Enn er þráttað um almennar afskriftir lána. Sú sérfræðinganefnd sem nú er að störfum og mun víst kynna niðurstöður sýnar eftir helgi skoðar almenna afskrift sem einn mögulegra valkosta.
Allt frá því að Framsóknarflokkurinn gerði tillögu um almenna afskrift lána að sinni snemma árs 2009, en hún var byggð á ráðleggingum hagfræðinga sem flokkurinn fékk til að vinna með sér að efnahagstillögum, hefur um þetta verið karpað. Sérkennilegast var að þessar tillögur voru úthrópaðar af ýmsum með mikilli fyrirlitningu sem "framsóknartillögur" og þá að sjálfsögðu þýddi það að þær væru um leið stórvarasamar og full ástæða til að tortryggja tillögurnar. Hlaut eiginlega að felast í þeim að afskriftirnar með einum eða öðrum hætti hlytu að renna beint í vasa Halldórs Ásgrímssonar og Finns Ingólfssonar!
Stóra gagnrýnin var og er spurningin hver á að borga fyrir slíka afskrift.
Þeirri spurningu er í raun og veru auðsvarað.
Allir.
Einfaldasta og skilvirkasta leiðin til almenns skuldauppgjörs af þessu tagi, t.d. með flatri 20% afskrift allra lána er að stofna til sérstaks afskriftarreiknings í Seðlabankanum sem nýttur er til að bæta skuldareigendum skaðan af afskrift. Reikning sem má svo afskrifa. Þetta væri hrein peningaprentun sem hefði þau raunáhrif að draga úr heildarverðgildi gjaldmiðilsins, í sjálfu sér ekkert ólíkt þynningu hlutabréfaeignar með útgáfu viðbótarhlutafjár. Gjaldmiðill okkar, krónan, er jú einskonar hlutabréf í íslenska hagkerfinu.
En rétt eins og þegar hlutabréfaeign er þynnt út með útgáfu aukins hlutafjár, getur peningaprentun kostað núverandi hluthafa ákveðna eignarýrnun. Þynning hlutafjár er hins vegar oftast gerð með langtíma hagsmuni í huga. Sama á við um peningaprentun af þessu tagi.
Höfum einnig í huga að í aðdraganda hrunsins hafði hér verið stunduð mjög öflug peningaprentun á vegum prívatsins, m.a. með mjög vafasömum hætti, og líkast til eitthvað af því beinlínis með glæpsamlegum hætti (understatement) með því að véla með verð hlutabréfa á markaði.
Hins vegar þegar hrunið varð brunnu upp þessi gerviverðmæti. Hrunið var hins vegar það allt um lykjandi að í því brunnu líka upp raunverulegar eignir. Allt verðmat á markaði varð ómarktækt. Búum við í reynd við það ástand enn í dag þar sem gjaldeyrishöft eru viðvarandi og eignir og fyrirtæki ganga ekki að því marki sem þyrfti kaupum og sölu á opnum markaði.
Einhverjir þeirra sem láta almennar afskriftir skulda fara í taugarnar á sér benda á að annars vegar myndi það gagnast einhverjum sem ekki þurfa á því að halda eða ekki eiga það skilið. Það er skrýtin röksemdafærsla. Við bárum öll tjón af þessu hruni. Nema reyndar sérvalinn hópur fjármagnseigenda sem var með megnið af sínu fé á bankareikningum eða fest í verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Sérvalinn er sá hópur þar sem þeim hópi var jú tryggð sín eign langt umfram skyldur og lagaheimildir. Sumir þeirra sem hrópa hæst gegn almennum skuldaafskriftum tilheyra jú einmitt þessum hóp.
Einn stærsti kosturinn við almenna skuldaafskrift er sá að hún hreinsar sviðið og auðveldar eftirleikinn. Auðvitað mun almenn skuldaafskrift ekki duga öllum. En þá liggur jú beinast við að telja að þeim sem það dugar ekki hefðu verið dæmdir til uppgjörs hvort eð er. Almenn skuldaafskrift myndi þannig þjóna vel til þess að greina sauðina frá hrútunum, eða almenna borgara frá þeim sem höfðu farið fram úr sér, eða voru jafnvel hreinir fjárglæframenn. Þannig mætti komast hjá t.d. hallærisuppákomum eins og skjaldborgum um hreina skussa.
Þetta ætti jafnvel við einstaklinga og fyrirtæki. Almenn skuldaniðurfærsla í tilfelli fyrirtækja myndi þannig að sama skapi greina þau skárri frá þeim verri og auðvelda og ýta undir að þau verri fari einfaldlega í gjaldþrotameðferð. Það er hluti af vandanum að ennþá er verið að halda gangandi tæknilega gjaldþrota fyrirtækjum, sem t.d. bankar hafa yfirtekið og dæla svo í rekstrarfé. Truflar það allt rekstrarumhverfi fyrirtækja innan sama bransa. Að sama skapi er verið að beita skuldaafskriftum sem virðast handahófskenndar og byggðar á hagsmunamati sem hvorki er gegnsætt né endilega sjáanlega skynsamlegt. Það ýtir undir grunsemdir um sérvinavelvild og hyglun sumra á kostnað annarra.
Sem dæmi má taka sjávarútveginn. Það er ekkert að því að láta sjávarútvegsfyrirtæki fara á hausinn. Fiskurinn fer ekkert og höfum í huga að þar sem kvótaeign útlendinga er bönnuð geta erlendir kröfuhafar ekki eignast kvóta ef sjávarútvegsfyrirtæki fer í gjaldþrot. Það verður að selja hann. Hins vegar er það svo að á meðan að fyrirtækjunum er haldið í einhverskonar öndunarvél á vegum bankanna (og kröfuhafa) er kvótaeignin með óbeinum hætti í eigu og undir stjórn hinna erlendu kröfuhafa.
En, í stuttu máli og aftur að upphafspunktinum. Almenn skuldaafskrift er einföld, réttlát og sanngjörn aðferð til þess að rétta af hagkerfi sem orðið hefur fyrir jafn miklum skakkaföllum og það íslenska. Hana má framkvæma þannig að valdi sem minnstum skaða sem dreifist nokkuð jafnt á allt hagkerfið, en að sama skapi myndar grunninn fyrir þá viðspyrnu sem svo sárlega þarf á að halda. Short term pain for long term gain!
Árni Páll Árnason er á móti almennri skuldaafskrift.
SvaraEyðaÞað eitt segir mér að skuldaafskrift sé sanngjörn, réttmæt og eðlileg.
Virkilega fínt Friðrik . . . og ástæða til að kalla þig að borði til að hanna og útfæra "efnahagsaðgerð" sem eru nægilega víðtæk og öflug til að frelsa hagkerfið úr langstæðu frosti . . . og fyrirséðum harðindum og landflótta . . .
SvaraEyðakveðja að Norðan
Bensi
Þakkir fyrir skilmerkilega grein.
SvaraEyðaKveðja,
Hjörtur
Hmmmm.. afskrifa verðtryggðar skuldir > peningaprentun > verðbólga > hækkun verðtryggðra skulda & stýrivaxta.
SvaraEyðaHljómar eins og jákvæð afturvirkni, sem leiðir jú til óþægilegs ýl í hátalarakerfum.
kv. Haukur
Mig langar að gera smá athugasemdir við það að þetta sé langbesta leiðin. Í fyrsta stað þá gagnast þetta mest því fólki sem skuldar mest og hefur sem hæstar tekjurnar því sá sem skuldar 20 millur fær 4 afskrifaðar og sá sem er með 100 milljóna skuld fær 20 millur afskrifaðar. Er ekki betra að þeir sem skulda mest og hafa bestu tekjurnar borgi bara sitt? Ég kæri mig ekkert t.d. að fara að greiða meir fyrir yfirstétt lögfræðinga, bankamanna og annarra slíkra sem þessi flati niðurskurður kemur best fyrir. Nóg er maður að borga fyrir þá nú í dag.
SvaraEyðaÍ annan stað þá er þetta mjög ósanngjörn leið gagnvart þeim sem skulda lítið og gættu sín fyrir hrun eða voru búnir að kaupa íbúð áður en fasteignabólan byrjaði að vaxa. T.d. í mínu tilfelli finndi ég lítið fyrir þessu en væntanlega þyrfti ég að taka á mig talsverðar skattahkækkanir eða kjaraskerðingu í formi verðbólgu og annars slíkts. hversvegna á ég þá að fara að blæða miklu meira fyrir það? Hvar er þá réttlætið í minn garð? Hversvegna ætti ég að vilja vera þá áfram í landinu?
Svo í þriðja lagi þá er þetta með flata niðurskurðinn til handa þeim sem skulda ekkert. Hversvegna eiga þeir að fara að taka á sig auknar byrðir skyndilega þegar þeir hafa greitt upp sínar skuldir? Er ekki verið að ganga hart gagnvart fram þeim sem eru mið sitt á tæru með þessu?
Er ekki betra að tryggja leið sem tryggir mest réttlætið því þessi flata leið gerir það ekki þegar maður fer að hugsa um það? Hvað með að setja t.d. 20-30 milljón króna þak á hana þá þ.e. að flata niðurfellingin miðist við 20-30 miljón króna af eign max? Eða skoða aðrar leiðir?
Agnar Kr,
SvaraEyðaVarstu að vakna úr 9 mánaða dvala eða ertu bara almennt vankaður? Veistu ekki að það er fyrir löngu búið að leggja fram marvíslegar og ítarlegar tillögur um afskriftarþak. Þarf að ræða um sömu hlutina aftur og aftur til dauða.
Svo það er betra að sleppa því að gera eitthvað vegna þess að einhver gæti hagnast á því?
SvaraEyðaHvað með þann sem skuldar 22 milljónir í íbúð sem er bara 20 milljóna virði. Ef hans/hennar skuldir lækkuðu um 10% þá gæti verið hægt að forða eigninni frá uppboði. Nei, frekar að gera ekki neitt. Fallegur náungakærleikur það.
Annars skiptir þetta ekki máli því í 5% verðtryggingu með 5% vexti hækka afborganir um 50% á 8 árum og þeir sem eru með allt á hreinu í dag gætu þurft aðstoðar seinna frá þeim sem þeir vilja ekki liðsinna í dag.
"Nafnlaus hér að ofan sem ert að gagnrýna Agnar Kr. Bara að benda þér á að Friðrik er ekkert að tala um neitt þak á leiðréttingar. Hann er að tala um flata leiðréttingu á öll lán. Og hann er að tala um að prenta peninga og þar á meðal lækkun á gengi krónunar. Sem hann nefnir.
SvaraEyða" Þetta væri hrein peningaprentun sem hefði þau raunáhrif að draga úr heildarverðgildi gjaldmiðilsins, í sjálfu sér ekkert ólíkt þynningu hlutabréfaeignar með útgáfu viðbótarhlutafjár. Gjaldmiðill okkar, krónan, er jú einskonar hlutabréf í íslenska hagkerfinu."
Þetta þýðir á mannamáli að gengið myndi falla og verðbólga aukast. En Friðrik telur þetta sé betra að allir taki þetta á sig og þá komumst við fyrr út úr þessu. En þetta þýðir að allur innflutningur kostar okkur meira. Á meðan að verðtrygging er við líði þá koma verbólgu skot á öll verðtryggð lán. Þannig að ég átta mig ekki á hvað lánþegar vinna á þessu. Þ.e. 20 lækkun lána sem svo vegna aukinar verðbólgu hækka kannski á 1 til 2 árum um 10% til baka vegna þessara aðgerða.
fjallið fékk joðsótt---- og fæðist mús????? --halló hvar er frumvarp árnapáls um setja erlendu láninn undir einn hatt.
SvaraEyðaÉg held að það séu tveir agnúar á þessu hjá þér.
SvaraEyðaÍ fyrsta lagi talarðu um að þynna út gjaldmiðilinn sem í venjulegu hagkerfi þýddi að þú værir að fella gengið og fjármagnseignir mundu rýrna = eignir færðar frá fjármagnseigundum til skuldara.
En íslendingar búa við verttryggingu þannig að skuldir flestar skrúfast upp um leið og gjaldmiðillinn fellur, kaupmáttur rýrnar þannig að þetta kemur skuldurum með verðtryggð lán mjög illa.
Nema náttúrulega ef þú afnemur verðtrygginuna áður en þú leggur af stað í þennan leiðangur og þá ertu að rýra eignir.
það er ekki hægt að afskrifa skuldir án þess að áhrifanna verði vart annarstaðr