sunnudagur, 7. júní 2009

Icesave: pólitík og lögfræði

Í þeirri miklu gagnrýni sem fram er komin vegna samkomulags íslenskra, breskra og hollenskra stjórnvalda er töluvert horft til lögfræðiálits Stefáns Más Stefánssonar, lagaprófessors, og Lárusar Blöndal, hæstaréttarlögmanns. Í einni af greinum sínum, "Í hvaða liði eru stjórnvöld?", sem birt var í Morgunblaðinu þann 3. mars síðastliðinn, lýsa þeir skoðun sinni (lögfræðiáliti) á eftirfarandi hátt:

"Skoðun okkar er í stuttu máli sú að við höfum fullnægt skuldbindingum okkar með því að koma á fót innstæðutryggingakerfi sem hefði dugað undir öllum venjulegum kringumstæðum. Í tilskipun ESB er hvergi kveðið á um ríkari skyldur en að koma á fót slíku kerfi... Einhverjir kunna að segja að það sé markmið laganna að innstæðueigendum sé a.m.k. tryggt ákveðið lágmark sem nefnt er í tilskipuninni og í lögunum, hvað sem á gengi og að aðildarríkin beri ábyrgð á því að markmiðin náist. Þessi sjónarmið koma hins vegar hvorki fram í tilskipuninni né lögunum og því verður ekki á þeim byggt."

Hér er sterkt tekið til orða, en mikilvægt er að hafa í huga að þó þessi afstaða þeirra félaga sé sem slík ágætis lögfræðiálit, og stutt ágætis rökum, þá er það ekki eina lögfræðiálitið um þetta mál. Staðreyndin er sú að túlkun þeirra félaga er, eins og fram hefur komið, í andstöðu við opinbera lagatúlkun allra aðildarríkja Evrópusambandsins, auk Noregs. Án efa er það svo að töluverður fjöldi lagaspekinga bæði íslensku stjórnsýslunnar og innan akademíunnar tekur undir með túlkun þessara ríkja, þó án efa einhverjir taki undir túlkun Stefáns og Lárusar.

Í deilumálum sem þessum hvílir sú ríka ábyrgð og skylda á herðum stjórnvalda, í okkar tilfelli fyrst og fremst á ríkisstjórninni, að meta þau rök og þær áætlanir um samningsaðferðir sem hægt er að nýta í stöðunni. Ekki efa ég að túlkunartillögur Stefáns og Lárusar hafi verið lesnar gaumgæfilega, þó þeim hafi á endanum verið ýtt til hliðar.

Þar kemur án efa ýmislegt til.

Í fyrsta lagi geri ég ráð fyrir að réttmæti túlkunar þeirra á bókstaf laganna hafi verið vegin og metin. Í þeim efnum hefur ekki einungis verið horft á bókstafinn, heldur einnig verið t.d. horft til með hvaða hætti lögin hafa verið framkvæmd, hvert markmið löggjafans var með setningu þeirra og hvernig framkvæmdin hefur verið í sambærilegum tilfellum. Þessi breiðari aðferð við túlkun á laganna hljóðan er sérstaklega mikilvæg þegar kemur að framkvæmd laga er byggja á alþjóðlegum skuldbindingum. Hún er að auki meginreglan í almennri lögfræði, enda væri tæpast þörf fyrir dómstóla, lagaprófessora eða hæstaréttarlögmenn, ef lögin væri þess eðlis að túlkun þeirra væri ætíð óumdeild!

Í öðru lagi var íslenska ríkið þegar í framkvæmdinni búið að sýna á spilin hvað varðaði sína eigin túlkun á lögunum. Þrátt fyrir bankahrun skyldu allar innlendar innistæður útibúa bankanna tryggðar að fullu, og gott betur, þar sem ákveðið var að tryggja heildarupphæð innistæðna en ekki aðeins að því hámarki sem kveðið var á um í lögum um innistæðutryggingar. Eins og frægt er orðið var hins vegar ákveðið að undanskilja erlend útibú bankanna og var það kjarni Icesave-deilunnar.

Í þriðja lagi var án efa horft til heildarhagsmuna Íslands í málinu. Sú gagnrýni sem fram er komin hefur í mörgu ekki greint málið út frá stærra samhengi. Í sérhverjum félagskap gilda ákveðnar reglur og félagi sem ekki fellur sig við þær hefur þannig tæpast annan kost en að yfirgefa félagið.

Margir hrópa nú að með Icesave-samkomulaginu sé hugsanleg framtíðaraðild Íslands að Evrópusambandinu dýru verði keypt. Það er mikil þröngsýni. Með Icesave-samkomulaginu er framtíðaraðild Íslands að alþjóðasamfélaginu ákveðnu verði keypt. Hversu dýru nákvæmlega á eftir að koma í ljós, en ákveðin mörk hafa verið sett.

Það hefur legið ljóst fyrir frá því fyrir bankahrunið að ef Ísland vildi fá hjálp frá sínum nágrannaþjóðum þá varð Ísland að spila eftir þeim leikreglum sem aðrir spiluðu eftir. Ísland hafði ekki þann kost að fríspila. Upphafslán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var ekki samþykkt fyrr en fyrir lá að Ísland myndi semja um Icesave. Frágangur lána annarra þjóða, þar með talið okkar norrænu vinaþjóða, hefur beðið eftir því að niðurstaða kæmi í Icesave. Niðurstaða sem gat ekki orðið önnur en sú að Ísland gengist við sinni ábyrgð hvað varðar lágmarksinnistæðutryggingar.

Það er fullkomlega óábyrgt að tala með þeim hætti að trúverðugleiki innistæðutryggingakerfisins á Evrópska efnahagssvæðinu kæmi okkur ekki við eftir hrunið. Að fara dómstólaleiðina með þetta mál, byggt á túlkun Stefáns og Lárusar, hefði þýtt að á meðan málið hefði verið rakið fyrir dómstóli, að því gefnu að þjóðirnar hefðu getað komið sér saman um einhvern dómstól og gefið honum lögsögu í málinu, hefði öll efnahagsaðstoð beðið á meðan. (Efnahagsaðstoð sem líklega hefði af mörgum þjóðum verið dregin til baka, enda vel hægt að líta á þá aðgerð íslenskra stjórnvalda að skapa meiriháttar réttaróvissu um innistæðutryggingarkerfið sem jafngildi meiriháttar efnahagslegs hryðjuverks, til viðbótar við arðrán útrásarvíkinga og "þjófnaði" á innistæðum evrópskra innistæðueigenda í íslenskum bankaútbúum erlendis.)

Úrlausn þessa máls fyrir dómstóli hefði án efa tekið 3 til 8 ár. Á meðan, engin erlend lán, ekkert uppgjör á gömlu bönkunum, engin frágangur gagnvart kröfuhöfum vegna nýju bankanna, engar nýjar erlendar fjárfestingar og að öllum líkindum algert hrun þess sem þó eftir lifir af íslenska hagkerfinu.

Engin vissa hefði verið um hagfellda niðurstöðu í því dómsmáli. Ef eitthvað, hefðu sigurlíkur verið mjög takmarkaðar, svo ekki sé meira sagt, í ljósi algers sammælis allra annarra aðildarþjóða að regluvirki um evrópskar innistæðutryggingar og í ljósi þeirrar túlkunarframkvæmdar sem íslensk stjórnvöld höfðu þegar haft við.

Að hafna samkomulagi um Icesave og fylgja ráðum Stefáns og Lárusar hefði verið, því miður, það alversta sem íslensk stjórnvöld hefðu gert í núverandi stöðu.

Þó vissulega sé erfitt að kyngja samkomulaginu um Icesave, þá er það engu að síður illskásti kosturinn í stöðunni.

Samningstaða varðandi öll önnur mál er auðveldari í kjölfarið.

Höfum í huga að samkomulag um Icesave er gífurlegt hagsmunamál stærstu kröfuhafanna í gömlu bankanna. Þeir eru meira og minna stórir evrópskir bankar sem áttu verulegra hagsmuna að gæta að ekki kæmi upp réttaróvissa vegna evrópskra innistæðutrygginga. Vegna þessa munu þeir að öllum líkindum fella sig við þá breytingu í forgangi kröfuhafa sem varð með neyðarlögunum, og Icesave-samkomulagið virðist í reynd staðfesta.

Icesave-samkomulagið er þannig ein af forsendum þess að hægt verði að klára samninga við kröfuhafa. (Þar af leiðir má færa rök fyrir því að Icesave-samkomulagið sé alger forsenda þess að hægt verði að fara 20% leiðréttingarleið Framsóknarflokksins!)

Icesave-samkomulagið greiðir, eins og áður segir, fyrir öðrum þeim lánum sem beðið hafa frágangs, þ.m.t. við Norðurlöndin. Hvað þau lán varðar skulu menn ekki láta sér koma á óvart að þau verði á sambærilegum, eða jafnvel hærri vaxtakjörum, en lán breta og hollendinga vegna Icesave.

Að síðustu eilítið þankastrik. Í fyrrnefndri grein Stefáns og Lárusar er fullyrt að ríkisábyrgð verði einungis til með þrennum hætti: "...á grundvelli laga, þar sem ábyrgð ríkisins er skýrt sett fram, á grundvelli ábyrgðaryfirlýsinga með heimild í lögum eða með því að ríkið verður bótaskylt vegna aðgerða sinna eða aðgerðaleysis á grundvelli sakar." Lögfræðilega er þetta líkast til rétt hjá þeim, en praktískt og pólitískt er lífið eilítið flóknara. Ljóst er að sú ábyrgð sem ákveðin var síðastliðið haust um að tryggja allar innlendar innistæður að fullu, án þaks, var ekki í samræmi við þessa fullyrðingu þeirra félaga. Að sama skapi dettur engum í hug hvað varðar atvinnuleysistryggingasjóð, að þegar hann tæmist í haust, að annað verði uppi á teningnum en að ríkið bætti í sjóðinn það sem upp á mun vanta, þrátt fyrir að engar lagalegar kvaðir séu um slíkt.

Lögfræði er eitt ( og í raun svo margt), en pólitík er annað.

Í Icesave-málinu lágu fyrir ýmis lagaleg efni og misvísandi lagatúlkanir.

Endanleg ákvörðun um niðurstöðuna er hins vegar fyrst og fremst pólitísk – og tekin út frá breiðum heildarhagsmunum, en ekki þröngum lagatúlkunum.

10 ummæli:

 1. Mikil kennslustund í skildagatíð og viðtengingarhætti. Það er fínt að fá lögfræðiálit frá leikmönnum, en betra frá lærðum.

  Björg Thorarensen, forseti lagadeildar HÍ, sagði á ráðstefnu í Háskóla Íslands að tilskipunin um innistæðurnar gæti ekki gert aðildarríki, ríkisstjórnir ábyrgar fyrir innistæðum. Orðrétt sagði hún: „ESB-ríkin eru ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum. Augljóslega hefði málið valdið óróa innan Evrópusambandsríkjanna og vakið athygli allra á því að engar Evrópureglur eru til sem mæla fyrir ríkisábyrgð á bankainnstæðum.“ Síðar heldur hún því fram að það hafi engin lagaleg skylda borið til að taka þessa ábyrgð: „Hvorki eftir Evróputilskipun né öðrum þjóðréttarlegum reglum... Samningar af þessum toga eru á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar. Ekki aðeins í okkar lögum heldur einnig í þjóðaréttinum. Og slíkir samningar eru raunar ógildanlegir.“

  SvaraEyða
 2. Takk aftur fyrir skilmerkilegan pistil.
  Kalt mat.
  Björg Sveinsdóttir

  SvaraEyða
 3. Góð úttekt Friðrik. Ég er algjörlega sammála þér við erum í Catch 22 stöðu í þessum máli.

  Ólafur Ingi

  SvaraEyða
 4. Takk fyrir góðan pistil, þann allra besta sem séð um þetta mál enn sem komið er. Svona lifum við á skrýtnum tímum, á dauða mínum frekar átt von á en að væri sammála Framsóknarmanni :-)

  SvaraEyða
 5. Hinn lögfróði Stefán Már hefði betur bent á þessa áhættu í taka tíð. En hann hefur væntanlega verið upptekinn við að lesa lokaritgerðir í lögfræði og kanna heimildir þeirra....

  SvaraEyða
 6. Sæll Friðrik. Ég er lögfræðingur og ég tel að mat þitt á réttarstöðu landsins rangt í öllum aðalatriðu. Í alþjóðarétti getur sjálfstæð þjóð beitt fyrir sig neyðarrétti ef vegið er að fullveldi hennar. Telji alþjóðadómstólar - alþjóðadómstóllinn í Haag að okkur beri að greiða þetta sem mikill vafi leikur á þá þarf að huga sérstaklega að skuldbindgunni - hversu víðtæk hún er og hvort hún sé svo stór að landið glati við það sjálfstæði sínu og megi því beita fyrir sig neyðarrétti. Þá ollu Bretar okkur margvíslegu tjóni m.a. með því að fella Kaupþing og frysta eigurnar. Gjaldþrotaþjóð verður tæpast dæmd til þess að greiða vexti - það er almenna reglna í gjaldþrotarétti. Þá eru vextir allt of háir í samningum m.v. vexti í Evrópu og svo mikill vafi á umfangi skuldbindinganna vegna gjaldeyrishreyfinga að krónan gæti hrunið í kjölfarið. Að síðustu er ekki útkljáð hvort kröfuhafar muni reyna hnekkja neyðarlögunum en ef þeim tækist þá - þá renna eignir L.Í EKKI TIL GREIÐSLU SKULDARINNAR NÉ ÞÆR GREIÐSLUR SEM KAUPÞING HEFUR GREITT VEGNA KAUPÞING EDGE OG ÞÁ ERU ÞETTA EKKI 400 MILLJARÐAR HELDUR LIKLEGA 1000-1200 MILLJARÐAR ÞANNIG AÐ ÞAÐ ER ALGJÖRT BRJÁLAÐI AÐ SEMJA UM ÞETTA NÚ FYRR EN Í FYRSTA LAGI ÞAÐ LIGGUR FYRIR HVORT NEYÐARLÖGIN HALDI.

  SvaraEyða
 7. Ég fíla nafnlausa lögfræðinga... jafn mikið og barnaperra...

  SvaraEyða
 8. Það er merkilegt að flest lögfræðiálitin um innistæðutryggingarnar koma til eftir hrun, ekki fyrir. Opinber lagatúlkun stjórnvalda er hins vegar pólitísk í eðli sínu, ekki júrísk. Það væri nær að líta til lögfræðiálita fyrir hrun, þar sem þau eru ekki lituð pólitískum eða fjárhagslegum hagsmunum. Þar ber hæst skýrslu franska seðlabankans frá 2000 og skýrslu ESB frá í fyrra, þar sem skýrt kemur fram að innistæðutryggingakerfið miðast við að verja hagsmuni innistæðueigenda þegar stöku banki fer óvarlega, ekki þegar heilt fjármálakerfi fer á hliðina.

  (Er rétt skilið að þú viljir mismuna kröfuhöfum enn meir en orðið er, þannig að óræðir hagsmunir stórra evrópskra banka gangi framar en skuldakröfurnar sjálfar, sem ýmsir fleiri eru handhafar að?)

  Hagsmunir ESB kunna að bjóða að hjá þessu sé öllu litið, en þeir hagsmunir fara ekki saman við hagsmuni Íslands. En jafnvel þó svo væri, að hagsmunamatið væri að Íslandi væri billegast að fara þessa leið, þá væri það samt rangt. Það er punkturinn við ríki, að þau standa á réttinum, hvað sem það kostar.

  Þú talar um að þetta sé hluti af kostnaði Íslands við að komast inn í alþjóðasamfélagið góða. Máske, en ég held að það sé orðið of langt síðan þú hefur talað við útlendinga. Orðstír Íslendinga er ónýtur til frambúðar og framhjá því geta þeir ekki keypt sig nokkru verði; þeir þurfa að ávinna sér hann og það er áratugalangt verkefni. Til hvers þá að henda þessum gífurlegu fjármunum út um gluggann og taka áhættu á þjóðargjaldþroti og landauðn?

  Enn furðulegra er þó að lesa þig, stjórnmálafræðinginn og stjórnarerindrekann (í leyfi) jafna því við hryðjuverk að skapa réttaróvissu. Það skapar enginn réttaróvissu, annað hvort er hún til staðar eða ekki og það er í þágu réttarins sjálfs og réttarríkisins að úr henni sé greitt. Þess vegna veigra æðstu dómstig sér ekki við nokkru máli ef ætla má að það taki á slíku. Eða vilt þú bara una skilningi sektardeildar lögreglunnar á lögunum og aldrei taka til varna? Síst ef þú átt þér vörn eða málsbætur, af því að þá gæti komið í ljós að embættið hefði verið á villigötum?!

  SvaraEyða
 9. Andrés Magnússon sagði: "Orðstír íslendinga er ónýtur til frambúðar og hjá því geta þeir ekki keypt sig nokkru verði; þeir þurfa að ávinna sér hann og það er áratugalangt verkefni. Til hvers þá að henda þessum gífurlegu fjármunum útum gluggann..."

  Þú hlýtur að sjá þversögnina í þessu hjá þér; þetta er fyrsta skrefið í að enduvinna orðstýr þjóðarinnar sem lagður hefur verið í rúst, einsog þú réttilega bendir á. Án þessa yrði ómögulegt að spyrna sér af botninum, m.a. vegna þess að önnur lán mundu ekki koma einsog Friðrik bendir á. Ég hvet menn til að koma sér á jörðina.
  Takk Friðrik fyrir góða pistla og yfirlit
  kv. Sv.U.

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.