fimmtudagur, 11. febrúar 2010

Hvítþvottur einkavæðingar bankanna

Man einhver eftir þessari skýrslu?

Einkavæðing helstu ríkisfyrirtækja árin 1998 – 2003

Ekki sá Ríkisendurskoðun ástæðu til að taka þar sterkar til orða en að "Sú söluaðferð að auglýsa ráðandi hlut í bæði Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hf. í einu verður að teljast óheppileg."

Já var það?

Að öðru leyti sá Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að fjargviðrast yfir einkavæðingaferlinu frekar.

Miðað við þokkalega ríkar heimildir Ríkisendurskoðunar til að fara yfir gögn máls má velta fyrir sér t.d. af hverju í þessari úttekt kom ekki fram hvernig fjármögnun einkavæðingar bankanna var raunverulega háttað.

Að mínu mati er tvíeðli Ríkisendurskoðunar ákveðið vandamál.

Á heimasíðu stofnunarinnar stendur eftirfarandi:

Sjálfstæð eftirlitsstofnun Alþingis

Ríkisendurskoðun er sjálfstæð stofnun sem starfar á vegum Alþingis. Meginhlutverk hennar er að endurskoða ríkisreikning og reikninga ríkisaðila, hafa eftirlit með og stuðla að umbótum á fjármálastjórn ríkisins og nýtingu almannafjár. Megingildi hennar eru óhæði, hlutlægni, hæfni og trúverðugleiki.

Annars vegar er Ríkisendurskoðun endurskoðunarþjónusta, en hins vegar eftirlitsstofnun. Með hverjum er hún að hafa eftirlit? Þeim hinum sömu ríkisaðilum sem hún sinnir endurskoðunarþjónustu fyrir. Ríkisendurskoðun er s.s. hvað eftir annað að framkvæma stjórnsýsluúttektir og eftirlit með ríkisaðilum sem hún hefur sjálf farið yfir bókhaldið hjá og samþykkt reikninga!

Er ekki þannig Ríkisendurskoðun hvað þetta varðar sett í það undarlega hlutverk að hafa eftirlit með sjálfri sér?

1 ummæli:

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.