sunnudagur, 24. janúar 2010

Öflugur listi

Sjálfstæðismenn í Reykjavík geta verið sáttir við niðurstöðu prófkjörsins. Niðurstaðan leiðir til öndvegis það fólk sem er frekar þekkt fyrir að vera traustir stjórnendur en "litríkir" stjórnmálamenn.

Eftir stormasamt kjörtímabil framan af og farsakennda snúninga sem gerði það að verkum að velflestir Reykvíkingar, núverandi og fyrrverandi, fóru hjá sér, var það mikið heillaspor þegar Óskar Bergsson skar borgarstjórnina alla úr snörunni og myndaði á ný meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í borginni.

Hrunið hafði síðan þau viðbótaráhrif að borgarstjórnin öll (eða svo til) skreið upp úr hinum pólitísku skotgröfum og fór að vinna betur saman að hagsmunum borgarbúa.

Hanna Birna borgarstjóri hefur valdið því starfi með miklum sóma. Hún hefur náð á þessum stutta tíma, að því er virðist, að verða óumdeildur leiðtogi sjálfstæðismanna í borginni og þar með að ná fram aga og samstöðu sem vart hefur sést frá tíma Davíðs Oddssonar.

Efstu sætin eru að sama skapi skipuð fólki sem vinnur vel sem hluti af heild. Ég reyndar hefði átt bágt með að gera upp á milli minna gömlu granna Júlíusar Vífils og Kjartans, báðir miklir sómamenn, en Júlíus er vel að öðru sætinu kominn og að sama skapi Kjartan að því þriðja.

Þorbjörg Helga er að ljúka sínu fyrsta kjörtímabili og hefur staðið sig með miklum ágætum.

Að mínu mati, með réttu eða röngu, hefur þetta leiðtogateymi yfir sér meira faglegt yfirbragð en pólitískt. Að hjá þeim sé borgin í fyrsta sæti en ekki flokkurinn. Þannig á það líka að vera.

Gísli Marteinn getur vel við unað. Þó hann hafi verið einhverjum sætum ofar fyrir síðustu kosningar hugsa ég að margir hafi verið búnir að afskrifa hans pólitíska feril í borginni. Aðkoma hans og aðferðafræði í prófkjörsbaráttunni virðist hins vegar hafa snúist meira um faglegheit en pólitík og held ég að honum hafi því tekist að vinna sig upp í fimmta sætið úr stöðu pólitísks öngstætis og áhrifaleysis. Tölurnar sýna einnig að ekki hefði hann þurft mörg atkvæði til viðbótar í efri sæti til að þokkast hærra.

Það fer síðan vel á því að nýliðarnir vermi sjötta og sjöunda sæti listans.

Þetta er eflaust fyrsti listi sjálfstæðismanna í hartnær tvo áratugi sem á raunhæfa möguleika á því að vinna hreinan meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur.

Kannski var það Dagur B. Eggertsson sem beið stærstan ósigur í þessu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins?

Hann mun sitja uppi með þann kaleik að vera hitt borgarstjóraefnið í þessum kosningum og því miður hans vegna tel ég að þá keppni vinni Hanna Birna auðveldlega. Í þessum borgarstjórnarkosningum er allt eins líklegt að sérstaklega Samfylkingin muni líða fyrir þátttöku í ríkisstjórn.

Dagur á þannig gríðarlega erfitt pólitískt verkefni fyrir höndum. Hann þarf að leiða kosningabaráttu eins og hann trúi því raunverulega að hann geti sigrað. Að sama skapi þó með þeim hætti, að hafi Sjálfstæðiflokkurinn betur, eða myndi nýjan (áframhaldandi) meirihluta með Framsóknarflokknum, að sú niðurstaða veiki hann ekki um of með tilliti til innkomu hans í landsmálapólitíkina og óumflýanlega baráttu um formannssætið í Samfylkingunni.

Samfylkingin hefur mun meira undir í þessum borgarstjórnarkosningum en bæði Vg og Framsókn. Samfylkingin er ekki bara stærsti flokkurinn af þessum þremur, heldur verður jafnframt leidd að varaformanni flokksins, Degi, sem telst sjálfkrafa vera í pólitískri þungavikt. Forysta bæði Vg og Framsóknar verður ný og óreynd og því hægt að túlka hvaða niðurstöðu sem er hjá þeim sem annað hvort "sigur" eða "varnarsigur". Dagur, hins vegar, verður að skila Samfylkingunni að minnsta kosti jafn miklu fylgi og í síðustu kosningum.

En svo er náttúrulega spurning hvaða áhrif framboð Besta flokksins á eftir að hafa á bæði kosningabaráttuna og niðurstöðu kosninga!

10 ummæli:

  1. Var það "sómamaðurinn Kjartan" sem dubbaði veikann mann í stól borgarstjóra?

    Sómatilfinning okkar er mun ólíkari en ég ætlaði kæri Friðrik.
    Sigurður Ásbjörnsson

    SvaraEyða
  2. Sómamenn geta líka gert mistök kæri Sigurður.

    SvaraEyða
  3. Það er stór hluti Reykvíkinga heimskur en ekki svo stór að hann fari að kjósa yfir sig Valhallarmafíuna til hreinna valda.

    SvaraEyða
  4. Hvernig dettur þér svona vitleysa í hug? Fyrsti listinn sem á raunhæfa möguleika á meirihluta í áratugi?

    "wake up and smell the shit"

    SvaraEyða
  5. Ertekki að djóka með þennan pistil? Er þetta kannski háð sem ég fatta ekki?

    SvaraEyða
  6. Skil ekki fólk sem er að mæra fólk sem notaði veikann mann í valdagræðgi sinni fyrir réttum tveimur árum.

    SvaraEyða
  7. Er þessi pistill hugsaður sem atvinnuumsókn fyrir eina Frammarann í borgarstjórninni - að afloknum kosningum í vor ?

    Þetta er nú meira spéið

    SvaraEyða
  8. ERTU AÐ DJÓKA ???

    SvaraEyða
  9. Hvar er blygðunarkennd þess sem árið 2010 segist vera SjálfstæðisFLokksmaður?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.