föstudagur, 7. ágúst 2009

Í góðri trú

Að vera í góðri trú getur skipt miklu máli frá lögfræðilegu sjónarmiði af ýmsum ástæðum. Í raun má segja að það sé ein af grunnstoðum réttar- og lýðræðisríkisins. Við göngum út frá sakleysi þar til sekt sannast og þjóðfélagið byggir á grunni trausts. Við viljum vera í góðri trú hvað varðar allt mannlegt athæfi, hvort heldur sem er í okkar einkalífi, á vegum hins opinbera, eða fyrirtækja og einstaklinga. Vissulega eru settar lög og reglur til þess að marka því athæfi skilgreinda ramma, þ.e. um hvað við viljum að góð trú ríki.

Engu að síður gerist það oft og iðulega að til eru þeir sem sökum gáleysis eða einbeitts brotavilja bregðast okkar góðu trú. Í litlu samfélagi eins og okkar getur slíkt athæfi verið erfitt við að eiga. Þó ekki þekki allir alla, eins og klisjan segir, þá kannast flestir við flesta. Kunningjasamfélagið gerir það m.a. að verkum að við trúum illa misjöfnu upp á okkar náunga.

Hrunið leiddi í ljós að okkar góða trú hafði verið misnotuð með afgerandi hætti. Einstaklingar, einkafyrirtæki og opinberar stofnanir höfðu, þegar öllu var á botninn hvolft, brugðist því trausti sem þeim hafði verið sýnt.

Traust sem einu sinni glatast er erfitt að vinna að nýju. Þjóðin var svikin í tryggðum, peningum hennar stolið, jafnframt því sem að ærunni var rænt – allt á sama tíma.

Eftir slíka meðferð er erfitt að treysta á ný, en hjá því verður ekki komist.

Traust kemur hins vegar ekki til af sjálfu sér. Það þarf að vinna fyrir því og eiga það skilið.

Svo ég sletti: "Are we there yet?"

3 ummæli:

  1. Nei við erum enn talsvert frá leiðarenda, en þegar Baugsfeðgar, Björgúlfsfeðgar, S-hópurinn og Bakkabræður sitja á Hrauninu förum við að nálgast.

    SvaraEyða
  2. Hið opinbera þarf líka að taka til í sínum ranni, en meira um það síðar.

    SvaraEyða
  3. það þarf að skila ránsfengnum til almennings, dæma þjófana og vitorðsmenn þeirra meðal embættis og stjórnmálamanna.

    Við getum farið eftir fordæmi daga, en lögin hér á landi voru fengin að láni hjá Dönum.

    Með þessu móti munu stjórnmálamenn vinna sér inn verðskuldað orðspor um að á Íslandi haldi heiðarlegt fólk um stjórnartaumana.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.