sunnudagur, 13. september 2009

Munum eftir smáfuglunum!

Nú þegar hausta tekur fara í hönd erfiðir tímar fyrir smáfuglana, sérstaklega þá sem eru illa búnir fyrir blautt haust og kaldan vetur.

Þá er kannski við því að búast að þeir séu eilítið hvumpnir.

Svo virðist eiga við um smáfuglana á AMX, sem virðast í miklu uppnámi yfir ákalli mínu eftir alvöru ESB andstöðu í bloggpistli frá því fyrr í dag.

Í pistlinum “Framsóknarmaður á ESB hraðferð” býsnast smáfuglarnir yfir því að ég leyfi mér að gagnrýna andstæðinga aðildar fyrir málefnaþurð.

Pistillinn reyndar er dæmigerður fyrir nákvæmlega það sem ég var að kvarta yfir í pistlinum frá því í morgun – upphrópanir og útúrsnúningar, stutt staðleysum og jafnvel hreinni dellu.

Smáfuglunum til hugarhægðar telur sá sem þetta ritar það auðvitað vera sjálfsagt markmið að íslenska verði eitt af opinberum tungumálum ESB. Það er jú hluti af samningunum. Enn sem komið er Ísland þó rétt í upphafi aðildarumsóknarferilsins og því alls ekki óeðlilegt að upplýsingaskipti á milli Íslands og ESB fari fram á ensku.

Ísland er ekki orðið aðildarríki ennþá.

Hvort hins vegar íslensk stjórnvöld kjósa sjálf að þýða þennan ágæta spurningalista er hins vegar allt annað mál og kemur í sjálfu sér aðildarumsóknarferlinu lítið við. Það er einfaldlega íslenskt innanríkismál.

Smáfuglunum til frekari upplýsinga að þá vill svo til að í flest öllu okkar alþjóðasamstarfi fara öll vinnusamskipti fram á erlendum tungum og ekki íslensku. Smáfuglarnir gætu t.d. leitað um það upplýsinga hjá Birni Bjarnasyni um það hversu mikið af samskiptum hans fyrrum ráðuneyta við erlenda samstarfsaðila, vegna t.d. Schengen eða menntamála, fóru fram á íslensku.

Ef til aðildarsamnings kemur, þá verður hann og öll hans fylgigögn þýdd á íslensku.

Ef til aðildar að ESB kemur, þá verður íslenska eitt af opinberum tungumálum ESB.

Umræða um aðildarumsókn Íslands, ferli hennar og hugsanlega niðurstöðu á miklu fremur að snúast um inntak og efni. Hingað til ber meira á nöldri um umbúðir.

En það er farið að kólna svo það er kannski skiljanlegt að smáfuglarnir nöldri!

1 ummæli:

  1. Ég get ekki séð utan á Winston pakkanum mínum nein varnaðarorð á óskiljanlegri lögfræðiensku? Þar eru varnaðarorð sem allir skilja. Er það ekki gert svo allur almenningur þurfi ekki að fara með sígarettupakkann til löggilts skjalaþýðanda til að fá úr því skorið hvað stendur í varnaðarorðunum?

    Má þess vegna ekki alveg eins segja að það eigi að þýða þennan spurningalista, svo almenningur geti lesið hann og velt fyrir sér? Allar kannanir sem hafa verið gerðar um hug landsmanna varðandi hugsanlega ESB aðild sína að fólk vill vita meira. Er þá rétta leiðin að koma með spurningalista sem er illskiljanlegur? Þetta torf sem er skrifað og talað í Brussel er ekki fyrir neinn meðalmanna að skilja. þess vegna eru fleiri hundruð túlka með yfir milljón á mánuði þar við að þýða texta af einu tungumáli yfir á annað.

    Þó ekki væri nema fyrir sjálfan forsætisráðherrann, þá held ég það væri alveg þess virði að þýða þetta yfir.

    Ruglið með Icesave sýndi svo ekki varð umvillst að við vorum tekin í bólinu vegna þess að þeir sem áttu að gæta okkar hagsmuna skildu ekki bofs í því sem þeir voru að gera. Þeir gerðu gjörsamlega í heyið. Ætli þeir hefðu ekki verið ögn skár settir ef þeir hefðu skilið það sem þeir voru að fjalla um aðeins betur?

    Koma svo ESB sinnar, ekki meira laumuspil og baktjaldamakk. Menn eru búnir að fá nóg af forréttinum af slíkum vinnubrögðum með Icesave.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.