Tillaga Jóns Steinssonar og Gauta B. Eggertssonar í Morgunblaðinu í morgun er ágætis innlegg í þá umræðu hvernig eigi að leysa skuldavanda heimilanna. Hún er þó langt í frá gallalaus.
Einn stór galli við þessa tillögu er að hún í reynd leysir engan vanda heldur er honum frestað. Lagt er upp með reiknikúnst sem byggir á því að afborganir miðist við greiðslugetu sem hljómar ágætlega. Þetta á að virka þannig að skuldari greiði ákveðna prósentu af ráðstöfunartekjum í hítina, en það sem upp á vantar, miðað við það sem hefði átt að greiða í hefðbundnum afborgunum, færist aftur fyrir.
Þetta er í sjálfu sér lítið annað hlutafrysting lána og lánalenging, en núna með því sem á víst að verða grípandi söluheiti: LÍN-leiðin.
LÍN-leiðin er ágæt svo langt sem hún nær, en hún hefur t.d. gert það að verkum að námslánaskuldirnar gera lítið annað en að vaxa og vaxa. Sjálfur þekki ég dæmi um námslán hjá meðaltekjumanneskju sem stóð í 9,2 milljónum við árslok 2007, en var komið í 10,7 milljónir í árslok 2008. Hækkun á einu ári upp á eina og hálfa milljón takk fyrir. Samt eru vextir umfram verðtryggingu á námslánum smámunir samanborið við þá vexti sem eru á húsnæðislánum.
Margfeldisáhrifin sem verða við þessa aðferðafræði ef henni verður beitt á almenn lán í því verðtryggingar og hávaxtaumhverfi sem við búum í eiga eftir að gera það að verkum að innan fárra ára verða skuldir heimilanna orðnar ógnvekjandi.
Að vísu mun það tæknilega ekki skipta máli svona rétt á meðan skuldarinn dregur andann, en tæknilega gjaldþrota verða ansi margir, og að minnsta kosti öll þau 30 þúsund heimili sem eru með neikvæða eða mjög takmarkaða eiginfjárstöðu í dag.
Með þessari aðferð verður gjaldþrot allra þessara aðila í raun óumflýjanlegt, en væntanlega frestað fram til andláts! Það er þá kannski vonandi að útistandandi skuldir deyi með viðkomandi en flytjist ekki yfir á aðstandendur og afkomendur. Kostnaðinum við þær afskriftir hefur þá hins vegar líka verið velt yfir á framtíðarkynslóðir.
Margfeldisáhrifin eiga líka eftir að búa til lánasöfn í bankakerfinu sem verða óbærileg og óverjandi í efnahagsreikningi bankanna – hin nýju undirmálslán. LÍN-leiðin hjá LÍN gengur nefnilega upp af því að það er opinber sjóður, en mér sýndist Jón og Gauti horfa alveg framhjá þeirri staðreynd.
Þessi gagnrýni mín reyndar kristallar þann viðvarandi vanda sem við munum öll búa við vegna verðtryggingar og krónunnar. Árangur þessarar aðferðafræði, rétt eins og niðurfærsluleiðarinnar, verður skammgóður vermir ef Ísland kemst ekki von bráðar í betra skjól í gjaldmiðilsmálum.
En það er gott hjá Jóni og Gauta að koma með þessa tillögu. Hún á það skilið eins og niðurfærsluleiðin að fá sanngjarna en gagnrýna umræðu. Mér sýnist þó að hún sé frekar réttnefnd vandaveltu-leiðin en LÍN-leiðin.
Ég leyfi mér hins vegar að leggja til að á meðan stóru hugmyndirnar eru ræddar að þá verði að minnsta kosti farið í þá aðgerð að hjálpa heimlinum að einfalda skuldastöðu sína. Húsnæðislán heimilanna standi sér, en önnur lán sameinuð í eitt lán og í því lengt og teygt, jafnvel fryst, þannig að sú greiðslubyrði verði viðráðanleg. Til að greiða fyrir slíkum gjörningi verði stimpilgjaldið afnumið og lánastofnunum meinað að rukka lántökugjald. Það væri ágætis byrjun.
Ég skal viðurkenna að ég sé meira og meira eftir því að hafa látið þig gjalda fyrir ESB afstöðuna í póstkosningunni.
SvaraEyðaÞað þarf fleira fólk eins og þig í Framsókn.
Hárrétt að við þurfum ekki fleiri LÍN-lán.
SvaraEyðaHér er ein skynsamasta leið sem maður hefur séð varðandi skuldaniðurfellingu, The Zingales Plan:
http://economicdisaster.wordpress.com/2009/03/19/the-zingales-plan/
Sæll Friðrik,
SvaraEyðaSkrif þín bera það með sér að þú gerir ekki mikinn greinarmun á neyslu og sparnaði. Þú hefur ekki sérstakan áhuga á að borga að því er virðist þó svo að þér sé gert það kleyft.
Þú virðist telja það eðlilegt að þiggja peninga og nota þá en borga ekki til baka því breytingar í forsendum komu þér óvart.
Það þarf ekki að kenna Íslendingum að þróa frekar tilfinningu sína fyrir lántökum á þennan hátt en svona kenningar falla mörgum í geð sem aldrei hafa getað lagt krónu fyrir.
Það virðist eitthvað fara fyrir brjóstið á þér að innistæðutryggingar séu til, en hefurðu kannski velt fyrir þér afhverju allar vestrænar þjóðir sjá ástæðu til að verja sparnað almennings?
Það er einmitt til þess að menn eins og þú geti fengið lán einhversstaðar. Vandamál Íslendinga í hnotskurn endurspeglast í afstöðu þinni í viðhangandi grein - og það á bæði við um fyrirtæki og einstaklinga.
Suma þyrfti að senda í sveit til að læra - aðra á venjuleg heimili í mið- Evrópu.
Sæll síðasti nafnlaus (08:48)
SvaraEyðaInnistæðutryggingar ná upp að þremur milljónum króna í hverjum banka á eina kennitölu. Ríkið tók meðvitaða ákvörðun um að tryggja ALLT.
Ríkið borgaði peninga inn í peningamarkaðssjóði það var hrein gjöf til sumra frá öllum.
Hvað helduru að fólk á venjulegu heimili í Mið-Evrópu væri búið að gera ef lánin þeirra hefðu hækkað um 20% á ári (og 10% á ári undanfarin ár). Ef heimilið væri franskt væri fólkið búið að hlaða götuvígi, ef það væri þýskt er spurning í hvaða formi reiðin fengi útrás. Þeir hafa átt það til að kjósa menn með róttækar lausnir á verðbólgu og atvinnuleysisvanda.
ps. bændur eru margir hverjir að sökkva í mjög djúpt skuldafen.
Til glöggvunar eru hér útreikningar um hvað það raunverulega þýðir að færa greiðslur aftur fyrir langtímalán.
SvaraEyðaForsendur:
Lán er 10 milljónir.
Vextir eru 5%.
Lánstími er 40 ár.
Verðlag er fast.
Meðalgreiðsla við fast verðlag verður þá 48.220 kr. á mánuði.
Ef mánaðargreiðsla er lækkuð um 20.000 kr. á mánuði næstu 24 mánuði (samtals 480.000) en greiðslur eftir það verða áfram 48.220 kr. á mánuði þarf lánstími að lengjast um 83 mánuði (tæp 7 ár) til að lánið haldi verðgildi sínu gagnvart lánveitanda. Heildargreiðsla eykst við þetta um ríflega fjórar milljónir króna á lánstímanum.
Sé eftirstöðvunum dreift á 40 ára lánstíma hækkar mánaðargreiðsla í tæplega 51 þúsund á mánuði og heildargreiðsla um innan við 1.200 þúsund.
Hrannar Magnússon
Sæll Hrannar,
SvaraEyðaÞetta yfirlit frá þér sýnir einmitt fram á að menn verða að hugsa sig vel um áður en lán er tekið. Kannski væri skynsamlegt fyrir suma að spara fyrst (nokkur ár ef menn geta beðið) og fá svolítið minna lánað. A.m.k. ekki reikna með að aðrir borgi lánið sem þú tókst - sá sem reiknar með að það geti gerst á ekki að fá nein lán.
Tilgangurinn með útreikningunum var einfaldlega að fá upp á borðið hversu víðáttuvitlaust það er að færa tímabundinn vanda aftur fyrir langtímalán. Það er þó skömminni skárra að dreifa á lánstímann.
SvaraEyðaHrannar