sunnudagur, 18. maí 2008

Alþjóðabærinn Akranes

Á heimasíðu Akraneskaupstaðar segir að mannlíf sé þar með miklum blóma. M.a. segir þar eftirfarandi:

"Á Akranesi er einstaklega fjölskylduvænt og öruggt umhverfi þar sem áhersla er lögð á mikla og vandaða þjónustu við íbúa. Öflugt atvinnulíf sem býður upp á örugg störf á margvíslegum vettvangi, ásamt húsnæði á góðu verði, hefur orðið til þess að sífellt fleiri kjósa að búa á Akranesi. Menntun skiptir miklu máli og á Akranesi eru menntastofnanir í hæsta gæðaflokki... Á Akranesi er mikið og öflugt íþróttastarf og aðstaða til íþróttaiðkunar með því besta sem þekkist á Íslandi."

Á öðrum stað á sömu heimasíðu er greint frá því að skagamenn eru að uppruna upp til hópa afkomendur innflytjenda, eða, eins og þar segir: ” Skagamenn eru af írskum uppruna og það fer ekkert á milli mála. Þeir láta sér fátt fyrir brjósti brenna, eru lífsglaðir og skemmtilegir heim að sækja og miklir baráttujaxlar.”

Þessi ágæta heimasíða er sett fram á ensku, pólsku, þýsku, ensku, og litháísku, auk íslensku.

Hér á skaganum býr fjöldi innflytjenda sem hafa samlagast vel og eru fyrirmyndarborgarar.

Það skýtur því skökku við að Akranes sé að verða frægur bær að endemum fyrir útlendingaóþol og það algerlega óverðskuldað.

Viðbrögð varabæjarfulltrúa Frjálslyndaflokksins við væntanlegri komu flóttamanna af palestínskum uppruna hafa verið algerlega úr takti við tilefnið.

Ég get ekki varist þeirri tilfinningu að varabæjarfulltrúinn feli fordóma í garð útlendinga bak við meinta umhyggju fyrir bæjarsjóði og félagsmálakerfi kaupstaðarins. Ef svo, þá endurspeglar það siðblindu og ógeðspólitík sem ég efast um að þorri Akurnesinga vilji kannast við.

Eitt af vandamálum varabæjarfulltrúans er það að sporin hræða hvað varðar hans afstöðu til útlendinga almennt, en á meðan hann sat á þingi varð hann jú uppvís að því að höfða til hinna lægstu hvata og ala á óþarfa útlendingaótta. Þess vegna er erfitt að horfa á athugasemdir hans með öðrum gleraugum en þeim að um lítt dulda fordóma sé að ræða.

Ofstopi bæjarfulltrúans í garð síns fyrrum félaga, nú fyrrum bæjarfulltrúa frjálslyndra, er heldur ekki til að vekja traust. Eftirfarandi orð varabæjarfulltrúans endurspegla megna mann- og kvennfyrirlitningu:

”Sjaldan launar kálfurinn ofeldið. Karen var í fyrsta sæti hjá F-listanum á Akranesi við bæjarstjórnarkosningar fyrir tveimur árum. Hún var það fyrir mín orð. Við vorum góður hópum sem bjó til framboðslista og við skelltum okkur í bæjarstjórnarslaginn. Þetta var og er gott lið - með örfáum undantekningum sem eru Karen og Helga systir hennar. Sennilega er ekki ofmælt að ég hafi verið potturinn og pannan á bak við það framboð. Hin voru öll algerlega óreynd í pólitík. Ég kenndi þeim og leiðbeindi. Á framboðsfundum var það ég sem hélt ræðurnar. Karen Jónsdóttir hefur aldrei geta haldið skammlausa ræðu eða skifað pólitíska grein. En ég taldi rétt að hafa hana í fyrsta sæti. Gefa ungri konu tækifæri og allt það....”

Það sem ég þekki til bæjarmála á Akranesi tel ég líklegt að þetta flóttamannamál hafi einfaldlega verið dropinn sem fyllti mælinn hjá nú fyrrverandi bæjarfulltrúa Frjálslyndaflokksins, Karen Jónsdóttur, og hjá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins sömuleiðis. Það að vinna með varabæjarfulltrúanum hafi einfaldlega verið orðið þeim um megn.

Segir það líka sína sögu að núverandi minnihluti hefur engan áhuga á að vinna með téðum varabæjarfulltrúa, þó svo færi að hann kæmist tímabundið í bæjarstjórn í forföllum Karenar Jónsdóttur. Minnihlutinn hefur að mínu viti engan áhuga á að fella pólitískar keilur í þeim félagsskap.

Akraneskaupstaður og akurnesingar hafa hingað til tekið vel á móti aðfluttum, útlendum sem innlendum. Þolinmæði þeirra, þrautsegja, umburðarlyndi og gestrisni á sér engin takmörk.

Akurnesingar munu því, þegar á hólminn er komið, taka vel á móti okkar minnstu bræðrum og systrum úr hópi alþjóðlegra flóttamanna.

20 ummæli:

  1. Þetta er náttúrulega makalaus pistill hjá Framsóknarmanninum en hafa verður auðvitað í huga að höfundur hans starfar hjá utanríkisráðuneyti Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur.

    SvaraEyða
  2. Ekki starfa ég í utanríkisráðuneyti Ingibjargar Sólrúnar né öðrum utanríkisráðuneytum ef út í það er farið en lýsi ánægju minni með þennan góða pistil Friðriks Jónssonar.

    SvaraEyða
  3. Góður pistill.

    Magnús Þór er greinilega rökþrota. Hann beitir þekktri rökvillu til að reyna að gera lítið úr pistlinum.

    Gott að hafa menn eins og Magnús: víti til varnaðar.

    SvaraEyða
  4. Góður pistill.
    Gott að heyra líka jákvæða hluti um Akranesinga í þessari umræðu, umræða síðustu daga held ég að hafi gefið ranga mynd af almenningsálitinu þar, eða það vona ég amk.

    Sjálf er ég ekki starfsmaður neins ráðuneytis né stjórnmálaflokks, heldur námsmaður og innflytjandi í Danmörku, ekki það að það skipti neinu máli.

    SvaraEyða
  5. Þetta er líka tímamótayfirlýsing frá formanni Framsóknarfélagsins á Akranesi, sérstaklega það sem hann segir um mig og mína persónu, samstarf í framtíðinni og svo framvegis. Gaman væri að vita hvort hann tali nú ekki örugglega fyrir hönd félaga sinna?

    Framsóknarflokkurinn beið geysilegt afhroð á Akranesi í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Hann heldur áfram á þeirri braut, þökk sé formanni Framsóknarfélags Akraness.

    SvaraEyða
  6. Gaman að Magnús hefur ekkert efnislega við pistilinn að athuga.

    SvaraEyða
  7. Hef nóg við hann að athuga en ef ég ætti að fara að gera það þá færi of langur tími í það sem ég má ekki sjá af vegna anna.

    Þetta skriferí formanns Framsóknarflokksins á Akranesi dæmir sig sjálft og verður geymt - en ekki gleymt.

    SvaraEyða
  8. Takk fyrir Góðan Pistil. Mér er ljúfara að trúa því að viðhorfin í þessum pistli sé í anda þorra Skagamanna en það sem kemur frá Magnúsi Þór Hafsteinssyni.

    En auðvitað reynir Magnús Þór að gera Friðrik tortryggilegan og vegur að honum með atgeirnum breiða eins og hann gerir við alla ofan af Skaga sem standa í gegn honum.

    Og alveg makalaust að Magnús skuli hafa þorið til að agnúast í fólki yfir því að hafa skoðanir á "honum og hans persónu" miðað við svívirðingarnar sem hafa komið frá honum í garð annarra undanfarna daga.

    SvaraEyða
  9. Finnst þér það sniðugt Magnús, svona í ljósi þess að þú ert búin að vera að kvarta yfir ómálefnalegri umræðu seinustu daga, að koma með jafn innihaldsrýr og ómerkileg innlegg og þú gerir hér?

    SvaraEyða
  10. Gaman er að lesa athugasemdir "JÁ-kórs" síðuskrifara.

    Ykkur kæmi eflaust á óvart ef þið vissuð hve mikinn stuðining Magnús hefur hérna á Skaganum.

    Kemur eflaust í ljós þegar undirskriftirnar verða taldar, ég taldi tugi undirskrifta, aðeins á einni bensínstöð. Og það fyrsta daginn.

    Ekki gera síðan fólki upp skoðanir, þetta rasistatal er orðið þreytandi, þótt fólk tali í kringum það eins og í þessum pistli.

    Aldrei kysi ég framsóknarflokkinn hérna á Akranesi, svo virðist sem bæjarbúar séu á sama máli.

    SvaraEyða
  11. Magnúsi finnst greinilega að aðrar reglur eigi að gilda um hann sjálfan en þá sem hann gagnrýnir.

    Þetta er held ég hárrétt greining hjá Friðiriki, aðrir bæjarfulltrúar vilja fara í þetta verkefni og auðvitað er ekki hægt að vera með formann félagsmálanráðs í harðri andstöðu þegar bretta þarf upp ermar til að allt gangi vel.

    Held að orð Magnúsar sjáfs um fyrri félaga sína hafi meiri fælingamátt um framtíðar samstarf skrif Friðriks hér. Og eins og staðan er nú er ég viss um að allar aðrar stjórnmálafylkingar á Akranesi hafi ekki nokkurn áhuga á samstarfi við Frjálslynda.

    Það gleður mig að sjá Akurnesinga tjá sig með skýrum hættu um þetta mál. Magnús hefur svert það góða orð sem af bænum fer og það mun örugglega taka mörg ár að bæta þann skaða sem hann hefur unnið á ímynd bæjarins.

    SvaraEyða
  12. Hafi einhverjir unnið skaða á einhverju þá eru það þeir bæjarstjórnarmenn og bæjarstjóri á Akranesi sem ætla nú að keyra í gegn mjög umdeilda ákvörðun þvert á vilja mjög margra bæjarbúa.

    Bæjarstjórnarmenn og bæjarstjóri sem leggjast hundflöt fyrir ríkisvaldinu og skeyta hvorki um skömm né heiður.

    Þetta gera þau með opnum huga skellandi skollaeyrum við ótal varnaðarröddum sem þeim hafa borist undanfarnar vikur og ekki síst nú á síðustu dögum.

    Og málinu er hvergi lokið - baráttan heldur áfram.

    SvaraEyða
  13. Þessi samantekt finnst mér einstaklega góð. Bæti við: Vonandi verða undirskriftalistarnir birtir opinberlega.

    SvaraEyða
  14. "Vonandi verða undirskriftarlistarnir birtir opinberlega", segir Hlynur Þór Magnússon.

    Hvers vegna Hlynur Þór?

    Er það til að þú og aðrir getið þá lagt heiðvirða borgara í einelti með upphrópunum um að þetta séu vondar manneskjur af því að þær vilja verja velferðarkerfið og skólakerfið í bænum sínum og átelja slæman undirbúning og flausturgang í þessu máli?

    Hvað ætlar þú að gera við listana ef fólk fer í undirskriftarsöfnun?

    Hver veitir þér rétt til að vera með svona hótanir undir rós í garð Akurnesinga?

    Þú ættir að skammast þín.

    SvaraEyða
  15. Magnús slakaðu á! Afhverju ætti Hlynur að skammast sín? Er þetta ekki opinber undirskriftasöfnun? Hefur fólkið sem skrifar undir eitthvað að fela?
    Annars varpaði ég fram spurningu til´þín á blogginu mínu. Þætti vænt um að þú myndir svara.
    Hafrun Kristjánsdóttir

    SvaraEyða
  16. Hafrún Kristjánsdóttir.

    Það er nú ekki beinlínis í framarlega í minni forgangsröð að svara manneskju sem birtir það í fyrirsögn á einu mest lesna vefsvæði landsins að það fólk sem tekur undir vel rökstuddar skoðanir mínar í þessu máli sé fífl.

    Undir þennan hatt þinn falla meðal annars fjölmargir íbúar Akraness - langtum fleiri en þig grunar.

    En það er náttúrulega áhugavert að sjá þekkta Sjálfstæðiskonu lýsa þessari skoðun sinni á almennum borgurum þessa lands.

    Velti því fyrir mér hversu margir Sjálfstæðismenn á Akranesi eru sammála þér í þessum málum. Þeir hljóta að vera allnokkrir - að minnsta kosti ætla bæjarfulltrúar flokksins að samþykkja móttöku 60 Íraka hingað og kemur fyrri hópurinn í sumarlok.

    SvaraEyða
  17. Það er svo fyndið að Magnús segir alltaf að allt sem hann segir eða gerir sé mjög vandað. Hann segir skoðanir sínar vera mjög vel rökstuddar og er alltaf að segja að greinargerðin hans fræga sé frábær. Hann er búinn að hamra á þessu svo mikið að hann trúir því sjálfur.

    SvaraEyða
  18. Magnús, þú mættir endilega benda á það hvar Hafrún segir að þeir sem séu sammála þér í þessu máli séu fífl. Hún er að vísa til þess að þér virðist finnast allir í kringum þig vera fífl, þ.e. þeir sem ekki eru jábræður þínir.

    SvaraEyða
  19. Nú var bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins að greiða því atkvæði að bæjaryfirvöld taki við hópi flóttamanna. Ég veit um góða handfylli af fólki á Akranesi sem alltaf hefur kosið Framsókn en munu nú aldrei, aldrei krossa við B aftur í sveitarstjórnarkosningum á Skaganum.

    SvaraEyða
  20. Já, skagamenn eru heppnir að eiga að jafn öflugan bæjarfulltrúa og Guðmund Pál. Staðfastur, traustur, laus við tilgerð og hefur hagsmuni bæjarbúa ávallt að leiðarljósi. Við framsóknarmenn undirbúum af krafti jarðveginn fyrir öfluga sókn í næstu bæjarstjórnarkosningum að tveimur árum liðnum.

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.