föstudagur, 24. júlí 2009

Peningaleg endurstilling

Egill Helgason rifjar upp þrjú vond mistök í kjölfar bankahrunsins: björgun Seðlabankans frá gjaldþroti með kaupum ríkissins á verðlausum skuldabréfum sem Seðlabankinn hafði tekið sem veð í endurhverfum viðskiptum (270 milljaðar plús vextir), hlutabjörgun peningamarkaðssjóðanna (200 milljarðar plús), og síðan sá reikningur sem mun falla á Ísland vegna ICESAVE-sukks forráðamanna Landsbankans.

Af þessum þremur er í reynd einungis ICESAVE-reikningurinn sem skiptir okkur raunverulegu máli þar sem hann er skuldbinding í erlendri mynt.

Hin almenna regla hagfræðinnar segir að prentun peninga til að leysa fjárhagsvanda ríkissjóðs sé ekki góð efnahagspólitík. Að öllu jöfnu er það rétt. Viðvarandi peningaprentun án raunverulegrar verðmætasköpunar rýrir verðgildi gjaldmiðilsins og ýtir undir verðbólgu.

Hins vegar ættu málin að horfa öðruvísi við í kjölfar algers hruns hagkerfisins.

Fyrst lítið þankastrik. Hin almenna regla hagfræðinnar hnussar s.s. yfir peningaprentun á vegum ríkisins. Hins vegar fellir hún sig við peningaprentun á vegum prívatsins, enda að öllu jöfnu ætti hún að vera afleiðing athafna sem leiða til raunverulegrar verðmætasköpunnar.

Hér á Íslandi á undangengnum átta árum hefur hins vegar verið stunduð peningaprentun að hálfu prívatsins, og þá með dyggri aðstoð bankakerfisins, sem var sambærileg við verstu tegund peningaprentunar á vegum ríkisins. Fölsuð verðmætasköpun gegn hverri peningar voru prentaðir í reynd. Þannig má með rökum halda því fram að ofan á allt annað svindl, fúsk, sukk og svínarí sem að stór hluti íslensks viðskiptalífs hefur ástundað á undanförnum árum, megi bæta við peningafölsun. Er það ekki annar örugglega glæpur hér á landi sem kallar nokkurn veginn á sjálfvirka tukthúsvist?

Nánari skýring: Venjulegur peningafalsari setur fimmþúsund kall í ljósritunarvél. Íslenskir viðskiptaaðilar, sem sátu beggja vegna borðsins í annars vegar fyrirtækjum sínum og hins vegar í bönkunum, settu af stað fyrirtæki, með krosseignatengslum og píramídastrúktur eignarhaldsfélaga (fyrir utan að manipulera með hlutabréfaverð þeirra í Kauphöllinni) og tóku lán á lán ofan. Bankarnir þeirra sóttu síðan pening í Seðlabankann, sem prentaði peninga í samræmi við eftirspurn gegn því sem hann taldi trygg veð og raunveruleg verðmæti. Nú eða menn plötuðu peninga út úr erlendum lánveitendum byggt á sama trixi. Raunveruleg verðmæti á móti þessari peningaprentun var afskaplega lítil eins og komið hefur í ljós. Auðmenn Íslands lifðu hins vegar hátt, allt þar til kom í ljós í haust að eina sem þeir höfðu verið að gera var að ljósrita fimmþúsundkalla!

Hrunið í haust leiddi þannig ekki einungis af sér hrun bankakerfisins, heldur peningakerfisins í heild sinni. Við höfum hins vegar ekki ennþá horfst í augu við þá staðreynd. Krónan er í augnablikinu hrein gerviverðeining, haldið uppi með gjaldeyrishöftum og hreinni óskhyggju.

Skuld ríkisins við Seðlabankann vegna endurhverfu viðskiptanna er ekki raunveruleg. Hún er bara tölur á blaði og ríkið skuldar þar sjálfu sér. Eða hver skyldi eiga Seðlabankann? Ég hef reyndar fjallað um þetta áður í pistlum, sjá hér og hér, og m.a. bent á þá staðreynd að í þessum endurhverfu viðskiptum vantaði kröfuhafan. Seðlabankinn prentaði þarna peninga til að reyna að bjarga bankakerfinu. Það mistókst. Þessir peningar fóru aldrei raunverulega í umferð, nema rétt í gagnagrunnum Reiknistofu bankanna. Þessi peningaprentun jafgilti því að Seðlabankinn hefði óvart kveikt í nýprentuðu bretti af seðlum. Þá er ekkert annað að gera en að afskrifa það og prenta nýtt.

Sama gildir í reynd með innspýtinguna í peningamarkaðssjóðina og jafnvel núna með þeirri peningaprentun sem mun eiga sér stað með meintri innspýtingu fjármagns upp á hundruðir milljarða inn í nýju bankanna.

Við skulum hafa í huga að í augnablikinu vitum við ekkert um það hvaða penignamagn er í umferð hér á landi, enda hefur Seðlabankinn ekki birt upplýsingar um "M3 peningmagn í umferð" síðan í september á síðasta ári. Hann getur það ekki. Hann veit það ekki.

Það sem hér þarf að gera er að hætta að horfa á vandann í gegnum hin hefðbundnu gleraugu hagfræðinnar. Það verður að fara fram peningaleg endurstilling (Monetary reset) með tilheyrandi afskriftum skulda, sérstaklegra mikils hluta opinberra skulda í innlendri mynt, tímabundnum peningaprentunum og síðan umbreytingu peningaumhverfisins frá rústum þess núverandi yfir í nýtt. Það þýðir m.a. að við hendum núverandi krónu fyrir róða og tökum upp nýjan gjaldmiðil (okkar eigin), t.d. gengistryggðum innan fastra vikmarka.

Höfum í huga að gjaldmiðill gegnir nokkrum hlutverkum, þeirra mikilvægast að vera milliliður í viðskiptum og geymslumiðill verðmæta. Hvorugt þessara hlutverka gegnir krónan með góðu móti í dag, og er þá vægt til orða tekið. Einnig endurspeglar gjaldmiðill undirliggjandi trú á verðmæti þess sem að baki liggur, í okkar tilviki íslenska hagkerfisins. Krónan getur heldur ekki sinnt því hlutverki lengur.

Peningaleg endurstilling verður því að fara fram. Að öðrum kosti framlengjum við að óþörfu stóran hluta af þeim þjáningum sem þjóðin nú þarf að þola.

Mörgum hefur orðið tíðrætt um Þýskaland og ástandið þar í kjölfar Versalasamninganna. Sú umræða endurspeglar oft á tíðum sérvalda sagnfræðiþekkingu, en verðbólgu- og skuldavandi Þýskalands átti sér mun lengri sögu en frá Versalasamningunum. Glórulaus skuldasöfnun Þýskalands átti sér rætur a.m.k. til 1911 þegar farið var m.a. í mikla uppbyggingu hersins og svo jú, fóru þjóðverjar í glórulausa útrás til annarra landa með miklum tilkostnaði, en á endanum lítilli verðmætasköpun!

Lexíuna sem læra má af þjóðverjum er hins vegar frekar að horfa til þegar á endanum þeir tóku sig til og umbyltu peningakerfi sínu á innan við ári um miðjan þriðja áratuginn, fyrst með upptöku rentenmark og síðan reichsmark. Mjög athyglisverð aðgerð sem gekk upp allt þar til að heimskreppan skall á með látum 1929.

3 ummæli:

 1. Glöggur ertu Friðrik og vel skrifaður pistill. Ein spurning: Er það ekki verðtryggingin sem veldur því að endurstilling verður okkur erfið eða ómöguleg? Er hún ekki í raun ígildi gengistryggingar?
  Doddi D

  SvaraEyða
 2. Verðtrygging í þessu samhengi ætti að vera aukaatriði. Það yrði hins vegar ein af þeim ákvörðunum sem yrði að taka þegar farið er í endurstillingu, þ.e. hvort að yfirfærðar skuldbindingar úr gömlu kerfi í nýtt verði verðtryggðar í nýju kerfi.

  SvaraEyða
 3. hljómar ekki heimskulega hjá þér.

  mér finnst þér samt yfirsjást eitt mikilvægt atriði.

  þegar ríkið kom og bjargaði peningamarkaðssjóðunum, þá voru valdir sjóðir og þeim bjargað. þegar farið er í svona aðgerðir ætti eitt yfir alla að ganga. af hverju var jón sem átti pening í glitni skorinn niður með prenntuðum peningum meðan gunna sem átti pening í hliðstæðum sjóði í einvherri annari pengingastofnun heldur en þessum 3, var látin dingla?

  SvaraEyða

Ath: Aðeins meðlimir bloggsins geta birt ummæli.