föstudagur, 19. ágúst 2011

Róttæk skattaleið?

Það er ekki að sjá að skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára hafi skilað sérstökum árangri. Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum og er þar stærsti einstaki vandinn gríðarlegur vaxtakostnaður vegna þeirra skulda sem ríkissjóður tók á sig vegna hrunsins.


Þó að einhverju leyti hafi skattkerfisbreytingarnar skilað hærri tekjum, hafa þær haft þau neikvæðu hliðaráhrif að draga úr viðskiptum, letja fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu, hvetja til svartrar vinnu, auka óhagræði, draga úr gagnsæi og skaða skilvirkni skattkerfisins, m.a. þannig að skatteftirlit er orðið mun flóknara og þyngra í vöfum. M.ö.o. flóknara skattkerfi hefur gert það að verkum að líklega er auðveldara að svíkjast undan skatti en áður var.


Nær væri að einfalda skattkerfið til muna, fækka skattstofnum, en hækka þá sem eftir standa, og auka þannig gagnsæi og auðvelda eftirlit. Með því móti mætti tryggja jafnari tekjur, auka traust á markaði og gera fjárfestingarumhverfi meira aðlandi til atvinnu- og verðmætasköpunar.


Þetta verður þó að gerast í samhengi við mun meira afgerandi aðgerðir til þess að taka á skuldastöðu ríkisins og háum fjármagnskostnaði þess á núverandi lánum. Í þeim efnum skortir á róttækni og veldur það nokkrum vonbrigðum hvað núverandi stjórnvöld hafa í raun verið hefðbundin og fyrirsjáanleg í skattaaðgerðum sínum. Skattar hækkaðir og skattstofnum fjölgað, allt í nafni aukinnar tekjuöflunnar, réttlætis og siðbótar, en árangurinn hefur látið á sér standa. Skattekjur einstakra skattstofna hafa jafnvel staðið í stað og dregist saman og hugsa ég að flestir landsmenn sýnist skorta á siðbót og réttlæti.


En aðal gallinn við það sem hingað til hefur verið gert er að það er óttalegt mjatl. Lítið hefur borið á umræðu um sérstaka einskiptisskatta til að mæta kostnaði vegna hrunsins og væri kannski vert að taka þá umræðu aftur og á breiðari grunni.


Sá einskiptisskattur sem þó hefur verið ræddur er að leggja skatt á eignir lífeyrissjóðanna og þannig taka út framtíðartekjuskatt strax. Því fylgir þá jafnframt að leggja fullan tekjuskatt á lífeyrissframlag héðan í frá, en lífeyrissgreiðslur yrði þá væntanlega framvegis skattfrjálsar. (Einnig rekur mig minni til að hafa séð tillögur um að leggja fullan tekjuskatt á bankainnistæður sem nutu tryggingar umfram hið löglega hámark upp á u.þ.b. 3 milljónir.)


Ef eignir lífeyrissjóðanna eru um og yfir 2 þúsund milljarðar myndi 40% skattlagning þeirra skila 800 milljörðum í ríkissjóð. Það myndi duga til að greiða niður vel rúmlega helming núverandi skulda ríkisins og þ.a.l. jafnframt lækka vaxtakostnað þess um meira en helming. Fjárlagagati þessa árs yrði þar með lokað í einum vettvangi og meira að segja yrði afgangur sem nýta mæti til að greiða ennþá meiri skuldir.


Þetta er langt í frá gallalaus aðgerð, m.a. vegna þess að ekki er verra fyrir ríkissjóð að eiga vísar framtíðarskatttekjur frá lífeyrisþegum, sérstaklega þar sem þeim mun fara fjölgandi meira hlutfallslega en þeim sem vinna.


En hugsanlega mætti skattleggja lífeyrissjóðina með öðrum hætti og án þess að framtíðarskatttekjum ríkissins sé fórnað um of.


Ein af skattbreytingum þeim sem komið var á af núverandi ríkisstjórn var endurreisn eignaskatts, sem heitir nú því gildishlaðna nafni auðlegðarskattur. Skilaði hann nokkrum tekjum, en ekki nóg til þess að hafa veruleg áhrif. Búast má jafnframt við að sá skattur verði tæpast langlífur og verði afnuminn við fyrsta tækifæri þegar og ef t.d. Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn.


Því er kannski vert að velta fyrir sér hvort ekki væri nær, í stað auðlegðarskatts og tekjuskattlagningar á lífeyrissjóði, að setja á sérstakan einskiptiseignaskatt sem myndi einnig ná til eigna lífeyrissjóðanna.


Til dæmis 30 – 40 prósent.


Með því móti mætti ná inn nægum tekjum, 12 til 15 hundruð milljarða, til að greiða niður líkast til allar innlendar skuldir ríkissjóðs og þar með lækka vaxtakostnaðinn til framtíðar um tugi milljarða. Eflaust yrði jafnframt til fé til nauðsynlegra framkvæmda sem gætu ýtt undir aukna atvinnustarfsemi og raunverulegan hagvöxt byggðan á nýrri verðmætasköpun.


Hægt væri jafnframt að láta ýmsar skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára ganga til baka, og reyndar nýta tækifærið til þess að einfalda skattkerfið verulega.


Hvað varðar eignir landsmanna í lífeyrissjóðum þá væri hægt að bæta „tjónið“ sem af þessari skattlagninu hlytist með róttækum gagnaðgerðum. Til dæmis með því að sameina enn frekar lífeyrissjóði og stofna sérstakan þjóðarlífeyrissjóð í anda norska olíusjóðsins (sem reyndar heitir Statens pensjonsfond utland). Í þann sjóð mætti leggja núverandi eignir ríkisins sem stendur til að selja hvort eð er, eins og fjármálafyrirtækin, en stóri framtíðartekjupósturinn ætti að vera allt auðlindagjald framtíðarinnar, af fiski, olíu o.þ.h. Ætti það að ganga langleiðina, og líkast til gott betur, í að bæta fyrir einskiptisskattlagningu af þessu tagi.


Fyrir eignafólk mætti bæta „tjónið“ með aflagningu auðlegðarskattsins og lækkun á fjármagnstekjuskatti. Einnig, fyrir þann fjölda sem ekki er með eignir í lausu fé, að bjóða upp á dreifingu skattgreiðslna, einskonar raðgreiðslur.


En allir myndu hagnast á því að ríkissjóður yrði svo að segja skuldlaus og losað yrði um allt hagkerfið í einum vettvangi þannig að það gæti farið að blómstra fyrir alvöru á ný.

mánudagur, 15. ágúst 2011

Lífeyrissjóðir og leiguhúsnæði

Hún er athyglisverð um ræðan um leiguhúsnæði sem fram fer á Íslandi. Ein afleiðing séreignarstefnu þeirrar sem rekin hefur verið áratugum saman er sú að aldrei hefur orðið til þroskaður leigumarkaður.

Enda þannig að nánast hefur verið litið niður á þá sem leigja. Aumingjar sem ekki gátu keypt sér húsnæði!

Meira að segja hefur félagslega húsnæðiskerfið áratugum gengið út á að gera fólki sem hefur engin efni á því kleift að "eignast" að nafninu til eigin húsnæði. Af hverju ekki félagslegt leiguhúsnæði?

Hér væri reyndar vettvangur tilvalinn til fjárfestingar og fjármögnunar fyrir lífeyrissjóði landsins. Hingað til hafa sjóðirnir aðallega stundað lánastarfsemi (verðtryggð bréf gegn "traustum" veðum) á fasteignamarkaði, en ekkert virðist koma í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir væru beinlínis þátttakendur á fasteigna- og leigumarkaði, þ.e. eiga og reka húsnæði til útleigu.

Hér gæti verið bæði almennt húsnæði og sérhæft (íbúðir fyrir aldraða, félagslegt leiguhúsnæði).

Þetta væri sjóðunum trygg tekjulind, og ætti að opna leið fyrir umtalsvert ódýrara leiguhúsnæði fyrir sjóðsfélaga ásamt því að skapa sjóðunum traustan langtímatekjugrunn. Ætti fjárfesting af þessu tagi að standa lífeyrissjóðunum nær en ýmislegt annað sem sýslað hefur verið með af peningum eigenda sjóðanna á undanförnum árum.

Er ekki tækifærið einmitt núna?