnu að endurspegla undirliggjandi virði hagkerfisins sem hann vinnur fyrir og að sama skapi að enduspegla þá trú sem er á því hagkerfi. Sérstaklega á þetta við um gjaldmiðil sem hvílir ekki á gullfæti eða er t.d. gengistryggður og þá varinn af samsvarandi gildum gjaldeyrisvarasjóð.

Hafa ber einnig í huga að gjaldmiðlar, seðlar og mynt, eru í eðli sínu ríkisskuldabréf – óbundin og vaxtalaus.

Virði gjaldmiðils byggir þannig bæði á efnislegum og óefnislegum forsendum. Stærstu áhrifavaldar virðisins eru virkni hins undirliggjandi hagkerfis, hversu vel gjaldmiðilinn þjónar hlutverki sínu sem milliliður viðskipta og virðisgeymsla, og saman hafa þessir þættir áhrif á trúna á gjaldmiðilinn. Trúin á gjaldmiðilinn verður auk þess fyrir öðrum áhrifum, þ.m.t. hversu trúverðugur seðlabanki sá sem ber ábyrgð á gjaldmiðlinum er í sínu starfi og hver er efnahagsstefna stjórnvalda viðkomandi ríkis sem notar gjaldmiðilinn. Og já, hversu auðvelt er að skipta gjalmiðlinum í önnur verðmæti t.d. annan gjaldmiðil eða önnur verðmæti.

Það er nokkuð ljóst að lítið af ofantöldu hér á Íslandi er þess eðlis að það ýti undir styrk og trú á krónuna sem framtíðar gjaldmiðil.

En þar sem íslenska krónan er íslenskur tilbúningur undir íslenskri stjórn og á að endurspegla íslenskan veruleika er eðlilegt að krónan sem slík og þær skuldbindingar sem í henni felast séu gerðar upp í kjölfar efnahagshruns af því tagi sem landið gekk í gegnum fyrir rúmu ári síðan.

Í hruninu var gripið til ýmissa aðgerða til að reyna að bjarga því sem bjargað varð. En allt kom fyrir ekki.

Kaup Seðlabankans á svokölluðum ástarbréfum bankanna var ein slík aðgerð. Réttilega hefur verið gagnrýnt að þar fór Seðlabankinn illa að ráði sínu þar sem hann tók ekki raunveruleg veð fyrir þeim viðskiptum.

Hins vegar er það jafn vitlaus, ef ekki vitlausari, aðgerð að yfirfæra þá skuld til ríkisins eins og gert var fyrir síðustu áramót. Ástarbréfakaupin voru á sínum tíma fjármögnuð með hreinni peningaprentun. Seðlabankinn fór ekki á markað og sótti þennan pening. Skuldin var hvergi til nema sem bókhaldsleg færsla í efnahagsreikningi Seðlabankans. Eins og ég hef reyndar margoft bent á þá var og er enginn kröfuhafi á hvorki seðlabankann né ríkið vegna þessarar skuldar. Hún er í reynd ekkert nema froða. Það er þess vegna engin ástæða fyrir því að "gjaldþrot Seðlabankans vegi þungt".

Rétt eins og nú er þó byrjað gagnvart bæði fyrirtækjum og heimilum landsins, hvað varðar afskriftir skulda, tiltekt í bókhaldi, uppgjör fyrirtækja og þess háttar, þarf slíkt hið sama að eiga sér stað hvað varðar efnhagsreikninga ríkisins og Seðlabankans. Þar sem skuldagrunnurinn er íslenska krónan er það hreint innanlands og innanríkismál að t.d. að lágmarki þurrka "gjaldþrotaskuld" Seðlabankans út af bókum bankans og ríkisins. Minna má það ekki vera.

Efnahagsreikningur beggja stæði sterkari á eftir og þetta er einn af fáum kostum við það að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil. Hann ber að nýta.

laugardagur, 28. nóvember 2009

Dagpeningasmjörklípa LÍÚ

Eins og við var að búast eru sjómenn og útgerðarmenn ekki sáttir við áætlanir stjórnvalda um að afnema sjómannaafsláttinn í áföngum. Nafni minn Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, lætur hafa eftir sér að ef sjómannaafslátturinn verði felldur niður sé það "...grundvallaratriði að sjómenn fái sambærilegan skattaafslátt og aðrir launþegar sem njóta skattfrelsis vegna dagpeninga."

Tilgangur dagpeninga er fyrst og fremst til að mæta kostnaði, skilgreindum og óskilgreindum, við fjarveru vegna vinnu. Þess vegna eru þær greiðslur skattfrjálsar þar sem þær, eðli sínu samkvæmt, eru ekki tekjur.

Skattayfirvöld eru hins vegar vel meðvituð um þá freistingu sem dagpeningagreiðslum geta fylgt, t.d. að atvinnuveitendur greiði dagpeninga sem hlunnindi, án þess að raunverulegur kostnaður hafi átt sér stað á móti.

Dagpeningagreiðslur skiptast í tvennt, annars vegar til að mæta kostnaði við gistingu og hins vegar til að mæta öðrum kostnaði, fyrst og fremst fæðiskostnaði.

Dagpeningar vegna gistikostnaðar eiga ekki við um sjómenn þar sem ekki eru þeir rukkaðir fyrir gistingu um borð (spurning hvort Indriði hafi áttað sig á því að hér gæti verið um skattskyld hlunnindi að ræða?).

Dagpeningar vegna annars kostnaðar gætu átt við að hluta, en samkvæmt kjarasamningum sjómanna er fæði nú niðurgreitt að hluta. Ekki er hægt að sjá að annar kostnaður en hluti fæðiskostnaðar eigi við um borð.

(Í stærstu togurum er jafnvel líkamsræktaraðstaða um borð sem ekki er rukkað fyrir. Spurning hvort það teljist ekki skattskyld hlunnindi. Að minnsta kosti er það þannig að við "aðrir launþegar" þurfum að greiða skatt af framlagi vinnuveitanda og verkalýðsfélaga til kostnaðar vegna árskorta á líkamsræktarstöðvum. Indriði?)

Ef sjómannaafslátturinn á sérstakan tilverurétt umfram annað í þeim skattaholskeflum sem nú ganga yfir landsmenn væri nær að halda þeim rökum fram og útskýra, frekar en að henda fram svona smjörklípum.

Ég hefði t.d. haldið það betri rök að benda á þá staðreynd að margir sjómenn muni við áætlaðar staðgreiðslubreytingar greiða mun hærra skatthlutfall en áður, sem væntanlega vegur þyngra í þeirra pyngjum en sjómannaafslátturinn.

Dagpeningar, notkun þeirra og misnotkun er þessu máli ótengt.

sunnudagur, 22. nóvember 2009

Traust og tölur

Ég sé að á forsíðu Morgunblaðsins er sagt frá því, að því er virðist á innsoginu, að ESB vilji að helstu hagstærðum varðandi íslenskan landbúnað verði safnað upp á nýtt.

ESB "...samþykkir ekki þau vinnubrögð að Bændasamtökin eða aðrir þeir sem eiga hagsmuna að gæta sjái um þessa skýrslugerð."

Þó það nú væri.

Án þess að draga sérstaklega í efa heilindi Bændasamtakanna, þá hefur það verið lenska á Íslandi að menn hafa fyrst og fremst haft eftirlit með sjálfum sér. Sannaðist ágætlega í hruninu, en ein ástæða þess var væntanlega sú að bankarnir sjálfir voru yfirleitt megin heimild fyrir því hver staða þeirra var. Þeir útveguðu tölurnar og gögnin og eftirlitsaðilar létu oftast nær duga að kíkja yfir hvort þær stóðust. Dýptinni í greiningunni var, eftir á að hyggja, verulega ábótavant.

Þannig að strax er aðildarumsóknin að ESB farin að hafa jákvæð áhrif – skilar væntanlega betri gagnavinnu með sjálfstæðri staðfestingu.

Hér hefur ESB Ronald Reagan sem fyrirmynd: "Trust, but verify!"

laugardagur, 21. nóvember 2009

Gjaldþrot til góðs

Í núverandi ástandi er það eina rétta að setja yfirskuldsett fyrirtæki í gjaldþrot. Ef að einingar innan þeirra eru lífvænlegar þarf að tryggja þeim tímabundið líf þar til þær eru seldar á opnum markaði.

Það er engum í hag að halda lífi í yfirskuldsettum fyrirtækjum, og þá sérstaklega ekki neytendum.

Gott dæmi um þetta er 1998 ehf./Hagar. Skuldsetning er sögð um og yfir 50 milljarðar en raunverulegt virði samsteypunnar einungis 10 til 15 milljarðar.

Núverandi “eigendur “ segjast geta haldið áfram rekstri og greitt skuldirnar.

En hver er tilgangurinn? Skuldsetning sem er allt að því fimmföld raunverulegt virði þýðir að “eigendurnir” eru löngu búnir að gefa frá sér alla kröfu á áframhaldandi forræði. Að standa undir slíkri skuldabyrði verður að auki ekki gert á annan hátt en þann að velta þeim kostnaði yfir á viðskiptavini samsteypunnar í gegnum hærra vöruverð en annars þyrfti að vera.

Það er því mun hreinlegra að gera upp reksturinn, afskrifa þær skuldir sem ekki fást staðist og selja það sem eftir er til nýrra rekstraraðila.

Þetta þarf að gera við fleiri fyrirtæki sem svona er statt fyrir. Það yrði til þess að hreinsa út skuldir, en eftir stæðu heilbrigðari rekstrareiningar með eðlilegri skuldabyrði og hugsanlega með töluvert svigrúm til þess að bjóða lægra vöruverð.

Hvað önnur fyrirtæki varðar, sem ekki fóru slíku offari, en þurfa engu að síður á að halda ákveðnum afskriftum, eða leiðrettingu á skuldastöðu er affarasælast að bankastofnanir landsins geri slíkt þannig að skuldum verði breitt í hlutafé. Það hlutafé verði síðan með tíð og tíma boðið til sölu á almennum markaði.

Í þessu á engin atvinnugrein að vera undanskilin. Sérstaklega ætti það að vera markmið að gera þetta gagnvart yfirskuldsettum sjávarútvegsfyrirtækjum. Erlendum skuldunautum slíkra fyrirtækja er bannað að eiga kvóta þannig að þeim yrði nauðugur sá kostur að selja hann sem fyrst.

Hugsanlega má setja slíkt kvótasöluferli í einhvern samráðsbúning með aðkomu ríkisins, þ.a. ríkið tæki þann kvóta yfir og seldi síðan áfram á opnum markaði, eða nýtti með öðrum hætti. Með þessu mætti hugsanlega ná ákveðinni sátt sem gerði innköllun kvóta með fyrningarleið óþarfa.

Stóra gjaldþrotið sem nauðsynlegt er að fara í er síðan Seðlabanki Íslands og skuldastaða ríkis og sveitarfélaga. Í þeim efnum eru ýmsir vegir færir hvað varðar innlendar skuldir. Þar er afskriftaleiðin vel fær og samhliða má í reynd gera upp efnahags- og rekstrarreikninga Seðlabankans og hins opinbera. Einskonar nýtt upphaf.

Augljóst dæmi er hinn stórundarlegi bakreikningur vegna ástarbréfakaupa Seðlbankans síðastliðið haust í miðju hruni, sem, þrátt fyrir að enginn væri kröfuhafinn, var breytt í alvöru skuld ríkisins við Seðlabankann um síðustu áramót.

þriðjudagur, 17. nóvember 2009

Vitlaus módel - myndir

Það verður ekki dregið úr því að Seðlabanki Íslands leikur mikilvægt hlutverk í íslensku efnahagslífi. Hvort að það hlutverk er til góðs er hins vegar ekki hægt að fullyrða með góðu móti. Seðlabanki Íslands átti t.d. stóran þátt í því að ýta undir bóluhagkerfi og efnahagslegt fjárhættuspil þar íslenska þjóðin var lögð að veði á undanförnum átta árum.

Skoðum tvær myndir. Sú fyrsta er tekin úr síðustu skýrslu peningamála sem gefin er út af Seðlabankanum. Hún sýnir þróun verðbólgu á liðnum árum:

Hér er svo mynd af vaxtaferli seðlabankans yfir nokkurn veginn sama tímabil:

Vaxtahækkunarferlið sem hófst vorið 2004 átti samkvæmt hinni hefðbundnu kenningu að vinna gegn verðbólgu. Í mjög svo einfaldaðri mynd gengur kenningin út á það að með hækkun vaxta eykst áhugi á sparnaði og þannig dregur úr peningamagni í umferð. Of mikið af peningum í umferð veldur verðbólgu samkvæmt sömu kenningu.

Allt svo sem gott og blessað, nema hvað módelið gerði aldrei nógu vel grein fyrir frjálsu flæði fjármagns og því að hávaxtastefna ýtti undir vaxtamunarviðskipti með íslensku krónuna blessaða. Hreintrúarstefna Seðlabankans varð því beinlínis einn stærsti áhrifavaldurinn í því að ýta undir stjórnlaust innflæði fjármagns sem hvatt var áfram að skammtímagróðavon.

Hin sorglega staðreynd er hins vegar sú að Seðlabankinn er enn rekinn á sömu forsendum og á jafnblindri trú á sömu efnahagsmódelin og áttu stóran þátt í að koma okkur í þennan vanda.

Sanntrúarstefna, hvort heldur er í stjórnmálum eða efnahagsmálum (eða yfirleitt), er stórhættuleg.

Það er nefnilega nauðsynlegt að hafa í huga að öll módel sem varða mannlegt athæfi eru í grunninn vitlaus. Sum módel gefa hins vegar betri innsýn en önnur. Þau geta hins vegar aldrei sagt alla söguna.

Það er löngu komin tími á uppgjör við þá efnahagsstefnu sem Seðlabankinn rekur. Ekki er mikil von til þess þar sem æðstuprestar seðlabankans eru jú innvígðir og innmúraðir fylgismenn þeirrar stefnu.

Og finnst miklu meira gaman að vera í félagsskap með módelum.

Við hin getum hins vegar átt okkur í grámyglu hversdagsleikans.

föstudagur, 13. nóvember 2009

Dómgreind og hyggindi

Sturla Böðvarsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, telur Þorstein Pálsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, skulda sér skýringar á því af hverju Þorsteinn hefur þegið boð um sæti í samninganefnd Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Sérstaklega óskar Sturla þessa, samkvæmt pistli hans á pressan.is, þar sem hann hingað til hefur haft trú á dómgreind Þorsteins og hyggindum.

Ekki er mér til efs að Þorsteini mun reynast það létt verk. Sturlu og öðrum sem kunna að velta þessu fyrir sér má hins vegar benda á að ólíkt öðrum forystumönnum Sjálfstæðisflokksins, núverandi og fyrrverandi, hefur Þorsteinn Pálsson verið samkvæmur sjálfum sér um langan tíma hvað varðar afstöðu hans til aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu. Hefur hann þar haft langtímahagsmuni þjóðarinnar í öndvegi og sýnt bæði dómgreind og hyggindi.

Afstaða Þorsteins hefur margoft komið fram opinberlega, bæði á opnum fundum og þó sérstaklega í leiðara- og greinaskrifum hans í Fréttablaðinu. Mörg dæmi þess má finna á undanförnum mánuðum. Fara hér nokkur á eftir.

Í nýársleiðara Fréttablaðsins 2. janúar sl. segir Þorsteinn m.a.:

Seðlabankanum mistókst að halda krónunni fljótandi. Bankanum var um megn að rækja lögbundið hlutverk sitt. Að sumu leyti má rekja það til stjórnunarmistaka...

Afleiðingin er þverbrestur í undirstöðum hagkerfisins. Þeirri ákvörðun verður þar af leiðandi ekki slegið á frest að ákveða framtíðargjaldmiðil. Eigi vel að fara er þetta ár þeirrar miklu ákvörðunar hvert stefna ber í þeim efnum.

Nýr gjaldmiðill tengist óhjákvæmilega mati á stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna. Spurningin um aðild landsins að Evrópusambandinu hefur þannig tvær hliðar. Annars vegar snýr hún að lausn á brýnni þörf fyrir stöðuga mynt. Hins vegar veit hún að pólitískum álitaefnum í víðu samhengi...

Jafnframt er Evrópusambandið pólitískur félagsskapur. Slíka alþjóðapólitíska kjölfestu hefur Ísland ekki haft í sama mæli og áður eftir að gildi Atlantshafsbandalagsins að því leyti breyttist við lok kaldastríðsins. Á þann veg er þessi ákvörðun léttari en ætla mætti að hún er rökrétt framhald þeirrar stefnu sem í öndverðu var mótuð um stöðu landsins í samfélagi þjóðanna.

Aðildarspurningin er stærsta viðfangsefni þessa árs...


Þann 11. júlí sl. segir í grein Þorsteins:

Nefndarálit stjórnarflokkanna í utanríkisnefnd um Evrópusambandsaðildina er áfangi á langri leið. Að sama skapi eru vonbrigði að ekki skuli hafa tekist breiðari samstaða um svo veigamikið mál. Það felur í sér áform um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu og lausn á framtíðarstefnu í peningamálum og snýst þar af leiðandi um kjarnann í íslenskri pólitík.

Í sömu grein kemur fram að Þorsteinn er ekki gagnrýnislaus hvað varðar málsmeðferð aðildarumsóknarinnar á Alþingi, en þar segir m.a.:

Í ljósi þess hversu mikilvægt það er fyrir Ísland að aðildarumsókn nái fram að ganga vakna spurningar hvers vegna ríkisstjórnin gekk ekki lengra til að reyna að ná samstöðu. Einkum á það við um mismunandi hugmyndir um stjórnskipulega lokameðferð málsins. Þær snúast um hvort þjóðin á að veita ráðgjöf eða hafa raunverulegt úrslitavald með því að samþykkja eða synja ákvörðun Alþingis.

Í kjölfar samþykktar aðildarumsóknarinnar á Alþingi ritar Þorsteinn eftirfarandi þann 18. júlí síðastliðinn:

Umræðurnar um Evrópusambandsaðildina voru merkilegar fyrir þá sök að lítið fór fyrir efnislegum röksemdafærslum með og á móti aðild...

Allt um það er ánægjulegt að nú liggur fyrir að látið verður reyna á hvort viðræður um aðildarumsóknina leiða til þeirrar niðurstöðu sem meirihluti þjóðarinnar getur fallist á. Með þessari ákvörðun er stigið skref sem líta verður á sem rökrétt framhald af þeirri hugmyndafræði sem lá að baki aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu á sínum tíma.

Bandalagið er hins vegar ekki lengur sá burðarás í samstarfi Evrópuþjóðanna sem það var áður. Utanríkis-pólitísk kjölfesta Íslands hefur veikst að sama skapi. Evrópusambandið er þar af leiðandi eðlilegur og nauðsynlegur vettvangur fyrir Íslendinga til þess tryggja sömu hagsmuni og verja sömu hugsjónir og lengst af hafa ráðið utanríkisstefnunni. Hrun gjaldmiðilsins gerir það svo að verkum að brýnna er en nokkru sinni fyrr að hraða því svo sem nokkur kostur er að launafólk og atvinnufyrirtæki fái samkeppnishæfan gjaldmiðil til að vinna með. Evran er eini raunhæfi kosturinn í því efni.

Staðreynd er að sjávarútvegur og landbúnaður geta ekki vegna náttúrulegra takmarkana staðið undir auknum hagvexti. Önnur atvinnustarfsemi mun ekki gera það heldur nema hún njóti sömu samkeppnisskilyrða og sama stöðugleika og helstu viðskiptaþjóðirnar. Um þetta snýst hagsmunamatið.

Hér er reyndar ástæða til að benda einnig á pistil Þorsteins frá því 8. ágúst síðastliðinn:

Æskilegt væri að meiri rækt yrði lögð við undirstöður utanríkisstefnunnar og ekki síður festu í allri meðferð þeirra mála. Ríkari áherslu þarf að leggja á utanríkispólitískar rannsóknir. Miklu skiptir aukheldur að byggja upp breiðari samstöðu um þessi efni en verið hefur um skeið. Stærri þjóðir en við telja það nauðsynlegt til að styrkja stöðu sína. Íslendingar þurfa rétt eins og aðrir utanríkispólitíska festu.

Fyrstu alvarlegu utanríkispólitísku mistökin sem Íslendingar gerðu eftir lýðveldisstofnun voru samningarnir við Bandaríkin um varnarviðbúnað í ljósi nýrrar stöðu eftir lok kalda stríðsins. Rangt stöðumat leiddi til þess að þráður slitnaði í samskiptum við þá þjóð sem tekið hafði að sér varnir landsins í hálfa öld. Pólitísk staða Íslands veiktist fyrir vikið umfram það sem leiddi af breyttum aðstæðum. Af þessum mistökum má draga lærdóma.

Þann 19. september síðastliðinn ritar Þorsteinn m.a.:

Fyrsta skoðanakönnun eftir umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sýnir afgerandi andstöðu þjóðarinnar við þau áform. Hún er um leið til marks um mikla neikvæða sveiflu. Á þessu stigi er erfitt að meta hvort hér eru á ferðinni skammtíma viðbrögð við ríkjandi aðstæðum eða varanleg breyting á viðhorfum...

Við eigum skýr dæmi um hliðstæður úr stjórnmálasögunni. Á hápunktum í landhelgisdeilunum við Breta á sinni tíð jókst þunginn að baki kröfunni um úrsögn úr Atlantshafsbandalaginu og brottför varnarliðsins.

Á þeim tíma voru það fyrst og fremst forystumenn Sjálfstæðisflokksins, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, sem stóðu vörð um þá langtíma hagsmuni þjóðarinnar að eiga aðild að þeim samtökum lýðræðisþjóðanna í Evrópu sem þá voru öflugust. Tilhneiging til þjóðernislegrar einangrunarhyggju brotnaði á þeim öðrum fremur.

Á úrslitastundum í viðræðum um lausn á þeim deilum kom á daginn að það var aðild okkar að þessum samtökum sem veitti Íslandi þann styrk sem á þurfti að halda til að knýja fram ásættanlega niðurstöðu við samningaborðið. Utan samtaka hefði pólitísk staða Íslands verið veikari.

Þann 3. október ritar Þorsteinn m.a. eftirfarandi:

Aðildarspurningin er framtíðarmál fremur en augnabliksmál. Hún hefur þó að einu leyti bein tengsl við endurreisn efnahagslífsins. Stöðugleiki á fjármálamarkaði með frjálsum og haftalausum viðskiptum er borin von með svo lítinn gjaldmiðil sem krónan er...

Enginn stjórnmálaflokkur hefur enn sem komið er kynnt trúverðuga stefnu í peningamálum með íslenskri krónu. Eini sjáanlegi möguleikinn í þeim efnum er evran. Það aukna málefnavægi sem VG fær i kjölfar síðustu atburða veikir baráttuna fyrir samkeppnishæfum gjaldmiðli.

Þá vaknar spurningin: Hvar er miðjan í íslenskri pólitík? Er ekki meirihluti á miðjunni fyrir nauðsynlegri aðhaldspólitík í ríkisfjármálum, brýnum orkunýtingarframkvæmdum, mikilvægi þess að fá samkeppnishæfa mynt og gildi þess að Ísland eigi aðild að öflugustu samtökum Evrópuþjóða?

Og þann tíunda október síðastliðinn ritar hann m.a. þetta:

Af flokksþings- og landsfundaryfirlýsingum stjórnarandstöðuflokkanna að dæma standa þeir efnislega nær Samfylkingunni en VG í peninga- og Evrópumálum. Málflutningur þeirra er þó tvíræðari en svo að unnt sé að fullyrða að svo sé í raun.

Ofantilvitnuð skrif ber vott bæði góðri dómgreind og miklum hyggindum, þeim tveimur mannkostum sem Sturla Böðvarson hefur að eigin sögn ætíð haft mikla trú á í fari Þorsteins Pálssonar. Ákvörðun Þorsteins ætti því frekar að vera Sturlu nokkur hugarró því ekki er við öðru að búast en að dómgreind Þorsteins og hyggindi muni reynast Íslandi og íslendingum vel við samningaborðið í væntanlegum aðildarviðræðum.

þriðjudagur, 10. nóvember 2009

Svíþjóð, USA

Það er einkenni Íslands að vera mitt á milli.

Landið er staðsett á mörkum landreks Norður-Ameríku og Evrasíu.

Við sýnum erlendum ferðamönnum stollt littlar gjótur á Þingvöllum sem má klofa þ.a. annar fótur standi í Ameríku en hinn í Evrópu. Ýkjur, en voða gaman.

Landinn stendur á mótum menningarstrauma Ameríku og Evrópu.

Og á Íslandi má finna allt í senn klassíska ameríska skyndibita (jafnvel þó McDonalds sé farinn) og úrvals dæmi um matargerð undir evrópskum áhrifum.

Nýjasta nýtt er svo hvernig Ameríka og Evrópa munu mætast á áður óviðbúin hátt í umsýslu hins opinbera.

Við tökum upp á sama tíma norræna skattastefnu og ameríska velferðarþjónustu.

Upp og niður, allt í senn.

Skrítið.

miðvikudagur, 28. október 2009

Viljalaus verkfæri og vænissýki

Fyrst var það Stoltenberg, forsætisráðherra Noregs, og nú er það nafni minn Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar.

Samkvæmt AMX, virðast þessir menn ekkert annað en viljalaus verkfæri í höndum ríkisstjórnar Íslands, eða það má a.m.k. lesa úr fuglahvísli gærkvöldisins þar sem bísnast er yfir því að nafna hafi látið sér fátt um finnast að formaður systurflokks hans á Íslandi hafi skammast vegna stuðningsleysis út af Icesave.

"Sænski forsætisráðherrann gefur svo snautlegt svar, af því að hann á orðastað við stjórnarandstöðuþingmann á Íslandi, ríkisstjórn Íslands hafi sömu afstöðu og ríkisstjórnir annars staðar á Norðurlöndunum, þegar grannt sé skoðað."

Í pistlinum er svo tækifærið að sjálfsögðu nýtt til að gera nafna upp annarlegar hvatir hvað varðar stuðning hans við ESB-aðildarumsókn Íslands.

Á vænissýkin sér engin takmörk?

föstudagur, 23. október 2009

ICESAVE mannasiðir

Ekki hefur borið á öðru en að forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi telji að semja verði um ICESAVE.

Þó því hafi verið fleygt fram í orðræðu að íslenska ríkið eigi ekki að gangast í ábyrgð fyrir skuld vegna háttalags einkaaðila, hafa gjörðir og tillögur þeirra þó aldrei borið annað með sér en að þeir telji að semja verði um málið.

Liður 2 í "Plan B" Framsóknarflokksins leggur beinlínis til að 1 til 2 mánuðir til viðbótar verði nýttir til að semja um ICESAVE.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki lagt til annað en að semja verði um ICESAVE.

Þ.a. það sem er að núverandi samningi, samkvæmt stjórnarandstöðunni, er að hann er ekki nógu góður.

Vextirnir of háir. Greiðsluskilmálar ekki nógu sanngjarnir. Dregin er í efa lagaleg ábyrgð, þó hún hafi engu að síður verið staðfest aftur og aftur af íslenskum ráðamönnum, með beinum og óbeinum hætti.

Samninganefndin var víst líka vitlaust skipuð.

Um þetta má allt deila, vissulega. Í stóru máli sem þessu hefði verið æskilegra að upphaflega samninganefndin hefði haft breiðara pólitískt bakland og umboð og það hefði verið endurspeglað í samsetningu hennar.

Það má líka velta fyrir sér hvort ekki hefði verið hreinlegra af Alþingi að fella upphaflegu samningsdrögin, í stað þess að fara út í þær æfingar að semja við sjálft sig.

Niðurstaðan varð jú sú að í reynd fóru fram nýjar samningaviðræður og niðurstaðan eru endurbættir ICESAVE-samningar.

Hefði verið hægt að ná lengra? Um það má líka deila, en ekki er það endilega líklegt, og þá viðbótar árangur varla lítið annað en eilítill stigsmunur, en ekki eðlis, á árangri - kannski.

Af orðbragði sumra sem mæla gegn nýjum samningum má hins vegar velta fyrir sér hversu miklum árangri þeir myndu ná í samningaviðræðum við breta og hollendinga.

"Þið fjárkúgarar, misbeitingarmenn og nýlenduherrar – gefið okkur betri díl!"

Ég sé fyrir mér hvernig samninganefndir þeirra lyppast niður á fyrsta fundi!

Er ekki kominn tími til að slaka aðeins á fúkyrðaflaumnum?

Og reyndar ekki bara hvað varðar ICESAVE...

miðvikudagur, 7. október 2009

Pappírstjónið

Haft var eftir viðskiptaráðherra á Alþingi í gær að hrunið "væri í eðli sínu tjón á pappír og raunveruleg verðmæti landsins hefðu lítið breyst." Þetta er laukrétt hjá ráðherranum.

Vandinn er hins vegar sá að ríkisstjórnin sem hann situr í, og Seðlabankinn sem hann er núna yfir, meðhöndla þetta pappírstjón eins og það sé raunverulegt.

Við hrunið var gripið til misheppnaðra björgunaraðgerða þar sem peningar voru prentaðir og dælt út til að reyna að bjarga hinu brennandi bankakerfi. Seðlabankinn gáði þar ekki að sér og tók ekki almennileg veð fyrir því fé sem hann veitti til björgunarstarfsins. Ríkisstjórnin að sama skapi studdi og hvatti til vafasamra gerninga þar sem peningar voru prentaðir til að bæta fólki tjón vegna misferlis í umsýslu á peningamarkaðssjóðum bankanna.

En allt kom fyrir ekki.

Í bókhaldi ríkisins og bókhaldi Seðlabankans lifa hins vegar áfram vegsummerkin eftir misheppnaðar björgunaraðgerðir hrunsins – pappírspeningarnir sem prentaðir voru til að bæta fyrir pappírstjónið lifa nú sem annað og meira en pappírsskuld.

Stór hluti u.þ.b. hundrað milljarða vaxtakostnaðar ríkisins á næsta ári, sá hinn sami og veldur fjárlagahalla og gerir nauðsynlegan óheilbrigðan niðurskurð t.d. í heilbrigðiskerfi landsins, er þannig til kominn vegna þessa pappírstjóns – og ríkir refsar þar sjálfu sér fullkomlega að óþörfu.

Pappírstjónið lifir nefnilega – á pappírnum!

Hinn knái, og ekki svo smái viðskiptaráðherra, er hins vegar "on to something".

Nú þegar ár er liðið frá hruni er nefnilega komið að því að tekið verði á pappírstjóninu og það hreinsað úr kerfinu. Það er einfaldlega gert þannig að efnahagsreikningar ríkisins og Seðlabankans eru gerðir upp á nýtt og pappírsskuldir ríkisins við Seðlabankann þurrkaðar út. Þar fer fremst í flokki skuldin vegna 300 milljarðanna frægu þar sem enginn er kröfuhafinn.

Með sama hætti má einnig þurrka út aðrar pappírsskuldir vegna hrunsins og skipta út ríkisskuldabréfum, sem bera bæði vexti og halda fé frá raunverulegri atvinnuuppbyggingu, fyrir skuldabréf sem í daglegu tali við köllum "peninga" sem ekki bera vexti og verða án ríkisbréfa líkast til helst notaðir til fjárfestinga í íslensku efnahagslífi.

Stóru mistökin í því pappírstjóni sem við erum að eiga við afleiðingarnar af nú um stundir, eru einmitt þau að Seðlabankinn, sá sem viðskiptaráðherrann er nú yfir, heldur uppi vaxtastigi sem er úr öllu korti við stöðu efnahagsmála – og framlengir þannig enn frekar pappírstjónið. Einnig eru það mikil mistök að halda að vextir Seðlabankans séu aðalatriðið í því að verja gengi gjaldmiðilsins, þegar gengið endurspeglar fyrst og fremst trú á virði þess hagkerfis sem gjaldmiðillinn vinnur fyrir.

Gengi gjaldmiðilsins verður þannig mun frekar styrkt með því að efla íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þannig skapast raunveruleg arðsemi, en ekki pappírsarður án innistæðu eins og gerist í núverandi vaxtastefnu Seðlabankans.

Það þarf að koma fjármagni á hreyfingu þ.a. það sé fyrst og fremst að vinna fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf, en liggi ekki dautt og ónotað á bankareikningum. Sú aðferðafræði veldur því að Seðlabankinn í reynd er ekki að gera annað enn að prenta peninga til að greiða okurvexti fyrir fé sem leggur ekki til neinnar verðmætasköpunar.

Hér þarf sem sagt peningalega endurstillingu og það án tafar.

Fyrsta skrefið í því verður væntanlega að vera forræðissvipting viðskiptaráðherra á peningastjórn Seðlabankans.

Svo ekki verði meira "pappírstjón".

Sem meiðir ekki bara á pappírnum!

mánudagur, 5. október 2009

Enn af ICESAVE

Haft var eftir Clemenceau að stríð væri of alvarlegt til þess að vera eftirlátið herjum ("La guerre! C’est une chose trop grave pour la confier à des militaires.")

Að sama skapi er lögfræði of mikilvæg til þess að vera eftirlátin lögfræðingum og hagfræði of mikilvæg til þess að vera eftirlátin hagfræðingum.

Lögfræðingum er stundum legið á hálsi að túlka ákvæði laga í samræmi við hagsmuni þess sem borgar þeim reikninginn. Lögfræði býr líka við þá ímynd að þar fari oft meira fyrir þrætum og umbúðum en raunverulegri fræðimennsku. Lögfræði er hins vegar marglaga og flókin, og ljóslega eru þar, þrátt fyrir oft góðan vilja, línur ekki jafn hreinar og beinar og menn vildu.

Lögfræði er líka afsprengi stjórnmála, jaðarvísindi pólitískra málamiðlanna strangt tiltekið.

Þetta er rétt að hafa í huga þegar hlustað er á söngin "við borgum ekki, við borgum ekki" af þeim sem fullyrða blákalt að Ísland og íslendingar geti með einum eða öðrum hætti komið sér undan ábyrgð og greiðslum hvað varðar ICESAVE.

Horfum til þess að ekki einungis hafði Ísland gengist undir sameiginlegar reglur um tryggingainnistæður, heldur og ákveðið strax við hrun að tryggja allar innistæður á íslenskum kennitölum til fulls - án þess að fyrir því væri nokkur lagaheimild.

Einnig að stunda vafasamar æfingar til þess að tryggja bróðurpart innistæðna í peningamarkaðssjóðum.

Reyna átti hins vegar að útiloka frá þessum æfingum að tryggja innistæður á íslenskri ábyrgð þar sem engin var íslensk kennitalan.

Og jafnvel reynt að fullyrða að í þessu fælist engin mismunun eftir þjóðerni þar sem það væru jú til einhverjir útlendingar sem hefðu íslenska kennitölu og ætti innistæðu á íslenskum banka og hefðu þ.a.l. sína innistæðu trygga.

Þetta plott gekk ekki upp. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sem hér sat fyrir ári síðan gekkst við ábyrgð og staðfesti þann vilja. Alþingi sem þá sat staðfesti slíkt hið sama.

Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna sem tók við sl. vetur í reynd staðfesti slíkt hið sama, og höfum í huga að Framsóknarflokkurinn gerði viðsnúning í ICESAVE ekki að skilyrði fyrir stuðningi sínum við þá stjórn.

Núverandi ríkisstjórn hefur svo staðfest samning, sem að sjálfsögðu má deila um hvort hafi verið nógu góður, og núverandi Alþingi hefur staðfest þann samning, með fyrirvörum.

Þ.a. þrjár ríkisstjórnir og tvö þing, með fulltingi fjögurra stærstu flokka hafa í reynd viðurkennt íslenska ábyrgð á ICESAVE með aðgerða eða aðgerðaleysi sínu.

Hvernig komast ætti framhjá þeirri staðreynd ef einhver findist rétturinn til að fjalla um hvort Ísland eigi að bera þá ábyrgð yrði a.m.k. athyglisvert að fylgjast með.

fimmtudagur, 1. október 2009

Verst rekni banki landsins

Það er vert að hafa í huga í ljósi síðustu gerninga og tilkynninga hagfræðisértrúarsafnaðarins í Seðlabanka Íslands að Seðlabankinn er og hefur verið m.v. skoðun ársreikninga síðustu ára einn verst rekni banki landsins. Fimm af síðustu sex árum voru rekin með tapi - og á því síðasta varð bankinn í reynd gjaldþrota. Þetta þrátt fyrir hæstu þjónustugjöld á byggðu bóli í formi okurvaxta.

Áfram er svo þessi bankinn rekinn á sömu fílósófíu.

Nú er rifist um ICESAVE enn eina ferðina. Blekkingarleikur um hvort og hvernig megi flýja hið óumflýanlega. Samt er hugsanlegur skaði af ICESAVE einungis brot af þeim skaða sem við vinnum okkur sjálf þökk sé viðvarandi efnahagslegri villutrú Seðlabankans.

Eftir efnahagslegt hrun verður að grípa til róttækra aðgerða.

Tryggja þarf peningamagn í umferð, þ.a.l. á ekki að gefa út ný ríkisskuldabréf.

Innlánsvextir a.m.k. verða lækka niður í nánast núll, jafnvel þó útlánsvöxtum verði haldið hærri eitthvað áfram.

Í núverandi ástandi þarf að koma fjármagni á hreyfingu. Á meðan að bjóðast tryggir innlánsvextir í boði Seðlabankans upp á næstum 10% er enginn hvati til fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.

Peningaprentun er ekki öll slæm, en peningaprentun sem byggir á engu öðru en prentun til að greiða fyrir innlánsvexti án nokkurrar verðmætasköpunar er í núverandi umhverfi eingöngu til ills.

Það verður að koma böndum yfir bankann. Hann er rekstrarlega, hugmyndafræðilega og hagfræðilega gjaldþrota.

Skilanefnd?

sunnudagur, 13. september 2009

Munum eftir smáfuglunum!

Nú þegar hausta tekur fara í hönd erfiðir tímar fyrir smáfuglana, sérstaklega þá sem eru illa búnir fyrir blautt haust og kaldan vetur.

Þá er kannski við því að búast að þeir séu eilítið hvumpnir.

Svo virðist eiga við um smáfuglana á AMX, sem virðast í miklu uppnámi yfir ákalli mínu eftir alvöru ESB andstöðu í bloggpistli frá því fyrr í dag.

Í pistlinum “Framsóknarmaður á ESB hraðferð” býsnast smáfuglarnir yfir því að ég leyfi mér að gagnrýna andstæðinga aðildar fyrir málefnaþurð.

Pistillinn reyndar er dæmigerður fyrir nákvæmlega það sem ég var að kvarta yfir í pistlinum frá því í morgun – upphrópanir og útúrsnúningar, stutt staðleysum og jafnvel hreinni dellu.

Smáfuglunum til hugarhægðar telur sá sem þetta ritar það auðvitað vera sjálfsagt markmið að íslenska verði eitt af opinberum tungumálum ESB. Það er jú hluti af samningunum. Enn sem komið er Ísland þó rétt í upphafi aðildarumsóknarferilsins og því alls ekki óeðlilegt að upplýsingaskipti á milli Íslands og ESB fari fram á ensku.

Ísland er ekki orðið aðildarríki ennþá.

Hvort hins vegar íslensk stjórnvöld kjósa sjálf að þýða þennan ágæta spurningalista er hins vegar allt annað mál og kemur í sjálfu sér aðildarumsóknarferlinu lítið við. Það er einfaldlega íslenskt innanríkismál.

Smáfuglunum til frekari upplýsinga að þá vill svo til að í flest öllu okkar alþjóðasamstarfi fara öll vinnusamskipti fram á erlendum tungum og ekki íslensku. Smáfuglarnir gætu t.d. leitað um það upplýsinga hjá Birni Bjarnasyni um það hversu mikið af samskiptum hans fyrrum ráðuneyta við erlenda samstarfsaðila, vegna t.d. Schengen eða menntamála, fóru fram á íslensku.

Ef til aðildarsamnings kemur, þá verður hann og öll hans fylgigögn þýdd á íslensku.

Ef til aðildar að ESB kemur, þá verður íslenska eitt af opinberum tungumálum ESB.

Umræða um aðildarumsókn Íslands, ferli hennar og hugsanlega niðurstöðu á miklu fremur að snúast um inntak og efni. Hingað til ber meira á nöldri um umbúðir.

En það er farið að kólna svo það er kannski skiljanlegt að smáfuglarnir nöldri!

Alvöru ESB andstöðu, takk!

Nú þegar aðildarumsókn Íslands er farin af stað í hið hefðbundna undirbúningsferli er óneitanlega jákvætt að ferlið a.m.k. byrjar þokkalega opið og gegnsætt. Stóri spurningalistinn er birtur í heild sinni og stækkunarstjórinn Olli Rehn kom galvaskur til landsins og ræddi við mann og annan um ferlið.

Hér hefði nú aldeilis verið tilefni til þess að hrista upp alvöru umræðum um umsóknina, hugsanlega ESB-aðild og kosti þeirra og galla. Og hér hefði maður haldið að stóra tækifæri andstæðinga aðildar væri komið til að afhjúpa þetta skelfilega Evrópusamband.

En nei. Kannski eru þeir eftir allt svona kurteisir, eða þá að röksemdabanki andstæðinga aðildar er jafn tómur og innistæðutryggingasjóður!

Því ef að helstu stjörnum andstöðunnar við aðild Íslands að ESB kom ekkert betra í hug en annars vegar að tyggja upp kjánalega þvælu um að Íslands tæki sko alls ekkert upp 2/3 hluta lagasetningar ESB og að það sé alveg hræðilegt að svara þurfi spurningalista ESB á útlensku þá má hamingjan hjálpa okkur.

Hjörtur J. Guðmundsson segir t.d. í pistli sínum á AMX þann 8. september síðastliðinn:
“Heildar lagasetning Evrópusambandsins er talin vera í kringum 30 þúsund gerðir. Heildarfjöldi íslenzkra lagagerða er hins vegar aðeins í kringum 5 þúsund. Þar af eru um eitt þúsund lög en afgangurinn er reglugerðir. Þetta þýðir einfaldlega að jafnvel þó öll íslenzk löggjöf kæmi frá sambandinu væri hún minna en 20% af heildar lagasetningu þess.
Hvernig er þá hægt að komast að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi þegar tekið upp a.m.k. 2/3 hluta lagasetningar Evrópusambandsins?”

Svarið við þessu er einfalt, eins og ég hef reyndar bent á í fyrri pistlum og erindum um ESB:

Staðreyndin er sú að dag er upp undir 100% af regluverki Evrópusambandsins sem varðar innri markaðinn tekið upp í EES, að undanskildu því regluverki sem varðar sameiginlega stefnu ESB í landbúnaðar-, sjávarútvegs- og tollamálum. Langstærsti hluti "gerða" ESB er vegna þessara þriggja þátta, enda er þar meðal annars um að ræða bæði tímabundnar og ótímabundnar ákvarðanir tengdum ýmsum smærri afgreiðslum. Dæmi um slíkt gæti verið tímabundin lokun sláturhúss í Danmörku vegna salmonellusýkingar. Tilkynning um slíka lokun, og síðar um enduropnun, fær samt gerðanúmer og telst með í heildartölum um fjölda "gerða", jafnvel þó að viðkomandi "gerðir" hafi aldrei áhrif á neinn annan en fyrrnefnt sláturhús.
Þetta er skýringin á því af hverju andstæðingar aðildar Íslands að ESB geta fullyrt að raunverulegar tölur um innleiðingu "gerða" ESB í landslög á Íslandi sé einungis 6,5%. Staðreyndin er hins vegar sú að ekkert ríki ESB leiðir allar "gerðir" í landslög. Á því er ekki þörf. Innleiðing í landslög fer eftir eðli, umfangi og viðfangsefni gerðarinnar.”

Og Björn Bjarnason, á sama miðli, þann tíunda September síðastliðinn tekur upp einhverja sérkennilegustu málsvörn fyrir íslenska tungu sem sést hefur frá fullveldisstofnun:
“Mál íslenska stjórnkerfisins er íslenska og óeðlilegt, að embættismönnum sé gert skylt að vinna málefni, sem snerta þjóðarhag á annarri tungu. Leggja á íslensku til grundvallar í þessum aðildar-samskiptum við ESB, svo að Íslendingar njóti vafa vegna tungumálsins og þeirra tunga ráði. Hafi þessi krafa ekki verið sett fram við ESB, lýsir það aðgæsluleysi.”

Nú er málsvörn um íslenska tungu allra góðra gjalda verð, en hjálpi mér hamingjan. Er Björn Bjarnason að leggja til þá nýlundu að í þessum alþjóðasamningaviðræðum verði allt þýtt, og þá helst að allar viðræður fari fram með túlkum?

“Lighten up, Francis!”

Þetta er hrein nýlunda og aldrei áður hefur þessi komið fram í nokkrum alþjóðasamningum Íslands hingað til. Ekki EES, ekki Schengen, ekki EFTA, ekki fríverslunarsamningum, ekki NATO aðildarsamningnum, ekki varnarsamningnum. Aldrei. Niðurstaðan er vissulega oftast nær þýdd, svo og fylgiskjöl, og jafnvel þess dæmi að samningar tekjist jafngildir á fleiri en einu tungumáli, og þá íslenskan þar með talin. Ekki er annað að sjá að en að þetta þjóðernis- og málverndarátak Björns Bjarnasonar eigi sér neinn annan tilgang en að kitla undir einhverri misskilinni og óþarfri þjóðrembu.

Okkar allra vegna, má ég biðja um alvöru ESB andstöðu sem byggir á málefnalegum rökum en ekki einhverjum bullþörfum, hártogunum, og þvælu um að ESB banni bognar gúrkur og banana!

En kannski endurspegla þessir pistlar einfaldlega málefna- og röksemdafátækt ESB andstöðunnar og því munum við sitja uppi með fjarstæðu- og farsakenndar upphrópanir.

Sem er synd, því það hljóta að vera hagsmunir allra að samningar við ESB verði sem bestir. Það á einnig við um andstæðinga aðildar, ef svo fer að þrátt fyrir andstöðu þeirra samþykki þjóðin aðild.

Íslensku samninganefndinni verður hins vegar lítið hald eða stoð í andstöðuorðagjálfri sem þessu.

fimmtudagur, 3. september 2009

Afkomutenging er engin lausn

Nú eru aftur komnar á flot hugmyndir um afkomutengingu lána til þess að “leysa” greiðsluvanda heimilanna.

Þetta er fix-ídea sem sett hefur verið fram af ýmsu góðu fólki, sem gengur án efa ekkert nema gott eitt til. Nú síðast Þórólfur Matthíasson. Eftir hendingu man ég eftir að Hallur Magnússon vinur minn hafi talað fyrir þessu frá því síðastliðið haust, og síðastliðinn vetur skrifuðu þeir saman grein þeir Jón Steinsson og Gauti B. Eggertsson um Lín-leiðina. Hún gekk út á þetta sama – greiðslugetutengja með einhverjum hætti afborganir fasteignalána.

Á sínum tíma ritaði ég hér lítið andsvar við grein Jóns og Gauta undir yfirskriftinni “Vandaveltuleiðin”.

Allt sem þar er skrifað stendur enn, og gott betur. Aðferðafræði af þessu tagi gerir ekkert annað en að fresta vandanum. Þannig munu lánin halda áfram að hlaða utan á sig, enda bera þau bæði vexti- og verðtryggingu. Þessi lán verða því áfram eitruð lán í bókhaldi bankanna þar sem veðin sem að baki liggja duga ekki fyrir skuldinni. Það sem meira er, jafnvel þó að fasteignamarkaður rétti úr kútnum eru engar líkur á því að það auki hlutfallslegt veðhæfi, enda reiknast hækkun á fasteignaverði beint inn í vísitöluna og hækkar lánin.

Með þessari aðferð verða þannig þorri íslenskra fasteignalána ennþá verri “sub-prime”-lán – sem voru jú steinvalan sem ýtti af stað hruninu. Áfram verður þannig haldið áfram að falsa efnahagsreikninga bankanna með því að halda þar inni lánum á fullu verði sem engin veð eða raunveruleg greiðslugeta hvíla á bak við.

Þessi aðferðarfræði festir einnig fólk í núverandi fasteign um aldur og ævi. Ungt fólk mun aldrei geta stækkað við sig í samræmi við fjölskyldurstærð og eldra fólk ekki minnkað við sig. Sala á fasteignum sem eru í slíkum veðskuldbindingum er óframkvæmanleg, því þá verður með einum eða öðrum hætti að fara fram uppgjör á láninu.

Þar með verður fólk fast í eilífri skuldagildru, þó formlegu gjaldþroti verði frestað fram að andláti.

Lánasjóðurinn er ekki fyrirmynd. Hann er félagslegur sjóður til að tryggja jafnan aðgang til náms, ýta undir framtíðar verðmætasköpun með því að efla menntun og lánin þar eru að jafnaði mun takmarkaðri en nokkurn tíma á við um fasteignalán. Þó hefur orðin ákveðin lánasprengja þar vegna fjölgunar á prívatháskólum og aukinni þátttöku sjóðsins í greiðslu skólagjalda.

Margfeldisáfhrif á lánum LÍN eru einnig minni, þau bera einungis 1% vexti umfram verðtryggingu. Engu að síður hafa þau aukist gífurlega á undanförnum árum vegna verðbólgunnar. Sjálfur er ég stórskuldari hjá LÍN. Á tveimur árum hefur skuld mín við LÍN farið úr tæpum 12,5 milljónum í tæpar 15,8. Það er 3,3 milljóna króna hækkun á 24 mánuðum, eða tæplega 140 þúsund krónur á mánuði...!!!

Svo er þar fyrir utan ekkert framundan hjá flestum lánagreiðendum annað en frekari tekjuskerðing, því laun eru jú að lækka, skattar að hækka, og verðbólgan er áfram í tveggja stafa tölu.

Afkomutenging er engin lausn. Hún er skammgóður vermir, leið til heljar fyrir almenning, bankana og hið opinbera.

En reyndar vörðuð góðum ásetningi!

föstudagur, 7. ágúst 2009

Í góðri trú

Að vera í góðri trú getur skipt miklu máli frá lögfræðilegu sjónarmiði af ýmsum ástæðum. Í raun má segja að það sé ein af grunnstoðum réttar- og lýðræðisríkisins. Við göngum út frá sakleysi þar til sekt sannast og þjóðfélagið byggir á grunni trausts. Við viljum vera í góðri trú hvað varðar allt mannlegt athæfi, hvort heldur sem er í okkar einkalífi, á vegum hins opinbera, eða fyrirtækja og einstaklinga. Vissulega eru settar lög og reglur til þess að marka því athæfi skilgreinda ramma, þ.e. um hvað við viljum að góð trú ríki.

Engu að síður gerist það oft og iðulega að til eru þeir sem sökum gáleysis eða einbeitts brotavilja bregðast okkar góðu trú. Í litlu samfélagi eins og okkar getur slíkt athæfi verið erfitt við að eiga. Þó ekki þekki allir alla, eins og klisjan segir, þá kannast flestir við flesta. Kunningjasamfélagið gerir það m.a. að verkum að við trúum illa misjöfnu upp á okkar náunga.

Hrunið leiddi í ljós að okkar góða trú hafði verið misnotuð með afgerandi hætti. Einstaklingar, einkafyrirtæki og opinberar stofnanir höfðu, þegar öllu var á botninn hvolft, brugðist því trausti sem þeim hafði verið sýnt.

Traust sem einu sinni glatast er erfitt að vinna að nýju. Þjóðin var svikin í tryggðum, peningum hennar stolið, jafnframt því sem að ærunni var rænt – allt á sama tíma.

Eftir slíka meðferð er erfitt að treysta á ný, en hjá því verður ekki komist.

Traust kemur hins vegar ekki til af sjálfu sér. Það þarf að vinna fyrir því og eiga það skilið.

Svo ég sletti: "Are we there yet?"

laugardagur, 1. ágúst 2009

Alkinn Ísland

Það er mikill misskilningur í fuglahvísli AMX frá því í gærmorgun að norræn samvinna hafi splundrast vegna ICESAVE.

Au contraire!

Norræn samvinna er augljóslega mjög þétt hvað varðar ICESAVE – og gildir þar einu hvort viðkomandi norðurlandaþjóð er í eða utan ESB eða í eða utan NATO.

Norðurlandaþjóðirnar eru ein stór fjölskylda og stundum er það sem þarf í góðum fjölskyldum að tekið sé að festu á þeim fjölskyldumeðlim sem leiðst hefur á glapstigu.

Ísland er alkinn í norrænu fjölskyldunni og Ísland þarf í meðferð, með tilheyrandi yfirbót, viðurkenningu á ábyrgð, raunverulegri iðrun, og já, æðruleysi – jafnvel með tilheyrandi 12 sporum. Höfum jafnframt í huga að í þeirri stöðu er það ekki alkinn sem setur skilyrðin.

“Tough love” er stundum það sem þarf innan fjölskyldunnar.

Það þýðir ekki að hinir í fjölskyldunni séu orðin “óvinir” okkar, heldur þvert á móti.

Fyrsta sporið af tólf er jú að viðurkenna vanmátt okkar.

Eftir að meðferð er hafin og þegar fyrsta hluta hennar lýkur, verður fjölskyldan til staðar með sinn stuðning.

Það er bæði betra, auðveldar og skynsamar að hjálpa þeim sem vill hjálpa sér sjálfur, en viðurkennir jafnframt að hann sé hjálpar þurfi.

föstudagur, 24. júlí 2009

Peningaleg endurstilling

Egill Helgason rifjar upp þrjú vond mistök í kjölfar bankahrunsins: björgun Seðlabankans frá gjaldþroti með kaupum ríkissins á verðlausum skuldabréfum sem Seðlabankinn hafði tekið sem veð í endurhverfum viðskiptum (270 milljaðar plús vextir), hlutabjörgun peningamarkaðssjóðanna (200 milljarðar plús), og síðan sá reikningur sem mun falla á Ísland vegna ICESAVE-sukks forráðamanna Landsbankans.

Af þessum þremur er í reynd einungis ICESAVE-reikningurinn sem skiptir okkur raunverulegu máli þar sem hann er skuldbinding í erlendri mynt.

Hin almenna regla hagfræðinnar segir að prentun peninga til að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs sé ekki góð efnahagspólitík. Að öllu jöfnu er það rétt. Viðvarandi peningaprentun án raunverulegrar verðmætasköpunar rýrir verðgildi gjaldmiðilsins og ýtir undir verðbólgu.

Hins vegar ættu málin að horfa öðruvísi við í kjölfar algers hruns hagkerfisins.

Fyrst lítið þankastrik. Hin almenna regla hagfræðinnar hnussar s.s. yfir peningaprentun á vegum ríkisins. Hins vegar fellir hún sig við peningaprentun á vegum prívatsins, enda að öllu jöfnu ætti hún að vera afleiðing athafna sem leiða til raunverulegrar verðmætasköpunnar.

Hér á Íslandi á undangengnum átta árum hefur hins vegar verið stunduð peningaprentun að hálfu prívatsins, og þá með dyggri aðstoð bankakerfisins, sem var sambærileg við verstu tegund peningaprentunar á vegum ríkisins. Fölsuð verðmætasköpun gegn hverri peningar voru prentaðir í reynd. Þannig má með rökum halda því fram að ofan á allt annað svindl, fúsk, sukk og svínarí sem að stór hluti íslensks viðskiptalífs hefur ástundað á undanförnum árum, megi bæta við peningafölsun. Er það ekki annar örugglega glæpur hér á landi sem kallar nokkurn veginn á sjálfvirka tukthúsvist?

Nánari skýring: Venjulegur peningafalsari setur fimmþúsund kall í ljósritunarvél. Íslenskir viðskiptaaðilar, sem sátu beggja vegna borðsins í annars vegar fyrirtækjum sínum og hins vegar í bönkunum, settu af stað fyrirtæki, með krosseignatengslum og píramídastrúktur eignarhaldsfélaga (fyrir utan að manipulera með hlutabréfaverð þeirra í Kauphöllinni) og tóku lán á lán ofan. Bankarnir þeirra sóttu síðan pening í Seðlabankann, sem prentaði peninga í samræmi við eftirspurn gegn því sem hann taldi trygg veð og raunveruleg verðmæti. Nú eða menn plötuðu peninga út úr erlendum lánveitendum byggt á sama trixi. Raunveruleg verðmæti á móti þessari peningaprentun var afskaplega lítil eins og komið hefur í ljós. Auðmenn Íslands lifðu hins vegar hátt, allt þar til kom í ljós í haust að eina sem þeir höfðu verið að gera var að ljósrita fimmþúsundkalla!

Hrunið í haust leiddi þannig ekki einungis af sér hrun bankakerfisins, heldur peningakerfisins í heild sinni. Við höfum hins vegar ekki ennþá horfst í augu við þá staðreynd. Krónan er í augnablikinu hrein gerviverðeining, haldið uppi með gjaldeyrishöftum og hreinni óskhyggju.

Skuld ríkisins við Seðlabankann vegna endurhverfu viðskiptanna er ekki raunveruleg. Hún er bara tölur á blaði og ríkið skuldar þar sjálfu sér. Eða hver skyldi eiga Seðlabankann? Ég hef reyndar fjallað um þetta áður í pistlum, sjá hér og hér, og m.a. bent á þá staðreynd að í þessum endurhverfu viðskiptum vantaði kröfuhafan. Seðlabankinn prentaði þarna peninga til að reyna að bjarga bankakerfinu. Það mistókst. Þessir peningar fóru aldrei raunverulega í umferð, nema rétt í gagnagrunnum Reiknistofu bankanna. Þessi peningaprentun jafgilti því að Seðlabankinn hefði óvart kveikt í nýprentuðu bretti af seðlum. Þá er ekkert annað að gera en að afskrifa það og prenta nýtt.

Sama gildir í reynd með innspýtinguna í peningamarkaðssjóðina og jafnvel núna með þeirri peningaprentun sem mun eiga sér stað með meintri innspýtingu fjármagns upp á hundruðir milljarða inn í nýju bankanna.

Við skulum hafa í huga að í augnablikinu vitum við ekkert um það hvaða penignamagn er í umferð hér á landi, enda hefur Seðlabankinn ekki birt upplýsingar um "M3 peningmagn í umferð" síðan í september á síðasta ári. Hann getur það ekki. Hann veit það ekki.

Það sem hér þarf að gera er að hætta að horfa á vandann í gegnum hin hefðbundnu gleraugu hagfræðinnar. Það verður að fara fram peningaleg endurstilling (Monetary reset) með tilheyrandi afskriftum skulda, sérstaklegra mikils hluta opinberra skulda í innlendri mynt, tímabundnum peningaprentunum og síðan umbreytingu peningaumhverfisins frá rústum þess núverandi yfir í nýtt. Það þýðir m.a. að við hendum núverandi krónu fyrir róða og tökum upp nýjan gjaldmiðil (okkar eigin), t.d. gengistryggðum innan fastra vikmarka.

Höfum í huga að gjaldmiðill gegnir nokkrum hlutverkum, þeirra mikilvægast að vera milliliður í viðskiptum og geymslumiðill verðmæta. Hvorugt þessara hlutverka gegnir krónan með góðu móti í dag, og er þá vægt til orða tekið. Einnig endurspeglar gjaldmiðill undirliggjandi trú á verðmæti þess sem að baki liggur, í okkar tilviki íslenska hagkerfisins. Krónan getur heldur ekki sinnt því hlutverki lengur.

Peningaleg endurstilling verður því að fara fram. Að öðrum kosti framlengjum við að óþörfu stóran hluta af þeim þjáningum sem þjóðin nú þarf að þola.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um Þýskaland og ástandið þar í kjölfar Versalasamninganna. Sú umræða endurspeglar oft á tíðum sérvalda sagnfræðiþekkingu, en verðbólgu- og skuldavandi Þýskalands átti sér mun lengri sögu en frá Versalasamningunum. Glórulaus skuldasöfnun Þýskalands átti sér rætur a.m.k. til 1911 þegar farið var m.a. í mikla uppbyggingu hersins og svo jú, fóru þjóðverjar í glórulausa útrás til annarra landa með miklum tilkostnaði, en á endanum lítilli verðmætasköpun!

Lexíuna sem læra má af þjóðverjum er hins vegar frekar að horfa til þegar á endanum þeir tóku sig til og umbyltu peningakerfi sínu á innan við ári um miðjan þriðja áratuginn, fyrst með upptöku rentenmark og síðan reichsmark. Mjög athyglisverð aðgerð sem gekk upp allt þar til að heimskreppan skall á með látum 1929.

fimmtudagur, 23. júlí 2009

ICESAVE: 3 valkostir?

Það þarf ekki að koma á óvart að Hollendingar fari aðeins úr jafnvægi ef þeir telja að Alþingi ætli að fella ICESAVE og niðurstaðan verði sú að Ísland greiði ekki neitt. Það er hins vegar ekki það sem er að fara að gerast, og þarf að koma þeim skilaboðum rækilega á framfæri við bæði hollensk og bresk stjórnvöld, svo og hollenska og breska fjölmiðla.

Ekki er annað að sjá og heyra að nú orðið viðurkenni velflestir íslenska ábyrgð í málinu og nauðsyn þess að semja um niðurstöðu þess. Vandinn er hins vegar sá að ekki ríkir mikið traust á þeirri niðurstöðu sem Alþingi fjallar um þessa dagana.

Hvers vegna er henni ekki treyst? Í fyrsta lagi voru það mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa einhliða samninganefnd án aðkomu fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Það hefði orðið til að tryggja breiðari pólitíska sátt og efla traust á niðurstöðunni. Í öðru lagi fór öll kynning á samningunum einkar óhöndulega fram, sérstaklega í upphafi. Í þriðja lagi verður ekki framhjá því horft að ýmislegt í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á niðurstöðuna á fyllilega rétt á sér. Sérstaklega á það við um endurskoðunarákvæði samningsins.

Ríkisstjórnin er þess vegna í vanda stödd og hefur í reynd þrjá kosti í stöðunni:

1. Þvinga samþykkt á núverandi samningum og ríkisábyrgð þeim tengdum í gegnum þingið. Í því felst væntanlega mesta pólitíska áhættan þar sem málið mun án efa hvíla eins og mara yfir ríkisstjórninni til frambúðar þar sem vafa og tortryggni vegna samningannahefur ekki verið eytt. Hins vegar, ef í kjölfarið vextir lækka og ef heimtur á verðmætum úr þrotabúi Landsbankans verða með ágætum gæti þessi aðferð borgað sig pólitískt (og efnahagslega) til lengri tíma litið. Það bæri þá í sjálfu sér vott um gríðarlegt traust núverandi stjórnarflokka á óskeikuleika samninganefndarinnar og allra útreikninga sem kynntir hafa verið af hálfu stjórnvalda.

2. Fresta afgreiðslunni fram á haustið og nota tímann sem þannig gefst til þess að annars vegar svara þeirri gagnrýni sem á rétt á sér með málefnalegum hætti, og hins vegar upplýsa Breta og Hollendinga um ástand mála. Kostur gagnvart þeim væri að gera þeim grein fyrir að núverandi samningar fáist ekki samþykktir og það verði að endursemja um þau atriði sem mestur styrr stendur um. Ef þeir fallast á að semja á ný um þau atriði ætti ný samninganefnd, með fulltrúum allra flokka, að taka þátt í þeim endursamningum.

3. Láta ICESAVE falla á þingi og strax óska eftir nýjum samningum, nú með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB og EES sem beina eða óbeina aðila samningunum og að sjálfsögðu með nýrri samninganefnd með fulltrúum allra flokka. Hún þyrfti helst að vera á allra hæsta stigi, þ.e. með beinni þátttöku ráðherra. Skilaboðin væru áfram þau að við viljum standa við skuldbindingar okkar, en með þeim hætti að við ráðum örugglega við þær. Endurskoðunarákvæði verði að vera virk í ljósi óvissrar stöðu okkar efnahagslega.

mánudagur, 13. júlí 2009

Evrópusamruninn endar hér!

Má til með að benda á einkar athyglisverða grein Wolfgang Münchau á vef Financial Times í gær.

Í henni fjallar hann um áhrif nýlegrar niðurstöðu stjórnarskrárréttar Þýskalands um Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins. Niðurstaða hans er sú að í ljósi mjög afgerandi niðurstöðu réttarins að sáttmálinn standist þýsku stjórnarskrána, séu þær athugasemdir sem þar koma fram varðandi frekari samruna svo afgerandi að ljóst megi vera að Lissabon-sáttmálinn verði sá síðasti hjá ESB um langa framtíð.

Þrennt telur hann til sérstaklega úr úrskurði réttarins: í fyrsta lagi að fullveldi ríkja verði ekki framselt - "Power may be shared, but sovereignty may not".

Í öðru lagi að Evrópuþingið sé ekki raunverulegt löggjafarþing heldur fulltrúaþing þjóðríkja - "the court does not recognise the European parliament as a genuine legislature, representing the will of a single European people, but as a representative body of member states".

Og í þriðja lagi að frekari Evrópusamruni sé óhugsandi, ákveðnir meginþættir fullveldisvalds ríkja verði einfaldlega ekki framseldir, eða skv. grein Münchau "The court said member states must have sovereignty in the following areas: criminal law, police, military operations, fiscal policy, social policy, education, culture, media, and relations with religious groups. In other words, European integration ends with the Lisbon treaty. It is difficult to conceive of another European treaty in the future that could be both material and in line with this ruling."

Greinina "Berlin has dealt a blow to European unity" er vel þess virði að lesa í heild sinni, sérstaklega í ljósi umræðna á Alþingi og yfirvofandi atkvæðagreiðslu um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

laugardagur, 27. júní 2009

Alger prófessor!

Að tala um einhvern sem prófessor táknar yfirleitt að viðkomandi sé eilítið utan við sig. Klár, en ekki alveg í sambandi við umheiminn eða raunveruleikann.


Ætli prófessor Vandráður úr Tinna-bókunum sé ekki sá prófessor heimsbókmenntanna sem endurspeglar þessa samlíkingu einna best?


Nú hafa fjórir prófessorar í lögum, tveir núverandi og tveir fyrrverandi, stigið fram og kallað eftir að farin verði dómstólaleiðin í ICESAVE málinu.


Enginn þeirra getur reyndar útskýrt með hvaða hætti það ætti að geta átt sér stað, enda endurpeglar málflutningur þeirra þá staðreynd að enginn þeirra hefur neinn bakgrunn á sviði alþjóðaréttar, enginn þeirra hefur neina reynslu á sviði alþjóða milliríkjasamskipta og sannarlega hefur enginn þeirra nokkurn tíma setið öðru hvoru megin við borðið í erfiðum samningaviðræðum ríkja í millum.


Nú má vel skilja hins vegar hina fræðilegu greddu að vilja fá lögfræðilega "fixídeu" um að Ísland þurfi ekki að bera ábyrgð vegna ICESAVE rædda og metna fyrir framan einhverskonar dómstól. Í þessu samhengi er kannski rétt fyrir prófessorana að hafa í huga þessi orð Yogi Berra: "In theory, there is no difference between theory and practice. In practice, there is."


En engum af þessum prófessorum hefur hins vegar tekist að sýna fram á með óyggjandi hætti að lögfræðilega sé málstaður þeirra það sterkur að hann sé áhættunnar virði.


Sumir þeirra eru reyndar orðnir hressilega tvísaga í málinu, en starfandi prófessorinn við Háskóla Íslands hefur þegar orðið uppvís af því að hafa a.m.k. tvær skoðanir hvað varðar það hvort Ísland beri ábyrgð að lögum. Sama gildir um prófessor Emerítus, sem fyrr í vikunni lét hafa eftir sér að það hlyti nú að vera hægt að koma sér saman um einhvern dómstól í málinu, en lætur svo hafa eftir sér í fjölmiðlum í gær að samþykkt samninganna sér eini kosturinn í stöðunni.


"I used to be indecisive, but now I'm not so sure!"


Hinn starfandi prófessorinn gerði siðferði að umtalsefni í blaðagrein og taldi það síðlaust að neyða Ísland til að standa við gerða samninga, og væntanlega þannig siðlegt að hlaupast undan skuldbindingum sínum og fría sig ábyrgð á þjófnaði sem fram fór á okkar vakt. Merkileg siðfræði það.


Og fyrrverandi prófessorinn og núverandi hæstaréttardómarinn fabúleraði eins og aðrir um óskilgreinda dómstólaleið, jafnframt sem hann fullyrti að siðaðar þjóðir leystu nú fyrst og fremst úr sínum ágreiningsmálum frammi fyrir dómstólum. Ekkert er eins fjarri sanni. "Siðaðar" þjóðir leysa fyrst og fremst úr sínum ágreiningsmálum með samningum. Dómstólaleiðin, ef hún er þá yfirhöfuð fær eða í boði, er jafnan næst síðasti kosturinn í úrlausn milliríkjadeilna.


Fari svo að Alþingi hafni ríkisábyrgð vegna ICESAVE, mun ekki fyrir kraftaverk falla af himnum ofan einhver dómstóll til að skera úr um málið.


Eini kosturinn væri að setjast aftur að samningaborðinu.

sunnudagur, 21. júní 2009

Ríkisstjórn Ronald Reagan

Það er ótrúlegt, en fyrsta "hreina" vinstristjórn lýðveldisins virðist vera íhaldsstjórn af verstu sort.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist okkur nú á síðustu dögum og vikum endurspeglar þetta.

Í mestu niðursveiflu sögunnar þar sem öll eftirspurn í hagkerfinu hefur hrunið, fylgir ríkisstjórnin blindandi og gagnrýnislaust tillögum sértrúarsafnaðar í efnahagsmálum sem virðast ráða lögum og lofum annars vegar í Seðlabanka Íslands og hins vegar hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Sértrúarsafnaðar peningahyggjumanna sem blint horfa á niðurstöðutölur klessukeyrðra hagmódela byggðum á sundurtættri tölfræði.

Staða íslenskra efnahagsmála er þannig að öll eftirspurn í hagkerfinu er hrunin. Fyrirtæki og heimili velflest mjatla áfram á sjálfsbjargarhvötinni einni saman.

Við aðstæður sem þessar er tímabundinn halli á rekstri ríkissjóðs ekki það vandamál sem á að vera í forgangi að leysa.

Við þessar aðstæður er halli á ríkissjóði, fjármagnaður fyrst og fremst með lánum frá Seðlabanka Íslands, beinlínis nauðsynlegur á meðan vörn er snúið í sókn.

Halli, sem nýta á til að ýta undir innlenda eftirspurn og koma gangverki hagkerfisins af stað á ný.

Niðurskurður ríkisframkvæmda í þessu árferði er ekki skynsamlegur, þvert á móti, þarf að stórauka þær. Sérstaklega eiga arðbærar stórframkvæmdir eins og Sundabraut og Suðurlandsvegur að vera í algerum forgangi. Setja ætti bæði verkefnin af stað strax á morgun.

Í eftirspurnarkreppu verður að lækka vexti. Sérstaklega verður að færa innlánsvexti niður í núllið til þess að einhver hvati myndist fyrir þó það fjármagn sem er til að verða nýtt til uppbyggingar í atvinnulífinu.

Núverandi ástand er þannig að fjármagnseigandi, hvort sem hann eða hún á milljón eða milljarð, geymir það fé frekar á bankareikning eða í ríkisskuldabréfum, á meðan að sú fjárfesting getur skilað tryggum fimm til fimmtán prósent vöxtum.

Áætlun um að ná hér fram hallalausum ríkisfjárlögum á þremur árum er óraunhæf og beinlínis hættuleg langtíma lífslíkum hagkerfisins.

Samkeppni ríkisins við markaðinn um fjármagn í formi útgáfu ríkisskuldabréfa til að fjármagna hallann eykur á vandann.

Rétt er að hafa í huga að við hrunið síðastliðið haust brunnu upp veruleg verðmæti. Vissulega brunnu þar upp verðmæti sem engin raunveruleg innistæða var fyrir - bólupeningar hlutabréfa- og fasteignamarkaðarins. Hrunið var hins vegar það afgerandi að raunveruleg verðmæti brunnu einnig upp og það þarf að bæta fyrir það innan peningakerfisins með einum eða öðrum hætti.

Ekkert slíkt er verið að gera. Þvert á móti eru meira að segja gerviskuldir gerðar að alvöruskuldum, án þess að nokkur ástæða sé til.

Í stað þess að læra nú af kreppureynslu sögunnar og leita í smiðju Keynes (og Krugman), er einblínt á Friedman og Hayek.

Og hvað varðar niðurskurð í almannaþjónustu og menntun, í smiðju Ronald Reagan.

Öðruvísi mér áður brá!

miðvikudagur, 17. júní 2009

Beðið eftir ICESAVE

Það er vonandi að biðin eftir að fá að sjá ICESAVE-samkomulagið verði ekki eins og biðin eftir Godot.

Á meðan að beðið er, heldur umræðan áfram, á að borga, á ekki að borga, ef á að borga á þá að borga eins og samið hefur verið um, eða á að borga einhvern veginn öðruvísi. Var samninganefndin góð eða slæm, og svo framvegis.

Eins og áður hefur komið fram hef ég ákveðnar skoðanir í þessu máli. Það breytir því ekki að ýmsu má velta fyrir sér í þessu samhengi.

T.d. hvort þeim valkosti hafi verið velt upp, í ljósi þess að stjórnvöld höfðu þegar ákveðið síðastliðið haust að ábyrgjast innistæðutryggingasjóð hvað varðar ICESAVE, að nýta einfaldlega heimild neyðarlaganna svonefndu.

Í IV. Kafla laganna, a.lið 8. Greinar, var m.a. eftirfarandi breyting gerð á lögum um innistæðutryggingasjóð: "Ávallt skal heimilt að endurgreiða andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt."

Innistæðutryggingasjóður, vopnaður ríkisábyrgð, hefði þannig getað sótt um fyrirgreiðslu til Seðlabanka Íslands um t.d. 15 – 25 ára lán á þessum 630 milljörðum í íslenskum krónum og einfaldlega staðgreitt þá upphæð til Hollendinga og Breta. Í ljósi gjaldeyrishafta hefði þeim verið nauðugur sá eini kostur að leggja andvirðið inn á bók, t.d. hjá Nýja Landsbankanum!

sunnudagur, 7. júní 2009

Icesave: pólitík og lögfræði

Í þeirri miklu gagnrýni sem fram er komin vegna samkomulags íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda er töluvert horft til lögfræðiálits Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors, og Lárusar Blöndal, hæstaréttarlögmanns. Í einni af greinum sínum, "Í hvaða liði eru stjórnvöld?", sem birt var í Morgunblaðinu þann 3. mars síðastliðinn, lýsa þeir skoðun sinni (lögfræðiáliti) á eftirfarandi hátt:

"Skoðun okkar er í stuttu máli sú að við höfum fullnægt skuldbindingum okkar með því að koma á fót innstæðutryggingakerfi sem hefði dugað undir öllum venjulegum kringumstæðum. Í tilskipun ESB er hvergi kveðið á um ríkari skyldur en að koma á fót slíku kerfi... Einhverjir kunna að segja að það sé markmið laganna að innstæðueigendum sé a.m.k. tryggt ákveðið lágmark sem nefnt er í tilskipuninni og í lögunum, hvað sem á gengi og að aðildarríkin beri ábyrgð á því að markmiðin náist. Þessi sjónarmið koma hins vegar hvorki fram í tilskipuninni né lögunum og því verður ekki á þeim byggt."

Hér er sterkt tekið til orða, en mikilvægt er að hafa í huga að þó þessi afstaða þeirra félaga sé sem slík ágætis lögfræðiálit, og stutt ágætis rökum, þá er það ekki eina lögfræðiálitið um þetta mál. Staðreyndin er sú að túlkun þeirra félaga er, eins og fram hefur komið, í andstöðu við opinbera lagatúlkun allra aðildarríkja Evrópusambandsins, auk Noregs. Án efa er það svo að töluverður fjöldi lagaspekinga bæði íslensku stjórnsýslunnar og innan akademíunnar tekur undir með túlkun þessara ríkja, þó án efa einhverjir taki undir túlkun Stefáns og Lárusar.

Í deilumálum sem þessum hvílir sú ríka ábyrgð og skylda á herðum stjórnvalda, í okkar tilfelli fyrst og fremst á ríkisstjórninni, að meta þau rök og þær áætlanir um samningsaðferðir sem hægt er að nýta í stöðunni. Ekki efa ég að túlkunartillögur Stefáns og Lárusar hafi verið lesnar gaumgæfilega, þó þeim hafi á endanum verið ýtt til hliðar.

Þar kemur án efa ýmislegt til.

Í fyrsta lagi geri ég ráð fyrir að réttmæti túlkunar þeirra á bókstaf laganna hafi verið vegin og metin. Í þeim efnum hefur ekki einungis verið horft á bókstafinn, heldur einnig verið t.d. horft til með hvaða hætti lögin hafa verið framkvæmd, hvert markmið löggjafans var með setningu þeirra og hvernig framkvæmdin hefur verið í sambærilegum tilfellum. Þessi breiðari aðferð við túlkun á laganna hljóðan er sérstaklega mikilvæg þegar kemur að framkvæmd laga er byggja á alþjóðlegum skuldbindingum. Hún er að auki meginreglan í almennri lögfræði, enda væri tæpast þörf fyrir dómstóla, lagaprófessora eða hæstaréttarlögmenn, ef lögin væri þess eðlis að túlkun þeirra væri ætíð óumdeild!

Í öðru lagi var íslenska ríkið þegar í framkvæmdinni búið að sýna á spilin hvað varðaði sína eigin túlkun á lögunum. Þrátt fyrir bankahrun skyldu allar innlendar innistæður útibúa bankanna tryggðar að fullu, og gott betur, þar sem ákveðið var að tryggja heildarupphæð innistæðna en ekki aðeins að því hámarki sem kveðið var á um í lögum um innistæðutryggingar. Eins og frægt er orðið var hins vegar ákveðið að undanskilja erlend útibú bankanna og var það kjarni Icesave-deilunnar.

Í þriðja lagi var án efa horft til heildarhagsmuna Íslands í málinu. Sú gagnrýni sem fram er komin hefur í mörgu ekki greint málið út frá stærra samhengi. Í sérhverjum félagskap gilda ákveðnar reglur og félagi sem ekki fellur sig við þær hefur þannig tæpast annan kost en að yfirgefa félagið.

Margir hrópa nú að með Icesave-samkomulaginu sé hugsanleg framtíðaraðild Íslands að Evrópusambandinu dýru verði keypt. Það er mikil þröngsýni. Með Icesave-samkomulaginu er framtíðaraðild Íslands að alþjóðasamfélaginu ákveðnu verði keypt. Hversu dýru nákvæmlega á eftir að koma í ljós, en ákveðin mörk hafa verið sett.

Það hefur legið ljóst fyrir frá því fyrir bankahrunið að ef Ísland vildi fá hjálp frá sínum nágrannaþjóðum þá varð Ísland að spila eftir þeim leikreglum sem aðrir spiluðu eftir. Ísland hafði ekki þann kost að fríspila. Upphafslán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ekki samþykkt fyrr en fyrir lá að Ísland myndi semja um Icesave. Frágangur lána annarra þjóða, þar með talið okkar norrænu vinaþjóða, hefur beðið eftir því að niðurstaða kæmi í Icesave. Niðurstaða sem gat ekki orðið önnur en sú að Ísland gengist við sinni ábyrgð hvað varðar lágmarksinnistæðutryggingar.

Það er fullkomlega óábyrgt að tala með þeim hætti að trúverðugleiki innistæðutryggingakerfisins á Evrópska efnahagssvæðinu kæmi okkur ekki við eftir hrunið. Að fara dómstólaleiðina með þetta mál, byggt á túlkun Stefáns og Lárusar, hefði þýtt að á meðan málið hefði verið rakið fyrir dómstóli, að því gefnu að þjóðirnar hefðu getað komið sér saman um einhvern dómstól og gefið honum lögsögu í málinu, hefði öll efnahagsaðstoð beðið á meðan. (Efnahagsaðstoð sem líklega hefði af mörgum þjóðum verið dregin til baka, enda vel hægt að líta á þá aðgerð íslenskra stjórnvalda að skapa meiriháttar réttaróvissu um innistæðutryggingarkerfið sem jafngildi meiriháttar efnahagslegs hryðjuverks, til viðbótar við arðrán útrásarvíkinga og "þjófnaði" á innistæðum evrópskra innistæðueigenda í íslenskum bankaútbúum erlendis.)

Úrlausn þessa máls fyrir dómstóli hefði án efa tekið 3 til 8 ár. Á meðan, engin erlend lán, ekkert uppgjör á gömlu bönkunum, engin frágangur gagnvart kröfuhöfum vegna nýju bankanna, engar nýjar erlendar fjárfestingar og að öllum líkindum algert hrun þess sem þó eftir lifir af íslenska hagkerfinu.

Engin vissa hefði verið um hagfellda niðurstöðu í því dómsmáli. Ef eitthvað, hefðu sigurlíkur verið mjög takmarkaðar, svo ekki sé meira sagt, í ljósi algers sammælis allra annarra aðildarþjóða að regluvirki um evrópskar innistæðutryggingar og í ljósi þeirrar túlkunarframkvæmdar sem íslensk stjórnvöld höfðu þegar haft við.

Að hafna samkomulagi um Icesave og fylgja ráðum Stefáns og Lárusar hefði verið, því miður, það alversta sem íslensk stjórnvöld hefðu gert í núverandi stöðu.

Þó vissulega sé erfitt að kyngja samkomulaginu um Icesave, þá er það engu að síður illskásti kosturinn í stöðunni.

Samningstaða varðandi öll önnur mál er auðveldari í kjölfarið.

Höfum í huga að samkomulag um Icesave er gífurlegt hagsmunamál stærstu kröfuhafanna í gömlu bankanna. Þeir eru meira og minna stórir evrópskir bankar sem áttu verulegra hagsmuna að gæta að ekki kæmi upp réttaróvissa vegna evrópskra innistæðutrygginga. Vegna þessa munu þeir að öllum líkindum fella sig við þá breytingu í forgangi kröfuhafa sem varð með neyðarlögunum, og Icesave-samkomulagið virðist í reynd staðfesta.

Icesave-samkomulagið er þannig ein af forsendum þess að hægt verði að klára samninga við kröfuhafa. (Þar af leiðir má færa rök fyrir því að Icesave-samkomulagið sé alger forsenda þess að hægt verði að fara 20% leiðréttingarleið Framsóknarflokksins!)

Icesave-samkomulagið greiðir, eins og áður segir, fyrir öðrum þeim lánum sem beðið hafa frágangs, þ.m.t. við Norðurlöndin. Hvað þau lán varðar skulu menn ekki láta sér koma á óvart að þau verði á sambærilegum, eða jafnvel hærri vaxtakjörum, en lán breta og hollendinga vegna Icesave.

Að síðustu eilítið þankastrik. Í fyrrnefndri grein Stefáns og Lárusar er fullyrt að ríkisábyrgð verði einungis til með þrennum hætti: "...á grundvelli laga, þar sem ábyrgð ríkisins er skýrt sett fram, á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga með heimild í lögum eða með því að ríkið verður bótaskylt vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis á grundvelli sakar." Lögfræðilega er þetta líkast til rétt hjá þeim, en praktískt og pólitískt er lífið eilítið flóknara. Ljóst er að sú ábyrgð sem ákveðin var síðastliðið haust um að tryggja allar innlendar innistæður að fullu, án þaks, var ekki í samræmi við þessa fullyrðingu þeirra félaga. Að sama skapi dettur engum í hug hvað varðar atvinnuleysistryggingasjóð, að þegar hann tæmist í haust, að annað verði uppi á teningnum en að ríkið bætti í sjóðinn það sem upp á mun vanta, þrátt fyrir að engar lagalegar kvaðir séu um slíkt.

Lögfræði er eitt ( og í raun svo margt), en pólitík er annað.

Í Icesave-málinu lágu fyrir ýmis lagaleg efni og misvísandi lagatúlkanir.

Endanleg ákvörðun um niðurstöðuna er hins vegar fyrst og fremst pólitísk – og tekin út frá breiðum heildarhagsmunum, en ekki þröngum lagatúlkunum.

laugardagur, 6. júní 2009

ICESAVE björgun

630 milljarðar eru miklir peningar.

630.000.000.000,- krónur.

Og 5,5% vextir hljóma háir, sérstaklega í ljósi þess að stýrivextir Englandsbanka eru ekki nema 0,5% og stýrivextir Evrópska seðlabankans ekki nema 1%.

En lánið vegna ICESAVE er til 15 ára. Vextir á 15 ára skuldabréfum í breskum pundum samkvæmt Financial Times eru í dag 4,38%.

Vextir á 10 ára ríkisskuldabréfum Bretlands eru 3,94% og Hollands 4,11% og höfum í huga að vextir eru í sögulegu lágmarki.

Það er eðlilegra að horfa á þessar vaxtatölur þegar rædd eru vaxtakjör vegna ICESAVE, enda þurfa bæði breska og hollenska ríkið að fjármagna útgjöld vegna ICESAVE. Höfum einnig í huga að Bretland og Holland greiða innstæður umfram 20 þúsund evrur, að 100 þúsund. Niðurstaðan er því þannig að beinn kostnaður íslenska ríkisins vegna ICESAVE verður hverfandi í samanburði við útgjöld breska og hollenska ríkisins og er að auki frestað um allt að 15 ár, á meðan að Bretland og Holland leggja út fyrir kostnaðinum strax.

Vaxtakjör þessi eru auk þess umtalsvert betri en bjóðast íslenska ríkinu á alþjóðamörkuðum.

Auk þess virðist íslenska ríkið, ef marka má Morgunblaðið, ekki að taka á sig þessa skuldbindingu, nema með óbeinum hætti, en samkvæmt frétt blaðsins á bls. 6 í dag segir:

"Samkomulag íslenskra stjórnvalda við Breta og Hollendinga vegna ICESAVE-reikninganna gerir ráð fyrir að skilanefnd Landsbankans gefi út skuldabréf upp á tæplega 630 milljarða króna á núverandi gengi sem tryggt verður með veði í öllum eignum bankans í Bretlandi."

Hér er sem sagt hvorki talað um að ríkið gefi út þetta skuldabréf, né að ríkisábyrgð hvíli að baki þessari skuldbindingu. Hún verður væntanlega áfram óbein í gegnum innistæðutryggingasjóð og mun að öllum líkindum ekki reyna á hana fyrr en sígur á seinni hluta tímalengdar skuldabréfsins, þ.e. eftir 12 til 15 ár.

Þannig má gera ráð fyrir að þessi skuldbinding vegna ICESAVE verði ekki hluti af skuldayfirliti íslenska ríkisins.

Tvennt verður jafnframt til að lækka þessa skuld, annars vegar allt að 300 milljóna punda inneign Landsbankans í Englandsbanka sem mun að mestu leyti fara til greiðslu hluta ICESAVE-skuldbindinga fljótlega í kjölfar samkomulagsins. Ef við gerum ráð fyrir að 250 milljón pund verði nýtt til þess lækkar ICESAVE skuldbindingin við það strax um 50 milljarða, í 580 milljarða.

Framtíðarstyrking krónunnar mun jafnframt leika lykilhlutverk, en hver prósentustyrking hennar héðan í frá lækkar ICESAVE skuldina um 6 milljarða.

Hagsmunir hvorutveggja íslenska ríkisins og erlendra kröfuhafa af styrkingu hennar eru þannig orðnir miklir og augljósir þar sem sterkari króna þýðir meiri greiðslugetu.

Hvað varðar síðan þá þrálátu goðsögn um að Ísland þurfi ekki að borga neitt vegna ICESAVE vísa ég í fyrri pistla mína hvað það varðar, annars vegar "ICESAVE goðsögnin" frá 15. janúar sl. og hins vegar "ICESAVE raunveruleikapróf" frá 26. Febrúar sl. En þar segir meðal annars:

"Vandinn við goðsögnina um að ekki þurfi að borga vegna Icesave er að hún horfir fram hjá tveimur meginatriðum, í fyrsta lagi að stofnað var til Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi að íslenskum lögum og er þannig samkvæmt sömu lögum enginn munur á innistæðureikningum í útibúi Landsbankans í London eða útibúi sama banka á Laugavegi 77. [...]

Vegna lagalegrar stöðu Icesave að íslenskum lögum hefði eina leiðin til að komast undan ábyrgðum vegna þeirra og að beita þeim rökum að innistæðutryggingar ættu ekki við í tilfelli kerfishruns verið sú að þau rök hefði gilt um alla innistæðureikninga bankanna.

Að skilja Icesave-reikninga frá öðrum innlánsreikningum Landsbankans með þeim hætti sem nú er fullyrt að hægt hafi verið brýtur nefnilega gegn meginreglu íslensks réttarfars, þ.e. jafnræðisreglunnar…"

Í stuttu máli þýðir þetta að innistæðueigendur í Hollandi og Bretlandi eru í fullum rétti til þess að fara í mál fyrir íslenskum dómstólum og krefjast þess að fá alla upphæð ICESAVE innistæða greidda að fullu. Það er skuldbinding upp á líklega 12 – 14 hundruð milljarða, eða rúmlega tvöfalt meira en þetta samkomulag gerir ráð fyrir – og allt með fullri ríkisábyrgð!

Hvað varðar þá röksemdafærslu að hugsanlega, mögulega, kannski sé hægt að komast undan ICESAVE ábyrgðum fyrir dómstólum:

"Þrátt fyrir að lagatæknilega sé hægt að halda því fram að hugsanlega megi komast undan þessum ábyrgðum eru líkur á því að sú lagatæknilega túlkun næði fram að ganga hverfandi. Hagsmunum þeim sem yrði fórnað til lengri tíma, ekki bara á meðan að málaferlum stæði, heldur einnig til langrar framtíðar í kjölfarið, væru miklu mun meiri en svo að slíkt gæti talist ábyrgt."

Endalega greiningu á kostum og göllum ICESAVE-samkomulagsins verður hins vegar ekki hægt að gera fyrr en hún liggur fyrir og er orðin opinber.

fimmtudagur, 28. maí 2009

Déjà vu all over again!

Eins og merkur stjórnmálamaður sagði...

...ég get ekki endurtekið annað en ég hef áður sagt!

Þar síðasta ríkisstjórn gladdi okkur í jólamánuðinum með sambærilegum skattahækkunum og verið er að keyra í gegnum þingið í dag. Af því tilefni skrifaði ég pistilinn "Skattahækkanasullumbull".

Þar segir meðal annars:

Hækkun annarra gjalda, óbeinna skatta eins og bensíngjalds, áfengisgjalds o.þ.h. mun að því er virðist skv. athugasemdum við frumvörpin að baki þeirra leiða til aukinna tekna fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 3,6 milljarða. Alþýðusamband Íslands telur að verlagshækkunaráhrif þessa verði á bilinu 0,4 – 0,5% sem leiði til hækkunar á verðtryggðum skuldbindingum landsmanna upp á 6,7 milljarða, eða álíka mikið og 1% tekjuskattshækkun.

Þeir 6,7 milljarðar renna hins vegar ekki í ríkissjóð heldur til banka og lífeyrissjóða til að bæta þeim verðbótaþáttinn. Heimilin finna hins vegar á endanum jafn mikið fyrir þessu og skattahækkun.

Í árferði sem þessu hefði ríkisstjórnin átt að gera allt annað en að hækka þau gjöld sem fara beint til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Nóg er nú samt.

Mun hreinlega hefði verið að hækka tekjuskattinn meira, og já, setja sérstakan hátekjuskatt. Kalla hefði mátt þessar tekjuskattshækkanir kreppuskatt og eðlilegt að hafa á þeim sólarlagsákvæði, t.d. að þær giltu til þriggja ára. Endurnýjun, eða framlenging, þessara sérstöku tekjuskattshækkana myndu þannig þurfa ákvörðun Alþingis.

Tekjuskattshækkun upp á 4 %, kreppuskattur, hefði verið sjálfsagður, og skipta hefði mátt honum til jafns á milli ríkis og sveitarfélaga. Á móti hefði mátt hækka persónuafsláttinn örlítið til að vega á móti áhrifum tekjuskattshækkunarinnar á lægstu launin...

Skattahækkun af þessu tagi hefði verið hreinlegri, einfaldari og gegnsærri en þetta skattahækkanasullumbull...

Allt það sama á við í tilfelli þeirra skattahækkana sem nú standa til. Verðtryggingaráhrifin kostar heimilin a.m.k. helmingi meira en ríkið mun fá í auknar skatttekjur. Það á að vera metnaðarmál að vinna gegn verðbólgu með öllum ráðum og því á að beita skattahækkunum þannig að gegnsæi, skilvirkni og hagræðið sé sem mest. Hækkun tekjuskatts er sú leið, það væri nær að halda sig við hana og ganga hana frekar röskar, en sleppa hjáleiðum.

Evrópufrumkvæði Framsóknarflokksins

Ég viðurkenni fúslega að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þau tíðindi bárust í gær að væntanleg væri sameiginleg þingsályktunartillaga Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins um aðildarumsókn að ESB. Læddist að sá grunur að nú væri afturhald flokkanna tveggja farið að spyrða sig saman um tafir, málalengingar og útúrsnúninga. Nauðsynlegt væri að hugsa málið, velta vöngum, skoða allar hliðar, undir og yfir og síðan komast niðurstöðu um að taka ákvörðun – seinna!

Að skoða ætti að athuga stefnumörkun um mótun afstöðu til hugsanlegrar ákvörðunar að betur athuguðu máli!

Kemur hins vegar í ljós að sá ótti var ástæðulaus.

Enda hefði slík framsetning þýtt að stjórnarandstaðan hefði orðið ósamkvæm sjálfri sér í ljósi þess að hennar helsta gagnrýni á núverandi ríkisstjórn er að hún þjáist að ákvarðanafælni og í helstu málum sé einungis að boða skoðun á mótun stefnumörkunar.

Með gleraugum hins pólitíska greinanda sem situr yfir hádegissamlokunni sinni og flettir í gegnum fréttir netmiðla er eftirfarandi að gerast:

Í fyrsta lagi setur utanríkisráðherra fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB sem vitað er að stjórnarandstöðunni þykir full rýr. Þar með er opnað upp á gátt fyrir það að í meðförum þingsins verði tillögunni breytt og hún aðlöguð þannig að um hana skapist breiðari sátt. Ástæða þess er að ekki er lögð fram tillaga sem er meira tilbúin er þá til þess að gefa þinginu, og þá sérstaklega hinum aðildarumsóknarhlynntu þingmönnum stjórnarandstöðunnar ákveðin höfundarrétt í þeirri lokatillögu sem mun koma frá utanríkismálanefnd til seinni umræðu.

Í öðru lagi kemur fram gagntillaga stjórnarandstöðunnar, þar sem fyrsti flutningsmaður er formaður Framsóknarflokksins ber með sér við fyrstu sýn að þar fari tilraun til að tefja málið. En er það svo? Lagt er þar upp með að fram fari markviss vinna við undirbúning aðildarumsóknar og sett verði fram skýr samningsmarkmið. Tímafrestur er settur í allra síðasta lagi í lok ágúst næstkomandi.

Sá tímafrestur er augljóslega eitthvað sem semja má um í meðferð þingsins.

Þannig er mál með vexti að meginhluti þeirrar vinnu til undirbúnings sem lögð er til í tillögu stjórnarandstöðunnar getur öll farið fram á starfstíma sumarþingsins, sérstaklega ef uppi eru hugmyndir um að það starfi til loka júlímánaðar.

Því má auðveldlega sjá fyrir sér að vinnu utanríkismálanefndar í kjölfar fyrstu umræðu um aðildarumsókn að ESB í þinginu í dag verði tillögu ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar, undir forystu Framsóknarflokksins, felld saman í eina tillögu. Utanríkismálanefnd muni á næstu vikum taka að sér það samráð við hagsmunaaðila sem eðlilegt er að eigi sér stað áður en að aðildarumsókn verður samþykkt í þinginu, og byggt á tillögu stjórnarandstöðunnar verði markaður vegvísir undirbúnings og framkvæmd aðildarviðræðna eftir að aðildarumsókn hefur verið samþykkt í þinginu.

Hafa ber í huga að frá því að Ísland sendir inn aðildarumsókn og þar til eiginlegar viðræður hefjast líða a.m.k. tveir til þrír mánuðir. Eiginlegar samningaviðræður munu þannig að öllum líkindum í fyrsta lagi hefjast í október á þessu ári. Á þeim tíma mun að sjálfsögðu fara fram undirbúningur hér innanlands fyrir sjálfar aðildarviðræðurnar.

Hvað varðar þann tíma sem þarf til að sinna þeim undirbúningi sem kallað er eftir í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar þá er einnig rétt að hafa í huga að Framsóknarflokkurinn hefur í reynd lokið öllum þeim undirbúningi sem þar er kallað eftir fyrir sitt leyti. Framsóknarflokkurinn hefur skilgreint samningsmarkið og skilyrði fyrir samþykkt endanlegrar aðildar.

Þar stendur í raun frekar upp á hina flokkana. Sú vinna á vettvangi þingsins á ekki að þurfa að taka mikinn tíma. Hluti hennar getur átt sér stað á starfsíma þingsins í aðdraganda aðildarumsóknar og framhaldið fer fram í kjölfar aðildarumsóknar. Þannig má sjá fyrir sér að hugsanlega í byrjun júlí verði sameinuð þingsályktunartillaga samþykkt og umsókn send inn.

Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar ber með sér öll merki forystu og frumkvæðis Framsóknarflokksins fyrir hennar hönd í málinu.

Viðbrögð utanríkisráðherra í þinginu bera með sér að hann fagni því frumkvæði.

Frumkvæði Framsóknarflokksins í þessu máli er þannig að undirbyggja sögulegt tækifæri til þess að á þingi myndist breið samstaða um aðildarumsókn að Evrópusambandinu og hvernig aðildarviðræður verða undirbúnar og framkvæmdar. Í þingsályktunartillögu stjórnarandstöðunnar er það Framsóknarflokkurinn sem í reynd gengur fram fyrir skjöldu í því að vinna með öðrum flokkum á þingi, hvort heldur sem er í stjórn og stjórnarandstöðu, að breiðri sátt og samstöðu um málið. Þetta eru vinnubrögð sem ættu að skapa meira traust og meiri trúverðugleika á aðildarumsóknarferlinu í heild sinni.

Því ber að fagna.

sunnudagur, 24. maí 2009

Hver var kröfuhafinn?

Í ágætri úttekt á pressan.is í fyrradag rakti Ólafur Arnarson það sem í reynd varð tæknilegt gjaldþrot Seðlabanka Íslands á síðasta ári. Gjaldþrot sem bankanum var víst bjargað frá með kaupum ríkisins á verðlausum skuldabréfum sem Seðlabankinn hafði tekið sem veð á móti lánum til íslenskra fjármálastofnanna.

Í frétt á pressan.is í gær er síðan rætt við Jón Steinsson hagfræðing, sem tekur undir flest það sem kemur fram í úttekt Ólafs. Báðir eru þeir á því að hér sé á ferðinni stærsti einstaki skellurinn sem íslenskir skattgreiðendur verða fyrir – það að borga þetta klúður seðlabankans sem ríkið tók yfir með skuldabréfi upp á 270 milljarða til fimm ára á 2,5% verðtryggðum vöxtum.

Stærri skellur en ICESAVE. Tvö- til fimmfalt stærri.

Það sem hins vegar vantar í úttekt Ólafs og ekki er fylgt eftir í frétt pressan.is þegar rætt er við Jón Steinsson er hins vegar að upplýsa hvort hið tæknilega gjaldþrot, og skuldabagginn sem því fylgir, er raunverulegt.

Því hvergi hefur komið fram hver var kröfuhafinn á þessari bókfærðu skuld seðlabankans.

Hvergi kemur fram með hvaða hætti seðlabankinn fékk það fjármagn sem lánað var áfram til íslenskra fjármálastofnanna með veðum í nú verðlausum pappírum.

Ekki er annað að sjá en að þar hafi einfaldlega hinar stafrænu peningaprentvélar bankans verið settar í gang.

Seðlabanki Íslands hafi sem sagt tekið lán hjá sjálfum sér til að lána áfram til fjármálastofnananna.

Seðlabankinn varð þannig vissulega "tæknilega" gjaldþrota, og hvað? Í miðju hruni banka- og fjármálakerfis heillar þjóðar, til hvers var verið að gera stórmál úr sýndarskuld seðlabankans við sjálfan sig? Vegna þess að þá er mikilvægast að virða reglur um tvöfalt bókhald?

Sjálfur er ég hér augljóslega farin að endurtaka sjálfan mig, samanber pistil frá því í síðustu viku, en hagsmunirnir eru þess eðlis að það er vert að vekja á því máls aftur og aftur, að minnsta kosti þar einhver sýnir fram á annað, að ríkið skuldar sjálfu sér þessa peninga.

Og er í lófa lagið að afskrifa skuldina.sunnudagur, 17. maí 2009

Ríkið á ekki að borga vexti

Það varð óvænt ánægja í síðustu viku þegar opnuð voru tilboð í ríkisvíxla. Ávöxtunarkrafa fjármagnseigenda sem vildu kaupa ríkisvíxla hafði minnkað um helming frá því mánuðinn á undan og fór niður í 5,74% meðaltalsvexti.

Þetta á ekki að koma á óvart. Fjármálakerfið er hrunið og atvinnulífið er í rúst. Eini "öruggi" fjárfestingarkosturinn á Íslandi eru ríkisbréf.

Og í núverandi ástandi sætir í raun furðu að ríkið sé að borga vexti yfirhöfuð. Það ætti að vera fullgott fyrir fjármagnseigendur á Íslandi á þessum síðustu og verstu tímum að geta fengið "örugga" geymslu fyrir sitt fé. Það er engin ástæða til þess að greiða rentu að auki.

Ef fjármagnseigendur vilja rentu, þá er þeim í lófa lagið að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Hjálpa til við að koma hagkerfinu aftur í gang, í stað þess að sitja og fitna eins og púkinn á fjósbitanum, allt í boði ríkisins og okkar skattborgaranna.

Fjármagn á Íslandi hefur enga útgönguleið. Það eru gjaldeyrishöft.

Það eru flestir, nema fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, á því að lækka verði vexti verulega. Við er að búast að Seðlabankinn muni stíga stórt skref í næsta mánuði þeim efnum. Hins vegar á Seðlabankinn, ríkið og bankarnir að stíga ennþá stærra skref hvað varðar innlánsvexti og lækka þá niður í núll. Það yrði ekki gegn skilyrðum AGS.

Peningaeigendur hafa hingað til fengið besta dílinn í efnahagshruninu – og halda áfram að vera á sérdíl.

Mál er að linni og þeir leggi sitt til eins og aðrir.

Núllvextir, eða svo til, allra innlána næstu mánuði er ekki nema sjálfsagt mál. Það er meira enn nóg að innistæður þeirra séu tryggðar.