Í kvöld kom yfir mig róttæklingur!!!
Ástand efnahagsmálanna undanfarið hefur gert það að verkum að kallað hefur verið eftir aðgerðum til handa bönkum og atvinnulífi. Minna hefur verið um beinar lausnir eða létti fyrir okkur sauðsvartan almúgan, en rök má fyrir því færa að við þjáumst af afleiddri vanlíðan: af því að bankarnir, og atvinnulífið almennt er að ganga í gegnum krísu bitnar það óhjákvæmilega á okkur hinum. Það fer heldur ekki framhjá okkur að höfuðstóll lánanna okkar hækkar bara, sama hvað við borgum mikið.
Atvinnulífið er nú búið að fá tvöfalda skattalækkun: tekjuskattslækkun úr 18% í 13% og niðurfellingu á skattgreiðslum af söluhagnaði hlutabréfa.
Seðlabankinn er búin að redda yfirdrætti hjá norrænum frændum okkar, sem hjálpar bönkunum.
Er þá ekki komið að okkur smáfuglunum?
Það má víst ekki lækka við okkur tekjuskattinn, ekki hækka of ört við okkur persónuafsláttinn eða vaxtabæturnar, ekki má lækka skatta á bensínið, og ekki má lækka vextina. Launin má víst helst ekki hækka.
Ég geri því að tillögu minni að í stað alls þessa verði júnímánuður lýstur afborgunarlausi mánuðurinn. Felldar verði niður fyrir þennan mánuð afborgarnir af húsnæðislánum, húsaleigum, rafmagni, hita, símum (fastnets og gemsum), internetáskrift, tryggingum, áskriftargjöld af sjónvarpstöðvum, bílalánum, og síðast en ekki síst greiðslur af kreditkortareikningum. Jafnframt ætti júnímánuður að vera tekjuskattsfríi mánuðurinn.
Ég tel miklar líkur á því að þessu frumkvæði yrði tekið fagnandi af öllum greiðendum slíkra afborganna og líklega myndi þetta hafa jákvæð áhrif á efnahagsástandið. Sjálfur yrði ég a.m.k. kampakátur!
Nú þarf bara að ná samstöðu, ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækjanna í landinu um þetta merka framtak...! Kannski maður ætti að skipuleggja baráttutónleika á Lækjartorgi?
Ef vel tekst til mætti jafnvel gera þetta að árvissum viðburði!
...eða ætli ég (og þið öll hin) myndi ekki bara eyða afgangseyrinum þessi mánaðarmót í einhverja tóma vitleysu, með ófyrirséðum afleiðingum fyrir íslenskt efnahagslíf og álit okkar og ímynd á alþjóðavettvangi...!!!
Afborgunarlausi mánuðurinn - hljómar samt vel...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli
Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.