þriðjudagur, 22. febrúar 2011

Hræðsluáróður

Það er þess virði að lesa leiðara Morgunblaðsins í dag, 22. febrúar, undir yfirskriftinni „Hræðsluáróður“. Þar kemur í ljós sú afstaða þess sem þar ritar að í reynd hafi engin alþjóðlegur dómstól lögsögu í málum er varðar innistæðutryggingar. Einungis verði, að mati leiðarahöfundar, hægt að sækja mál á grundvelli íslenskra laga fyrir íslenskum dómstólum.

Þetta er í sjálfu sér virðingarvert sjónarmið og endurspeglar ákveðna samkvæmni í röksemdafærslu. Það er óneitanlega mjög hreinleg afstaða að telja mál innistæðutrygginga þannig vaxin að til þess að ætla sér að sækja bætur verði að koma til málarekstur fyrir íslenskum dómstólum ef ætlunin er að sækja bætur samkvæmt lögum um innistæðutryggingar og með vísan til EES- og Evrópuréttar.

Gallinn við þessa röksemdafærslu er hins vegar tvenns konar, í grófum dráttum. Annars vegar hvað varðar málarekstur fyrir íslenskum dómstólum og hins vegar fyrir þeim erlenda dómstól sem mun láta sig málið varða. Bein tenging er síðan þar á milli.

Íslenska leiðin

Þegar til kemur málareksturs fyrir íslenskum dómstólum, fari svo að ICESAVE-lögin verði felld í þjóðaratkvæðagreiðslu, verður þar tekist á um túlkun á EES- og Evrópurétti. Þegar hefur skapast fyrir því fordæmi að íslenskir dómar líti eða leiti til EFTA-dómstólsins um túlkun slíkra ákvæða. Ef fyrir liggur, eða fram kemur, túlkun úr þeirri áttinni sem segir að ríkið verði að hlaupa undir bagga með Tryggingasjóði, má gera ráð fyrir að íslenskur dómstóll muni taka tillit til þess í dómsuppkvaðningu.

Hafa ber í huga að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur þegar hafið könnun á lögmæti aðgerða íslenskra stjórnvalda varðandi mismunun á innistæðueigendum í kjölfar bankahrunsins. Töluverðar líkur eru á því að niðurstaða ESA verði á þann veg að um mismunun hafi verið að ræða, sbr. formlega áminningu ESA þess efnis. Ábyrgðarlaust er að ganga út frá annarri niðurstöðu í áhættu- og hagsmunamati um staðfestingu ICESAVE-laga. Að sama skapi er líklegra en ekki að EFTA-dómstólinn muni komast að sömu niðurstöðu. En vissulega er hægt að deila um þessar líkur eins og aðrar, rétt eins og þegar keyptur er lottómiði.

Miði er möguleiki, ekki satt?

En þrátt fyrir að EFTA-dómstólinn kæmist á endanum að niðurstöðu sem væri óhagstæð fyrir Ísland, eru jú að sama skapi tölfræðilegar líkur til þess að íslenskur dómstóll ákveði að leiða það hjá sér og dæma Íslandi í vil. Hugsanlega. Aftur er miði möguleiki.

Erlenda leiðin

Hvað sem líður röksemdum Morgunblaðsins um að varnarþing varðandi bætur geti einungis verið á Íslandi liggur fyrir, eins og ofan greinir, að innan EES-samstarfsins er málið þegar í ferli. Verði niðurstaðan sú að íslenska aðferðafræðin varðandi innistæðutryggingar hafi falið í sér mismunun og hafi þannig verið brot á EES- og Evrópurétti verða af því afleiðingar. Það byggir ekki á líkindum, heldur staðreyndum.

Í Morgunblaðsleiðaranum felast í reynd þau skilaboð að Ísland geti látið slíka niðurstöðu sem vind um eyru þjóta. Það er laukrétt. EFTA-dómstóllinn hefur enginn tól til þess að þvinga fram virðingu Íslands fyrir dómum sínum. Eins og gjarnt er um alþjóðasamstarf og framkvæmd alþjóðasamninga byggir það fyrst og fremst á virðingu við gerða samninga og að orð skuli standa. Hluti af alþjóðasamningum er jafnan hvernig leysa eigi úr ágreiningi og varðandi EES- og Evrópurétt er það EFTA-dómstólinn sem er æðsta úrskurðarvald á meðan Ísland er í EES samstarfinu.

Ef Ísland virðir ekki niðurstöðu EFTA-dómstólsins, hvort sem varðar innistæðurtryggingar eða eitthvað annað, er Ísland ekki lengur sannur samstarfsaðili samkvæmt eigin skuldbindingum. Kemur þá til þeirra úrræða sem samnningsaðilum Íslands eru tækar skv. EES samningnum sem, ef þeir kysu að gripa til hennar, á endanum að leiða til þess að hlutar EES samningsins yrðu teknir úr sambandi, líklegast frjáls för fjármagns og fjármálaþjónusta. Það gæti síðan smitast yfir á svið eins og frjáls för fólks því það fer ekki vel saman að mega fara sjálfur en mega ekki taka peningana sína með sér.

Orðsporsáhættan er jafnframt töluverð. Ríki sem orðið er uppvíst að því á alþjóðavettvangi að virða ekki alþjóðlegar skuldbindingar (sérstaklega ef það er ekki stórveldi) fær meðferð og athygli til samræmis við það. Hverfandi líkur eru á því að slíkt ríki verði ofarlega í forgangsröð annarra ríkja varðandi hvers konar milliríkjasamninga, hvort sem er tvíhliða eða marghliða.

Einhver ríki munu líkast til koma fram við okkur á kurteisislegan og diplómatískan hátt, þ.e.a.s. ekki segja beint nei, en ekki má búast við miklum árangri eða erindi sem erfiði. Ríki sem orðið ómerkingur í alþjóðlegu samstarfi með þessum hætti mun einnig eiga erfitt uppdráttar í öðru alþjóðlegu samstarfi, sérstaklega því sem byggir mikið og treystir á fjölhliða samstarf. Í öðru alþjóðlega efnhags- og viðskiptasamstarfi Íslands, t.d. innan OECD og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) reiðir Ísland sig á samstarf við önnur ríki varðandi gæslu eigin hagsmuna. Hætt er við að slíkt samstarf yrði torsóttara.

Fá ríki eiga jafn mikið undir vel smurðum alþjóðlegum samskiptum og Ísland. Við erum algerlega háð öðrum þjóðum varðandi aðföng og markaðsaðgang. Við þolum illa skerðingu í þeim efnum. Höfum að sama skapi í huga að jafnvel þó þjóðaratkvæðagreiðsla um ICESAVE leiði af sér höfnun laganna, þá munu himnarnir ekki hrynja strax, heldur verður það hægt og mis-kvalafullt ferli.

Margir vísa til þess að við síðustu höfnun ICESAVE-laga hafi ekki orðið neinar hörmungar. Það er laukrétt. En fyrir því eru líka ákveðnar skýringar. Í fyrsta lagi naut Ísland ákveðnar samúðar og í öðru lagi þá lá fyrir að því er virtist einbeittur vilji stjórnar, stjórnarandstöðu og Forseta til að ljúka málinu með samningum. Það keypti Íslandi ákveðin grið. Því verður líkast til ekki að heilsa nú þar sem allir virðast jú sammála um það, bæði stuðningsmenn og andstæðingar núverandi ICESAVE-laga, að samningaleiðin er fullreynd.

Þetta er mitt kalda mat og eflaust munu einhverjir vilja kalla þetta hræðsluáróður. Kannski þeir hinir sömu og byggja grundvöll heimilisbókhaldsins á því að bráðum skili lottóvinningur sér í hús.

Miði er jú möguleiki...!

laugardagur, 5. febrúar 2011

Tónlistarlegur ágreiningur!

Það er gott að eiga sér áhugamál.

Mitt er músik.

Nýtti tímann á meðan að ég var heima í janúar og fór í hljóðver og tókum upp tvö lög og eru þau tengd hér fyrir neðan.

Það fyrra bet titilinn Edge of Sanity og samdi ég það undir lok dvalar minnar í Afganistan:


Það seinna kallast What You Want og var tjaslað saman í stofunni heima fyrir 2-3 árum eftir að aðrir fjölskyldumeðlimir voru löngu gengnir til náða:

Endilega hlustið...!

föstudagur, 4. febrúar 2011

Diplómatahláturinn

Það eru rétt rúm fimmtán ár síðan ég hóf störf í Utanríkisþjónustu Íslands. Varð diplómat. Ýmislegt þurfti maður að læra og að mörgu varð maður vitni. Sumt athyglisverðara en annað.

Ég man t.d. vel eftir því snemma á mínum ferli þegar ég var eitt sinn gestur í hádegisverði í ráðherrabústaðnum. Hádegisverðurinn var til heiðurs erlendum gesti frá mikilsvirtri Alþjóðastofnun. Ég hafði gegnt hlutverki einskonar fylgdarmanns þess gests þar sem hann fór á milli funda í ráðuneytum og stofnunum.

Aðrir gestir hins vegar í þessum hádegisverði voru aðallega hátt settir íslenskir embættismenn og pólitískir samherjar gestgjafans. Greinilegt var að gestgjafinn undi sér vel í þessum hópi og reytti af sér brandara og sagði gamansögur.

Á íslensku.

Hinn erlendi gestur sat sem von var á hægri hönd gestgjafans og tók augljóslega lítinn þátt í gríni gestgjafans. Þó kom að því að hann hallaði sér kurteisislega að gestgjafanum til að minna á sig og spurði hvað væri svo skondið.

Gestgjafinn, sem þá hafði nýlokið sögu um Eggert Haukdal, og hvernig hann hefði ekki ætlað að mæta í jarðaför einhvers sveitunga síns, þar sem sá myndi augljóslega ekki mæta í jarðarför Eggerts, tók sig þá til við að þýða þessa skemmtisögu fyrir gestinum. Skemmst er frá því að segja að þýðingin fór fyrir ofan garð og neðan, enda sögur af Eggerti Haukdal í eðli sínu svo séríslenskar, eða öllu heldur sérrangæskar, að þær verða ekki þýddar á erlend tungumál.

Gesturinn, þrautþjálfaður diplómat til margra ára, missti hins vegar ekki úr takt. Þegar honum var ljóst að frekari og betri útskýring fengist ekki á því hvað hefði verið svona fyndið hóf hann að hlægja hátt og innilega að meintu gríni gestgjafans. Og gestgjafinn hló. Og gestirnir hlógu.

Og ég brosti mínu breiðasta, því ég hafði, ungur diplómatinn, orðið vitni að magnaðri diplómasíu og beitingu nýrrar tækni í alþjóða samskiptum. Ég hafði orðið vitni að diplómatahlátrinum.

Af hverju rifja ég þetta upp hér og nú? Jú, í leiðara Morgunblaðsins nú fyrr í vikunni, undir yfirskriftinni "Embættismennska í molum" veittist leiðarahöfundur þar að einum kollega mínum í Utanríkisþjónustu Íslands fyrir þær skoðanir og afstöðu sem sá ágæti embættismaður hafði haldið á lofti í krafti hlutverks síns sem aðalsamningamaður Íslands í afvötnunarviðræðunum við Evrópusambandið.

Leiðarahöfundur var augljóslega ekki sáttur við það sem embættismaðurinn hafði að segja, enda samrýmdist það ekki skoðunum leiðarahöfundar.

Það er svo sem gott og vel, en leiðarahöfundur féll í þá gryfju að veitast að embættismanninum persónulega og að starfsheiðri hans. Það var ómaklegt. Embættismenn þurfa nefilega að geta ratað þann gullna meðalveg, sem leiðarahöfundi ætti að vera vel kunnugt, að blanda ekki saman sínum persónulegu skoðunum og því sem þeir segja í krafti embættis síns.

Varla er hægt að hugsa sér pólitískt gildishlaðnara embætti í Utanríkisþjónustunni í dag en einmitt að vera aðalsamningamaður í viðræðum við ESB. Sá sem því hlutverki gegnir talar fyrir hönd stjórnvalda. Hans prívat skoðanir hafa ekkert rúm í þeirri rullu. Hafi leiðarahöfundur eitthvað við málflutning hans að athuga á sú gagnrýni að beinast að stjórnvöldum, að embættinu sem slíku, en ekki að persónu eða starfsheiðri embættismannsins. Nema ef um hefði verið að ræða augljósa handvömm eða vanrækslu í starfi, en ekki var um það að ræða.

Embættismenn eru hins vegar ekki múlbundnir, né sviptir rétti sínum til skoðana eða lýðræðislegrar þátttöku í stjórnmálum. Það er hins vegar fín lína sem verður að dansa eftir. Afstaða embættismanns sem vinnur með beinum hætti í pólitískt mikilvægum málum eins og ESB- og makrílviðræðum verður þannig út á við að fylgja þeirri meginlínu sem pólitískt hefur verið tekin ákvörðun um. Afstaða embættismanns inn á við, þ.e. þegar deilt er og rætt um hvaða afstöðu á að taka og hver stefnan eigi að vera, getur hins vegar verið hver sú sem samviska hans og fagleg afstaða býður honum.

En þegar niðurstaða liggur fyrir og honum er gert að tjá sig fyrir hönd síns embættis og í nafni hins pólitíska boðvalds, þá er embættismanninum skylt að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið.

Þess vegna er persónugering gagnrýni af því tagi sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins setur fram, m.a. með fullyrðingum um embættismenn sem "skeyta ekki um skömm né heiður" ómakleg.

Í þeim tilvikum sem leiðarahöfundur vísar til er sá embættismaður að tala fyrir hönd embættis síns. Hans perónulegu og prívat skoðanir koma málinu ekki við. Gagnrýnin ætti því að taka mið af því og beinast að því sem sagt var, en ekki hver sagði.

Þó ekkert bendi til að svo hafi verið í þessu tilviki, enda samanber það sem áður sagði málinu óviðkomandi, er rétt að muna að embættismenn þurfa stundum starfs síns vegna að segja og gera ýmislegt sem þeir persónulega geta borið misjafnar tilfinningar til eða haft á mismunandi skoðanir.

Og stundum þurfa þeir að beita fyrir sig diplómatahlátrinum!