föstudagur, 8. apríl 2011
Síðasta Icesave bloggið?
föstudagur, 1. apríl 2011
Standast nei-rökin sjö skoðun?
Aðalsteinn E. Jónasson, dósent og hæstaréttarlögmaður, skrifar ágæta grein í Morgunblaðið í morgun, sem einnig er birt á advice.is. Þar tilgreinir hann með nokkuð málefnalegum hætti og tiltölulega æsingalaust þær sjö megin ástæður fyrir því að hann mun segja nei við Icesave-samningunum í kosningunum 9. apríl.
Sjálfur hef ég komist að gagnstæðri niðurstöðu og hef þegar neytt atkvæðisréttar míns í utankjörfundarkosningu. Að vegnum kostum og göllum tel ég þó áhættu og kostnað við nei meiri en við já.
En lítum á nánar á röksemdir Aðalsteins.
Sú fyrsta er sú að "Fjárhæð skuldbindingar er háð algerri óvissu þrátt fyrir samning". Óvissuna telur hann stafa af þremur þáttum, greiðsluskyldu í erlendum gjaldmiðlum, heimtum úr þrotabúi Landsbankans og lagalegri stöðu neyðarlaganna.
Um þessi rök er það að segja að þessi óvissa er áfram fyrir hendi jafnvel þó samningunum verði hafnað. Verði dómstólaleiðin farin ríkir fullkominn óvissa um niðurstöðuna. Gengisáhættan er þannig óbreytt, og í raun hærri, en hafa ber í huga að þorri eigna þrotabús Landsbankans er í erlendri mynt þ.a. gengisáhættan er ekki allt um lykjandi. Lagaleg staða neyðarlaganna styrktist umtalsvert í dag þegar héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að þau brytu ekki gegn eignarréttarvernd eða jafnræðisreglu stjórrnarskrárinnar. Þá hefur Eftirlitsstofnun EFTA komist að þeirri niðurstöðu að neyðarlögin hafi ekki falið í sér ólögmæta mismunun gagnvart almennum kröfuhöfum og því hafi ekki verið brotið gegn ákvæðum 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.Að því marki sem menn telja að lagaleg áhætta vegna neyðarlaganna sé til staðar, verður hún ennþá til staðar, jafnvel þó sagt verði nei, og hins vegar eru neyðarlögin nú orðin ein af helstu röksemdum nei-sinna þar sem þau tryggi Bretum og Hollendingum betri heimtur. Verður bæði sleppt og haldið?
Þ.a. þessi rök falla eiginlega á jöfnu.
Önnur rök Aðalsteins eru þau að "Bretar og Hollendingar axla enga ábyrgð samkvæmt samningnum". Þetta eru hártogunarrök, þar sem má segja að þeir hafi gert það með því að borga út innistæðutryggingar án tryggingar fyrir því að fá það endurgreitt, hvorki úr búi bankans eða frá íslenska ríkinu. Þetta er í raun kjarni deilunnar. Með samningunum er einmitt verið að ganga frá því að breska og hollenska ríkið fái endurgreiddan hluta, og langt í frá allan, útlagðan kostnað sinn vegna Icesave og falls Landsbankans.
Þ.a. þessi rök standast ekki skoðun.
Þriðju rökin eru þau að "Samningsbrot leiðir ekki sjálfkrafa til skaðabótaskyldu". Gott og vel. Aðalsteinn segir þó sjálfur að þessu "fylgir óvissa ef til slíks dómsmáls kemur" þ.a. a.m.k. falla þessi rök á jöfnu, þ.e. áhættan er bæði við samþykkt eða höfnun samningsins. Þó er því við að bæta að í samningsbrotamálum þar sem hægt er að sýna fram á beint fjárhagstjón af samningsbrotum eru líkurnar á skaðabótaskyldu mun meiri. Það mun eiga við í málaferlum vegna ICESAVE.
Þ.a. þessi rök falla a.m.k. á jöfnu, en í raun eru meiri líkur en minni á skaðabótaskyldu í dómsmáli.
Fjórðu rökin eru þau að "Engin trygging er fyrir því að aðgangur atvinnulífs að lánsfé muni aukast", þ.e. við samþykkt samkomulagsins. Gott og vel, en sama á við ef samningurinn verður felldur að minnsta kosti. Miðað við öll skilaboð sem berast frá hugsanlegum lánveitendum og matsfyrirtækjum, þ.e. skilaboð frá markaði, er að verði samningarnir felldir muni aðgangur versna.
Þ.a. þessi rök standast ekki skoðun.
Fimmtu rökin eru þau að "Samfélag án ábyrgðar verður samfélag án frelsis". Þetta er flottur frasi og alveg hægt að taka undir hann. Í röksemdafærslu sinni segir Aðalsteinn enga heimild fyrir því að ríkið taki á sig skuldbindingar vegna einkafyrirtækis. Vísar hann í lög um ríkisábyrgðir þar sem segi "Ríkissjóður má aldrei takast á hendur ábyrgðarskuldbindingar, nema heimild sé veitt til þess í lögum." Hér erum við hins vegar komin að öðrum kjarna deilunnar. Að lögum er til Tryggingarsjóður innistæða og deilt er um hvort að ríkisábyrgðarskylda hvíli á því að tryggja lágmarksinnistæður. Ekki allar innistæður, heldur lágmarkið. Ísland tryggði allar innistæður allra íslenskra banka, en bara á Íslandi. Ekki annars staðar. Hámarkskröfur gætu snúist um fullt jafnræði gagnvart innstæðueigendum hér á landi.
Þetta er kjarni samningsins. Viljum við taka áhættuna á dómstólaleiðinni þar sem allt er undir? Allt eða ekkert?
Þ.a. þessi rök falla á jöfnu, að minnsta kosti, og að mínu viti standast þau ekki skoðun.
Sjöttu rökin eru þau að "Freistnivandi leiði til óábyrgar hegðunar". Segir Aðalsteinn að "ef íslenskt samfélag viðurkennir að einkafyrirtæki geti stofnað til skuldbindinga á kostnað ríkisins skapast sú hætta að stjórnendur fyrirtækja og einstaklingar freistist til að hegða sé með óábyrgum hætti (freistnivandi)". Þetta er vissulega gilt sjónarmið, en málið er að "samfélagið" hefur löngum tekið að sér að veita ákveðna ábyrgðartryggingu fyrir mögulegri óábyrgri hegðan prívatsins. Er það gert m.a. af því að við erum jú "samfélag" en aðallega að ákveðnar lágmarkstryggingar styðja við gangverk atvinnu- og viðskiptalífsins. Lágmarksinnistæðurtryggingar eru til staðar svo fólk þori að geyma peninga í banka. Við erum með ábyrgðarsjóð launa, þ.a. jafnvel þó að fyrirtæki verði gjaldþrota og rekstur þeirra stöðvist (í sumum tilvikum vegna óábyrgrar hefðunar eigenda þeirra) er saklausum starfsmönnum og launþegum þess fyrirtækis tryggð ákveðin réttindi. Ríkið rekur eitt stykki íbúðalánasjóð til þess að hlutast til um tryggingar á lánum vegna húsnæðiskaupa.
Þ.a. þessi rök falla um sjálft sig. Með Icesave samningunum er verið að ábyrgjast greiðslu lágmarkstrygginga á mjög afmörkuðum hluta viðskiptalífsins og ekki hægt að draga af því víðtækar ályktanir um opnar ábyrgðir á allt atvinnulífið.
Sjöundu rökin eru síðan þau að það eru "Grundvallar-mannréttindi að fá að beina réttarágreiningi til dómstóla." Ég skal viðurkenna að ég hef illan bifur á dómstólagreddu ákveðinna lögfræðinga. Viðurkenni ég fúslega að það er ekki sérlega málefnalegt hjá mér. Hins vegar verður það að segjast að þau sannindi eru tiltölulega einföld að þorri ágreinings er leystur utan dómstóla, sérstaklega hvað varðar milliríkjadeilur. Það að það sé eitthvert sérstakt mannréttindamál að leysa þessa deilu fyrir dómstólum er því miður, og afsakið orðbragðið, hrein þvæla. Dómstólar eru jafnan og mun frekar síðasta hálmstráið þegar allt annað hefur verið reynt til að leysa úr ágreiningi.
Þ.a. þessi rök standast heldur ekki skoðun.
Verður því að segjast að annars ágæt grein dósentsins hefur lítið nýtt fram að færa. Fimm af sjö rökum virðast ekki standast nánari skoðun og hin tvö falla a.m.k. á jöfnu. Greinin sannfærir mig þar af leiðandi síður en svo um að skipta um skoðun og segja nei.
Því verður atkvæði mitt áfram já við samningum um ICESAVE.