sunnudagur, 17. maí 2009

Ríkið skuldar sjálfu sér

Skýrsla fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn er athyglisverð lesning. Þar kemur meðal annars fram að heildarskuldir ríkissjóðs á þessu ári eru áætlaðar 1485 milljarðar króna, eða tæp 103% af vergri landsframleiðslu.

Hluti af þessum 1485 milljörðum er 307,3 milljarða skuld ríkissjóðs við Seðlabanka Íslands, en um áramótin keypti ríkissjóður með skuldabréfi verðlaus skuldabréf smærri lánastofnanna sem Seðlabankinn hafði tekið sem andlag í endurhverfum viðskiptum við viðkomandi stofnanir. Sagt var frá þessum gerningi í fréttatilkynningu fjármálaráðuneytisins frá 12. janúar síðastliðinn.

Í allt voru þetta kröfur upp á 345 milljarða sem framseldar voru ríkissjóði gegn skuldabréfi til fimm ára að upphæð 270 milljarðar, verðtryggt með 2,5% vöxtum.

Væntanlega kúlulán, þ.a. að lánið ásamt verðbótum og vöxtum greiðist í einu lagi að fimm árum liðnum.

Nema ákveðið verði að afskrifa þessa skuld.

Sem mönnum ætti að vera í lófa lagið þar sem ríkissjóður og Seðlabankinn eru í sjálfu sér sitthvor hliðin á sama peningnum.

Skuldabréfaútgáfan var í reynd ekkert annað en bókhaldsfiff. Ef ríkið hefði ekki keypt "skuldirnar" að Seðlabankanum, hefði Seðlabankinn setið uppi með "tap" á bókunum sem hefði gert hann tæknilega gjaldþrota.

En er þetta tap raunverulegt?

Ríkið skuldar Seðlabankanum, sem er í eigu ríkisins. Ríkið skuldar þ.a.l. sjálfu sér þessa peninga.

Og er í lófa lagið að afskrifa skuldina.

Tæknilega myndi það flokkast undir peningaprentun, en hvað er að því? Þessi peningur er kominn og farinn út úr kerfinu. Afskrift þessarar skuldar hefði engin áhrif á hvorki krónu né gengi, nema ef vera kynni jákvæð þar sem skuldastaða ríkissjóðs myndi batna strax um rúm tuttugu prósent og einnig drægi úr bókfærðum vaxtakostnaði, sem aftur drægi úr niðurskurðar- og sköttunarþörf.

Í þessu ljósi er auk þess athyglisvert að velta því fyrir sér að peningaprentun virðist af markaði álitin ásættanleg þegar markaðurinn sjálfur stendur fyrir henni, svo sem í gegnum hlutabréfa- og fasteignaverðbólur, en meira um það síðar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.