föstudagur, 23. september 2011
fimmtudagur, 8. september 2011
Skynsemin ræður!
miðvikudagur, 7. september 2011
Valkostir og framtíðarsýn
Samfylkingin er jafnan gagnrýnd af fulltrúum annarra flokka á þingi fyrir það að hafa enga aðra framtíðarsýn en aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Þessi gagnrýni beinist augljóslega jafnframt að okkur sem ekki eru félagar í Samfylkingunni, en eru hlynntir aðild Íslands að ESB.
Sú gagnrýni er við nánari skoðun ósköp léttvæg, þó ekki væri nema af tveimur megin ástæðum.
Annars vegar vegna þess að framtíðarsýnin Ísland í ESB er ansi mögnuð og fæli í sér verulegar breytingar á ýmsum sérviskuháttum íslenskum. Alvöru fríverslun við okkar helstu nágrannaþjóðir á svo að segja öllum sviðum yrði stærsta merkjanlega breytingin frá fyrsta degi, áhrif á stjórnsýslu yrðu önnur breyting, margt til batnaðar, sumt íþyngjandi, og víðtæk efnahagsleg áhrif yrðum við vör við í vaxandi mæli, sérstaklega í aðdraganda upptöku Evru sem gjaldmiðils, og ekki síst þegar því takmarki yrði náð, svo fátt eitt sé talið.
Hins vegar vegna þess að þeir sem gagnrýna með þessum hætti hafa ekki boðið upp á neina sambærilega framtíðarsýn eða valkost sem hægt væri að stilla upp andspænis aðild að ESB. Vefur Heimssýnar, hreyfingar sjálfstæðissinna í Evrópumálum, er skýrt dæmi um þetta. Þar á forsíðu er tengill í skjal sem yfirskriftina “12 ástæður til að hafna Evrópusambandsaðild”. Allar ganga þær meira og minna út á að hafna aðild út frá mestmegnis bábyljurökum um hversu afleitt samband þetta er, en hvergi er reynt að setja fram annan heildarvalkost.
Sama er að segja um þá stjórnmálaflokka á þingi sem afdráttarlaust hafna aðild. Ekki virðist fara mikið fyrir heildstæðri framtíðarsýn, valkosti eða -kostum, hvað þá stefnu.
Bægslagangurinn gegn aðildarviðræðum við ESB ber þetta með sér. Það er helst vaðið áfram í neikvæðni og niðurrifi, en lítið boðið upp á aðra valkosti.
Finna má hins vegar brot af stefnu og stefnumiðum í einstökum málum, sem kannski helst má samþætta undir slagorðunum “Virkjum, veiðum og verðtryggjum!”
Í grein í Morgunblaðinu síðastliðinn mánudag skrifaði Illugi Gunnarsson, alþingismaður, ágæta grein undir yfirskriftinni “Verkefnin blasa við”. Verkefnin voru að mati þingmannsins fern – lækkun skatta, óbreytt kvótakerfi, nýting orkuauðlinda og ný peningastefna. Lítið fór fyrir smáatriðum, en þó vakti það athygli mína að þingmaðurinn útilokaði ekki aðild Íslands að ESB og evru sem valkost tengdum peningastefnunni. Reyndar minntist hann ekki á ESB svo neinu næmi og ekki kallaði hann eftir því að draga aðildarumsóknina til baka.
Virði ég það hjá þingmanninum að í stað þess að raupa um aðildarumsóknina að ESB og að hún komi í veg fyrir að unnið sé að öðrum málum setti hann fram það sem hann telur mikilvægt að vinna að. Svo má vera sammála því eða ekki. Aðalatriðið er þó að verkefnalisti þingmannsins virtist vera enn ein útgáfan af “Virkjum, veiðum og verðtryggjum”, með viðbótarkryddinu skattalækkun.
Ég er ekki á móti virkjunum, en það verður að vera innan skynsamlegra marka og ekki felst í því bjargræði fyrir alla. Einnig er fjárfestingaumhverfi til virkjanna ekki með besta móti og kallar annað hvort á ríkisábyrgðir eða, og jafnvel einnig, háan fjármögnunarkostnað. Sama á við um veiðarnar, þær munu fara fram, en hvorki gefa Íslandi þær viðbótartekjur eða þau viðbótarstörf sem þarf. Um skattamálin, peningastefnuna og fylgifisk hennar, verðtryggingarbölið, ætla ég ekki að fjölyrða í þessum pistli.
Ég horfi hins vegar upp á að sú framtíðarsýn sem felst í auknu samstarfi og samþættingu við okkar helstu nágrannaþjóðir og þær þjóðir sem náð hafa lengst í þróun efnahags-, réttinda- og velferðakerfa, þrátt fyrir núverandi erfiðleika, er undir stöðugri árás meinfýsinna sem bjóða upp á takmarka framtíðarsýn sjálfir, nema ef vera skyldi meira af því sama.
Á meðan hlusta ég á börnin mín gera sínar framtíðaráætlanir og er Ísland ekki lengur hluti af þeim. Þeim hugnast ekki þetta eilífa basl.
Og ég heyri í vinum og kunningjum sem ekki starfa við virkjanir og veiðar, til dæmis við sköpun, og þá einkum nýsköpun, og áætlanir þeirra um framtíðina eru orðnar án Íslands.
Ég hef framtíðarsýn um Ísland sem land efnahagslegs stöðugleika, en jafnframt framþróunar. Land tækifæra, land erlendrar og innlendrar fjárfestingar, land fríverslunar, menntunar og heilbrigðis. Land skynsemi í skattamálum, land þar sem jafnvægi verður milli þess að nýta og njóta náttúrunnar. Land án verðtryggingar.
Land ábyrgðar á alþjóðavettvangi. Land samstarfs og samvinnu.
Land framtíðar kynslóða. Lands vina minna og ættingja, forfeðra, barna og barnabarna.
Ég tel að betur megi uppfylla þessa framtíðarsýn með aðild að ESB
Ég vil því skora á þá sem eru því ósammála að koma fram með heildstæðan annan valkost. Það gæti gefið okkur kost á því að í reynd velja á milli skýrra kosta þegar kemur að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamning.
Kannski myndi líka öll umræðan um framtíð Íslands fá á sig eitthvað jákvæðara yfirbragð.
Því bæri að fagna.
mánudagur, 5. september 2011
Sérlausnasambandið
föstudagur, 19. ágúst 2011
Róttæk skattaleið?
Það er ekki að sjá að skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára hafi skilað sérstökum árangri. Tekjur duga ekki fyrir útgjöldum og er þar stærsti einstaki vandinn gríðarlegur vaxtakostnaður vegna þeirra skulda sem ríkissjóður tók á sig vegna hrunsins.
Þó að einhverju leyti hafi skattkerfisbreytingarnar skilað hærri tekjum, hafa þær haft þau neikvæðu hliðaráhrif að draga úr viðskiptum, letja fjárfestingu og atvinnuuppbyggingu, hvetja til svartrar vinnu, auka óhagræði, draga úr gagnsæi og skaða skilvirkni skattkerfisins, m.a. þannig að skatteftirlit er orðið mun flóknara og þyngra í vöfum. M.ö.o. flóknara skattkerfi hefur gert það að verkum að líklega er auðveldara að svíkjast undan skatti en áður var.
Nær væri að einfalda skattkerfið til muna, fækka skattstofnum, en hækka þá sem eftir standa, og auka þannig gagnsæi og auðvelda eftirlit. Með því móti mætti tryggja jafnari tekjur, auka traust á markaði og gera fjárfestingarumhverfi meira aðlandi til atvinnu- og verðmætasköpunar.
Þetta verður þó að gerast í samhengi við mun meira afgerandi aðgerðir til þess að taka á skuldastöðu ríkisins og háum fjármagnskostnaði þess á núverandi lánum. Í þeim efnum skortir á róttækni og veldur það nokkrum vonbrigðum hvað núverandi stjórnvöld hafa í raun verið hefðbundin og fyrirsjáanleg í skattaaðgerðum sínum. Skattar hækkaðir og skattstofnum fjölgað, allt í nafni aukinnar tekjuöflunnar, réttlætis og siðbótar, en árangurinn hefur látið á sér standa. Skattekjur einstakra skattstofna hafa jafnvel staðið í stað og dregist saman og hugsa ég að flestir landsmenn sýnist skorta á siðbót og réttlæti.
En aðal gallinn við það sem hingað til hefur verið gert er að það er óttalegt mjatl. Lítið hefur borið á umræðu um sérstaka einskiptisskatta til að mæta kostnaði vegna hrunsins og væri kannski vert að taka þá umræðu aftur og á breiðari grunni.
Sá einskiptisskattur sem þó hefur verið ræddur er að leggja skatt á eignir lífeyrissjóðanna og þannig taka út framtíðartekjuskatt strax. Því fylgir þá jafnframt að leggja fullan tekjuskatt á lífeyrissframlag héðan í frá, en lífeyrissgreiðslur yrði þá væntanlega framvegis skattfrjálsar. (Einnig rekur mig minni til að hafa séð tillögur um að leggja fullan tekjuskatt á bankainnistæður sem nutu tryggingar umfram hið löglega hámark upp á u.þ.b. 3 milljónir.)
Ef eignir lífeyrissjóðanna eru um og yfir 2 þúsund milljarðar myndi 40% skattlagning þeirra skila 800 milljörðum í ríkissjóð. Það myndi duga til að greiða niður vel rúmlega helming núverandi skulda ríkisins og þ.a.l. jafnframt lækka vaxtakostnað þess um meira en helming. Fjárlagagati þessa árs yrði þar með lokað í einum vettvangi og meira að segja yrði afgangur sem nýta mæti til að greiða ennþá meiri skuldir.
Þetta er langt í frá gallalaus aðgerð, m.a. vegna þess að ekki er verra fyrir ríkissjóð að eiga vísar framtíðarskatttekjur frá lífeyrisþegum, sérstaklega þar sem þeim mun fara fjölgandi meira hlutfallslega en þeim sem vinna.
En hugsanlega mætti skattleggja lífeyrissjóðina með öðrum hætti og án þess að framtíðarskatttekjum ríkissins sé fórnað um of.
Ein af skattbreytingum þeim sem komið var á af núverandi ríkisstjórn var endurreisn eignaskatts, sem heitir nú því gildishlaðna nafni auðlegðarskattur. Skilaði hann nokkrum tekjum, en ekki nóg til þess að hafa veruleg áhrif. Búast má jafnframt við að sá skattur verði tæpast langlífur og verði afnuminn við fyrsta tækifæri þegar og ef t.d. Sjálfstæðisflokkurinn kemst aftur í ríkisstjórn.
Því er kannski vert að velta fyrir sér hvort ekki væri nær, í stað auðlegðarskatts og tekjuskattlagningar á lífeyrissjóði, að setja á sérstakan einskiptiseignaskatt sem myndi einnig ná til eigna lífeyrissjóðanna.
Til dæmis 30 – 40 prósent.
Með því móti mætti ná inn nægum tekjum, 12 til 15 hundruð milljarða, til að greiða niður líkast til allar innlendar skuldir ríkissjóðs og þar með lækka vaxtakostnaðinn til framtíðar um tugi milljarða. Eflaust yrði jafnframt til fé til nauðsynlegra framkvæmda sem gætu ýtt undir aukna atvinnustarfsemi og raunverulegan hagvöxt byggðan á nýrri verðmætasköpun.
Hægt væri jafnframt að láta ýmsar skattkerfisbreytingar undanfarinna tveggja ára ganga til baka, og reyndar nýta tækifærið til þess að einfalda skattkerfið verulega.
Fyrir eignafólk mætti bæta „tjónið“ með aflagningu auðlegðarskattsins og lækkun á fjármagnstekjuskatti. Einnig, fyrir þann fjölda sem ekki er með eignir í lausu fé, að bjóða upp á dreifingu skattgreiðslna, einskonar raðgreiðslur.
En allir myndu hagnast á því að ríkissjóður yrði svo að segja skuldlaus og losað yrði um allt hagkerfið í einum vettvangi þannig að það gæti farið að blómstra fyrir alvöru á ný.
mánudagur, 15. ágúst 2011
Lífeyrissjóðir og leiguhúsnæði
Enda þannig að nánast hefur verið litið niður á þá sem leigja. Aumingjar sem ekki gátu keypt sér húsnæði!
Meira að segja hefur félagslega húsnæðiskerfið áratugum gengið út á að gera fólki sem hefur engin efni á því kleift að "eignast" að nafninu til eigin húsnæði. Af hverju ekki félagslegt leiguhúsnæði?
Hér væri reyndar vettvangur tilvalinn til fjárfestingar og fjármögnunar fyrir lífeyrissjóði landsins. Hingað til hafa sjóðirnir aðallega stundað lánastarfsemi (verðtryggð bréf gegn "traustum" veðum) á fasteignamarkaði, en ekkert virðist koma í veg fyrir að lífeyrissjóðirnir væru beinlínis þátttakendur á fasteigna- og leigumarkaði, þ.e. eiga og reka húsnæði til útleigu.
Hér gæti verið bæði almennt húsnæði og sérhæft (íbúðir fyrir aldraða, félagslegt leiguhúsnæði).
Þetta væri sjóðunum trygg tekjulind, og ætti að opna leið fyrir umtalsvert ódýrara leiguhúsnæði fyrir sjóðsfélaga ásamt því að skapa sjóðunum traustan langtímatekjugrunn. Ætti fjárfesting af þessu tagi að standa lífeyrissjóðunum nær en ýmislegt annað sem sýslað hefur verið með af peningum eigenda sjóðanna á undanförnum árum.
Er ekki tækifærið einmitt núna?
miðvikudagur, 20. júlí 2011
Húsbankafrumvarp, anno 1987
Þrátt fyrir að vera næstum aldarfjórðungs gamalt frumvarp virðist það merkilegt nokk standast ágætlega tímans tönn. Í því er gert ráð fyrir að húsbankar fjármagni sig á opnum markaði án ríkisábyrgðar.
Athyglisvert er líka að grípa niður í greinargerð frumvarpsins, en þar segir meðal annars:
Þeir sem nú eru að byggja eða kaupa sér íbúð eiga aðeins kost á lánum með fullri verðtryggingu. Eignarhlutfall þeirra fer ekki hraðvaxandi eins og áður heldur er jafnvel hætta á að það minnki með tímanum. Þegar eru mörg dæmi þess að fólk hefur átt í erfiðleikum með sölu á íbúðum með miklum verðtryggðum lánum…einfaldlega vegna þess að söluverð þeirra heldur ekki í við verðtryggðu lánin. Áhvílandi lán með uppfærðum verðbótum eru orðin mun hærri en markaðsverð íbúðarinnar.
Þessi hætta ágerist eftir því sem lánshlutfall verðtryggðra lána eykst. Það er fyrirsjáanlegt að mikil hætta er á því að allar minni íbúðir, sem verða byggðar og keyptar á næstu árum með fullum húsnæðislánum… muni ekki halda verðgildi sínu í takt við lánskjaravísitölu. Þannig gæti skapast það ástand að stór hluti fólks sitji í íbúðum sem það getur ekki selt vegna þess að skuld við Byggingarsjóð ríkisins er meiri en söluverð íbúðarinnar. Það má því segja að Byggingarsjóður ríkisins eigi allar slíkar íbúðir. Fólkið er í raun orðið að leiguliðum hjá ríkinu. Það á ekkert í íbúðinni þótt hún sé þinglýst á nafn viðkomandi en hefur samning um afnot af henni næstu 40 árin meðan það stendur í skilum. Sjálfseignarstefnan margrómaða er í reynd hrunin.
Síðar segir í sömu greinargerð:
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilraun verði gerð til þess að brjótast út úr myrkviðum lánskjaravísitölunnar. Lánskjaravísitalan hefur haft óbærilegar afleiðingar fyrir allt efnahagslíf landsmanna. Hún hefur komið fjölda manns á vonarvöl og lagt mörg atvinnufyrirtæki í rúst. Misgengishópurinn, sem varð að þola stórhækkun lánskjaravísitölu umfram kaupgjaldsvísitölu á árunum 1983-1984 hefur enn ekki fengið leiðréttingu sinna mála hvað húsnæðislánin áhrærir. Lánskjaravísitalan verkar með þeim hætti að óeðlilegir þættir, svo sem hækkun matvöru, hefur áhrif á hana. Þannig mun 10%-matarskattur ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, sama dag og hann er lagður á, hækka skuldir íbúðaeigenda við húsnæðislánakerfið um einn milljarð króna.
Á þeim átta árum sem eru liðin síðan lánskjaravísitalan var tekin í notkun hefur hún rúmlega átjánfaldast. Byggingarvísitalan hefur rúmlega sextánfaldast. Á sama tíma hefur verðgildi bandaríkjadals ellefufaldast og dönsku krónunnar nífaldast. Maður, sem hefði fengið að taka danskt húsnæðislán í júní 1979, skuldaði nú miklu minna en sá sem hefði tekið jafnhátt Íslenskt húsnæðislán með sömu afborgunarskilmálum.
Jamm...
þriðjudagur, 19. júlí 2011
Aflífum Íbúðalánasjóð
Hér er tillaga í púkkið sem er eflaust ekki til skoðunar í Velferðarráðuneytinu:
Leggjum niður Íbúðalánasjóð.
Ein af stærri athugasemdum ESA er sú að sjóðurinn njóti ótakmarkaðrar ríkisábyrgðar. Það er rétt að því marki að þannig hafa stjórnvöld umgengist sjóðinn og leyft sjóðnum að kynna sig á markaði. Grannt skoðað er ekkert um það í lögum um sjóðinn sem segir að hann njóti ríkisábyrgðar. Það er afleidd staða sem kemur til vegna eignarhaldsins.
En þökk sé þessu fyrirbæri Íbúðalánasjóði er s.s. de facto ríkisábyrgð á stórum hluta allra húsnæðisskulda landsmanna. Hleypur þar á hundruðum milljarða, en heildarskuldir sjóðsins í lok síðasta árs voru 826 milljarðar. (Hef nú aðeins þusað um þetta áður.)
Bókfærðar eignir á móti voru 836 milljarðar, þ.a. tæknilega var sjóðurinn í plús, en vitað er að töluvert af meintum eignum eru óseljanlegar fasteignir sem líkast til er færðar of háu verði í bókhald sjóðsins, auk bréfa sem eru komin í vanskil, en vanskil yfir 90 daga voru um síðustu áramót 3,9 milljarðar (sjá hér).
Nær væri að stofnað yrði hlutafélag um þennan rekstur, sem síðar yrði sett á markað, t.d. einskonar húsbanka að danskri fyrirmynd. Bjóða mætti bönkunum þátttöku í þessum húsbanka, t.d. með þeim hætti að þeir leggðu inn a.m.k. hluta sinna húsnæðislána í púkkið í skiptum fyrir hlut í hinum nýja húsbanka.
Reyndar er það eitt af vannýttu tækifærum hrunsins að hafa ekki aflífað Íbúðalánasjóð þá og þegar og farið út í breytingar af þessu tagi. Nýr húsbanki hefði þá getað verið virkur hluti í afskriftum og endurskipulagningu húsnæðislánakerfisins með því t.d. að "kaupa" húsnæðisskuldabréf bankanna á afskriftarverði gegn hlut í húsbankanum. Í framhaldi hefði eflaust mátt vinna með mun auðveldarri og gagnsærri hætti að endurskipulagningu húsnæðisskulda heimilanna.
En það er eftiráspeki, en þarf kannski ekki að vera of seint.
Nú er hins vegar komið að því að bregðast þarf við réttmætri gagnrýni ESA á starfsemi sjóðsins og tilvalið að nýta það tækifæri til róttækra umbóta. Fyrsta skrefið í því yrði að leggja sjóðinn niður í núverandi mynd.
miðvikudagur, 13. júlí 2011
Illa fengið fé...
Ætli milljónkallinum yrði ekki skilað – afhentur laganna vörðum?
Líklega – þó eflaust gæti viðkomandi reynt að halda því fram að við þessu fé hafi verið tekið í góðri trú og því engin ástæða til að afhenda það einhverjum löggum!
Eru eigendur verðtryggðra pappíra ekki í svipuðum sporum og sá sem fékk milljónkallinn?
Ef verðbólguskot undanfarinna ára er af stórum hluta afleiðing markaðsmisnotkunnar nokkurra fjármálastofnanna/eignarhaldsfélaga og eigenda/starfsmanna þeirra sem hafi með bellibrögðum og jafnvel ólöglegu athæfi haft neikvæð áhrif á gengi krónunnar, sem þrýsti upp verðbólgu og þannig jók gengisgróða vegna verðtryggingar peningapappíra, eru þá ekki verðbætur á verðtryggða pappíra þannig tilkomnar í reynd illa fengið fé?
Eru ekki allir verðtryggðir skuldunautar undanfarinna ára fórnarlömb ræningja? Er rétt að þeir greiði þær verðbætur sem urðu til vegna ólögmæts athæfis?
Er ekki ákveðið siðleysi falið í því að vilja halda verðbótum fengnum með þessum hætti?
Á kannski erindi Arnars Jenssonar til stjórnlagaráðs um upptöku ólögmæts ávinnings við í þessu samhengi? Leiðrétting á verðbólgusprungnum lánum sé þannig sambærileg við „...að ná til baka fjármunum og eignum sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti og skila þeim til réttra eigenda.“
Er sjálfsagt að rukka og halda illa fengnu fé, jafnvel þó það sé fengið í góðri trú?