sunnudagur, 24. maí 2009

Hver var kröfuhafinn?

Í ágætri úttekt á pressan.is í fyrradag rakti Ólafur Arnarson það sem í reynd varð tæknilegt gjaldþrot Seðlabanka Íslands á síðasta ári. Gjaldþrot sem bankanum var víst bjargað frá með kaupum ríkisins á verðlausum skuldabréfum sem Seðlabankinn hafði tekið sem veð á móti lánum til íslenskra fjármálastofnanna.

Í frétt á pressan.is í gær er síðan rætt við Jón Steinsson hagfræðing, sem tekur undir flest það sem kemur fram í úttekt Ólafs. Báðir eru þeir á því að hér sé á ferðinni stærsti einstaki skellurinn sem íslenskir skattgreiðendur verða fyrir – það að borga þetta klúður seðlabankans sem ríkið tók yfir með skuldabréfi upp á 270 milljarða til fimm ára á 2,5% verðtryggðum vöxtum.

Stærri skellur en ICESAVE. Tvö- til fimmfalt stærri.

Það sem hins vegar vantar í úttekt Ólafs og ekki er fylgt eftir í frétt pressan.is þegar rætt er við Jón Steinsson er hins vegar að upplýsa hvort hið tæknilega gjaldþrot, og skuldabagginn sem því fylgir, er raunverulegt.

Því hvergi hefur komið fram hver var kröfuhafinn á þessari bókfærðu skuld seðlabankans.

Hvergi kemur fram með hvaða hætti seðlabankinn fékk það fjármagn sem lánað var áfram til íslenskra fjármálastofnanna með veðum í nú verðlausum pappírum.

Ekki er annað að sjá en að þar hafi einfaldlega hinar stafrænu peningaprentvélar bankans verið settar í gang.

Seðlabanki Íslands hafi sem sagt tekið lán hjá sjálfum sér til að lána áfram til fjármálastofnananna.

Seðlabankinn varð þannig vissulega "tæknilega" gjaldþrota, og hvað? Í miðju hruni banka- og fjármálakerfis heillar þjóðar, til hvers var verið að gera stórmál úr sýndarskuld seðlabankans við sjálfan sig? Vegna þess að þá er mikilvægast að virða reglur um tvöfalt bókhald?

Sjálfur er ég hér augljóslega farin að endurtaka sjálfan mig, samanber pistil frá því í síðustu viku, en hagsmunirnir eru þess eðlis að það er vert að vekja á því máls aftur og aftur, að minnsta kosti þar einhver sýnir fram á annað, að ríkið skuldar sjálfu sér þessa peninga.

Og er í lófa lagið að afskrifa skuldina.5 ummæli:

 1. Ríkið þurfti að auka eigið fé Seðlabankans með 375 ma.kr. framlagi misminni mig ekki. Þar með var hið opinbera í raun þrautalánveitandinn (ekki Seðlabankinn) því Seðlabankinn fór á hausinn. Slíkt framlag kemur fram sem skuld (eða lægri peningalegar eignir raunar) hjá hinu opinbera og hefur því áhrif á nettó eignastöðu ríkisins.

  Þess fyrir utan getur Seðlabankinn, ekki frekar en aðrir, afskrifað skuld heldur eingöngu eignir. "Skuldin" í þessu tilviki eru (stafrænu) peningarnir sem hann bjó til svo hann gæti lánað gömlu bönkunum. "Eignin" var hins vegar lánið sjálft, þ.e. jafnhá skuldinni sem hann bjó til á sjálfan sig. Eignin ónýttist þegar bankarnir fóru á hausinn, það gerði skuldin hins vegar ekki. Þess vegna er hægara sagt en gert að afskrifa skuldina með því að þurrka út nokkrar tölur í tölvunni. Peningarnir eru jú ennþá einhvers staðar.

  SvaraEyða
 2. Og hvar eru peningarnir?

  SvaraEyða
 3. Bendi þér á þessa yfirferð hjá samtökum atvinnulífsins þar segir m.a.
  "Ríkissjóður gaf í byrjun árs 2009 út skuldabréf að fjárhæð 270 milljarða kr. vegna yfirtöku óvarinna tryggingabréfa vegna veð- og daglána Seðlabankans til innlendra fjármálastofnana að fjárhæð 345 milljarða kr. Tryggingabréfin eru tilkomin vegna lánafyrirgreiðslu sem Seðlabankinn veitti fjármálafyrirtækjum í samræmi við hlutverk hans sem seðlabanka. Ljóst er að verulegt tap verður vegna þessara lánveitinga sem hefði rýrt eigið fé Seðlabankans umfram það sem hann hefði getað staðið undir. Inngrip ríkissjóðs eru til þess að leysa þennan vanda. Seðlabankinn tekur á sig hluta af tapi vegna lánanna og kemur það fram í 75 milljarða kr. lækkun á eigin fé bankans. Það sem á vantar bætir ríkissjóður með útgáfu fyrrnefnds skuldabréfs til Seðlabankans að fjárhæð 270 milljarða kr. og tekur á móti yfir tryggingabréfin. Gert er ráð fyrir að um 50-80 milljarðar innheimtist af tryggingabréfunum og að tap ríkissjóðs vegna bréfanna nemi 220 milljörðum kr."
  Sjá nánar hér http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/4398/

  SvaraEyða
 4. Friðrik: Seðlabankinn prentar peninga. Hann þarf því ekki að fá þá neins staðar frá til þess að geta lánað þá út.

  Eins og kom fram í viðtali við mig í Speglinum 1. apríl síðastliðinn og einnig í kvöldfréttum RUV sama dag þá er þetta hreint tap fyrir þjóðarbúið:

  Ef Seðlabankinn hefði sinnt hlutverki sínu sem skyldi hefði hann tekið útlánasöfn bankanna sem veð með hæfilegu veðhlutfalli. Þá hefði Seðlabankinn eignast þessar innlendu eignir bankanna þegar þeir hrundu. Og þá hefðum við ekki þurft að greiða erlendu kröfuhöfum bankanna mörg hundruð milljarða til þess að kaupa þessar eignir út úr gömlu bönkunum og inn í þá nýju. Þetta hefði því sparað okkur Íslendinga nokkur hundruð milljarða króna

  Þegar við borgum skattana okkar í framtíðinni getum við því þakkað vanhæfni Davíðs og félaga í Seðlabankanum fyrir drúgan skerf þeirra.

  SvaraEyða
 5. Það hefði vissulega verið betra að fá eitthvað upp í skuldirnar gagnvart Seðlabankanum, en það er samt ekki hægt að líkja töpuðum ISK Seðlabankans (nú skuld ríkisins við Seðlabankann) við aðrar skuldir ríkisins. Kostnaður af hinu fyrrnefnda kemur bara út í verðbólgu og þá peninga þarf ekki að borga.
  bor

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.