fimmtudagur, 23. júlí 2009

ICESAVE: 3 valkostir?

Það þarf ekki að koma á óvart að Hollendingar fari aðeins úr jafnvægi ef þeir telja að Alþingi ætli að fella ICESAVE og niðurstaðan verði sú að Ísland greiði ekki neitt. Það er hins vegar ekki það sem er að fara að gerast, og þarf að koma þeim skilaboðum rækilega á framfæri við bæði hollensk og bresk stjórnvöld, svo og hollenska og breska fjölmiðla.

Ekki er annað að sjá og heyra að nú orðið viðurkenni velflestir íslenska ábyrgð í málinu og nauðsyn þess að semja um niðurstöðu þess. Vandinn er hins vegar sá að ekki ríkir mikið traust á þeirri niðurstöðu sem Alþingi fjallar um þessa dagana.

Hvers vegna er henni ekki treyst? Í fyrsta lagi voru það mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar að hafa einhliða samninganefnd án aðkomu fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Það hefði orðið til að tryggja breiðari pólitíska sátt og efla traust á niðurstöðunni. Í öðru lagi fór öll kynning á samningunum einkar óhöndulega fram, sérstaklega í upphafi. Í þriðja lagi verður ekki framhjá því horft að ýmislegt í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á niðurstöðuna á fyllilega rétt á sér. Sérstaklega á það við um endurskoðunarákvæði samningsins.

Ríkisstjórnin er þess vegna í vanda stödd og hefur í reynd þrjá kosti í stöðunni:

1. Þvinga samþykkt á núverandi samningum og ríkisábyrgð þeim tengdum í gegnum þingið. Í því felst væntanlega mesta pólitíska áhættan þar sem málið mun án efa hvíla eins og mara yfir ríkisstjórninni til frambúðar þar sem vafa og tortryggni vegna samningannahefur ekki verið eytt. Hins vegar, ef í kjölfarið vextir lækka og ef heimtur á verðmætum úr þrotabúi Landsbankans verða með ágætum gæti þessi aðferð borgað sig pólitískt (og efnahagslega) til lengri tíma litið. Það bæri þá í sjálfu sér vott um gríðarlegt traust núverandi stjórnarflokka á óskeikuleika samninganefndarinnar og allra útreikninga sem kynntir hafa verið af hálfu stjórnvalda.

2. Fresta afgreiðslunni fram á haustið og nota tímann sem þannig gefst til þess að annars vegar svara þeirri gagnrýni sem á rétt á sér með málefnalegum hætti, og hins vegar upplýsa Breta og Hollendinga um ástand mála. Kostur gagnvart þeim væri að gera þeim grein fyrir að núverandi samningar fáist ekki samþykktir og það verði að endursemja um þau atriði sem mestur styrr stendur um. Ef þeir fallast á að semja á ný um þau atriði ætti ný samninganefnd, með fulltrúum allra flokka, að taka þátt í þeim endursamningum.

3. Láta ICESAVE falla á þingi og strax óska eftir nýjum samningum, nú með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB og EES sem beina eða óbeina aðila samningunum og að sjálfsögðu með nýrri samninganefnd með fulltrúum allra flokka. Hún þyrfti helst að vera á allra hæsta stigi, þ.e. með beinni þátttöku ráðherra. Skilaboðin væru áfram þau að við viljum standa við skuldbindingar okkar, en með þeim hætti að við ráðum örugglega við þær. Endurskoðunarákvæði verði að vera virk í ljósi óvissrar stöðu okkar efnahagslega.

7 ummæli:

 1. Er þetta ekki sjalfsagt mál? 3!

  SvaraEyða
 2. Ef rikisstjornin a 3 kosti velur hun thann lakasta... i takt vid vinnubrögdin hingad til.

  SvaraEyða
 3. Við fellum IceSlave.
  Það þarf að senda skýr skilaboð um að við erum ekki til umræðu um kúganir og afarkosti sem eru órafjarlægð frá öllu sem að lög og almenn sanngirni mæla fyrir um.

  Það er ljóst að Bretar og Hollendingar sýndu gríðarlega hörku og héldu sínum ítrustu kröfum fram. Við getum ekki sest við samningaborðið með þess konar fólki með yfirlýsingu um að við ætlum að "standa við skuldbindingar okkar". Dómstólar hafa ekki skorið úr um hverjar skuldbindingarnar eru og í raun eru lögin þannig að við eigum ekki að bera ábyrgð á þessu umfram það sem þegar er í Tryggingarsjóði Innistæðueigenda.

  sjá t.d. estheranna.blog.is

  ESB ætti í raun að bera mesta kostnaðinn og við ættum í öllum tilvikum að fá umtalsverðan afslátt af lágmarkinu.

  Við eigum að svara þessum þjóðum í sömu mynt og ekki gefa neitt eftir eða koma með veikari samningsstöðu en við höfum að borðinu.

  SvaraEyða
 4. Ég held að stóra vandamálið sé hversu erfitt verður fyrir Steingrím J. Sigfússon að viðurkenna að hann hafi ekki skipað nógu hæfa samninganefnd. Að þurfa að viðurkenna að idolið hans, allt frá fyrstu dögum hans í pólitík, þ.e. Svavar Gestsson er búinn að koma honum í ómæld vandræði.

  SJS stendur óvenju veikt í flokknum sínum eftir ESB og hann má illa við áfalli sem nær langt út fyrir VG. SJS á erfitt með að fórna Svavari því þá fer æði stór partur af þeim stuðningi sem eftir er í þingmannaliði VG (Svandís og Co).

  SJS hefur að sumu leyti átt auðvelt líf síðustu 18 árin eða svo. Dundað sér í stjórnarandstöðu án þess að þurfa að bera mikla ábyrgð á því hvað hann sagði eða gerði.

  SJS verður að finna sér leið til baka, þó þannig að hann haldi haus. Við skulum vona að leiðin kosti íslenska skattgreiðendur ekki meira fé en nauðsynlegt er.

  Séra Jón

  SvaraEyða
 5. Það er bara þannig að hagsmunir Íslands eru ofar hagsmunum einstaklinga.

  Ég hef fulla trú á því að Steingrímur geri sér grein fyrir því og sé meiri maður á eftir í mínum augum.

  Enginn verður óbarinn biskup!

  SvaraEyða
 6. Ríkisstjórnin mun auðvitað ekki láta fella þetta fyrir sér í þinginu. Blasi ekki við öruggt samþykki, þá verður málinu einfaldlega frestað í lengstu lög.

  Líklega verður ofan á að geyma þetta til haustsins. Þá gæti verið búið að setja fyrirvara sem andstaðan í VG og jafnvel stjórnarandstaðan - a.m.k. að hluta - getur samþykkt. Tími væri þá einnig til að tala við gagnaðilana og hugsanlega áhrifaaðila hjá ESB.

  Einhver þjóðrembuþrungin felling á ríkisábyrgðinni er auðvitað ekki nokkur möguleiki í stöðunni og það bandbrjálaðasta sem hægt væri að gera.

  SvaraEyða
 7. Mér sýnist kostur 2 hafa verið valinn...gb

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.