Voðaverknaðurinn í Arizona í gær ætti aðeins að verða okkur íslendingum umhugsunarefni. Í ljósi þess að þarna var gerð skotárás á þingmann demókrata í fylki þar sem orðræðan hefur verið mjög heit, og á köflum svæsin, auk þess sem orð og æði Tepokahreyfingarinnar og fjölmiðlaumræða fyrir síðustu þingkosningar í Bandaríkjunum urðu ansi eldfim, hefur að sjálfsögðu verið töluvert rætt í kjölfar skotárásarinnar að eitrað pólitískt andrúmsloft hafi með óbeinum hætti stuðlað að þessu voðaverki.
Nú skal það tekið fram að repúblikanar hafa stigið fram allir sem einn og fordæmt þessa skotárás, en því er ekki að neita að t.d. notkun repúblikana á skotskífum til að merkja kjördæmi sérstaklega sem skotmörk fyrir síðustu kosningar, setti að mörgum óhug í aðdraganda kosninganna. M.a. hafði þingkonan Gabrielle Gifford sem var eitt af fórnarlömbum skotárásarinnar í gær, og talin hafa verið megin skotmarkið, lýst því yfir að henni þætti slík merking og tilvísanir ósmekklegar og sendu vægast sagt óheppileg skilaboð. Viti menn!
Auðvitað er það svo að það er fyrst og fremst gerningsmaðurinn sem ber ábyrgð á eigin verkum, en það er líka margsannað að orð og æði áhrifafólks hafa bæði jákvæð áhrif og neikvæð. Og veikari sálir geta túlkað slíkt á þann veg að það hvetji til voðaverknaðs eins og þess sem átti sér stað í gær.
Í þessu samhengi er kannski komin tími til að við íslendingar lítum okkur aðeins nær í því hvernig við beitum orðum og æði í opinberri umræðu hér á landi. Hún er nefnilega komin út fyrir öll velsæmismörk. Ofbeldistilvísanir og óþverraorðbragð virðast vera orðin ásættanlegt norm. Engin blikkaði t.d. auga þegar aðal-skemmtiþáttur ríkisútvarpsins sjónvarps á síðsta degi ársins byrjaði leikin á því að setja á svið aftöku með afhöfðun á einum meintum geranda íslenska efnahagshrunsins á sjálfum Austurvelli. Er það kannski draumur fleiri en skaupsútgáfunnar af sérstökum saksóknara?
Margir tala um að bloggarar og jú þeir sem skrifi athugasemdir við blogg og fréttir á þeim vefmiðlum sem gera það kleift séu oft grófir í máli og gangi of langt. Það er vissulega margt til í því.
Hins vegar eru ýmsir þeir sem ættu að vita betur og vera ábyrgari í tali oft ekkert betri, og í reynd mun verri því þegar þau beita eiturtungum hefur það umtalsvert meiri áhrif og vigt.
Hér á landi er starfrækt útvarpstöð sem ansi oft er froðufellandi og það sem þar er sent út vel yfir mörkum þess smekklega, hvað þá skynsama. Að sama skap hýsir vefur einn, sem að eigin sögn stundar vandaða miðlun frétta, hreiður smáfugla sem að sama skapi eru oft ansi illskeyttir í uppnefningum og úthrópunum. Á báðum miðlum, og fleirum, er fólki af öllu tagi brigslað um svik og landráð, svo dæmi séu tekin.
En dæmin eru fleiri, og meginmiðlar falla í þessa gryfju æ oftar. Nærtækt dæmi er Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins núna um helgina. Þar er í tiltölulega stuttum texta sex sinnum mismunandi form af orðinu "órói" eða "óróleiki" beitt, auk þess sem orðaforðin er m.a. svik, háðsyrði, aðhlátursefni, ómerkilegustu blekkingar, vantar siðferðisskrúfuna, vonbrigði, reiði, svikula deildin, ritskoðun, skoðanakúgun, stórfelld svik, þjófnaður, greindarleysi, svikulir félagar, vélabrögð, svik af verstu sort og meiri svik. Svo í bréfinu líka minnst á Svartapétur, afglöp, svik fyrir ráðherrastóla, hörmulegan áfellisdóm, fúsk, þræla á Volgubökkum, tovaritsj, þrautpískaðar og öróttar hrygglengjur, áróður og lygi.
Huggulegt ekki satt?
Annað dæmi af handahófi er af álitsgjafa innlendum sem þekktur er orðin af greinarskrifum í erlenda miðla, en í bloggi í gær talar hún um stjórnmálaflokka sem eflaust eru henni ekki þóknanlegir sem hórur, siðlausa, gráðuga og þjóðarræningja. Einstaklega smekklegt.
Þetta er orðið of langt gengið. Allt of langt. Menn eiga að vera ábyrgir orða sinna og skulum við ekki halda að hér geti það ekki gerst að veik sál, eða sálir, finni í þessu orðalagi andskotans hvatningu til að grípa til aðgerða sem allir munu sjá eftir.
Það má vel eiga í pólitískri orðræðu, jafnvel litríkri mjög, og vera algerlega á öndverðum meiði, án þess að drekkja henni í hreinum óþverra.