fimmtudagur, 28. maí 2009

Déjà vu all over again!

Eins og merkur stjórnmálamaður sagði...

...ég get ekki endurtekið annað en ég hef áður sagt!

Þar síðasta ríkisstjórn gladdi okkur í jólamánuðinum með sambærilegum skattahækkunum og verið er að keyra í gegnum þingið í dag. Af því tilefni skrifaði ég pistilinn "Skattahækkanasullumbull".

Þar segir meðal annars:

Hækkun annarra gjalda, óbeinna skatta eins og bensíngjalds, áfengisgjalds o.þ.h. mun að því er virðist skv. athugasemdum við frumvörpin að baki þeirra leiða til aukinna tekna fyrir ríkissjóð upp á u.þ.b. 3,6 milljarða. Alþýðusamband Íslands telur að verlagshækkunaráhrif þessa verði á bilinu 0,4 – 0,5% sem leiði til hækkunar á verðtryggðum skuldbindingum landsmanna upp á 6,7 milljarða, eða álíka mikið og 1% tekjuskattshækkun.

Þeir 6,7 milljarðar renna hins vegar ekki í ríkissjóð heldur til banka og lífeyrissjóða til að bæta þeim verðbótaþáttinn. Heimilin finna hins vegar á endanum jafn mikið fyrir þessu og skattahækkun.

Í árferði sem þessu hefði ríkisstjórnin átt að gera allt annað en að hækka þau gjöld sem fara beint til hækkunar á vísitölu neysluverðs. Nóg er nú samt.

Mun hreinlega hefði verið að hækka tekjuskattinn meira, og já, setja sérstakan hátekjuskatt. Kalla hefði mátt þessar tekjuskattshækkanir kreppuskatt og eðlilegt að hafa á þeim sólarlagsákvæði, t.d. að þær giltu til þriggja ára. Endurnýjun, eða framlenging, þessara sérstöku tekjuskattshækkana myndu þannig þurfa ákvörðun Alþingis.

Tekjuskattshækkun upp á 4 %, kreppuskattur, hefði verið sjálfsagður, og skipta hefði mátt honum til jafns á milli ríkis og sveitarfélaga. Á móti hefði mátt hækka persónuafsláttinn örlítið til að vega á móti áhrifum tekjuskattshækkunarinnar á lægstu launin...

Skattahækkun af þessu tagi hefði verið hreinlegri, einfaldari og gegnsærri en þetta skattahækkanasullumbull...

Allt það sama á við í tilfelli þeirra skattahækkana sem nú standa til. Verðtryggingaráhrifin kostar heimilin a.m.k. helmingi meira en ríkið mun fá í auknar skatttekjur. Það á að vera metnaðarmál að vinna gegn verðbólgu með öllum ráðum og því á að beita skattahækkunum þannig að gegnsæi, skilvirkni og hagræðið sé sem mest. Hækkun tekjuskatts er sú leið, það væri nær að halda sig við hana og ganga hana frekar röskar, en sleppa hjáleiðum.

2 ummæli:

 1. Andri Thorstensen29. maí 2009 kl. 01:59

  Var það ekki Yogi Berra sem sagði þetta?

  En sammála, tekjuskattshækkun hefði verið illskárri. Svosem þolanlegt að borga meira fyrir áfengi og bensín en verðbólguáhrifin eru slæm!

  Ríkisstjórninni er samt smá vorkunn því það er víst erfitt að hækka tekjuskatt og/eða lækka persónuafslátt á miðju ári.

  SvaraEyða
 2. Ríkisstjórnin má ekki hækka skattprósentuna á tekjuskatt á miðju fjárlagaári svo það var ekki inn í myndinni. Hver veit hvað gerist við næstu fjárlög, kannski kemur þessu hækkun á tekjuskatt þar líka ofan á allt saman?

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.