laugardagur, 10. maí 2008

Bankana burt!

Viðtal Frankfurter Allgemeine Zeitung við Arnór Sighvatsson, aðahagfræðing Seðlabanka Íslands er athyglisverð lesning. Viðtalið í heild sinni má finna á heimasíðu FAZ og er þýskan ekki þyngri en svo að hver sá sem hefur meðal menntaskólabakgrunn í málinu ætti vel að geta stautað sig í gegnum það.

Í gær virtist þorri fréttaflutnings af málinu byggja á frétt af viðtalinu á ensku fenginni frá Reuters. Aðalfréttavinkillinn var sú skoðun aðalhagfræðingsins að upptaka Evru myndi stuðla að stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Ýmislegt annað var þarna hins vegar fréttnæmt, t.d. þegar aðalhagfræðingurinn segir að stærð bankanna í hlutfalli við íslenskt efnahagslíf valdi verulegum vanda og gefur í raun í skyn að betra væri að hér á landi væru frekar dótturfélög erlendra banka, en ekki höfuðstöðvar íslenskra banka.

(Í Fréttablaðinu í morgun er frétt af viðtalinu sem byggir á þýsku útgáfunni.)

Í viðtalinu segir aðalhagfræðingurinn, í svari við spurningunni “Der rasch gewachsene, sehr große Finanzsektor ist ein weiteres Risiko für Ihr Land?” (Hinn hrað-vaxni, griðarstóri fjármálageiri er viðbótar áhætta fyrir land yðar?): “Ja. Ich wäre sehr viel beruhigter, wenn wir einen Finanzsektor wie Luxemburg hätten.” (Já ég væri mun rórri ef við værum með fjármálageira eins Lúxemborg).

“Wieso das?” (Hvernig þá?) spyr blaðamaður.

“Die haben zwar auch große Banken, aber einen Großteil der Branche machen Tochtergesellschaften internationaler Banken aus. Bei uns haben wir große Banken aus Island, die aber die meisten ihrer Geschäfte im Ausland machen. Unsere Banken haben damit keinen „lender of last resort“ in den Währungen, in denen sie arbeiten.”
(Þeir [Lúxemborgarar]eru einnig með stóra banka, en stærstur hluti geirans byggir á dótturfyrirtækjum erlendra banka. Hjá okkur eru stórir íslenskir bankar sem eru með stærstan hluta umsvifa sinna erlendis. Bankar okkar hafa þannig engan þrautalánveitanda í þeim gjaldmiðlum sem þeir starfa.)

Blaðið spyr stuttu síðar: “Sind die Banken somit eine Gefahr für Island?” (Eru bankarnir þá hættulegir fyrir Ísland?) og því svarar aðalhagfræðingurinn:
”Es sorgt für enorme Probleme, einen im Verhältnis zur gesamten Volkswirtschaft derart großen Finanzsektor zu haben. Deswegen sind die Risikobewertungen für Island als Land und auch für die Banken enorm gestiegen. Neben den Risiken hat es aber auch Vorteile gebracht: die Banken sind große Arbeitgeber und eifrige Steuerzahler.” (Það skapar meiriháttar vandamál, í hlutfalli við heildarhagkerfið að vera með svona stóran fjármálageira. Þess vegna hefur áhættuálagið á Ísland sem land og einnig fyrir bankana aukist svo mjög. Áhættan hefur hins vegar einnig haft kosti í för með sér: bankarnir hafa marga í vinnu og greiða glaðbeittir skatta sína.)

Athyglisvert.

Varla er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að bankarnir séu í reynd meira böl en bót fyrir íslenska hagkerfið og betra væri að þeir færu eitthvað annað, en héldu hins vegar útibúum hér. Hugsanlega hefur aðalhagfræðingurinn þó líka haft í huga að gott væri að erlendir bankar léku meira hlutverk í íslensku fjármálakerfi og opnuðu útibú hér á landi.

Viðtalið er allt frekar óheppilegt, þó tæpast verði aðalhagfræðingurinn sakaður um beinar rangfærslur. Tilvitnunin í hann um að við séum á miklu hættusvæði ” Wir bewegen uns auf sehr gefährlichem Terrain” kemur t.d. sem upphafið af svari við spurningu/athugasemd blaðamanns FAZ ” Die Leute gehen schon auf die Straße und protestieren” (Almenningur eru farinn út á götur til mótmæla) og er þannig engan veginn ljóst að þarna sé hann að vísa sérstaklega til ástands á alþjóðamörkuðum.

Ummælin um það að upptaka Evru myndi skapa hér stöðugleika og sú fullyrðing aðalhagfræðings að krónan sé uppspretta óstöðugleika (”Quelle für Instabilität”) eru síðan ansi sérstök í ljósi þess að í þessu viðtali var hann að tala í krafti starfs síns, en ekki sem óháður hagfræðingur úti í bæ. Þetta er hins vegar sjálfskapaður vandi Seðlabankans þar sem hagfræðingar hans stunda það reglulega að skrifa greinar og gefa álit þar sem tekið er fram neðanmáls að skoðanir viðkomandi séu hans eigin og endurspegli ekki endilega viðhorf Seðlabankans. Í viðtali af þessu tagi er engin slík neðanmálsgrein.

Þetta er jafnframt í annað sinn á stuttum tíma sem einn ”fagmanna” bankans er með óheppilegt innslag í erlendum fjölmiðli. Eiríkur Guðnason, einn seðlabankastjóra, var einnig óheppin í orðavali í viðtali við danska viðskiptablaðið Börsen fyrir skömmu síðan.

Það er spurning hvort ekki sé rétt að þeir í seðlabankanum láti lögfræðinginn sjá alfarið um almannatengslin? A.m.k. hvað varðar erlendu pressuna.

4 ummæli:

  1. Þetta er bara enn eitt dæmi um þann hroðalega 'unprofessionalisma' sem þrífst í Seðlabankanum. Þeir virðast ekki ráða við athyglina frá erlendum blaðamönnum.
    IG

    SvaraEyða
  2. Arnór hefur áður lýst því yfir að evran væri heppilegri en krónan fyrir íslenskt efnahagslíf. Svolítið sérstakt að aðalhagfræðingur íslenska seðlabankans hafi í raun enga trú á krónunni.

    Hagfræði kratanna í seðlabankanum (verðbólgumarkmið er ekki peningastjórn að hætti frjálhyggjunnar) gengur aðalega út á að hafa stjórn á "væntingum", væntingar verða að veruleika segja þeir. Spurning hvort væntingar hagfræðingsins um framtíð krónunnar séu ekki að verða að veruleika í dag.

    SvaraEyða
  3. Góður pistill Friðrik!

    SvaraEyða
  4. Fyrst að þú telur heppilegra að segja ósatt, væri ekki nauðsynlegt að samræma framburðinn? Ef á að halda áfram að ljúga að þjóðinni og heiminum að allt sé í himnalagi og þetta sé hluti af alþjóðlegu vandamáli, þá þurfum við öll að halda áfram að cóa með fyllibyttunum í útrásinni

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.