sunnudagur, 21. júní 2009

Ríkisstjórn Ronald Reagan

Það er ótrúlegt, en fyrsta "hreina" vinstristjórn lýðveldisins virðist vera íhaldsstjórn af verstu sort.

Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist okkur nú á síðustu dögum og vikum endurspeglar þetta.

Í mestu niðursveiflu sögunnar þar sem öll eftirspurn í hagkerfinu hefur hrunið, fylgir ríkisstjórnin blindandi og gagnrýnislaust tillögum sértrúarsafnaðar í efnahagsmálum sem virðast ráða lögum og lofum annars vegar í Seðlabanka Íslands og hins vegar hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum.

Sértrúarsafnaðar peningahyggjumanna sem blint horfa á niðurstöðutölur klessukeyrðra hagmódela byggðum á sundurtættri tölfræði.

Staða íslenskra efnahagsmála er þannig að öll eftirspurn í hagkerfinu er hrunin. Fyrirtæki og heimili velflest mjatla áfram á sjálfsbjargarhvötinni einni saman.

Við aðstæður sem þessar er tímabundinn halli á rekstri ríkissjóðs ekki það vandamál sem á að vera í forgangi að leysa.

Við þessar aðstæður er halli á ríkissjóði, fjármagnaður fyrst og fremst með lánum frá Seðlabanka Íslands, beinlínis nauðsynlegur á meðan vörn er snúið í sókn.

Halli, sem nýta á til að ýta undir innlenda eftirspurn og koma gangverki hagkerfisins af stað á ný.

Niðurskurður ríkisframkvæmda í þessu árferði er ekki skynsamlegur, þvert á móti, þarf að stórauka þær. Sérstaklega eiga arðbærar stórframkvæmdir eins og Sundabraut og Suðurlandsvegur að vera í algerum forgangi. Setja ætti bæði verkefnin af stað strax á morgun.

Í eftirspurnarkreppu verður að lækka vexti. Sérstaklega verður að færa innlánsvexti niður í núllið til þess að einhver hvati myndist fyrir þó það fjármagn sem er til að verða nýtt til uppbyggingar í atvinnulífinu.

Núverandi ástand er þannig að fjármagnseigandi, hvort sem hann eða hún á milljón eða milljarð, geymir það fé frekar á bankareikning eða í ríkisskuldabréfum, á meðan að sú fjárfesting getur skilað tryggum fimm til fimmtán prósent vöxtum.

Áætlun um að ná hér fram hallalausum ríkisfjárlögum á þremur árum er óraunhæf og beinlínis hættuleg langtíma lífslíkum hagkerfisins.

Samkeppni ríkisins við markaðinn um fjármagn í formi útgáfu ríkisskuldabréfa til að fjármagna hallann eykur á vandann.

Rétt er að hafa í huga að við hrunið síðastliðið haust brunnu upp veruleg verðmæti. Vissulega brunnu þar upp verðmæti sem engin raunveruleg innistæða var fyrir - bólupeningar hlutabréfa- og fasteignamarkaðarins. Hrunið var hins vegar það afgerandi að raunveruleg verðmæti brunnu einnig upp og það þarf að bæta fyrir það innan peningakerfisins með einum eða öðrum hætti.

Ekkert slíkt er verið að gera. Þvert á móti eru meira að segja gerviskuldir gerðar að alvöruskuldum, án þess að nokkur ástæða sé til.

Í stað þess að læra nú af kreppureynslu sögunnar og leita í smiðju Keynes (og Krugman), er einblínt á Friedman og Hayek.

Og hvað varðar niðurskurð í almannaþjónustu og menntun, í smiðju Ronald Reagan.

Öðruvísi mér áður brá!

6 ummæli:

  1. Það ríkir ekki eftirspurnarkreppa á Íslandi. Það ríkir skuldakreppa. Eftirspurnin er til staðar eftir þeim verðmætum sem eru sköpuð í hagkerfinu og væntanlega þarf háa vexti til þess að hvetja til þess að fjármagnseigendur leggi til fé til þess að auka framleiðslugetuna gegnum innlán í bankakerfinu og til þess að fjármagna fjárlagahallan.

    Peningar vaxa ekki á trjám.

    SvaraEyða
  2. Af þeim 17,000 sem eru á atvinnuleysisskrá hversu margir er opinberir starfsmenn? Gaman væri að sjá hlutföllin þarna á milli hin opinbera og annarra starfsétta? Þetta er ein af þessum tabú spurningum í þessu þjóðfélagi

    SvaraEyða
  3. Nei meira segja Friedman myndi segja ríkinu að lækka vexti. Hann var á móti eyðslu ríkisins en var þó fylgjandi því að peningastefna sé notuð til að berjast við kreppu.

    SvaraEyða
  4. "Af þeim 17,000 sem eru á atvinnuleysisskrá hversu margir er opinberir starfsmenn?"

    Þetta er trikkspurning!

    Svarið er enginn.

    Þú gabbar mig ekki svona auðveldlega.

    SvaraEyða
  5. á ríkið sem sé að taka fleiri lán til að spita í að hætti Keynes og fjölga opinberum framkvæmdum? Miðað við æsinginn út af Icesave og vaxtagreiðslum þar þá sé ég ekki skynsemina í því að auka enn frekar á skuldir ríkissjóðs. Ef við ættum hins vegar pening þá væri ég sammála þér en við eigum það ekki og þau kjör sem bjóðast eru dapurleg.

    Ægir

    SvaraEyða
  6. Veistu ekker tum Reagan?

    SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.