föstudagur, 4. febrúar 2011

Diplómatahláturinn

Það eru rétt rúm fimmtán ár síðan ég hóf störf í Utanríkisþjónustu Íslands. Varð diplómat. Ýmislegt þurfti maður að læra og að mörgu varð maður vitni. Sumt athyglisverðara en annað.

Ég man t.d. vel eftir því snemma á mínum ferli þegar ég var eitt sinn gestur í hádegisverði í ráðherrabústaðnum. Hádegisverðurinn var til heiðurs erlendum gesti frá mikilsvirtri Alþjóðastofnun. Ég hafði gegnt hlutverki einskonar fylgdarmanns þess gests þar sem hann fór á milli funda í ráðuneytum og stofnunum.

Aðrir gestir hins vegar í þessum hádegisverði voru aðallega hátt settir íslenskir embættismenn og pólitískir samherjar gestgjafans. Greinilegt var að gestgjafinn undi sér vel í þessum hópi og reytti af sér brandara og sagði gamansögur.

Á íslensku.

Hinn erlendi gestur sat sem von var á hægri hönd gestgjafans og tók augljóslega lítinn þátt í gríni gestgjafans. Þó kom að því að hann hallaði sér kurteisislega að gestgjafanum til að minna á sig og spurði hvað væri svo skondið.

Gestgjafinn, sem þá hafði nýlokið sögu um Eggert Haukdal, og hvernig hann hefði ekki ætlað að mæta í jarðaför einhvers sveitunga síns, þar sem sá myndi augljóslega ekki mæta í jarðarför Eggerts, tók sig þá til við að þýða þessa skemmtisögu fyrir gestinum. Skemmst er frá því að segja að þýðingin fór fyrir ofan garð og neðan, enda sögur af Eggerti Haukdal í eðli sínu svo séríslenskar, eða öllu heldur sérrangæskar, að þær verða ekki þýddar á erlend tungumál.

Gesturinn, þrautþjálfaður diplómat til margra ára, missti hins vegar ekki úr takt. Þegar honum var ljóst að frekari og betri útskýring fengist ekki á því hvað hefði verið svona fyndið hóf hann að hlægja hátt og innilega að meintu gríni gestgjafans. Og gestgjafinn hló. Og gestirnir hlógu.

Og ég brosti mínu breiðasta, því ég hafði, ungur diplómatinn, orðið vitni að magnaðri diplómasíu og beitingu nýrrar tækni í alþjóða samskiptum. Ég hafði orðið vitni að diplómatahlátrinum.

Af hverju rifja ég þetta upp hér og nú? Jú, í leiðara Morgunblaðsins nú fyrr í vikunni, undir yfirskriftinni "Embættismennska í molum" veittist leiðarahöfundur þar að einum kollega mínum í Utanríkisþjónustu Íslands fyrir þær skoðanir og afstöðu sem sá ágæti embættismaður hafði haldið á lofti í krafti hlutverks síns sem aðalsamningamaður Íslands í afvötnunarviðræðunum við Evrópusambandið.

Leiðarahöfundur var augljóslega ekki sáttur við það sem embættismaðurinn hafði að segja, enda samrýmdist það ekki skoðunum leiðarahöfundar.

Það er svo sem gott og vel, en leiðarahöfundur féll í þá gryfju að veitast að embættismanninum persónulega og að starfsheiðri hans. Það var ómaklegt. Embættismenn þurfa nefilega að geta ratað þann gullna meðalveg, sem leiðarahöfundi ætti að vera vel kunnugt, að blanda ekki saman sínum persónulegu skoðunum og því sem þeir segja í krafti embættis síns.

Varla er hægt að hugsa sér pólitískt gildishlaðnara embætti í Utanríkisþjónustunni í dag en einmitt að vera aðalsamningamaður í viðræðum við ESB. Sá sem því hlutverki gegnir talar fyrir hönd stjórnvalda. Hans prívat skoðanir hafa ekkert rúm í þeirri rullu. Hafi leiðarahöfundur eitthvað við málflutning hans að athuga á sú gagnrýni að beinast að stjórnvöldum, að embættinu sem slíku, en ekki að persónu eða starfsheiðri embættismannsins. Nema ef um hefði verið að ræða augljósa handvömm eða vanrækslu í starfi, en ekki var um það að ræða.

Embættismenn eru hins vegar ekki múlbundnir, né sviptir rétti sínum til skoðana eða lýðræðislegrar þátttöku í stjórnmálum. Það er hins vegar fín lína sem verður að dansa eftir. Afstaða embættismanns sem vinnur með beinum hætti í pólitískt mikilvægum málum eins og ESB- og makrílviðræðum verður þannig út á við að fylgja þeirri meginlínu sem pólitískt hefur verið tekin ákvörðun um. Afstaða embættismanns inn á við, þ.e. þegar deilt er og rætt um hvaða afstöðu á að taka og hver stefnan eigi að vera, getur hins vegar verið hver sú sem samviska hans og fagleg afstaða býður honum.

En þegar niðurstaða liggur fyrir og honum er gert að tjá sig fyrir hönd síns embættis og í nafni hins pólitíska boðvalds, þá er embættismanninum skylt að fylgja þeirri stefnu sem mörkuð hefur verið.

Þess vegna er persónugering gagnrýni af því tagi sem leiðarahöfundur Morgunblaðsins setur fram, m.a. með fullyrðingum um embættismenn sem "skeyta ekki um skömm né heiður" ómakleg.

Í þeim tilvikum sem leiðarahöfundur vísar til er sá embættismaður að tala fyrir hönd embættis síns. Hans perónulegu og prívat skoðanir koma málinu ekki við. Gagnrýnin ætti því að taka mið af því og beinast að því sem sagt var, en ekki hver sagði.

Þó ekkert bendi til að svo hafi verið í þessu tilviki, enda samanber það sem áður sagði málinu óviðkomandi, er rétt að muna að embættismenn þurfa stundum starfs síns vegna að segja og gera ýmislegt sem þeir persónulega geta borið misjafnar tilfinningar til eða haft á mismunandi skoðanir.

Og stundum þurfa þeir að beita fyrir sig diplómatahlátrinum!

1 ummæli:

  1. Athyglisverð skrif og margt rétt sagt um eðli embættismennsku. Hitt er svo annað mál, að embættismönnum hættir mjög oft ( oftast ) til að hlaupa í skjól embættis síns eða ráðherra síns þegar hvessir eða gefur á bátinn. Lendi embættismaður í mótbyr á almennum vettvangi er oftast raunin að segja sem svo. " Ég er bara að vinna það sem ég fæ borgað fyrir, skoðanir mínar geta verið allt aðrar, ekki blanda mér í deilurnar". Stjórnmálamenn me vikt eru á hinn bóginn eins og Friðrik ætti að vita "stríðsmenn" sem vanir eru að þurfa að standa einir á vígvellinum undir kúlnahríð andstæðinganna svo notað sé líkingamál. Stjórnmálmönnum hættir því oft til að líta niður á og gera stólpagrín að embættismönnum sem þeir kalla í sínum hópi nöfnum eins og "hræddir hérar" og "huglaust fólk að bíða eftir að komast á eftirlaun". Stjórnmálamenn hafa sagt mér að fátt sé leiðinlegra og ómerkilegra en að þurfa að funda með erlendum embættismönnum úr alþjóðastofnunum. Frá slíkum stofnunum komi aldrei annað fólk en embættismenn sem hafi verið löngu uppþornaðir í heimalandi sínu áður en þeim var parkerað í alþjóðlegri stofnun. Já það er nú það. kv HH

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.