sunnudagur, 18. maí 2008

Alþjóðabærinn Akranes

Á heimasíðu Akraneskaupstaðar segir að mannlíf sé þar með miklum blóma. M.a. segir þar eftirfarandi:

"Á Akranesi er einstaklega fjölskylduvænt og öruggt umhverfi þar sem áhersla er lögð á mikla og vandaða þjónustu við íbúa. Öflugt atvinnulíf sem býður upp á örugg störf á margvíslegum vettvangi, ásamt húsnæði á góðu verði, hefur orðið til þess að sífellt fleiri kjósa að búa á Akranesi. Menntun skiptir miklu máli og á Akranesi eru menntastofnanir í hæsta gæðaflokki... Á Akranesi er mikið og öflugt íþróttastarf og aðstaða til íþróttaiðkunar með því besta sem þekkist á Íslandi."

Á öðrum stað á sömu heimasíðu er greint frá því að skagamenn eru að uppruna upp til hópa afkomendur innflytjenda, eða, eins og þar segir: ” Skagamenn eru af írskum uppruna og það fer ekkert á milli mála. Þeir láta sér fátt fyrir brjósti brenna, eru lífsglaðir og skemmtilegir heim að sækja og miklir baráttujaxlar.”

Þessi ágæta heimasíða er sett fram á ensku, pólsku, þýsku, ensku, og litháísku, auk íslensku.

Hér á skaganum býr fjöldi innflytjenda sem hafa samlagast vel og eru fyrirmyndarborgarar.

Það skýtur því skökku við að Akranes sé að verða frægur bær að endemum fyrir útlendingaóþol og það algerlega óverðskuldað.

Viðbrögð varabæjarfulltrúa Frjálslyndaflokksins við væntanlegri komu flóttamanna af palestínskum uppruna hafa verið algerlega úr takti við tilefnið.

Ég get ekki varist þeirri tilfinningu að varabæjarfulltrúinn feli fordóma í garð útlendinga bak við meinta umhyggju fyrir bæjarsjóði og félagsmálakerfi kaupstaðarins. Ef svo, þá endurspeglar það siðblindu og ógeðspólitík sem ég efast um að þorri Akurnesinga vilji kannast við.

Eitt af vandamálum varabæjarfulltrúans er það að sporin hræða hvað varðar hans afstöðu til útlendinga almennt, en á meðan hann sat á þingi varð hann jú uppvís að því að höfða til hinna lægstu hvata og ala á óþarfa útlendingaótta. Þess vegna er erfitt að horfa á athugasemdir hans með öðrum gleraugum en þeim að um lítt dulda fordóma sé að ræða.

Ofstopi bæjarfulltrúans í garð síns fyrrum félaga, nú fyrrum bæjarfulltrúa frjálslyndra, er heldur ekki til að vekja traust. Eftirfarandi orð varabæjarfulltrúans endurspegla megna mann- og kvennfyrirlitningu:

”Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Karen var í fyrsta sæti hjá F-listanum á Akranesi við bæjarstjórnarkosningar fyrir tveimur árum. Hún var það fyrir mín orð. Við vorum góður hópum sem bjó til framboðslista og við skelltum okkur í bæjarstjórnarslaginn. Þetta var og er gott lið - með örfáum undantekningum sem eru Karen og Helga systir hennar. Sennilega er ekki ofmælt að ég hafi verið potturinn og pannan á bak við það framboð. Hin voru öll algerlega óreynd í pólitík. Ég kenndi þeim og leiðbeindi. Á framboðsfundum var það ég sem hélt ræðurnar. Karen Jónsdóttir hefur aldrei geta haldið skammlausa ræðu eða skifað pólitíska grein. En ég taldi rétt að hafa hana í fyrsta sæti. Gefa ungri konu tækifæri og allt það....”

Það sem ég þekki til bæjarmála á Akranesi tel ég líklegt að þetta flóttamannamál hafi einfaldlega verið dropinn sem fyllti mælinn hjá nú fyrrverandi bæjarfulltrúa Frjálslyndaflokksins, Karen Jónsdóttur, og hjá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sömuleiðis. Það að vinna með varabæjarfulltrúanum hafi einfaldlega verið orðið þeim um megn.

Segir það líka sína sögu að núverandi minnihluti hefur engan áhuga á að vinna með téðum varabæjarfulltrúa, þó svo færi að hann kæmist tímabundið í bæjarstjórn í forföllum Karenar Jónsdóttur. Minnihlutinn hefur að mínu viti engan áhuga á að fella pólitískar keilur í þeim félagsskap.

Akraneskaupstaður og akurnesingar hafa hingað til tekið vel á móti aðfluttum, útlendum sem innlendum. Þolinmæði þeirra, þrautsegja, umburðarlyndi og gestrisni á sér engin takmörk.

Akurnesingar munu því, þegar á hólminn er komið, taka vel á móti okkar minnstu bræðrum og systrum úr hópi alþjóðlegra flóttamanna.

laugardagur, 17. maí 2008

Afborgunarlausan júnímánuð!

Í kvöld kom yfir mig róttæklingur!!!

Ástand efnahagsmálanna undanfarið hefur gert það að verkum að kallað hefur verið eftir aðgerðum til handa bönkum og atvinnulífi. Minna hefur verið um beinar lausnir eða létti fyrir okkur sauðsvartan almúgan, en rök má fyrir því færa að við þjáumst af afleiddri vanlíðan: af því að bankarnir, og atvinnulífið almennt er að ganga í gegnum krísu bitnar það óhjákvæmilega á okkur hinum. Það fer heldur ekki framhjá okkur að höfuðstóll lánanna okkar hækkar bara, sama hvað við borgum mikið.

Atvinnulífið er nú búið að fá tvöfalda skattalækkun: tekjuskattslækkun úr 18% í 13% og niðurfellingu á skattgreiðslum af söluhagnaði hlutabréfa.

Seðlabankinn er búin að redda yfirdrætti hjá norrænum frændum okkar, sem hjálpar bönkunum.

Er þá ekki komið að okkur smáfuglunum?

Það má víst ekki lækka við okkur tekjuskattinn, ekki hækka of ört við okkur persónuafsláttinn eða vaxtabæturnar, ekki má lækka skatta á bensínið, og ekki má lækka vextina. Launin má víst helst ekki hækka.

Ég geri því að tillögu minni að í stað alls þessa verði júnímánuður lýstur afborgunarlausi mánuðurinn. Felldar verði niður fyrir þennan mánuð afborgarnir af húsnæðislánum, húsaleigum, rafmagni, hita, símum (fastnets og gemsum), internetáskrift, tryggingum, áskriftargjöld af sjónvarpstöðvum, bílalánum, og síðast en ekki síst greiðslur af kreditkortareikningum. Jafnframt ætti júnímánuður að vera tekjuskattsfríi mánuðurinn.

Ég tel miklar líkur á því að þessu frumkvæði yrði tekið fagnandi af öllum greiðendum slíkra afborganna og líklega myndi þetta hafa jákvæð áhrif á efnahagsástandið. Sjálfur yrði ég a.m.k. kampakátur!

Nú þarf bara að ná samstöðu, ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækjanna í landinu um þetta merka framtak...! Kannski maður ætti að skipuleggja baráttutónleika á Lækjartorgi?

Ef vel tekst til mætti jafnvel gera þetta að árvissum viðburði!

...eða ætli ég (og þið öll hin) myndi ekki bara eyða afgangseyrinum þessi mánaðarmót í einhverja tóma vitleysu, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf og álit okkar og ímynd á alþjóðavettvangi...!!!

Afborgunarlausi mánuðurinn - hljómar samt vel...

laugardagur, 10. maí 2008

Bankana burt!

Viðtal Frankfurter Allgemeine Zeitung við Arnór Sighvatsson, aðahagfræðing Seðlabanka Íslands er athyglisverð lesning. Viðtalið í heild sinni má finna á heimasíðu FAZ og er þýskan ekki þyngri en svo að hver sá sem hefur meðal menntaskólabakgrunn í málinu ætti vel að geta stautað sig í gegnum það.

Í gær virtist þorri fréttaflutnings af málinu byggja á frétt af viðtalinu á ensku fenginni frá Reuters. Aðalfréttavinkillinn var sú skoðun aðalhagfræðingsins að upptaka Evru myndi stuðla að stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Ýmislegt annað var þarna hins vegar fréttnæmt, t.d. þegar aðalhagfræðingurinn segir að stærð bankanna í hlutfalli við íslenskt efnahagslíf valdi verulegum vanda og gefur í raun í skyn að betra væri að hér á landi væru frekar dótturfélög erlendra banka, en ekki höfuðstöðvar íslenskra banka.

(Í Fréttablaðinu í morgun er frétt af viðtalinu sem byggir á þýsku útgáfunni.)

Í viðtalinu segir aðalhagfræðingurinn, í svari við spurningunni “Der rasch gewachsene, sehr große Finanzsektor ist ein weiteres Risiko für Ihr Land?” (Hinn hrað-vaxni, griðarstóri fjármálageiri er viðbótar áhætta fyrir land yðar?): “Ja. Ich wäre sehr viel beruhigter, wenn wir einen Finanzsektor wie Luxemburg hätten.” (Já ég væri mun rórri ef við værum með fjármálageira eins Lúxemborg).

“Wieso das?” (Hvernig þá?) spyr blaðamaður.

“Die haben zwar auch große Banken, aber einen Großteil der Branche machen Tochtergesellschaften internationaler Banken aus. Bei uns haben wir große Banken aus Island, die aber die meisten ihrer Geschäfte im Ausland machen. Unsere Banken haben damit keinen „lender of last resort“ in den Währungen, in denen sie arbeiten.”
(Þeir [Lúxemborgarar]eru einnig með stóra banka, en stærstur hluti geirans byggir á dótturfyrirtækjum erlendra banka. Hjá okkur eru stórir íslenskir bankar sem eru með stærstan hluta umsvifa sinna erlendis. Bankar okkar hafa þannig engan þrautalánveitanda í þeim gjaldmiðlum sem þeir starfa.)

Blaðið spyr stuttu síðar: “Sind die Banken somit eine Gefahr für Island?” (Eru bankarnir þá hættulegir fyrir Ísland?) og því svarar aðalhagfræðingurinn:
”Es sorgt für enorme Probleme, einen im Verhältnis zur gesamten Volkswirtschaft derart großen Finanzsektor zu haben. Deswegen sind die Risikobewertungen für Island als Land und auch für die Banken enorm gestiegen. Neben den Risiken hat es aber auch Vorteile gebracht: die Banken sind große Arbeitgeber und eifrige Steuerzahler.” (Það skapar meiriháttar vandamál, í hlutfalli við heildarhagkerfið að vera með svona stóran fjármálageira. Þess vegna hefur áhættuálagið á Ísland sem land og einnig fyrir bankana aukist svo mjög. Áhættan hefur hins vegar einnig haft kosti í för með sér: bankarnir hafa marga í vinnu og greiða glaðbeittir skatta sína.)

Athyglisvert.

Varla er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að bankarnir séu í reynd meira böl en bót fyrir íslenska hagkerfið og betra væri að þeir færu eitthvað annað, en héldu hins vegar útibúum hér. Hugsanlega hefur aðalhagfræðingurinn þó líka haft í huga að gott væri að erlendir bankar léku meira hlutverk í íslensku fjármálakerfi og opnuðu útibú hér á landi.

Viðtalið er allt frekar óheppilegt, þó tæpast verði aðalhagfræðingurinn sakaður um beinar rangfærslur. Tilvitnunin í hann um að við séum á miklu hættusvæði ” Wir bewegen uns auf sehr gefährlichem Terrain” kemur t.d. sem upphafið af svari við spurningu/athugasemd blaðamanns FAZ ” Die Leute gehen schon auf die Straße und protestieren” (Almenningur eru farinn út á götur til mótmæla) og er þannig engan veginn ljóst að þarna sé hann að vísa sérstaklega til ástands á alþjóðamörkuðum.

Ummælin um það að upptaka Evru myndi skapa hér stöðugleika og sú fullyrðing aðalhagfræðings að krónan sé uppspretta óstöðugleika (”Quelle für Instabilität”) eru síðan ansi sérstök í ljósi þess að í þessu viðtali var hann að tala í krafti starfs síns, en ekki sem óháður hagfræðingur úti í bæ. Þetta er hins vegar sjálfskapaður vandi Seðlabankans þar sem hagfræðingar hans stunda það reglulega að skrifa greinar og gefa álit þar sem tekið er fram neðanmáls að skoðanir viðkomandi séu hans eigin og endurspegli ekki endilega viðhorf Seðlabankans. Í viðtali af þessu tagi er engin slík neðanmálsgrein.

Þetta er jafnframt í annað sinn á stuttum tíma sem einn ”fagmanna” bankans er með óheppilegt innslag í erlendum fjölmiðli. Eiríkur Guðnason, einn seðlabankastjóra, var einnig óheppin í orðavali í viðtali við danska viðskiptablaðið Börsen fyrir skömmu síðan.

Það er spurning hvort ekki sé rétt að þeir í seðlabankanum láti lögfræðinginn sjá alfarið um almannatengslin? A.m.k. hvað varðar erlendu pressuna.