laugardagur, 26. apríl 2008

Dómsdagur nú?

Ég horfði áðan með öðru auganu á svissnesku heimildarmyndina A Crude Awaking: The Oil Crisis. Í stuttu máli eru skilaboð myndarinnar þau að olían er að verða búin og innan skamms verðum við öll farin að keyra um á Amish-hestvögnum.

Flugið verður munaður hinna fáu ríku.

Myndin er þokkalega vel gerð, búin að fá haug af verðlaunum á kvikmyndahátíðum og af einhverjum nefnd (henni til hróss) “The other Inconvenient Truth.”

Sjálfum þótti mér hún falla í sömu gryfju og mynd Al Gore að vera allt of einhliða. Hreinlega algerlega einhliða. Bjarta hliðin er þó sú að ef við tökum þessar tvær saman að þá þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af hlýnun jarðar. Ef allt er satt og rétt í Crude Awakening er sá vandi sjálfleystur þar sem olían er að verða búin hvort eð er!

Kolefnahagkerfið er komið að endimörkum og ekkert nema hrun framundan skv. boðskap myndarinnar. Tíminn er hlaupinn frá okkur og tæknigeta mannsins er ekki nægileg til að bjarga okkur á þeim stutta tíma sem er til stefnu.

Þ.a. lítið á víst að gefa fyrir tækniþróun á sviði annarra orkugjafa eða þróun á sviði lífeldsneytis.

Þróunin er hins vegar mjög athyglisverð á því sviði. Sífellt er víst að verða fjölbreyttara fóður sem nota má til framleiðslu lífeldsneytis, eins og sjá má t.d. af þessari frétt frá Danmörku þar sem nýlega var opnuð svokölluð annarrar kynslóðar lífeldsneytisverksmiðja.

Hér eru tenglar á eldri fréttir á National Geographic, annars vegar um framleiðslu lífeldsneytis í Svíþjóð og hins vegar á slíkri framleiðslu úr hundaskít í San Franscisco.

Framleiðsla lífeldsneytis úr dýrafitu vekur hins vegar óneitanlega upp ákveðnar siðferðilegar spurningar. Það er eitt að nota dýraúrgang og hræ til slíkrar framleiðslu, en ég get ekki varist þeirri hugsun að í þeim efnum eigi eftir að koma upp Soylent Green vinkill á endanum.

En aftur að Crude Awakening. Hún vekur mann vissulega til umhugsunar, en af því að hún er þetta einhliða missir hún marks. Þeir eru full margir Malthus-arnir og virðast yfirleitt alltaf hafa rangt fyrir sér á endanum.

Ætli dómsdegi verði ekki frestað enn um sinn?

1 ummæli:

 1. Mér finnst gaman að sjá að einhver hefur tekið eftir þessari mynd, því að mér fannst hún mjög athyglisverð.

  Ég er ekki sammála þér að hún sé jafn einfeldnisleg og mynd Al Gore. Vissulega er dregin upp ansi dökk mynd, en ekki fráleit ef að maður hugsar dæmið aðeins til enda.

  Þegar grannt er skoðað er hægt að líta til síðustu tvöhundruð ára í sögu mannkyns sem tíma olíunnar, olíualdar. Alveg ótrúlegir hlutir hafa gerst á þeim tíma og alveg rétt athugað hjá þeim sem gerðu myndina að ekki hefur fundist neitt enn sem getur leyst þennan stórkostlega orkugjafa af hólmi.
  Eitt er þó nokkuð ljóst og það er að þörfin fyrir eitthvað slíkt er svo sannarlega fyrir hendi.

  Það sem mér fannst miklu betra við þessa mynd en mynd Gores var að það var ekki sami messíaníski blærinn yfir henni. Þetta rúllar allt saman einhvern veginn hvernig sem er, en hvað viljum við gera í því?

  Spurningunni fannst mér varpað upp sem praktískri þarna, ekki sem etískri. Þetta er ekki spurningin um að vera svona ofsalega vondur og eyðileggja "jörðina okkar" (our planet), heldur eyða og spenna svo fáránlega að við endum uppi með allt niður um okkur í tómu tjóni á endanum, alveg hissa á því að það var ekki hægt að eyða hugsunarlaust, endalaust.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.